- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Hlutafélag
- Firmaritun
- Einkahlutafélag
|
Fimmtudaginn 10. apríl 2014. |
Nr. 593/2013.
|
Kaupþing hf. (Guðni Á. Haraldsson hrl.) gegn Kristjáni Arasyni (Ragnar Halldór Hall hrl.) og gagnsök |
Fjármálafyrirtæki. Slit. Hlutafélag. Firmaritun. Einkahlutafélag.
K hf. höfðaði mál gegn KA og krafðist meðal annars greiðslu lánssamninga sem aðilar höfðu gert sín á milli vegna kaupa KA á hlutabréfum í K hf. en á þeim tíma hafði KA verið einn af framkvæmdastjórum K hf. Hafði þáverandi forstjóri K hf. samþykkt að umrædd hlutabréf yrðu færð yfir í 7 ehf., sem var eignarhaldsfélag á vegum KA, ásamt þeim skuldum sem stóðu að baki hlutabréfakaupunum. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þáverandi forstjóri K hf. hefði haft rétt til að rita einn firma K hf. sbr. 2. mgr. 74. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög og að takmörkun á þeim rétti sem fram kom í verklagsreglum K hf. hefði einskorðast við að veita framkvæmdastjórum fyrirtækisins lán. Var áðurnefnd ákvörðun forstjórans því skuldbindandi fyrir K hf. og þurfti ekki að taka afstöðu til þess hver hefði verið vitneskja KA um heimild forstjórans til að skuldbinda K hf. á þessum tíma. Ekki var talið skipta máli að hlutafé 7 ehf. hafði ekki verið greitt í peningum við stofnun félagsins. Þá var hafnað málsástæðum K hf. er lutu að því að KA skyldi bera ábyrgð á skuldbindingum 7 ehf. á grundvelli ólögfestrar undantekningar frá meginreglunni um takmarkaða ábyrgð hluthafa á skuldbindingum slíkra félaga eða ólögfestrar meginreglu kröfuréttar um óréttmæta auðgun. Þá var hafnað kröfum K hf. sem byggðar voru á því að KA hefði valdið K hf. tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti.Með dómi Hæstaréttar var hafnað kröfu KA um að málinu yrði vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. september 2013. Hann krefst þess aðallega að gagnáfrýjandi greiði sér 534.103.460 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 17.246.757 krónum frá 15. maí 2009 til 29. desember sama ár, frá þeim degi af 28.663.227 krónum til 15. september 2010, frá þeim degi af 371.561.692 krónum til 1. desember sama ár, frá þeim degi af 502.236.466 krónum til 10. janúar 2011, en frá þeim degi af 534.103.460 krónum til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 388.216.193 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 13.059.089 krónum frá 15. maí 2009 til 29. desember sama ár, frá þeim degi af 21.039.935 krónum til 15. september 2010, frá þeim degi af 280.957.926 krónum til 1. desember sama ár, frá þeim degi af 354.417.255 krónum til 10. janúar 2011, en frá þeim degi af 388.216.193 krónum til greiðsludags. Að því frágengnu krefst aðaláfrýjandi þess að gagnáfrýjandi greiði sér 459.129.033 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 12. mars 2008 til 11. nóvember 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Að öllu þessu frágengnu krefst hann þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 428.524.223 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 12. mars 2008 til 11. nóvember 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar úr hendi gagnáfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. nóvember 2013. Hann krefst þess aðallega að úrskurður héraðsdóms 22. nóvember 2012 verði felldur úr gildi og málinu vísað frá héraðsdómi. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst gagnáfrýjandi staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en að því frágengnu að kröfur aðaláfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður á báðum dómstigum verði látinn falla niður.
I
Gagnáfrýjandi krefst þess aðallega að úrskurður héraðsdóms 22. nóvember 2012 þar sem hafnað var frávísunarkröfu hans verði felldur úr gildi og málinu vísað frá héraðsdómi. Með vísan til forsendna úrskurðarins verður sú krafa gagnáfrýjanda ekki tekin til greina.
II
Í samþykktum aðaláfrýjanda, sem upphaflega voru samþykktar á stofnfundi hans 22. febrúar 1982 og síðast breytt á aðalfundi 7. mars 2008, sagði meðal annars í 21. gr. að stjórn félagsins hefði æðsta vald í málefnum þess milli hluthafafunda. Ennfremur að undirritun meirihluta stjórnar skuldbyndi félagið. Í samþykktunum var ekki sérstaklega kveðið á um hver hefði heimild til að rita firma félagsins.
Í skjali sem í íslenskri þýðingu bar yfirskriftina ,,Listi yfir undirritunarheimildir“ kom fram að þar væru tilgreind umboð og heimildir starfsmanna til að annast tiltekin viðskipti og að í viðauka væru nöfn þessara starfsmanna og rithandarsýnishorn. Heimildir samkvæmt listanum skyldu gilda frá 1. nóvember 2006 og var þeim skipt í níu flokka sem merktir voru með bókstöfunum A til I en ríkastar heimildir voru veittar þeim sem féllu í flokk A. Um þann flokk var tekið fram að undirritun fimm stjórnarmanna aðaláfrýjanda skuldbyndu hann í öllum málum. Í sama flokk féllu einnig þrír menn, sem í fyrirsögn voru nefndir forstjórar, en umboð þeirra hljóðaði svo: ,,Formaður stjórnar, forstjóri samstæðunnar ... og forstjóri bankans á Íslandi ... fara með prókúru fyrir félagið og hafa hver fyrir sig og sameiginlega heimild til að skuldbinda félagið í öllum málum þ.á.m. til að selja og veðsetja fasteignir félagsins. Formanni stjórnar, forstjóra samstæðunnar og forstjóra er hverjum fyrir sig og sameiginlega heimilt að tilnefna aðra fyrir sína hönd til að fara með þær heimildir sem hér eru upp taldar.“ Með fylgdu rithandarsýnishorn Hreiðars Más Sigurðssonar, Ingólfs Helgasonar og Sigurðar Einarssonar.
Stjórn aðaláfrýjanda samþykkti á fundi sínum 28. september 2005 að heimila formanni stjórnar og forstjóra samstæðunnar ,,einn fyrir alla eða allir fyrir einn, að gera kaupréttarsamning við lykilstarfsmenn um allt að 16 milljónir hluta í Kaupþingi banka ... Stjórnin samþykkti ennfremur að veita þessum sömu starfsmönnum lán þegar kauprétturinn verður nýttur.“ Á grundvelli þessarar stjórnarsamþykktar voru gerðir samningar við gagnáfrýjanda um rétt til kaupa á hlutum í bankanum og honum veitt lán til að nýta þann kauprétt.
Ekki nýtur við gagna í málinu um að leitað hafi verið samþykkis stjórnar aðaláfrýjanda fyrir þeirri ráðstöfun að færa hlutabréf þau sem gagnáfrýjandi átti í aðaláfrýjanda yfir í einkahlutafélag hans, ásamt þeirri skuld er gagnáfrýjandi stóð í við bankann vegna kaupa á bréfunum. Á hinn bóginn liggja fyrir tölvupóstsamskipti milli gagnáfrýjanda, Hreiðars Más og annarra starfsmanna bankans frá 14. febrúar 2008 til 20. sama mánaðar. Verða þau ekki skilin á annan veg en að Hreiðar Már, sem forstjóri aðaláfrýjanda, hafi samþykkt að beiðni gagnáfrýjanda að hlutir hans í aðaláfrýjanda yrðu færðir yfir í eignarhaldsfélag á hans vegum ásamt skuldum að baki hlutabréfakaupunum, auk þess sem 100.000 af hlutunum yrðu gagnáfrýjanda til frjálsrar ráðstöfunar. Í framhaldinu voru gerðir nýir lánssamningar milli aðaláfrýjanda og 7 hægri ehf. þar sem tekið var fram að þeir kæmu í stað áður gerðra samninga milli gagnáfrýjanda og bankans.
Meðal málsgagna er útdráttur úr ,,Handbók um innra eftirlit og verklagsreglur“ hjá aðaláfrýjanda en sú útgáfa sem lögð hefur verið fram var samþykkt af stjórn aðaláfrýjanda 27. september 2007. Í grein 5.1. var fjallað um lán til starfsmanna og stjórnarmanna. Sagði þar meðal annars: ,,Lán til útibússtjóra og maka þeirra eru ákveðin af framkvæmdastjóra smásölusviðs en lán til framkvæmdastjóra smásölusviðs, annarra framkvæmdastjóra og maka þeirra eru háð samþykki stjórnar“.
Í málsatvikalýsingu hins áfrýjaða dóms er greint frá yfirlýsingu Jónínu S. Lárusdóttur 15. mars 2011, sem varðar lánssamninga þá sem um er deilt í máli þessu. Þar greinir að lánssamningarnir hafi verið framseldir frá Arion banka hf. til aðaláfrýjanda með samningi 25. ágúst 2011. Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð fram yfirlýsing Jónínu þess efnis að fyrri yfirlýsing hennar 15. mars 2011 hafi að réttu lagi átt að vera dagsett 15. mars 2012
III
Aðaláfrýjandi reisir aðalkröfu sína á því að forstjóri hans, Hreiðar Már Sigurðsson, hafi ekki haft heimild til þess að gefa eftir ábyrgð á lánum gagnáfrýjanda og leyfa að ábyrgð þeirra yrði flutt yfir í einkahlutafélag hans, 7 hægri. Við þessa ráðstöfun hafi forstjóri bankans farið á svig við 2. mgr. 68. gr. og 1. og 2. tölulið 1. mgr. 77. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, auk þess sem gagnáfrýjandi hafi vitað eða mátt vita um heimildarskortinn. Af þeim sökum hafi yfirtaka einkahlutafélags gagnáfrýjanda á skuldum samkvæmt lánssamningum þeim sem um er deilt í málinu aldrei átt sér stað og sé hann því persónulega ábyrgur fyrir greiðslu þeirra.
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga nr. 2/1995 kemur stjórn hlutafélags fram út á við fyrir hönd félagsins og ritar firma þess en eftir 2. mgr. er stjórninni heimilt að veita stjórnarmönnum, framkvæmdastjórum eða öðrum heimild til að rita firma félagsins, svo framarlega sem öðruvísi sé ekki ákveðið í samþykktum þess. Í 3. mgr. sömu lagagreinar segir að takmarka megi ritunarréttinn á þann hátt að fleiri en einn fari með hann í sameiningu en aðra takmörkun sé ekki unnt að skrá. Í 1. mgr. 77. gr. laga nr. 2/1995 er kveðið á um að ef sá sem kemur fram fyrir hönd félags samkvæmt 74. gr. laganna geri löggerning fyrir þess hönd bindi sá gerningur félagið nema hann hafi farið út fyrir þær takmarkanir á heimild sinni, sem ákveðnar séu í þeim lögum, sbr. 1. tölulið, eða á annan hátt, sbr. 2. tölulið, enda hafi viðsemjandi í síðara tilvikinu vitað eða mátt vita um heimildarskortinn og telja verði ósanngjarnt að viðsemjandinn haldi fram rétti sínum.
Sem forstjóri aðaláfrýjanda hafði Hreiðar Már samkvæmt framangreindu rétt til að rita einn firma félagsins, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga nr. 2/1995. Með gagnályktun frá 3. mgr. sömu lagagreinar verður rétturinn til að rita firma ekki takmarkaður gagnvart grandlausum viðsemjanda á þann hátt að hann taki aðeins til sumra löggerninga en ekki annarra, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 10. júní 2011 í máli nr. 201/2011. Á hinn bóginn getur stjórn takmarkað ritunarréttinn þannig að skuldbindandi sé fyrir viðsemjanda sem veit eða má vita um slíka takmörkun, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 77. gr. laga nr. 2/1995.
Eins og að framan greinir samþykkti Hreiðar Már að hlutir gagnáfrýjanda í aðaláfrýjanda yrðu færðir yfir í eignarhaldsfélag á hans vegum ásamt skuldum að baki hlutabréfakaupunum. Af hálfu aðaláfrýjanda er því haldið fram að forstjórinn hafi ekki haft heimild til að aflétta ábyrgð gagnáfrýjanda af skuldunum vegna ákvæðisins í grein 5.1. í handbók um innra eftirlit og verklagsreglur hjá aðaláfrýjanda þar sem áskilið var að lán til framkvæmdastjóra aðaláfrýjanda væru háð samþykki stjórnar félagsins. Samþykki forstjórans var í því fólgið að fallast á að nýr skuldari, 7 hægri ehf., kæmi í stað gagnáfrýjanda þannig að í raun var um að ræða skipti á skuldurum þar sem einkahlutafélagið tók við þeim skuldbindingum sem á gagnáfrýjanda höfðu hvílt. Þar sem umrætt ákvæði í reglum aðaláfrýjanda var samkvæmt orðanna hljóðan einskorðað við að veita framkvæmdastjórum hans lán var þessi ákvörðun forstjórans ekki háð samþykki stjórnar og þar með fór hann ekki út fyrir þær takmarkanir sem honum höfðu verið þar settar á heimild hans til að rita firma aðaláfrýjanda. Með skírskotun til upphafsorða 1. mgr. 77. gr. laga nr. 2/1995 var samþykki forstjórans því skuldbindandi fyrir aðaláfrýjanda. Að fenginni þeirri niðurstöðu þarf hvorki að taka afstöðu til þess hver hafi verið vitneskja gagnáfrýjanda um heimild forstjórans til að skuldbinda aðaláfrýjanda á þessum tíma né getur aðaláfrýjandi byggt rétt á 2. mgr. 10. gr. og 1. mgr. 11. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi var tilkynning um stofnun 7 hægri ehf. móttekin hjá fyrirtækjaskrá 25. febrúar 2008. Í tilkynningunni var tekið fram að hlutaféð, 500.000 krónur, hefði verið greitt að fullu og væri það allt greitt í peningum, en óumdeilt er að það var ekki gert. Þótt fyrir liggi þannig að með þessu hafi efni tilkynningar um stofnun einkahlutafélagsins ekki verið rétt er ágreiningslaust að félagið var stofnað og skráð hjá fyrirtækjaskrá án athugasemda. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms um þennan þátt málsins er fallist á að gagnáfrýjandi verði ekki talinn bera ábyrgð á skuldbindingum einkahlutafélagsins á grundvelli ólögfestrar undantekningar frá meginreglunni um takmarkaða ábyrgð hluthafa á skuldbindingum slíkra félaga.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á þá niðurstöðu hans að hafna kröfu aðaláfrýjanda sem byggð er á málsástæðum er lúta að ólögfestri meginreglu kröfuréttar um óréttmæta auðgun. Á sama hátt er staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að ákvæði 1. mgr. 76. gr. laga nr. 2/1995 eigi ekki við í málinu.
