Hæstiréttur íslands
Mál nr. 162/2000
Lykilorð
- Líkamstjón
- Örorka
- Skaðabótamál
|
|
Fimmtudaginn 26. október 2000. |
|
Nr. 162/2000. |
Bjarkar Þór Ólason (Sigurður Sigurjónsson hrl.) gegn Axel Blomsterberg (Ólafur Axelsson hrl.) |
Líkamstjón. Örorka. Skaðabótamál.
B hlaut veruleg brunasár þegar hann, í leyfi frá starfi sínu sem vélstjóri, nýtti sér aðstöðu í vélsmiðju A til málmsmíði. B hafði nýlokið við að aðstoða starfsmenn vélsmiðjunnar við að gangsetja bifreið með því að láta bensín renna ofan í blöndung vélarinnar þegar neistar frá málmsmíði hans flugu í sag, sem dreift hafði verið á gólf vélsmiðjunnar. Sagið var blautt af ryðvarnarolíu undan nefndri bifreið og kviknaði í því. Meðan á tilraunum B til að slökkva eldinn stóð fékk hann yfir sig gusu af bensíni úr brúsa, sem notaður hafði verið við gangsetningu bifreiðarinnar skömmu áður og kviknaði við það mikill eldur í fatnaði hans. Ósannað þótti að A eða einhver sem hann bar ábyrgð á hefði orðið valdur að slysinu með því að skilja bensínbrúsann eftir opinn eða rekast í hann með fyrrgreindum afleiðingum. Var A sýknaður af skaðabótakröfu B.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson og Markús Sigurbjörnsson og Sigurður Líndal prófessor.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. apríl 2000. Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.975.115 krónur auk vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 af 1.159.315 krónum frá 19. desember 1994 til 31. maí 1995, en af 1.975.115 krónum frá þeim degi til 12. desember sama árs. Frá þeim degi krefst áfrýjandi dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga af síðastnefndri fjárhæð til greiðsludags. Til vara krefst hann annarrar lægri fjárhæðar með vöxtum eins og greinir í aðalkröfu. Í báðum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti
Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjandi dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi hefur stefnt Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.
I.
Málið á rætur að rekja til þess að áfrýjandi var staddur síðla dags 19. desember 1994 á starfstöð Vélsmiðjunnar Brúnar að Hamarsteig 1 í Mosfellsbæ, en vélsmiðjan var í eigu stefnda. Áfrýjandi var þá í leyfi frá starfi sínu sem vélstjóri á fiskiskipi, en áður mun hann hafa unnið um tíma í vélsmiðjunni. Í umrætt sinn var áfrýjandi að nýta sér aðstöðu hjá stefnda til að vinna við smíði borðs úr málmi með svokallaðri argonsuðu. Voru þá inni í húsakynnum vélsmiðjunnar þrjár bifreiðir. Fékkst áfrýjandi við verk sitt aftan við eina bifreiðina í nokkrum þrengslum á milli hennar og lokaðra innkeyrsludyra. Auk áfrýjanda var stefndi við vinnu í vélsmiðjunni, svo og bróðir stefnda, Jón Á. Blomsterberg, og sonur, Róbert Axel Axelsson.
Fram er komið í málinu að eftir að áfrýjandi hófst handa við áðurnefnt verk þurfti að færa út úr vélsmiðjunni bifreiðina, sem var framan við vinnuaðstöðu hans, og setja inn aðra bifreið, sem vinna átti við fyrir viðskiptamann stefnda. Flutti þá áfrýjandi smíðagrip sinn og verkfæri úr stað og var bifreiðinni ekið út. Ekki tókst að ræsa bifreiðina, sem færa átti inn í húsið. Var þá gripið til þess ráðs að taka upp vélarlok bifreiðarinnar, sem var stór jeppi af gerðinni Chevrolet. Klifraði áfrýjandi upp á bifreiðina framan við vélarlokið og lét lítilræði af bensíni renna ofan í blöndung vélarinnar. Með því tókst að ræsa hana. Í framhaldi af því var bifreiðinni ekið inn í vélsmiðjuna og dyrum lokað. Færði áfrýjandi muni í tengslum við verk sitt aftur á þann stað, sem áður greinir, og tók til við það á ný. Skömmu eftir þetta virðast neistar, sem stöfuðu af málmsmíði áfrýjanda, hafa komist í sag, sem hafði verið dreift undir bifreið næst við hlið þeirrar, sem hann vann aftan við. Þetta sag mun hafa verið blautt af ryðvarnarolíu, sem lak undan bifreiðinni, og kviknaði í því. Áfrýjandi kveðst í flýti hafa sótt teppi og ætlað að leggja það á gólfið til að kæfa eldinn. Hafi hann í þessu skyni staðið rétt aftan við bifreiðirnar og snúið baki að dyrum vélsmiðjunnar. Skyndilega hafi hann þá fengið yfir sig aftanverðan gusu af bensíni og kviknaði í fötum hans. Hljóp áfrýjandi að útgöngudyrum úr vélsmiðjunni handan við bifreiðirnar og tókst honum á þeirri leið að rífa af sér nokkuð af logandi fatnaði, en að öðru leyti slökkti hann eldinn utan á sér með því að velta sér í snjó utan við vélsmiðjuna.
