Hæstiréttur íslands

Mál nr. 417/2010


Lykilorð

  • Verksamningur
  • Tómlæti
  • Málshraði
  • Aðfinnslur


Fimmtudaginn 24. febrúar 2011.

Nr. 417/2010.

Vélsmiðja Orms og Víglundar ehf.

(Jón Auðunn Jónsson hrl.)

gegn

Útgerðartækni ehf.

(Guðjón Ármann Jónsson hrl.)

og gagnsök

Verksamningur. Tómlæti. Málshraði. Aðfinnslur.

V ehf. tók að sér með verksamningi að vinna endurbætur á skipinu S, sem ætlað var til ferjusiglinga milli Grímseyjar og lands. Þegar V ehf. gerði tilboð í endurbætur á skipinu fékk félagið Ú ehf. sem undirverktaka í ýmsa verkþætti. Ú ehf. höfðaði mál gegn V ehf. til heimtu ætlaðrar vangoldinna verklauna, samkvæmt lokareikningi, vegna vinnu félagsins í þágu V ehf. við ýmis aukaverk á verktímanum, en vinna V ehf. við endurbætur á S reyndist umfangsmeiri en verksamningur gerði ráð fyrir. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að upplýst væri að V ehf. hefði óskað eftir að Ú ehf. ynni ýmis verkefni til viðbótar þeirri vinnu sem upphaflega var um samið. V ehf. hefði innt af hendi greiðslur til Ú ehf. á verktímanum, eftir því sem fyrrnefnda félaginu þótti hæfilegt. Með hliðsjón af atvikum máls hefði V ehf. ekki getað dulist að uppgjör hefði átt eftir að fara fram vegna þeirra aukaverka sem Ú ehf. hefði verið falið að vinna. Yrði ekki fallist á að Ú ehf. hefði vegna tómlætis glatað rétti til að leggja fram lokareikning, þótt félagið hefði fyrst gert svo um tveimur mánuðum eftir að V ehf. afhenti skipið. Þá hefði V ehf. ekki tekist sönnun um að grundvöllur kröfu Ú ehf. væri rangur eða ósanngjarn. Var krafa Ú ehf. því tekin til greina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. júní 2010. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda, en til vara lækkunar á henni.  Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 24. ágúst 2010. Hann krefst staðfestingar héraðsdóms um annað en málskostnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I

 Gagnáfrýjandi höfðaði mál þetta fyrir héraðsdómi til heimtu ætlaðrar skuldar samkvæmt reikningi 17. mars 2008 að fjárhæð 5.203.079 krónur. Þá fjárhæð taldi hann vangoldin verklaun ásamt virðisaukaskatti vegna vinnu starfsmanna sinna í þágu aðaláfrýjanda, en hann hafði tekið að sér með verksamningi að vinna endurbætur á skipinu Sæfara, sem ætlað var til ferjusiglinga milli Grímseyjar og lands. Þegar aðaláfrýjandi gerði tilboð í endurbætur á skipinu, sem mun hafa verið í janúar 2006, leitað hann eftir tilboði gagnáfrýjanda sem undirverktaka síns í ýmsa verkþætti, er hann taldi sig ekki geta unnið sjálfur. Ekki er umdeilt að málsaðilar sömdu munnlega um að gagnáfrýjandi skilaði 63 verkteikningum og skyldi aðaláfrýjandi greiða 30.000 krónur fyrir hverja eða samtals 1.890.000 krónur. Óumdeilt er að þessi munnlegi samningur var reistur á áætlun aðaláfrýjanda um verkið. Ekki er heldur um það deilt að aðaláfrýjandi óskaði eftir því við Örn Marelsson, fyrirsvarsmann gagnáfrýjanda, að hann sinnti ýmsum aukaverkum á verktímanum, sem fólust í teiknivinnu, gerð útboðsgagna vegna einstakra verkþátta, innkaupum á búnaði í skipið, setu á verkfundum, ráðningu manna til að sinna sérhæfðum störfum og samskiptum við ýmsa viðskiptamenn meðal annars seljendur búnaðar og þjónustu. Aðaláfrýjandi samþykkti að greiða gagnáfrýjanda 1.540.000 krónur vegna hönnunar og teikninga á körmum.

