Hæstiréttur íslands

Mál nr. 307/2008


Lykilorð

  • Slysatrygging ökumanns
  • Meðdómsmaður
  • Örorkumat
  • Ómerking héraðsdóms
  • Heimvísun


Fimmtudaginn 5

 

Fimmtudaginn 5. febrúar 2009.

Nr. 307/2008.

Ingibjörg Steinunn Sæmundsdóttir

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Ólafur Eiríksson hrl.)

 

Slysatrygging ökumanns. Meðdómendur. Örorkumat. Ómerking héraðsdóms. Heimvísun.

 

I krafðist bóta úr slysatryggingu ökumanns samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir í umferðarslysi, en V var vátryggjandi bifreiðarinnar. Meginágreiningur aðila snérist um mat á afleiðingum slyssins fyrir heilsu I. Í málinu hafði verið aflað þriggja matsgerða og greindi málsaðila á um hvaða matsgerð skyldi leggja til grundvallar við mat á miska- og örorkustigi. Krafðist I þess fyrir Hæstarétti að héraðsdómur yrði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný, þar sem héraðsdómara hefði borið að nýta heimild í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og kveðja tvo meðdómsmenn með sérkunnáttu í læknisfræði til að leggja dóm á ágreining málsaðila. V mótmælti þessu og taldi að úrlausnarefnið hefði snúist um sönnun á afleiðingum slyssins sem héraðsdómari hefði verið einfær um að meta. Taldi Hæstiréttur að það hefði verið brýnt að héraðsdómari kveddi til sérfróða meðdómsmenn til að leggja mat á þessi atriði og spyrja þá sérfróðu álitsgjafa sem komu fyrir dóminn við aðalflutning málsins, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991. Var því fallist á kröfu I um ómerkingu hins áfrýjaða dóms og málinu vísað heim til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. júní 2008. Hún krefst þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný. Til vara krefst hún þess nú að stefnda verði gert að greiða sér 12.690.487 krónur með 4,5% ársvöxtum af 1.069.725 krónum frá 6. janúar 2005 til 16. október 2007, af 9.086.773 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2008, af 12.690.487 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2008 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, að frádregnum innborgunum 11. september 2006 að fjárhæð 3.388.511 krónur og 31. desember 2007 að fjárhæð 500.000 krónur. Að því frágengnu krefst áfrýjandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 8.521.622 krónur með 4,5% ársvöxtum af 1.069.725 krónum frá 6. janúar 2005 til 27. maí 2007, af 4.917.908 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2008, af 8.521.622 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, að frádregnum sömu innborgunum og greinir í varakröfu. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði eins og málið hafi ekki verið gjafsóknarmál og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Í máli þessu krefst áfrýjandi bóta úr slysatryggingu ökumanns samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir í umferðarslysi 5. janúar 2005, en stefndi var vátryggjandi bifreiðarinnar. Meginágreiningur málsaðila snýst um mat á afleiðingum slyssins fyrir heilsu áfrýjanda. Stefndi greiddi henni bætur 13. september 2006, samtals að fjárhæð 3.631.029 krónur, en við greiðsluna var gerður fyrirvari af hálfu áfrýjanda meðal annars um að mat „gefi ekki rétta mynd af afleiðingum slyssins.“ Svo sem lýst er í hinum áfrýjaða dómi reisir áfrýjandi kröfu sína um bætur fyrir varanlegan miska á matsgerð tveggja dómkvaddra matsmanna 24. maí 2007 sem mátu hann til 15 stiga. Kröfuna um bætur fyrir varanlega örorku reisir áfrýjandi á matsgerð þriggja matsmanna, sem dómkvaddir voru sem yfirmatsmenn til að endurskoða niðurstöðu fyrrgreindrar matsgerðar um varanlega örorku áfrýjanda. Komust þeir í matsgerð 16. október 2007 að þeirri niðurstöðu að varanlega örorkan væri 25% en undirmatsmenn höfðu metið hana 12%. Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á matsgerð tveggja lækna, sem málsaðilar höfðu leitað sameiginlega til, en í matsgerð 16. ágúst 2006 höfðu þeir metið varanlegan miska áfrýjanda til 8 stiga og varanlega örorku 8%. Greiðsla stefnda 13. september 2007 var byggð á þessari síðastgreindu matsgerð og telur stefndi að tjón áfrýjanda hafi þar með verið að fullu bætt. Í hinum áfrýjaða dómi var fallist á sjónarmið stefnda um þetta og hann sýknaður af kröfum áfrýjanda.