Áfrýjandi hlaut veruleg brunasár við þennan atburð. Dvaldist hann af þeim sökum á Landspítalanum frá 19. desember 1994 til 13. janúar 1995, en síðan til endurhæfingar á Reykjalundi frá 15. þess mánaðar og fram í byrjun apríl sama árs. Í málinu leitar áfrýjandi skaðabóta úr hendi stefnda vegna tímabundins atvinnutjóns og varanlegrar örorku, sem hann varð fyrir af þessum sökum, auk þjáningabóta og bóta fyrir varanlegan miska, en einstakir kröfuliðir hans eru reistir á örorkumati læknis frá 21. janúar 1999. Stefndi gerir ekki athugasemdir við þetta örorkumat.
II.
Í hinum áfrýjaða dómi er greint frá rannsókn lögreglunnar og Vinnueftirlits ríkisins á atvikum, sem leiddu til tjóns áfrýjanda, þar á meðal framburði hans sjálfs, stefnda og Róberts Axels Axelssonar fyrir lögreglu, svo og skýrslum þeirra sömu við aðalmeðferð þessa máls og framburði aðila þess undir rekstri máls, sem áfrýjandi sótti á árinu 1997 á hendur vinnuveitanda sínum, Haraldi Böðvarssyni hf., til heimtu launa í veikindaforföllum vegna afleiðinga slyssins. Áfrýjandi hefur lagt fram í Hæstarétti ljósmyndir, sem lögreglan í Reykjavík tók á vettvangi slyssins 19. desember 1994, en um þær kveðst hann fyrst hafa fengið vitneskju eftir uppkvaðningu héraðsdóms. Í tengslum við þetta gáfu aðilar málsins aftur skýrslur um atvik þess fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 28. apríl 2000. Leiddi áfrýjandi við sama tækifæri til vitnisburðar fyrir dómi Róbert Axel Axelsson og Steinþór Einarsson, sem annaðist rannsókn Vinnueftirlits ríkisins á slysinu.
Í síðastnefndri skýrslu áfrýjanda fyrir héraðsdómi fullyrti hann að stefndi hafi sjálfur ekið út úr vélsmiðjunni þeirri bifreið, sem áfrýjandi vann aftan við í byrjun. Hafi Róbert átt að aka hinni bifreiðinni inn í vélsmiðjuna, en ekki hafi tekist að koma bifreiðinni í gang. Stefndi hafi þá komið inn í húsið og sótt bensínbrúsa. Hann hafi beðið áfrýjanda um að koma út með sér til að gangsetja bifreiðina. Fyrir utan vélsmiðjuna hafi stefndi rétt áfrýjanda bensín í tappa af brúsanum og sá síðarnefndi hellt því ofan í blöndung bifreiðarinnar. Róbert hafi að þessu búnu ekið bifreiðinni inn í húsið, en áfrýjandi kvaðst ekki vita hvað gert var við brúsann eftir það. Áfrýjandi hafi síðan aftur farið að vinna við verk sitt. Rétt eftir þetta hafi Róbert kallað að það væri kominn upp eldur, sem áfrýjandi hafi þá séð við eða undir næstu bifreið. Hann hafi sótt teppi og verið í þann veginn að breiða það yfir eldinn þegar bensín hafi gusast yfir hann og eldur komið í föt hans. Sérstaklega aðspurður sagði áfrýjandi að sér fyndist eins og hann hafi í sömu mund orðið var við umgang fyrir aftan sig, líkt og verið væri að stappa í gólfið til að slökkva eld. Hafi honum fundist Róbert vera þar á ferð.
Í skýrslu fyrir héraðsdómi 28. apríl 2000 kvaðst stefndi ekki minnast þess hver hafi fært bifreiðina, sem áður er getið, út úr vélsmiðjunni. Hann kannaðist við að hafa beðið áfrýjanda og Róbert Axel Axelsson um að koma hinni bifreiðinni inn í húsið, svo og að ekki hafi tekist að gangsetja hana. Hann kvaðst ábyggilega ekki hafa komið út með bensínbrúsa og sagðist vera nokkuð viss um að hann hefði ekki ekið bifreiðinni sjálfur inn í húsið, heldur teldi hann að áfrýjandi og Róbert hefðu annast það. Hafi hann verið staddur í afgreiðslu vélsmiðjunnar þegar Róbert kallaði til hans að eldur væri kominn upp. Hann hafi rakleitt farið sem leið lá á milli innkeyrsludyra og bifreiða til að komast að eldinum. Hann hafi ekki haft slökkvitæki við höndina og því reynt að stappa í eldinn, sem hafi aðeins magnast við það. Sérstaklega aðspurður kvaðst stefndi ekki hafa séð bensínbrúsann þegar þetta gerðist, þannig að hann gæti þess vegna hafa rekið sig í hann. Eftir þetta hafi áðurnefndur Jón Á. Blomsterberg komið með slökkvitæki og slökkt eldinn þegar í stað. Stefndi kvaðst ekkert hafa séð til áfrýjanda meðan á þessu stóð.