Samkvæmt öllu framansögðu verður gagnáfrýjandi sýknaður af aðalkröfu aðaláfrýjanda.
IV
Aðrar kröfur aðaláfrýjanda eru á því byggðar að gagnáfrýjandi hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið honum tjóni. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða að ekki hafi verið sýnt fram á að gagnáfrýjandi hafi valdið aðaláfrýjanda bótaskyldu tjóni með háttsemi sinni.
Niðurstaða hins áfrýjaða dóms verður því staðfest og aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Aðaláfrýjandi, Kaupþing hf., greiði gagnáfrýjanda, Kristjáni Arasyni, 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 2. júlí 2013.
Mál þetta, sem dómtekið var 27. maí sl., höfðaði stefnandi, Kaupþing hf., Borgartúni 26, Reykjavík, hinn 2. mars 2012, gegn stefnda, Kristjáni Arasyni, Mávahrauni 7, Hafnarfirði.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þessar:
Aðalkrafa:
A. Aðallega að stefndi verið dæmdur til þess að greiða stefnanda 534.103.460 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 17.246.757 krónum frá 15. maí 2009 til 29. desember sama ár, en frá þeim degi af 28.663.227 krónum til 5. september 2010, en frá þeim degi af 371.561.692 krónum til 1. desember sama ár, en frá þeim degi af 502.236.466 krónum til 10. janúar 2011, en frá þeim degi af 534.103.460 krónum með sömu dráttarvöxtum til greiðsludags.
B. Til vara að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 388.216.193 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 13.059.089 krónum frá 15. maí 2009 til 29. desember 2009 en frá þeim degi af 21.039.935 krónum til 15. september 2010 en frá þeim degi af 280.957.926 krónum til 1. desember sama ár en frá þeim degi af 354.417.255 krónum til 10. janúar 2011, en frá þeim degi af 388.216.193 krónum með sömu dráttarvöxtum til greiðsludags.
Varakrafa:
A. Aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 459.129.033 krónur ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. mars 2008 til 11. nóvember 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
B. Til vara að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 428.524.223 krónur ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 12. mars 2008 til 11. nóvember 2011, en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Í öllum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara krefst stefndi þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.
I.
Stefndi hóf störf hjá Kaupþingi banka hf. (nú Kaupþing hf.) árið 2001 sem yfirmaður eignastýringar. Frá árinu 2001 til 2007 breyttist starfstitill stefnda og í samþykktum undirskriftarreglum Kaupþings banka hf. frá 1. nóvember 2007 var stefndi titlaður framkvæmdastjóri einkabankaþjónustu (e. „Managing director of private banking“). Hinn 1. apríl 2008 tók stefndi svo við starfi framkvæmdastjóra viðskiptabankasviðs sem hann gegndi fram að falli bankans.
Svo sem alltítt mun hafa verið með starfsmenn Kaupþings banka hf. var stefnda veittur kaupréttur að hlutabréfum í bankanum, sbr. kaupréttarsamninga á milli bankans og stefnda frá 23. október 2002 (tveir samningar) og 16. nóvember 2005 (tveir samningar). Með samningum 23. október 2002 öðlaðist stefndi rétt til að kaupa 300.000 hluti í bankanum á genginu 12 á næstu fimm árum.
Hinn 28. september 2005 samþykkti stjórn Kaupþings banka hf. að kaup starfsmanna á hlutum í stefnanda skyldu fjármögnuð af bankanum. Í samræmi við framangreint fjármagnaði stefnandi kaup stefnda á hlutabréfum í bankanum með sex eftirtöldum lánssamningum:
Lána-númer |
Dagsetning samnings |
Upphafleg lánsfjárhæð |
Myntkarfa |
Gjalddagi |
Álag á vexti |
3011 |
12.12.2005 |
ISK 259.691.187 |
USD 23% / CHF 22% / JPY 12% / EUR 43% |
01.12.2010 |
1,20% |
2963 |
27.01.2006 |
ISK 423.065.750 |
USD 23% / CHF 22% / JPY 12% / EUR 43% |
01.12.2010 |
1,20% |
4349 |
29.12.2006 |
ISK 7.276.524 |
CHF 50% / JPY 50% |
29.12.2009 |
1,75% |
4661 |
01.03.2007 |
ISK 12.096.834 |
CHF 50% / JPY 50% |
15.05.2009 |
1,75% |
6057 |
05.09.2007 |
SEK 24.848.221 / ISK 229.161.620 (1 SEK = ISK 9,222) |
CHF 40% / JPY 60% |
05.09.2010 |
1,75% |
6819 |
21.12.2007 |
ISK 21.774.020 |
CHF 40% / JPY 60% |
10.01.2011 |
2,00% |
Samtal |
ISK 953.065.935 |
Stefndi bar 10% ábyrgð á lánssamningum nr. 3011 og 2963 en fulla ábyrgð á lánum samkvæmt öðrum samningum.
Einkahlutafélagið 7 hægri var stofnað 20. febrúar 2008. Stefndi var stofnandi félagsins og aðalmaður í stjórn þess. Hlutafé félagsins var 500.000 krónur samkvæmt innsendri tilkynningu um stofnun einkahlutafélags til hlutafélagaskrár. Í tilkynningunni kom fram að allt hlutaféð hefði verið greitt með peningum. Mun stefndi hafa verið eini hluthafi félagsins. Stefndi var skráður með prókúru fyrir félagið og var það með lögheimili á heimili stefnda. Tilgangur félagsins var í fyrrnefndri tilkynningu sagður rekstur eignarhaldsfélaga og annar skyldur rekstur.
Í kjölfar óskar stefnda þar um voru gerðir nýir lánssamningar 12. mars 2008 sem komu í stað þeirra fyrri sem fólu í sér að skuldbindingar stefnda vegna kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. voru færðar yfir til 7 hægri ehf. og stefndi þannig leystur undan persónulegri ábyrgð á endurgreiðslu lánanna. Undir lánssamningana 12. mars 2008 rituðu, fyrir hönd stefnanda, framkvæmdastjórar á fyrirtækjasviði bankans, Bjarki H. Diego og Björk Þórarinsdóttir.
Samhliða þessari yfirfærslu skulda voru hlutabréf stefnda færð yfir til 7 hægri ehf. Þó voru 98.522 hlutir, þá að verðmæti 72.413.670 krónur, undanskildir og leystir úr veðböndum. Mun stefndi hafa selt þessa hluti 30. september 2008 til þess að fjármagna skattgreiðslur. Eftir þessa yfirfærslu hlutabréfa og skulda til 7 hægri ehf. var andvirði veða á móti skuldum, svonefnd veðþekja, 107%.
Hjá Kaupþingi banka hf. var í gildi sérstök reglubók um innri starfsemi bankans (e. Internal Control and Procedural Handbook). Reglubók Kaupþings banka hf. var á tímabilinu frá 2005 til 2007 uppfærð einu sinni á ári og tekin til umræðu á stjórnarfundum bankans. Í reglubókinni var ákvæði þar sem fram kom að lán til framkvæmdastjóra bankans (e. managing directors) skyldu samþykkt af stjórn hans. Þá sagði enn fremur að lán til skyldmenna eða tengdra aðila skyldu vera í samræmi við ströngustu lánareglur bankans með hliðsjón af eðli viðskipta. Þá kom þar einnig fram að almennar reglur Kaupþings banka hf. um lánveitingar skyldu gilda um lán til starfsmanna að öðru leyti en fram kæmi í sérákvæðinu. Í reglubókinni, sem staðfest var af stjórn 27. september 2007, voru þessi ákvæði í grein 5.1, en sömu ákvæði voru í eldri útgáfum reglubókarinnar. Þá voru almennar reglur í reglubókinni um tryggingatöku vegna lánafyrirgreiðslna. Samkvæmt reglubókinni skyldu hlutabréf ekki metin á markaðsvirði sem trygging heldur var almenna viðmiðið að verðmæti trygginga skyldi vera 150% af verðmæti krafna, sbr. grein 3.3.6.2 í reglubókinni.
Hinn 9. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið (FME) yfir vald hluthafafundar í Kaupþingi banka hf. og skipaði bankanum skilanefnd. Með ákvörðun FME 21. október 2008 var stórum hluta eigna Kaupþings banka hf. ráðstafað yfir til Nýja Kaupþings banka hf. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2008 var Kaupþingi banka hf. veitt heimild til greiðslustöðvunar til 13. febrúar 2009. Var sú heimild framlengd í nokkur skipti. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 44/2009 um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, skipaði Héraðsdómur Reykjavíkur Kaupþingi banka hf. slitastjórn 25. maí 2009.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 8. desember 2010 var 7 hægri ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Lýsti Arion banki hf. kröfum í bú félagsins á grundvelli þeirra lánssamninga sem félagið hafði gert við Kaupþing banka hf., en lánssamningar 7 hægri ehf. við stefnanda, og öll réttindi þeim tengd, höfðu 21. október 2008 verið færð yfir til Nýja Kaupþings banka hf. á núllvirði. Arion banki hf. framseldi samningana aftur til stefnanda 25. ágúst 2011.
Stefnandi sendi stefnda bréf 11. október 2011 og krafði hann um greiðslu skaðabóta. Með bréfi 17. sama mánaðar var bótaskyldu hafnað af hálfu stefnda.
II.
Stefnandi segir aðalkröfu sína byggjast á því að stefndi eigi að greiða þá lánssamninga sem hann hafi gert persónulega við stefnanda. Miðist greiðslukrafan við gjalddaga samninganna. Þá hafi skuld stefnda samkvæmt samningunum verið leiðrétt í samræmi við dóma Hæstaréttar frá 16. júní 2010 að því er varði gengistryggingu og vextir á þá reiknaðir sem seðlabankavextir í samræmi við dóm réttarins í máli nr. 471/2010.
Kröfuna kveður stefnandi nánar byggjast á því að yfirtaka einkahlutafélags stefnda, 7 hægri ehf., á skuldum hans hafi í raun aldrei átt sér stað þar sem ekki hafi verið gætt að þeim reglum er gilt hafi hjá stefnanda um slíka yfirfærslu skulda og gerð lánssamninga í tengslum við slíka yfirtöku. Þá sé jafnframt ósannað að Hreiðar Már Sigurðsson hafi veitt heimild til yfirfærslunnar. En jafnvel þó svo talið yrði að Hreiðar Már hefði veitt samþykki sitt geti stefndi ekki á því byggt þar sem Hreiðar Má hafi skort umboð stjórnar til veitingar slíks samþykkis.
Stefnandi segir stefnda ekki geta byggt á þeirri yfirfærslu sem átt hafi sér stað 12. mars 2008 þar sem starfsmenn bankans hafi ekkert umboð haft til að samþykkja nýjan lántaka. Reglubók bankans hafi mælt svo fyrir að fyrst þyrfti að leggja málið fyrir stjórn bankans. Það hafi ekki verið gert. Í þessu sambandi er af hálfu stefnanda til þess vísað að stjórn bankans hafi 27. september 2007 samþykkt útgáfu regluhandbókar fyrir starfsmenn bankans. Í handbókinni sé í grein 5.1 fjallað um reglur er gildi um lán til starfsmanna og stjórnarmanna bankans. Í 4. mgr. greinarinnar komi fram að lán til framkvæmdastjóra hinna einstöku sviða („managing directors“) bankans þarfnist samþykkis stjórnar bankans. Í mars 2008 hafi stefndi gegnt stöðu framkvæmdastjóra einkabankasviðs („Managing Direktor of Private Banking“).
