Hæstiréttur íslands

Mál nr. 349/1999


Lykilorð

  • Tollalagabrot
  • Tilraun
  • Hlutdeild
  • Upptaka
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 20

 

Fimmtudaginn 20. janúar 2000.

Nr. 349/1999.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Baldvin Breiðfjörð Sigurðssyni

Guðmundi Bjarna Guðmundssyni

Rúnari Þórhallssyni og

(Kristján Stefánsson hrl.)

Ragnari Hreini Ormssyni

(Guðmundur Ágústsson hdl.)

 

Tollalagabrot. Tilraun. Hlutdeild. Upptaka. Skaðabætur.

B, G og RÞ voru ákærðir fyrir að hafa smyglað til landsins samtals 4.053 lítrum af áfengi með flutningaskipinu Goðafossi, en RO var sóttur til saka fyrir hlutdeild í þeim verknaði með því að hafa sem starfsmaður skipafélagsins S látið færa til vörugám með áfenginu svo að B, G og RÞ gætu tekið áfengið úr gáminum áður en til tollafgreiðslu kæmi. Fyrir lá að áfengið hafði fundist í gáminum við skoðun ríkistollstjóra 5. júní 1998 og þá verið fjarlægt, en þess varð vart hinn 8. sama mánaðar að gámurinn hafði verið fluttur á svokallað hlutaútttektarsvæði, sem ætlað var fyrir vörur, sem sætt höfðu tollafgreiðslu. Lagt var til grundvallar að B, G og RÞ hefðu í sameiningu skipulagt og staðið að kaupum áfengisins erlendis og flutningi þess hingað til lands og lagt á ráðin um aðgerðir til að koma áfenginu undan tollafgreiðslu. Hins vegar varð ekki séð að nokkuð hefði gerst áður en áfengið var fjarlægt úr vörugáminum til þess að líta mætti svo á að vörusendingin hefði þá verið komin til tollmeðferðar. Hefði þannig ekki verið reynt hvernig B, G og RÞ myndu gera tollyfirvöldum grein fyrir því sem í gáminum var. Voru þeir því ekki taldir hafa gerst sekir um fullframið brot gegn 1. mgr. 123. gr. tollalaga nr. 55/1987, en gerð refsing fyrir tilraun til brots, sbr. 1. mgr. 125. gr. sömu laga. Talið var að RO hefði ekki getað dulist að leitað væri til hans um tilfærslu gámsins til að standa að ólöglegum innflutningi. Var hann með háttsemi sinni talinn sekur um hlutdeild í tilraun B, G og RÞ. Voru B, G, RÞ og RO dæmdir til fangelsis, en ekki þóttu efni til þess að skilorðsbinda þá refsingu. Þá voru B, G og RÞ dæmdir til þess að greiða sekt til ríkissjóðs samhliða fangelsisrefsingu auk þess sem ákvæði héraðsdóms um upptöku voru staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. júlí 1999 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds. Ákæruvaldið krefst þess að ákærði Ragnar verði sakfelldur samkvæmt ákæru, svo og að refsing allra ákærðu verði þyngd frá því, sem ákveðið var í héraðsdómi, en að staðfest verði ákvæði hans um upptöku og skaðabætur.

Ákærðu Baldvin, Guðmundur og Rúnar krefjast aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að refsing þeirra verði milduð. Þá er þess krafist að skaðabótakröfu verði vísað frá héraðsdómi.

Ákærði Ragnar krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að refsing hans verði milduð.

I.

Í málinu er ákærðu Baldvin, Guðmundi og Rúnari gefið að sök að hafa smyglað til landsins frá Boston í Bandaríkjunum samtals 4.053 lítrum af sterku áfengi, sem hafi komið til Reykjavíkur með flutningaskipinu Goðafossi 3. júní 1998. Ákærði Ragnar er sóttur til saka fyrir hlutdeild í þeim verknaði með því að hafa 8. sama mánaðar veitt öðrum ákærðu liðsinni í verki þegar hann hafi sem starfsmaður Samskipa hf. og að beiðni ákærða Rúnars látið færa vörugám með áfenginu á svokallað hlutaúttektarsvæði við vörugeymslur félagsins í Sundahöfn til þess að aðrir ákærðu gætu þar tekið áfengið úr gáminum áður en til tollafgreiðslu kæmi.

Eins og nánar greinir í héraðsdómi bárust lögreglunni í Reykjavík 29. maí 1998 upplýsingar um fyrrnefnda áfengissendingu, sem væri á vegum ákærðu Baldvins, Guðmundar og Rúnars. Lögreglan í samvinnu við tollstjórann í Reykjavík og ríkistollstjóra lét skoða vörugám, sem áfengið var talið vera í, að kvöldi 5. júní 1998 á athafnasvæði Samskipa hf., en þangað hafði hann verið fluttur rakleitt eftir uppskipun daginn áður. Fannst þá áfengið og var það fjarlægt, en búið aftur um vörugáminn þannig að ekki yrði séð að hann hefði verið opnaður eftir komu hingað til lands. Í kjölfarið var fylgst með gáminum. Þess varð vart hinn 8. sama mánaðar að hann hefði verið fluttur á hlutaúttektarsvæði, sem svo er nefnt, en fyrir liggur í málinu að það sé eingöngu ætlað fyrir gáma með vörum, sem sætt hafa tollafgreiðslu og innflytjandi vill fá afhentar smám saman. Úr gáminum höfðu þá verið teknir trékassar, sem áfengið hafði verið í, en í staðinn sett notuð fiskvinnsluvél, sem átti að vera í honum samkvæmt skilríkjum fyrir sendingunni. Í kjölfarið voru ákærðu handteknir.

II.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður lagt til grundvallar að ákærðu Baldvin, Guðmundur og Rúnar hafi í sameiningu skipulagt og staðið að kaupum áfengisins erlendis og flutningi þess hingað til lands. Verður og að leggja til grundvallar að þeir hafi í sameiningu lagt á ráðin um aðgerðir til að koma áfenginu undan við tollafgreiðslu.

Samkvæmt 1. mgr. 123. gr. tollalaga nr. 55/1987, sem brot þessara ákærðu er í ákæru talið varða við, skoðast það sem ólöglegur innflutningur ef vörur eru fluttar til landsins frá útlöndum eða af tollfrjálsu svæði án þess að tollyfirvöldum sé gerð grein fyrir þeim eða séu þær fjarlægðar úr geymslu fyrir ótollafgreiddar vörur eða teknar til notkunar án heimildar tollyfirvalda. Eins og málið liggur fyrir verður ekki séð að nokkuð hafi gerst áður en áfengið var fjarlægt úr umræddum vörugámi 5. júní 1998 til þess að líta megi svo á að vörusendingin hafi þá verið komin til tollmeðferðar í skilningi 2. mgr. 1. gr. tollalaga. Var þannig ekki enn reynt hvernig ákærðu Baldvin, Guðmundur og Rúnar myndu gera tollyfirvöldum grein fyrir því, sem í gáminum var. Vegna þessa höfðu þeir ekki gerst sekir um fullframið brot gegn 1. mgr. 123. gr. tollalaga á því stigi máls. Þegar vörugámurinn var eftir ráðagerðum þeirra fluttur á svokallaða hlutaúttektarsvæðið 8. júní 1998 og þar með fjarlægður úr geymslu fyrir ótollafgreiddar vörur í skilningi 1. mgr. 123. gr. tollalaga hafði áfengið hins vegar verið fjarlægt úr honum, en við þá tilfærslu gámsins hefði brot þeirra annars verið fullframið. Verður því að líta svo á að ákærðu Baldvin, Guðmundur og Rúnar hafi með háttsemi sinni gerst sekir um tilraun til brots gegn 1. mgr. 123. gr. tollalaga, sbr. 1. mgr. 125. gr. sömu laga, en sú niðurstaða fær samrýmst meginreglu 117. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála þótt háttsemin hafi ekki verið þannig færð til refsiákvæða í ákæru.

