Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-50
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Einkahlutafélag
- Lán
- Endurgreiðsla
- Skaðabætur
- Sönnunarbyrði
- Dráttarvextir
- Kyrrsetning
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 24. mars 2025 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 13. mars sama ár í máli nr. 533/2023: A, B og C gegn þrotabúi D ehf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Gagnaðili höfðaði mál á hendur fyrrum eigendum D ehf. og leyfisbeiðanda. Var þar aðallega krafist skaðabóta vegna tjóns sem næmi þeirri fjárhæð sem þrotabúið taldi að þau hefðu dregið sér úr rekstri félagsins með ólögmætum hætti. Til vara byggði gagnaðili á því að þau hefðu fengið ólögmæt lán hjá félaginu sem þeim bæri að endurgreiða.
4. Með dómi Landsréttar var byggt á því að óumdeilt væri að leyfisbeiðandi hefði ásamt B og C tekið út nánar tilgreindar fjárhæðir í reiðufé af bankareikningi félagsins á árunum 2012 til 2015. Hefðu leyfisbeiðandi og meðstefndu ekki sýnt fram á að reiðuféð hefði verið notað í þágu rekstrar félagsins heldur hefðu þau nýtt það í eigin þágu. Var því fallist á þá málsástæðu gagnaðila að úttektirnar hefðu verið ólögmæt lán í skilningi 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög sem þeim bæri að endurgreiða ásamt dráttarvöxtum. Landsréttur vísaði til þess að ekki hefðu verið lögð fram fullnægjandi gögn sem staðfestu að það reiðufé sem þau tóku á móti hefði verið varið til greiðslu lögmætra krafna á hendur félaginu. Með vísan til þessa staðfesti Landsréttur niðurstöðu héraðsdóms.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur í málinu hafi verulegt almennt gildi. Mikilvægt sé að fá úr því skorið hvort hún eigi að bera ábyrgð á fjárreiðum félags sem hún átti enga aðkomu að enda hvorki eigandi, stjórnandi né starfsmaður þess. Í málinu hafi leyfisbeiðandi í reynd verið sakfelld fyrir að taka út fjármuni samkvæmt fyrirmælum framkvæmdastjóra félagsins og henni gert að endurgreiða þá. Fyrir liggi að lögreglurannsókn hafi farið fram á fjárreiðum leyfisbeiðanda og hún ekki leitt neitt saknæmt í ljós. Hún hafi því verið sýknuð af öllum sakargiftum í sakamálinu. Þá telur leyfisbeiðandi að málið varði verulega hagsmuni hennar enda nemi dæmd fjárkrafa ásamt dráttarvöxtum um 177.500.000 króna. Að lokum telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur og ekki í samræmi við önnur fordæmi réttarins.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki talið að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.