Stefnandi byggir á því að stefndi geti ekki stuðst við tölvubréf Guðnýjar Örnu Sveinsdóttur fjármálastjóra þar sem vitnað sé til heimildar frá Hreiðari Má Sigurðssyni. Hreiðar Már hafi fyrir það fyrsta ekki einn mátt samþykkja slíka fyrirgreiðslu vegna reglna um lán til framkvæmdastjóra bankans. Þá liggi ekkert fyrir um það innan bankans að hann hafi fengið formlega samþykkt stjórnar bankans til að veita slíkt samþykki. Þar sem um mjög óeðlilega fyrirgreiðslu hafi verið að ræða hafi stefndi mátt vita að málið þyrfti að fara fyrir stjórn bankans, sbr. 2. mgr. 68. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995. Stefndi hafi verið framkvæmdastjóri (e. managing director) hjá bankanum og honum því mátt vera fullkunnugt um að engar heimildir lágu til grundvallar lánveitingunni.
Einnig er á því byggt af hálfu stefnanda að framkvæmdastjóri hafi skv. 22. gr. samþykkta Kaupþings banka hf., svo sem þær hafi verið samþykktar í stjórn bankans 7. mars 2008, átt að fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem félagsstjórn hafi gefið. Þá hafi heimild hans samkvæmt sama ákvæði í samþykktum félagsins ekki náð til óvenjulegra ráðstafana eða þeirra sem væru mikilsháttar. Hann hafi því ekki mátt gera slíkar ráðstafanir nema með samþykki stjórnar. Að mati stefnanda hljóti það að teljast óvenjuleg ráðstöfun og mikilsháttar þegar tilraun hafi verið gerð til að leysa stefnda undan persónulegri ábyrgð á lánum að fjárhæð 411.219.056 krónur, eða eftir atvikum 386.715.365 krónur, og færa þær yfir í einkahlutafélag með 500.000 króna hlutafé, sem einungis hafi verið greitt að litlum hluta. Ákvörðunin sem slík hafi því ekkert lagalegt gildi haft og bindi hún því ekki stefnanda eða slitastjórn hans. Þetta hafi stefndi vitað eða mátt vita sem einn af framkvæmdastjórum bankans. Hann geti því ekki byggt á slíkri ráðstöfun nú.
Stefnandi kveður ekki hægt að líta fram hjá því að stefndi hafi að öllum líkindum stofnað 7 hægri ehf. 20. febrúar 2008 til að forða sér frá þeirri ábyrgð sem hann hafi á sínum tíma undirgengist. Hann hafi verið eini stofnandi félagsins og aðalmaður í stjórn þess. Þá hafi félagið haft heimilisfang á heimili stefnda. Þannig verði að samsama stefnda félaginu þegar litið sé til þeirra heimilda er starfsmenn bankans hafi haft.
Stefnandi heldur því fram að stefndi verði að sanna að hann hafi fengið heimild þeirra sem hugsanlega hafi getað veitt slíka heimild sem hér um ræði, enda sé um mjög óvenjulega ráðstöfun að ræða sem nánast hafi verið fordæmalaus innan bankans. Vísar stefnandi um það til 1. töluliðar 1. mgr. 77. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, en í ákvæðinu komi meðal annars fram að ef sá sem hafi heimild til að koma fram fyrir hönd félagsins geri löggerning fyrir hönd þess, bindi sá gerningur félagið nema viðkomandi hafi farið út fyrir takmarkanir á heimild sinni á annan hátt, enda hafi viðsemjandi vitað eða mátt vita um heimildarskortinn og telja verði ósanngjarnt að viðsemjandinn haldi fram rétti sínum. Samkvæmt framangreindu sé stefndi því enn skuldbundinn af upphaflegum lánssamningum og beri því persónulega ábyrgð á endurgreiðslu lánanna.
Þá vitnar stefnandi einnig til 2. töluliðar 1. mgr. 77. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995. Hann segir þá sem veitt hafi heimild til þeirra lánssamninga og afléttingar á ábyrgð stefnda ekki hafa haft til þess heimild samkvæmt reglum bankans. Einnig sé verulega ósanngjarnt af stefnda í skilningi ákvæðisins að byggja á þeim lánssamningum sem gerðir hafi verið við 7 hægri ehf. Til marks um það sé sú staðreynd að þeir sem átt hafi hluti í bankanum til 11. mars 2008 hafi fengið arð af hlutum sínum og hafi stefndi fengið 33.500.000 krónur í arð. Daginn eftir hafi hlutirnir og lánin verið færð yfir til 7 hægri ehf. Þá hafi stefndi og fengið, án þess að fyrir því lægi heimild, fellt niður veð bankans í 100.000 hlutum í bankanum sem stefndi hafi síðan selt fyrir um 70.000.000 króna níu dögum áður en bankinn féll. Þegar litið sé til þessa, vitneskju stefnda um heimildarskort og stöðu hans innan bankans, verði að telja að hann geti ekki, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 77. gr. nr. 2/1995, byggt rétt á þeim lánssamningum sem gerðir voru við einkahlutafélag hans.
Stefnandi vísar einnig til 2. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Hann segir Hreiðari Má Sigurðssyni hafi borið að tryggja sér umboð stjórnar bankans. Slíkt umboð hefði þurft að veita á formlegum stjórnarfundi bankans. Ekkert í gögnum bankans bendi til þess að það hafi verið gert. Þá hafi lánveitingin ekki farið fyrir neina aðra lánanefnd bankans í samræmi við kafla 3.3.3.3 í reglubók bankans.
Af hálfu stefnanda er og á því byggt að ákvæði laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga leiði til sömu niðurstöðu, einkum 2. mgr. 10. gr. laganna, sbr. og 1. mgr. 11. gr. sömu laga. Þannig sé í fyrsta lagi ósannað að Hreiðar Már Sigurðsson hafi gefið slíka heimild og í annan stað hafi hann farið út fyrir umboð sitt samkvæmt lögum, samþykktum félagsins og innri reglum bankans. Segir stefnandi þessi sjónarmið einnig eiga við um skaðabótakröfu stefnanda.
Stefnandi tekur fram að þeir starfsmenn sem undirrituðu lánssamninga við 7 hægri ehf. fyrir hönd Kaupþings hafi verið á svokölluðum undirritunarlista á fyrirtækjasviði. Þannig hafi það verið í þeirra verkahring að undirrita slíka samninga við viðskiptamenn bankans. Hins vegar hafi þeir verið bundnir af reglubók bankans um samþykki stjórnar bankans þegar framkvæmdarstjórar hans áttu í hlut. Umboð þeirra hafi því verið takmarkað vegna lánveitinga til hinna einstöku framkvæmdastjóra bankans, sbr. grein 5.1 í reglubók bankans.
Verði ekki fallist á framangreindar málsástæður kveðst stefnandi byggja á því að stefndi beri ábyrgð á skuldbindingum einkahlutafélags síns, 7 hægri ehf., gagnvart Kaupþingi, á grundvelli ólögfestrar undantekningar frá meginreglunni um takmarkaða ábyrgð hluthafa á skuldbindingum hlutafélaga. Þessu til stuðnings bendir stefnandi á að ekkert hlutafé hafi raunverulega verið greitt til félagsins. Stefndi hafi í þágu félagsins greitt skráningarkostnað til opinberra aðila vegna stofnunar þess. Eftirstöðvar hlutafjárins hafi ekki verið greiddar með reiðufé, svo sem ráða megi að gert hafi verið samkvæmt stofnskrá, heldur hafi því verið skuldajafnað á móti nýstofnaðri skuld félagsins við stefnda, án þess að gætt væri að 1. og 2. mgr. 5. gr. laga nr. 138/1994. Telji stefnandi þetta sýna að 7 hægri ehf. hafi ekki verið stofnað sem félag með takmarkaða ábyrgð heldur hafi það eingöngu verið leið eiganda þess, stefnda í málinu, til að halda utan um hlutafjáreign sína.
Stefnandi byggir enn fremur á því að sú aðferð sem notuð hafi verið við stofnun félagsins, og falist hafi í því að mynda kröfu stefnda gagnvart félaginu við yfirfærslu hlutafjár til þess, hafi verið andstæð lögum og ekki í samræmi við tilgang félagsins.
Þá byggir stefnandi á því að ekki hafi mátt skrá félagið þar sem lágmarkshlutafé þess skv. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög hafi aldrei verið greitt. Þannig segi í 2. mgr. 9. gr. sömu laga að eigi megi skrá einkahlutafélag fyrr en hlutafé þess sé að fullu greitt. Yfirlýsing endurskoðanda hafi þannig beinlínis verið röng og um það hafi stefndi vitað. Því hafi félagið í raun aldrei öðlast stöðu félags með takmarkaða ábyrgð þar sem skráning þess hafi ekki uppfyllt ófrávíkjanleg skilyrði laga nr. 138/1994. Stefndi beri því ábyrgð gagnvart stefnanda á þeim skuldbindingum sem hann undirritaði fyrir hönd slíks félags.
Þá segir stefnandi það styðja framangreinda kröfu að ekki hafi verið skýr mörk á milli fjárhags félagsins og stefnda. Félagið hafi til að mynda ekki átt bankareikning. Þá liggi það fyrir að félagið hafi ekki haldið gerðabók, svo sem skylt sé skv. 1. mgr. 55. gr. laga nr. 138/2004, og þá hafi stefndi, sem eini hluthafi þess, ekki tekið ákvarðanir í samræmi við 59. gr. sömu laga. Álíti stefnandi að þetta renni enn frekari stoðum undir framangreinda málsástæðu sem feli í sér að ekki hafi verið um að ræða félag sem geti að lögum notið takmarkaðrar ábyrgðar, heldur teljist hluti af persónulegum fjárhag stefnda. Stefndi eigi því að greiða skuld samkvæmt þeim lánssamningum er hann undirritaði frá og með gjalddaga þeirra.
Verði ekki fallist á kröfu stefnanda um endurgreiðslu byggir stefnandi fjárkröfu sína á ólögfestri meginreglu kröfuréttar um óréttmæta auðgun, sem byggt hafi verið á í dómaframkvæmd. Ljóst sé, hvernig sem á málið sé litið, að stefndi hafi auðgast á kostnað stefnanda með framangreindum ráðstöfunum. Sú auðgun hafi verið óréttmæt, enda hafi stefndi ekki átt nokkurt tilkall til að láta einkahlutafélag sitt taka á sig ábyrgð gagnvart stefnanda með þeim hætti sem gert hafi verið. Hann hafi þannig vitað eða mátt vita að lánveiting til hins nýstofnaða einkahlutafélags hans og lausn hans, sem framkvæmdastjóra bankans, undan ábyrgð á greiðslu lánssamninganna hafi þurft samþykki stjórnar bankans í samræmi við innri reglur hans þar um. Þá hafi honum verið eða mátt vera ljóst að um mjög óvenjulega ráðstöfun var að ræða í ljósi þess að hann var einn af æðstu yfirmönnum bankans. Hann hafi þannig virt að vettugi trúnaðarskyldu sína gagnvart bankanum og litið fram hjá þeim reglum sem giltu um lán eða losun á ábyrgðum til æðstu yfirmanna bankans. Hann hafi að sama skapi auðgast við lausn undan þeim ábyrgðum sem á honum hvíldu. Þá auðgun megi beinlínis rekja til þeirra athafna hans að stofna til einkahlutafélags til þess eins að losna úr viðjum ábyrgðar, án þess að fylgt væri reglum bankans þar um.
Þá hafi stefndi mátt vita að framkvæmdastjóri bankans var bundinn af jafnræðisreglu hlutafélagalaga, sem fram komi bæði í 20. gr., sbr. og 1. mgr. 76. gr., hlutafélagalaga nr. 2/1995. Þannig hafi hann mátt vita að framkvæmdastjórinn og þeir starfsmenn er rituðu undir lánssamninga 7 hægri ehf. hefðu farið út fyrir heimildir sínar. Þeir hafi ekki mátt mismuna hluthöfum bankans og losa stefnda undan skuldbindingum við hann upp á um hálfan milljarð króna á meðan aðrir hluthafar, sem tekið höfðu lán hjá bankanum, fengu ekki slíka fyrirgreiðslu. Þetta hafi stefndi mátt vita, sérstaklega í ljósi þess að hann var einn af yfirmönnum bankans.
Stefnandi segir ofangreinda kröfu sína nema þeirri sömu fjárhæð og stefndi hafi auðgast um við að vera leystur undan ábyrgð samkvæmt áðursögðu.
Varakröfu sína kveður stefnandi byggjast á því að stefndi hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið honum tjóni sem sé bótaskylt samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar. Hinn 12. mars 2008 hafi greiðsluábyrgð stefnda á lánssamningum staðið í 386.715.363 krónum, sem sé tjón stefnanda þann dag, út frá endurútreikningi er miðist við að um lánveitingar í íslenskum krónum hafi verið að ræða, sem beri vexti samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands.
Stefnandi segist nánar tiltekið byggja á því að stefndi hafi með saknæmum og ólögmætum hætti, sem framkvæmdastjóri og lykilstjórnandi hjá Kaupþingi og eigandi og stjórnandi 7 hægri ehf., tekið við og samþykkt að aflétt yrði persónulegri ábyrgð á skuldum hans við Kaupþing. Þessi saknæma og ólögmæta háttsemi stefnda hafi valdið stefnanda fjártjóni sem stefndi beri ábyrgð á. Þá byggi stefnandi enn fremur á því að stefndi hafi tekið við fjárréttindum frá Kaupþingi með saknæmum og ólögmætum hætti með því að Kaupþing veitti stefnda í reynd veðbandslausn á hluta af hlutabréfum sínum, og bakaði stefnanda með því tjón. Ábyrgð stefnda samkvæmt framangreindu byggist á almennum meginreglum skaðabótaréttar, einkum sakarreglunni.
