Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-135
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Hópuppsögn
- Ráðgefandi álit
- EFTA-dómstóllinn
- EES-samningurinn
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 20. nóvember 2023, sem barst 1. desember sama ár, leitar íslenska ríkið leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 3. nóvember sama ár í máli nr. 748/2020: Verkfræðingafélag Íslands, Stéttarfélag tölvunarfræðinga og Lyfjafræðingafélag Íslands gegn íslenska ríkinu. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.
3. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort ákvörðun leyfisbeiðanda um að segja upp samningum tiltekinna starfsmanna hjá stoðdeildum Landspítalans um yfirvinnu á föstum forsendum hefði falið í sér hópuppsögn í skilningi laga nr. 63/2000 um hópuppsagnir.
4. Með dómi Landsréttar var viðurkennt að aðgerðir leyfisbeiðanda hefðu falið í sér hópuppsögn í skilningi laga nr. 63/2000 en með héraðsdómi hefði leyfisbeiðandi verið sýknaður af kröfum gagnaðila. Undir rekstri málsins fyrir Landsrétti var aflað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins og þremur spurningum beint til hans um hvernig bæri að túlka tilskipun ráðsins 98/59/EB um samræmingu laga aðildarríkjanna um hópuppsagnir, sem var innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 63/2000, þegar vinnuveitandi hygðist segja upp samningum um fasta yfirvinnu. Landsréttur vísaði til þess að yfirvinnutímum hefði verið fækkað hjá samtals 113 starfsmönnum á stoðdeildum Landspítala, að félagsmönnum gagnaðila meðtöldum. Því hefði fjöldatölum samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 63/2000 verið náð. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu, með hliðsjón af ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins í málinu, að uppsögn á ótímabundnum samningum félagsmanna gagnaðila um fastar yfirvinnugreiðslur, sem leiddu til lækkunar heildarlauna og þess að tímabundnir samningar komu í stað ótímabundinna samninga, fæli í sér breytingu á meginþætti í ráðningarsamningum starfsmanna sem teldist jafnframt veruleg og því um uppsögn ráðningarsamninga að ræða í skilningi laga nr. 63/2000. Var því fallist á það með gagnaðilum að sú aðgerð að segja upp samningum um fasta yfirvinnu hefði falið í sér hópuppsögn.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Vísar hann til þess að málið varði beitingu laga nr. 63/2000 og ekki hafi áður reynt á mat íslenskra dómstóla á því hvað teljist óveruleg breyting á meginþætti eða veruleg breyting á veigalitlum þætti ráðningarsambands í skilningi laganna. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að dómur Landsréttar sé rangur að efni og forsendur hans óskýrar. Meðal annars láti rétturinn hjá líða að meta samspil laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins við lög nr. 63/2000. Samkvæmt 19. gr. fyrrnefndra laga falli breyting á fyrirkomulagi yfirvinnu undir ákvörðunarvald forstöðumanns stofnunar án þess að uppsögn á ráðningarsambandi þurfi að koma til.
6. Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í því geti haft fordæmisgildi um það hvenær um er að ræða hópuppsögn í skilningi laga nr. 63/2000. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.