Hæstiréttur íslands
Mál nr. 221/2015
Lykilorð
- Líkamsárás
- Börn
- Barnavernd
- Ómerking héraðsdóms
- Heimvísun
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Hjördís Hákonardóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 2. mars 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að refsing hans verði milduð.
A hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Verður því litið svo á að hann krefjist þess að staðfest verði ákvæði hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu hans, sbr. 1. mgr. 208 gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
I
Í máli þessu er ákærða annars vegar gefin að sök líkamsárás á son sinn og brot á barnaverndarlögum nr. 80/2002 og hins vegar fjárdráttur og nytjastuldur, til vara fársvik og nytjastuldur, með því að hafa dregið sér nánar tilgreint fjórhjól sem móðir hans var með á kaupleigu. Hvað síðarnefnda brotið varðar þá játaði ákærði sök fyrir héraðsdómi en krefst þó allt að einu sýknu af því broti fyrir Hæstarétti. Ákærði neitar sök vegna fyrrnefnda brotsins.
II
Hvað varðar hina ætluðu líkamsárás þá er ákærða gefið að sök að hafa 18. desember 2013 á heimili sínu „slegið ólögráða son sinn, A, ... , með krepptum hnefa í andlitið og nokkur högg í höfuðið og með þeirri háttsemi sinni misþyrmt A bæði andlega og líkamlega þannig að heilsu hans var hætta búin. Urðu afleiðingar háttsemi ákærða þær að A hlaut áverka (abrassion) á hægra kinnbeini og verki í höfuðleðri.“
Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 98. gr. og 1. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í forsendum dómsins er vísað til vættis brotaþola og systur hans þess efnis að umrædd líkamsárás hafi átt sér stað með þeim hætti sem greinir í ákæru. Frásögn sambýliskonu ákærða, J, af samskiptum hennar við systur brotaþola í kjölfar átaka feðganna þykir jafnframt styðja vætti systkinanna, sem og ljósmyndir og áverkavottorð. Síðan segir í forsendum dómsins: „Framburður ákærða og sambýliskonu hans um að brotaþoli hafi fengið áverka í átökum við lögreglu þegar brotaþoli lét tölvu falla í gólfið er í öllu ósamrýmanlegur framburði brotaþola og lögreglu og ekki í samræmi við framburð vitnisins J fyrir lögreglu, þar sem hún minntist ekkert á þau átök. Þá áttu þau samskipti lögreglu, ákærða og brotaþola sér stað daginn eftir, eða 19. desember 2013, en áverkarnir voru á ákærða við komu á heilsugæslu þann 18. desember 2013. Verður þessi síðari framburður ákærða að engu hafandi. Þá er allur framburður ákærða og sambýliskonu hans um þetta atvik ósamrýmanlegur og ótrúverðugur. Telur dómurinn að fram sé komin lögfull sönnun þess að ákærði hafi veist að brotaþola eins og segir í ákæruliðnum, með þeim afleiðingum sem þar er lýst.“
Í framangreindum forsendum er í tveimur atriðum dregnar rangar ályktanir af gögnum málsins. Í fyrsta lagi er það ekki rétt að vitnið J hafi ekki fyrr en í skýrslugjöf fyrir dómi minnst á átök á heimilinu sem urðu eftir að lögreglan var komin á staðinn. Í samantekt á skýrslu J hjá lögreglu 31. mars 2014 kemur fram: „J segir lögreglumann hafa þurft að halda A svo hann myndi ekki hlaupa í pabba sinn.“ Sama staðhæfing J er tekin upp í rannsóknarskýrslu lögreglu 13. maí 2014. Í öðru lagi er ljóst af því sem fram hefur komið í málinu að valdbeiting lögreglu gagnvart brotaþola átti sér stað 18. desember 2013, sama dag og ætluð líkamsárás, en ekki 19. sama mánaðar svo sem ranglega er staðhæft í framangreindum forsendum hins áfrýjaða dóms. Þannig hafa þær ályktanir sem héraðsdómur dregur af læknisvottorði 18. desember 2013 um ástand brotaþola við komu á heilsugæslu ekki þá þýðingu sem vísað er til í hinum áfrýjaða dómi.
Af framangreindu er ljóst að við mat á sönnunargildi umræddra framburða byggði héraðsdómur að hluta til á röngum staðreyndum um málsatvik. Samkvæmt 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 endurmetur Hæstiréttur ekki niðurstöðu héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði hafi gefið skýrslu þar fyrir dómi. Samkvæmt framansögðu eru slíkir annmarkar á hinum áfrýjaða dómi að ekki verður komist hjá því að ómerkja hann og vísa málinu til héraðsdóms til meðferðar að nýju, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008, enda líkur á því, með tilliti til framangreindra villna um staðreyndir, að niðurstaða héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kunni að vera röng svo að máli skipti um málsúrslit. Ákvörðun sakarkostnaðar í héraði bíður nýs efnisdóms í málinu.
Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun verjanda ákærða sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins, 537.219 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Einars Gauts Steingrímssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur.
Dómur héraðsdóms Reykjaness 9. janúar 2015
Mál þetta, sem þingfest var 10. september sl. og dómtekið 19. desember sl., var höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum, dagsettri 21. júlí 2014, á hendur X, kt. [...], [...], [...], og Y;
„fyrir eftirtalin brot gegn almennum hegningarlögum og barnaverndarlögum;
I
Gegn ákærða X, fyrir líkamsárás og brot á barnaverndarlögum, með því að hafa, miðvikudaginn 18. desember 2013, á þáverandi heimili sínu að [...], [...], slegið ólögráða son sinn, A, kt. [...], með krepptum hnefa í andlitið og nokkur högg í höfuðið og með þeirri háttsemi sinni misþyrmt A bæði andlega og líkamlega þannig að heilsu hans var hætta búin. Urðu afleiðingar háttsemi ákærða þær að A hlaut áverka (abrassion) á hægra kinnbeini og verki í höfuðleðri.
Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 20/1981 og ákvæði 98. gr. og 1. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
II
Gegn ákærða X, aðallega fyrir fjárdrátt og nytjastuld, en til vara fyrir fjársvik og nytjastuld, með því að hafa í ágúst 2013 orðið uppvís af því að hafa dregið sér fjórhjól að gerðinni [...] með fastanúmerið [...], að áætluðu verðmæti um kr. 1.000.000,- sem móðir ákærða var með á kaupleigusamningi frá 24.10.2007 við Lýsingu hf., kt. 621101-2420, en ákærði var með til umráða og tilkynnti þann 27.10.2008 ranglega glatað, að hann hefði misst það í á í ágúst sama ár og það horfið, en ákærði hafði það áfram í vörslum sínum þar til hann seldi B, kt. [...], tengdasyni sínum fjórhjólið, og með þeirri háttsemi sinni aftraði hann réttmætum eiganda fjórhjólsins, Lýsingu hf. að neyta réttar síns til umráða yfir fjórhjólinu og blekkti starfsmenn fyrirtækisins með því á ólögmætan hátt að vekja og hagnýta sér ranga hugmynd þeirra um að hjólið væri glatað en verðmæti fjórhjólsins við leigutöku var kr. 1.289.000.
Telst þessi háttsemi ákærða aðallega varða við 1. mgr. 247. gr. og 3. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en til vara við 248. gr. og 3. mgr. 259. gr. sömu laga.
III
[...]“
Ákærðu komu fyrir dóminn við þingfestingu málsins. Neitaði ákærði Y þá sök en ákærði X fékk frest til 16. október sl. til að taka afstöðu til sakarefnisins. Þann dag neitaði ákærði X sök. Þá mótmælti ákærði X bótakröfunni. Var ákæruliður III á hendur Y skilinn frá málinu og fékk málanúmerið S-[...], þar sem brot ákærða X, samkvæmt ákærulið I, varðaði við barnaverndarlög og þinghaldið háð fyrir luktum dyrum. Aðalmeðferð fór fram 19. desember sl. og var málið dómtekið að málflutningi loknum. Krafðist ákærði sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa.
Málsatvik.
Ákæruliður I.
Upphaf máls þessa er að lögreglu barst tilkynning um ófrið milli feðga á heimili þeirra þann 18. desember 2013. Barst tilkynningin frá dóttur ákærða og systur brotaþola. Þegar lögregla kom á staðinn voru feðgarnir báðir æstir, reiðir og ósáttir. Fram hafi komið í máli þeirra að þeir hafi ýtt við hvor öðrum en hvorugur hafi viljað gera mikið úr því sem gerðist. Samkvæmt dagbók lögreglu var brotaþola ekið fyrst heim til tilkynnanda, systur brotaþola, og síðan á Heilbrigðisstofnun [...] þar sem brotaþoli var með áverka sem sjá mátti á hægra kinnbeini brotaþola. Hafi í fyrstu átt að ljúka málinu sem ósætti á milli feðganna en eftir skýrslutökur daginn eftir hafi verið ákveðið af lögreglu að fara með málið sem heimilisofbeldi.