Við sakarmatið segir stefnandi verða að hafa í huga að stefndi hafi starfað hjá stefnanda allt frá árinu 2001 og hann hafi því þekkt vel innviði bankans og innri reglur hans. Hann hafi verið framkvæmdastjóri yfir einkabankasviði Kaupþings. Hann sé menntaður viðskiptafræðingur og því, miðað við menntun og fyrri starfsreynslu, sérfræðingur og sérfróður aðili. Þannig eigi við í málinu reglur skaðabótaréttar um sérfræðiábyrgð.
Í fyrsta lagi vísar stefnandi til þess að engin heimild hafi staðið til þess hjá Kaupþingi að veita félagi í eigu stefnda lán þann 12. mars 2008 og aflétta með því persónulegri ábyrgð stefnda á endurgreiðslu lánsins. Stefndi hafi sýnt af sér saknæma háttsemi með því að gæta ekki að innri reglum bankans þegar hann naut þeirrar fyrirgreiðslu. Þar sem stefndi hafi verið framkvæmdastjóri (e. managing director) hjá Kaupþingi, hafi borið samkvæmt grein 5.1 í reglubók bankans, 4. mgr., að taka fyrirgreiðslu eins og þá sem stefndi hafi notið fyrir á stjórnarfundi. Þá sé einnig tekið fram í 5. mgr. sömu greinar að lán til aðila tengdum starfsmönnum skuli vera í samræmi við ströngustu innri reglur bankans á hverjum tíma. 7 hægri ehf. hafi verið tengdur aðili í þessum skilningi.
Svo sem framlögð samantekt beri með sér hafi umrædd ákvörðun hvorki verið borin undir stjórn Kaupþings né verið tekin fyrir á fundum lánanefnda félagsins, eins og innri reglur bankans hafi gert ráð fyrir. Stefnda hafi borið að þekkja og vinna eftir innri reglum bankans og honum því verið ljóst eða mátt vera ljóst að ekki væri heimild fyrir því að veita honum hina umþrættu fyrirgreiðslu. Stefndi hafi því sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi með því að taka þátt í að framkvæma yfirfærslu skulda til eignarhaldsfélags og taka við þeirri persónulegu niðurfærslu skulda sem yfirfærslan fól í sér gagnvart honum, án þess að gætt væri innri reglna bankans.
Stefnandi kveðst og byggja á því, sem hann telur undirstrika saknæmi og ólögmæti ráðstöfunar þeirrar sem falist hafi í yfirfærslunni til 7 hægri ehf., að ákvæði lánaskilmála og innri reglna Kaupþings um veðþekju hafi samkvæmt áðursögðu þegar verið brotin. Því hafi verið ámælisvert að á þeim tíma sem stefndi hefði með réttu átt að leggja fram frekari tryggingar fyrir skuld sinni, en að öðrum kosti sæta gjaldfellingu, hafi hann verið leystur undan persónulegri ábyrgð á endurgreiðslu lánsins.
Einnig er á því byggt af hálfu stefnanda að sú fyrirgreiðsla sem hér um ræði hafi verið í andstöðu við 1. mgr. 76. gr. laga nr. 2/1995 þar sem hún hafi verið til þess fallin að veita stefnda ótilhlýðilega hagsmuni á kostnað Kaupþings og hún jafnframt verið í andstöðu við hefðbundnar lánareglur samkvæmt framansögðu. Telja verði að stefnda hafi borið, sem lykilstjórnanda hjá Kaupþingi, rík skylda, þar á meðal trúnaðarskylda, til að hafa hagsmuni bankans að leiðarljósi. Því beri hann skaðabótaábyrgð vegna þess tjóns sem valdið hafi verið með yfirfærslunni, stefnda til hagsbóta en á kostnað bankans og kröfuhafa hans.
Að mati stefnanda getur stefndi ekki skákað í því skjóli að lánssamningur hafi verið undirritaður af starfsmönnum Kaupþings. Stefndi hafi verið framkvæmdastjóri (e. managing director) hjá bankanum og honum því mátt vera fullkunnugt að engar heimildir lágu til grundvallar lánveitingunni og undirrituninni, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 77. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Í því ákvæði komi meðal annars fram að ef sá sem hafi heimild til að koma fram fyrir hönd félags geri löggerning fyrir þess hönd, bindi sá gerningur félagið nema viðkomandi hafi farið út fyrir takmarkanir á heimild sinni á annan hátt, enda hafi viðsemjandi vitað eða mátt vita um heimildarskortinn og telja verði ósanngjarnt að viðsemjandinn haldi fram rétti sínum.
Í öðru lagi telur stefnandi að engin heimild hafi verið til þess að létta veðböndum af 98.522 hlutum í Kaupþingi. Veðbandslausnin hafi verið veitt stefnda til hagsbóta en á kostnað stefnanda, og síðar kröfuhafa hans, án þess að nokkrar tryggingar kæmu í staðinn frá stefnda. Engin heimild hafi staðið til þess að afhenda stefnda, til frjálsrar ráðstöfunar, veðsett hlutabréf sín í Kaupþingi. Telji stefnandi að ákvörðun um veðbandslausn til handa stefnda hefði þurft að taka af stjórn Kaupþings samkvæmt reglu í grein 5.1 í reglubók bankans. Stefndi hafi því sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi með því að taka við fjárverðmætum á sama tíma og skilmálar lánssamningsins voru brotnir og honum bar skylda til að leggja fram frekari tryggingar. Þá hafi þessi fyrirgreiðsla verið í andstöðu við almennar reglur Kaupþings um tryggingartöku sem stefnda hafi borið að fara eftir. Undirstriki það saknæmi og ólögmæti ráðstöfunarinnar að ákvæði lánaskilmála og innri reglna Kaupþings um veðþekju höfðu þegar verið brotnar við veitingu veðbandslausnarinnar.
Að mati stefnanda getur stefndi ekki borið fyrir sig að ráðstöfunin hafi verið samþykkt fyrir atbeina Kaupþings. Bendir stefnandi á að stefndi hafi verið framkvæmdastjóri (e. managing director) hjá bankanum og honum því mátt vera fullkunnugt um að engar heimildir lágu til grundvallar ráðstöfuninni. Vísar stefnandi um þetta til 2. töluliðar 1. mgr. 77. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, en í því ákvæði komi meðal annars fram að geri sá sem hafi heimild til að koma fram fyrir hönd félagsins löggerning fyrir hönd félags, bindi sá gerningur félagið nema viðkomandi hafi farið út fyrir takmarkanir á heimild sinni á annan hátt, enda hafi viðsemjandi vitað eða mátt vita um heimildarskortinn og telja verði ósanngjarnt að viðsemjandinn haldi fram rétti sínum.
Við mat á skaðabótaábyrgð stefnda segir stefnandi sérstaklega bera að gæta að því að stefndi hafi persónulega auðgast á framangreindum ráðstöfunum, á kostnað stefnanda, með því að losna undan persónulegri ábyrgð á skuldbindingum sínum sem og að fá hlutabréf til frjálsrar ráðstöfunar. Ítrekar stefnandi í þessu sambandi að stefndi hafi selt 100.000 hluti í Kaupþingi 30. september 2008 og hann því hagnast verulega á þeirri ráðstöfun sem lotið hafi að því að fá honum hluti í Kaupþingi til frjálsrar ráðstöfunar.
Fjárhæð skaðabótakröfunnar segir stefnandi miðast við að hann verði eins settur í fjárhagslegu tilliti og áður en hin saknæma og ólögmæta háttsemi, sem að framan sé lýst, átti sér stað. Nánar tiltekið að stefndi beri persónulega ábyrgð á endurgreiðslu lánaskuldbindinga sinna við stefnanda með sama hætti og 12. mars 2008. Þá beri stefndi ábyrgð á því tjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir við að missa veðtryggingu í hlutum að markaðsverði 72.413.670 krónur og miðist fjárkrafa stefnanda við að sú fjárhæð hefði verið nýtt til að greiða upp lán stefnda.
Stefnandi telur blasa við að skilyrðum skaðabótaréttar um orsakasamhengi og sennilega afleiðingu sé fullnægt í málinu. Þá sé á því byggt að stefndi hafi sýnt af sér ásetning, en til vara gáleysi, þegar hann olli stefnanda tjóni.
Stefnandi gerir kröfu um vexti frá þeim degi er hið bótaskylda atvik átti sér stað, eða frá 12. mars 2008, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, þar til mánuði eftir að stefnandi sendi stefnda bréf þar sem lagðar voru fram upplýsingar um tjónsatvik og fjárhæð bóta, eða 11. nóvember 2011. Frá 12. nóvember 2011 krefjist stefnandi dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr. sömu laga.
Stefnandi segir á því byggt í málinu að stefndi hafi haft stöðu innherja í Kaupþingi hf. þegar hin umdeildu viðskipti áttu sér stað 12. mars 2008. Um það vísar stefnandi til 121. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og reglna FME nr. 630/2005 og 987/2006.
Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi meðal annars til þess að skaðabótakrafa hans sé byggð á almennum reglum skaðabótaréttar, einkum sakarreglunni og ólögfestri meginreglu kröfuréttar um óréttmæta auðgun. Enn fremur byggi stefnandi á meginreglum hlutafélagaréttar, sem meðal annars komi fram í lögum nr. 2/1995 um hlutafélög og lögum nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Meðal annars sé byggt á reglum um úthlutun verðmæta til eigenda sinna í VII. og XII. kafla og 79. gr. laga nr. 138/1994, reglum um stofnun einkahlutafélaga í 5. gr. laga nr. 138/1994, reglum um skyldur stjórnenda, þar með talið reglum í 48., 51. og 55. gr. laga nr. 138/1994 og 72., 76. og 77. gr. laga nr. 2/1995 og reglum um skaðabótaskyldu stjórnenda og hluthafa í 108. gr. laga nr. 138/1994.
III.
Stefndi telur að með kröfugerð sinni sé stefnandi að freista þess að teygja riftunarreglur skv. XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. út fyrir þann tímaramma sem um slíkar ráðstafanir sé settur. Riftunarreglur gjaldþrotaskiptalaga séu ekkert annað en lögmæltar skaðabótareglur, sem settar hafi verið til varnar hagsmunum lánardrottna skuldara. Þetta sé augljóst af ákvæðum um uppgjör bóta þegar riftun nái fram að ganga, sbr. 142.-147. gr. laganna. Samkvæmt ýmsum ákvæðum XX. kafla laganna megi rifta ráðstöfunum, sem gerðar hafi verið á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag, hafi þær falið í sér efnisatriði sem raski jafnræði kröfuhafa. Augljóst sé af málatilbúnaði stefnanda að kröfur hans miði að því að ná fram sömu niðurstöðu eins og koma myndi út úr riftunarmáli, næðu riftunarreglurnar til þeirra atvika sem mál þetta varði. Í ljósi kröfugerðar stefnanda sé afar líklegt að þrotabúið hefði höfðað riftunarmál á hendur stefnda á grundvelli annaðhvort 131. eða 134. gr. laganna, eða jafnvel beggja lagaákvæðanna, ef ráðstafanir þær sem málið snúist um hefðu verið gerðar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Frá 12. mars 2008 og fram að frestdegi við slitameðferð stefnanda séu hins vegar meira en sex mánuðir. Tekur stefndi sérstaklega fram í þessu sambandi, þó að það sé ekki til úrlausnar í málinu, að hann telji að skilyrði riftunar væru að hans áliti ekki fyrir hendi þó svo ráðstafanirnar hefðu verið gerðar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag.
Stefndi kveðst alfarið hafna þeim málatilbúnaði stefnanda að yfirtaka einkahlutafélags hans 7 hægri á skuldum stefnda hafi í raun aldrei átt sér stað. Í tölvupóstsamskiptum, sem stefnandi vísi raunar til sjálfur, sjáist að framkvæmdastjóri fjármálasviðs hafi séð um að framkvæma ákvörðun forstjórans, Hreiðars Más Sigurðssonar, og að í framhaldinu hafi verið gengið frá málinu með skriflegum löggerningum. Í undirritunarlista stefnanda frá 1. nóvember 2006 komi skýrt fram að stjórnarformaður stefnanda, forstjóri stefnanda á Íslandi og forstjóri samstæðunnar, hafi haft firmaritunarrétt og þeir getað hver í sínu lagi, eða í sameiningu, skuldbundið félagið með hvers kyns hætti, þar með talið með sölu og veðsetningu eigna. Telji stefndi samkvæmt þessu ótvírætt að forstjórinn hafi haft óskoraða heimild til að heimila umrædda yfirfærslu. Stefnandi hafi orðið skuldbundinn um leið og ákvörðunin var framkvæmd, hvort sem er vegna umræddrar ritunarreglu, sem tilkynnt hafi verið hlutafélagaskrá löngu fyrr, og samkvæmt beinu stöðuumboði hans skv. 2. mgr. 68. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995. Skjölin sem undirrituð hafi verið af hálfu bankans hafi hvað sem öllu öðru líði skuldbundið bankann og um leið leyst stefnda frá fyrri skuldbindingum, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 77. gr. laga nr. 2/1995.
