Hæstiréttur íslands

Mál nr. 636/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Innsetningargerð
  • Leigusamningur


                                     

Þriðjudaginn 13. október 2015.

Nr. 636/2015.

Marella ehf.

(Haukur Örn Birgisson hrl.)

gegn

Hótel Valhöll ehf.

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

Kærumál. Innsetningargerð. Leigusamningur

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu M ehf. um að því yrði heimilað að fá nánar tiltekna muni tekna með beinni aðfaragerð úr umráðum H ehf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. september 2015 en kærumálsgögn bárust réttinum 5. október sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. september 2015 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að sér yrði heimilað að fá nánar tiltekna muni tekna með beinni aðfaragerð úr umráðum varnaraðila og fengna sér. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að sér verði heimiluð fyrrgreind aðfarargerð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Fyrir héraðsdómi féll sóknaraðili frá kröfu um að honum yrðu fengin umráð þeirra muna sem greinir kröfuliðum nr. 11, 13 til 16 og 28. Fyrir Hæstarétti hefur hann því til viðbótar fallið frá kröfuliðum nr. 29 til 31. Eftir stendur því að sóknaraðili krefst umráða þeirra muna sem taldir eru í kröfuliðum nr. 1 til 10, 12, 17 til 27 og 32 til 50. Að þessu gættu verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Marella ehf., greiði varnaraðila, Hótel Valhöll ehf., 400.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. september 2015.

I

                Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 26. ágúst sl.,  barst dóminum með bréfi mótteknu 13. apríl sl. Gerðarbeiðandi er Marella ehf., Austurstræti 22, Reykjavík. Varnaraðili er Hótel Valhöll ehf., Seljugerði 12, Reykjavík.

                Gerðarbeiðandi krefst þess í aðfararbeiðni að honum verði með úrskurði veitt heimild til að fá umráð eftirtalinna tækja og hluta sem séu nú í vörslum gerðarþola:

Tæki og hlutir      

Magn

Tegund

Vörunúmer

1.

Sérsmíðað borð með skúffum

1

FRO

2.

Grænmetiskvörn

1

G24 K Basic

KRE 540835

3.

Rifjárn fyrir parmesanost

1

KRE 840713

4.

20 skúffu bakaraofn

1

SCC Unit

RAT-SCC 102

5.

Sjóðvél

4

STUP3500

6.

Prentari

5

ILGATM-T70

7.

Skúffa fyrir sjóðvél

1

STER05DWBK

8.

Gaseldavél (2 brennarar)

1

EMME702N

9.

Brolier

1

42 x 70 5,2 kW 3 fasa

ARRIGV470EL

10.

Uppþvottavél

1

WD6E

WEXI203.006

11.

Eltikar (25 kg)

1

CPSRCPM252VB

12.

Pizzaofn

1

Pavensi

G120RPMKIT

13.

Saladette

1

SA920

14.

Kokkasvuntur

4

4210501

15.

Kokkajakki

1

BLCS

16.

Kokkahnífur

1

F.A. Porsche

P1

17.

Stálvinnuborð með vaski

1

FJS2550x800

18.

Stálhillur með festingum

3

Kronus

210081

19.

Stálhillur með festingum

6

Kronus

210080

20.

Stálhillur með festingum

14

Kronus

210161

21.

Stálhillur með festingum

2

Kronus

210160

22.

Vegghillur

4

Kronus

210120

23.

Stálhillur með festingum

6

MBM

210100

24.

Stálhillur með festingum

4

Kronus

210170

25.

Stálhilla með festingum

1

Kronus

210150

26.

Hillur með festingum

3

Kronus

210140

27.

Matvinnsluvél

1

Felsi

C4v

28.

Ísskeið

1

1444024

29.

Stólar

78

A-5010 VS

PAGE929765

30.

Barstólar

12

BST-5014 VS

PAGE1133560

31.

Borðfætur

2

PEDR4781

32.

Speglar

19

Verslunin 1928

33.

Borðlampar

7

Verslunin 1928

34.

Borðlampar

14

35.

Standlampar

2

36.