Þá segir í dagbók lögreglu að daginn eftir hafi tveir lögreglumenn ekið brotaþola og systur hans á heimili ákærða til að sækja eigur brotaþola. Sonur sambýliskonu ákærða hafi hleypt þeim inn. Brotaþoli hafi farið inn í herbergi sitt og sótt föt, bækur, PS3 leikjatölvu og tölvuleiki. Þegar þau hafi verið á leið út hafi ákærði og sambýliskona hans komið heim. Þau hafi verið ósátt við að þau væru þar og að taka muni án samráðs við þau. Þá kemur fram í gögnum málsins að ákærði hafi heimtað að drengurinn tæki tölvuna úr töskunni þar sem hún væri ekki í eigu brotaþola. Brotaþoli mun þá hafa tekið fartölvuna, haldið henni í brjósthæð og látið falla í gólfið.
Ákæruliður II.
Þann 5. september 2013 óskaði Lýsing hf. eftir rannsókn á hendur X, C og B fyrir meint brot gegn ákvæðum XXVI. og XXVII. kafla almennra hegningarlaga. Í kærunni segir að þann 24. október 2007 hafi Lýsing gert kaupleigusamning við C um kaup á [...] fjórhjóli með fastanúmeri [...], af [...] á krónur 1.289.000, og hafi C leigt fjórhjólið til sjö ára. Þann 27. október 2008 hafi ákærði X, sonur C, komið á skrifstofu Lýsingar hf. og sagt að hann hafi verið á fjórhjólinu á fjöllum og misst það ofan í á og hafi ákærði ekkert getað gert til þess að bjarga því. Hafi það gerst í ágúst það ár en ákærði X ekki þorað að tilkynna það fyrr. Ekkert hafi spurst af fjórhjólinu fyrr en 27. ágúst 2013, þegar D hafi haft samband við Lýsingu hf. varðandi umrætt fjórhjól. Hafi D sagst vera að hugsa um að kaupa fjórhjólið sem hann hafi séð auglýst á Bland.is. Hafi D hringt í uppgefið númer og rætt við B um möguleg kaup á fjórhjólinu. Við skoðun á eigendaskrá hafi D séð að Lýsing hf. var skráður eigandi fjórhjólsins. Hafi starfsmaður ásamt lögreglu skoðað fjórhjólið 28. ágúst 2013 og rætt við B sem hafi sagt meðákærða X, tengdaföður sinn, hafa látið mann að nafni E fá fjórhjólið upp í skuld. B hafi í kjölfarið keypt fjórhjólið af umræddum E á 450.000 krónur vitandi að fjórhjólið væri í eigu Lýsingar hf.
Læknisvottorð og önnur sýnileg sönnunargögn.
Í gögnum málsins liggur fyrir vottorð F læknis vegna ákæruliðar I. Segir þar að vottorðið sé unnið upp úr rafrænni sjúkraskrá Heilbrigðisstofnunar [...] og er þess getið að undirritaður hafi ekki annast viðkomandi vegna neðangreindra einkenna. Segir að brotaþoli hafi komið á slysadeild [...] þann 18. desember 2013. Í komunótu læknis kemur fram að brotaþoli hafi verið að rífast við föður sinn, einhverjar deilur vegna móður brotaþola sem búi á [...]. Faðirinn hafi síðan ráðist á brotaþola en systir brotaþola, sem hafi verið í heimsókn, gengið á milli. Faðirinn eigi að hafa kýlt brotaþola í andlitið og við skoðun sé hann með „abrassion“ á hægra kinnbeini sem gæti verið eftir einhvers konar högg. Hann hafi líka kvartað um verk í höfuðleðri yfir „vertex“ en þar sjáist ekki áverkamerki.
Þá liggja fyrir ljósmyndir af ofangreindum áverkum brotaþola í málinu.
Skýrslur fyrir dómi.
Ákæruliður I.