Af hálfu stefnda er einnig á því byggt að stefnandi hafi verið stærsti viðskiptabanki Íslands á umræddum tíma og jafnframt einn af stærstu bönkum í Evrópu, með starfsemi víða um lönd. Meginstarfsemi slíks fyrirtækis sé í því fólgin að lána út peninga og ávaxta þá. Afgreiðsla erinda, eins og þess sem hér sé til umfjöllunar, sé nánast daglegt brauð í starfsemi slíkra fyrirtækja og öldungis fráleitt að ákvarðanir sem stjórnendur þessháttar fyrirtækis taki um slík mál geti skapað viðsemjandanum bótaábyrgð komi í ljós í fyllingu tímans að bankinn fái ekki fullnustu krafna sinna. Einnig verði að hafa í huga að ekkert tap hafi hlotist af yfirfærslu krafnanna á þeim tíma sem hún var framkvæmd og þá hafi slíkt tap ekki verið fyrirsjáanlegt á því tímamarki. Hvað sem líði viðhorfum þeirra, sem eftir fall bankans telji sig hafa séð það fyrir, sé að mati stefnda deginum ljósara að starfsemi bankans hefði verið stöðvuð hefði fall hans verið fyrirsjáanlegt, enda starfsemin verið háð ströngu eftirliti yfirvalda. Tap það sem stefnandi freisti að fá stefnda dæmdan til að bæta hafi ekki hlotist af ákvörðun um yfirfærsluna, enda hafi markaðsverð hinna veðsettu hlutabréfa þá verið hærra en fjárhæð skuldanna. Tapið hafi orðið vegna aðstæðna sem síðar hafi skapast á fjármálamörkuðum heimsins og leitt hafi til falls bankans í október 2008.
Að því leyti sem kröfur stefnanda séu reistar á því að umrædd ráðstöfun hafi falið í sér brot á reglubók stefnanda eða samþykktum bendir stefndi á að hann hafi ekki verið í neinni nefnd innan bankans. Mótmælir stefndi því harðlega að hann geti átt að svara fyrir það hvort aðrir starfsmenn bankans hafi brotið gegn verklagsreglum sem þeim hafi verið settar. Það sé raunar skoðun stefnda að engin slík brot hafi átt sér stað að virtum þeim heimildum sem forstjórinn hafi haft, en þær hafi náð út fyrir allar aðrar verklagsreglur bankans. Undir hinar afar víðtæku heimildir forstjórans hafi allir stjórnarmenn stefnanda ritað og tilkynnt um þær til hlutafélagaskrár.
Ábendingu stefnanda um að Hreiðar Már Sigurðsson hafi borið sína eigin beiðni, um að fá að færa lán yfir í eignarhaldsfélag á árinu 2006, undir stjórn félagsins telur stefndi ekki sýna annað en það að forstjórinn hafi í því tilviki gætt sérstaklega að vanhæfisreglum þar sem hann hefði sjálfur átt í hlut. Sýni þetta ljóslega að forstjórinn hafi verið meðvitaður um þau takmörk, sem heimildum hans voru settar, að því leyti sem ráðstafanir vörðuðu hagsmuni hans sjálfs. Telur stefndi þetta raunar vera eina dæmið um að forstjórinn hafi borið málefni, sem vörðuðu starfsmenn bankans, undir stjórn. Í öllum öðrum tilvikum hafi forstjórinn ráðið slíkum málum til lykta sjálfur, án þess að stjórn félagsins hefði nokkuð við það að athuga.
Stefndi reisir kröfu sína um sýknu einnig á því að undirritun Bjarka Diego og Guðnýjar Örnu Sveinsdóttur undir yfirfærsluskjölin hafi sjálfstætt orðið til þess að skuldbinda bankann í umræddum viðskiptum. Bæði hafi þau verið framkvæmdastjórar í bankanum og ofar í skipuriti hans en stefndi. Málefni af þessu tagi hafi verið á verksviði framkvæmdastjóranna innan bankans og afgreiðslan því verið í fullu samræmi við stöðuumboð þeirra.
Stefndi segir stefnanda byggja á því í málinu að stefndi verði að sanna að hann hafi fengið heimild til yfirfærslu skuldanna og vísi því til stuðnings til 1. og 2. töluliðar 1. mgr. 77. gr. laga um hlutafélög og 2. mgr. 10. gr., sbr. og 1. mgr. 11. gr., laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Samkvæmt áðursögðu telji stefndi að engar reglur hafi verið brotnar í þessum viðskiptum. Auk þess sé það viðtekin skoðun fræðimanna að sönnun um grandsemi viðsemjanda í skilningi 77. gr. laga um hlutafélög hvíli á félaginu. Hins vegar nægi að viðsemjandinn sé grandlaus til þess að hann vinni rétt, sbr. dómafordæmi. Þessum málatilbúnaði stefnanda sé því mótmælt sem algerlega haldlausum.
Af hálfu stefnda er því mótmælt að hann hafi ekki greitt allt hlutafé til 7 hægri ehf. Hlutafélagaskrá hafi það hlutverk að athuga hvort tilkynningar og ákvarðanir fullnægi fyrirmælum hlutafélagalaga og samþykktum viðkomandi félags. Engar athugasemdir hafi verið gerðar við skráningu félagsins. Bú þess hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta á árinu 2010 og skiptastjóra þá verið gerð grein fyrir því með hvaða hætti hlutafé félagsins hafi verið greitt. Hafi þrotabúið engar kröfur haft uppi vegna þess. Stefndi hafi notið ráðgjafar löggilts endurskoðanda um stofnun einkahlutafélagsins og skjalagerð í því sambandi. Hafi stefndi byggt á þeirri ráðgjöf endurskoðanda að fullnægjandi greiðsla fyrir stofnun félagsins fælist í eiginfjárframlagi því sem runnið hafi til félagsins með sölu hlutabréfa. Því hafi ekki verið haldið fram fyrr en í málssókn þessari að hlutaféð hafi ekki verið greitt. Stefnandi hafi sjálfur verið kröfuhafi í þrotabúinu og viti stefndi ekki til þess að hann hafi gert neinar athugasemdir vegna þessa við skiptin. Ljóst sé að hafi hlutafjárloforð verið að einhverju leyti ógreitt ætti þrotabúið kröfu um greiðslu hins ógreidda hluta þess. Stefndi telji hins vegar gersamlega fráleitt að stefnandi geti haft uppi kröfu á hann persónulega um mörg hundruð milljónir króna á þeim grundvelli að 500.000 króna hlutafé sé að einhverju leyti ógreitt. Í öllu falli yrði að skýra „ólögfestar undantekningar“ frá meginreglu laganna um takmarkaða ábyrgð hluthafa ákaflega þröngt. Hafnar stefndi því með öllu að nokkuð slíkt eigi við í málinu.
Þá segir stefndi stefnanda enn fremur byggja á því í málinu að hann eigi endurkröfurétt á hendur stefnda á grundvelli ólögfestrar meginreglu kröfuréttar um óréttmæta auðgun, þar sem stefndi hafi mátt vita að forstjóri stefnanda hefði farið út fyrir umboð sitt með títtnefndri skuldayfirfærslu til einkahlutafélags í eigu stefnda. Um þetta kveðst stefndi vísa til þess sem áður segi um heimildir forstjóra stefnanda, sem verið hafi án takmarkana um það atriði sem hér sé til úrlausnar. Þá geti stefndi með engu móti borið ábyrgð á meintum brotum á verklagsreglum stefnanda. Stefndi hafi í þessu máli ekkert það aðhafst sem með réttu megi halda fram að hafi verið ólögmætt eða ámælisvert. Mótmæli stefndi því sem röngu og órökstuddu að hann hafi auðgast á umræddri ráðstöfun. Hann hafi hvorki auðgast né tapað á henni. Stefndi hafi ekkert hugboð haft um það á þeim tíma sem ráðstöfunin fór fram að bankinn myndi riða til falls síðar á árinu 2008. Hann hafi ekki búið yfir neinni vitneskju um að á því væri hin minnsta hætta.
Stefndi kveður í stefnu vera vikið ítrekað að því að hann hafi fengið arð af hlutafjáreign sinni í bankanum á meðan hann var þar enn hluthafi. Telur stefndi þetta ekki skipta neinu máli fyrir úrlausn málsins, enda hafi stjórnendur bankans vitað nákvæmlega hversu miklar arðgreiðslur áttu sér stað til hluthafanna á þessum tíma. Þessi framsetning í stefnunni hafi að mati stefnda því engan annan sýnilegan tilgang en að gera stefnda með einhverjum hætti tortryggilegan í augum lesandans, enda séu engar kröfur gerðar beint með vísan til arðgreiðslunnar.
Af hálfu stefnda er því mótmælt sem hreinni fjarstæðu að hluthöfum stefnanda hafi á einhvern hátt verið mismunað í skilningi 1. mgr. 76. gr. laga um hlutafélög. Ekki hafi verið ólögmætt að óska eftir umræddri yfirfærslu í mars 2008 og ekkert tjón hafi af henni hlotist fyrir aðra hluthafa.
Hvað varakröfu stefnanda varðar kveðst stefndi árétta það sem að framan greini um að hann hafi ekki aðhafst neitt ólögmætt eða saknæmt gagnvart stefnanda. Gildi þá einu hvort um sé að ræða þann hluta hlutabréfanna sem leystur hafi verið úr veðböndum og seldur eða hinn hlutann sem farið hafi yfir til einkahlutafélagsins. Telur stefndi blasa við að ekkert tjón hafi hlotist af yfirfærslunni þegar hún var framkvæmd og að tjón það sem stefnandi vilji fá bætt hafi orðið vegna atvika sem síðar gerðust, þ.e. þegar bankinn féll í október 2008. Það tjón geti aldrei talist hafa verið fyrirsjáanleg eða sennileg afleiðing af hinni umdeildu ráðstöfun á þeim tíma sem hún var gerð. Ráðstöfunin hafi verið heimiluð með vitund og vilja forstjóra stefnanda sem auk þess hafi stuðst við fullgilt umboð. Stefndi hafi engan þátt tekið í að framkvæma/heimila yfirfærslu skulda til eignarhaldsfélagsins og geti ekki borið ábyrgð á henni. Vísan í stefnu til þess að skv. 5. gr. reglubókar Kaupþings skuli lán til ættingja eða tengdra aðila vera í samræmi við ströngustu kröfur lánareglna bankans geti engu um þetta breytt. Þar fyrir utan hafi skilgreining á tengdum aðilum almennt verið mjög á reiki en í 1. tölulið 1. mgr. 1. gr. a laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 teljist náin tengsl vera til staðar þegar um sé að ræða bein eignatengsl eða bein yfirráð yfir allt að 20% af hlutafé eða stofnfé. Ljóst sé að engin slík eignatengsl hafi verið til staðar milli einkahlutafélagsins og stefnanda. Kveðst stefndi mótmæla því harðlega að reglur um „tengda aðila“ geti leitt til þess að kröfur stefnanda verði teknar til greina.
Þá segist stefndi með engu móti fá séð hvernig hann geti borið ábyrgð á því að stefnandi skyldi ekki krefjast frekari trygginga þegar veðþekja fór niður fyrir tilskilið lágmark. Í lánssamningum milli stefnanda og stefnda segi í grein 5.2:
Veðhlutfall samningsins [...] skal á hverjum tíma vera að lágmarki 150% Fari veðhlutfallið niður fyrir 120%, og slíkt varir í a.m.k. 5 bankadaga samfleytt, skal lántaki að fenginni tilkynningu bankans leggja fram frekari tryggingar þannig að veðhlutfallið nái aftur 150%.
Ákvæðið sé samhljóða í lánssamningum milli stefnanda og stefnda persónulega og síðar í þeim samningum sem gerðir hafi verið á milli stefnanda og einkahlutafélags í eigu stefnda. Í skilmálum samninganna sé jafnframt kveðið á um heimild stefnanda til að gjaldfella einhliða og fyrirvaralaust samningana ef ekki er staðið við að leggja fram umræddar viðbótartryggingar. Stefndi hafi aldrei fengið slíka tilkynningu eða kröfu um viðbótartryggingu frá stefnanda og geti ekki borið ábyrgð á því að ekki var óskað eftir henni. Þá komi fram í tölvupóstsamskiptum milli stjórnenda stefnanda í tengslum við yfirfærsluna og veðbandslausnina að veðþekjan hafi þá þegar verið undir tilgreindum lágmörkum samkvæmt skilmálum samninganna eða 113%. Við framsalið hafi hún lækkað enn meir, eða niður í 107%. Stefndi geti að sama skapi ekki borið ábyrgð á því að ekki hafi verið kallað eftir frekari tryggingum við skuldayfirfærsluna, en varla verði um það deilt að bankinn hafi verið í stöðu til að láta selja bréfin. Við sölu bréfanna hefði bankinn fengið kröfur sínar að fullu greiddar.