 Aðaláfrýjandi greiddi gagnáfrýjanda vegna vinnu hans 2.800.000 krónur í sex greiðslum frá júní til desember 2006 og 3.050.000 krónur í sjö greiðslum frá mars til desember 2007, eða samtals 5.850.000 krónur. Annar fyrirsvarsmanna aðaláfrýjanda lýsti því í skýrslu fyrir héraðsdómi að hann hafi áætlað að með þessu fengi gagnáfrýjandi að fullu greitt fyrir störf sín við verkið. Gagnáfrýjandi gerði reikning eftir móttöku hverrar greiðslu um sig og sendi aðaláfrýjanda. Á fyrstu átta reikningana var ritað að um væri að ræða teiknivinnu vegna ferju, á einn var ritað ,,Reikningur samkv. tilboði“ en síðustu fjórir sagði vera vegna vinnu við Sæfara.

Vinna aðaláfrýjanda við endurbætur á Sæfara reyndist umfangsmeiri en verksamningur gerði ráð fyrir meðal annars vegna þess að ástand skipsins, sem keypt hafði verið notað frá Írlandi, reyndist lakara en talið var og vegna síðar fram kominna óska um aukinn búnað í skipið. Greindi aðaláfrýjanda á við verkkaupa um greiðslur fyrir verkið. Skipið mun hafa verið afhent verkkaupa með samkomulagi í janúar 2008, án þess að endurbótum væri að fullu lokið. Mun ekki enn hafa verið leyst úr ágreiningi um verklaun aðaláfrýjanda fyrir verkið.

Gagnáfrýjandi sendi aðaláfrýjanda lokareikning sinn, eins og áður greinir, 17. mars 2008 og er í málinu deilt um skyldu aðaláfrýjanda til greiðslu hans.

II

Með lokareikningi gagnáfrýjanda fylgdi ,,heildarsamantekt“ hans á unnum tímum Arnar Marelssonar og aðstoðarmanns árin 2006 og 2007 og upplýsingar um tímagjald þeirra, 7.000 krónur vegna vinnu hins fyrrnefnda, en 2.700 krónur vegna vinnu aðstoðarmannsins. Þá fylgdi og listi yfir innborganir. Þegar aðaláfrýjandi féllst ekki á að greiða reikninginn höfðaði gagnáfrýjandi málið í héraði og krafðist greiðslu reikningsfjárhæðarinnar.

Í héraðsgreinargerð aðaláfrýjanda reisir hann sýknukröfu sína á þeim málsástæðum að gagnáfrýjandi sé bundinn af tilboði sínu, aðaláfrýjandi hafi þegar ofgreitt gagnáfrýjanda vegna vinnu hans og áskilið sér rétt til að endurheimta það sem ofgreitt væri, aðaláfrýjandi hafi aldrei samþykkt að greiða fyrir nein aukaverk, en þó greitt fyrir vinnu gagnáfrýjanda við áðurnefnda karma, og að krafa gagnáfrýjanda sé allt of seint fram komin og gagnáfrýjandi hafi, hvað sem öðru líði, glatað rétti til að hafa hana uppi vegna tómlætis.

III

Eins og greinir að framan liggur fyrir að fyrirsvarsmaður aðaláfrýjanda óskaði eftir að gagnáfrýjandi ynni ýmis verkefni til viðbótar þeirri teiknivinnu, sem upphaflega var um samið. Beiðnir um aukaverk voru ekki skriflegar og samskipti í tengslum við þau ekki formleg. Í héraðsgreinargerð aðaláfrýjanda er því ekki sérstaklega mótmælt að gagnáfrýjandi hafi unnið þá tíma, sem hann krefur um greiðslu fyrir. Þá liggur einnig fyrir að á verktímanum greiddi aðaláfrýjandi innborganir á reikning gagnáfrýjanda, sem aðaláfrýjandi sjálfur taldi hæfilegar. Gat honum ekki dulist að uppgjör átti eftir að fara fram vegna aukaverka sem gagnáfrýjanda hafði verið falið að vinna. Verður samkvæmt þessu ekki fallist á að gagnáfrýjandi hafi vegna tómlætis glatað rétti til að leggja fram lokareikning, þótt hann hafi fyrst sent lokareikning um tveimur mánuðum eftir að aðaláfrýjandi afhenti skipið. Aðaláfrýjandi hefur ekki sannað að tímafjöldi sá, sem gagnáfrýjandi krefst greiðslu fyrir í málinu, sé rangur. Þá hefur hann hvorki sannað að samið hafi verið um fjárhæð tímagjalds í upphafi né að það tímagjald, sem gagnáfrýjandi krefur um, sé ósanngjarnt, sbr. til hliðsjónar meginreglu 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup.

