Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-5
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Kynferðisbrot
- Nauðgun
- Hafnað
- Aðfinnslur
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 22. nóvember 2021, sem barst réttinum 13. janúar 2022, leitar X leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 22. október 2021 í máli nr. 27/2021: Ákæruvaldið gegn X á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærða var birtur dómurinn 8. nóvember 2021. Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðninni.
3. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir nauðgun, sbr. 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þar kom meðal annars fram að ekki væri unnt að líta svo á að samþykki sem brotaþoli veitti leyfisbeiðanda til að hafa samfarir við hana hefði tekið til hvers kyns kynferðisathafna af hans hálfu. Þá taldi Landréttur sannað að leyfisbeiðandi hefði með háttsemi sinni beitt brotaþola ofbeldi og að háttsemi hans félli hlutrænt séð að verknaðarlýsingu 1. mgr. 194. gr. Refsing hans var ákveðin fangelsi í þrjú ár auk þess sem dómur héraðsdóms um miskabætur til brotaþola og sakarkostnað voru staðfest.
4. Leyfisbeiðandi byggir á því að í málinu sé fullnægt öllum skilyrðum 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 til veitingar áfrýjunarleyfis. Þannig telur hann meðal annars að skilyrði til sakfellingar hafi ekki verið fyrir hendi. Ekki hafi verið til staðar ásetningur til þess að brjóta kynferðislega gegn brotaþola sem sé skilyrði sakfellingar samkvæmt 1. mgr. 194. gr. laga nr. 19/1940. Þá telur hann ósamræmi vera í framburði brotaþola annars vegar hjá lögreglu og hins vegar fyrir dómi. Jafnframt telur leyfisbeiðandi að hann hafi verið sakfelldur á grundvelli upplifunar brotaþola. Sú niðurstaða sé í andstöðu við viðurkenndar reglur um sönnun í sakamálum og vegi með alvarlegum hætti að grunnreglum í sakamálaréttarfari sem njóti verndar stjórnarskrár og alþjóðlegra mannréttindasáttmála. Loks telur hann að vísa hefði átt málinu frá Landsrétti á grundvelli 3. og 4. mgr. 26. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. g. lið 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Hafi Landsréttur hafnað því að taka til meðferðar kröfu um frávísun sem hann gerði við munnlegan flutning málsins fyrir réttinum.
5. Það athugist að niðurstaða Landsréttar að hafna því að taka afstöðu til framangreindrar frávísunarkröfu leyfisbeiðanda á þeirri forsendu að hún væri of seint fram komin fær ekki staðist. Hins vegar voru ekki taldir þeir annmarkar á meðferð málsins að varðað gæti frávísun án kröfu og því í raun tekin afstaða til þess í dómi Landsréttar hvort skilyrði væru til þess að vísa málinu frá héraðsdómi.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðninni er því hafnað.