Ákærði kom fyrir dóminn og kvað drenginn ekki hafa stundað skóla allan desembermánuð þótt skráningar skólans beri það ekki með sér. Unglingaskeiðið hafi verið komið á fullt og tölvunotkun verið úr hófi fram. Drengurinn hafi verið í tölvunni alla nóttina og rokið upp með látum ef hann var vakinn að deginum til. Þennan dag hafi drengurinn verið vakandi eins og venjulega alla nóttina og ákærði ekki nennt að eiga við hann. Systir drengsins hafi verið hjá heim þennan dag og farið um ellefuleytið um morguninn inn til brotaþola og rætt við hann. Um hádegi hafi ákærði farið inn og spurt hann hvort hann ætlaði ekki að mæta í skólann. Þeir hafi tuðað eitthvað og strákurinn sagt sem oftar að hann færi bara til móður sinnar. Ákærði hafi þá spurt drenginn hvað móðir hans hafi gefið honum í afmælisgjöf en hann hafi einmitt ekkert fengið frá henni. Við það hafi drengurinn rokið upp og kýlt í andlit ákærða þannig að gleraugun hafi flogið af honum. Hann hafi þá hlaupið fram á svefnherbergisgang, strákurinn komið á eftir sér og byrjað að berja sig og sparka í sig aftan frá. Þeir hafi verið innst í ganginum og ákærði reynt að verja á sér andlitið þar sem ákærði sé ekki heill í andliti eftir slys. Eina sem ákærði hafi gert hafi verið að verja sig í horni gangsins fyrir barsmíðum drengsins. Bæði mar og sár hafi verið í andliti ákærða. Kvaðst ákærði hafa slegið aftur fyrir sig og reynt að verja sig þannig og kannski komið við hárið á drengnum en aldrei komið við andlit hans. Kvað hann G hafa komið hlaupandi á eftir þeim og skilið þá í sundur en ákærði kvaðst ekkert hafa séð þar sem hann hafi snúið baki í þau. G hafi rokið út og sagst ætla að hringja í lögregluna en strákurinn rokið inn í herbergi sitt. Stuttu síðar hafi sambýliskona hans komið heim úr búðinni. Mótmælti ákærði framburði drengsins og G og kvað þann framburð rangan. Spurður út í framburð sinn fyrir lögreglu um að högg ákærða hafi farið eitthvað og honum hafi verið sama hvar höggin lentu, kvaðst ákærði hafa verið að slá aftur fyrir sig þá. Ákærði neitaði því að hafa nokkurn tímann slegið í andlit drengsins, hann fyndi vel muninn á höggi í skrokk og andlit. Aðspurður um áverkana á brotaþola kvaðst ákærði hafa áttað sig á því, eftir að hann sá ljósmyndirnar af brotaþola, að lögreglumaður hefði skaðað drenginn. Lögreglan hafi komið nokkru síðar og drengurinn verið inni í herbergi. Lögreglan hafi ætlað að aka drengnum heim til systur sinnar. Ákærði hafi verið inni í forstofu og drengurinn kominn inn í hol með tösku og dót sem hann ætlaði að taka með sér. Hann hafi verið með tölvu sem ákærði átti sjálfur. Drengurinn hafi tekið tölvuna upp úr töskunni og grýtt henni í gólfið og drengurinn síðan ætlað að rjúka í sig. Lögreglumennirnir hafi rokið til og gripið strákinn og haldið honum upp við vegg með öðrum handleggnum. Þetta hafi tekið örstutta stund en forstofan væri pínulítil. Kvaðst ákærði viss um að áverkinn í andliti drengsins væri eftir fangbrögð lögreglumannsins þegar brotaþola hafi verið þvingað upp við vegginn. Hafi ákærði þá sjálfur verið inni í forstofunni ásamt hinum þremur. Kvaðst ákærði ekki hafa áttað sig á ástæðu áverkans fyrr en eftir að hann sá ljósmyndir í gögnum málsins mörgum mánuðum seinna. Ákærði kvað ekkert samband hafa verið á milli sín og drengsins eða G frá þessum tíma.
Vitnið A gaf skýrslu fyrir dóminum í Barnahúsi en vitnið baðst undan því að koma í dómshúsið. Voru ekki gerðar athugasemdir við það af hálfu málflytjenda. Vitnið kvaðst hafa búið heima hjá föður sínum en foreldrar hans væru skilin. Kvaðst vitnið hafa verið heima hjá sér umræddan dag þegar faðir þess hafi haft niðrandi ummæli um móður þess. Vitnið hafi reiðst föður sínum og farið á eftir honum fram á gang og ýtt við honum. Faðir vitnisins hafi þá kýlt vitnið í andlit og höfuð þannig að séð hafi á vitninu. Systir vitnisins hafi verið í heimsókn og gengið á milli og hringt á lögregluna. Hafi lögreglan komið skömmu síðar. Vitnið hafi þá verið að taka saman föggur sínar og verið með tölvu í bakpokanum. Hafi þá slegið í brýnu milli þeirra og vitnið meðal annars látið tölvu falla í gólfið.