III.

Ekki eru efni til að hnekkja því mati héraðsdómara að ósannað sé að leitað hafi verið liðsinnis ákærða Ragnars til innflutnings áfengisins fyrr en eftir að vörugámurinn, sem það var í, var kominn til landsins. Hann stuðlaði hins vegar að því að gámurinn yrði fluttur 8. júní 1998 úr geymslu fyrir ótollafgreiddar vörur og á stað, þar sem aðrir ákærðu gátu tæmt hann án afskipta tollyfirvalda. Hann veitti þannig atbeina til brots annarra ákærðu áður en tilraun þeirra var fullnuð. Ákærða Ragnari gat ekki dulist að leitað væri til hans um tilfærslu gámsins til að standa að ólöglegum innflutningi. Hann hefur og gengist við því að hafa átt í vændum umbun fyrir framlag sitt til verknaðarins. Með þessari hlutdeild í tilraun annarra ákærðu til ólöglegs innflutnings braut ákærði Ragnar gegn 1. mgr. 123. gr., sbr. 1. mgr. og 2. mgr. 125. gr. tollalaga, sbr. einnig 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Svo sem leiðir af áðursögðu bar tilraun annarra ákærðu til ólöglegs innflutnings áfengisins ekki árangur. Verður verknaður ákærða Ragnars ekki refsilaus fyrir þær sakir, en til þess verður hins vegar að líta við ákvörðun refsingar hans, sbr. 2. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga.

IV.

Við ákvörðun refsingar ákærðu Baldvins, Guðmundar og Rúnars verður að taka tillit til þess að um samverknað var að ræða, brot þeirra var rækilega skipulagt og tók til verulegs magns af áfengi. Verður að leggja til grundvallar að þeir hafi ætlað áfengið til sölu hér á landi, enda var magn þess slíkt að fráleitt gat það verið til þeirra eigin nota, svo sem þeir hafa haldið fram. Af sölu þess hefðu þeir getað haft verulegan ávinning. Þá verður jafnframt að horfa sérstaklega til þess að áfengið var flutt til landsins undir yfirskyni vöruinnflutnings með skipi, sem þessir ákærðu tengdust á engan hátt, en til stóð að koma því skipulega fram hjá yfirvöldum og skipta því út fyrir annan varning áður en til tollafgreiðslu kæmi. Að þessu gættu verður litið til ákvæða 1., 6. og 7. töluliðar 1. mgr. og 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga við ákvörðun refsingar. Með vísan til 1. mgr. 124. gr. tollalaga verða ákærðu Baldvin, Guðmundur og Rúnar dæmdir til að sæta fangelsi í 3 mánuði, en í ljósi framangreinds eru ekki efni til að binda þá refsingu skilorði, svo sem gert var í héraðsdómi. Til frádráttar refsivist komi gæsluvarðhald, sem tveir þeir fyrstnefndu sættu við rannsókn málsins. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði tollalaga, sbr. einnig 2. mgr. 49. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum, verður þessum ákærðu jafnframt gerð fésekt. Er hæfilegt að sekt hvers þeirra verði 3.000.000 krónur, en um frest til greiðslu og vararefsingu fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Ákærði Ragnar drýgði brot sitt í skjóli starfs sem verkstjóri hjá Samskipum hf. Verður að horfa sérstaklega til þess að með því notfærði hann sér í trúnaðarstarfi það traust, sem yfirvöld sýna farmflytjendum varðandi gæslu á ótollafgreiddum varningi. Honum hlaut að vera ljóst að með þessum gerðum sínum veitti hann öðrum ákærðu nauðsynlegan atbeina til ólöglegs innflutnings á því, sem vörugámurinn kynni að hafa að geyma. Við ákvörðun refsingar verður því að horfa til sömu ákvæða 70. gr. almennra hegningarlaga og áður er getið, en jafnframt fyrrnefndrar 2. mgr. 22. gr. laganna. Að þessu athuguðu er refsing ákærða Ragnars hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga. Ekki eru efni til að binda þá refsingu skilorði. Með því að ekki hefur verið leitt í ljós hvort eða í hvaða mæli þessi ákærði gat vænst að njóta ávinnings af broti sínu verður honum ekki gerð fésekt samhliða fangelsisrefsingunni.

Eins og getið er í héraðsdómi var við sendingu vörugámsins hingað til lands greint frá því að viðtakandi hans væri Valur Karlsson, til heimilis að Vesturbergi 78 í Reykjavík. Svo sem málið liggur fyrir verður að leggja til grundvallar að hér hafi verið um að ræða tilbúning að fyrirlagi ákærðu Baldvins, Guðmundar og Rúnars til að dylja að þeir væru í reynd viðtakendur sendingarinnar. Að þessu gættu geta Samskip hf. krafið þá um skaðabætur, sem svara til flutningsgjalda af gáminum, en krafa um þau gjöld verður ekki reist á flutningssamningi. Með þessum athugasemdum verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms um bótakröfu Samskipa hf. staðfest með vísan til forsendna hans.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað verða staðfest.

Ákærðu verða dæmdir til að greiða allan áfrýjunarkostnað af málinu, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði Baldvin Breiðfjörð Sigurðsson sæti fangelsi í þrjá mánuði, en til frádráttar refsivist komi gæsluvarðhald hans í sex daga. Hann greiði einnig í ríkissjóð 3.000.000 króna sekt, en í stað hennar komi fangelsi í sex mánuði verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms.

Ákærði Guðmundur Bjarni Guðmundsson sæti fangelsi í þrjá mánuði, en til frádráttar refsivist komi gæsluvarðhald hans í þrjá daga. Hann greiði einnig í ríkissjóð 3.000.000 króna sekt, en í stað hennar komi fangelsi í sex mánuði verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms.

Ákærði Rúnar Þórhallsson sæti fangelsi í þrjá mánuði. Hann greiði einnig í ríkissjóð 3.000.000 króna sekt, en í stað hennar komi fangelsi í sex mánuði verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms.

Ákærði Ragnar Hreinn Ormsson sæti fangelsi í 30 daga.

Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur, upptöku og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærðu Baldvin, Guðmundur og Rúnar greiði hver fyrir sig skipuðum verjanda sínum, Kristjáni Stefánssyni hæstaréttarlögmanni, 30.000 krónur í málsvarnarlaun fyrir Hæstarétti. Ákærði Ragnar greiði skipuðum verjanda sínum, Guðmundi Ágústssyni héraðsdómslögmanni, 60.000 krónur í málsvarnarlaun fyrir Hæstarétti. Allan annan áfrýjunarkostnað af málinu greiði ákærðu óskipt.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 1999.