Róbert Axel Axelsson bar fyrir dómi umræddan dag að hann minntist þess ekki að hafa átt hlut að því að færa bifreið inn í vélsmiðjuna, en það kæmi þó fram í skýrslu, sem hann gaf hjá lögreglunni 29. desember 1994. Hann neitaði því að hafa sótt bensínbrúsa inn í vélsmiðjuna til að gangsetja þessa bifreið. Hann sagðist síðar hafa orðið var við loga í sagi undir bifreið skammt frá þeim stað, sem áfrýjandi fékkst við málmsuðu. Hann hafi hlaupið fyrir aftan bifreiðirnar og kallað til stefnda að kviknað væri í. Þeir hafi komið til baka saman og séð fyrir framan sig „bara heljarinnar bál“. Sagðist Róbert hafa verið fyrir aftan stefnda og ekkert séð til áfrýjanda. Taldi hann að stefndi hafi verið með slökkvitæki, sem ekki hafi virkað, og hafi þá stefndi hlaupið inn í eldinn, hugsanlega til „að sparka í einhverja tusku eða eitthvað sem hann hélt að eldurinn væri í.“
Í skýrslu fyrir héraðsdómi 28. apríl 2000 staðfesti áðurnefndur Steinþór Einarsson umsögn um slysið, sem hann samdi sem starfsmaður Vinnueftirlits ríkisins. Hann kvað upplýsingar um atvik að slysinu, sem þar komu fram, hafa verið hafðar eftir stefnda einum.
III.
Í skýrslu, sem áfrýjandi gaf fyrir héraðsdómi 14. nóvember 1997 í áðurnefndu máli sínu á hendur Haraldi Böðvarssyni hf., kom skýrlega fram að þegar slysið bar að höndum hafi hann ekki verið í vinnu hjá stefnda, heldur hafi hann verið að sinna viðfangsefni í eigin þágu í vélsmiðjunni. Ummæli í skýrslu áfrýjanda við aðalmeðferð þessa máls 12. janúar 2000 verða ekki skilin á annan veg en að hann hafi þar áréttað þetta. Vegna þessa gætir ekki áhrifa af reglum um stöðu vinnuveitanda gagnvart starfsmanni sínum þegar metið er hvort stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni áfrýjanda.
IV.
Fallist verður á með héraðsdómara að leggja verði til grundvallar um atvik að tjóni áfrýjanda að brúsi, sem bensín var tekið úr til að ræsa áðurnefnda bifreið utan við vélsmiðju stefnda, hafi að því gerðu verið skilinn eftir rétt innan við dyrnar, sem bifreiðinni var ekið inn um. Verður jafnframt að byggja á því að vegna vinnu áfrýjanda við málmsuðu hafi eldur í framhaldi af þessu kviknað í olíublautu sagi undir annarri bifreið. Sá eldur hafi komist að brúsanum og bensín úr honum síðan sprautast yfir áfrýjanda með áðurgreindum afleiðingum.
Í lögregluskýrslu frá 6. janúar 1995 var haft eftir áfrýjanda að hann hafi rétt fyrir slysið hjálpað til við að færa bifreið út úr vélsmiðjunni og aðra þangað inn. Síðarnefndu bifreiðina hafi þurft að gangsetja með því að láta bensín renna inn í blöndung vélarinnar úr plastbrúsa, sem nánar var lýst. Var einskis getið í lögregluskýrslunni um hverjir aðrir hafi átt hlut að þessu verki. Í fyrrnefndri aðilaskýrslu, sem áfrýjandi gaf á árinu 1997 í máli sínu gegn Haraldi Böðvarssyni hf., sagðist hann hafa farið út fyrir vélsmiðjuna til að veita aðstoð við að gangsetja bifreiðina. Hafi hann þurft að klifra í því skyni upp á hana, en þangað hafi honum verið rétt bensín í tappa af brúsa til að hella ofan í blöndunginn. Hann mundi ekki hvort það hafi verið stefndi eða Róbert Axel Axelsson, sem rétti sér tappann. Róbert hafi hins vegar ekið bifreiðinni inn í vélsmiðjuna. Í aðilaskýrslu áfrýjanda fyrir héraðsdómi við aðalmeðferð þessa máls 12. janúar 2000 lýsti hann atvikum á þann veg að hann hafi farið út fyrir vélsmiðjuna til að sækja bifreið, en þar hafi átt hlut að máli „ég og Róbert og Axel líka, minnir mig.“ Hann hafi klifrað upp á bifreiðina, en svo „hérna rétti mér annað hvort Axel eða, minnir mig, bensín í tappa sem ég hellti inn á hann.