Hæstiréttur íslands
Mál nr. 305/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaður
- Gjafsókn
|
|
Miðvikudaginn 11. júní 2008. |
|
Nr. 305/2008. |
K(Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl.) gegn M (sjálfur) |
Kærumál. Málskostnaður. Gjafsókn.
M höfðaði mál gegn K og krafðist þess að honum yrði einum dæmd forsjá sonar þeirra. Eftir að kröfu hans um bráðabirgðaforsjá var hafnað felldi hann málið einhliða niður. M hafði áður höfðað mál gegn K og krafist forsjá sonarins, sem ekki náði fram að ganga. Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal stefnandi greiða málskostnað ef mál er fellt niður af annarri ástæðu en þeirri að stefndi efndi skyldu, sem hann er krafinn um í máli. Að virtum öllum atvikum var M dæmdur til að greiða 500.000 krónur í málskostnað í héraði sem renna skyldi í ríkissjóð. Ákvæði hins kærða úrskurðar um gjafsóknarkostnað var staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. maí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. maí 2008, þar sem felldur var niður málskostnaður og kveðið á um gjafsóknarkostnað sóknaraðila í máli varnaraðila gegn sóknaraðila, sem varnaraðili felldi niður. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að greiða málskostnað, sem renni í ríkissjóð, og að þóknun lögmanns hennar samkvæmt gjafsóknarleyfi verði dæmd í samræmi við framlagðan málskostnaðarreikning.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili höfðaði mál gegn sóknaraðila með stefnu 5. júní 2007 og krafðist þess að honum yrði einum dæmd forsjá sonar þeirra. Hann fór þess jafnframt á leit að honum yrði falin til bráðabirgða forsjá sonarins þar til endanlegur dómur gengi í málinu. Undir rekstri málsins voru teknar skýrslur af drengnum og féll úrskurður héraðsdóms um forsjá til bráðabirgða 28. mars 2008. Var kröfu varnaraðila hafnað. Í þinghaldi 30. apríl 2008 lýsti varnaraðili yfir að hann felldi málið niður. Hann hafði áður höfðað mál gegn sóknaraðila á árinu 2006 þar sem gerð var krafa um forsjá sonarins, sem ekki náði fram að ganga. Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 skal stefnandi greiða málskostnað ef mál er fellt niður af annarri ástæðu en þeirri að stefndi efni skyldu, sem hann er krafinn um í máli. Að virtum öllum atvikum verður varnaraðili dæmdur til að greiða málskostnað í héraði, sem er hæfilega ákveðinn 500.000 krónur og rennur í ríkissjóð.
Sóknaraðili krefst þess í annan stað að þóknun lögmanns hennar verði dæmd í samræmi við framlagðan málskostnaðarreikning, sem taki mið af tímaskráningu þeirrar vinnu, sem lögð hafi verið í málið. Samkvæmt hinum kærða úrskurði var þóknun lögmanns hennar ákveðin 1.494.000 krónur. Í kæru sóknaraðila er tekið fram að í fjárhæð málskostnaðarreiknings felist allur málskostnaður vegna „forsjármálsins og þeirra mála sem því tengdust“, en meðal þeirra er getið um farbannsmál og kröfur um nálgunarbann og afskipti barnaverndaryfirvalda. Fyrir liggur að ágreiningur málsaðila hefur birst með ýmsum hætti, en ekki verður fallist á með sóknaraðila að kostnaður vegna mála sem „tengdust“ dómsmálinu, sem til úrlausnar var, falli undir gjafsóknarleyfi sóknaraðila. Verður niðurstaða hins kærða úrskurðar um gjafsókn sóknaraðila staðfest.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, en hans er ekki krafist af hálfu sóknaraðila.
Dómsorð:
Varnaraðili, M, greiði 500.000 krónur í málskostnað, sem renni í ríkissjóð.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um gjafsóknarkostnað er staðfest.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. maí 2008.
Þetta mál, sem var tekið til úrskurðar um ákvörðun málskostnaðar og gjafsóknarkostnaðar, er höfðað með stefnu þingfestri 13. júní 2007 af M, kt. [...], [...], Kópavogi, á hendur K, kt. [...], [heimilisfang].
Dómkröfur stefnanda voru þær að honum einum yrði dæmd forsjá yfir syni málsaðila, A, kt. [...]. Ennfremur var krafist málskostnaðar úr hendi stefndu.
Stefnda krafðist sýknu af kröfum stefnanda og að ákveðið yrði með dómi að forsjá sonar málsaðila yrði hjá stefndu. Þess var ennfremur krafist að kveðið yrði á um inntak umgengnisréttar samkvæmt tillögum stefndu svo og að stefnandi yrði dæmdur til að greiða henni málskostnað eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. Jafnframt var þess krafist að við ákvörðun málskostnaðar yrði fjárhæð hans hækkuð með heimild í 2. mgr. 131. gr. laga um meðferð einkamála.
Á dómþingi 30. apríl sl. felldi stefnandi málið niður. Í ljósi yfirlýsingar stefnanda um niðurfellingu málsins óskaði stefnda eftir því að sér yrði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
I.
Frá því í lok árs 2003 hefur aðila þessa máls greint á um það hvort þeirra skuli fara með forsjá sonar þeirra A, sem fæddur er í september 2000. Hafa þau af þeim sökum nokkrum sinnum leitað til dómstóla með ágreining sinn.