Málið er höfðað með ákæruskjali dagsettu 13. apríl 1999 á hendur Baldvini Breiðfjörð Sigurðssyni, kt. 190860-2809, Vesturbergi 120, Reykjavík, Guðmundi Bjarna Guðmundssyni, kt. 160358-4169, Jakaseli 11, Reykjavík, Rúnari Þórhallssyni, kt. 160137-4879, Helgubraut 31, Kópavogi og Ragnari Hreini Ormssyni, kt. 121152-5769, Fiskakvísl 18, Reykjavík, “fyrir eftirgreind tollalagabrot framin á árinu 1998:

I.

Ákærðu Baldvin Breiðfjörð, Guðmundur Bjarni og Rúnar.

Sameiginlega smyglað hingað til lands 4.053 lítrum af sterku áfengi sem ákærðu höfðu keypt í janúar 1998 í Boston í Bandaríkjum Norður-Ameríku og komið fyrir í trékössum sem þeir smíðuðu í þessu skyni og skildu eftir í Bandaríkjunum.  Samkvæmt ráðagerðum ákærðu fór ákærði Baldvin Breiðfjörð aftur til Bandaríkjanna í maí og kom áfenginu til flutnings til Íslands með ms. Goðafossi sem kom til Reykjavíkur aðfaranótt 3. júní, en lögregla fann áfengið þann 5. s.m. og lagði hald á það.

II.

Ákærði Ragnar Hreinn.

Fyrir hlutdeild í framangreindu broti með því að hafa, þann 8. júní, veitt meðákærðu liðsinni sitt í verki með því að hafa að beiðni meðákærða Rúnars, látið færa gám með ofangreindu áfengi á svonefnt hlutaúttektarsvæði Samskipa hf. í Sundahöfn í þeim tilgangi að meðákærðu gætu komist í gáminn og tekið úr honum áfengið áður en gámurinn var tollafgreiddur, en ákærði var á þessum tíma starfsmaður Samskipa hf. í Sundahöfn.

Telst háttsemi sem lýst er í lið I varða 1. mgr. 123 gr., sbr. 1. mgr. 124. gr., tollalaga nr. 55, 1987, en háttsemi í lið II við sömu ákvæði, sbr. 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.  Þess er jafnframt krafist að ákærðu Baldvin Breiðfjörð, Guðmundur Bjarni og Rúnar verði dæmdir til að sæta upptöku á framangreindum 4.053 lítrum af sterku áfengi, sbr. 1. mgr. 136. gr. tollalaga.

Í málinu gerir Erlendur Gíslason hdl. kröfu, dagsetta 22. júní 1998, f.h. Samskipa hf., um að ákærðu Baldvin Breiðfjörð, Guðmundur Bjarni og Rúnar verði dæmdir til að greiða Samskipum hf., kt. 4409876-1539, Holtabakka v/Holtaveg í Reykjavík, bætur að fjárhæð kr. 454.223 auk dráttarvaxta á fjárhæðina frá og með kröfudegi.”

 

Málavextir.

Málavextir eru þeir að lögreglunni í Reykjavík bárust 29. maí 1998 upplýsingar  um að um borð í Goðafossi, skipi Eimskipafélags Íslands hf., sem væntanlegur væri til  landsins frá Bandaríkjunum 2. júní það sama ár, væri gámur með tilgreindu skráningarnúmeri, sem í væri mikið magn af áfengi, sem ætlunin væri að smygla til landsins. Eigendur áfengisins og skipuleggjendur smyglsins voru tilgreindir ákærðu, Baldvin Breiðfjörð, Rúnar og Guðmundur Bjarni. Samkvæmt farmbréfi með gáminum var sendandi gámsins fyrirtækið JDS, 32 Railroad Street, Revere MA 02151 í Bandaríkjunum, móttakandi Valur Karlsson, Vesturbergi 78, Reykjavík og innihald gámsins húsgögn og notuð fiskvinnsluvél. Eftirlit var haft með skipinu eftir að það lagðist að bryggju í Reykjavík að morgni miðvikudagsins 3. júní og um hádegisbil fimmtudaginn 4. júní var umræddum gámi skipað úr Goðafossi og hann settur í gámastæðu. Síðar þann dag var gámurinn fluttur af starfssvæði Eimskipa yfir á starfssvæði Samskipa. Tollyfirvöld og lögregla opnuðu gáminn til að kanna innihald hans að kvöldi föstudagsins 5. júní. Samkvæmt skýrslu Harðar Lilliendahl yfirtollvarðar reyndust vera fremst í gáminum húsgögn í 8 pakkningum en að baki þeim 5 trékassar. Er trékassarnir voru opnaðir kom í ljós að í þeim öllum var áfengi, vodka og gin, í 1,75 lítra plastflöskum. Var áfengið bæði í pappakössum, þar sem voru 6 flöskur í hverjum og í lausu. Hald var lagt á áfengið og trékössunum komið aftur fyrir í gáminum og honum lokað og reynt að ganga þannig frá innsiglinu að ekki væri hægt að sjá að búið væri að fara í gáminn. Við talningu reyndist áfengið vera af tegundinni vodka og gin, samtals 4053 lítrar. Eftirlit var haft með gáminum en í ljós kom mánudaginn 8. júní að gámurinn hafði verið færður úr stað einhvern tímann milli kl. 12.30 og 18.00 þann sama dag án þess að hann hefði verið tollafgreiddur. Höfðu allir kassarnir verið teknir úr gáminum og ekkert var í gáminum utan ein notuð fiskvinnsluvél. Ákærðu, Baldvin, Guðmundur og Rúnar, voru handteknir síðar þetta kvöld en ákærði, Ragnar, 10. sama mánaðar.

Ákærðu, Baldvin, Guðmundur og Rúnar, játuðu hjá lögreglu að hafa smyglað áðurgreindu áfengi inn til landsins frá Bandaríkjunum. Kváðu þeir hugmynd hafa vaknað hjá þeim  í janúar 1998 að smygla áfengi til landsins frá Bandaríkjunum þótt ekki hafi verið rætt um magn þess áfengis sem þeir ætluðu að smygla til  landsins. Hafi það átt að ráðast er út væri komið, einkum af því hvað kæmist í trékassana, sem  þeir ætluðu að smíða utan um áfengið. Ætlunin hafi verið sú að þeir ættu allir jafnan hlut í smyglinu og hefðu þeir greitt hver einn þriðja hluta áfengisverðsins og kostnaðar við sendinguna heim. Hafi framkvæmdin átt að vera með þeim hætti að tæma gáminn af áfenginu áður en hann yrði tollafgreiddur og setja í hann fiskvinnsluvél. Hafi verið rætt um að útvega mann til að færa gáminn á hafnarsvæði Samskipa hf. og hafi þeir ætlað að greiða þeim aðila með áfengi.

Í skýrslu ákærða, Baldvins, hjá lögreglu 12. júní kvað hann ákærðu hafa ákveðið að fjarlægja áfengið úr gáminum annað hvort meðan hann væri enn á hafnarsvæðinu eða eftir að hann  hefði verið fjarlægður út fyrir svæðið. Hefði síðan átt að setja fiskvinnsluvélina í hann en hana hefðu þeir geymt í húsnæði í Eldshöfða, sem þeir hefðu saman á leigu. Hafi þeir ætlað að skipta áfenginu í þrjá jafna hluta, auk þess sem greiða hafi átt einhverjum aðila með áfengi, sem myndi sjá um færslu gámsins á hafnarsvæði Samskipa, en ekki hafi verið búið að ákveða magn þess. Ákærði kvaðst hafa ætlað áfengið til sölu og eigin neyslu.