Á þeim tíma sem yfirfærslan hafi átt sér stað, í mars 2008, hafi stefndi ekki haft hið minnsta hugboð um að stefnandi yrði ógjaldfær í náinni framtíð. Hefði svo verið hefði stefndi vitaskuld getað leitað eftir því að selja bréfin. Árshlutauppgjör stefnanda fyrstu þrjá og fyrstu sex mánuði ársins 2008 hafi hins vegar ekki bent til annars en stefnandi væri á góðri siglingu og að afkoma bankans væri góð. Segist stefndi hafna því alfarið að skilyrðum skaðabótaréttar um orsakasamhengi og sennilega afleiðingu sé fullnægt með vísan til alls framangreinds. Í því sambandi mótmælir stefndi því sérstaklega að hann hafi í margnefndum viðskiptum við vinnuveitanda sinn haft stöðu sérfræðings, svo sem haldið sé fram í stefnu. Stefnandi sé fjármálafyrirtæki en það sé stefndi ekki. Fjármálafyrirtæki beri margvíslegar skyldur og ábyrgð sem falli undir sérfræðiábyrgð, og á því byggist meðal annars starfsleyfi þess. Það sé því verið að hafa endaskipti á hlutunum ef starfsmaðurinn eða viðskiptavinurinn telst hafa sérfræðingsstöðu á sviði fjármálagerninga í viðskiptum við fjármálafyrirtækið.
Samkvæmt öllu framangreindu kveðst stefndi mótmæla kröfum stefnanda sem röngum og tilhæfulausum, bæði aðalkröfu og varakröfu. Áréttar stefndi sérstaklega mótmæli sín við því að hann hafi framkvæmt nokkuð það sem fellt geti skaðabótaskyldu á hann gagnvart stefnanda. Hann hafi hvorki orðið uppvís að ólögmætri né saknæmri háttsemi, hann hafi hvorki haft ásetning til að valda stefnanda tjóni né valdið honum tjóni með gáleysislegri háttsemi, eins og stefnandi haldi fram. Raunar mótmæli stefndi því samkvæmt áðursögðu að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni í viðskiptum við hann.
Komist dómurinn, þrátt fyrir allt framangreint, að þeirri niðurstöðu að stefndi eigi að bæta stefnanda eitthvert tjón kveðst stefndi mótmæla fjárhæð dómkrafna hans sem of háum og ranglega út reiknuðum. Í kafla um sundurliðun dómkrafna í stefnu komi fram að reiknaðir hafi verið svokallaðir „seðlabankavextir“ á alla samninga frá undirritunardegi. Þetta segist stefndi telja ranga útreikningsaðferð. Þessa vexti sé óheimilt að reikna á kröfurnar fyrr en frá og með gildistöku laga nr. 151/2010, sem tekið hafi gildi 29. desember 2010. Fram að þeim tíma hafi kröfurnar borið þá vexti sem kveðið sé á um í viðkomandi lánssamningum. Þá mótmælir stefndi framlögðu vottorði PWC um útreikninga á stöðum viðkomandi lánssamninga. Í því skjali sé hvorki gerð grein fyrir vaxtatímabilum né vaxtaprósentum heldur eingöngu tilgreindar niðurstöður úr reiknivélum vottorðsgefandans. Þessum útreikningum mótmæli stefndi sem röngum og órökstuddum.
Stefndi segist sömuleiðis mótmæla dráttarvaxtakröfu stefnanda, bæði í aðal- og varakröfu. Því sé mótmælt að nokkur hluti stefnukrafna í málinu geti borið dráttarvexti fyrir höfðun máls þessa. Þar sem kröfurnar á hendur stefnanda séu skaðabótakröfur, byggðar á því að hann beri ábyrgð á tjóni sem aðrir menn kunni að hafa valdið bankanum með viðskiptalegum ákvörðunum, telji stefndi útilokað að kröfur á hendur honum geti borið vexti fyrr en frá og með uppsögu dóms í málinu.
IV.
Málsatvikum er lýst í I. kafla dómsins en þau eru að mestu óumdeild. Þannig liggur fyrir að stefndi setti fram ósk þess efnis snemma árs 2008 að Kaupþing banki hf. samþykkti að félag stefnda, 7 hægri ehf., tæki við persónulegum skuldbindingum hans vegna kaupa á hlutafé í stefnanda, en það mun hafa verið stefna bankans, mörkuð á hluthafafundi, að ákveðinn hluti hlutafjár í bankanum væri í eigu starfsmanna hans. Upplýst er með framlögðum tölvupóstsamskiptum og vætti Guðnýjar Örnu Sveinsdóttur, fjármálastjóra stefnanda, og Hreiðars Más Sigurðssonar, forstjóra Kaupþingssamstæðunnar, fyrir dómi að Hreiðar Már féllst á beiðni stefnda í heild sinni. Kvaðst Hreiðar Már hafa talið að hagsmunir bankans væru nægjanlega tryggðir eftir sem áður, enda hafi hlutabréfin í stefnanda staðið til tryggingar skuld 7 hægri ehf. við bankann. Upplýsti forstjórinn fyrrverandi aðspurður að nokkrir aðrir yfirmenn í bankanum hefðu haft þennan háttinn á, þ.e. verið með „hlutafélög í kringum eign sína“ í bankanum. Stefndi hefði ekki verið sá eini. Bar Bjarki H. Diego, sem var framkvæmdastjóri á fyrirtækjasviði stefnanda er atvik máls gerðust, á sömu lund hvað þetta atriði varðaði fyrir dómi og þá kom fram hjá vitninu Vigni Rafni Gíslasyni, löggiltum endurskoðanda hjá PricewaterhouseCoopers ehf. (PwC), að umræddir starfsmenn hjá stefnanda hefðu verið „fimm til sjö“. Í ljósi alls þessa, og þess sem fyrir liggur í málinu um umfang starfsemi stefnanda á umræddum tíma, getur hin umdeilda ráðstöfun hvorki talist óvenjuleg né mikilsháttar.
Í kjölfar samþykkis forstjórans gerði Kaupþing banki hf. nýja lánssamninga 12. mars 2008, nú við 7 hægri ehf., sem komu í stað þeirra sem bankinn hafði áður gert við stefnda. Fyrir hönd stefnanda rituðu undir samningana, sem voru sex að tölu líkt og samningar bankans og stefnda, til þess bærir aðilar, fyrrefndur Bjarki H. Diego og Björk Þórarinsdóttir, en bæði voru þau framkvæmdastjórar á fyrirtækjasviði bankans. Með þessum hætti voru skuldbindingar stefnda vegna kaupa á hlutabréfum í stefnanda færðar yfir til 7 hægri ehf. og stefndi leystur undan persónulegri ábyrgð á endurgreiðslu lánanna, sbr. grein 2.1 í samningunum. Samhliða þessari yfirfærslu skulda voru hlutabréf stefnda færð yfir til 7 hægri ehf. að 98.522 hlutum undanskildum, en upplýst er í málinu að andvirði þeirra notaði stefndi haustið 2008 til greiðslu skatta. Var nefnd veðbandslausn hluti af þeirri beiðni stefnda sem Hreiðar Már samþykkti samkvæmt áðursögðu.
Skýrlega kom fram í vætti Hreiðars Más Sigurðssonar fyrir dómi að honum var ljós tilgangur stefnda með framangreindum breytingum, þ.e. að losna undan persónulegum ábyrgðum á lánum vegna kaupa á hlutum í bankanum. Sá tilgangur stefnda getur ekki með nokkru móti talist ólögmætur í sjálfu sér, enda víða gert ráð fyrir tilvist félaga með takmarkaðri ábyrgð félagsmanna í íslenskum lögum, t.d. lögum nr. 2/1995 um hlutafélög.
Engra gagna nýtur í málinu, svo séð verði, að leitað hafi verið samþykkis stjórnar stefnanda fyrir umræddri yfirfærslu skulda frá stefnda til 7 hægri ehf. Þessi aðgerð var hins vegar samkvæmt áðursögðu samþykkt af Hreiðari Má Sigurðssyni. Sem forstjóri Kaupþingssamstæðunnar hafði Hreiðar Már víðtækar heimildir til þess að skuldbinda stefnanda, sbr. til dæmis framlagt skjal, útgefið af stefnanda, sem samkvæmt niðurlagi í fyrirsögn ber heitið „Listi yfir undirritunarheimildir“. Samkvæmt nefndu skjali fór Hreiðar Már með prókúru fyrir félagið, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga nr. 2/1995, og hafði heimild til að skuldbinda bankann í öllum málum, þ. á m. til að selja og veðsetja fasteignir félagsins.
Fyrir dómi bar áðurnefndur Bjarki H. Diego að það hefði verið á ábyrgð stjórnar stefnanda að framfylgja ákveðinni samþykkt frá aðalfundi bankans, líklega á árinu 2004, hvað svokölluð starfsmannalán varðaði. Eftir bestu vitneskju vitnisins hefði stjórn bankans síðan framselt framkvæmd þeirra mála til forstjóra. Taldi vitnið víst að áður en það og Björk Þórarinsdóttir undirrituðu lánssamninga stefnanda við 7 hægri ehf. samkvæmt áðursögðu hefði legið fyrir samþykki forstjóra í samræmi við efni samninganna. Einnig kom fram hjá vitninu að það vissi ekki til þess að lán starfsmanna til kaupa á hlutabréfum í stefnanda hefðu almennt verið lögð fyrir stjórn bankans til samþykktar eða synjunar, enda hefði verið um það mörg lán að ræða að ekki hefði verið vinnandi vegur fyrir stjórn bankans að afgreiða öll þau viðskipti. Þekkti vitnið eingöngu eitt dæmi þessa, en það hefði verið í tilviki forstjóra Kaupþingssamstæðunnar, Hreiðars Más Sigurðssonar. Þá bar fyrrnefndur Vignir Rafn Gíslason, löggiltur endurskoðandi, að við framkvæmd rannsóknar PwC, sem fyrirtækið vann að ósk slitastjórnar stefnanda, hefði komið fram bókun í fundargerð frá stjórnarfundi á árinu 2005 sem skilja mætti svo að stjórnin hefði falið forstjóra að ganga frá lánum vegna kaupréttarsamninga starfsmanna.
Í 1. mgr. 77. gr. laga nr. 2/1995 er kveðið á um það að ef sá sem kemur fram fyrir hönd félags samkvæmt ákvæðum 74.75. gr. gerir löggerning fyrir hönd þess bindi sá gerningur félagið nema: 1) hann hafi farið út fyrir þær takmarkanir á heimild sinni sem ákveðnar eru í lögunum, 2) hann hafi farið út fyrir takmarkanir á heimild sinni á annan hátt enda hafi viðsemjandi vitað eða mátt vita um heimildarskortinn og telja verði ósanngjarnt að viðsemjandinn haldi fram rétti sínum.
Ekki verður séð að vísun stefnanda til þess að stefndi hafi fengið arðgreiðslur vegna hlutabréfaeignar sinnar 11. mars 2008 geti hér haft nokkra þýðingu, enda var viðsemjanda stefnda og félags hans, stefnanda sjálfum, eðli málsins samkvæmt fullkunnugt um þessar arðgreiðslur.
Svo sem áður var rakið veitti Hreiðar Már Sigurðsson samþykki sitt fyrir yfirfærslu skuldbindinga stefnda vegna kaupa á hlutabréfum í stefnanda til 7 hægri ehf. og því að stefndi yrði samhliða leystur undan persónulegri ábyrgð á endurgreiðslu umræddra lána. Samkvæmt áðursögðu hafði forstjóri Kaupþingssamstæðunnar víðtækar heimildir til að skuldbinda stefnanda og fór með prókúru fyrir félagið. Verður ekki séð að með því að samþykkja beiðni stefnda hafi hann farið gegn ákvæði 1. töluliðar 1. mgr. 77. gr. laga nr. 2/1995.
Samkvæmt framansögðu var fyrirkomulag það sem stefndi óskaði eftir varðandi hlutafjáreign sína í stefnanda ekki einsdæmi, þó svo vissulega hefði hið upphaflega fyrirkomulag verið miklu algengara. Þá liggur fyrir að eftir yfirfærslu skuldanna til 7 hægri ehf. stóðu hlutabréf í bankanum áfram til tryggingar lánunum. Óumdeilt virðist í málinu að er lán stefnda voru færð yfir til 7 hægri ehf. samkvæmt áðursögðu var svokölluð veðþekja undir tilgreindum lágmörkum samkvæmt skilmálum lánssamninganna, eða 113%. Við yfirfærsluna, og fyrrnefnda veðbandslausn, lækkaði veðþekjan niður í 107%. Bæði fyrir og eftir yfirfærsluna átti stefnandi þess kost, sbr. grein 5.2 í lánssamningunum að beina tilkynningu til stefnda um að leggja fram frekari tryggingar þannig að veðhlutfallið næði aftur 150%, og gerði stefndi það ekki, gjaldfella einhliða og fyrirvaralaust samningana. Upplýst er að stefnandi kallaði ekki eftir viðbótartryggingu frá stefnda og verður sá síðarnefndi ekki gerður ábyrgur fyrir þeirri ákvörðun bankans. Þá verður ekki framhjá því litið að eftir yfirfærsluna töldust lán 7 hægri ehf. hjá stefnanda, samkvæmt því sem fyrir liggur um verðgildi hluta í stefnanda, tryggð að fullu fram eftir árinu 2008. Umrædd hlutafjáreign félags stefnda í stefnanda varð síðan verðlaus er bankinn sjálfur lenti í greiðsluþroti í október það ár.