Vitnið H lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa komið á heimili ákærða umrætt sinn. Lögreglan hafi rætt við aðila, feðgarnir hafi verið ósáttir en verið rólegir. Ágreiningur hafi verið um gleraugu föðurins sem hafi skemmst í pústrum á milli þeirra. Ákveðið hafi verið að fara með málið sem heimilisofbeldismál eftir viðræður við systur brotaþola. Hafi hún skýrt lögreglu frá því hvað hafi gerst á heimilinu en brotaþoli sjálfur hafi verið mjög lokaður og ekki tjáð sig mikið. Minnti vitnið að einhver roði hafi verið á andliti brotaþola þegar vitnið kom á heimilið en kvaðst ekki vera visst. Kvað vitnið frásögn G hafa verið stöðuga en hún hafi verið ósátt við föður sinn og sagt lögreglunni að þetta væri ekki í fyrsta sinn sem faðir þeirra legði hendur á brotaþola. Lögreglan hafi rætt við báða aðila en lítið hafi verið hægt að fá upp úr brotaþola. Þegar skýrslan hafi verið tekin af brotaþola heima hjá systur hans, G, hafi hann átt virkilega erfitt með að tjá sig. Hafi brotaþola síðan verið ekið á Heilbrigðisstofnun [...] í framhaldi.
Kvaðst vitnið hafa komið aftur á heimilið og þá hafi brotaþoli verið búinn að taka saman dót sitt til að fara að heiman og meðal annars tölvu sem ákærði hafi verið ósáttur við að hann tæki með sér. Brotaþoli hafi tekið tölvuna, haldið á henni á brjósthæð og sleppt henni í gólfið. Aðspurður hvort lögreglan hafi þurft að stía ákærða og brotaþola sundur í þetta skipti, kvaðst vitnið ekki muna það sérstaklega en í slíkum tilvikum sé reynt að passa upp á að það vindi ekki upp á sig. Aðspurt um framburð ákærða X um að brotaþoli hafi fengið áverkana í andliti eftir átök lögreglu við brotaþola, kvað vitnið það ekki vera rétt, engin átök hafi átt sér stað á milli brotaþola og lögreglu. Aðspurt um það hvort lögreglan hafi haldið höfði brotaþola upp við vegg með handleggnum, kvað vitnið það ekki vera rétt. Framburður brotaþola, um að lögreglan hafi tekið í hann þegar hann henti tölvunni í gólfið og haldið honum upp að vegg, var borinn undir vitnið. Kvað vitnið möguleika á að vitnið hafi verið að ræða við ákærða inni í íbúðinni ef þetta hafi átt sér stað en þar sem þeir hafi staðið hefði vitnið átt að sjá það. Svo hafi ekki verið. Vitnið kvaðst ekki muna eftir áverkum á brotaþola, þrátt fyrir að brotaþola hafi verið ekið á heilsugæsluna en lögreglumaðurinn sem var með vitninu í útkallinu hafi ekið brotaþola á heilsugæsluna á meðan vitnið ræddi við systur hans.
Vitnið I lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa farið á vettvang umrætt sinn vegna tilkynningar um heimilisofbeldi. Þar hafi feðgar verið ósáttir en stimpingar hafi orðið á milli þeirra. Þeir hafi farið með soninn á heimili systur hans en þar hafi frekari upplýsingar komið fram. Vitnið kvaðst hafa ekið brotaþola á heilbrigðisstofnun til skoðunar. Á vettvangi hafi ákærði, sonurinn og sambýliskona ákærða verið. Vitnið kvaðst muna eftir áverkum á brotaþola. Vitnið H hafi rætt við ákærða, brotaþola og G og tekið niður helstu upplýsingar. Aðspurt um þann framburð ákærða að lögreglumaður hafi ýtt brotaþola upp við vegg og brotaþoli þannig fengið áverkana í andlit þegar brotaþoli sótti dótið sitt, kvað vitnið það alrangt. Kvaðst vitnið hafa verið í anddyrinu og vitnið ýtt brotaþola frá ákærða en hann hafi ekki verið tekinn neinum tökum og engin líkamleg átök átt sér stað. Minnti vitnið að ákærði hafi verið í dyragættinni þar sem gengið sé inn í hol íbúðarinnar þegar það átti sér stað. Engin átök hafi verið við brotaþola en brotaþoli hafi verið æstur og vitnið ýtt brotaþola frá ákærða. Vitnið kvaðst ekki hafa þrýst andliti eða höfði brotaþola upp að veggnum, brotaþoli hafi snúið baki í vegginn. Aðspurt kvað vitnið brotaþola hafa tjáð sig mjög lítið og verið mjög lokaður á leiðinni á heilsugæslustofnunina. Vitnið kvað brotaþola hafa ætlað að taka tölvuna með sér og haldið því fram að hann hafi átt tölvuna en hann síðan tekið tölvuna upp úr bakpokanum og látið hana falla í gólfið.
