Hæstiréttur íslands

Mál nr. 233/2017

Ákæruvaldið (Stefanía G. Sæmundsdóttir saksóknari)
gegn
X (Ómar Örn Bjarnþórsson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta farbanni á grundvelli 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. b. lið 1. mgr. 95. gr. sömu laga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Þorgeir Ingi Njálsson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. apríl 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. apríl 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta farbanni meðan mál hans er til meðferðar í héraði, en þó eigi lengur en til 8. maí 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að farbanninu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. apríl 2017.

                Með erindi sem barst dómnum í dag hefur ríkissaksóknari krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að varnaraðila, X, kt. [...], verði gert að sæta farbanni á meðan mál hans er til meðferðar fyrir Héraðsdómi Reykjaness, þó eigi lengur en til föstudagsins 2. júní 2017, kl. 16:00.

                Varnaraðili mótmælir kröfu lögreglustjóra og krefst þess aðallega að henni verði hafnað en til vara að farbanni verði markaður skemmri tími en krafist er.

I

                Í greinargerð með kröfu ríkissaksóknara kemur fram að í ákæru ríkissaksóknara útgefinni 20. janúar 2014 sé varnaraðila gefið að sök stórfellt fíkniefnalagabrot; „með því að hafa í ágúst 2011, ásamt þeim Y, kt. [...] og Z, kt. [...], staðið að innflutningi til Íslands á samtals 30.225 töflum með fíkniefninu MDMA (ecstasy), til söludreifingar í ágóðaskyni. Ákærði fór til [...] og afhenti þar Y, sem Z hafði fengið til verksins, fíkniefnin í því skyni að þau yrðu flutt til Íslands. Jafnframt sá ákærði um að greiða hluta ferðakostnaðar og uppihalds hans og Y vegna ferðarinnar. Fíkniefnin flutti Y til Íslands sem farþegi með flugi [...] frá [...] þriðjudaginn 23. ágúst 2011.“ Háttsemi varnaraðila sé í ákæru heimfærð undir ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákæra ásamt fyrirkalli Héraðsdóms Reykjaness hafi verið birt varnaraðila í [...] og hafi málið verið þingfest í Héraðsdómi Reykjaness [...] janúar 2016, sbr. mál dómsins nr. S-[...]/2014. Varnaraðili hafi ekki sótt þing en fyrir hans hönd hafi mætt Sveinn Andri Sveinsson hrl. sem skipaður hafi verið verjandi varnaraðila í sakamálinu að hans ósk. Í þinghaldinu hafi verið bókað að varnaraðili væri búsettur í [...]. Þá hafi verjandi upplýst að varnaraðili myndi mögulega koma til Íslands í júní eða júlí 2016, en að ekkert væri þó fastákveðið í þeim efnum.  Málinu hafi við svo búið verið frestað um óákveðinn tíma.

Frá þingfestingu málsins hafi varnaraðili ekki gefið sig fram, hvorki við ákæruvaldið né héraðsdóm, og hafi ákæruvaldinu engar upplýsingar borist um dvöl hans hér á landi fyrr en þær upplýsingar hafi borist frá lögregluyfirvöldum á Suðurnesjum 7. apríl sl. að svo virtist sem varnaraðili væri staddur hér á landi og að hann ætti bókað flug til [...] að morgni 8. apríl nk. Varnaraðili hafi ekki mætt í bókað flug 8. apríl sl. en verið handtekinn í Leifsstöð fyrr í dag á leið úr landi.