“ Eftir það hafi Róbert ekið bifreiðinni inn í vélsmiðjuna. Aftur aðspurður um þessi atvik sagði áfrýjandi að sig minnti að stefndi hefði verið með Róbert og sér við að koma bifreiðinni inn í vélsmiðjuna. Þegar áfrýjandi lýsti enn sömu atvikum í þriðja sinn í skýrslunni fullyrti hann hins vegar að stefndi hefði rétt sér tappa með bensíni þangað sem hann stóð uppi á bifreiðinni. Í áðurgreindri skýrslu fyrir héraðsdómi 28. apríl 2000 fullyrti áfrýjandi að stefndi hefði komið út fyrir hús með brúsann og rétt sér tappa af honum með bensíni í. Um þessa síðastnefndu lýsingu áfrýjanda á atvikum verður að líta til þess að henni hreyfði hann fyrst rúmum fimm árum eftir slysið eftir ítrekaðan framburð fyrir dómi, bæði í öðru dómsmáli og þessu máli, um það eitt að hann minnti að stefndi hefði verið staddur með sér fyrir utan vélsmiðjuna auk Róberts Axels Axelssonar. Í lögregluskýrslu 29. desember 1994 greindi Róbert þannig frá atvikum að hann og áfrýjandi hefðu fengist við að koma bifreiðinni inn í vélsmiðjuna, en í því sambandi var stefnda í engu getið. Af fyrirliggjandi gögnum um rannsókn lögreglunnar á slysi áfrýjanda verður ekki ráðið að stefndi hafi þar verið spurður um hvort hann hafi tekið þátt í því að færa bifreiðina inn í hús. Hann hefur hins vegar ítrekað lýst því á síðari stigum fyrir dómi að hann minnist þess ekki að hafa komið að því verki. Þegar alls þessa er gætt verður ekki á öðru byggt en að áfrýjandi og Róbert hafi einir átt hér hlut að máli. Samkvæmt framburði áfrýjanda ók Róbert bifreiðinni inn í vélsmiðjuna. Verður að ætla að áfrýjandi hljóti þá sjálfur að hafa gengið inn í húsið eftir að bifreiðin hafði verið gangsett. Í því ljósi standa líkur ekki frekar til þess að Róbert hafi farið með bensínbrúsann inn í vélsmiðjuna heldur en áfrýjandi sjálfur, en af því verður áfrýjandi að bera hallann. Er af þessum ástæðum ekki unnt að gera stefnda ábyrgan fyrir tjóni áfrýjanda á þeirri forsendu að stefndi sjálfur eða einhver á hans vegum hafi skilið við bensínbrúsann á þeim stað, sem raun var á.
Í skýrslu fyrir héraðsdómi 28. apríl 2000 vék áfrýjandi í fyrsta sinn í framburði sínum að því að hann hefði orðið var við umgang fyrir aftan sig á vettvangi slyssins í sömu mund og hann fékk bensín yfir sig. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti hélt áfrýjandi því fram að af þessu, svo og áðurgreindum framburði stefnda og Róberts Axels Axelssonar fyrir dómi sama dag, megi leiða líkur að því að stefndi hafi í viðleitni til að slökkva eld á gólfi vélsmiðjunnar rekist í bensínbrúsann, sem hellst hafi úr yfir áfrýjanda. Um þetta verður að líta til þess að áfrýjandi hefur annars borið að hann hafi ekki séð til ferða stefnda eða Róberts um þær mundir, sem eldur komst í fatnað hans, eða í framhaldi af því. Stefndi og Róbert hafa jafnframt borið að þeir hafi ekki orðið varir við áfrýjanda frá því að eldurinn kom upp og þar til honum hafði tekist að slökkva í fatnaði sínum. Eins og áður greinir bar Róbert og um það í skýrslu fyrir dómi 28. apríl 2000 að þegar hann og stefndi komu þar að, sem áfrýjandi hafði verið að störfum, hafi mætt þeim „heljarinnar bál“. Af þessum orðum verður ekki annað ályktað en að þá þegar hafi eldur verið kominn í bensín úr brúsanum og náð til áfrýjanda. Að þessu athuguðu verður ekki fallist á að sýnt sé fram á að tjón áfrýjanda verði rakið til þess, sem að framan greinir.
Samkvæmt framangreindu verður að staðfesta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms. Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. janúar 2000.
I
Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum flutningi 12. janúar sl., er höfðað með stefnu sem árituð er um viðtöku 29. júní sl.
Stefnandi er Bjarkar Þór Ólason, kt. 290272-4249, Fellsmúla 15, Reykjavík.