Vitnið G gaf skýrslu fyrir dóminum og kvaðst hafa verið í heimsókn heima hjá ákærða umrætt sinn og setið inni í herbergi brotaþola þegar ákærði kom inn í herbergið og viðhafði mjög ljót orð um móður þeirra. Brotaþoli hafi reiðst og þeir báðir farið fram á gang. Brotaþoli hafi ýtt ákærða upp við hurð eða vegg en ákærði hafi slegið brotaþola til baka. Engin átök hafi átt sér stað inni í herberginu. Ákærði hafi gengið fram á svefnherbergisganginn, , brotaþoli farið á eftir honum og ýtt við ákærða. Ákærði hafi snúið sér við og lamið brotaþola. Brotaþoli hafi slegið til baka. Vitnið kvaðst hafa dregið bróður sinn niður. Ákærði hafi verið hægra megin við vitnið og brotaþoli vinstra megin og vitnið reynt að draga brotaþola niður með því að fara á bakið á honum. Brotaþoli hafi einhvern veginn snúið sér við og snúið að vitninu. Vitnið hafi setið á gólfinu og reynt að halda brotaþola niðri, sem þá hafi verið á hnjánum, en ákærði kýlt yfir öxlina á vitninu í andlit brotaþola. Brotaþoli hafi þá snúið að vitninu og reynt að slá til baka þegar ákærði sló yfir öxl vitnisins og brotaþola í vinstri kinnina. Vitnið kvaðst vera visst um að ákærði hafi slegið yfir hægri öxl þess og brotaþoli hafi fengið höggið í andlitið. Vitnið kvað J ekki hafa verið viðstadda átökin en vitnið hafi farið út og hringt á lögregluna. Vitnið kvaðst halda að J hafi verið inni í stofu þegar átökin voru en var ekki visst, en hún hafi hins vegar komið hlaupandi á eftir sér þegar vitnið var farið út og var búið að hringja í lögreglu. Vitnið hafi síðan hringt í móður sína og sagt henni frá atvikinu. Vitnið kvað brotaþola ekki hafa haft nein samskipti við föður sinn eftir þetta og vilji hann ekki ræða atvikið. Brotaþola hafi liðið illa þegar hann bjó hjá föður sínum.
Vitnið J, sambýliskona ákærða, gaf skýrslu fyrir dóminum og kvaðst hafa verið á leiðinni heim úr búðinni umrætt sinn og mætt G á leiðinni út frá þeim. Vitnið hafi komið heim og mætt X sem hafi beðið sig um að fara á eftir G og segja henni að ákærði ætli að hringja á lögregluna. Vitnið hafi gert það og G hafi sagt sér að ákærði hafi „komið og drullað yfir mömmu“ og þá hafi brotaþoli ráðist á ákærða og allt hafi orðið brjálað. G hafi sagt sér að hún væri búin að hringja í lögregluna. Vitnið hafi ekki séð átökin. Þegar vitnið hafi komið aftur heim hafi ákærði setið í sófa. Eftir að lögreglan var komin hafi brotaþoli komið fram úr herberginu með tösku með dóti í. Ákærði hafi þá sagt við brotaþola að hann tæki ekki tölvuna með sér. Brotaþoli hafi þá tekið fartölvuna upp úr töskunni og grýtt henni í gólfið og síðar hafi brotaþoli hlaupið í ákærða og báðir lögreglumennirnir þurft að hemja brotaþola. Þeir hafi tekið brotaþola, skellt honum upp við vegg og vitnið orðið virkilega hrætt og aldrei séð annað eins. Eldri sonur vitnisins hafi verið sofandi inni í herbergi og aldrei heyrt neitt. Hafi vitnið verið á hálfgerðu áfalli, það sé ekki vant því að sjá eins mikla reiði eins og hjá brotaþola. Vitnið hafi staðið inni í stofu og forstofan væri beint á móti. Báðir lögreglumennirnir hafi haldið brotaþola upp við vegg. Vitnið hafi séð annan handlegginn á lögreglumanninum spenntan upp við kinnbein á brotaþola, sem hafi verið með andlitið við vegginn. Brotaþoli hafi staðið á hlið upp við vegginn en allt hafi gerst svo hratt að vitnið gat ekki lýst því hvort brotaþoli hafi verið með bringu eða bak upp við vegginn. Vitnið kvaðst bara muna að brotaþoli hafi verið með vinstri kinn upp að veggnum og báðir lögreglumennirnir verið á brotaþola og annar lögreglumaðurinn með annan handlegginn upp við hægra kinnbein brotaþola. Herbergið sé mjög lítið og þeir hafi verið þrír þar inni. Skellurinn hafi verið svo mikill og plássið lítið. Annar lögreglumaðurinn hafi farið með ákærða inn í eldhús og hinn lögreglumaðurinn hafi verið með brotaþola áfram inni í forstofu. Aðspurt um framburð vitnisins hjá lögreglu um frásögn G, kvað vitnið hann vera réttan, G hafi sagt sér strax að ákærði hafi slegið brotaþola. Vitnið kvað þau ákærða hafa byrjað sambúð í október 2013. Kvað vitnið mikla samskiptaörðugleika hafa verið á heimilinu milli ákærða, brotaþola og vitnisins þar sem brotaþoli hafi verið mikið í tölvu á nóttunni og illa gengið að vekja drenginn í skóla á morgnana. Feðgarnir hafi samt verið góðir vinir en brotaþoli notað það á ákærða að hann myndi bara flytja til móður sinnar ef árekstrar voru.
