Hæstiréttur íslands

Mál nr. 286/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðild
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                     

Fimmtudaginn 22. maí 2014.

Nr. 286/2014.

Bjallaból ehf. og

Fura ehf.

(Indriði Þorkelsson hrl.)

gegn

Orkustofnun

íslenska ríkinu og

(Soffía Jónsdóttir hrl.)

Landsneti hf.

(Helga Melkorka Óttarsdóttir hrl.)

Kærumál. Aðild. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi máli B ehf. á hendur O, Í og L sökum vanreifunar. Vísað var til þess að í héraðsstefnu væri ekki gerð frekari grein fyrir aðild málsins til sóknar, þ. á m. væri ekki skýrt hvernig á því stæði að B ehf. leitaðist við að fá hnekkt úrskurði úrskurðarnefndar raforkumála um stjórnsýslukæru F ehf., sem kveðinn var upp eftir að því félagi hafði verið skipt upp í tvö félög. Þá var talið að ekki væri í stefnunni gerð viðhlítandi grein fyrir því hví B ehf. hefði uppi kröfur til viðurkenningar á skaðabótaskyldu Í fyrir fjártjón sem virtist að stærstum hluta hafa fallið til áður en það félag var stofnað. Meðalgöngusök hins síðar til komna F hf. var einnig vísað frá héraðsdómi, en félagið undi þeirri niðurstöðu fyrir Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 14. apríl 2014 sem barst héraðsdómi samdægurs og réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. mars 2014 þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilinn Bjallaból ehf. krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar óskipt úr hendi varnaraðila. Sóknaraðilinn Fura ehf. krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi að því er varðar málskostnað og að málskostnaður í héraði „verði felldur niður eða hann lækkaður“. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Málsatvikum er lýst í hinum kærða úrskurði. Sóknaraðilinn Fura ehf., sem krafðist þess í héraði að sér yrði leyfð meðalganga í mál það sem sóknaraðilinn Bjallaból ehf. hefur höfðað á hendur varnaraðilum, unir þeirri niðurstöðu héraðsdóms að vísa meðalgöngusökinni frá dómi.

Samkvæmt gögnum málsins var einkahlutafélaginu Furu skipt upp á árinu 2012 í tvö félög á grundvelli 107. gr. a. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og var skiptingin miðuð við 1. janúar 2012. Við þetta tók nýtt félag, sóknaraðilinn Bjallaból ehf. sem stofnað var 17. ágúst 2012, við stærstum hluta af eignum sóknaraðilans Furu ehf.

Í máli þessu gerir sóknaraðilinn Bjallaból ehf. þá kröfu aðallega á hendur varnaraðilunum Orkustofnun og Landsneti hf. að felldur verði úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar raforkumála 29. ágúst 2012 þar sem leyst var úr stjórnsýslukæru sóknaraðilans Furu ehf. Til vara beinir sóknaraðilinn Bjallaból ehf. þeim kröfum að varnaraðilanum íslenska ríkinu að viðurkennd verði skaðabótaábyrgð þess aðila á nánar tilgreindu fjártjóni hans. Í héraðsdómsstefnu er meðal annars tekið fram að við skiptingu sóknaraðilans Furu ehf. í tvö félög hafi sóknaraðilinn Bjallaból ehf. tekið við „langstærstum hluta eigna og skulda Furu ehf., þ.m.t. eignum og réttindum sem mál þetta er sprottið af ...  Þar sem Bjallaból ehf. hefur nú tekið við hagsmunum sem mál þetta varðar er það félag stefnandi þessa máls og er fullt sammæli um það með félögunum, þótt atvik málsins hafi að mestu átt sér stað fyrir skiptinguna.“ Jafnframt segir í stefnunni að í lýsingu málsatvika og málsástæðna verði „orðið „stefnandi“ til hægðarauka notað jöfnum höndum yfir annars vegar Furu ehf. áður en því var skipt (eins og það var þegar helstu atvik máls þessa gerðust) og hins vegar Bjallaból ehf. sem fer nú með hagsmunina sem sakarefnið varðar, eftir því sem við á hverju sinni.“

Í héraðsdómsstefnu er ekki gerð frekari grein fyrir aðild að málinu til sóknar, þar á meðal er ekki skýrt hvernig á því standi að sóknaraðilinn Bjallaból ehf. krefjist þess að felldur verði úr gildi úrskurður um stjórnsýslukæru sóknaraðilans Furu ehf. sem kveðinn var upp eftir að því félagi hafði samkvæmt framansögðu verið skipt upp í tvö félög. Þá horfir það ekki til skýringar á aðild að málinu að ekki er í lýsingu málsatvika og málsástæðna gerður greinarmunur á sóknaraðilum. Með því móti er ekki gerð viðhlítandi grein fyrir því í stefnunni hvers vegna sóknaraðilinn Bjallaból ehf. hafi uppi kröfur til viðurkenningar á skaðabótaskyldu varnaraðilans íslenska ríkisins fyrir fjártjón sem virðist að stærstum hluta hafa fallið til áður en það félag var stofnað. Þegar af þessum ástæðum ber að vísa máli þessu frá héraðsdómi og verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Bjallaból ehf. og Fura ehf., greiði óskipt varnaraðilum, Orkustofnun, íslenska ríkinu og Landsneti hf., hverjum um sig 150.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. mars 2014.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 6. febrúar 2014, var höfðað af Bjallabóli ehf., Hringhellu 3, 220 Hafnarfirði, með stefnu útgefinni 26. febrúar 2013 á hendur Orkustofnun, Grensásvegi 9, 108 Reykjavík, og Landsneti hf., Gylfaflöt 9, 112 Reykjavík,til ógildingar á stjórnvaldsákvörðun, en til vara á hendur íslenska ríkinu, Arnarhvoli, 150 Reykjavík, til viðurkenningar á skaðabótaskyldu, auk málskostnaðar.

I.

Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur:

        Aðalkrafa stefnanda, sem beinist að stefndu Orkustofnun og Landsneti hf., er að felldur verði úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar raforkumála, dags. 29. ágúst 2012, í máli nr. 2/2012, þar sem staðfest er ákvörðun Orkustofnunar, dags. 24. febrúar 2010, um að Landsnet hf. skuli láta af milliliðalausri raforkuafhendingu til stefnanda.

        Varakrafa stefnanda, sem beinist að varastefnda íslenska ríkinu, er að viðurkennd verði skaðabótaábyrgð varastefnda við stefnanda á öllu fjártjóni hans sem leiðir af ákvörðun Orkustofnunar frá 24. febrúar 2010, en ákvörðunin feli í sér að stefnandi geti ekki lengur átt bein raforkuviðskipti við Landsnet hf. á grundvelli raforkusölusamnings aðila frá 25. janúar 1993, sbr. og úrskurð úrskurðarnefndar raforkumála frá 29. ágúst 2012 í máli nr. 2/2012 sem staðfesti þá ákvörðun. Það leiði meðal annars til þess að verðmikill rafmagnsbúnaður í eigu stefnanda, sem nýttur sé í þessum tilgangi, ónýtist og verði honum verðlaus, sem hafi ýmiss konar beint og óbeint tjón í för með sér fyrir stefnanda, auk þess sem stefnandi verði fyrir umtalsverðum útgjöldum við að koma á nýrri tengingu við dreifiveitu.

        Þrautavarakrafa stefnanda, sem beinist að varastefnda íslenska ríkinu, er að viðurkennd verði skaðabótaábyrgð varastefnda við stefnanda á öllu fjártjóni hans sem leiðir af setningu 2. mgr. 8. gr. raforkulaga nr. 65/2003, sem lögfest var með 4. gr. laga nr. 89/2004, sbr. og síðari breytingu með 3. gr. laga nr. 19/2011. Umrædd lagasetning leiði til þess að stefnandi geti ekki lengur átt bein raforkuviðskipti við Landsnet hf. á grundvelli raforkusölusamnings aðila frá 25. janúar 1993. Það leiði meðal annars til þess að verðmikill rafmagnsbúnaður í eigu stefnanda ónýtist og verði honum verðlaus, sem hafi ýmiss konar beint og óbeint tjón í för með sér fyrir stefnanda, auk þess sem stefnandi verði fyrir umtalsverðum útgjöldum við að koma á nýrri tengingu við dreifiveitu.

        Í öllum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar óskipt úr hendi stefndu samkvæmt mati dómsins eða framlögðum málskostnaðarreikningi.

       Stefndi Orkustofnun og varastefndi íslenska ríkið krefjast þess aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda og varastefnda málskostnað að mati dómsins.

        Til vara er þess krafist að stefndi Orkustofnun verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í aðalsök og að varastefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í varasök. Þá krefjast stefndi og varastefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

        Stefndi Landsnet hf. gerir þá dómkröfu aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi. Til vara gerir stefndi Landsnet hf. þá kröfu að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

       Í báðum tilvikum krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda Landsneti hf. málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi.

       Fura ehf., Hringhellu 3, 220 Hafnarfirði, höfðaði meðalgöngusök á hendur stefnanda, stefnda Orkustofnun, stefnda Landsneti hf. og varastefnda íslenska ríkinu með meðalgöngustefnu útgefinni 18. september 2013.

        Meðalgöngustefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur:

1.            Meðalgöngustefnandi gerir þá dómkröfu, að honum verði leyfð meðalganga í héraðsdómsmáli Reykjavíkur nr. E-1013-2013; Bjallaból ehf. gegn Orkustofnun og Landsneti en til vara íslenska ríkinu.

2.            Þá gerir meðalgöngustefnandi þá dómkröfu, að honum verði ásamt stefnanda í aðalsök, Bjallabóli ehf., dæmt sakaefnið í framangreindu héraðsdómsmáli, þannig:

                2.1.         að í aðalkröfu gagnvart stefndu í aðalsök, Orkustofnun og Landsneti hf., verði felldur úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar raforkumála dags. 29. ágúst 2012, í máli nr. 2/2012, þar sem staðfest var ákvörðun Orkustofnunar dags. 24. febrúar 2010, um að Landsnet hf. skuli láta af milliliðalausri raforkuafhendingu til stefnanda.

Verði ekki fallist á dómkröfu skv. lið 2.1 gerir meðalgöngustefnandi þær dómkröfur, að fallist verði á þær dómkröfur sem stefnandi í aðalsök, Bjallaból ehf., gerir, sem eru eftirfarandi:

2.2. Aðalkrafa stefnanda, sem beinist að stefndu Orkustofnun og Landsneti hf., að felldur verði úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar raforkumála dags. 29. ágúst 2012, í máli nr. 2/2012, þar sem staðfest er ákvörðun Orkustofnunar dags. 24. febrúar 2010, um að Landsnet hf. skuli láta af milliliðalausri raforkuafhendingu til stefnanda.