Stefndi er Axel Blomsterberg, kt. 140450-4729, Hamarsteigi 1, Mosfellsbæ. Þá er Sjóvá-Almennum tryggingum hf., kt. 201288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík, stefnt til réttargæslu.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.975.115 krónur auk vaxta samkvæmt II. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, af 1.159.315 krónum frá 19. desember 1994 til 31. maí 1995, en af stefnufjárhæðinni frá þeim degi til 12. desember 1995, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags. Þess er krafist að dæmt verði að dráttarvextir leggist við höfuðstól árlega, í fyrsta sinn 19. desember 1995. Þá er krafist málskostnaðar.
Stefndi krefst aðallega sýknu og málskostnaðar en til vara að stefnukröfurnar verði verulega lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Á hendur réttargæslustefnda eru engar kröfur gerðar og hann hefur heldur engar kröfur uppi í málinu.
II
Málavextir eru þeir að 19. desember 1994 var stefnandi að sjóða saman borð fyrir sjálfan sig á verkstæði stefnda. Stefnandi kveðst hafa aðstoðað við að koma bifreið út af verkstæðinu og að setja aðra inn. Bifreið sú, sem úti stóð, hafi verið mjög há og á stórum dekkjum og hún hafi ekki farið í gang. Stefnandi kveðst hafa klifrað upp á bifreiðina og hafi honum verið réttur þangað tappi með bensíni til þess að “snafsa” hana. Kveðst hann hafa hellt bensíni úr tappanum ofan í blöndunginn og bifreiðin farið í gang. Stefnandi kveður sér ekki kunnugt um hvað hafi orðið af brúsanum eftir að honum var réttur tappinn en hann kveðst ekki hafa gengið frá honum og ekki var honum kunnugt um það hvort tappinn, sem honum var réttur, var settur á brúsann aftur. Að þessu loknu kveðst hann hafa snúið til fyrra verks en orðið var við að lítill eldur hafi kviknað á gólfinu við bílinn og kveðst hann hafa sótt teppi til að reyna að slökkva hann. Kveðst hann hafa staðið aftan við hægra horn bifreiðarinnar og snúið vinstri hlið að horninu á henni. Allt í einu kveðst hann hafa fengið yfir sig að aftanverðan gusu af bensíni og ekki vitað fyrr en hann var orðinn alelda. Stefnandi kveðst hafa stokkið út um bakdyr verkstæðisins og náð að klæða sig úr peysu og húfu á leiðinni út en þá hafi hann logað að neðanverðu. Kveðst hann hafa tekið það til bragðs að setjast í snjóinn og moka yfir sig þangað til slokknaði í honum.
Stefnandi kveðst hafa slasast mjög alvarlega og hafa verið fluttur þegar á slysadeild Borgarspítalans. Samkvæmt vottorði læknis þá hlaut hann 16 18% bruna af 1.3. gráðu í andliti, á höndum og á lærum.
Af hálfu stefnda er því haldið fram um aðdraganda slyssins, að skömmu fyrir það hafi stefnandi verið að hjálpa til við að koma bifreið inn á verkstæðið. Þar sem bifreiðin hafi ekki farið í gang hafi stefnandi klifrað upp á hana með bensín úr brúsa til að hella því ofan í blöndunginn. Við það hafi bifreiðin farið í gang og var henni ekið af syni stefnda inn á verkstæðið. Engir aðrir en stefnandi og sonurinn hafi komið að þessu verki. Stefndi kveðst mótmæla, sem rangri, þeirri lýsingu stefnanda að honum hafi verið réttur tappi með bensíni og hann hafi aldrei komið nálægt bensínbrúsanum að öðru leyti. Eins og aðstæðum hafi verið háttað komi enginn annar til greina að hafa meðhöndlað og gengið frá brúsanum við umrædda “snöfsun” en stefnandi. Sonur stefnda hafi setið undir stýri og enginn annar starfsmaður verkstæðisins hafi verið nálægur þegar þetta átti sér stað.
III
Stefnandi byggir kröfur sínar á hendur stefnda á því að hann sé bótaskyldur vegna gáleysis starfsmanns við meðhöndlun bensínbrúsans, sem ekki hafi verið komið fyrir með tryggilegum hætti og því sé um vanbúnað á vinnustað að ræða. Enn fremur að á vinnustaðnum hafi ekki verið fyrir hendi fullnægjandi og traust geymsla fyrir eldfim efni. Vísar stefnandi til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum hvað þetta varðar.
Stefnandi byggir á því að stefndi eða einhver starfsmanna verkstæðisins hafi komið brúsanum fyrir svo óvarlega á þessum stað og þannig með stórfelldu gáleysi valdið slysahættu og hafi viðkomandi ekki mátt dyljast sú hætta sem gat skapast vegna starfa á verkstæðinu, þar með talin rafsuðuvinna. Á þessu beri stefndi fulla ábyrgð.