Vitnið K, móðir brotaþola, gaf símaskýrslu fyrir dóminum og kvað rétt vera að dóttir hennar, G, hafi hring í sig þennan morgun og sagt sér að ákærði hafi ráðist á brotaþola umrætt sinn. Dóttir hennar hafi verið í geðshræringu og sagt sér að hún væri búin að hringja á lögregluna. G hafi sagt sér að hún hafi lagst ofan á bróður sinn til að verja hann höggum frá ákærða. Vitnið kvaðst hafa rætt við brotaþola sama dag og daginn eftir en brotaþoli hafi greinilega verið hræddur. Kvað vitnið þetta mál hafa haft mikil áhrif á brotaþola en hann hafi flutt til sín til [...] eftir atvikið.
Vitnið L læknir gaf símaskýrslu og sagði drenginn hafa sagt við sig að deilur hafi verið á milli þeirra feðga vegna móður drengsins. Í kjölfar af því hafi faðirinn ráðist á drenginn en systir hans gengið á milli. Þá hafi faðirinn átt að hafa kýlt drenginn í andlit. Kvaðst vitnið hafa skrifað „abrassion“ í vottorðið sem merki að um núningsáverka sé að ræða í húðinni en það gæti verið eftir einhvers konar högg. Ekkert mar hafi verið sjáanlegt. Þá hafi drengurinn einnig kvartað yfir eymslum í hvirfli en það hafi engir áverkar verið sýnilegir þar. Aðspurt kvað vitnið áverkann í andlitinu vel geta verið eftir högg í andlitið.
Ákæruliður II.
Ákærði X kvað fyrir dóminum rétt vera að hann hafi tilkynnt hjólið horfið hjá Lýsingu ehf. Ákærði hafi farið illa út úr hruninu og hjólið verið keypt með gengistryggðu láni og lánið hækkað mikið. Ákærði hafi áður skilað jeppa til Lýsingar þar sem hann hafi setið eftir með miklar skuldir og þá fengið þá flugu í hausinn að koma hjólinu fyrir. Kvað hann rétt vera að móðir sín, sem sé skráð fyrir hjólinu, hafi aldrei komið nálægt þeim viðskiptum. Í október 2008 hafi ákærði farið til tryggingafélagsins Varðar og sagt þeim að hjólið hafi horfið í á í ágústmánuði. Hafi hann þá reiknað með því að þær upplýsingar færu frá Verði til Lýsingar. Hafi ákærði verið búinn að hugsa þetta í nokkra daga áður en hann gerði þetta því að hann hafi verið arfavitlaus út í Lýsingu. Hjólið hafi verið lokað inni í bílskúr hjá ákærða næstu þrjú árin. Minnti ákærða að hann hafi flutt úr [...] árið 2010 eða 2011 og þá hafi hann misst bílskúrinn og beðið vin sinn E að geyma hjólið fyrir sig. E hafi aldrei notað hjólið en E hafi skipt um geymi og sett hjólið á ný dekk og lánað sér fyrir þeim útlátum. Það hafi hins vegar alltaf verið planið að nota hjólið seinna.
Forsendur og niðurstöður.
Ákæruliður I.