Í ljósi framangreinds, og þess sem upplýst er um framsal stjórnar stefnanda til forstjóra á valdi til að ganga frá lánum vegna kaupréttarsamninga starfsmanna samkvæmt áðursögðu, mátti stefndi ætla, hvað svo sem fyrirmælum í reglubók um innri starfsemi stefnanda leið, að forstjóri Kaupþingssamstæðunnar hefði umboð til að samþykkja yfirfærslu lánanna til 7 hægri ehf., lausn stefnda undan persónulegri greiðsluskyldu og lausn hluta hlutabréfanna úr veðböndum. Með sömu rökum telst heldur ekki uppfyllt það skilyrði 2. töluliðar 1. mgr. 77. gr. laga nr. 2/1995 að telja verði ósanngjarnt að stefndi haldi fram rétti sínum gagnvart stefnanda, en ótækt er að fallast á það sanngirnisviðmið sem reifað var af hálfu lögmanns stefnanda í munnlegum málflutningi, enda málarekstur stefnanda ekki til hagsbóta einhverjum óljóst afmörkuðum þriðja aðila heldur kröfuhöfum bankans. Samkvæmt þessu getur stefnandi engan rétt byggt í málinu á tilvitnuðu ákvæði laga nr. 2/1995. Að áðurgreindu sögðu verður heldur ekki talið að ákvæði 2. mgr. 68. gr. sömu laga geti átt við í málinu. Þá getur stefnandi, með vísan til þess sem að framan er rakið, heldur engan rétt byggt á ákvæðum 2. mgr. 10. gr. og 1. mgr. 11. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Fyrir liggur að tilkynning um stofnun einkahlutafélagsins 7 hægri var send Fyrirtækjaskrá 25. febrúar 2008 og var félagið skráð án athugasemda. Með tilkynningunni fylgdi stofnfundargerð, stofnsamningur og samþykktir. Áður er fram komið að tilgangur stefnda með stofnun 7 hægri ehf. var fyrst og fremst sá að halda í félaginu utan um hlutafjáreign hans í stefnanda. Er upplýst að eftir 12. mars 2008 var félagið skuldari að þeim lánum sem stefndi tók upphaflega til kaupa á hlutafé í stefnanda, auk þess að vera eigandi hinna keyptu hluta. Verður enn fremur að telja upplýst að félagið hafi á því tímamarki átt eignir umfram skuldir. Hins vegar er ljóst að grundvöllur félagsins brast rúmu hálfu ári eftir stofnun þess þegar hlutir í Kaupþingi banka hf. urðu verðlausir.
Upplýst er að bú 7 hægri ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 8. desember 2010 og mun skiptum hafa lokið 10. desember 2012. Verður ekki annað ráðið af þeim gögnum málsins, er frá skiptastjóra stafa, en skipti á búi félagsins hafi farið fram á þeim grunni að um fullgilt einkahlutafélag væri að ræða. Að því og öðru framangreindu heildstætt virtu verður ekki, þrátt fyrir þau atriði sem stefnandi vísar til í stefnu, á það fallist með bankanum að telja verði félagið hluta af fjárhag stefnda persónulega þannig að hann verði talinn bera ábyrgð á skuldbindingum einkahlutafélagsins á grundvelli ólögfestrar undantekningar frá meginreglunni um takmarkaða ábyrgð hluthafa á skuldbindingum hlutafélaga.
Samkvæmt öllu framansögðu er það niðurstaða dómsins að lánssamningar stefnanda við einkahlutafélag stefnda, 7 hægri ehf., sem samþykktir voru af forstjóra Kaupþingssamstæðunnar og undirritaðir af tveimur framkvæmdastjórum á fyrirtækjasviði stefnanda, séu skuldbindandi fyrir bankann að lögum.
Svo sem áður var rakið mátti stefndi ætla að forstjóri Kaupþingssamstæðunnar hefði umboð til að samþykkja yfirfærslu lána hans til 7 hægri ehf. og lausn stefnda undan persónulegri greiðsluskyldu. Ekki verður á það fallist, svo sem málið liggur fyrir dómnum, og með vísan til alls þess sem áður segir varðandi títtnefnda yfirfærslu lána stefnda til 7 hægri ehf., að það hafi verið ólögmætt eða ámælisvert hjá stefnda að óska eftir yfirfærslunni, enda hefur ekkert komið fram um það að stefndi hafi á umræddu tímamarki haft réttmæta ástæðu til að ætla að Kaupþing banki hf. kæmist í þær ógöngur sem raunin varð síðar á árinu 2008. Þegar að þessu virtu verður ekki á það fallist að stefnandi geti byggt rétt í málinu á ólögfestri meginreglu kröfuréttar um óréttmæta auðgun.
Eins og áður er rakið var fyrirkomulag það sem stefndi óskaði eftir varðandi hlutafjáreign sína í stefnanda ekki einsdæmi, þó svo hið upphaflega fyrirkomulag hefði verið mun algengara. Verður samkvæmt framansögðu ekki talið að það hafi verið ólögmætt eða ámælisvert af stefnanda að óska eftir yfirfærslunni og þá var áður lýst því mati forstjóra Kaupþingssamstæðunnar að hagsmunir stefnanda hefðu verið nægjanlega tryggðir eftir sem áður, enda hefðu hlutabréfin í stefnanda staðið til tryggingar skuld 7 hægri ehf. við bankann. Einnig skal hér ítrekað að ekkert hefur komið fram um það í málinu að stefndi hafi á umræddu tímamarki haft réttmæta ástæðu til að ætla að staða stefnanda yrði sú síðar á árinu 2008 sem raunin varð. Samkvæmt öllu þessu þykir ákvæði 1. mgr. 76. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög ekki eiga við í málinu.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður stefndi sýknaður af aðalkröfum stefnanda í málinu.
Að mati dómsins getur stefnandi engan rétt byggt á þeim grunni að stefndi hafi haft stöðu sérfræðings, enda hefur ekkert fram um það komið hvaða sérfræðiþekkingu stefndi hafi búið yfir sem veitti honum stöðu umfram bankann sjálfan.
Eins og slegið var föstu hér að framan hafði stefndi réttmætar ástæður til að ætla að forstjóri Kaupþingssamstæðunnar hefði umboð til að samþykkja yfirfærslu lána hans til 7 hægri ehf. og lausn hans undan persónulegri greiðsluskyldu, sem og lausn hluta hlutafjáreignar stefnda undan veðböndum. Vísast um rök fyrir þeirri niðurstöðu til þess sem áður hefur verið rakið. Þá verður samkvæmt framangreindu ekki á það fallist að það hafi verið ólögmætt eða ámælisvert hjá stefnda að óska eftir yfirfærslunni og veðbandslausninni, en sjálfur tók hann engan þátt í að heimila þá löggerninga af hálfu bankans.
Dómurinn hefur þegar slegið því föstu að ákvæði 1. mgr. 76. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög eigi ekki við í málinu. Einnig hefur þegar verið vikið að því, í umfjöllun um aðalkröfu stefnanda, að er lán stefnda voru færð yfir til 7 hægri ehf. var veðþekja undir tilgreindum lágmörkum samkvæmt skilmálum lánssamninganna, eða 113%. Við framsalið, og fyrrnefnda veðbandslausn, lækkaði veðþekjan niður í 107%. Bæði fyrir og eftir framsalið átti stefnandi þess kost, sbr. grein 5.2 í lánssamningunum, að beina tilkynningu til stefnda um að leggja fram frekari tryggingar þannig að veðhlutfallið næði aftur 150%, og gerði stefndi það ekki, gjaldfella einhliða og fyrirvaralaust samningana. Upplýst er að stefnandi kallaði ekki eftir viðbótartryggingu frá stefnda. Verður stefndi ekki gerður ábyrgur fyrir þeirri ákvörðun bankans. Eftir yfirfærsluna töldust lán 7 hægri ehf. hjá stefnanda, samkvæmt því sem fyrir liggur um verðgildi hluta í stefnanda, tryggð að fullu fram eftir árinu 2008. Þá er upplýst samkvæmt áðursögðu að forstjóra Kaupþingssamstæðunnar var ljós tilgangur stefnda með yfirfærslunni og jafnframt liggur fyrir að hann taldi hagsmuni bankans nægjanlega tryggða eftir sem áður með veði bankans í hlutabréfum 7 hægri ehf. í stefnanda.
Haldlaus er sá málatilbúnaður stefnanda að stefndi hafi haft stöðu fruminnherja í skilningi laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Sú fullyrðing er engum gögnum studd en fyrir liggur að stefndi var hvorki skráður innherji hjá Fjármálaeftirlitinu né bankanum á umræddum tíma Þá verður ekki með nokkru móti séð að fundaseta stefnda, mörgum mánuðum eftir að gengið var frá lánssamningum við 7 hægri ehf., geti haft þýðingu við úrlausn málsins.
Af framlögðum gögnum verður ekki ráðið að þegar yfirfærsla á lánum stefnda til 7 hægri ehf. var samþykkt af stefnanda hafi stefndi haft réttmæta ástæðu til að sjá fyrir hver þróun mála yrði hjá stefnanda, en árshlutauppgjör bankans fyrstu sex mánuði ársins 2008 bentu ekki til annars en afkoma stefnanda væri í lagi. Hefur stefnandi enga tilraun gert til þess að sýna fram á hvernig staða stefnda hafi að þessu leyti verið betri en forstjóra Kaupþingssamstæðunnar sem samþykkti samkvæmt áðursögðu, með skuldbindandi hætti fyrir bankann, hina umdeildu yfirfærslu skulda. Þá er ljóst að megin ástæða þess tjóns stefnanda, sem um ræðir í málinu, var greiðsluþrot bankans sjálfs.
Tilgangur stefnda með yfirfærslu skulda sinna við stefnanda vegna hlutabréfakaupa í þeim síðarnefnda var bankanum ljós frá upphafi. Samkvæmt áðursögðu getur sá tilgangur ekki talist ólögmætur í sjálfu sér. Að því athuguðu en að öðru leyti með vísan til fyrrgreindra röksemda dómsins getur það hvorki talist hafa verið saknæmt né ólögmætt í skilningi skaðabótaréttar hjá stefnda að setja fram þá beiðni við stefnanda sem um ræðir í málinu. Þegar að því virtu þykir stefnanda ekki hafa tekist að sanna að stefndi beri skaðabótaábyrgð á ætluðu tjóni bankans vegna yfirfærslunnar. Verður stefndi því einnig sýknaður af varakröfum stefnanda í málinu.
Með vísan til úrslita málsins, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, dæmist stefnandi til að greiða stefnda málskostnað, sem réttilega þykir ákveðin svo sem í dómsorði greinir.
Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari. Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Kristján Arason, skal sýkn af öllum kröfum stefnanda, Kaupþings hf., í máli þessu.
Stefnandi greiði stefnda 2.500.000 krónur í málskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. nóvember 2012.
Mál þetta er höfðað af Kaupþingi hf., Borgartúni 26, Reykjavík, á hendur Kristjáni Arasyni, Mávahrauni 7, Hafnarfirði, með stefnu birtri 2. mars 2012. Með úrskurði uppkveðnum 5. júlí 2012 komst fyrri dómari málsins að þeirri niðurstöðu að hann og aðrir dómarar við Héraðsdóm Reykjaness vikju sæti í málinu með vísan til g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þar sem eiginkona dómstjóra dómstólsins væri systir stefnda. Var málinu endurúthlutað til núverandi dómara þess hinn 28. ágúst 2012, á grundvelli ákv. 6. mgr. 15. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla. Var málið tekið til úrskurðar miðvikudaginn 31. október sl. að loknum málflutningi um þá kröfu stefnda að vísa beri málinu frá dómi.
Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 534.103.460 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 17.246.757 krónum frá 5. maí 2009 til 29. desember sama ár, en frá þeim degi af 28.663.227 krónum til 5. september 2010, en frá þeim degi af 371.561.692 krónum til 1. desember sama ár, en frá þeim degi af 502.236.466 krónum til 10. janúar 2011, en frá þeim degi af 534.103.460 krónum með sömu dráttarvöxtum til greiðsludags. Til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 459.129.033 krónur, ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 12. mars 2008 til 11. nóvember 2011, en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist að stefndi verið dæmdur til þess að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins.
Stefndi krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi. Til vara krefst hann þess að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu.
Í þessum þætti málsins er krafa stefnda um frávísun málsins tekin til úrskurðar. Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og að stefnda verði gert að greiða honum málskostnað að mati dómsins vegna þessa þáttar málsins.
