Hæstiréttur íslands

Mál nr. 255/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Miðvikudaginn 5

 

Miðvikudaginn 5. júní 2002.

Nr. 255/2002.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. maí 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. júní sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. maí 2002, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 12. júlí nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. maí 2002.

Lögreglan í Reykjavík hefur krafist þess að X verði á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 úrskurðaður til að sæta áfram gæslu­varðhaldi uns dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til föstudagsins 12. júlí 2002, kl. 16.00.

Af hálfu kærða er þess krafist að kröfu lögreglustjórans í Reykjavík verði hafnað.

Í kröfu lögreglunnar kemur fram að undanfarna mánuði hafi lögregla og dómstólar margoft þurft að hafa afskipti af kærða vegna ýmissa afbrota og hafi hann hlotið þrjá dóma. Hinn 29. nóvember sl. 30 daga fangelsi skilorðsbundið í tvö ár fyrir þjófnað og tilraun til þjófnaðar og 29. janúar sl. 75 daga fangelsi skilorðsbundið í tvö ár, fyrir alls sex þjófnaði. Kærði hafi unað báðum dómunum. Í seinna málinu hafi ekki tekist að ljúka öllum þeim málum, sem kærði hafi komið við sögu í, fram að þeim tíma og því eftir að hann hafi framið enn á ný innbrot nú tvö innbrot aðfaranótt 10. febrúar sl. verið gerð krafa af hálfu um að hann sætti gæsluvarðhaldi svo unnt væri að ljúka málum hans. Hafi hann verið úrskurðaður í héraðsdómi Reykjavíkur í sex vikna gæsluvarðhald á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála. Á gæsluvarðhaldstímanum hafi verið gefin út ákæra í 11 liðum á hendur kærða og þann 26. mars sl., síðasta dag gæsluvarðhaldsins, hafi hann hlotið sex mánaða óskilorðsbundinn fangelsisdóm. Kærði hafi í framahaldi af dómnum verið leystur úr gæsluvarðhaldinu.

Við meðferð síðastgreinda málsins fyrir héraðsdómi hafi kærði játað allar sakargiftir og sagst vera hættur fíkniefnaneyslu og afbrotum og þeirri óreglu sem því fylgdi. Af hálfu ákæruvalds hafi því verið haldið fram m.a. að vegna hins unga aldurs kærða þyrfti hann aðhald við að koma sér á rétta braut í lífinu og óskilorðsbundið fangelsi gæfi kærða þann möguleika að fullnusta refsinguna með samfélagsþjónustu undir eftirliti Fangelsismálastofnunar. Við dómsuppsögu hafi kærði tekið sér lög­mæltan áfrýjunarfrest. Undir lok áfrýjunarfrestsins 23. apríl sl. hafi kærði áfrýjað málinu til Hæstaréttar.

Kærði hafi verið handtekinn enn á ný 20. apríl sl. vegna aðildar hans að ráni við Vallarhús 28 í Reykjavík, þar sem þrír menn hafi rænt peningum, pizzu og kókflösku af pizzasendli. Daginn eftir hafi kærði verið úrskurðaður í Héraðsdómi Reykjavíkur í sex vikna gæsluvarðhald á grundvelli c-liðar 1. mgr. oml. Kærði hafi kært úrskurðinn til Hæstaréttar sem hafi staðfest hann 24. apríl sl. með vísan til forsendna hans. Hinn 23. maí sl. hafi ríkissaksóknari gefið út ákæru á hendur kærða og meðkærðu vegna ránsins. Eftir að kærði hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald hafi hann játað við yfirheyrslu hjá lögreglu að hafa 4. apríl sl. brotist inn í bifreiðina [...] og stolið úr henni ýmsum munum. Þá hafi kærði einnig játað að hafa sama dag notað í nokkur skipti debetkort eiganda bifreiðarinnar, sem hann hefði tekið ófrjálsri hendi í bifreiðinni. Í gær hafi lögreglustjórinn í Reykjavík gefið út ákæru á hendur kærða vegna þessara brota og einnig vegna þjófnaða á bensíni og díselolíu í júlímánuði á síðasta ári.

Lögreglan kveður ljóst að brotaferill kærða sé orðinn verulegur þrátt fyrir ungan aldur. Þá hafi kærði rofið skilorð dómanna frá því í nóvember og janúar sl. fljótlega eftir að þeir hafi verið kveðnir upp og haldið áfram afbrotum þrátt fyrir dóminn 26. mars sl. Af framansögðu og af brotaferli kærða verði ekki annað talið en að yfirgnæfandi líkur séu á að hann haldi áfram brotastarfsemi sinni fari hann frjáls ferða sinna og því sé nauðsynlegt að hann sæti gæsluvarðhaldi svo koma megi í veg fyrir frekari afbrot á meðan málum hans sé ekki lokið.

Með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur þann 21. apríl sl. og dómi Hæstaréttar þann 24. apríl sl. hafi verið fallist á að skilyrði c-liðar 1. mgr. 103. gr. oml. væru fyrir hendi og telja verði þessi lagaskilyrði enn fyrir hendi.

Lögreglan kveður kærða hafa verið ákærðan fyrir brot gegn 244. gr., 248. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til alls framanritaðs, framlagðra gagna og loks með vísan til c-liðar 1. mgr. 103. gr., laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, sé þess farið á leit að krafan verði tekin til greina eins og hún sé fram sett.

Af hálfu verjanda kærða er bent á að í dómi sem kveðinn hafi verið upp yfir kærða 26. mars sl., hafi tveir fyrri dómar á hendur honum verið dæmdir upp og honum ákvörðuð sex mánaða fangelsisrefsing. Þeim dómi hafi verið áfrýjað til Hæstaréttar. Þurfi kærði að sæta gæsluvarðhaldi, eins og krafist sé, hafi hann setið um þrjá mánuði í gæsluvarðhaldi vegna ódæmdra mála og sex vikur til viðbótar vegna dæmdra mála sem þó hafi verið áfrýjað. Með kröfunni sé verið að misnota heimildir til gæsluvarðhalds. Taldi verjandi hvorki efnis- né lagarök fyrir gæsluvarðhaldi.

Niðurstaða

Tvær ákærur hafa verið gefnar út á hendur kærða vegna meints ráns, þjófnaðarbrota og fjársvika. Málin hafa verið send Héraðsdómi Reykjavíkur en hafa ekki verið þingfest. Kærði hefur játað aðild sína að ránsbrotinu  og eru sterkar líkur eru fyrir því að brot þetta verði talið varða við 252. gr. almennra hegningarlaga. Þá hefur hann játað á sig þjófnað og skjalafals. Tvö hinna meintu brota voru framin 4. og 20. apríl sl. en kærði var látinn laus úr gæsluvarðhaldi eftir að hafa verið dæmdur í 6 mánaða fangelsi 26. mars sl.

Eins og brotaferli kærða hefur verið háttað síðasta árið verður að fallast á með lögreglu að verulegar líkur á því að kærði muni halda áfram brotaferli sínum gangi hann laus. Með tilliti til alvarleika þeirra brota sem kærði hefur nýlega játað á sig þykir mega fallast á að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi þótt hann hafi þegar setið í 12 vikna gæsluvarðhaldi vegna brota sem endanlegur dómur hefur enn ekki gengið um. Er því fallist á kröfu lögreglustjórans í Reykjavík um að kærði sæti gæsluvarðhaldi samkvæmt c- lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 svo sem krafist er.

Sigurður T. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð

Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til föstudagsins 12. júlí 2002, kl. 16.00.