Kröfu sína um ómerkingu héraðsdóms byggir áfrýjandi á því að héraðsdómara hafi borið, eins og ágreiningi málsaðila var háttað, að nýta heimild í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og kveðja tvo meðdómsmenn með sérkunnáttu í læknisfræði til að leggja dóm á ágreining málsaðila um afleiðingar slyssins fyrir heilsu áfrýjanda og þar með miska- og örorkustig, sem miða beri bætur til hennar við. Stefndi mótmælir þessu og telur að úrlausnarefnið hafi snúist um sönnun á afleiðingum slyssins sem héraðsdómari hafi verið einfær um að meta.

Af málsgögnum er ljóst að ágreiningur málsaðila snýst meðal annars um hvort einkenni í mjóbaki og streitueinkenni verði rakin til slyssins. Til þess að réttilega yrði leyst úr þessum atriðum í héraði var brýnt að héraðsdómari kveddi til sérfróða meðdómsmenn til að leggja mat á þau og spyrja þá sérfróðu álitsgjafa sem komu fyrir dóminn við aðalflutning málsins, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991. Vegna þessa annmarka á meðferð málsins verður fallist á aðalkröfu áfrýjanda um ómerkingu hins áfrýjaða dóms og verður málinu vísað heim til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.

Miðað við þessa niðurstöðu og með hliðsjón af kröfugerð málsaðila fyrir Hæstarétti verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og er málinu vísað heim til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.

Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði áfrýjanda, Ingibjörgu Steinunni Sæmundsdóttur, 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. maí 2008.

Mál þetta, sem dómtekið var 7. maí 2008, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Ingibjörgu St. Sæmundsdóttur, kt. 060587-2699, Breiðumörk 13, Hveragerði, gegn Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík,   með stefnu sem birt var 13. nóvember 2007.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru aðallega að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða stefnanda 20.707.516 krónur ásamt 4,5% ársvöxtum frá 6. janúar 2005 til 16. nóvember 2007, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.  Allt að frádreginni greiðslu að fjárhæð 3.388.511 krónum, hinn 11. september 2006, og 500.000 krónum hinn 31. desember 2007.  Þá er krafist málskostnaðar eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál, samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti.  Til vara krefst stefnandi að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða stefnanda 12.868.739 krónur með sama vaxtafæti og í aðalkröfu, að frádregnum sömu innborgunum sem koma til frádráttar aðalkröfu.  Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti.

Dómkröfur stefnda eru aðallega að félagið verði sýknað af kröfum stefnanda og dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins.  Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður felldur niður.

 

Helstu málavextir eru að stefnandi var á leið til Þorlákshafnar að kvöldi dags miðvikudaginn 5. janúar 2005.  Hún var ein á ferð í Volkswagen Polo bifreið, árg. 1998.  Í skýrslu lögreglunnar, sem tekin var daginn eftir, segir m.a. að mikil hálka hafi verið á veginum.  Bifreiðin hafi farið út af honum vinstra megin og oltið eina veltu og stöðvast á toppnum.  Haft er eftir stefnanda að hún hafi ekið á 80 km/klst. þegar bifreiðin fór að rása og endaði utanvegar á hvolfi.  Hún hafi ekki kennt sér meins eftir byltuna en verið með eymsli í hægra eyra og smárispu á hægra handarbaki, auk þess sem glerbrot hafi verið innanklæða.  Hún hafi verið í öryggisbelti þegar óhappið varð.  Þá segir í lögregluskýrslunni að bifreiðin hafi verið mikið skemmd á báðum hliðum, toppi og vélarhlíf.  Greint er frá því að bifreiðin væri tryggð hjá VÍS.

Elsta læknisvottorð, er liggur fyrir í málinu (dskj. nr. 4), er gefið út af Hallgrími Magnússyni lækni, Heilsugæslustöðinni í Hveragerði, hinn 1. júní 2005.  Þar segir: Ingibjörg er mjög slæm í hálsi og herðum og niður í bak, eftir bílslys.  Hún er í þannig vinnu að hún nær ekki að stunda hana.  Er nú að byrja í sjúkraþjálfun og verður næsta mánuðinn í henni.  Þá segir m.a. um stefnanda í svokallaðri „Beiðni um þjálfun“, dags. 1. júní 2005, (dskj. nr. 44) sem undirrituð er af Hallgími Magnússyni lækni: Lenti í bílslysi í janúar, fékk whiplash áverka nú slæm í hálsi og herðum og niður eftir bakinu.  Er með Asthma og verður alltaf verri í bakinu þegar asthminn er slæmur.