Í skýrslu ákærða, Guðmundar, hjá lögreglu 10. júní sama ár kvað hann ætlunina hafa verið að selja áfengið er búið væri að smygla því til landsins og græða á þessu. Hafi hann heyrt að gangverðið væri um  2.000 krónur á lítrinn. Ákærði kvað það hafa verið hans ákvörðun eins að skila umræddum þremur timburkössum af áfengi sem hafi verið hans hlutur í áfenginu og hafi hann aldrei sagt ákærðu, Baldvini og Rúnari, frá því eða látið þá fá af peningum þeim sem hann fékk fyrir að skila áfenginu, um 10.000 dollara. Kvað hann ákærðu, Baldvin og Rúnar, hafa staðið í þeirri trú að hann hafi sett kassana þrjá í aðra geymslu. Kvað hann sameiginlega ákvörðun þremenninganna hafa lotið að því að hann færi út til að setja áfengið í geymslu. Um hlut ákærða, Ragnars, bar hann að ákærði, Rúnar, hefði verið búinn að útvega mann sem taka myndi áfengi úr gáminum þegar hann kæmi til landsins. Hefði verið rætt um að greiða þessum aðilum 60-70 kassa af áfengi og hafi hann í þessu sambandi heyrt nafn ákærða, Ragnars.

Í skýrslu sinni hjá lögreglu 9. júní sama ár kvað ákærði, Rúnar, tilgang ferðar þeirra þremenninga í mars 1998 til Boston hafa í upphafi verið að skoða fellihýsi jafnframt því að kanna hvort þeir gætu smyglað áfengi til landsins. Þegar út til Bandaríkjanna var komið hefði ákvörðunin um smyglið verið tekin. Kvað hann þá ákærðu hafa greitt fyrir áfengið að jöfnu og hafi áfengið verið ætlað til eigin neyslu. Kvaðst ákærði hafa staðið í þeirri trú að umræddir þrír timburkassar væru enn í geymslu í Bandaríkjunum en ákærði, Guðmundur Bjarni, hefði tjáð honum það. Bar ákærði á þann hátt um hlut meðákærða, Ragnars, að hann hefði talað við hann á föstudeginum eftir að gámurinn var kominn til landsins og spurt hann hvort hann hefði séð gáminn. Hafi hann hringt aftur í Ragnar á mánudeginum og beðið hann um að færa gáminn út á svæði þar sem losun færi fram þar sem hann þyrfti að komast í gáminn. Kvað hann Ragnar ekki hafa spurt hvað væri í gáminum og hann ekki sagt honum það. Bar ákærði í fyrstu að ekki hefði verið rætt um hvort ákærði Ragnar fengi eitthvað fyrir viðvikið en kvaðst síðan hafa rætt um það við ákærða Ragnar að hann myndi gauka einhverju að honum. Kvað ákærði það rétt vera að þremenningarnir hafi rætt sín á milli um að borga þeim sem aðstoðuðu þá við að losa gáminn 60-70 kassa af áfengi en ákærði kveðst aldrei hafa nefnt það við ákærða Ragnar.

Í skýrslu sinni hjá lögreglu, miðvikudaginn 10. júní 1998, kvað ákærði, Ragnar, ákærða, Rúnar, hafa haft sambandi við sig fyrir um viku síðan og beðið sig að kippa ákveðnum gám í burtu þegar hann kæmi, svo hann gæti unnið í honum. Það hafi síðan verið fyrir stuttu að ákærði, Rúnar, hafi aftur haft samband við sig og gefið sér upp númer gámsins. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað um innihald gámsins og hafi hann beðið sig á mánudaginn var að flytja gáminn af svæði D yfir á hlutaafgreiðslusvæðið. Kvaðst ákærði hafa falið lyftaramanni að gera það. Kvaðst ákærði hafa átt að fá þóknun fyrir að flytja gáminn en ekkert hafi verið búið að ræða um það í hverju sú þóknun væri fólgin. Kvaðst ákærði ekki hafa vitað hvert væri innihald gámsins. Hafi honum dottið í hug að það væri brennivín eða einhverjar vörur en honum hafi aldrei verið sagt hvað væri í gáminum. Kvaðst ákærða hafa verið það ljóst að ákærði, Rúnar, hafi viljað komast í gáminn til að taka úr honum einhverja vöru án þess að greiða toll eða önnur gjöld af vörunni.

Við þingfestingu málsins neituðu ákærðu allir sakargiftum. Við aðalmeðferð málsins játuðu ákærðu, Baldvin Breiðfjörð, Guðmundur Bjarni og Rúnar, að hafa smyglað inn 1/3 hluta þess áfengis sem greinir í ákæru og laut vörn þeirra einkum að því að ekki væri um samverknað þeirra að ræða. Ákærði, Ragnar, neitaði áfram ákæruatriðum.

Verður nú gerð grein fyrir framburði ákærðu og vitna við meðferð málsins.

Ákærðu, Baldvin, Guðmundur og Rúnar, staðfestu allir fyrir dóminum að þeir hefðu staðið sameiginlega að undirbúningi og framkvæmd á flutningi á áfengi því sem greinir í ákæru í því skyni að smygla því inn til landsins. Hins vegar hafa þeir eins og áður greinir borið að eignarhlutur hvers og eins í áfenginu hafi verið aðgreindur á þann hátt að þeir ættu aðeins einn þriðja hluta áfengisins hver um sig, þótt áfenginu yrði ekki skipt fyrr en heim væri komið. Þessu til stuðnings vísuðu ákærðu til þess að þeir hefðu greitt fyrir áfengið og allan kostnað í jöfnum hlutföllum. Hafa þeir þannig aðeins viðurkennt smygl á 1351 lítum af sterku áfengi til landsins. Þá hafa þeir borið að upphaflegur tilgangur ferðarinnar til Boston hafi verið sá að athuga með kaup á bílum, tjaldvögnum og kerrum en þegar ekkert hefði orðið úr þeim áformum hefði fyrst verið tekin ákvörðun um að kaupa áfengi til að smygla til landsins. Er framburður þeirra því þannig nokkuð með öðrum hætti en hjá lögreglu við rannsókn málsins. Voru ákærðu inntir eftir skýringum á breyttum framburði sínum. Ákærði, Baldvin, gaf þá skýringu að líklega hefði hann verið undir miklu álagi en ákærði sætti gæsluvarðhaldi á þeim tíma er skýrslan var tekin. Ákærði, Guðmundur, kvaðst ekki treysta sér til að fullyrða hvort rangt væri haft eftir honum í lögregluskýrslu um tilgang ferðarinnar til Boston. Kvaðst hann ekki muna hvað hann hefði sagt þar. Ákærði, Rúnar, kvaðst ekki kunna skýringu á því hvers vegna hann hefði borið hjá lögreglu að eitt af markmiðum með ferðinni til Boston hefði verið að kanna möguleika á áfengissmygli til landsins. Þá báru ákærðu að þeir hefðu ætlað áfengið til eigin nota.