Stefnandi kveðst hafa sinnt starfi sínum óaðfinnanlega og brugðist fullkomlega réttilega við þá er hann hafi orðið var við lítinn loga sem kviknað hafi í olíuvættu sagi á gólfi verkstæðisins. Stefnandi kveðst sjálfur enga sök hafa átt á slysinu. Hann hafi hvorki vitað um staðsetningu bensínbrúsans né hafi hann sett hann inn fyrir skör verkstæðishurðarinnar. Stefnandi er vanur rafsuðu og hefði aldrei sinnt slíku verki vitandi af bensínbrúsa nálægt sér. Stefnandi byggir enn fremur á því að fyrir liggi lögfull sönnun þess að honum hafi verið ókunnugt um brúsann. Samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjaness liggi fyrir að ósannað sé að hann hafi vitað af bensínbrúsanum, sem stóð á gólfi milli dyranna að verkstæðinu og hafi það verið lagt til grundvallar í dóminum að hann hafi ekki gert sér grein fyrir hættu er þarna skapaðist.
IV
Aðalkrafa stefnda um sýknu byggir á því að slysið verði eingöngu rakið til eigin sakar stefnanda en honum hafi mátt vera ljóst að það hafi verið stórhættulegt að vinna við rafsuðu undir þessum kringumstæðum. Jafnframt er byggt á því að stefnandi hafi sjálfur sett bensínbrúsann svo nálægt sér að hættuástand hafi skapast. Stefndi heldur því fram að orsök slyssins verði eingöngu rakin til gáleysis stefnanda með því að hann gekk ekki frá brúsanum á tilhlýðilegan hátt en upplýst sé í málinu að eldfim efni voru geymd í sérstöku herbergi á verkstæðinu. Stefnandi hafi sett brúsann frá sér of nálægt þeim stað þar sem hann var að vinna við rafsuðu. Jafnframt er á því byggt að enda þótt stefnandi hafi ekki gengið frá brúsanum sjálfur þá hafi honum mátt vera ljóst að rafsuða, með brúsann svo nærri sér, væri stórhættuleg en hann hafi vitað, eða mátt vita, um nærveru brúsans.
Varakrafa stefnda byggir á því að slysið verði að hluta rakið til eigin sakar stefnanda sjálfs, sem með frágangi brúsans og/eða með vitneskju um nærveru hans hafi hagað sér gáleysislega við verk sitt. Einnig er á því byggt að stefnandi hefði getað komið sér frá eldinum eftir að hann braust út, án þess að hljóta skaða af.
V
Tildrög slyssins 19. desember 1994 voru rannsökuð af lögreglu og vinnueftirliti og verður nú gerð grein fyrir skýrslum þeirra. Einnig verður reifaður framburður aðila og vitnis fyrir dómi.
Í skýrslu rannsóknarlögreglumanns, er kom á vettvang, er það haft eftir stefnda að stefnandi hafi verið að sjóða saman lítið járngrindarborð undir sjónvarp og notað til þess argonsuðutæki. Síðan segir orðrétt í skýrslunni: "Var Bjarkar Þór rétt innan við vélsmiðjudyrnar við vinnuna, stóð á steyptu vélsmiðjugólfinu við afturhorn og á milli tveggja jeppabifreiða er þar voru. Stuttu áður hafði Bjarkar Þór aðstoðað við að gangsetja aðra jeppabifreiðina og koma henni inn á vélsmiðjugólfið. Til gangsetningarinnar varð að "sjússa" bifreiðina, þ.e. að hella bensíni beint ofan í blöndung vélarinnar. Bensínið var í plastbrúsa ca. 1. lítra og hellti Bjarkar Þór bensíninu í blöndunginn.
Er bifreiðin var í gang sett og komin í hús vélsmiðjunnar hélt Bjarkar Þór áfram vinnu við suðu járngrindarinnar, búið var að loka aftur vélsmiðjudyrunum að baki jeppabifreiðinni. Allt í einu kviknaði mikill eldur þar sem Bjarkar Þór stóð, stóðu logar eldisins upp með hurð vélsmiðjunnar við afturendahorn jeppabifreiðanna og um Bjarkar Þór allan. Hljóp Bjarkar Þór logandi út um bakdyr vélsmiðjunnar og náði að velta sér í snjó og slökkva eldinn í fötum sínum og húð."
Í lok skýrslunnar segir: "Við rannsókn á vettvangi óhappsins sást hvar plastbrúsinn undan bensíninu var niður bráðnaður við hlið járngrindarinnar er Bjarkar Þór var að argonsjóða. Þar við var tappinn af plastbrúsanum nær óbráðinn og á niðurbráðnum leifum plastbrúsans mátti sjá og merkja að tappann vantaði. Ekkert skal fullyrt né neinar líkur draga af þessu hvað upphaf óhappsins varðar."
Í skýrslu vinnueftirlitsins segir: "Tildrög slyssins voru þau að hinn slasaði vann við að rafsjóða rétt innan við innkeyrsludyr verkstæðisins þegar hann var beðinn um að aðstoða við að gangsetja bíl sem stóð utandyra. Slasaði tók plastbrúsa með bensíni og hellti í blöndung vélarinnar sem síðan var gangsett og var bílnum svo ekið inn á verkstæðið. Slasaði lagði frá sér bensínbrúsann rétt þar hjá sem hann hafði verið að rafsjóða, þ.e. vinstra megin rétt aftan við bílinn inni á verkstæðinu. Þegar slasaði hóf suðuvinnuna aftur hrökk neisti í opinn bensínbrúsann og kveikti í honum með þeim afleiðingum að kviknaði í fötum slasaða og brenndist hann á höfði, höndum og fótum."