Í læknisvottorði Hrundar Þórhallsdóttur læknis, Heilsugæslustöðinni í Hveragerði, hinn 24. júní 2005, segir m.a.: Ingibjörg lenti í bílveltu við Þorlákshöfn þ. 5.1.2005 og var skoðuð af vaktlækni á Heilbrigðisstofnun Selfoss sama dag.  Ingibjörg hlaut hálsáverka (Whiplash injury) í veltunni.  Hún hefur endurtekið leitað til okkar vegna stoðkerfiserfiðleika eftir slysið.  Hún er enn að fá slæm verkjaköst í aftanverðan hálsinn, herðar og neðarlega í brjóstbak hægra megin.  Ingibjörg er í þannig vinnu að hún getur ekki getað stundað hana vegna þeirra einkenna sem hún þjáist af eftir slysið.  Er enn í sjúkraþjálfun vegna verkja og stirðleika eftir áverkana.  Fram að slysinu hafði Ingibjörg verið almennt mjög heilsuhraust fyrir utan astma, en nú verður hún alltaf verri í bakinu þegar asthminn er slæmur.

Hinn 3. apríl 2006 fengu stefndi og þáverandi lögmaður stefnanda læknana Magnús Pál Albertsson og Atla Þór Ólason til að meta varanlega örorku, miskastig, tímabundna örorku, tímabil þjáningarbóta og stöðugleikapunkt stefnanda vegna afleiðinga líkamstjóns er hún varð fyrir í umferðarslysinu hinn 5. janúar 2005.  Matsgerðin er dagsett 16. ágúst 2006 og þar segir m.a.:

 

Matslæknar telja að við ofannefnt slys hafi tjónþoli hlotið tognunaráverka á hálsi og út á herðasvæði hægra megin og af þeim tognunaráverka leiði þeir verkir sem hún finnur fyrir niður í hægri upphandlegg og stöku sinnum niður í hægri hönd og einnig niður á milli herðablaðanna.  Matslæknar sjá engin augljós tengsl mjóbaksverkja við slysið enda komu þeir verkir ekki til sögunnar fyrr en 6-8 mánuðum eftir slysið.  Þau andlegu óþægindi sem tjónþoli lýsir, eins og gleymska og að hún er meyrari en áður, eru óstaðfest í gögnum málsins í sjálfu sér og einnig þess eðlis að þau munu rjátlast af með tímanum.  Tjónþoli hefur ekki jafnað sig eftir þetta slys og eins og lýst er hér að ofan er aðallega með verk frá hálsi og herðum hægra megin og einnig gjörn á höfuðverk og með verk niður í hægri handlegg og niður á milli herðablaða.  Verða þau einkenni að teljast varanleg og er til þeirra litið við mat á miska sem þannig telst hæfilega metinn 8%.

Ljóst er að afleiðingar slyssins skerða nokkuð getu tjónþola til allrar átakavinnu þannig að það skerðir nokkuð möguleika hennar á almennum vinnumarkaði.  Það hefur einnig haft áhrif á frítíma hennar.  Á hitt ber einnig að líta að tjónþoli er ung, enn í námi og mun geta takmarkað tjón sitt með því að stýra námsvali og framtíðarstarfi með tilliti til getu.  Skerðing á starfsgetu til frambúðar telst þó valda tjónþola örorku sem nemur 8%.

Á það skal einnig bent að afleiðingar slyssins hafa nú þegar tafið tjónþola um rúmt ár í námi og er ekki óvarlegt að telja að það muni tefja skólagöngu hennar um tvö ár.

Við mat á tímabili þjáningarbóta er litið þannig á að tjónþoli hafi verið óvinnufær frá slysdegi og í þrjá mánuði eða fram til 5. apríl en um það leyti hóf hún störf í Krónunni.  Tímabil þjáningarbóta er miðað við sama tímabil og tímabundið atvinnutjón og stöðugleikapunkti talið hafa verið náð þann 5. apríl 2005.