Ákærðu, Baldvin, Guðmundur og Rúnar, lýstu atburðarásinni á þann veg að þeir hefðu í sameiningu tekið gám á leigu og smíðað átta trékassa, sem þeir hefðu fyllt af áfengi. Því næst hafi þeir afhent Samskipum hf. gáminn til flutnings til Íslands og hafi gámurinn átt að fara til landsins þá í næstu viku. Eins og fyrr greinir hafi þeir allir greitt jafnan hlut en þeir kváðust ekki muna hvað þeir hefðu greitt fyrir áfengið. Hafi þeir því næst haldið heim en er heim hafi verið komið hefði komið babb í bátinn þar sem einhverjir starfsmenn Eimskipafélags Íslands hf. hefðu komist á snoðir um fyrirhugað smygl þeirra og þeir því orðið hræddir og ákveðið að hætta við smygláformin. Hafi þeir náð að stöðva sendingu gámsins. Hefði ákærði, Guðmundur, farið út til Boston til að reyna að losna við áfengið og selja það en það hafi ekki gengið vel og hafi hann aðeins getað losnað við þrjá kassa. Hinum fimm kössunum hefði verið komið í geymslu. Báru ákærðu, Baldvin og Guðmundur, að þeir hefðu allir þrír skipt andvirði áfengisins á milli sín en ákærði, Rúnar, neitaði því að hafa fengið sinn hluta greiddan af andvirði þess áfengis sem skilað hefði verið. Kvaðst hann ekki hafa haft hugmynd um að ákærða, Guðmundi, hefði tekist að skila einhverju af áfenginu. Hefðu þeir að lokum tekið sameiginlega þá ákvörðun að ákærði, Baldvin, færi til Boston í því skyni að koma áfenginu til flutnings til landsins þar sem þeir hefðu verið komnir í vandræði með geymslu á því. Hefði ákærði, Baldvin, keypt húsgögn til að setja í gáminn til að villa um fyrir tollyfirvöldum. Hefði ákærði, Ragnar, að beiðni ákærða, Rúnars, flutt gáminn yfir á hlutaúttektarsvæði til þess að hægt yrði að komast í hann. Ákærði, Rúnar, hefði fengið sendibílstjóra til að sækja kassana með áfenginu í gáminn en ákærði, Rúnar, beðið fyrir utan svæðið á meðan. Í ljós hefði þá komið að ekkert áfengi væri í kössunum og kassarnir verið fluttir tómir í húsnæði sem ákærðu hefðu haft til umráða í Eldshöfða. Þar hefði fiskvinnsluvélin verið geymd sem setja átti í gáminn. Hefðu þeir sett fiskvinnsluna í gáminn eins og ráð hefði verið fyrir gert.

Ákærði, Baldvin, bar að ákveðið hefði verið áður en áfengið kom til landsins hver þessi aðili yrði, sem myndi aðstoða þá og hefði það verið ákærði, Ragnar. Hefði ákærði, Rúnar, verið búinn að tala við ákærða, Ragnar, en hann hafi sjálfur ekki talað við hann. Hafi ákærði, Ragnari, átt að fá greiðslu með 60 kössum af áfengi. Að .því búnu hefði átt að skipta áfenginu í þrjá hluta. Kvað hann aðstoð ákærða, Ragnars, hafa verið nauðsynlega til að smyglið næði fram að ganga því að öðrum kosti hefðu þeir ekki fengið aðgang að áfenginu. Kvaðst ákærði ekki þekkja ákærða, Ragnar, og ekki hafa séð hann fyrr en við meðferð málsins. Bar ákærði að mál þetta hefði haft slæm áhrif á hans persónulegu hagi þar sem hann hafi verið meira og minna atvinnulaus í heilt ár eftir að þetta gerðist.

Ákærði, Guðmundur Bjarni, bar að ákærði, Ragnar, hefði verið kominn inn í myndina sem aðstoðarmaður í landi áður en ákærði, Baldvin, hefði farið út til Boston og að honum hafi verið lofaðir 60 kassar af áfengi. Hefði ákærði, Rúnar, talað við hann en ákærði sjálfur ekki verið viðstaddur það samtal. Kvað ákærði þá félagana hafa útvegað fiskvinnsluvél til að setja í gáminn áður en ákærði, Baldvin, hefði farið í ferðina til Boston. Ákærði kvaðst hafa misst starf sitt sem skipverji hjá Samskipum hf. vegna máls þessa og ekki hafa fengið starf til sjós eftir það, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir sínar.  Hafi þetta leitt til mikilla efnahagslegra þrenginga hans og fjölskyldu hans.

Ákærði, Rúnar, bar að ákveðið hefði verið að hann sæi um að afla aðstoðar hér heima við að taka áfengið úr gáminum og hefði hann talað við ákærða, Ragnar, og beðið hann að færa gáminn fyrir sig. Minnti ákærða að hann hefði talað fyrst við ákærða, Ragnar, á föstudeginum en þar sem svo langt væri um liðið þyrði hann ekki að fullyrða það. Aðspurður hvort hann hefði ekki verið búinn að ganga frá aðstoð í landi áður en gámurinn var kominn til landsins, þá kvaðst ákærði hafa verið búinn að ákveða að tala við ákærða, Ragnar, þegar gámurinn kæmi og það hefði hann gert. Kvaðst ákærði hafa beðið hann um gera sér þann greiða að færa þennan gám. Ákærði kvaðst þekkja vel til staðhátta þarna og ekki þurfi annað en að hringja inn í turn til að fá gám færðan yfir á geymslusvæði. Neitaði ákærði því að hann hefði lofað ákærða, Ragnari, borgun í áfengi. Kvað hann það hafa komið til tals milli sín og ákærðu, Baldvins og Guðmundar, að ákærði, Ragnar, fengi 60 kassa en að hann hafi aldrei nefnt það við hann. Kvaðst hann ekki minnast þess að ákærði, Ragnar, hefði einu sinni spurt um innihald gámsins og aldrei hefði hvarflað að honum að greina ákærða, Ragnari, frá innihaldi hans. Ákærði kvaðst hafa misst atvinnu sína eftir að mál þetta kom upp en hann hafi fyrir þann tíma verið fastráðinn starfsmaður hjá Reykjavíkurhöfn og hafi það haft mikil áhrif á hans persónulegu hagi.

Ákærði, Ragnar, kvað ákærða, Rúnar, hafa talað við sig eftir að skipið var komið í höfn og beðið hann að færa gáminn úr gámastæði yfir á svokallað hlutaúttektarsvæði, sem væri svæði sem gámar væru fluttir á eftir tollafgreiðslu þegar eigendur farms þyrftu að taka úr þeim aðeins hluta í einu. Kvaðst ákærði, sem var verkstjóri á þessum tíma, aldrei hafa fengið neina pappíra áður en hann hefði verið beðinn um að flytja gáma yfir á þetta svæði. Kvað ákærði fjölda fólks við að færa gámana. Ákærði viðurkenndi að hafa vitað að umræddur gámur hefði ekki verið tollafgreiddur en neitaði því að hafa vitað nokkuð um innihald hans. Bar hann að ákærði, Rúnar, hefði talað við sig eftir að búið var að færa gáminn og sagst myndu gauka einhverju að honum. Aðspurður um framburð sinn hjá lögreglu að hann hefði grunað að brennivín væri í gáminum þá kvaðst hann ekki muna hvað honum hefði dottið í hug þótt hann hefði tekið svona til orða um nóttina við yfirheyrsluna hjá lögreglu. Hefði hann ekki leitt sérstaklega hugann að því hvað væri í gáminum. Kvað ákærði ekki útilokað að ákærðu hefðu komist í gáminn í gámastæðunni þar sem hann var áður en hann var færður, þótt ekki sé gert ráð fyrir slíku. Kvað ákærði hafa verið um að ræða vinargreiða við ákærða, Rúnar, en þeir hafi þekkst í mörg ár. Hins vegar kvaðst ákærði aldrei hafa  séð hina ákærðu fyrr en við meðferð málsins.