Það forsjármál sem nú hefur verið fellt niður höfðaði stefnandi einkum á grundvelli þeirra röksemda að með honum hefði vaknað grunur um það að sambýlismaður stefndu hefði í frammi kynferðislega tilburði að drengnum ásjáandi.
Vegna þessara grunsemda tilkynnti stefnandi til barnaverndarnefndar [...] meint kynferðisbrot gegn syni málsaðila þann 6. janúar sl. Í tilefni af þeirri tilkynningu var tekið könnunarviðtal við drenginn í Barnahúsi 11. janúar sl. Á grundvelli þess sem kom fram í könnunarviðtalinu lagði sóknaraðili þann 28. janúar sl. fram kröfu um að honum yrði falin forsjá drengsins til bráðabirgða þar til endanlegur dómur gengi í forsjármálinu. Framburður drengsins í könnunarviðtalinu var talinn gefa tilefni til skýrslutöku fyrir dómi. Fór hún fram 8. febrúar sl.
Aðalmeðferð vegna þessarar kröfu stefnanda um bráðabirgðaforsjá fór fram 12. mars sl. Þá tóku sæti í dóminum sérfróðir meðdómsmenn, tveir sálfræðingar. Niðurstaða hinna sérfróðu meðdómsmanna var sú að svo veigamikill munur væri á framburði drengsins í könnunarviðtalinu frá 11. janúar og í þeirri skýrslu sem hann gaf fyrir dómi 8. febrúar að ekki væri komin fram sönnun þess að drengurinn hefði orðið vitni að kynferðislegum athöfnum. Vegna þessa og þess að stefnda hafði undirritað meðferðaráætlun hjá Félagsmálanefnd [...], þar sem hún samþykkti að tryggja að meintur gerandi kæmi ekki á heimili hennar né nálægt drengnum, og með vísan til þess grundvallarviðmiðs að raska skuli sem minnst högum barns vegna tímabundinna ákvarðana, nema benda megi á sérstakar aðstæður, sem réttlæti slíka röskun, var það niðurstaða bráðabirgðaforsjármálsins að forsjá og umgengni skyldi haldast óbreytt þar til endanlegur dómur gengi í forsjármálinu. Samkvæmt því færi stefnda áfram með forsjá drengsins en stefnandi fengi drenginn til sín tvær helgar af hverjum þremur.
Eins og áður greinir ákvað stefnandi að fenginni þessari niðurstöðu að halda ekki áfram með forsjármálið. Fyrir því færði hann meðal annars þau rök að útséð væri um það að sonur hans fengi sanngjarna málsmeðferð fyrir dómstólum. Þar sem niðurstaða bráðabirgðaforsjármálsins hefði verið sú að hvorugur málsaðila hefði náð fram sínum kröfum taldi hann að rétt væri að málskostnaður væri felldur niður.
II.
Eins og atvikum þessa máls er háttað þykir rétt að hvor málsaðili um sig beri sinn kostnað af rekstri málsins. Með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 28. ágúst sl., var stefndu veitt gjafsókn í málinu fyrir héraðsdómi. Allur kostnaður gjafsóknarhafa greiðist því úr ríkissjóði.
Við þingfestingu þess máls sem nú hefur verið fellt niður þann 13. júní 2007 lagði stefnandi jafnframt fram kröfu um farbann, þ.e. að ekki mætti fara með son málsaðila úr landi. Ennfremur var lögð fram krafa um bráðabirgðaforsjá stefnanda þar til endanlegur dómur gengi í forsjármálinu. Að auki gerði stefnda kröfu um það að stefnanda yrði gert að leggja fram málskostnaðartryggingu.
Krafa stefndu um málskostnaðartryggingu var flutt og tekin til úrskurðar 15. júní. Stefnandi féll frá kröfu sinni um farbann þann 18. júní. Eftir að stefnda hafði skilað greinargerð vegna kröfu stefnanda um bráðabirgðaforsjá 10. júlí sl. féll stefnandi frá þeirri kröfu. Á dómþingi 4. september lagði stefnda fram greinargerð í forsjármálinu sjálfu. Ennfremur krafðist stefnandi dómkvaðningar matsmanns og að beiðni þess matsmanns var dómkvaddur annar matsmaður til að vinna með hinum fyrri að matsgerð í málinu. Svo sem áður greinir lagði stefnandi fram nýja kröfu um bráðabirgðaforsjá á dómþingi 28. janúar sl. sem einnig kallaði á framlagningu greinargerðar, gagna og málflutning.
Með hliðsjón af fyrirtökum í þessu máli og ofangreindum kröfum í því sem stefnda hefur þurft að bregðast við og hafa verið teknar til úrskurðar þykir málflutningsþóknun lögmanns stefndu, Þorbjargar Ingu Jónsdóttur hrl., hæfilega ákveðin 1.494.000 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til skyldu stefndu til að greiða virðisaukaskatt af þóknun lögmannsins. Einnig greiðist úr ríkissjóði útlagður kostnaður gjafsóknarhafa vegna dómtúlks, 24.277 krónur.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefndu, sem er þóknun lögmanns hennar, Þorbjargar Ingu Jónsdóttur, hrl., 1.494.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur og útlagður kostnaður, 24.277 krónur, greiðist úr ríkissjóði.