Kaffistell

Rosenberg

37.

Antík borðbúnaður

38.

Ýmsir antíkmunir

Antíkbúðin

39.

Háir kertastjakar

2

Tekk Company

40.

Antík kertastjakar

30

41.

Blómavasar

50

42.

Stórir blómavasar

7

43.

Gardínur

Álnabær

44.

Mottur

3

Persía

45.

Skenkar

3

Antíkbúðin

46.

Antík stólar

70

Antíkbúðin

47.

Jólaskraut

48.

Borð

40

49.

Stólar

100

50.

Borðbúnaður

200 manna

Við meðferð málsins féll gerðarbeiðandi frá kröfum er varðar muni sem getið er um í liðum merktum 11., 13. til 16. og 28. Þá féll hann frá kröfu um að fjárnám verði heimilað fyrir kostnaði af væntanlegri gerð og málskostnaði. Gerðarbeiðandi krefst málskostnaðar af hendi gerðarþola.

                Gerðarþoli krefst þess að öllum kröfum gerðarbeiðanda verði hafnað og að gerðarbeiðanda verði gert að greiða gerðarþola málskostnað. Verði niðurstaða dómsins sú að fallast á kröfur gerðarbeiðanda þá er þess krafist að málskot fresti aðfarargerð.

II

Málavextir

                Hinn 6. febrúar 2002 gerði Móments ehf.  leigusamning við Valdimar Jónsson um leigu á fasteigninni Þingholtsstræti 1 í Reykjavík fyrir veitingastarfsemi. Í 4. gr. samningsins er kveðið á um að við afhendingu hins leigða skyldu teknar myndir „sem sýna sem besta mynd af ástandi hins leigða í lok leigutímans eða teknu tilliti til eðlilegs slits.“ Í sama ákvæði var m.a. getið um skyldur leigutaka til þess að fara vel með hið leigða og skyldu hans til viðhalds. Leiddi viðhald af hálfu leigutaka til endurbóta eða viðbóta við hið leigða húsnæði var mælt fyrir um að það yrði eign leigusala. Sama gilti um naglfastar innréttingar og tæki sem leigutaki kynni að koma upp í húsnæðinu.

                José Luis Freyr Garcia tók við leigusamningum sem leigutaki af Móments ehf. frá og með 1. janúar 2005. Í tilefni þess var hinn 15. desember 2004 gerður sérstakur samningur um breytingar á framangreindum húsaleigusamningi Móments ehf. og Valdimars Jónssonar.  Skv. 7. gr. samningsviðaukans skyldi leigutaki eiga forleigurétt að hinu leigða húsnæði og átti að tilkynna það leigusala áður en samningurinn rynni út. Í 8. gr. var kveðið á um að það lausafé sem ekki væri unnt að fjarlægja án þess að sæi á hinu leigða húsnæði yrði eign leigusala. Sama gilti um annað lausafé sem nauðsynlegt væri til að halda áfram þeirri starfsemi sem fyrir hendi væri í húsnæðinu. Skv. 9. gr. var José heimilt að framselja réttindi sín skv. leigusamningnum til félags í eigu hans og eiginkonu hans yrði það gert fyrir 1. júlí 2005 enda yrði rekstur í hinu leigða húsnæði alfarið í höndum Jóse.  Í 10. gr. var kveðið á um að að öðru leyti og að því marki sem ekki væri um annað samið í samningsviðaukanum skyldu ákvæði hins upphaflega húsaleigusamnings leigusala og Móments ehf. frá 6. febrúar 2002 gilda milli Jóse og leigusala vegna leigu á Þingholtsstræti 1. Væri sá samningur fylgiskjal með samningsviðaukanum og hefði Jóse kynnt sér hann. Samningur Jóse við leigusala átti að gilda til 15. desember 2014.

                Gerðarþoli keypti fasteignina af Valdimari Jónssyni í febrúar 2013 og gekk því inn í leigusamninginn um Þingholtsstræti 1.

                Um það leyti sem leigusamningurinn rann út, um miðjan desember 2014, var José og gerðarbeiðanda, sem annaðist veitingarekstur í húsinu, meinaður aðgangur að húsnæðinu.