Málavextir
Stefndi hóf störf hjá stefnanda, sem þá hét Kaupþing banki hf., á árinu 2001 sem yfirmaður eignastýringar. Frá árinu 2001 til 2007 breyttist starfstitill hans og í samþykktum undirskriftarreglum stefnanda frá 1. nóvember 2007 var stefndi titlaður framkvæmdastjóri einkabankaþjónustu (Managing director of private banking). Hann tók síðan við starfi framkvæmdastjóra viðskiptabankasviðs 1. apríl 2008, sem hann gegndi allt fram að falli bankans. Stefndi þáði boð stefnanda um kauprétt að hlutabréfum í stefnanda og samþykkti stjórn stefnanda hinn 28. september 2005 að kaup starfsmanna á hlutum í bankanum skyldu fjármögnuð af stefnanda. Í samræmi við það fjármagnaði bankinn kaup stefnda á hlutabréfum í bankanum með eftirfarandi sex lánasamningum:
Nr. |
Dags. samnings |
Upphafleg lánsfjárhæð |
Myntkarfa |
Gjalddagi |
Álag á vexti |
3011 |
12.12.2005 |
ISK 259.691.187 |
USD 23% / CHF 22% / JPY 12% / EUR 43% |
01.12.2010 |
1,20% |
2963 |
27.01.2006 |
ISK 423.065.750 |
USD 23% / CHF 22% / JPY 12% / EUR 43% |
01.12.2010 |
1,20% |
4349 |
29.12.2006 |
ISK 7.276.524 |
CHF 50% / JPY 50% |
29.12.2009 |
1,75% |
4661 |
01.03.2007 |
ISK 12.096.834 |
CHF 50% / JPY 50% |
15.05.2009 |
1,75% |
6057 |
05.09.2007 |
SEK 24.848.221/ ISK 229.161.620 (1 SEK = ISK 9,222) |
CHF 40% / JPY 60% |
05.09.2010 |
1,75% |
6819 |
21.12.2007 |
ISK 21.774.020 |
CHF 40% / JPY 60% |
10.01.2011 |
2,00% |
Alls |
ISK 953.065.935 |
Fyrir liggur að stefndi hafi einungis borið 10% ábyrgð á lánasamningum nr. 3011 og 2963 en borið fulla ábyrgð á öðrum samningum.
Með undirritun nýrra lánasamninga aðilanna hinn 12. mars 2008 voru skuldbindingar stefnda vegna framangreindra lánasamninga hans við stefnanda færðar yfir í einkahlutafélag hans, 7 hægri ehf., sem stefndi hafði stofnað 20. febrúar sama ár. Var stefndi þannig leystur undan persónulegri ábyrgð á endurgreiðslu lánanna. Samhliða þessari færslu voru hlutabréf stefnda færð yfir til 7 hægri ehf. en þó voru 98.522 hlutir undanskildir og afhentir stefnda til frjálsrar ráðstöfunar.
Hinn 30. september 2008 seldi stefndi síðan hlutabréf sín í stefnanda að nafnverði 100.000 fyrir um 68,9 milljónir króna, en stefnandi ráðgerir að um sömu hluti sé að tefla og þá sem voru afhentir honum til frjálsrar ráðstöfunar samhliða áðurgreindri yfirfærslu.
Hinn 9. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar í Kaupþingi og skipaði bankanum skilanefnd. Með ákvörðun eftirlitsins hinn 21. október 2008 var stórum hluta eigna stefnanda ráðstafað yfir til Nýja Kaupþings banka hf. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 24. nóvember 2008, var stefnanda veitt heimild til greiðslustöðvunar til 13. febrúar 2009. Sú heimild var framlengd nokkrum sinnum. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 44/2009, um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, skipaði Héraðsdómur Reykjavíkur bankanum slitastjórn hinn 25. maí 2009. Réttaráhrif slitameðferðar miðast við 22. apríl 2009, sbr. 2. tl. ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 44/2009.
Fram kemur í stefnu að lánasamningar 7 hægri ehf. við stefnanda, og öll réttindi þeim tengd, hafi hinn 21. október 2008 verið færðir yfir til Nýja Kaupþings banka hf. Arion banki hf., sem tekið hafi við réttindum Nýja Kaupþings banka hf., hafi framselt þá aftur til stefnanda hinn 25. ágúst 2011. Einnig segir í stefnu að bú 7 hægri ehf. hafi hinn 8. desember 2010 verið tekið til gjaldþrotaskipta og hafi Arion banki hf. lýst kröfu í bú félagsins á grundvelli framangreindra lánasamninga félagsins við stefnanda.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því að stefndi eigi að greiða þá lánasamninga sem hann persónulega hafi gert við stefnanda og miðist greiðslukrafan við gjalddaga þeirra. Þá hafi skuld samkvæmt þeim samningum verið leiðrétt í samræmi við dóma Hæstaréttar frá 16. júní 2010, að því er varði gengistryggingu, og vextir á þá reiknaðir sem seðlabankavextir í samræmi við dóm Hæstaréttar í málinu nr. 471/2010. Miðist hún við það að yfirtaka einkahlutafélags stefnda, 7 hægri ehf., á skuldum stefnda hafi í raun aldrei átt sér stað, þar sem ekki hafi verið gætt að þeim reglum er gilt hafi hjá stefnanda um slíka yfirfærslu skulda og gerð lánasamninga í tengslum við slíka yfirtöku. Vísar stefnandi í því sambandi til tilgreindra ákvæða laga um hlutafélög nr. 2/1995, einkum 2. mgr. 68. gr., 1. og 2. tl., 1. mgr. 77. gr., og 2. mgr. 10. gr. og 1. mgr. 11. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Ósannað sé að Hreiðar Már Sigurðsson hafi veitt heimild til yfirfærslunnar. Jafnvel þótt svo hafi verið hafi hann ekki haft umboð stjórnar til þess og alla vega farið út fyrir umboð sitt samkvæmt lögum, samþykktum félagsins og innri reglum bankans. Verði stefndi að sanna að hann hafi fengið heimild þeirra sem hugsanlega hefðu getað veitt heimild þessa, enda hafi verið um mjög óvenjulega ráðstöfun að ræða sem nánast hafi verið fordæmalaus innan bankans.
Stefnandi vísar og til þess að stofnun félagsins 7 hægri ehf. hafi ekki verið í samræmi við lög. Verði því að líta svo á að stefndi beri ábyrgð á skuldbindingum einkahlutafélags síns, 7 hægri ehf., gagnvart stefnanda á grundvelli ólögfestrar undantekningar frá meginreglunni um takmarkaða ábyrgð hluthafa á skuldbindingum hlutafélaga.
Verði ekki fallist á kröfu stefnanda um endurgreiðslu kveðst stefnandi byggja fjárkröfu sína á ólögfestri meginreglu kröfuréttar um óréttmæta auðgun, sem á hafi verið byggt í dómaframkvæmd, enda sé ljóst að stefndi hafi auðgast með óréttmætum hætti á kostnað stefnanda með þeim ráðstöfunum sem mál þetta snúist um. Hann hafi vitað eða mátt vita að til lánveitingar til hins nýstofnaða einkahlutafélags hans, og lausnar hans sem framkvæmdastjóra bankans undan ábyrgð á greiðslu þeirra lánasamninga er um ræði, hafi þurft samþykki stjórnar bankans í samræmi við innri reglur hans. Hafi honum og mátt vera ljóst að um mjög óvenjulega ráðstöfun væri að ræða í ljósi þess að hann hafi verið einn af æðstu yfirmönnum bankans. Hafi stefnandi og mátt vita að framkvæmdastjóri bankans og aðrir þeir starfsmenn sem ritað hafi undir umrædda lánasamninga hefðu farið út fyrir lánaheimildir sínar og ekki mátt mismuna hluthöfum bankans með því að leysa stefnda undan skuldbindingum við bankann vegna hlutafjárkaupa án þess að aðrir hluthafar fengju sömu fyrirgreiðslu.
Varakrafa stefnanda byggist á því að stefndi hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið stefnanda tjóni sem sé bótaskylt samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar með því að hafa sem framkvæmdastjóri og lykilstjórnandi hjá stefnanda og eigandi og stjórnandi 7 hægri ehf. tekið við og samþykkt að aflétt yrði persónulegri ábyrgð á skuldum hans við stefnanda. Þá byggi stefnandi enn fremur á því að stefndi hafi tekið við fjárréttindum frá stefnanda með saknæmum og ólögmætum hætti, með því að stefnandi hafi veitti stefnda í reynd veðbandslausn á hluta af hlutabréfum sínum, og bakað stefnanda með því tjóni. Ábyrgð stefnda samkvæmt framangreindu byggist á almennum meginreglum skaðabótaréttar, einkum sakarreglunni. Sé á því byggt að stefndi hafi sýnt af sér ásetning, en til vara gáleysi, þegar hann hafi valdið stefnanda tjóni. Miðist fjárhæð skaðabótakröfu við að stefnandi verði eins settur í fjárhagslegu tilliti og áður en hin saknæma og ólögmæta háttsemi hafi átt sér stað. Beri stefndi því persónulega ábyrgð á endurgreiðslu lánaskuldbindinga sinna við stefnanda með sama hætti og 12. mars 2008. Þá beri stefndi ábyrgð á því tjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir við að missa veðtryggingu í hlutum að markaðsverði 72.413.670 krónur og miðist fjárkrafa stefnanda við að sú fjárhæð hefði verið nýtt til að greiða upp lán stefnda.
Málsástæður og lagarök stefnda vegna frávísunarkröfu
Stefndi telur að með kröfugerð sinni sé stefnandi að freista þess að teygja riftunarreglur skv. XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. út fyrir þann tímaramma sem um slíkar ráðstafanir sé settur. Samkvæmt ýmsum ákvæðum XX. kafla laganna megi rifta ráðstöfunum sem gerðar hafi verið á síðustu 6 mánuðum fyrir frestdag ef þær hafa falið í sér efnisatriði sem raski jafnræði kröfuhafa. Sem dæmi megi nefna 131. gr. laganna, sem fjalli um gjafagerninga, og 134. gr., sem fjalli um greiðslu með óvenjulegum greiðslueyri. Augljóst sé af málatilbúnaði stefnanda að kröfur hans miði að því að ná fram sömu niðurstöðu og mundi koma út úr riftunarmáli ef riftunarreglurnar næðu til þeirra atvika sem málið snúist um. Í ljósi kröfugerðar stefnanda í málinu verði að telja afar líklegt að þrotabúið hefði höfðað á hendur honum riftunarmál á grundvelli annars hvors eða jafnvel beggja hinna tilvitnuðu lagaákvæða í XX. kafla laganna ef ráðstafanirnar sem málið snúist um hefðu verið gerðar á síðustu 6 mánuðum fyrir frestdag. Frá 12. mars 2008 og fram að frestdegi við slitameðferð stefnanda séu meira en 6 mánuðir.
Riftunarreglur gjaldþrotaskiptalaga séu ekkert annað en lögmæltar skaðabótareglur, sem settar séu til varnar hagsmunum lánardrottna skuldara. Þetta sé augljóst af ákvæðum um uppgjör bóta þegar riftun nái fram að ganga, sbr. 142.-147. gr. laganna. Telji stefndi að þessar lögmæltu skaðabótareglur gangi framar ólögfestri sakarreglu íslensks skaðabótaréttar, en þeirri reglu verði aðeins beitt um tilvik sem lögfestar skaðabótareglur taki ekki til.
Þegar mál þetta hafi verið höfðað hafi málshöfðunarfrestur skv. 148. gr. laga nr. 21/1991 verið fyrir löngu liðinn, jafnvel þótt miðað væri við 12 mánaða málshöfðunarfrest skv. 194. gr. sömu laga, og beri þess vegna að vísa málinu frá dómi.
Málsástæður stefnanda vegna frávísunarkröfu
Stefnandi kveður dómkröfur sínar að meginstefnu til lúta að því að stefnda verði gert með dómi að efna umrædda lánasamninga, sem hann hafi gert við stefnda samkvæmt efni sínu, enda hafi yfirtaka einkahlutafélags hans 7 hægri ehf. á skuldum samkvæmt samningunum með réttu aldrei átt sér stað. Að öðrum kosti greiði hann stefnanda skaðabætur vegna tjóns sem hann hafi valdið honum með saknæmum og ólögmætum hætti í tengslum við yfirfærslu skuldanna. Kröfugerð þessi snúist því ekki um riftun á umræddum samningum aðila á grundvelli laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 eða laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Geti reglur um fresti til höfðunar dómsmála til að koma fram riftun samkvæmt þessum lögum því á engan hátt komið hér til skoðunar og hindrað að mál verði höfðað á öðrum grundvelli. Verði málinu því ekki vísað frá dómi af þessum sökum.
Niðurstaða
Eins og að framan er rakið liggur fyrir að kröfugerð stefnanda og allur málatilbúnaður byggist á því að stefndi sé persónulega ábyrgur fyrir efndum á þeim lánasamningum aðila sem mál þetta er sprottið af, en að öðrum kosti sé hann skaðabótaábyrgur vegna þess tjóns sem stefnandi hafi orðið fyrir við það að aflétt hafi verið persónulegri ábyrgð stefnda á skuldum hans við stefnanda og veðböndum af hluta hlutabréfaeignar hans. Kröfugerð stefnanda miðar því ekki að því að koma fram riftun á umræddum ráðstöfunum og endurheimt verðmæta á grundvelli XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, sbr. lög um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Samkvæmt því verður ekki á það fallist með stefnda að málshöfðunarfrestur 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 148. gr. laga nr. 21/1991, eigi við í máli þessu, enda er ekkert að lögum sem stendur í vegi málshöfðunar á þeim grundvelli sem hér um ræðir þótt frestur til málshöfðunar út af hugsanlegri riftun umdeildra ráðstafana væri liðinn. Með vísan til þessa ber að hafna kröfu stefnda um að máli þessu verði vísað frá dómi.
Ákvörðun um málskostnað bíður endanlegrar niðurstöðu í málinu.
Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu stefnda, Kristjáns Arasonar, um að kröfum stefnanda, Kaupþings hf., verði vísað frá dómi.
Ákvörðun um málskostnað bíður endanlegrar niðurstöðu í málinu.