                2.3.         Varakrafa stefnanda, sem beinist að varastefnda íslenska ríkinu, að viðurkennd verði skaðabótaábyrgð varastefnda við stefnanda á öllu fjártjóni hans sem leiðir af ákvörðun Orkustofnunar frá 24. febrúar 2010, en ákvörðunin felur í sér að stefnandi getur ekki átt bein raforkuviðskipti við Landsnet hf. á grundvelli raforkusölusamnings aðila frá 25. janúar 1993, sbr. og úrskurð úrskurðarnefndar raforkumála frá 29. ágúst 2012, í máli nr. 2/2012 sem staðfesti þá ákvörðun. Það leiði meðal annars til þess að verðmikill rafmagnsbúnaður í eigu stefnanda, sem nýttur er í þessum tilgangi, ónýtist og verður honum verðlaus, sem hefur ýmiss konar beint og óbeint tjón í för með sér fyrir stefnanda, auk þess sem stefnandi verður fyrir umtalsverðum útgjöldum við að koma á nýrri tengingu við dreifiveitu.

                2.4.         Þrautavarakrafa stefnanda, sem beinist að varastefnda íslenska ríkinu, að viðurkennd verði skaðabótaábyrgð varastefnda við stefnanda á öllu fjártjóni hans sem leiðir af setningu 2. mgr. 8. gr. raforkulaga nr. 65/2003, sem lögfest var með 4. gr. laga nr. 89/2004, sbr. og síðari breytingu með 3. gr. laga nr. 19/2011. Umrædd lagasetning leiðir til þess að stefnandi getur ekki lengur átt bein raforkuviðskipti við Landsnet hf. á grundvelli raforkusölusamnings aðila frá 25. janúar 1993. Það leiðir meðal annars til þess að verðmikill rafmagnsbúnaður í eigu stefnanda ónýtist og verður honum verðlaus, sem hefur ýmiss konar beint og óbeint tjón í för með sér fyrir stefnanda, auk þess sem stefnandi verður fyrir umtalsverðum útgjöldum við að koma á nýrri tengingu við dreifiveitu.

3.            Í öllum tilvikum krefst meðalgöngustefnandi málskostnaðar óskipt úr hendi stefndu, Orkustofnunar, Landsnets hf. og íslenska ríkisins, að mati réttarins.

        Í þinghaldi 18. september 2013 var því lýst yfir af hálfu stefnanda, Bjallabóls ehf.  að fallist væri á kröfur meðalgöngustefnanda.

        Meðalgöngustefndi Orkustofnun og meðalgönguvarastefndi íslenska ríkið krefjast þess aðallega að synjað verði um heimild til meðalgöngu og kröfum meðalgöngustefnanda verði vísað frá dómi. Þá er þess krafist að meðalgöngustefnandi verði dæmdur til að greiða meðalgöngustefnda og meðalgönguvarastefnda málskostnað að mati dómsins.

         Til vara er þess krafist af meðalgöngustefnda, Orkustofnun, og meðalgönguvarastefnda, íslenska ríkinu, að máli þessu verði vísað frá dómi og að meðalgöngustefnandi verði dæmdur til að greiða meðalgöngustefnda og meðalgönguvarastefnda málskostnað að mati dómsins.

        Til þrautavara krefjast meðalgöngustefndi, Orkustofnun, og meðalgönguvarastefndi íslenska ríkið þess að meðalgöngustefndi Orkustofnun verði sýknaður af öllum kröfum meðalgöngustefnanda í aðalsök og að meðalgönguvarastefndi verði sýknaður af öllum kröfum meðalgöngustefnanda í varasök. Þá krefjast meðalgöngustefndi og meðalgönguvarastefndi málskostnaðar úr hendi meðalgöngustefnanda að mati dómsins.

        Meðalgöngustefndi, Landsnet hf., gerir þá kröfu aðallega að meðalgöngumáli þessu verði vísað frá dómi.

        Til vara gerir meðalgöngustefndi, Landsnet hf., þá kröfu að kröfu um meðalgöngu verði synjað.

        Þá krefst meðalgöngustefndi, Landsnet hf., þess til þrautavara að hann verði sýknaður af öllum kröfum meðalgöngustefnanda.

        Í öllum tilvikum krefst stefndi þess að meðalgöngustefnandi verði dæmdur til að greiða meðalgöngustefnda málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi.

II.

Málsatvik

        Fura ehf. starfrækti málmendurvinnslu í Hafnarfirði frá 1993. Áður rak Íslenska stálfélagið hf. umfangsmikla og orkufreka starfsemi á sömu lóð sem þá hét Markhella 4, Hafnarfirði. Af þeim sökum samdi Íslenska stálfélagið við Landsvirkjun 11. október 1988 um raforkukaup, auk þess sem gerður var samningur við Rafveitu Hafnarfjarðar (nú HS Veitur hf.) 2. nóvember s.á. um að félaginu væri heimilt að kaupa raforku beint frá Landsvirkjun, án milligöngu Rafveitu Hafnarfjarðar. Vegna samninganna fjárfesti félagið í rafmagnsbúnaði, þ.m.t. spennum og öðrum nauðsynlegum búnaði til að flytja rafmagnið frá spennistöð Landsvirkjunar (síðar stefnda Landsnets hf.) að starfsstöð sinni. Hið íslenska stálfélag var tekið til gjaldþrotaskipta í nóvember 1991 og þá féllu niður samningar þrotabúsins gagnvart Landsvirkjun og Rafveitu Hafnarfjarðar, en stefnandi keypti hluta eigna búsins af Búnaðarbankanum og Iðnþróunarsjóði snemma árs 1993. 

        Hinn 25. janúar 1993 gerðu Fura ehf. og Landsvirkjun með sér nýjan samning um afhendingu ótryggrar raforku frá Landsvirkjun. Orkunotkun Furu ehf. reyndist hins vegar umfangsminni frá upphafi en ráð var fyrir gert sökum þess að í stað orkufrekrar stálbræðslu takmarkaðist brotajárnsvinnsla Furu ehf. við tætingu þar sem ekki náðust samningar um kaup á verksmiðju þrotabús Íslenska stálfélagsins hf.  stefnda Landsnets 2003 og laga nr. 75/2004 um stofnun Landsnets hf., fluttust skyldur Landsvirkjunar hvað varðar fl

        Í 13. gr. samningsins var kveðið á um að samningurinn gilti frá og með 1. febrúar 1993 til 1. janúar 1994, en framlengdist þá óbreyttur um eitt ár hefði honum ekki verið sagt upp skriflega af öðrum hvorum aðila með sex mánaða fyrirvara til að falla þá úr gildi. Án slíkrar uppsagnar skyldi samningurinn síðan á sama hátt framlengjast óbreyttur frá ári til árs, en þó skyldu aðilar endurskoða ákvæðin um afl og orku í 2. gr. samningsins með ákveðnu millibili.

        Á grundvelli raforkulaga nr. 65/2003 og laga nr. 75/2004 um stofnun Landsnets hf., fluttust skyldur Landsvirkjunar hvað varðar flutning á raforku til stefnda Landsnets hf. Eftir það keypti Fura ehf. raforku af Landsneti á grundvelli samningsins.

         Hinn 25. ágúst 2008 vakti stefndi Orkustofnun athygli stefnda Landsnets hf. á því að stefndi Landsnet hf. hefði ekki heimild til orkuafhendingar beint til Furu ehf. þar sem stefnandi teldist ekki til stórnotenda samkvæmt orkulögum, en þeir einir, auk virkjana og dreifiveitna, hefðu heimild til að tengjast beint við flutningskerfi stefnda Landsnets hf.

        Hinn 28. ágúst 2008 sendi stefndi Orkustofnun Hitaveitu Suðurnesja hf. (nú HS Veitur hf.) og stefnda Landsneti hf. bréf þar sem greint var frá því að athygli stofnunarinnar hefði verið vakin á raforkuafhendingu Landsnets til Furu hf.

Í bréfinu var þess farið á leit að HS Veitur hf. og Landsnet hf. kæmu sér saman um lausn á málinu sem koma átti til framkvæmda 1. janúar 2009.

        HS Veitur svöruðu framangreindu erindi stefnda Orkustofnunar með bréfi, dags. 1. september 2008, þar sem m.a. var bent á að Fura ehf. hefði ekki óskað eftir því að tengjast dreifiveitu HS Veitna, sem væri forsenda tengingar. Var þar lagt til að stefndi Landsnet hf. tilkynnti Furu ehf. að óheimilt væri að dreifa raforku með þeim hætti sem gert hafði verið. Með bréfi, dags. 31. október 2008, tilkynnti stefndi Orkustofnun HS Veitum og stefnda Landsneti hf. að stofnunin hefði ákveðið, að ósk Landsnets, að lengja þá tímafresti, sem fram komu í fyrra bréfi stofnunarinnar, um tvo mánuði. Viðræður Furu ehf. við Landsnet og HS Veitur sem fóru fram í kjölfarið báru ekki árangur.

        Hinn 30. nóvember 2009 sendi stefndi Orkustofnun bréf til Furu ehf. þar sem bent var á að bein tenging félagsins við flutningskerfi stefnda Landsnets væri að mati stofnunarinnar ekki í samræmi við raforkulög, af þeim ástæðum sem raktar eru hér að framan, sbr. 2. mgr. 8. gr. raforkulaga, og bæri Furu ehf. að tengjast dreifiveitu. Var Furu ehf. veittur frestur til 14. desember 2009 til að upplýsa Orkustofnun um hugsanlegar breytingar á rekstri sínum í náinni framtíð, sem leiða myndu til aukinnar raforkunotkunar þannig að fyrirtækið félli í flokk stórnotenda, en ella gera „viðeigandi ráðstafanir eins og að tengjast dreifiveitu svæðisins, HS Veitum“. Var tekið fram að stefndi Orkustofnun myndi að óbreyttu fara fram á það við stefnda Landsnet hf. að orkuafhending til Furu ehf. yrði stöðvuð frá og með 15. janúar 2010, að viðlögðum dagsektum. Afrit af bréfinu var sent til stefnda Landsnets hf. og HS Veitna. Með bréfi lögmanns Furu ehf., dags. 22. desember 2009, var farið fram á að fyrrgreindur frestur yrði framlengdur til 15. mars 2010. Með bréfi, dags. 7. janúar 2010, féllst Orkustofnun á að framlengja frestinn til 28. febrúar 2010.

        Hinn 24. febrúar 2010 tók stefndi Orkustofnun ákvörðun um að stefnda Landsneti hf. bæri að láta af milliliðalausri raforkuafhendingu til Furu ehf. að viðlögðum 10.000 kr. dagsektum frá og með 1. mars 2010. Með tölvubréfi Furu ehf., dags. 25. febrúar 2010, tilkynnti stefndi Landsnet hf. að hann myndi hætta afhendingu raforku til félagsins frá og með 1. mars 2010 í samræmi við ákvörðun stefnda Orkustofnunar.

       Fura ehf. kærði ákvörðun stefnda Orkustofnunar til iðnaðarráðuneytisins hinn 26. febrúar 2010. Iðnaðarráðuneytið kvað upp úrskurð í kærumálinu hinn 14. mars 2011, þar sem ákvörðun stefnda Orkustofnunar var staðfest. Með bréfi til Furu ehf., dags. 3. maí 2011, tilkynnti stefndi Landsnet hf. að flutningur raforku til félagsins um núverandi tengingu yrði stöðvaður frá og með 14. september 2011 í samræmi við úrskurð iðnaðarráðuneytisins og var félaginu bent á að semja við HS Veitur um raforkuafhendingu. Í kjölfarið gerðu Fura ehf. og HS Veitur með sér samning um leigu hins síðarnefnda á rafmagnsbúnaði Furu ehf. til 31. desember 2013.