Í lok skýrslu vinnueftirlitsins segir að orsök slyssins megi "rekja til þess að opinn plastbrúsi stóð nærri þeim stað þar sem verið var að rafsjóða. Alltaf koma neistar frá þeim stað þar sem soðið er með rafsuðu."
Við aðalmeðferð voru aðilar sammála um að stefnandi hafi ekki verið að vinna hjá stefnda þegar slysið varð heldur hafi hann verið að rafsjóða fyrir sjálfan sig og fengið aðstöðu til þess hjá stefnda.
Nú verður rakinn framburður aðila og vitnis, bæði fyrir lögreglu og dómi.
Stefnandi var yfirheyrður af lögreglu 6. janúar 1995 og lá hann þá á sjúkrahúsi. Hann skýrði svo frá, að hann hafi "verið að hjálpa til við að setja bifreið út úr verkstæðishúsinu og að setja aðra bifreið inn í húsið. Snafsa þurfti bifreið þá sem setja þurfti inn þannig að við það var notaður brúsi úr plasti sem var undan rúðuúða tveir og hálfur lítri að stærð. Eftir að bifreiðin hafði verið sett inn í húsið þá hélt ég áfram að sjóða. Ég tók ekki eftir brúsanum og ég veit ekki hver setti brúsann inn í húsið, en mjög lítið bensín var í brúsanum. Ég veit ekki hvort tappi var á brúsanum. Fyrst varð ég var við að lítill eldur hafði kviknað á gólfinu við bílinn og sótti teppi til þess að reyna að slökkva eldinn. Ég stóð aftan við hægra horn jeppans og sneri vinstri hlið að horninu á jeppanum. Allt í einu fékk ég gusu af bensíni yfir mig að aftanverðu og ég vissi ekki fyrr til en ég varð alelda."
Þegar slysið varð var stefnandi í jólaleyfi en hann starfaði þá sem vélstjóri á fiskiskipi. Hann höfðaði mál á hendur útgerðinni til greiðslu launa samkvæmt ákvæðum sjómannalaga og kjarasamnings. Við aðalmeðferð þess máls gaf hann skýrslu í Héraðsdómi Reykjaness 14. nóvember 1997. Þar kom fram hjá honum að hann hefði verið að "snafsa" bifreiðina, sem færa átti inn á verkstæðið. Bifreiðin hafi verið há og hafi hann þurft að klifra upp á stuðarann. Þangað hafi sér verið réttur tappi með bensíni í en hann kvaðst ekki muna hvort stefndi eða Róbert Axel, sonur stefnda, hafi gert það. Stefnandi kvaðst ekki hafa sett bensínbrúsann inn á verkstæðið og ekki vita hver hafi gert það. Hefði hann vitað af brúsanum hefði hann ekki byrjað að sjóða aftur fyrr en hann hefði fjarlægt brúsann. Hann kvað það rangt sem segir í skýrslu vinnueftirlitsins um að hann hafi meðhöndlað bensínbrúsann.
Við aðalmeðferð málsins bar stefnandi að hann hefði verið að sjóða borð fyrir sig á verkstæðinu en hætt við það og farið í að setja bifreið inn ásamt Róbert Axel og stefnda að hann minnti. Hann kvaðst hafa snafsað bifreiðina með bensíni úr tappa, sem hann minnti að stefndi hefði rétt honum. Eftir að bifreiðin var komin inn hafi hann haldið áfram að sjóða borðið en tekið þá eftir að eldur var kominn í olíublautt sag á gólfinu. Hann hafi ætlað að slökkva eldinn með því að kæfa hann með ullarteppi en eldur þá gosið upp aftan við hann og hann forðað sér út. Stefnandi neitaði því alfarið að hafa vitað af bensínbrúsanum inni á verkstæðinu.
Stefndi var yfirheyrður af lögreglu 28. desember 1994. Orðrétt er haft eftir honum: "Þetta var þannig að Bjarkar Þór vann við að setja bifreið inn í verkstæðishúsið. Bifreiðin fór ekki í gang fyrr en Bjarkar hellti bensíni ofan í karplatorinn. Bjarkar var að vinna við að sjóða saman borð áður en hann fór að aðstoða við að koma bifreiðinni inn. Bjarkar Þór hafði notað eins lítra bensínbrúsa við að snafsa bílinn en notaði ekki allt bensínið úr brúsanum. Ég tel að Bjarkar Þór hafi látið bensínbrúsann niður innan við dyrnar eftir að hann kom bifreiðinni í gang. Ég álít að Bjarkar hafi lagt tappann ofan á brúsann en ekki skrúfað þá er hann lét brúsann frá sér. Bjarkar færði síðan borðið sem hann var að argonsjóða aftur á þann stað sem hann var að vinna á eða fyrir aftan bílana og hélt hann síðan áfram við að sjóða. Það næsta sem gerist var að Róbert sonur minn kom til mín þar sem ég var fram í afgreiðslu og sagði mér að það væri kviknað í."