Samkvæmt framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um skyldu aðaláfrýjanda til að greiða gagnáfrýjanda þá fjárhæð sem hann krefst með dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði. Þá verður fallist á kröfu gagnáfrýjanda um málskostnað í héraði og verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað þar fyrir dómi og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Það athugast að málið var þingfest í héraði 4. júní 2008. Það var síðan tekið fyrir fjórum sinnum þar til aðaláfrýjandi lagði fram héraðsgreinargerð sína 8. október 2008 um fjórum mánuðum eftir þingfestingu. Eftir það var málið tekið fyrir níu sinnum og jafnan frestað, en  gagnaöflun var lýst lokið 12. maí 2009. Síðan var málið tekið fyrir fjórum sinnum og í síðustu fyrirtöku þess 15. apríl 2010, ellefu mánuðum eftir að gagnaöflun var lýst lokið, var loks kveðinn upp dómur.

Í 1. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er ráð fyrir því gert að mál sé jafnan tekið fyrir einu sinni, eftir að stefndi hefur lagt fram greinargerð sína, og það sé gert til þess að leita sátta og gefa aðilum kost á að koma að sýnilegum sönnunargögnum, sem ekki hafi verið tilefni eða tækifæri til að leggja fram áður. Er jafnframt ráðgert að í því þinghaldi sé aðalmeðferð málsins skipulögð. Í 2. mgr. sömu greinar er dómara veitt heimild til þess að verða við ósk aðila um að fresta málinu frekar ef hann telur það vænlegt til að ná sáttum eða nauðsynlegt til að afla gagna, sem ekki hefur áður gefist kostur að afla, en báðum aðilum beri að nýta þann frest jöfnum höndum. Segir að dómari skuli synja um frest að öðrum kosti, þótt aðilar séu sammála um að æskja hans. Samkvæmt þessu hefur héraðsdómari sjálfstæðar skyldur til þess að tryggja að mál sé rekið með hæfilegum hraða og ber að synja um fresti, sem ekki eru rök fyrir samkvæmt framansögðu. Rekstur máls þessa í héraði fór verulega í bága við framangreindar reglur og er það aðfinnsluvert.

Dómsorð:

 Aðaláfrýjandi, Vélsmiðja Orms og Víglundar ehf., greiði gagnáfrýjanda, Útgerðartækni ehf., 5.203.079 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. apríl 2008 til greiðsludags.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 1.000.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 15. apríl 2010.

Mál þetta sem er höfðað með birtingu stefnu 22. maí 2008 var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi þann 3. desember sl. en síðan endurupptekið að frumkvæði dómara til þess að taka aðilaskýrslu af Guðmundi Víglundssyni sem hann taldi nauðsynlegt að fá til þess að afla traustari upplýsinga um málsatvik sbr. 104. gr. laga nr. 91/1991. Var málið síðan endurflutt og dómtekið að nýju að nýju þann 1. mars sl.

Stefnandi er Útgerðartækni ehf., Fornubúðum 12, Hafnarfirði.

Stefndi er Vélsmiðja Orms og Víglundar ehf., Kaplahrauni 14-16, Hafnarfirði.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til þess að greiða honum skuld að fjárhæð 5.203.079 krónur, ásamt dráttarvöxtum frá 17. apríl 2008 til greiðsludags auk málskostnaðar að mati dómsins.