II

Málsástæður gerðarbeiðanda

                Gerðarbeiðandi vísar til þess að honum og José Luis Frey Garcia hafi ekki verið gefinn kostur á því að fjarlægja muni sína úr fasteigninni. Gerðarbeiðandi sé félag í eigu eiginkonu José en félagið hafi þó ekki verið aðili að umræddum leigusamningi um fasteignina. Gildi því ákvæði samningsins um skil á munum, sem það eigi í húsnæðinu, ekki gagnvart gerðarbeiðanda. Þá verði að líta til þess að húsnæðinu hafi ekki verið skilað heldur umráðamanni þess meinaður aðgangur að því.

                Gerðarbeiðandi vísar til þess að hann hafi hafi ítrekað krafið gerðarþola um afhendingu þeirra eigna sem krafan beinist að. Þeirri kröfu hafi verið hafnað af gerðarþola. Sé gerðarbeiðanda því nauðsynlegt að fá úrskurð um heimild sína til að taka umkrafða hluti úr vörslum gerðarþola.

Um lagarök vísar gerðarbeiðandi til 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Auk þess vísar hann til meginreglna eignarréttarins og reglna samninga- og kröfuréttar en staðfestingu á eignarheimild gerðarbeiðanda megi sjá af sölureikningum sem hafi fylgt gerðarbeiðni.

III

Málsástæður gerðarþola

                Af hálfu gerðarþola er á því byggt að gerðarbeiðandi hafi allt frá árinu 2005 rekið veitingastarfsemi að Þingholtsstræti 1, Reykjavík.  Í ársreikningi gerðarbeiðanda sé sérstaklega tekið fram að hann hafi með höndum rekstur veitingahússins Caruso í Þingholtsstræti.  Hann hafi allt frá stofnun verið með lögheimili að Þingholtsstræti 1 og sé skv. samþykktum og stofngögnum stofnaður í þeim tilgangi að hafa með höndum þessa tilteknu veitingastarfsemi. Á grundvelli þess hafi verið sérstaklega samið um það í 9. gr. leigusamningsins frá 15. desember 2004 að heimilt væri að framleigja Þingholtsstræti 1 félagi í eigu José Luis Freyr Garcia og eiginkonu hans, þ.e. gerðarbeiðanda. Fyrir liggi að félagið hafi greitt húsaleigu til Valdimars Jónssonar og síðar til gerðarþola allt frá upphafi. Gerðarbeiðandi hafi því verið leigutaki í hinu leigða húsnæði og borið réttindi og skyldur skv. þeim leigusamningi sem hafi legið til grundvallar afnotaréttar upphaflegs leigutaka með sama hætti og leigutaki sjálfur. Í 8. gr. nefnds leigusamnings komi skýrt fram að húsnæðinu hafi átt að skila ásamt öllu lausafé sem nauðsynlegt sé til að halda áfram þeirri starfsemi sem var í húsnæðinu á þeim tíma sem leigusamningurinn var gerður en það var rekstur veitingahússins Caruso. Hafi leigutaki og gerðarbeiðandi sem framleigutaki borið ábyrgð á því að húsnæðinu væri skilað í þessu ástandi í lok leigutíma. Allt það lausafé sem krafist sé innsetningar í falli undir lausafé sem nauðsynlegt er til að unnt sé að halda áfram starfsemi veitingahúss í húsnæðinu og hafi það því fylgt húsnæðinu við lok leigusamnings. 

Gerðarþoli vísar til þess að pizzuofninn sé steyptur inn í húsnæðið og myndi það valda miklum spjöllum að fjarlægja hann. Sé hann því eign leigusala skv. skýrum ákvæðum húsaleigusamnings og ákvæðum XIII. kafla húsaleigulaga nr. 36/1994. Það sama eigi við um ýmsa aðra muni.        

Gerðarþoli bendir á að í mörgum tilvikum sé um að ræða tegundarákveðna hluti sem ógerningur sé að sannreyna hvort hafi verið á staðnum í upphafi eða hvort um sé að ræða hluti sem gerðarbeiðandi hafi keypt. Fæstir þessara hluta hafa svokölluð serial-númer sem unnt sé að rekja.

