Hæstiréttur íslands

Mál nr. 461/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Mánudaginn 26. júlí 2010.

Nr. 461/2010.

Ákæruvaldið

(Stefán Eiríksson hrl.)

gegn

X

(enginn)

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. júlí 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júlí 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 20. ágúst 2010 klukkan 24. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 23. júlí 2010.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að dómfellda, X, kt. [...], verði á grundvelli 2. mgr. 95. gr., sbr.  3. mgr. 97. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88, 2008 gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, á meðan að áfrýjunarfrestur varir, þó eigi lengur en til föstudagsins 20. ágúst 2010,  kl. 24.00.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í dag í máli nr. [...] hafi dómfelldi verið dæmdur í 4 ára og 6 mánaða fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnabrot samkvæmt. Frá refsingunni dragist óslitið gæsluvarðhald frá 11. apríl 2010.

Dómurinn sé ekki fullnustuhæfur þar sem dómfelldi hafi tekið sér frest til ákvörðunar um áfrýjun til Hæstaréttar Íslands.

Það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að lagaskilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt, enda hafi dómfelldi verið sakfelldur fyrir afbrot sem þyki svo svívirðilegt að almannahagsmunir krefjist þess að honum verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á meðan á áfrýjunarfresti stendur. Þá liggi og fyrir fjölmargir dómar Hæstaréttar Íslands um að lagaskilyrðum almannagæslu sé fullnægt í máli þessu, sbr. dóm réttarins nr. 432/2010, er varði dómfellda X, og ekkert nýtt sé komið fram sem breytt geti því mati.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. og 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafa þessi nái fram að ganga.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. [...], sem upp var kveðinn fyrr í dag, var X sakfelldur fyrir brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001, og dæmdur til að sæta refsingu í 4 ár og 6 mánaða fangelsi. Fullnægt er skilyrðum 2. mgr. 95. gr. og 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 til þess að verða við kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og verður hún því tekin til greina eins og hún er sett fram.

Ingimundur Einarsson  héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Dómfelldi, X, kt. [...], skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á meðan áfrýjunarfrestur varir í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 20. ágúst 2010,  kl. 24.00.