        Með stefnu útgefinni 13. september 2011 höfðaði Fura ehf. mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur stefndu Orkustofnun og Landsneti til ógildingar á ofangreindum úrskurði iðnaðarráðuneytisins. Með dómi Hæstaréttar Íslands 25. maí 2012 í máli nr. 316/2012, var staðfestur úrskurður héraðsdóms um að vísa málinu frá dómi. Sú niðurstaða var reist á því að ákvarðanir stefnda Orkustofnunar, sem varða starfsemi stefnda Landsnets hf., sættu kæru til úrskurðarnefndar raforkumála, sbr. 1. mgr. 30. gr. raforkulaga, en yrðu ekki að réttu lagi kærðar til ráðherra, líkt og gert var. Samkvæmt 12. mgr. sömu lagagreinar yrðu slíkar ákvarðanir Orkustofnunar ekki bornar undir dómstóla fyrr en niðurstaða úrskurðarnefndarinnar lægi fyrir. Þar sem umþrætt ákvörðun hefði ekki verið kærð til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt framansögðu bæri að vísa málinu frá dómi.

        Furu ehf. var skipt upp í tvö félög, rekstrarfélagið Furu ehf. og eignarhaldsfélagið Bjallaból ehf., þann 17. ágúst 2012 og skiptingin miðuð við 1. janúar 2012. Við skiptinguna tók Bjallaból ehf. við stærstum hluta eigna og skulda Furu ehf.

        Í kjölfar ofangreinds hæstaréttardóms sendi stefnandi erindi til úrskurðarnefndar raforkumála, dags. 22. júní 2012, þar sem þess var farið á leit að nefndin tæki áðurnefnda stjórnsýslukæru stefnanda frá 26. febrúar til efnisúrlausnar. Í erindinu var meðal annars vísað til þess að þar sem lagastoð hefði brostið fyrir málsmeðferð iðnaðarráðuneytisins á kærunni bæri að líta svo á að málið væri enn til meðferðar á stjórnsýslustigi og hefði verið óslitið síðan kæran var lögð fram, sem hafi jafnframt rofið upphaflegan 30 daga kærufrest. Í öllu falli hefði nýr 30 daga kærufrestur tekið að líða við uppkvaðningu framangreinds hæstaréttardóms, og skyldi erindið þá skoðast sem sjálfstæð stjórnsýslukæra til úrskurðarnefndarinnar. Úrskurðarnefndin féllst á að taka stjórnsýslukæru stefnanda til efnisúrlausnar, en staðfesti ákvörðun Orkustofnunar með úrskurði 29. ágúst 2012, þó með breytingu á upphafstíma dagsekta. Stefnandi höfðaði síðan mál þetta aðallega til ógildingar á úrskurði úrskurðarnefndarinnar, og um leið ákvörðun Orkustofnunar, en til vara og þrautavara til viðurkenningar á skaðabótaskyldu varastefnda íslenska ríkisins vegna ofangreindra atvika.

III.

Málsástæður og lagarök meðalgöngustefnanda

       Meðalgöngustefnandi vísar til þess að meðalgöngustefnanda, Furu ehf., hafi verið skipt upp í tvö félög á árinu 2012. Í stefnu í aðalsök komi fram að við uppskiptinguna hafi stefnandi, Bjallaból ehf., tekið við langstærstum hluta eigna og skulda Furu ehf. Samkvæmt yfirlýsingu endurskoðanda félaganna, staðfestri af eiganda Bjallabóls ehf. og Furu ehf., dags. 18. september 2013 komi fram að þar tilgreint rafmagnsdreifikerfi Furu ehf., sem samanstendur af spenni, staðsettum við tengivirki að Hamranesi, rafstreng þaðan að tengistað að athafnasvæði Furu ehf. að Hringhellu 3, Hafnarfirði, útgangi (rofa), auk annars búnaðar, í hlut Bjallabóls ehf. Jafnframt komi fram í nefndri yfirlýsingu að stefnandi, Bjallaból ehf., sé eigandi allra réttinda skiptingafélagsins gagnvart Orkustofnun, Landsneti hf. og íslenska ríkinu í þessu máli.  

        Þar sem Fura ehf. hafi verið formlegur aðili að úrskurði úrskurðarnefndar raforkumála dags. 29. ágúst 2012 í máli nr. 2/2012 telur félagið rétt að gera sjálfstæðar kröfur í máli þessu samhliða kröfum aðalstefnanda. Því geri meðalgöngustefnandi Fura ehf. aðallega þá kröfu að sér verði dæmt sakarefnið í aðalkröfu ásamt Bjallabóli ehf. á grundvelli svonefndrar aðalmeðalgöngu en til vara er fallist á sömu dómkröfu stefnanda í aðalsök á grundvelli svokallaðrar aukameðalgöngu.  

        Að því er varðar vara- og þrautavarakröfu stefnanda í aðalsök, bendir meðalgöngustefnandi á það að hann telur sig eiga hagsmuna að gæta af úrslitum málsins. Í hinni fjárhagslegu uppskiptingu Furu ehf. á árinu 2012, í annars vegar eignarhaldsfélagið Bjallaból ehf. og hins vegar rekstrarfélagið Furu ehf., hafi m.a. verið byggt á því að áðurnefnt rafmagnstengikerfi og öll réttindi tengd því, þ.m.t. þau réttindi sem leiða af dómkröfum þessa máls, væru eign Bjallabóls ehf.

        Afrif dómkrafna stefnanda og niðurstaða þess máls skiptir því meðalgöngustefnanda máli þar sem synjun dómstóls á þessum kröfum stefnanda geti haft bein áhrif á sjálfa uppskiptinguna. Með meðalgöngustefnunni leitist meðalgöngustefnandi, Fura ehf., því við að tryggja það að réttur félagsins sé verndaður, sbr. ákvæði lokamálsliðar 20. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.   

        Meðalgöngustefnandi hafnar því að nauðsyn sé á aðild hans að umræddu máli á grundvelli samaðildar þar sem fjárhagslegt tjón vegna umþrættrar ákvörðunar Orkustofnunar sem og vegna umræddrar lagabreytingar liggi allt hjá Bjallabóli ehf.

        Auk þeirra lagaraka sem byggt er á í stefnu í aðalsök, vísar meðalgöngu-stefnandi til 1. og 2. mgr. 18. gr., 1. mgr. 19. gr. og 20. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Meðalgöngustefnandi telur að skilyrðum 20. gr. laga nr. 91/1991 sé fullnægt þannig að fallast beri á kröfu hans um að meðalgangan verði leyfð. Málskostnaðarkrafan er byggð á 21. kafla sömu laga.

Málsástæður og lagarök meðalgöngustefnda Orkustofnunar og meðalgönguvarastefnda íslenska ríkisins.

        Varðandi aðalkröfu meðalgöngustefnanda byggja meðalgöngustefndi Orkustofnun og meðalgönguvarastefndi á því að skilyrði 20. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sem heimilar meðalgöngu séu ekki fyrir hendi. Það skilyrði ákvæðisins að úrslit máls skipti meðalgöngustefnanda máli að lögum sé samkvæmt málflutningsyfirlýsingu meðalgöngustefnanda sjálfs, sbr. 45. gr. laga nr. 91/1991, ekki fyrir hendi.

        Í meðalgöngustefnu segi:

„Eins og fram kemur í gögnum málsins, var meðalgöngustefnanda Furu ehf., skipt upp í tvö félög á árinu 2012. Í stefnu í aðalsök kemur fram að við uppskiptinguna hafi stefnandi, Bjallaból ehf., tekið við langstærstum hluta eigna og skulda Furu ehf. Samkvæmt yfirlýsingu endurskoðanda félaganna, staðfestri af eignanda Bjallabóls ehf. og Furu ehf., dags. 18. september 2013, sem lögð verður fram í málinu, kom þar tilgreint rafmagnsdreifikerfi Furu ehf., sem samanstendur af spenni, staðsettum við tengivirki að Hamranesi, rafstreng þaðan að tengistað að athafnasvæði Furu ehf. að Hringhellu 3, Hafnarfirði, útgagns (rofa), auk annars búnaðar, í hlut Bjallabóls ehf. Og jafnframt kemur fram í nefndri yfirlýsingu að stefnandi Bjallaból ehf., sé eigandi allra réttinda skiptingafélagsins gagnvart Orkustofnun, Landsneti hf. og íslenska ríkinu í þessu máli.“

        Þessi málflutningsyfirlýsing, meðalgöngustefnanda, verði ekki á annan hátt skilin en að meðalgöngustefnandi hafi, í síðasta lagi þann 18. september 2013, staðfest að hann eigi engin réttindi gagnvart meðalgöngustefnda og meðalgönguvarastefnda. Meðalgöngustefnandi hefur samkvæmt þessum yfirlýsingum sínum ótvírætt enga lögvarða hagsmuni af því að fá sér dæmt sakarefnið ásamt stefnanda í aðalsök. Gildir það bæði um aðalmeðalgöngu og aukameðalgöngu. Ber því þegar af þeirri ástæðu að synja meðalgöngustefnanda meðalgöngu í málinu og vísa meðalgöngusökinni frá dómi.

         Fallist dómurinn á að meðalgöngustefnandi uppfylli lagaskilyrði meðalgöngu og heimili honum aðild að málinu, krefjast meðalgöngustefndi Orkustofnun og meðalgönguvarastefndi íslenska ríkið þess að öllum kröfum meðalgöngustefnanda verði vísað frá dómi, með vísan til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Lögvarðir hagsmunir meðalgöngustefnanda af því að fá skorið úr um efni þeirra réttinda sem deilt er um í aðalsök, liðu undir lok í síðasta lagi þann 18. september 2013, sbr. áðurgreinda málflutningsyfirlýsingu hans dags. 18. september 2013, þar sem meðalgöngustefnandi staðfestir að hafa afsalað öllum þeim réttindum til Bjallabóls ehf., sem hann taldi sig eiga gagnvart meðalgöngustefnda og meðalgönguvarastefnda.

        Hvað aðrar frávísunarástæður varðar er að breyttu breytanda vísað til málsástæðna meðalgöngustefnda Orkustofnunar og meðalgönguvarastefnda íslenska ríkisins á bls. 3-5, í greinargerð þeirra í aðalsök, þar sem raktar eru málsástæður þeirra er varða frávísun málsins frá dómi.

        Verði málinu ekki vísað frá dómi byggjast málsástæður meðalgöngustefnda Orkustofnunar og meðalgönguvarastefnda íslenska ríkisins á sömu málsástæðum og tilgreindar eru á bls. 5-9, sem málsástæður varakröfu í greinargerð þeirra í aðalsök, að breyttu breytanda.