Vitnið, Sólberg Svanur Bjarnason rannsóknarlögreglumaður, stjórnaði rannsókn málsins hjá lögreglu og annaðist skýrslutökur af ákærðu, Baldvini, Guðmundi og Rúnari. Kvaðst hann ekki muna betur en ljóst hafi verið að ákærðu hefðu staðið í sameiningu að kaupunum á áfenginu og ætlað að skipta þessu jafnt þegar heim væri komið. Hafi það komið skýrt fram hjá ákærðu að hugmyndin hafi verið orðin til og skipulögð áður en þeir héldu til Boston. Staðfesti hann skýrslur sínar.

Vitnið, Theódór Kjartansson lögreglumaður, var viðstaddur skýrslutökur af ákærðu, Baldvini, Guðmundi og Rúnari, og staðfesti hann vottun sína undir þær.

Vitnið, Lárus Kjartansson rannsóknarlögreglumaður, annaðist skýrslutökur af ákærða, Ragnari, og staðfesti skýrslu sína og kvaðst minnast þess að fram hefði komið hjá ákærða, Ragnari, að honum hafi verið ljóst að ástæðan fyrir flutningi gámsins hafi einmitt verið sú að hægt væri að komast í gáminn áður en hann yrði tollafgreiddur. Hafi ákærða, Ragnari, verið það ljóst. Kvað vitnið hafa komið í ljós undir rannsókn málsins að illmögulegt sé að komast í gáma á gámastæðusvæði einkum og sér í lagi ef gámur er ofarlega í stæðu og minnti vitnið að gámurinn hefði verið í annarri hæð.

Vitnið, Sigurður Ingi Svavarsson sendibílstjóri, kvaðst hafa sótt umrædda trékassa í gáminn að beiðni ákærða, Rúnars, sem hafi beðið meðan á þessu stóð fyrir utan svæðið. Hafi hann og ákærði, Rúnar, að því búnu farið með tóma kassana upp í húsnæði í Eldshöfða og fleiri bæst þar í hópinn sem hafi virst koma að málinu. Vitnið kvaðst oft fara á svonefnt hlutaúttektarsvæði Samskipa til að sækja varning og spyrji hann aldrei um það hvort varan sé tollafgreidd, slíkt sé ekki í hans verkahring. Hafi hann tekið vörur einnig af svokölluðu D svæði en yfirleitt séu innflytjendur þá búnir að ganga frá pappírum.

Vitnið, Tryggvi Ólafsson, deildarstjóri hjá Samskipum hf., útskýrði hvað væri hlutaúttektarsvæði og kvað það líkjast einna helst vöruhúsi. Ekki mætti leysa út vöru þaðan nema að greidd hefðu verið aðflutningsgjöld og varan verið tollafgreidd. Hlutaúttektarstaður væri staður þangað sem gámar, sem hefðu verið leystir út á löglegan hátt, væru færðir og þar sem innflytjandi gæti vegna skorts á geymsluplássi fengið vöruna afgreidda til sín smám saman. Bar vitnið að gámur væri ekki færður yfir á hlutaúttektarsvæði fyrr en viðkomandi farmeigandi annað hvort sýndi fram á tilskilda  pappíra um tollafgreiðslu og hefði undir höndum afgreiðsluheimild eða að vissir starfsmenn í viðskipaþjónustu Samskipa hf. hringdu og óskuðu eftir að  gámur með tilteknu gámanúmeri væri færður yfir. Vitnið sagði aðeins starfsmenn Samskipa hf. geta farið í gám áður en hann væri tollafgreiddur. Aðspurður hvort margir starfsmenn Samskipa hf. hefðu á þessum tíma haft heimild til að gefa fyrirmæli um flutning gáms yfir á hlutaúttektarsvæði, þá kvað vitnið ákærða, Ragnar, hafa verið verkstjóra sem hefði gefið tækjamönnum skipanir um hvað þeir ættu að gera og síðan gilti um þessa gáma þær vinnureglur að viðkomandi framvísi löglegum pappírum eða að viðskiptafulltrúi Samskipa hf., sem sjálfsagt hefði þessi sömu gögn í höndum, hringdi í ákærða, Ragnar, eða svæðisstjórann. Kvað vitnið vinnureglur þessar hafa verið yfirfarnar í kjölfar þessa máls en vitninu væri ekki kunnugt um að gámur hefði verið fluttur yfir á hlutaúttektarsvæði nema vegna þess að viðkomandi lyftaramaður hefði lesið vitlaust á gámanúmerið og það síðan verið leiðrétt. Kvað vitnið eigendur vöru geta fengið vöru afgreidda úr gám þótt hann væri ekki á hlutaúttektarsvæði en þá þyrftu þeir að framvísa tilskildum pappírum á viðkomandi verkstöð, sem afgreiddi til þeirra vöru. Hins vegar þyrftu menn ekki að framvísa neinum pappírum er þeir færu út af svæðinu. Loks kvað vitnið D svæði eingöngu vera auðkenningu fyrir tækjamennina til að vinna eftir en svæðinu hafi verið skipt eftir bókstöfum.

 

Niðurstaða.

I. kafli ákæru.

Ákærðu, Baldvin Breiðfjörð, Guðmundur Bjarni og Rúnar, hafa lýst því fyrir dómi hvernig þeir höfðu samvinnu við skipulagningu og framkvæmd ólöglegs innflutnings á áfengi til landsins. Lýstu þeir því hvernig þeir í sameiningu smíðuðu trékassa utan um áfengið, tóku gám á leigu og sendu hann til flutnings til Íslands. Þá hafa þeir staðfest að þeir hafi staðið sameiginlega að öllum ákvörðunum varðandi innflutninginn. Ákærðu byggja hins vegar á því að þeir beri hver um sig aðeins ábyrgð á ólöglegum innflutningi á einum þriðja hluta þess áfengis sem greinir í ákæru þar sem þeir hafi greitt fyrir áfengið og kostnað við flutning þess til landsins í þeim hlutföllum. Hafi átt að skipta smyglvarningnum jafnt á milli þeirra þriggja þegar heim væri komið. Með vísan til þess sem áður greinir um samvinnu ákærðu og gagna málsins að öðru leyti þykir sannað að ákærðu hafi í sameiningu staðið að ólöglegum innflutningi á 4.053 lítrum af sterku áfengi til landsins. Breytir engu um niðurstöðu þessa að ákærðu hafa gert það sennilegt að þeir hafi greitt fyrir áfengið í jöfnum hlutföllum þar sem ekki verður fallist á að ákærðu geti skipt refsiábyrgðinni. Bera þeir allir jafna refsiábyrgð og má í því sambandi vísa til refsihækkunarástæðu 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Þá þykir sannað að ákærðu hafi farið til Bandaríkjanna í janúar á síðasta ári í þeim tilgangi að smygla til landsins áfengi. Báru ákærðu á þann veg við rannsókn málsins og skýringar þeirra á breyttum framburði að þessu leyti fyrir dóminum þykja haldlausar en ákærðu hafa ekki borið því við að þeim hafi verið lögð orð í munn við skýrslutökur þessar. Þá bar vitnið, Sólberg Svanur Bjarnason rannsóknarlögreglumaður, sem annaðist skýrslutökur af ákærðu, að það hafi komið skýrt fram hjá ákærðu við rannsókn málsins að hugmyndin um smyglið hafi verið orðin til og skipulögð áður en ákærðu héldu utan til Boston. Þykir framgangur ákærðu í skipulagningu og framkvæmd smyglsins bera vott um einbeittan brotavilja þeirra.