Gerðarþoli vísar til þess að hluti reikninganna beri það augljóslega með sér að um sé að ræða lausafé sem afhent hafi verið og keypt fyrir rekstur annars félags sem sé í eigu sömu eigenda og gerðarbeiðandi. Lausafé sé oft flutt á milli veitingahúsa og því ekki unnt að slá því föstu með vissu hvort annað lausafé sé enn fyrir hendi í Þingholtsstræti 1 eða hvort það hafi verið nýtt annarsstaðar.

                Gerðarþoli vísar til þess að í sumum tilvikum liggi fyrir að lausafé sem var á staðnum hafi verið sett upp í hluti sem keyptir hafi verið, svo sem ofn.  Þar hafi hins vegar verið um að ræða eðlilega endurnýjun tækis eftir að gerðarbeiðandi var búinn að nýta sér það til hins ýtrasta þannig að þörf var á endurnýjun. Sama er að segja um annað lausafé sem krafist er innsetningar í, þ.e. um var að ræða eðlilega og nauðsynlega endurnýjun sem gerðarbeiðanda sem leigutaka bar að framkvæma og að skila aftur til gerðarþola sem leigusala í lok leigutímans.

                Kröfu um frestun réttaráhrifa byggir gerðarþoli á 3. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989.

IV

Niðurstaða

Gerðarbeiðandi krefst þess í máli þessu að hann verði settur inn í umráð lausafjár sem hann kveður vera í vörslum gerðarþola. Af beiðni má ráða að lausafé þetta sé staðsett í fasteigninni Þingholtsstræti 1, Reykjavík. Gerðarbeiðandi rak veitingastarfsemi í fasteigninni um árabil en aðila greinir þó á um hvort hann hafi tekið við réttindum og skyldum skv. leigusamningi José Luis Freyr Garcia og Valdimars Jónssonar, þáverandi eiganda fasteignarinnar, frá 15. desember 2004. Eins og rakið hefur verið var sá samningur viðauki við leigusamning sem nefndur Valdimar og Móments ehf. höfðu gert um fasteignina 6. febrúar 2002. Gert var ráð fyrir í 9. gr. viðaukans að José væri heimilt að framselja réttindi sín skv. leigusamningnum til félags í eigu hans og eiginkonu hans enda yrði rekstur í hinu leigða húsnæði alfarið í höndum Jóse. Fyrir liggur að gerðarbeiðandi er félag í eigu eiginkonu José.

                Krafa gerðarbeiðanda er byggð á 78. gr. laga um aðför nr. 90/1989 þar sem kveðið er á um að manni sé heimilt að beina til héraðsdómara beiðni um að skyldu þess efnis, sem getur í 72. eða 73. gr. laganna verði fullnægt ef honum er með ólögmætum hætti aftrað að neyta réttinda, sem hann tjáir sig eiga og telur svo ljós að sönnur verði færðar fyrir þeim með gögnum sem aflað verður skv. 83. gr. sömu laga. Í 3. mgr. 83. gr. er kveðið á um að að jafnaði skuli aðfararbeiðni hafnað, ef varhugavert verður talið að gerðin nái fram að ganga á grundvelli þeirra sönnunargagna sem heimilt er að afla samkvæmt áðursögðu. Af þessu leiðir að gögn málsins verða að vera skýr um rétt gerðarbeiðanda til þess að fallist verði á kröfu hans.