        Verði málinu ekki vísað frá dómi er skorað á meðalgöngustefnanda að upplýsa fyrir dómi hvort, og þá með hvaða hætti, til standi að breyta rekstri meðalgöngustefnanda svo í fyrirsjáanlegri framtíð að leiða muni til aukinnar raforkunotkunar hans, þannig að meðalgöngustefnandi muni þá falla í flokk stórnotenda í skilningi raforkulaga. Þá vísa meðalgöngustefndi og meðalgönguvarastefndi jafnframt til greinargerðar meðalgöngustefnda Landsnets hf. í meðalgöngusök og gera málatilbúnað hans að sínum að breyttu breytanda.

        Varðandi lagarök vísa meðalgöngustefndi og meðalgönguvarastefndi til áðurgreindra laga er varða synjun meðalgöngu og frávísunar- og sýknukröfu. Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök meðalgöngustefnda Landsnets hf.

         Krafa meðalgöngustefnda, Landsnets hf., um frávísun eða synjun um meðalgöngu byggir í fyrsta lagi á því að samaðildar hafi ekki verið gætt í öndverðu líkt og skylt var með vísan til 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í öðru lagi byggir meðalgöngustefndi, Landsnet hf., á því að málatilbúnaður meðalgöngustefnanda sé allur vanreifaður. Í þriðja lagi byggir meðalgöngustefndi á því að skilyrði 20. gr. laga nr. 91/1991, séu ekki uppfyllt.

       Meðalgöngustefndi, Landsnet hf., byggir því frávísunarkröfu sína í meðalgöngusök um margt á sömu rökum og hann hefur nú þegar gert í aðalsök gagnvart aðalstefnanda og vísar því til fyllingar til greinargerðar hans í aðalsök.

        Meðalgöngustefndi, Landsnet hf., byggir á því að samaðildar hafi ekki verið gætt. Í málatilbúnaði sínum hafi stefnendur bæði í aðal- og meðalgöngusök vísað til þess að félaginu Furu ehf. hafi nýverið verið skipt upp í tvö félög. Það sé þó engan veginn ljóst af gögnum málsins hvernig hafi raunverulega verið staðið að nefndri uppskiptingu. Meðalgöngustefnandi heldur því þannig fram í meðalgöngustefnu að allir hagsmunir sem félagið átti áður gagnvart meðalgöngustefndu, Orkustofnun og Landsneti hf., séu nú á hendi Bjallabóls ehf. Á sama tíma telji félagið sig eiga hagsmuni af úrlausn um dómkröfur sínar sem sýnir sig í því að félagið hefur höfðað meðalgöngusök.

        Meðalgöngustefndi byggir á því að þessi málatilbúnaður meðalgöngustefnanda gangi ekki upp. Engan veginn sé ljóst af gögnum málsins hvernig eignarhaldi á umræddum, meintum, hagsmunum stefnenda í aðalsök annars vegar og meðalgöngusök hins vegar sé háttað.

        Réttarfarsreglur mæli fyrir um skyldu manna til að standa saman að máli eigi þeir óskiptan rétt eða beri óskipta skyldu sbr. 18. gr. laga um meðferð einkamála. Meðalgöngustefnandi hafi engu að síður lýst því yfir að hann sjái ekki tilgang með því að gæta umræddra reglna um samaðild. Þar sem réttarfarsreglna um samaðild var ekki gætt í öndverðu beri að vísa kröfu um meðalgöngu frá dómi eða synja um meðalgöngu.

        Þá byggir meðalgöngustefndi, Landsnet hf., á því að málatilbúnaður meðalgöngustefnanda sé allur vanreifaður.

        Verði ekki fallist á að máli þessu beri að vísa frá dómi, á þeim grundvelli að samaðildar hafi ekki verið gætt, byggir meðalgöngustefndi á því að málatilbúnaður meðalgöngustefnanda sé allur svo vanreifaður að ekki sé unnt að verjast honum með tilhlýðilegum hætti.

     Líkt og að framan greini sé með öllu óljóst hvað nákvæmlega fólst í áðurnefndri uppskiptingu félagsins Furu ehf. Af þeim sökum eigi meðalgöngustefndi því verulega erfitt um vik að átta sig á annars vegar aðild til sóknar í málinu verði meðalgöngustefnanda hleypt inn í málið, en einnig hvar raunverulegir hagsmunir liggi af því að fá gerðar dómkröfur dæmdar. Því sé þar að auki mótmælt af hálfu meðalgöngustefnda, Landsnets hf., að meðalgöngustefnandi hafi nokkra raunverulega hagsmuni af úrlausn málsins.

        Varðandi aðild til sóknar í máli þessu telur meðalgöngustefndi, Landsnet hf., að stefnendum í aðal- og meðalgöngusök hafi borið að gæta reglna um samaðild þegar í upphafi þar sem svo virðist sem aðilarnir tveir hafi átt óskiptra hagsmuna að gæta. Það hafi ekki verið gert og beri meðalgöngustefna meðalgöngustefnanda öll þess merki að verið sé að gera tilraunir til að bæta úr annmörkum málsins í aðalsök. Sá málatilbúnaður sem birtist í meðalgöngustefnu gerir það hins vegar þvert á móti að verkum að meðalgöngustefndi á enn erfiðara en áður með að átta sig á grundvelli gerðra krafna, hver eigi hvaða hagsmuni og hvernig aðild til sóknar sé háttað.

        Meðalgöngustefndi, Landsnet hf., krefst frávísunar málsins með vísan til 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

        Meðalgöngustefndi, Landsnet hf., telur að skilyrði 20. gr. laga nr. 91/1991 séu ekki uppfyllt þar sem meðalgöngustefnandi eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta. Í 20. gr. laga nr. 91/1991 sé það gert að skilyrði fyrir því að þriðji maður gangi inn í mál annarra að úrslit málsins skipti hann máli að lögum. Meðalgöngustefndi, Landsnet hf., byggir á því að þessu skilyrði sé ekki fullnægt, enda fer því fjarri að gerð hafi verið með fullnægjandi hætti grein fyrir því hverju það varði meðalgöngustefnanda að fá ógilta ákvörðun Orkustofnunar frá 24. febrúar 2010, eða úrskurð kærunefndar raforkumála frá 29. ágúst 2012.

        Meðalgöngustefndi, Landsnet hf., byggir á því, sem staðfest hefur verið af Hæstarétti, að aðild að stjórnsýslumáli leiði ekki ein sér til þess að slakað verði á reglum um að hlutaðeigandi aðili verði að eiga lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr tilteknu sakarefni fyrir dómstólum. Fari því um aðild að dómsmáli þessu eftir almennum reglum, þar á meðal þeirri grunnreglu að baki ákvæðum laga nr. 91/1991 að dómstólar leysi ekki úr sakarefni nema sýnt sé að það skipti að lögum máli fyrir stöðu stefnanda að fá dóm um það. 

        Líkt og rakið sé í greinargerð stefnda Landsnets hf. í aðalsök er í 2. mgr. 8. gr. raforkulaga nr. 65/2003 mælt fyrir um hverjir geti verið viðskiptavinir meðalgöngustefnda. Var þar rakið að stefnandi í aðalsök, Bjallaból ehf., gæti ekki fallið þar undir þar sem félagið gæti ekki talist vera dreifiveita, virkjun eða stórnotandi. Þetta atriði sé í raun óumdeilt í málinu.

        Meðalgöngustefnandi byggi á því að Furu ehf. hafi verið skipt upp í tvö félög á árinu 2012 en þá hafi stefnandi í aðalsök, Bjallaból ehf., tekið við „langstærstum hluta eigna og skulda Furu ehf.“. Meðalgöngustefnandi byggi þannig sjálfur á því að hann eigi engin réttindi gagnvart meðalgöngustefndu í þessu máli. Það liggi því ljóst fyrir að ekki einungis gæti meðalgöngustefnandi ekki fallið undir hugtakið „viðskiptavinir“, eins og það er skilgreint í áðurnefndri 2. mgr. 8. gr. raforkulaga, heldur hefur félagið beinlínis byggt á því það þurfi ekki á nokkrum viðskiptum við meðalgöngustefnda, Landsnet hf., að halda. Blasi því við að ef ekki yrði fallist á kröfu meðalgöngustefnanda myndi það ekki hafa nokkur réttarfarsleg áhrif á félagið né nokkra aðra þýðingu fyrir hagsmuni þess.

        Líkt og rakið hefur verið í greinargerðum meðalgöngustefnda í aðalsök liggi fyrir að hinn einkaréttarlegi samningur sem var í gildi fyrir úrskurð úrskurðarnefndar raforkumála muni ekki rakna við við ógildingu úrskurðarins. Þá sé ljóst að samkvæmt lögum væri meðalgöngustefnanda óheimilt að semja við meðalgöngustefnda um viðskipti með raforku þrátt fyrir að fallist yrði á gerðar kröfur. Að lokum sé ljóst að meðalgöngustefnandi hefur hvorki þörf né getu til að kaupa raforku. Því liggi í augum uppi að meðalgöngustefnandi eigi engra lögvarinna hagsmuna að gæta líkt og áskilið sé í 20. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

       Varakrafa meðalgöngustefna sé í formi aukameðalgöngu og felist í því að fallist verði á kröfu stefnanda í aðalsök. Samkvæmt fræðiskrifum þarf þriðji maður að sýna fram á brýna og sjálfstæða hagsmuni sína af því að úrslit máls verði á tiltekinn veg, ef heimila á honum aukameðalgöngu. Með vísan til þess sem rakið hafi verið hafi meðalgöngustefnandi í engu sýnt fram á tilvist slíkra hagsmuna. Verður því jafnframt að vísa varakröfu meðalgöngustefnanda frá dómi eða synja um meðalgönguna. 

        Varðandi þrautavarakröfu sína byggir meðalgöngustefndi, Landsnet hf., á því að sýkna beri hann af kröfu meðalgöngustefnanda verði málinu ekki vísað frá dómi eða synjað um meðalgöngu.

        Sýknukrafa meðalgöngustefnda, Landsnets hf., byggi á öllum sömu rökum og þegar hafa verið sett fram í greinargerð hans í aðalsök og vísist því til þeirra, auk framangreindra málsástæðna um skort á lögvörðum hagsmunum og aðildarskort. Verði þær málsástæður ekki taldar leiða til frávísunar eða synjunar á meðalgöngusök verði í öllu falli að sýkna meðalgöngustefnda, Landsnet hf., af kröfum meðalgöngustefnanda.      

        Kröfu sína um málskostnað reisir meðalgöngustefndi, Landsnet hf., á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV.

Málsástæður og lagarök stefnanda í aðalsök

        Í aðalsök gerir stefnandi aðallega kröfu um að felldur verði úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar raforkumála, dags. 29. ágúst 2012, um að staðfesta ákvörðun Orkustofnunar 24. febrúar 2010, enda skorti umþrættar stjórnvaldsákvarðanir stoð í lögum. Til vara krefst stefnandi þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda varastefnda íslenska ríkisins vegna tjóns stefnanda sem leiðir af úrskurðinum, enda sé hann ólögmætur. Til þrautavara krefst stefnandi viðurkenningar á skaðabótaskyldu varastefnda íslenska ríkisins vegna tjóns stefnanda sem leiðir af breytingunni á raforkulögum sem úrskurðurinn er reistur á, þ.e. setningu 2. mgr. 8. gr. raforkulaga með 4. gr. laga nr. 89/2004, enda verði talið að úrskurðurinn eigi sér á annað borð stoð í því lagaákvæði.