Ákærði er sakaður um að hafa veist að brotaþola með nánar tilgreindum afleiðingum, eins og lýst er í þessum ákærulið, þann 18. desember 2013. Ákærði neitar sök. Vitnin A og G, systir brotaþola, báru bæði fyrir dóminum að ákærði hafi komið inn í herbergi til brotaþola, farið niðrandi orðum um móður þeirra og í framhaldi hafi brotaþoli farið á eftir ákærða fram á svefnherbergisgang þar sem ákærði hafi slegið brotaþola í andlitið. Styður framburður sambýliskonu ákærða þessa frásögn þar sem hún sagði bæði fyrir lögreglu og dóminum að vitnið G hafi sagt við sig, þegar G var á leið út af heimilinu eftir atlöguna, að ákærði hefði „drullað“ yfir móður þeirra og ákærði í framhaldi kýlt brotaþola. Þá styður áverkavottorð og ljósmyndir þennan framburð. Framburður ákærða og sambýliskonu hans um að brotaþoli hafi fengið áverka í átökum við lögreglu þegar brotaþoli lét tölvu falla í gólfið er í öllu ósamrýmanlegur framburði brotaþola og lögreglu og ekki í samræmi við framburð vitnisins J fyrir lögreglu, þar sem hún minnist ekkert á þau átök. Þá áttu þau samskipti lögreglu, ákærða og brotaþola sér stað daginn eftir, eða 19. desember 2013, en áverkarnir voru á ákærða við komu á heilsugæslu þann 18. desember 2013. Verður þessi síðari framburður ákærða að engu hafandi. Þá er allur framburður ákærða og sambýliskonu hans um þetta atvik ósamrýmanlegur og ótrúverðugur. Telur dómurinn að fram sé komin lögfull sönnun þess að ákærði hafi veist að brotaþola eins og segir í ákæruliðnum, með þeim afleiðingum sem þar er lýst. Verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi og er hún réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Ákæruliður II.
Ákærði játaði sök í þessum ákærulið. Er játning hans í samræmi við gögn málsins og framburð vitna og taldi dómari ekki ástæðu til að draga í efa að játning hans væri sannleikanum samkvæm. Verður ákærði sakfelldur fyrir þessa háttsemi eins og henni er lýst í ákæruliðnum og er hún réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Brot ákærða samkvæmt ákærulið I er ófyrirleitið og á ákærði sér engar málsbætur þrátt fyrir að hann beri við hegðunarerfiðleikum brotaþola en brotin beindust að syni ákærða, þá 15 ára gömlum. Telur dómurinn atlögu ákærða að barninu óforskammaða og ófyrirleitna. Ákærði, sem var í uppeldishlutverki og brotaþoli átti að geta reitt sig á, brást þannig algjörlega skyldum sínum gagnvart brotaþola. Verður refsing ákærða metin með hliðsjón af þessu, sbr. 3. mgr. 70. gr., sbr. og 77. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Er brot ákærða réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæru.
Þá er brot ákærða samkvæmt ákærulið II framið af einbeittum ásetningi. Hefur ákærði engar málsbætur vegna þeirrar háttsemi.
Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur honum nokkrum sinnum verð gerð refsing fyrir ölvunarakstur og umferðarlagabrot. Hafa þau brot ekki áhrif við ákvörðun refsingar nú.
Er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í sjö mánuði. Eftir atvikum þykir rétt að skilorðsbinda fjóra mánuði refsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum þremur árum, frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Að þessum niðurstöðum fengnum ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar. Samkvæmt yfirliti yfir sakarkostnað er hann 26.922 krónur vegna læknisvottorðs. Þá er ákærði dæmdur til greiðslu málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Gunnhildar Pétursdóttur hdl., sem eru talin hæfileg 694.400. krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ákærði greiði þóknun réttargæslumanns brotaþola, Maríu Rúnarsdóttur hdl., 434.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Einkaréttarkröfur.
Í málinu gerir María Rúnarsdóttir hdl., skipaður réttargæslumaður brotaþola, miskabótakröfu á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga úr hendi ákærða að fjárhæð 800.000 krónur auk vaxta. Var bótakrafan kynnt ákærða 12. maí 2014. Hafnaði ákærði bótakröfunni. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir líkamsárás og brot á barnaverndarlögum og beinist brot ákærða að barni hans. Er atlaga hans í alla staði ófyrirleitin og óafsakanleg. Hefur ákærði með háttsemi sinni valdið brotaþola miska og þjáningum og verður hann dæmdur til að greiða brotaþola 400.000 krónur í miskabætur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga frá 18. desember 2013 til 12. júní 2014, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
Dómsorð.
Ákærði, X, sæti fangelsi í sjö mánuði en fresta skal fullnustu fjögurra mánaða refsingarinnar, og skal hún niður falla að liðnum þremur árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, sem er samtals 721.322 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Gunnhildar Pétursdóttur hdl., 694.400 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ákærði greiði réttargæsluþóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Maríu Rúnarsdóttur hdl., 434.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ákærði greiði K, fyrir hönd brotaþola, A, 400.000 krónur í miskabætur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 18. desember 2013 til 12. júní 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.