Brot ákærðu, Baldvins Breiðfjörð, Guðmundar Bjarna og Rúnars, eru rétt heimfærð til refsiákvæða.

 

II. kafli ákæru.

Eins og að framan greinir hefur ákærði, Ragnar Hreinn, neitað hlutdeild í áfengissmygli meðákærðu. Hefur hann viðurkennt að hafa að beiðni ákærða, Rúnars, flutt gáminn yfir á svæði fyrir tollafgreiddar vörur, enda þótt honum hafi verið ljóst að gámurinn væri ótollafgreiddur. Þykir ákærði með þeirri háttsemi sinni hafa gerst brotlegur við 2. málslið 1. mgr. 123. gr. tollalaga en þar sem hann er ekki ákærður fyrir þá háttsemi verður niðurstaða í máli hans einskorðuð við hlutdeild hans í áfengissmygli meðákærðu. Ákærði, Ragnar, hefur borið á þann veg bæði hjá lögreglu og fyrir dóminum að ákærði, Rúnar, hafi ekki leitað eftir liðsinni hans fyrr en eftir að gámurinn var kominn til landsins. Ákærði, Rúnar, hefur einnig borið á sama veg við meðferð málsins. Ákærðu, Baldvin og Guðmundur, hafa hins vegar borið um það að ákærði, Rúnar, hafi verið búinn að leita liðsinnis ákærða, Ragnars, áður en áfengið kom til landsins. Með vísan til framangreinds og þess að það var ákærði, Rúnar, en ekki ákærðu, Baldvin og Guðmundur, sem höfðu samskipti við ákærða, Ragnar, þykir verða að leggja til grundvallar í málinu að ákærði, Rúnar, hafi leitað eftir liðsinni ákærða, Ragnars, eftir að gámurinn var kominn inn á tollsvæði ríkisins en þá var brot meðákærðu fullframið.

Ákærði, Ragnar, hefur neitað að hafa vitað um að áfengi væri í gáminum. Þótt ósannað sé að ákærði hafi vitað að í gáminum var áfengi verður ekki fram hjá því litið að ákærði vissi að gámurinn var ótollafgreiddur. Hlaut honum því að hafa verið ljós sá tilgangur meðákærða, Rúnars, að fjarlægja úr gáminum smyglvarning áður en hann yrði tollafgreiddur. Þykir ákærði, Ragnar, með háttsemi sinni hafa gerst sekur um eftirfarandi hlutdeild í broti ákærðu með því að halda við ólögmætu ástandi er skapaðist við smygl áfengisins í gáminum til landsins og þannig aðstoðað meðákærðu við að leyna broti sínu. Hefur ákærði, Ragnar, með háttsemi sinni gerst sekur um brot á 1. málslið 1. mgr. 123. gr. tollalaga, sbr. 4. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði, Ragnar, hefur neitað því fyrir dóminum að hafa átt að fá greiðslu fyrir að flytja gáminn en kveður ákærða, Rúnar, hafa tjáð sér eftir að hann færði gáminn að hann myndi gauka einhverju að honum. Ákærði bar hins vegar hjá lögreglu að hann hafi átt að fá þóknun fyrir viðvikið þótt ekki hafi verið um það rætt í hverju hún yrði fólgin. Þá hafa ákærðu, Baldvin og Guðmundur, borið að ákærði, Ragnar, hafi átt að fá 60 kassa af áfengi sem greiðslu fyrir viðvikið. Ákærði, Rúnar, hefur neitað að hafa fyrir fram lofað ákærða greiðslu fyrir viðvikið, enda þótt hann og ákærðu, Baldvin og Guðmundur, hafi talað um það sín á milli að greiða ákærða, Ragnari, með 60 kössum af áfengi. Með vísan til framburðar ákærða sjálfs hjá lögreglu, framburðar ákærðu, Baldvins og Guðmundar, þykir hins vegar verða að leggja til grundvallar að ákærði, Ragnar, hafi átt að njóta hagnaðar af flutningi gámsins þótt ekki þyki nægilega sannað að ákærði, Rúnar, hafi fyrirfram rætt nákvæmlega í hverju sá hagnaður yrði fólginn.

 

Refsingar.

Ákærði, Baldvin Breiðfjörð, hefur á árunum 1979 til 1998 gengist sjö sinnum með sáttum undir að greiða sektir, þar af fimm sinnum vegna umferðarlagabrota, einu sinni vegna brots á lögum um skotvopn og sprengiefni og í síðasta skiptið 14. október 1998 vegna brots á 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga en þar var honum gert að greiða 100.000 króna sekt. Brot ákærða sem hann hefur nú verið sakfelldur fyrir var framið áður en hann gekkst undir síðastgreinda sátt og verður refsing hans í þessu máli því hegningarauki við þá sátt. Við ákvörðun refsingar hans verður því auk þess sem að neðan greinir, höfð hliðsjón af 78. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði, Guðmundur Bjarni hefur á árunum 1976 til 1989 gengist fimm sinnum undir sektargreiðslu með sáttum þar af tvisvar vegna umferðarlagabrota, einu sinni vegna brots á lögum nr. 185/1966 og tvisvar vegna tollalaga- og áfengislagabrots. Í síðasta skiptið í nóvember 1989 gekkst ákærði undir að greiða 135.000 króna sekt vegna brots á tolla- og áfengislögum og sætti jafnframt upptöku á áfengi og vindlingum.

Ákærði, Rúnar, hefur á árunum 1955 til 1985 hlotið þrettán refsidóma, þar af níu vegna umferðar- og áfengislagabrota, einn vegna þjófnaðar og þrjá vegna tolla- og áfengislagabrota, þann síðasta í febrúar 1985 þar sem hann var dæmdur í 3 mánaða skilorðsbundið varðhald og til greiðslu 500.000 króna sektar. Þá hefur ákærði á árunum 1956 til 1994 gengist níu sinnum undir sáttir og greiðslu sektar, aðallega vegna umferðarlagabrota en þar af fimm sinnum vegna tollalaga- og áfengislagabrota. Þannig gekkst ákærði undir sátt 8. nóvember 1994 og greiðslu 170.000 króna sektar vegna brots á nánar tilgreindum ákvæðum áfengislaga og 1. mgr. 123. gr., sbr. 1. mgr. 124. gr. tollalaga.

Fyrri refsingar ákærðu, Baldvins Breiðfjörð og Guðmundar Bjarna, hafa engin áhrif áhrif á ákvörðun refsinga þeirra í máli þessu. Hins vegar verður litið til sakarferils ákærða, Rúnars, við ákvörðun refsingar hans.