        Stefnandi byggir á því að þar sem úrskurðurinn feli í sér skerðingu á hagsmunum sem stefnandi hafi öðlast á grundvelli skiptingar Furu ehf., sé það stefnandi sem njóti lögvarinna hagsmuna af því að krefjast ógildingar úrskurðarins með dómi. Að sama skapi sé stefnandi réttur aðili til að krefjast viðurkenningar á skaðabótaskyldu vegna tjóns er stafi af þessu, sbr. nánar varakröfu og þrautavarakröfu. Að því er varðar aðild til varnar, þá sé aðalkröfu um ógildingu úrskurðarins beint að Orkustofnun sem hinu lægra setta stjórnvaldi, sem tók umþrætta ákvörðun, og Landsneti sem þeim aðila sem ákvörðunin beindist jafnframt að. Varakröfu og þrautavarakröfu um viðurkenningu á skaðabótaskyldu sé beint að varastefnda íslenska ríkinu. Kröfurnar séu hafðar uppi í einu máli með heimild í 1. mgr. 27. gr. og 1. mgr., sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, enda að hluta samkynja og eigi auk þess rætur að rekja til sama atviks og aðstöðu.

        Varðandi aðalkröfu um ógildingu úrskurðar úrskurðarnefndar raforkumála byggir stefnandi á því að þar sem úrskurðarnefnd raforkumála hafi fellt úrskurð á kæru vegna ákvörðunar stefnda Orkustofnunar séu uppfyllt skilyrði 1. málsl. 12. mgr. 30. gr. raforkulaga til að höfða mál til ógildingar á ákvörðuninni.

        Stefnandi vísar til þess að upphafleg stjórnsýslukæra vegna ákvörðunar stefndu Orkustofnunar, dags. 24. febrúar 2010, hafi verið borin fram innan lögmælts kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. raforkulaga, eða hinn 26. febrúar 2010. Breyti engu í því sambandi að kæran hafi í upphafi hafnað í röngum farvegi, þ.e. hlotið meðferð hjá iðnaðarráðuneytinu í stað úrskurðarnefndar raforkumála. Af áðurgreindum dómi Hæstaréttar Íslands frá 25. maí 2012 í máli nr. 316/2012 leiði að ráðuneytinu hefði borið að framsenda kæruna til úrskurðarnefndar raforkumála, sbr. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það hafi ráðuneytið hins vegar ekki gert heldur leiðbeint stefnanda að skjóta umræddri kæru til ráðuneytisins. Stefnda Orkustofnun hafi einnig brotið gegn leiðbeiningarskyldu sinni með því að láta hjá líða að taka fram í ákvörðun sinni að hún sætti kæru til úrskurðarnefndar raforkumála, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Með vísan til framangreinds telur stefnandi óhjákvæmilegt að líta svo á að kærufrestur hafi verið rofinn með áðurgreindri stjórnsýslukæru 26. febrúar 2010 og að málið hafi frá þeim tíma verið óslitið til meðferðar á stjórnsýslustigi þar til það hlaut úrlausn lögbærs úrskurðaraðila með úrskurði úrskurðarnefndar raforkumála hinn 29. ágúst 2012, sbr. og til hliðsjónar 5. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga. Sá úrskurður sé nú réttilega borinn undir dómstóla í samræmi við 30. gr. raforkulaga.

        Verði ekki fallist á framangreint byggir stefnandi á því að í öllu falli hafi nýr 30 daga kærufrestur til að bera ákvörðunina undir úrskurðarnefnd raforkumála hafist við uppkvaðningu áðurgreinds hæstaréttardóms í máli nr. 316/2012, þar sem því hafi verið slegið föstu að ákvörðuninni yrði ekki að réttu lagi skotið með kæru til ráðherra. Í því ljósi hafi ákvörðun Orkustofnunar réttilega verið borin undir kærunefndina innan tilskilins frests með erindi stefnanda 22. júní 2012. Að öðru leyti vísar stefnandi til sjónarmiða er fram koma í úrskurði úrskurðarnefndar raforkumála hvað þetta atriði varðar.

        Að mati stefnanda fær framangreind niðurstaða beina stoð í meginreglum íslensks réttar og eðli máls, enda sé ófært að líta svo á að ofangreind brot stefndu Orkustofnunar og iðnaðarráðuneytisins á leiðbeiningarskyldu gagnvart stefnanda eigi nú að valda því að stefnandi glati rétti sínum til að fá úrlausn dómstóla um lögmæti umþrættrar ákvörðunar á grundvelli 60. gr. og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Stefnandi telur því að skýra beri ákvæði 30. gr. raforkulaga með vísan til þeirra sjónarmiða sem fram koma hér að framan, og að virða beri allan vafa að þessu leyti stefnanda í hag.

        Stefnandi byggir á því að ákvörðun Orkustofnunar 24. febrúar 2010, og jafnframt úrskurður úrskurðarnefndar raforkumála frá 29. ágúst 2012, sé haldinn slíkum annmörkum að fella beri hann úr gildi. Nánar tiltekið sé ógildingarkrafa byggð á því að úrskurðinn skorti lagastoð, enda verði ákvæði 2. mgr. 8. gr. raforkulaga, sbr. lög nr. 89/2004, ekki talið fela í sér viðhlítandi lagaheimild til að skerða mikilvæga hagsmuni stefnanda með afturvirkum og íþyngjandi hætti, svo sem úrskurðurinn feli í sér.

Úrskurðurinn sé reistur á 2. mgr. 8. gr. raforkulaga, sem hljóðaði svo á þeim tíma er máli skipti: „Viðskiptavinir flutningsfyrirtækisins skulu vera dreifiveitur, stórnotendur og virkjanir.“ Regla þessi var fyrst leidd í lög með lögum nr. 89/2004 um breytingu á raforkulögum, um sama leyti og stefndi Landsnet hf. var settur á fót með lögum nr. 75/2004, en Landsnet hf. tók við réttindum og skyldum samkvæmt raforkusölusamningi Furu ehf. við Landsvirkjun frá 1993, sem fyrr segir. Þrátt fyrir það hafi Orkustofnun ekki gert neinar athugasemdir við samninginn fyrr en rúmum fjórum árum eftir gildistöku lagabreytingarinnar eða fyrst haustið 2008. Það hafi því komið stefnanda í opna skjöldu þar sem hann hafi ávallt staðið í þeirri trú að lögmætur og bindandi raforkusölusamningur hans við Landsnet hf., sem verið hafi í gildi óslitið síðan 1993, verði ekki numinn úr gildi eða hann gerður óvirkur með afturvirkri lagasetningu, með þeim afleiðingum að verðmæt fjárfesting stefnanda í rafmagnsbúnaðinum, sem var komið á laggirnar gagngert í þessum tilgangi og í tengslum við samninginn, fari forgörðum. Ekkert sé komið fram sem bendir til annars en að raforkuviðskipti aðila hefðu annars, að óbreyttu, haldið sínu striki á grundvelli samningsins og að stefnandi hefði þannig getað nýtt áfram fjárfestingu sína í rafmagnsbúnaðinum í samræmi við upprunalegar forsendur.

        Stefnandi telur því að úrskurðurinn byggist þannig á þeirri forsendu að með 2. mgr. 8. gr. raforkulaga, sem kom inn í lögin 2004, hafi verið girt fyrir áframhaldandi raforkuviðskipti stefnanda og stefnda Landsnets hf., sem hafi farið fram athugasemdalaust í meira en tvo áratugi á grundvelli bindandi og löglegs samnings aðila, og að ákvæðið hafi að þessu leyti afturvirk og íþyngjandi réttaráhrif. Sé ofangreint ákvæði skýrt með þessum hætti leiði það jafnframt til þess að núverandi rafmagnsbúnaður stefnanda, sem tengist stefnda Landsneti hf., verður ónothæfur og þar með verðlaus. Niðurstaða Orkustofnunar hafi jafnframt í för með sér mikla virðisrýrnun á lóð stefnanda, enda séu verulega verðmætir notkunarmöguleikar bundnir við tenginguna við dreifikerfi stefnda Landsnets hf., til viðbótar við verðmæti sjálfs búnaðarins sem fari forgörðum, auk þess sem stefnandi verði fyrir miklum útgjöldum við að koma upp nýrri tengingu við dreifiveitu svæðisins, þ.e. HS Veitur. Stefnandi vísar um þetta til nánari útlistunar á fjártjóni sem leiði af þessu í umfjöllun um þrautavarakröfu. Stefnandi tekur fram að hann hafi ekki fenigð neina staðfestingu eða vilyrði frá HS Veitum þess efnis að hann muni á annað borð eiga þess kost að tengjast dreifikerfi þeirra og því ekkert fast í hendi í því efni. Stefnandi telur því engum vafa undirorpið að verði fallist á að 2. mgr. 8. gr. raforkulaga verði skýrð á þann hátt, sem gert er í úrskurðinum, jafngildi það því að ákvæðið hafi afturvirk og verulega íþyngjandi áhrif gagnvart stefnanda og valdi meðal annars stórfelldu eignatjóni og röskun á atvinnurekstri hans. Stefnandi telur að slík lögskýring fái ekki staðist.

        Stefnandi byggir á meginreglu íslensks réttar um að lögum verði ekki beitt afturvirkt þannig að þau raski réttindum sem stofnað var til í skjóli eldri laga, nema lögin mæli svo fyrir berum orðum. Ljóst er að mati stefnanda að ofangreind skýring á 2. mgr. 8. gr. raforkulaga, sem byggt sé á í úrskurðinum, gangi í berhögg við þessa meginreglu. Þannig sé ekkert í tilvitnuðu ákvæði 2. mgr. 8. gr. raforkulaga, öðrum ákvæðum laganna eða lögskýringargögnum sem renni stoðum undir það að ákvæðinu hafi verið ætlað að hafa afturvirk réttaráhrif að þessu leyti, hvað þá þannig að leitt gæti til stórfelldra atvinnu- og eignaspjalla líkt og í tilviki stefnanda. Slík ráðagerð hefði þurft að koma skýrt fram í lagatextanum sjálfum, sér í lagi þar sem um sé að ræða skerðingu á eignarrétti og atvinnufrelsi stefnanda. Því beri að hafna þeirri lögskýringu sem byggt sé á í úrskurðinum.

        Framangreint fái einnig stoð í 10. gr. raforkulaga, sbr. 6. gr. laga nr. 89/2004, en með ákvæðinu hafi sú skylda verið lögð á Landsvirkjun og aðra eigendur flutningsvirkja að selja þau eða leigja stefnda Landsneti hf. Af ákvæðinu leiði að stefnda Landsneti beri samhliða yfirfærslu flutningsvirkjanna að ganga inn í gildandi samninga um afnotarétt af viðkomandi eignum, þ.m.t. samning stefnanda og Landsvirkjunar frá 1993. Stefnandi telur að skýra verði 2. mgr. 8. gr. raforkulaga til samræmis við 10. gr. sömu laga að þessu leyti, einkum þar sem ákvæðin hafi verið lögfest á sama tíma. Því fái ekki staðist að mati stefnanda að gildistaka 2. mgr. 8. gr. raforkulaga hafi átt að leiða til röskunar á gildandi samningum, heldur hafi stefndi Landsnet hf. þvert á móti átt að taka yfir réttindi og skyldur samkvæmt þeim.

        Þá bendir stefnandi á að ofangreind lögskýring úrskurðarins leiði til þess að gildistaka laga nr. 89/2004 komi sérstaklega hart niður á einum aðila á markaði, þ.e. stefnanda, en stefnandi sé eina núverandi fyrirtækið með beina tengingu við flutningskerfi stefnda Landsnets hf. Þá sé stefnandi eina fyrirtækið, svo kunnugt sé, sem standi í þeim sporum að verða fyrir stórfelldu eigna- og atvinnutjóni vegna umræddrar lagasetningar. Ekki fái staðist að umþrætt ákvæði 2. mgr. 8. gr. raforkulaga geti leitt til jafn ósanngjarnrar og íþyngjandi niðurstöðu gagnvart einum aðila.

        Að framangreindu virtu telur stefnandi einsýnt að skýra beri ákvæði 2. mgr. 8. gr. raforkulaga þannig að því verði ekki beitt með afturvirkum og íþyngjandi hætti gagnvart stefnanda líkt og gert sé í úrskurðinum.

        Stefnandi byggir jafnframt á því að lögskýring úrskurðarins geti ekki komið til álita þar sem ákvæðið þannig skýrt myndi einnig brjóta gegn ákvæðum 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. mgr. 1. gr. samningsviðauka samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Í þessu sambandi vísar stefnandi til þess að væri fallist á niðurstöðu úrskurðarins jafngilti það því að 2. mgr. 8. gr. raforkulaga fæli í sér eignasviptingu gagnvart stefnanda, enda leiði slík lögskýring til þess að verðmæt eign stefnanda, þ.e. heimtaugin sem er tengd við dreifikerfi stefnda Landsnets, ónýtist og glati verðgildi sínu. Það jafngildir því að mati stefnanda að eignin sé tekin af honum með afturvirkri lagasetningu, sem bryti í bága við ofangreind ákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu.

        Þessu til stuðnings bendir stefnandi á að ekki verði séð að umrædd skerðing á hagsmunum stefnanda uppfylli áskilnað ofangreindra mannréttindaákvæða um almannaþörf og að almannahagsmunir standi ekki til þess að hann sé sviptur eign sinni með þessum hætti. Verður slíkt heldur ekki ráðið af lögum nr. 89/2004 eða lögskýringargögnum að baki þeim. Þess utan stangast umrædd skerðing á við áskilnað áðurgreindra ákvæða um meðalhóf, þ.e. að skerðingin megi ekki ganga lengra en ítrasta þörf krefur og að gætt sé sanngjarns jafnvægis milli hagsmuna eiganda eignar, sem eignaskerðing beinist að, og þeirra almannahagsmuna sem eiga að réttlæta skerðinguna.

       Auk framangreinds byggir stefnandi á því að ofangreind skerðing á hagsmunum stefnanda fái í öllu falli aldrei staðist nema stefnanda séu greiddar fullar bætur fyrir það tjón sem af henni leiðir, sbr. áðurgreind ákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. Orkustofnun hefði borið að gera viðeigandi ráðstafanir í samræmi við ákvæði laga nr. 11/1973 eða meginsjónarmið þeirra laga, áður en hin umþrætta ákvörðun var tekin.

        Með vísan til alls framangreinds telur stefnandi að fallast beri á aðalkröfu sína.

        Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnanda um að úrskurður úrskurðarnefndar raforkumála verði felldur úr gildi, byggir stefnandi á því til vara að varastefnda íslenska ríkið beri engu að síður skaðabótaábyrgð á því tjóni sem hinn ólögmæti úrskurður hafi valdið stefnanda.

        Varakrafa um viðurkenningu á bótaskyldu styðjist við 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands hafi verið á því byggt að skilyrði slíkrar kröfu séu að stefnandi verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni og gera grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við hið ætlaða bótaskylda atvik. Stefnandi telur öll þessi skilyrði uppfyllt.

        Stefnandi byggir á því að úrskurðurinn, sem girðir fyrir bein raforkuviðskipti stefnanda við stefnda Landsnet, hafi valdið stefnanda tjóni þar sem hann leiði til þess að verðmikill rafmagnsbúnaður í eigu stefnanda ónýtist og verði honum verðlaus. Þá hafi úrskurðurinn ýmiss konar beint og óbeint tjón í för með sér fyrir stefnanda, m.a. í formi verðrýrnunar á lóð stefnanda vegna skertra notkunarmöguleika hennar, auk þess sem stefnandi verði fyrir umtalsverðum útgjöldum við að koma upp nýrri tengingu við dreifiveitu. Varðandi fjártjón stefnanda vísar hann til álitsgerðar verkfræðistofu, dags. 6. desember 2012, sem hann hefur aflað vegna máls þessa, svo og til umfjöllunar um þrautavarakröfu, sem hér eigi við að breyttu breytanda.

        Að því er varðar bótagrundvöll byggir stefnandi á því, með vísan til málsástæðna og röksemda sinna um að úrskurðurinn sé ólögmætur og raunar ógildanlegur, enda skorti hann stoð í lögum. Að því virtu sem að framan greini sé þannig ljóst að mati stefnanda að Orkustofnun, og úrskurðarnefnd raforkumála, hafa bakað stefnanda fjártjón með saknæmum og ólögmætum hætti, sem varastefndi beri skaðabótaábyrgð á samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar. Á því leiki enginn vafi að taka stjórnvaldsákvörðunar án þess að fyrir henni sé nægileg lagastoð, og þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar og mótmæli stefnanda, teljist saknæm og ólögmæt háttsemi af hálfu hlutaðeigandi stjórnvalda, sem baki varastefnda skaðabótaábyrgð. Þá séu ótvíræð orsakatengsl milli tjóns stefnanda og hinnar bótaskyldu háttsemi, enda sé tjón stefnanda bein afleiðing af því réttarástandi sem leiði af hinum ólögmæta úrskurði. Þar sem öll skilyrði skaðabótaábyrgðar séu uppfyllt beri að taka varakröfu stefnanda til greina.

        Stefnandi eigi ótvíræðan rétt til að fá úrlausn um hvort varastefndi sé bótaskyldur gagnvart stefnanda vegna úrskurðarins, t.d. á þeim grunni að úrskurðinn hafi skort lagastoð og að stefnanda hafi þar með verið bakað tjón með saknæmum og ólögmætum hætti, sbr. og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Með vísan til síðastnefnds stjórnarskrárákvæðis sé jafnframt ótækt að skýra 1. málslið 12. mgr. 30. gr. raforkulaga svo rúmri skýringu að hann geti girt fyrir málsókn sem þessa, með þeim afleiðingum að stefnanda sé fyrirmunað að grípa til ráðstafana til að vernda verðmæta eign sína. Að mati stefnanda bryti slík tálmun ekki aðeins í bága við síðastgreint stjórnarskrárákvæði heldur færi hún einnig í bága við eignarréttarákvæði 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Ekki fái heldur staðist að stefnandi glati rétti vegna ámælisverðra vinnubragða þeirra stjórnvalda sem hlut eiga að máli, þ.m.t. brota á lögmæltri leiðbeiningarskyldu.

        Verði hvorki fallist á aðalkröfu um að úrskurður úrskurðarnefndar raforkumála verði felldur úr gildi, né varakröfu um viðurkenningu á skaðabótaskyldu vegna úrskurðarins, gerir stefnandi þá þrautavarakröfu að viðurkennd verði skaðabótaskylda varastefnda íslenska ríkisins vegna tjóns stefnanda sem leiðir af setningu 2. mgr. 8. gr. raforkulaga með 4. gr. laga nr. 89/2004 um breytingu á raforkulögum nr. 65/2003.

        Um skilyrði fyrir viðurkenningu á bótaskyldu samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 vísar stefnandi til umfjöllunar um varakröfu. Stefnandi telur öll skilyrði bótaskyldu uppfyllt.

        Stefnandi vísar til þess að af ofangreindum lögum, svo og úrskurðinum sem byggður sé á þeim, leiði að margnefndur samningur milli Furu ehf. og Landsvirkjunar, síðar stefnda Landsnets hf., um raforkuviðskipti frá 1993 verður í reynd óframkvæmanlegur, enda sé hann reistur á þeirri meginforsendu að stefnandi móttaki raforku beint frá stefnda Landsneti hf. Af því leiði jafnframt að rafmagnsbúnaðurinn, sem forveri stefnanda festi kaup á og lét grafa í jörð sína í þessum tilgangi, verði ónothæfur og í reynd verðlaus eign. Vegna þessa sé stefnandi þess utan knúinn til að ráðast í kostnaðarsama fjárfestingu í nýjum tengibúnaði til að geta tengst dreifiveitu svæðisins, HS Veitum, en núverandi búnaður stefnanda bjóði ekki upp á þann möguleika. Hin nýja heimtaug yrði augljóslega með mun lægri flutningsgetu en núverandi heimtaug, sem meðal annars takmarki möguleika stefnanda á að auka við starfsemi sína og orkunotkun síðar. Þar sem miklir notkunarmöguleikar séu fólgnir í beintengingu við raforkuflutningskerfi Landsnets, sé jafnframt ljóst að slík breyting valdi mikilli rýrnun á verðmæti lóðar stefnanda og takmarki t.d. sölumöguleika hennar, s.s. til aðila með starfsemi sem flokkist til stóriðju, eins og lóðin hafi upphaflega verið skipulögð fyrir.

        Stefnandi hefur aflað álitsgerðar verkfræðistofu, dags. 6. desember 2012, sem staðfesti ofangreint. Af henni megi draga þá ályktun að verðmætin, sem liggja í núverandi rafmagnsbúnaði stefnanda og fari forgörðum vegna úrskurðarins, nemi a.m.k. 250-300 milljónum kr. Segi þannig í álitsgerðinni að kostnaður stefnanda við að koma upp nýjum slíkum búnaði síðar, t.d. til að mæta hugsanlegri aukinni raforkuþörf stefnanda í framtíðinni, s.s. ef tekin yrði upp stóriðjustarfsemi á lóðinni að nýju, myndi hlaupa á þessum fjárhæðum hið minnsta. Þá kemur fram í álitsgerðinni að gera megi ráð fyrir að kostnaður við nýja tengingu við dreifiveitu, sem stefnandi mun þurfa að ráðast í vegna úrskurðarins, verði á bilinu 25-40 milljónir króna. Í ofangreindum fjárhæðum sé ekki tekið tillit til ýmiss annars og eftir atvikum afleidds tjóns, sem stefnandi telji óhjákvæmilega leiða af úrskurðinum, s.s. verðrýrnunar á fasteign stefnanda sem leiðir af skertum notkunarmöguleikum hennar. Það sé því ljóst að stefnandi hafi verulega fjárhagslega hagsmuni af niðurstöðu málsins.