Niðurstað matsins var í stuttu máli þessi:

Varanlegur miski telst hæfilega metinn 8% (átta af hundraði).

Varanleg örorka telst hæfilega metinn 8% (átta af hundraði).

Tímabundið atvinnutjón var frá 5. janúar til 5. apríl 2005.

Tímabil þjáningarbóta var 5. janúar til 5. apríl 2005, allt tímabilið án þess að vera rúmliggjandi.

Stöðugleikapunktur telst hafa verið 5. apríl 2005.

 

Hinn 11. september 2006 greiddi stefndi stefnanda bætur samtals að fjárhæð 3.631.029, þ.e. þjáningabætur 99.900 kr., varanlegur miski 508.280 kr., varanleg örorka vegna slyssins 2.565.455 kr., vextir 214.875 kr., innheimtuþóknun lögfræðings 194.794 kr., virðisaukaskattur 47.724 kr.  Tekið var við fjárhæðinni með fyrirvara í þá veru að ekki hefði verið aflað nægilegra gagna til að meta afleiðingar slyssins.

Hinn 2. mars 2007 fékk stefnandi dómkvadda matsmenn, Sigurð Sigurðsson bæklunarlækni og Pál Sigurðsson prófessor, til að meta afleiðingar umferðarslyssins.  Í beiðni um dómkvaðningu, dags. 26. janúar 2007, eru matsspurningar orðaðar svo:

 

1. Hverjar eru líkamlegir og andlegir annmarkar matsbeiðanda sem eru afleiðingar slyssins, þann 5. janúar 2005.

2.  Hvenær var stöðugleikapunkti náð eftir slysið.

3. Hvert var tímabundið atvinnutjón matsbeiðanda samkvæmt 1. mgr. 2. greinar skaðabótalaga til starfa utan heimilis og til heimilisstarfa.

4. Hvert var þjáningatímabil matsbeiðanda samkvæmt 3. grein skaðabótalaga, vegna þeirra áverka sem matsbeiðandi hlaut í slysinu.

5. Hver er varanlegur miski matsbeiðanda vegna slyssins, skv. 4. grein skaðabótalaga, þar sem bæði er metin læknisfræðileg örorka og þeir erfiðleikar sérstaklega, sem líkamstjónið hefur í för með sér í lífi matsbeiðanda.

6. Hver er varanleg örorka matsbeiðanda samkvæmt 5. grein laga nr. 50/1993, vegna þeirra áverka sem matsbeiðandi fékk í slysinu, til starfa utan heimilis og til heimilisstarfa.

7. Verði varanleg örorka matsbeiðanda metin hærri en 30% er þess beiðst að metið verði einnig hvort örorka matsbeiðanda, sem hún hlaut í slysinu, nái 75% samkvæmt staðli reglugerðar nr. 379/1999, sem sett hefur verið samkvæmt 1. og 2. mgr. 12. greinar laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, vegna áverkanna og hver er þá örorka hennar vegna annarra áfalla eða annarra færniskerðingar, sem hún bjó við fyrir slysið.  Ef örorka matsbeiðanda nær ekki 75%, nær hún þá 50% samkvæmt ofangreindum staðli.  Ef matsbeiðandi verður metin örorka skv. staðlinum, hvað má búast við, að það verði til langs tíma og er þá vitað hvað þá tekur við.

8.        (i) Hver er sjúkrakostnaður og annað fjártjón matsbeiðanda vegna afleiðinga slyssins, fram að stöðugleikapunkti, (ii) en frá stöðugleikapunkti til þess tíma er varanlegur miski og varanleg örorka eru endanlega metin með matsgerð þessari. (iii) Þá er þess beiðst að því verði svarað í hve miklum mæli matsbeiðandi muni þurfa á aðstoð sjúkraþjálfara að halda og annarri heilbrigðisþjónustu, frá því mati líkur og út [til] loka starfsævi, vegna þeirra áverka sem hún fékk í slysinu og hvort kostnaður hennar vegna lyfjakaupa verði verulegur, vegna afleiðinga slyssins.