Við yfirheyrslu í Héraðsdómi Reykjaness bar stefndi að hann hefði ekki séð þegar eldurinn gaus upp en komið að nokkrum sekúndum síðar. Hann kvaðst ekki muna til þess að hafa verið viðstaddur er bifreiðin, sem setja átti inn á verkstæðið, var "snöfsuð" og heldur ekki muna eftir að hafa verið með bensínbrúsann.
Við aðalmeðferð málsins bar stefndi að hann myndi ekki hvort hann hefði komið að því verki að setja bifreiðina inn á verkstæðið eða ekki og hann mundi þar af leiðandi heldur ekki hvort hann hefði handleikið bensínbrúsann eða vissi hver hefði skilið hann eftir á verkstæðisgólfinu. Hann benti á að hann hefði gefið skýrslur skömmu eftir slysið. Bæði hefði vinnueftirlitið haft tal af honum og þá hefði hann farið í yfirheyrslu hjá lögreglu. Kvaðst hann reikna með að það sem þar kæmi fram væri rétt eftir sér haft, enda atburðurinn þá í fersku minni.
Róbert Axel Axelsson, sonur stefnda, gaf skýrslu hjá lögreglu 29. desember 1994. Hann kvaðst hafa verið að koma bifreið inn á verkstæðið og þar eð hún hafi ekki farið í gang hafi hann beðið stefnanda að aðstoða sig. Síðan segir orðrétt í skýrslunni: "Til þess að koma bifreiðinni í gang þá hellti Bjarkar Þór bensíni niður í karplatorinn (snafsaði með bensíni). Bifreiðin fór í gang og ég ók bifreiðinni inn í húsið. Bjarkar heldur síðan áfram við vinnu sína. Ég kom síðan fyrir hornið á bifreið sem Bjarkar stóð við og tók ég þá eftir því að blár logi lék um gólfið við hliðina á bensínsbrúsa þeim sem Bjarkar notaði við að snafsa vélina í bílnum, en brúsinn stóð rétt hjá Bjarkari þar sem hann var að vinna."
Við aðalmeðferð bar vitnið að það myndi ekki eftir því að hafa tekið þátt í að "snafsa" bifreiðina og færa hana inn á verkstæðið. Það kvaðst ekki hafa verið starfsmaður stefnda heldur verið á verkstæðinu að vinna við eigin bifreið. Það kvaðst halda að það hefðu verið stefnandi og stefndi sem hefðu sett bifreiðina inn og "snafsað" hana. Vitnið las yfir lögregluskýrsluna og kvaðst ekki eiga von á öðru en að hún væri rétt, enda gefin stuttu eftir atburðinn.
VI
Með vísan til þess, sem hér að framan var rakið úr skýrslum lögreglu og vinnueftirlits, verður að telja langlíklegustu orsök eldsvoðans þá, að bensínbrúsi, er notaður hafði verið við að gangsetja bifreiðina, hafi verið skilinn eftir opinn nálægt þeim stað, er stefnandi var við að smíða sér borð. Þegar hann hóf að rafsjóða á ný, eftir að hafa aðstoðað við að færa bifreiðina inn á verkstæðið, hafi neisti komist í bensínið og kveikt í.
Stefnandi byggir kröfur sínar á hendur stefnda á því að hann eigi sök á slysinu. Annaðhvort hann sjálfur eða einhver starfsmanna hans hafi komið brúsanum fyrir á þessum stað.
Í V. kafla var gerð grein fyrir framburði aðila og þess eina vitnis, sem gefið hefur skýrslu í málinu. Eins og þar var rakið var ekki hægt við aðalmeðferð málsins að leiða í ljós hverjir höfðu staðið að því að færa bifreiðina inn á verkstæðið og hver eða hverjir höfðu handleikið bensínbrúsann. Af skýrslum þeim, sem lögregla og vinnueftirlit gerðu á slysdegi og næstu dögum eftir það og einnig voru raktar hér að framan, má þó ráða að stefnandi hafi einn komið að því að "snafsa" bifreiðina í því skyni að hægt væri að gangsetja hana og aka inn á verkstæðið. Með vísan til þessa er það niðurstaða dómsins að ósannað sé að stefndi eða einhver, sem hann bar ábyrgð á, hafi skilið opinn bensínbrúsann eftir við hlið borðsins, sem stefnandi var að sjóða. Verður því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda en rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð
Stefndi, Axel Blomsterberg, er sýknaður af kröfum stefnanda, Bjarkars Þórs Ólasonar, en málskostnaður skal falla niður.