        Stefnandi áskilur sér rétt til að afla matsgerðar dómkvadds manns til að renna frekari stoðum undir fjártjón sitt ef málatilbúnaður stefndu gefur tilefni til. Þar sem um sé að ræða viðurkenningarmál samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, verði ekki gerð sú krafa til stefnanda að hann sýni fram á nákvæmt umfang fjártjóns síns, t.d. með útreikningum matsmanns, heldur þurfi hann, sem fyrr segir, eingöngu að leiða nægjanlegum líkum að því að hann hafi orðið fyrir tjóni og gera grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við hið ætlaða bótaskylda atvik. Fyrirliggjandi gögn málsins og atvik að öðru leyti sýna með óyggjandi hætti að þessi skilyrði eru uppfyllt.

          Að því er varðar grundvöll bótaábyrgðar varastefnda byggir stefnandi á því að varastefnda sé óheimilt að stjórnlögum að ónýta eignir stefnanda og valda honum að öðru leyti fjártjóni með afturvirkri og íþyngjandi lagasetningu á þann hátt sem að framan greinir nema því aðeins að stefnandi fái það tjón bætt að fullu.

        Setning 2. mgr. 8. gr. raforkulaga með lögum nr. 89/2004 hafi leitt til þess að verðmæt eign stefnanda hafi farið forgörðum með tilheyrandi fjártjóni og byggir stefnandi á því að stefndi beri hlutlæga bótaábyrgð gagnvart stefnanda á öllu fjártjóni hans af þessum sökum á grundvelli meginreglna íslensks réttar um eignarréttarvernd, sbr. 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og meginsjónarmið þess ákvæðis, enda hafi setning laganna í reynd í för með sér að stefnandi sé sviptur eign sinni eða feli a.m.k. í sér ígildi slíkrar eignaskerðingar, sem varastefndi beri bótaábyrgð á. Sömu niðurstöðu leiði af 1. mgr. 1. gr. 1. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sem einnig áskilur að bætur komi fyrir skerðingu af þessum toga. Í öllu falli feli setning laganna í sér annars konar bótaskylda skerðingu á eignarréttindum stefnanda samkvæmt ofangreindum ákvæðum og meginreglum, þótt talið yrði að ekki væri beinlínis um eignarnám/eignasviptingu eða ígildi hennar að ræða. Að mati stefnanda breyti engu í þessu sambandi þótt ekki sé kveðið berum orðum á um slíka bótaábyrgð varastefnda í lögum nr. 89/2004, enda leiði bótaábyrgð varastefnda einfaldlega af ofangreindu ákvæði stjórnarskrárinnar, svo og meginreglum íslensks réttar um vernd eignarréttar sem það byggist á.

        Stefnandi telur engum vafa undirorpið að hann verði fyrir umfangsmiklu og margþættu fjártjóni vegna setningar tilvitnaðra laga nr. 89/2004, sem úrskurðurinn er reistur á. Telur stefnandi sig þannig hafa sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir fjártjóni og að það megi sannanlega rekja til atriða, sem varastefndi beri bótaábyrgð á samkvæmt framansögðu. Eru því skilyrði til að viðurkenna bótaábyrgð varastefnda á umræddu tjóni á grundvelli 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, enda engum vafa undirorpið að stefnandi hafi ótvíræða lögvarða hagsmuni af viðurkenningardómi þar að lútandi.      

        Varðandi tilvísanir til laga og annarra réttarheimilda vísar stefnandi til ákvæða raforkulaga nr. 65/2003, sbr. einkum 2. mgr. 8. gr. og 10. gr., sbr. lög nr. 89/2004 um breytingu á raforkulögum nr. 65/2003 og lög nr. 75/2004 um stofnun Landsnets hf. Þá vísar stefnandi til 1. mgr. 72. gr. og 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 1. mgr. 1. gr. 1. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Enn fremur vísar stefnandi til meginreglu íslensks réttar um að lög verði ekki talin afturvirk nema þau mæli svo berum orðum. Þá byggir stefnandi á almennum reglum skaðabótaréttar, þ.m.t. ábyrgð varastefnda íslenska ríkisins á skaðverkum stofnana sinna sem og ábyrgð varastefnda á bótaskyldum skerðingum á eignarrétti meðal annars með afturvirkum lögum.

       Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að því er varðar aðild og heimild til kröfusamlags vísar stefnandi til 2. mgr., sbr. 1. mgr. 19. gr., sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um heimild til viðurkenningarkröfu vísar stefnandi til 2. mgr. 25. gr. sömu laga.

Málsástæður og lagarök stefnda Orkustofnunar og varastefnda íslenska ríkisins

        Frávísunarkrafa stefnda Orkustofnunar, sem og varastefnda byggir í fyrsta lagi á því að vísa beri málinu frá dómi á grundvelli 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Kröfugerð stefnanda, eins og hún er sett fram fær ekki staðið ein og sér án aðildar rekstarfélagsins Furu ehf., en það félag sé í raforkuviðskiptum við HS Veitur hf. og áður við stefnda Landsnet hf. Sakarefnið lýtur aðallega að meintum rétti Furu ehf. til að kaupa raforku milliliðalaust frá Landsneti. hf. samkvæmt samningi sem féll úr gildi þann 14. september 2011. Raunar telji stefndi Orkustofnun og varastefndi, íslenska ríkið, að stefnandi eigi engra hagsmuna hér að gæta, enda ekki í neinu samningssambandi við Landsnet hf., né HS Veitur hf. um kaup á raforku.

        Þá byggja stefndi Orkustofnun og varastefndi frávísunarkröfu sína á því að lögvarðir hagsmunir stefnanda af dómsniðurstöðu í samræmi við kröfugerð hans séu ekki fyrir hendi. Engan rökstuðning sé að finna fyrir því hverju það varði stefnanda að fá ógilta ákvörðun Orkustofnunar frá 24. febrúar 2010, né úrskurð kærunefndarinnar frá 29. ágúst 2012. Stefnandi sé eignarhaldsfélag, sem samkvæmt skilgreindum tilgangi sínum hafi augljóslega enga hagsmuni af því að vera í viðskiptum við stefnda Landsnet hf. Fengist efnisdómur í máli þessu yrði einungis skorið úr almennu lagalegu álitaefni og hafi stefnandi því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá efnisdóm í málinu, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

        Í raforkulögum hafi stórnotandi verið skilgreindur í 17. tl. 3. gr., sem notandi sem noti á einum stað a.m.k. 14 MW afl með árlegum nýtingartíma 8.000 stundir eða meira, sbr. 1. gr. laga nr. 89/2004. Ný skilgreining stórnotanda tók gildi með lögum nr. 19/2011, sem breyttu lögum nr. 65/2003. Í 2. mgr. 8. gr. laganna eru viðskiptavinir flutningsfyrirtækis tæmandi taldir, þ.e. dreifiveitur, stórnotendur, virkjanir og aðrir þeir sem hafa leyfi samkvæmt raforkulögum til að stunda viðskipti með raforku. Stefnandi, sem sé eignarhaldsfélag, uppfyllir ekkert af skilyrðunum um afl, orku eða nýtingartíma, skv. 3. gr. og tilheyrir engum þeirra viðskiptavina flutningsfyrirtækis sem nú eru taldir upp í 8. gr. Aðila greinir ekki á um að stefnandi falli ekki að skilgreiningu laganna um stórnotanda. Sú staðreynd stæði óhögguð þótt krafa stefnanda um að fella úr gildi ákvörðun Orkustofnunar frá 24. febrúar 2010 og úrskurð kærunefndarinnar, yrði tekin til greina. Engin úrlausn fengist um réttarstöðu stefnanda þótt leyst yrði efnislega úr kröfu hans fyrir dóminum en dómur um gildi ákvörðunarinnar hefur ekki þau réttaráhrif að staða stefnanda gagnvart raforkulögum breytist á nokkurn hátt.

        Í bréfi Landsnets hf. til Furu ehf. þann 3. apríl 2009 sé fólgin uppsögn á samningi aðila frá 25. janúar 1993 um milliliðalaus raforkuviðskipti. Uppsögnin hafi verið áréttuð í tölvupósti stefnda Landsnets hf. til Furu ehf. þann 25. febrúar 2010. Þeir hagsmunir sem stefnandi kynni að hafa haft af því að leita dóms um ógildingu á ákvörðun Orkustofnunar sé ekki lengur fyrir hendi, enda upplýst að Landsnet hf. hætti milliliðalausri raforkuafhendingu til Furu ehf. frá og með 14. september 2011. Féll samningurinn frá 25. janúar 1993 þá endanlega úr gildi. Stefnandi sem kveðst byggja réttindi sín á áðurnefndum samningi geti hvorki átt annan né betri rétt en Fura ehf. átti, samkvæmt þeim samningi. Bæði lög og samningsskilmálar Landsnets hf., standi því í vegi að gerður verði nýr þjónustusamningur um sölu á ótryggu rafmagni til stefnanda eða Furu ehf. Þá feli samningsgerð Furu ehf. frá 15. september 2011 við HS Veitur hf. um leigu á rafmagnsdreifikerfi Furu ehf. í sér ráðstöfun á sakarefninu, enda sé í þeim samningi fólgin viðurkenning í verki á því að áðurgreindur samningur sé úr gildi fallinn. Hafi stefnandi einhvern tíma átt lögvarða hagsmuni af því að fá ákvörðun Orkustofnunar fellda úr gildi, séu þeir hagsmunir ekki lengur fyrir hendi og breyti engu í þeim efnum að rafmangsdreifikerfið sé nú eign stefnanda, enda geti stefnandi ekki öðlast betri rétt en sá aðili sem hann leiði meintan rétt sinn frá. Telja stefndi og varastefndi því að vísa beri máli þessu frá dómi skv. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

        Varastefndi íslenska ríkið byggir frávísunarkröfu sína einnig á því að skilyrði 1. og 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 séu ekki fyrir hendi. Fyrsta og önnur mgr. 25. gr. hafa verið skýrðar svo að sá sem leitar viðurkenningardóms geti ekki fengið úrlausn um kröfu sína nema hann sýni fram á að hann hafi lögvarinna hagsmuna að gæta, sem talist geti sérstakir fyrir hann og snerti réttarsamband við þann sem hann beinir kröfu sinni að. Meint tjón stefnanda sé órökstutt og ósannað og í raun sé það annar aðili, rekstarfélagið Fura ehf., sem sé meintur tjónþoli. Veruleg óvissa ríki því um hagsmuni stefnanda af því að fá viðurkennda bótaskyldu í samræmi við kröfugerðina. Beri því að vísa kröfugerðinni frá dómi. Þar að auki hafi varastefndi ekki verið aðili að þeim uppsegjanlega þjónustusamningi sem Fura ehf. gerði við Landsvirkjun þann 25. janúar 1993. Stefnandi, eða Fura ehf., þurftu að sæta uppsögn samningsins bótalaust. Vandséð sé því á hvaða grundvelli varastefnda sé stefnt.

        Varastefndi vísar til þess að áskilnaður 2. mgr. 25. gr. hafi verið skýrður svo að sá sem höfði mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni og gera grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við ætlað skaðaverk. Meint fjártjón stefnanda sé órökstutt og ósannað. Ekki hafi verið gerð nein krafa um að rafmagnsdreifikerfið verði fjarlægt. Það sé Fura ehf. sem sé kaupandi raforku af HS Veitum hf. Vandséð sé hverju stefnandi þurfi að kosta til við rafmangstengingar Furu ehf., sem sé sjálfstæður lögaðili, með sjálfstæðan rekstur og fjárhag. Þá sé stefnandi ekki sölufyrirtæki raforku eins og það er skilgreint í 18. tölulið 3. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Sá rekstur sem stefnandi hefur með höndum samkvæmt samþykktum sínum, sé kaup, sala og eignarhald á verðbréfum, kaup sala og rekstur fasteigna og lausafjár ásamt lánastarfsemi tengdri rekstrinum og annar skyldur rekstur. Stefnandi geti vart talist hafa leitt líkur að meintu tjóni vegna hugsanlegrar sölu lóðarinnar eða hluta hennar til ótilekins kaupanda í ókominni framtíð. Komi slík sala til verður væntanlegur kaupandi, auk annarra lagaskilyrða, að uppfylla skilyrði 2. mgr. 8. gr. raforkulaga nr. 65/2003 til að geta átt milliliðalaus viðskipti við Landsnet hf. Hugsanleg ákvæði í sölusamningi stefnanda um aðra tilhögun séu óskuldbindandi fyrir Landsnet hf. Vandséð sé með hvaða hætti slíkir þjónustusamningar gætu orðið skuldbindandi fyrir varastefnda.

        Ekki hefur verið sýnt fram á meint tjón eða meintan missi hagnaðar með neinum hætti. Engin gögn hafa verið lögð fram sem styðja fullyrðingar stefnanda um meint verðmæti dreifikerfisins, né að þau fari forgörðum. Varakrafa sem og þrautavarakrafa stefnanda séu því vanreifaðar. Þá veiti minnisblað starfsmanns Mannvits enga sönnun um meint tjón stefnanda, enda sé þar um að ræða svar við beiðni Furu ehf., sem ekki eigi aðild að þessu máli. Þvert á móti veitir minnisblaðið vísbendingu um að stefnandi verði ekki fyrir neinu tjóni, enda ljóst að hann hafi enga þörf fyrir þá auknu raforku sem þar er lýst. Vísa beri því viðurkenningarkröfu stefnanda frá dómi.

        Varðandi lagarök vísa stefndi og varastefndi til áðurgreindra laga er varða frávísunar- og sýknukröfu. Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda Landsnets hf. í aðalsök.  

       Kröfu sína um frávísun byggir stefndi Landsnet hf. annars vegar á því að stefnandi gætti ekki að nauðsynlegri samlagsaðild í málinu og hins vegar á því að lögvarðir hagsmunir stefnanda séu ekki lengur fyrir hendi og því beri að vísa málinu frá dómi.

       Eins og fram komi í stefnu stefnanda hafi félaginu Furu ehf. verið skipt upp í félögin Bjallaból ehf. og Furu ehf. Af þeim gögnum sem liggja fyrir verður ekki annað ráðið en að stefnandi og Fura ehf. eigi óskipt réttindi gagnvart stefndu, þ.e. séu einhver slík réttindi til staðar yfirleitt. Vísast um það m.a. til þess sem segir á bls. 2 í stefnu að stefnandi hafi tekið við „langstærstum hluta eigna og skulda Furu ehf.“ án þess að það sé rökstutt frekar. Með vísan til 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber þeim að sækja málið sameiginlega. Þar sem svo var ekki gert beri að vísa málinu frá dómi.  

        Þá krefst stefndi Landsnet hf. þess að máli þessu verði vísað frá dómi á þeim grundvelli að stefnandi hafi ekki lengur lögvarða hagsmuni af dómsniðurstöðu eins og hann hagi kröfugerð sinni. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. raforkulaga sé mælt fyrir um það hverjir geti verið viðskiptavinir stefnda, en það séu samkvæmt ákvæðinu dreifiveitur, virkjanir og stórnotendur. Fyrir liggi að stefnandi sé hvorki handhafi virkjunarleyfis né leyfis til að reka dreifiveitu. Samkvæmt 17. tölulið 3. gr. raforkulaga hafi stórnotandi verið skilgreindur sem notandi sem noti á einum stað a.m.k. 14 MW með árlegum nýtingartíma 8.000 stundum eða meira, en þetta ákvæði hafi gilt þar til ný skilgreining var innleidd með lögum nr. 19/2011 sem breyttu raforkulögum. Eins og fram komi í gögnum málsins uppfylli stefnandi ekki þau skilyrði sem gerð voru og gerð séu til að teljast stórnotandi. Þá hafi stefnandi lýst því yfir að óumdeilt sé að hann uppfylli ekki skilyrði um stórnotanda í skilningi 1. töluliðs 3. gr. raforkulaga. Stefndi telur því að engin úrlausn fengist um réttarstöðu stefnanda þótt leyst yrði efnislega úr kröfu stefnanda fyrir dómnum, staða stefnanda yrði áfram sú að hann uppfyllti ekki skilyrði raforkulaga um að geta verið viðskiptavinur stefnda.

        Með samningi, dags. 12. september 2011, við HS Veitur hf. hafi stefnandi gert samning um leigu á rafmagnsdreifkerfi stefnanda. Sú samningsgerð feli í sér að stefnandi hafi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá ákvörðun stefnda Orkustofnunar fellda úr gildi, en stefndi telur að sú samningsgerð feli í sér að stefnandi hafi þegar ráðstafað sakarefninu sem feli í sér viðurkenningu hans á því að samningur hans við stefnda sé fallinn úr gildi. Samningur Landsnets hf. við stefnanda myndi enda ekki komast á aftur við ógildingu úrskurðarins. Telur stefndi Landsnet hf. því að vísa beri máli þessu frá dómi samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

V.

Niðurstaða

        Fyrir liggur í máli þessu að Furu ehf. var hinn 17. ágúst 2012 skipt upp í tvö félög, Furu ehf., rekstrarfélag, og Bjallaból ehf., stefnanda, sem er eignarhaldsfélag samkvæmt skilgreindum tilgangi sínum. Fram kemur að þetta hafi verið gert þann 17. ágúst 2012 og hafi þá verið miðað við að skiptingin tæki gildi frá 1. janúar 2012.

         Frávísunarkröfur stefnda Landsnets hf., stefnda Orkustofnunar, sem og varastefnda íslenska ríkisins byggjast í fyrsta lagi á því að vísa beri málinu frá dómi á grundvelli 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Kröfugerð stefnanda, eins og hún sé sett fram fái ekki staðið ein og sér án aðildar rekstarfélagsins Furu ehf., en það félag sé í raforkuviðskiptum við HS Veitur hf. og hafi áður verið í raforkuviðskiptum við stefnda Landsnet hf.       

        Stefndu, Landsnet hf. og Orkustofnun, og varastefndi, íslenska ríkið, byggja frávísunarkröfur sínar einnig á því að lögvarðir hagsmunir stefnanda af dómsniðurstöðu í samræmi við kröfugerð hans séu ekki fyrir hendi. Engan rökstuðning sé að finna fyrir því hverju það varði stefnanda að fá ógilta ákvörðun Orkustofnunar frá 24. febrúar 2010, né úrskurð kærunefndarinnar frá 29. ágúst 2012. Fengist efnisdómur í máli þessu yrði einungis skorið úr almennu lagalegu álitaefni og hafi stefnandi því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá efnisdóm í málinu, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

        Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 er mælt fyrir um það að þegar fleiri en einn eigi óskipt réttindi eða beri óskipta skyldu þá eigi þeir óskipta aðild. Í 2. mgr. sömu greinar segir að ef þeim sem bera óskipta aðild er ekki öllum veittur kostur á að svara til sakar skuli vísa máli frá dómi. Það sama eigi við ef þeir sem eiga óskipt réttindi sækja ekki mál í sameiningu, að því leyti sem krafa er höfð uppi um hagsmuni einhvers þeirra sem á ekki aðild að því.

        Eins og rakið hefur verið var félaginu Furu ehf. skipt upp í félögin Bjallaból ehf. og Furu ehf. Í stefnu segir að stefnandi hafi tekið við langstærstum hluta eigna og skulda Furu ehf. Þegar horft er til nauðsynjar á samaðild til sóknar er meginspurningin sú hvort hægt sé að skilja nægilega milli réttinda þeirra aðila sem tengjast náið, til þess að hvort eða hver þeirri geti sótt sín afmörkuðu réttindi í dómsmáli án atbeina hins 

        Sakarefnið í máli þessu lýtur aðallega að meintum rétti Furu ehf. til að kaupa raforku milliliðalaust frá Landsneti. hf. samkvæmt samningi sem féll úr gildi þann 14. september 2011. Í meðalgöngustefnu, sem Fura ehf. hefur höfðað til að krefjast meðalgöngu í máli þessu, er á því byggt að afdrif dómkrafna stefnanda og niðurstaða þessa máls skipti meðalgöngustefnanda máli þar sem synjun dómstóls á kröfum stefnanda geti haft bein áhrif á sjálfa uppskiptinguna og með meðalgöngustefnunni leitist meðalgöngustefnandi við að tryggja það að réttur félagsins sé verndaður. Af þeim gögnum sem liggja fyrir verður ekki annað ráðið en að stefnandi og Fura ehf. eigi óskipt réttindi gagnvart stefndu, séu slík réttindi til staðar.

        Með vísan til 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála bar þeim að sækja málið sameiginlega. Þar sem svo var ekki gert ber þegar af þessari ástæðu að vísa málinu frá dómi. Að fenginni framangreindri niðurstöðu er brostinn grundvöllur fyrir meðalgöngu og er meðalgöngusök því vísað að sjálfsdáðum frá dómi.

        Með vísan til þessarar niðurstöðu og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, verður stefnanda og meðalgöngustefnanda gert að greiða stefnda Landsneti hf., stefnda Orkustofnun og varastefnda íslenska ríkinu málskostnað. Með vísan til eðlis og umfangs málsins þykir málskostnaður hæfilegur eins og í úrskurðarorði greinir.

        Vegna embættisanna dómara hefur uppkvaðning úrskurðar dregist umfram frest skv. 1. mgr. 115. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Lögmenn eru sammála dómara um að ekki sé þörf á endurflutningi málsins.

        Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

        Máli þessu og meðalgöngusök er vísað frá dómi.

        Stefnandi, Bjallaból ehf., greiði stefnda, Orkustofnun, stefnda Landsneti hf. og varastefnda, íslenska ríkinu, hverjum um sig, 450.000 kr. í málskostnað.

        Meðalgöngustefnandi, Fura ehf., greiði stefnda Orkustofnun, stefnda Landsneti hf. og varastefnda íslenska ríkinu, hverjum um sig, 200.000 kr. í málskostnað.