 

Í stuttu máli eru svör matsmanna við spurningum matsbeiðanda eftirfarandi:

 

  1. Í slysi þessu hlaut matsbeiðandi höfuðhögg með eftirfarandi höfuðverkjum sem koma fram við álag, tognun í hálsi með leiðniverk upp í hnakka og út í herðar, sérstaklega hægra megin og einnig þeim megin niður í hægra herðablað og sár við hægra eyra.  Matsmenn telja að matsbeiðandi hafi einnig hlotið tognun í mjóbaki við slysið.  Framangreind einkenni hafa einnig valdið matsbeiðanda andlegum einkennum, svo sem kvíða, þunglyndi, gleymsku og svefnröskun.  Andleg einkenni hafa að verulegu leyti gengið til baka við meðferð geðlæknis, að gleymskunni undanskilinni.

2.     05.04.05, þegar matsbeiðandi hóf störf.

  1. Frá 05.01.05 til 05.04.05,- 100%, til almennrar vinnu og heimilisstarfa.
  2. Frá slysdegi, 05.01.05, og til 05.04.05.  Þar af engin rúmlega.

5... Við mat á miska matsbeiðanda í máli þessu er tekið mið af slæmri hálstognun með leiðniverkjum eins og áður hefur verið lýst, höfuðverk vegna afleiðinga höfuðhöggs, og vægri tognun í mjóbaki.  Einnig er tekið mið af vægri streituröskun með góðum horfum.

Með vísun til þess, sem hér var rakið telja matsmenn, að varanlegur miski matsbeiðanda, sbr. 4. gr. skaðabótalaga, sé réttilega metinn 15 stig.

6.... Eins og fyrr hefur verið rakið í matsgerð þessari varð matsbeiðandi fyrir áverka við umrætt slys, sem leiddi til varanlegs miska.  Matsmenn telja einnig, að matsbeiðandi hafi orðið fyrir varanlegri skerðingu á aflahæfi sínu í kjölfar slyssins, þ.e. beðið varanlega örorku í skilningi skaðabótalaga, vegna fyrirsjáanlegrar skerðingar á aflahæfi sínu.

Matsmenn telja, að í kjölfar slyssins búi matsbeiðandi við þrekskerðingu af völdum þreytu og verkja auk nokkurra andlegra einkenna, er standa í beinu orsakasambandi við slysið, sem sé til þess fallin að draga úr getu hennar til að stunda krefjandi starf að hvað tagi sem er.  Einkum er ljóst, að áliti matsmanna, að sum verslunarstörf henta henni illa, eða hún jafnvel vera ófær til þeirra með öllu.  Sama myndi t.d. gilda um ýmis störf við fiskvinnslu, sem mikið er um á núverandi dvalarstað hennar og þar í grennd.  Skerðir þetta starfsval matsbeiðanda allnokkuð, sem hefð er fyrir að meta til nokkurrar tekjuskerðingar, þegar til lengri tíma er litið.  Þá munu sum skrifstofustörf henta matsbeiðanda illa, einkum þar sem reynir á langar setur og óþægilegar líkamsstellingar, m.a. vegna bakvandamála hennar og verkja í hægri hendi, auk höfuðverkjar, gleymsku og nokkurra andlegra einkenna, sem líklegt má telja að hún muni þurfa að þola til frambúðar.

Einkenni matsbeiðanda, sem lýst hefur verið fyrr í matsgerð þessari, draga einnig úr getu hennar til að vinna yfirvinnu í miklum mæli, sem ella kynni að hækka tekjur hennar.  Þá er það almenn reynsla, að nokkurt atvinnuóöryggi fylgir gjarna einkennum af því tagi, sem matsbeiðandi býr við, því að fólk sem ekki gengur heilt til skógar er gjarna fremur sagt upp störfum en alheilbrigðu fólki, ef til uppsagna kemur af almennum ástæðum, svo sem vegna samdráttar á vinnumarkaði.  Má einnig meta það til jafngildis skerðingar á aflahæfi, þegar til framtíðar er litið.

Á hinn bóginn fer ekki á milli mála, að matsbeiðandi á vel að geta fundið sér ýmis störf, sem eiga að geta hentað heilsu hennar og þreki, þótt hún kunni að þurfa að flytja til annars atvinnusvæðis en hún býr á, til þeirra hluta.  Þá ber einnig að hafa hugfast, að þegar matsbeiðandi varð fyrir slysi sínu var hún á þeim aldri að hún gat (og getur enn) mótað framtíð sína í allríkum mæli, m.a. með því að haga starfsvali á þann veg að henti heilsu hennar og kröftum.  Dregur það, að sínu leyti, úr þeirri skerðingu á aflahæfi hennar, sem annars kynni að hafa leitt af umræddu slysi hefði hún verið mun eldri þegar það varð, og átti orðið erfiðara um vik við starfsval o.þ.h.