Ríkissaksóknari tekur fram að 21. maí 2013 hafi ríkissaksóknari upphaflega gefið út sameiginlega ákæru á hendur varnaraðila, Y og Z vegna þeirrar háttsemi sem ákæran frá 20. janúar 2014 taki til. Við þingfestingu í Héraðsdómi Reykjaness [...] júní 2013, sbr. mál nr. S-[...]/2013, hafi meðal annars verið bókað eftir skipuðum verjanda varnaraðila, Guðmundi St. Ragnarssyni hdl., að varnaraðili væri staddur erlendis og ekki væntanlegur til Íslands fyrr en í ágúst eða september 2013. Í þinghaldi 4. september 2013 hafi meðal annars verið lögð fram gögn um að varnaraðili sætti farbanni í [...].  Í þinghaldi 27. nóvember 2013 hafi síðan verið bókað að ekki hefði tekist að fá varnaraðila fyrir dóm.  Í því þinghaldi hafi sækjandi lagt til að dómari skildi málið í sundur og dæmdi þátt varnaraðila sérstaklega, en því hafi dómari hafnað.  Í þinghaldi 20. janúar 2014 hafi síðan verið bókað í þingbók: „Sækjandi óskar bókað að í ljósi afstöðu dómsins þar sem ósk ákæruvaldsins um að skilja málið í sundur var hafnað og í ljósi þess að ákærði X er í farbanni í [...] er ljóst að málið muni dragast meðan beðið er eftir honum. Því hefur ákæruvaldið ákveðið að afturkalla ákæru málsins og gefa út nýjar ákærur á hendur ákærðu. Nýjar ákærur verða gefnar út í dag og sendar dóminum til meðferðar.“

Í ljósi þess að ákæruvaldið hafi samkvæmt framangreindu allt frá árinu 2013 reynt að fá varnaraðila fyrir dóm vegna sakamálsins en það ekki tekist vegna dvalar hans erlendis telji ríkissaksóknari að miklar líkur séu á því að varnaraðili, sem handtekinn hafi verið á leið úr landi, muni fara af landi brott og áfram koma í veg fyrir að mál hans geti hlotið meðferð fyrir dómstólum, fari hann frjáls ferða sinna. Af þeim sökum telji ríkissaksóknari nauðsynlegt að varnaraðila verði gert að sæta farbanni til að unnt verði að ráða málum hans til lykta með dómi.

             Ríkissaksóknari vísar til þess að sakarefnið varði við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Um heimild til farbanns vísar ríkissaksóknari til b-liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 100. gr., laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

II

Með vísan til alls framanritaðs og gagna sakamálsins nr. S-[...]/2014 er fallist á það með ríkissaksóknara að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við.

Svo sem fyrr var rakið var ákæra á hendur varnaraðila gefin út 20. janúar 2014 og var sakamál á grundvelli þeirrar ákæru þingfest 5. mars 2014. Fyrir liggur samkvæmt þingbók máls nr. S-[...]/2014 að ákæra málsins og fyrirkall var birt fyrir varnaraðila í aðdraganda þingfestingar málsins. Ákæra og fyrirkall var birt varnaraðila að nýju í [...], þar sem hann var þá búsettur, í aðdraganda fyrirtöku málsins 27. janúar 2016. Bókað var í þingbók að varnaraðili hefði sætt farbanni þar í landi allt frá árinu 2013 og fram til 4. september 2015. Upplýsti verjandi varnaraðila í sakamálinu að hann myndi mögulega koma til landsins í júní eða júlí 2016, en að ekkert væri þó fastákveðið í þeim efnum. Af gögnum málsins verður ekki séð að varnaraðili hafi eftir þetta gert nokkurn reka að því að mæta fyrir dóm og svara þar til saka, svo sem hann hafði þó í tvígang verið kallaður til að gera af dómnum. Í ljósi alls þessa og hinna alvarlegu sakargifta sem varnaraðili er borinn í sakamálinu, en í ákæru er honum gefið að sök brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn ákvæðinu varðar allt að 12 ára fangelsi, þykir mega ætla að varnaraðili muni reyna að komast úr landi, leynast eða koma sér undan málssókn með öðrum hætti fari hann frjáls ferða sinna. Er því fallist á það með ríkissaksóknara að nauðsynlegt sé að tryggja nærveru varnaraðila á meðan sakamáli hans er ekki lokið, enda telst fullnægt skilyrðum b-liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til að varnaraðila verði bönnuð för frá landinu. Krafa ríkissaksóknara er því tekin til greina með þeim hætti sem í úrskurðarorði greinir.

Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

                Varnaraðili, X, kt. [...], skal sæta farbanni á meðan mál hans nr. S-[...]/2014 er til meðferðar fyrir Héraðsdómi Reykjaness, þó eigi lengur en til mánudagsins 8. maí 2017, kl. 16:00.