Stefndi, Vélsmiðja Orms og Víglundar ehf. krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda.

I.

Málavextir:

Í janúarmánuði 2006 buðu Ríkiskaup f.h. Vegagerðar ríkisins út viðgerðir og breytingar á nýrri Grímseyjarferju. Stefndi bauð í verkið en áður varð hann, sem eðlilegt er, að leita tilboða í ýmsa verkþætti sem hann gat ekki unnið sjálfur.  Meðal þessa var margskonar hönnun og þar sem stefnandi hafði um árabil veitt stefnda slíka þjónustu, leitaði stefndi til hans um tilboð í þennan verkþátt.

Tilboð stefnanda var einungis munnlegt en eins og fylgiskjal með dskj. nr. 3 ber með sér hljóðaði það á 1.890.000 krónur auk virðisaukaskatts. Á grundvelli útboðsgagnanna áætlaði stefnandi að um 63 teikningar væri að ræða og áskildi hann sér kr. 30.000,00 fyrir hverja teikningu.  Féllst stefndi á þetta tilboð og lagði það til grundvallar tilboðsgerð sinni til Ríkiskaupa.

Svo fór að stefndi hreppti verkið og var verksamningur við Vegagerðina undirritaður hinn 6. apríl 2006.  Kom ýmislegt upp við framkvæmd verksins og ýmislegt reyndist öðruvísi og ver farið en útboðsgögn höfðu lýst.  Stærsta frávikið laut að hlerum eða brúm í skipið sem smíðaðar voru nýjar í Noregi.  Þegar þær komu til landsins reyndust engir rammar fylgja þeim.  Fór svo að stefndi smíðaði þá en um nokkur mannvirki var að ræða. Stefnandi fór fram á aukagreiðslu vegna vinnu við þessa ramma og þótti stefnda það ekki ósanngjörn krafa.  Henni var hins vegar ætíð hafnað af Vegagerðinni, beinlínis með vísan til þess að um smávægilegt verk væri að ræða sem rúmaðist innan útboðsverksins.  Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur stefnda ekki tekist að fá neina greiðslu frá Vegagerðinni fyrir þetta verk en engu að síður féllst hann á að greiða og greiddi stefnanda 1.540.000 krónur auk vsk., fyrir þau aukaverk sem hann taldi sig hafa unnið við karmanna. Stefndi greiddi stefnanda einnig tilboðsfjárhæðina að fullu.

Í raun greiddi hann stefnanda gott betur en það því á árinu 2006 greiddi hann stefnanda 2.800.000 krónur og á árinu 2007 3.050.000 krónur eða alls 5.850.000 krónur.  Hann hefur hins vegar aldrei samþykkt að greiða stefnda fyrir nein aukaverk utan tilboðsins önnur en þau sem lutu að hönnun ramma.  Í raun hefur stefndi því ofgreitt stefnanda kr. 1.579.650,00 og áskilur hann sér rétt til að endurheimta þá fjárhæð.

Ástæða þess að stefndi ofgreiddi stefnanda var að sögn stefnda sú að hann greiddi alltaf inná verkið, að beiðni stefnanda, en fékk reikninga frá honum eftirá.  Þannig safnaðist upp inneign hjá stefnanda og þegar upp var staðið hafði stefndi semsagt greitt of mikið þegar viðskiptunum lauk. Þessi háttur stefnanda að senda reikninga eftir dúk og disk olli stefnda ekki aðeins óþægindum heldur einnig tjóni, því það gerði honum erfitt og í sumum tilfellum ómögulegt að taka mið af þeim kostnaði við reikningsgerð á hendur Vegagerðinni, sbr. karmana sem nefndir voru.

Nýrri Grímseyjarferju var skilað til Vegagerðarinnar í byrjun janúar 2008 og í kjölfarið vann stefndi lokauppgjör verksins og gerði reikninga á hendur verkkaupa á grundvelli þess.  Reikningur stefnanda barst stefnda hins vegar ekki fyrr en í lok mars enda er hann ritaður hinn 17. mars 2008.  Með þessum reikningi krefur hann stefnda um greiðslu fyrir vinnu bæði á árinu 2006 og 2007.  Kröfugerð þessa telur stefndi allt of seint fram komin enda löngu búið að gera lokareikning í verkinu.  Að auki hafði stefnandi aldrei gert stefnda viðvart um að hann áskildi sér slíkar greiðslur úr hans hendi.  Yrði stefnanda játaður réttur til þessara greiðslna hefði hann í raun valdið stefnda tjóni með því að upplýsa hann ekki um kröfuna, svo hann gæti gert ráð fyrir henni í kröfugerð sinni á hendur verkkaupa.

Kröfugerð stefnanda er að mati stefnda ekki rökstudd og hefur ekkert verið fært fram því til stuðnings að hann eigi rétt til greiðslna umfram tilboðsfjárhæð sína.  Hann sé að sjálfsögðu bundinn af tilboði sínu hvort sem hann hefur vanmetið umfang verksins eða ekki.  Hann hafi því fengið verk sitt að fullu greitt og eigi enga kröfu á hendur stefnda.

II.

Í skýrslu stefnanda fyrir dóminum kom fram að það hafi ekki verið rætt um það milli málsaðila að öll vinna stefnanda væri innifalinn í munnlegu tilboði hans í að sjá um vinnuteikningar fyrir 30.000 krónur á hverja teikningu. Ekki hafi verið samið um neitt tímagjald ef til tímavinnu kæmi og tíma hafi hann skráð jafnóðum á verktímanum. Þegar hann gerði samkomulagið við Guðmund hafi hann ekki séð útboðsgögnin og einungis stuðst við munnlegar upplýsingar Guðmundar. Kvaðst stefnandi hafa komið að öllu í sambandi við endurnýjun umræddrar ferju og að endurnýja hafi þurft nánast allt. Auk þess hafi hann séð um öll innkaup á innréttingum á fjórum hæðum og gleri og staðfest allar teikningar þar sem breytinga var þörf.  Hann hafi séð um innkaup á kojum, stólum og borðum sem allt þurfti að passa gagnvart framleiðendum auk þess sem hann sá um samskipti við erlenda aðila sem hafi verið tímafrekt, ráðningu sérfróðra erlendra iðnaðarmanna til uppsetninga og þegar hann hafi skrifað upp á teikningar fyrir framleiðendur hafi hann haldið fundi með fyrirsvarsmönnum stefnda áður en pantað var. Segir stefnandi að hann hafi aldrei fengið athugasemd um seinagang á reikningsgerð en þegar Guðmundur Víglundsson gerði athugasemd vegna tímagjalds teiknara í byrjun desember 2007 eða í ársbyrjum 2008 þá hafi hann lækkað tímagjaldið niður í kostnaðarverð en engar athugasemdir að öðru leyti voru gerðar. Segir stefnandi að stefndu hafi sagt að þeir fengju ekki greiðslur frá vegagerðinni og af þeim sökum hafi reikningum seinkað en hann hafi sent reikning um leið og honum bárust greiðslur. Sagði stefnandi að af hálfu stefnda hafi aldrei verið beðið um yfirlit um sína vinnu. Sagði stefnandi að þeir bræður Eiríkur og Guðmundur hafi beðið hann að vinna þau verk sem krafa hans byggist á. Tók stefnandi sérstaklega fram að hann hafi tekið á sínar herðar tjón stefnda að fjárhæð 427.697 krónur sem varð vegna þess að rangar hurðir höfðu verið pantaðar.

III.

Eiríkur Ormur Víglundsson kannaðist við það fyrir dóminum að samið hafi verið um 30.000 krónur greiðslu fyrir hverja teikningu og sagði að verkið hefði staðið yfir frá vori 2006 fram til loka ársins 2007 og á þeim tíma hafi verkið bæði breyst og aukist en önnur vinna hafi ekki verið innifalinn í tilboði í teikningarnar. Minnti Eirík að hann hafi séð á minnisblaði Guðmundar bróður síns 4.500 króna tímagjald. Kvað Eiríkur stefnanda hafa unnið eitt og eitt verk sem greiða hafi þurft fyrir.

Guðmundur Víglundsson, fyrirsvarsmaður stefnda sagði að Örn hefði aðlagað allar teikningar að skipinu en þeir hafi ekki vitað umfang verksins í byrjun en vitað að Örn tæki að sér viðbótarvinnu fyrir 4.000 krónur á tímann en 1200 tímar umfram áætlun hafi komið sér mjög á óvart en Örn hafi vissulega unnið mikið aukalega eins og til dæmis þá hafi hann mælt alla stálvinnuna auk þess sem hann kannast við þá upptalningu sem fram kom í skýrslu Arnar fyrir dóminum.

IV.

Af hálfu stefnda hefur því verið haldið fram í greinargerð að stefndi hafi aldrei samþykkt að greiða stefnanda fyrir nein aukaverk utan tilboðsins önnur en þau sem lutu að hönnun ramma og hafi því í raun ofgreitt honum 1.579.650 krónur. Ekki samræmist þessi staðhæfing því sem fram kom í skýrslum fyrirsvarsmanna stefnda fyrir dóminum eins og rakið er í III. kafla. Telur dómari að í raun hafi fyrirsvarsmenn stefndu ekki andmælt því að stefnandi hafi unnið þá viðbótarvinnu sem málið snýst um en hins vegar hafi komið á óvart hversu mikil hún var auk þess sem Guðmundur Víglundsson taldi sig hafa samið um 4.500 króna tímagjald fyrir viðbótarvinnu. Fyrirsvarsmaður stefnanda hefur vísað því á bug að hafa samið um ákveðið tímagjald og segir að með 7.000 tímagjaldi fyrir vinnu hans sé hann að veita stefnda afslátt frá venjulegu tímagjaldi. Þá hefur þeirri staðhæfingu fyrirsvarsmanns stefnanda að hann hafi aðeins unnið þau verk sem fyrirsvarsmenn stefndu fólu honum ekki verið mótmælt. Dómari getur ekki fallist á að stefnandi hafi fyrirgert rétti sínum til greiðslu með því að hafa sýnt af sér tómlæti. Fram hefur komið á málinu að stefndu greiddu honum inn á verkið þegar verkkaupinn Vegagerð ríkisins innti af hendi greiðslur inn á verkið og þá hafi stefnandi gert reikning fyrir samsvarandi innborgun en á þessum innborgunarreikningum kemur ekkert fram um skuldastöðu milli málsaðila. Verður ekki annað ráðið af dómsskýrslum en að fyrirsvarsmenn stefnda hafi ekki leitað upplýsinga um stöðu kröfunnar fyrr en seint og um síðir. Samkvæmt þessu er því slegið föstu að komist hafi á samkomulag milli stefnanda og stefnda um að hann sæi um gerð teikninga fyrir ákveðið óumdeilt gjald og tæki að auki að sér viðbótarvinnu fyrir tímagjald sem deilt er um. Stefndi hefur ekki, gegn mótmælum stefnanda, tekist að sanna að samið hafi verið fyrirfram um ákveðið tímagjald. Þá hefur af hálfu stefnda verið sýnt fram á að hinn umstefndi reikningur sé ósanngjarn eða of hár. Við ákvörðun málskostnaðar hefur dómari í huga að stefnandi hefði átt að vekja athygli stefnda fyrr á þeirri miklu viðbótarvinnu sem hann gerir nú kröfu um að fá greidda, nánar tiltekið vinnulaun vegna Grímseyjarferju 4.179.180 auk vsk. 1.023.899 eða samtals 5.203.079 krónur.

Samkvæmt þessu er niðurstaða málsins sú að fallist er á dómkröfur stefnanda. Rétt þykir þó málskostnaður falli niður.

Mál þetta dæmir Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari. Dómsuppsaga hefur dregist um nokkra daga vegna páskaleyfis og mikilla anna dómarans.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Vélsmiðja Orms og Víglundar ehf., greiði stefnanda, Útgerðartækni ehf., 5.203.079 krónur, ásamt dráttarvöxtum frá 17. apríl 2008 til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.