Í aðfararbeiðni er þess krafist að innsetning verði heimiluð í mörg hundruð muni sem taldir eru upp í 50 liðum. Við meðferð málsins féll gerðarbeiðandi frá innsetningu í hluta munanna. Gerðarbeiðandi reifar ekki í aðfarabeiðni hvernig eignarrétti hans að einstökum munum er háttað heldur lætur við það sitja að vísa almennt til fylgiskjala með beiðninni, þ.e. reikninga sem gerðarbeiðandi telur að sanni eignarhald sitt. Umræddir reikningar ná þó einungis til hluta af því lausafé sem krafist er innsetningar í og því óljóst á hvaða grunni gerðarbeiðandi byggir eignarrétt sinn á fjölda muna. Þannig fylgja engin gögn til staðfestu eignarhaldi gerðarbeiðanda á lausafé sem talið er upp í liðum 33-50. Þá eru reikningar vegna stóla, barstóla og borðfóta sem krafist er afhendingar á í liðum nr. 29-30, gefnir út á Íslenska Tapashúsið ehf.  Einnig er til þess að líta að lýsingu tegundarákveðinna hluta er áfátt í aðfararbeiðni en í mörgum tilvikum er einungis vísað almennt til fjölda hluta, t.d. kertastjaka, spegla og lampa. Verður þannig ekki með góðu móti séð af kröfugerð um hvaða hluti er að ræða eða hvernig fullnusta ætti kröfu um afhendingu þeirra, yrði á hana fallist. Þó fallast megi á það með gerðarbeiðanda, að sú staðreynd að honum hafi verið meinaður aðgangur að fasteigninni geri honum um erfitt um vik, leiðir það ekki til þess að unnt sé að slaka á þeim kröfum sem gerðar eru til skýrleika kröfu hans skv. 78. gr. laga nr. 90/1989. 

                Í 4. gr. leigusamningsins frá 6. febrúar 2002 er kveðið á um að naglfastar innréttingar og tæki sem leigutaki kynni að koma upp í húsnæðinu skyldu verða eign leigusala. Þá var í 8. gr. viðauka við leigusamninginn frá 15. desember 2004 vísað til þess að það lausafé sem ekki væri unnt að fjarlægja án þess að sæi á hinu leigða húsnæði yrði eign leigusala. Sama gilti um annað lausafé sem nauðsynlegt væri til að halda áfram þeirri starfsemi sem fyrir hendi væri í húsnæðinu. Gerðarbeiðandi telur að umrædd ákvæði eigi ekki við um hann þar sem hann hafi ekki verið leigutaki skv. samningnum. Við mat á þessari málsástæðu gerðarbeiðanda er til þess að líta að hann hefur um árabil haft með höndum veitingarekstur í fasteigninni Þingholtsstræti 1. Samkvæmt gögnum málsins voru greiðslur sem inntar voru af hendi rafrænt í gegnum posakerfi veitingastaðarins settar til tryggingar leigugreiðslum vegna fasteignarinnar og fór uppgjör þar að lútandi fram á milli leigusala og gerðarbeiðanda. Ekki verður ráðið af gögnum að neinn rekstur hafi verið í húsnæðinu í nafni Jóse sjálfs, heldur hafi hann heimilað gerðarbeiðanda afnot húsnæðisins fyrir veitingarekstur eins og honum var heimilt skv. 9. gr. samningsviðaukans. Er því ekki unnt að fallast á það með gerðarbeiðanda að framangreind ákvæði leigusamningsins um eignarrétt leigusala séu honum með öllu óviðkomandi. 

Samkvæmt framangreindu leikur vafi á eignarrétti gerðarbeiðanda á lausafé því sem hann krefst innsetningar í og þá er krafa hans að hluta til óljós. Er því varhugavert að gerðin nái fram að ganga, sbr. 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989 og verður því að hafna kröfu gerðarbeiðanda.

                Með vísan til þessara málsúrslita verður gerðarbeiðanda gert að greiða gerðarþola málskostnað, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989, sem þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur.

                Af hálfu gerðarbeiðanda flutti málið Unnur Birna Vilhjálmsdóttir hdl. vegna Ómars Arnar Bjarnþórssonar hdl. en af hálfu gerðarþola flutti málið Sveinn Jónatansson hdl. 

                Kolbrún Sævardóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu gerðarbeiðanda, Marellu ehf., um að honum verði með úrskurði veitt heimild til að fá umráð tækja og hluta sem hann kveður að séu nú í vörslum gerðarþola, Hótels Valhallar ehf., er hafnað.

Gerðarbeiðandi greiði gerðarþola 350.000 krónur í málskostnað.