Við ákvörðun refsingar ákærðu, Baldvins Breiðfjörð, Guðmundar Bjarna og Rúnars, verður litið til þess mikla magns áfengis, sem ákærðu eru sakfelldir fyrir að hafa flutt ólöglega til landsins, að ákærðu þykja hafa sýnt einbeittan brotavilja við framningu brots síns, auk þess sem um samverknað þeirra var að ræða, sbr. 1. og 6. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga og 2. mgr. sömu greinar.

Refsingar ákærðu, Baldvins, Guðmundar og Rúnars, þykja hæfilega ákveðnar eins og hér segir.

Ákærðu, Baldvin Breiðfjörð og Guðmundur Bjarni, sæti hvor um sig fangelsi í 3 mánuði. Þar sem þeir hafa ekki áður gerst sekir um brot, sem hafa áhrif á ákvörðun refsingar þeirra nú, þykir rétt að fresta fullnustu refsivistar þeirra og skal hún falla niður að þremur árum liðnum frá birtingu dómsins, haldi ákærðu hvor um sig almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22, 1955. Komi til fullnustu refsivistar ákærða, Baldvins Breiðfjörð, skal draga frá refsivist hans sex daga gæsluvarðhaldstíma hans og komi til fullnustu refsivistar ákærða, Guðmundar Bjarna, skal draga frá refsivist hans þriggja daga gæsluarðhaldstíma hans.

Ákærði, Rúnar, sæti fangelsi í 3 mánuði. Þegar litið er til þess tíma sem liðinn er frá því að ákærða var gerð refsing fyrir tollalagabrot í nóvember 1994, og þess að ekki var þá um stórfellt brot að ræða, þykir rétt að fresta fullnustu refsivistar hans og skal hún falla niður að þremur árum liðnum frá birtingu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/!940, sbr. 4. gr. laga nr. 22, 1955.

Auk framangreindrar refsivistar verða ákærðu, Baldvin Breiðfjörð, Guðmundur Bjarni og Rúnar, dæmdir til að greiða sektir til ríkissjóðs en við ákvörðun sektar þeirra verður höfð hliðsjón af verðmæti þess áfengis sem ákærðu fluttu ólöglega til landsins og sektarhámarki 50. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun sektar ákærða, Rúnars, verður einnig litið til sakarferils hans, sbr. 5. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Þykir sekt ákærðu, Baldvins Breiðfjörð og Guðmundar Bjarna, hæfilega ákveðin 3.000.000.sem greiðist í ríkissjóð innan fjögurra vikna en ákærðu sæti ella fangelsi í 6 mánuði. Sekt ákærða, Rúnars, þykir hæfilega ákveðin 3.500.000 og greiðist í ríkissjóð innan fjögurra vikna en ákærði sæti ella fangelsi í 7 mánuði.

Ákærði, Ragnar Hreinn, gekkst á árinu 1991 undir sátt og greiðslu sektar vegna brots á siglingalögum en hefur ekki sætt öðrum refsingum. Við ákvörðun refsingar hans verður litið til eðlis brots hans, sbr. 1. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, og þess að hann hefur ekki áður gerst sekur um brot sem hefur áhrif á ákvörðun refsingar hans nú. Ekki þykja efni til að dæma hann til fangelsisvistar. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin 1.000.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 3 mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.

Eins og krafist er í ákæru og samkvæmt lagaákvæðum þeim er þar greinir, verða ákærðu, Baldvin Breiðfjörð, Guðmundur Bjarni og Rúnar, dæmdir til að sæta upptöku á 4.053 lítrum af sterku áfengi, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Ákærðu, Baldvin Breiðfjörð, Guðmundur Bjarni og Rúnar, hafa mótmælt bótakröfu Samskipa hf. að fjárhæð 454.223 krónur. Samkvæmt gögnum málsins sundurliðast krafan þannig: Töpuð flutningsgjöld samkvæmt reikningi nr. 217188 að fjárhæð 354.174 krónur, áætlaður kostnaður við förgun fiskvinnsluvélar að fjárhæð 50.000 krónur og lögfræðikostnaður að fjárhæð 50.049 krónur. Fylgir með kröfunni frumrit reiknings vegna aðflutningsgjalda sem til féllu vegna gáms þess er ákærðu fluttu inn til landsins. Engin frekari gögn fylgja kröfunni. Verða ákærðu, Baldvin Breiðfjörð, Guðmundur Bjarni og Rúnar, dæmdir in solidum til að greiða Samskipum hf. framangreindan flutningskostnað, auk lögmannskostnaðar, sem þykir hæfilega ákveðinn 25.000 krónur, eða samtals 379.174 krónur ásamt dráttarvöxtum frá uppsögu dómsins.

Loks ber samkvæmt 1. tl. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að dæma ákærðu til greiðslu alls sakarkostnaðar, eins og nánar greinir í dómsorði.

Sigurður Gísli Gíslason, fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík, flutti málið af hálfu ákæruvaldsins.

Sigurjóna Símonardóttir, settur héraðsdómari, kveður upp dóminn.

Uppsaga dóms þessa hefur dregist lítillega vegna embættisanna dómarans.

Dómsorð:

Ákærði, Baldvin Breiðfjörð Sigurðsson, sæti fangelsi í 3 mánuði. Þá greiði ákærði 3.000.000 króna í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins en sæti ella fangelsi í 6 mánuði.

Ákærði, Guðmundur Bjarni Guðmundsson, sæti fangelsi í 3 mánuði. Þá greiði ákærði 3.000.000 króna í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins en sæti ella fangelsi í 6 mánuði.

Ákærði, Rúnar Þórhallsson, sæti fangelsi í 3 mánuði. Þá greiði ákærði 3.500.000 króna í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins en sæti ella fangelsi í 7 mánuði.

Fresta skal fullnustu refsivistar ákærðu og fellur hún niður að liðnum þremur árum frá birtingu dómsins, haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Komi til fullnustu refsivistar ákærðu, Baldvins Breiðfjörð og Guðmundar Bjarna, skal draga frá refsivist þeirra sex daga gæsluvarðhaldstíma ákærða, Baldvins Breiðfjörð, og þriggja daga gæsluvarðhaldstíma ákærða, Guðmundar Bjarna.

Ákærði, Ragnar Hreinn Ormsson, greiði 1.000.000 króna í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins en sæti ella fangelsi í 3 mánuði.

Ákærðu, Baldvin Breiðfjörð, Guðmundur Bjarni og Rúnar, skulu sæta upptöku til ríkissjóðs á 4.053 lítrum af vodka og gini sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Ákærðu, Baldvin Breiðfjörð, Guðmundur Bjarni og Rúnar, greiði in solidum Samskipum hf. 379.174 krónur ásamt dráttarvöxtum frá dósmsuppsögudegi.

Ákærði, Baldvin Breiðfjörð, greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Sveins Jónatanssonar héraðsdómslögmanns, 80.000 krónur. Ákærði, Guðmundur Bjarni, greiði verjanda sínum, Kristjáni Stefánssyni hæstaréttarlögmanni, 80.000 krónur í málsvarnarlaun. Ákærði, Rúnar, greiði verjanda sínum, Ólafi Haraldssyni héraðsdómslögmanni, 80.000 krónur í málsvarnarlaun og ákærði, Ragnar Hreinn, verjanda sínum, Guðmundi Ágústssyni héraðsdómslögmanni, 80.000 krónur í málsvarnarlaun. Annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt.