Hæstiréttur íslands
Mál nr. 269/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Dómari
- Vanhæfi
|
|
Mánudaginn 29. ágúst 2005. |
|
Nr. 269/2005. |
Kaldasel ehf. (Halldór H. Backman hrl.) gegn Vélamiðstöðinni ehf. (enginn) |
Kærumál. Dómarar. Vanhæfi.
V krafðist þess í máli sem félagið hafði höfðað gegn K að héraðsdómari viki sæti þar sem dómarinn og framkvæmdastjóri K væru báðir í Frímúrarareglunni á Íslandi. Ekki var fallist á að þau tengsl væru milli þeirra að með réttu mætti draga óhlutdrægni dómarans í efa og var kröfu V því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 12. júní 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur frá 2. júní 2005 þar sem kröfu sóknaraðila um að dómari málsins víki sæti var hafnað. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess, að héraðsdómari víki sæti í málinu.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Fallist er á það með héraðsdómi, að ekki séu þau tengsl milli dómara málsins og framkvæmdastjóra varnaraðila að með réttu sé unnt að draga óhlutdrægni dómarans í efa. Samkvæmt því verður niðurstaða héraðsdóms staðfest.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2005.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 18. maí sl. er höfðað með stefnu birtri 24. júní 2004.
Stefnandi er Vélamiðstöðin ehf. Gylfaflöt 19, Reykjavík.
Stefndi er Kaldasel ehf. Undralandi 4, Reykjavík.
Í þessum þætti málsins eru kröfur stefnda þær að dómari víki sæti en í þinghaldi 18. maí sl. var eftirfarandi bókað.
„Þess er krafist af hálfu stefnda að dómarinn víki sæti með vísan til g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991. Stefndi hefur orðið þess áskynja að dómari málsins og Hersir Oddsson, framkvæmdarstjóri stefnanda eru báðir frímúrarar og telur að vegna þess séu fyrir hendi þau skilyrði sem getur í tilvitnaðri lagagrein og því beri dómara að víkja sæti.
Lögmaður stefnanda andmælir kröfu stefnda með vísan til þess að hann telji ekki vera fyrir hendi vanhæfi dómara.”
NIÐURSTAÐA
Við meðferð frumvarps þess sem varð að lögum nr. 15/1998 um dómstóla kom fram breytingartillaga frá tveimur þingmönnum við 26. gr. laganna en greinin hljóðar svo:
„Dómara er óheimilt að taka að sér starf eða eiga hlut í félagi eða atvinnufyrirtæki ef slíkt fær ekki samrýmst stöðu hans eða leiðir af sér hættu á að hann geti ekki sinnt embættisstarfi sínu sem skyldi.
Nefnd um dómarastörf setur almennar reglur um hvers konar aukastörf geti samrýmst embættisstörfum dómara. Dómari skal tilkynna nefndinni um aukastarf áður en hann tekur við því. Sé ekki getið um heimild til að gegna starfinu í almennum reglum nefndarinnar skal dómari þó fyrir fram leita leyfis hennar til þess.
Breytingartillagan var svohljóðandi:
“Dómara er óheimilt að taka að sér starf, eiga hlut í félagi eða atvinnufyrirtæki eða taka þátt í starfsemi, svo sem leynireglum, ef slíkt fær ekki samrýmst stöðu hans eða leiðir af sér hættu á að hann geti ekki sinnt embættisstarfi sínu sem skyldi, en nefnd um dómarastörf setur almennar reglur þar að lútandi.
Áður en dómari tekur við embætti skal hann tilkynna nefndinni ef einhverjar þær ástæður eru fyrir hendi sem greinir í 1. mgr. Sé um að ræða starf eða eignarhlut í félagi eða fyrirtæki sem ekki er um getið í almennum reglum nefndarinnar skal dómari engu að síður fyrir fram leita leyfis nefndarinnar.
Með rökstuddri ákvörðun getur nefnd um dómarastörf meinað dómara að gegna aukastarfi, eiga hlut í félagi eða atvinnufyrirtæki eða taka þátt í annarri starfsemi, svo sem með aðild að leynireglu, ef slíkt fær ekki samrýmst embættisstörfum hans. Dómara ber að hlíta slíku banni en heimilt er að leita úrlausnar dómstóla um lögmæti þess.”
Breytingartillagan var felld við meðferð frumvarpsins á Alþingi og kemur því ekki til sérstakra álita hvort þátttaka dómara í því sem höfundar breytingatillögunar kalla „leynireglu” valdi almennt vanhæfi hans til meðferðar mála.
Kemur þá til álita hvort þau tengsl séu með dómara og framkvæmdastjóra stefnanda Hersi Oddsyni sem leiði til þess að óhlutdrægni dómara verði með réttu dregin í efa. Dómari og framkvæmdastjórinn eru báðir meðlimir í Frímúrarareglunni á Íslandi sem telur á fjórða þúsund meðlimi og starfar í 25 svonefndum stúkum, mismunandi stórum um land allt. Í 3. gr. I. kafla Grundvallarskipanar Frímúrarareglunnar sem er aðgengileg öllum í Þjóðabókhlöðunni í Reykjavík og á Amtsbókasafninu á Akureyri segir eftirfarandi um tilgang hennar:
Markmið Reglunnar er að göfga og bæta mannlífið. Reglan vill efla góðvild og drengskap með öllum mönnum og auka bróðurþel þeirra á meðal. Takmarkinu vill Reglan ná með því að fræða bræðurna um þau göfugu vísindi að hefja dyggðina til vegs, bæla niður lestina og glæða á þann hátt hið besta í fari þeirra og treysta tengsl þeirra við upphaf sitt, Hinn Hæsta Höfuðsmið.
Þá kemur fram í 2. gr. II. kafla Grundvallarskipanar Reglunnar að frímúrara beri m.a. að leggja kapp á að reynast traustur, hollur og löghlýðinn þegn og sýna löglegum yfirvöldum virðingu og hlýðni. Þá kemur fram í 3. gr. sömu laga að hlýðniskylda gagnvart yfirboðurum í Reglunni taki einungis til málefna hennar. Ekki liggur launung á hver séu markmið Frímúrarareglunnar sbr. framansagt og að hún starfar á grundvelli kristinnar trúar. Enn fremur er til þess ætlast að frímúrarabræður leggi kapp á að reynast traustir, hollir og löghlýðnir þegnar og sýna löglegum yfirvöldum virðingu og hlýðni. Gilda reglur þessar um starf Frímúrarareglunnar svo sem er endranær í félögum og samtökum í samfélaginu. Úrlausn um hvort tengsl og samskipti manna innan félags eða samtaka séu svo náin og víðtæk að valdið geti vanhæfi hlýtur að taka mið af atvikum eða aðstæðum í hverju tilviki fyrir sig. Gilda að þessu leyti sömu sjómarmið um frímúrara og um meðlimi félaga yfirleitt. Orðalagið frímúrarabróðir og sú staðreynd að frímúrarar kalla hver annan bróður vísar beinlínis til náungakærleikans sbr. Matteusarguðspjall 7. kafla 12. vers og ef litið er til lýsingar markmiðs Reglunnar og skyldna gagnvart yfirvöldum landsins hér að framan verður ekki fallist á það að þau tengsl dómara og fyrrgreinds Hersis að báðir eru báðir eru í þessum fjölmenna félagsskap gefi réttmæta ástæðu til að draga óhlutdrægni dómara í máli þessu í efa. Þá eru ekki þau tengsl með þeim innan Frímúrarareglunnar að réttmæt ástæða sé til þess að draga óhlutdrægni dómara í efa að heldur.
Ekki er sýnt fram á að önnur þau atvik eða aðstæður séu fyrir hendi sem valdi því að dómari sé vanhæfur til meðferðar þessa máls skv. g lið 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og verður því kröfu stefnda hafnað.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ
Kröfu stefnda um að dómari víki sæti í máli þessu er hafnað.