Matsmenn benda á, að ekkert verður ráðið af framlögðum gögnum um tekjur matsbeiðanda um mögulega skerðingu á aflahæfi hennar í framtíðinni, sökum þess að einungis hafur verið um að ræða lágar tekjur námsmanns fyrir hlutastörf.  Verður því óhjákvæmilega að meta örorku matsbeiðanda vegna starfa á almennum vinnumarkaði eftir álitum.  Telja matsmenn hæfilegt að meta örorku hennar til starfa utan heimilis sem 12% - tólf stig.

Þá er einnig rétt að meta matsbeiðanda nokkra örorku til heimilisstarfa og þykir rétt að miða þar við sömu hlutfallstölu á við um örorku til starfa utan heimilis, eða 12% - tólf stig.

Með vísun til þess, sem hér hefur verið rakið, telja matsmenn að varanleg örorka matsbeiðanda – einnig að teknu tilliti til skertrar getu til heimilisstarfa – sé réttilega metin 12% - tólf stig.

7. Þar sem varanleg örorka matsbeiðanda skv. skaðabótalögum nær ekki 30%, eins og rakið er í XII-6. hér að framan, þá reynir ekki á að matsmenn svari þessari spurningu.

8. Hinir dómkvöddu matsmenn hafa kynnt sér þau ljósrit gagna, er varða sjúkrakostnað matsbeiðanda og fyrir liggja í málinu. ... Þeir sáu ekkert athugavert eða óvenjulegt við þær upphæðir, sem greiðast áttu af matsbeiðanda samkvæmt gögnunum, fyrir og eftir það tímamark sem geturð er um í 8. matsspurningu, og geta þannig fallist á þær, að því marki sem það er unnt af skráðum gögnum einum saman og án nánari skýringa eða rannsóknar.

Ljóst er að matsbeiðandi hefur nú þegar orðið fyrir ýmsu fjártjóni í kjölfar þess umferðarslyss, sem hér er til mats, til viðbótar útlögðum sjúkrakostnaði.  Að þessum kostnaði og/eða tjóni er vikið í hinni sérstöku greinargerð lögmanns matsbeiðanda frá 10. apríl 2007, sem áður getur um.  Matsmenn telja sig hins vegar ekki hafa í höndum nægar upplýsingar eða gögn til að tjá sig nánar um þá málsástæðu og eru þeir því vanbúnir til að svara þessum þætti umræddrar matsspurningar á grundvelli þeirra hugleiðinga lögmanns matsbeiðanda, sem koma fram um þetta atriði í nefndri greinargerð hans.

Þá eru matsmenn beðnir um að svara því í hve miklum mæli matsbeiðandi muni þurfa á aðstoð sjúkraþjálfara að halda og annarri heilbrigðisþjónustu, frá því að þessu mati lauk og fram til loka starfsævi, vegna þeirra áverka sem matsbeiðandi fékk í umræddu slysi, og hvort kostnaður hennar vegna lyfjakaupa verði verulegur vegna afleiðinga slyssins.  Að áliti matsmanna er örðugt að svara þessum hluta spurningarinnar af neinni nákvæmni.  Hugsanlegt er þó, að hún muni þurfa sjúkraþjálfunartarnir af og til í framtíðinni.  Einnig gæti hún þurft á verkja- og bólgueyðandi lyfjum að halda af og til.  Matsmenn telja sig ekki geta metið hvort kostnaður af þeim sökum verður “verulegur”, á almennan mælikvarða, eða ekki.

                Undir fyrirsögninni Niðurstöður segir að lokum í matsgerðinni.

1.                    Um svar við 1. matsspurningu vísast til XII-1 hér að framan.

2.                    Stöðugleikatímamark: 05.04.05.

3.                    Tímabundið atvinnutjón: 05.01.05 til 05.04.05, 100%, til almennrar vinnu og til heimilisstarfa.

4.                    Þjáningatímabil: Frá slysdegi, 05.01.05 til 05.04.05.  Þar af engin rúmlega.

5.                    Varanlegur miski: 15 stig.

6.                    Varanleg örorka:12% - tólf stig – bæði til starfa á almennum vinnumarkaði og til heimilisstarfa.

7.                    Um svar við 7. matsspurningu vísast til XII-7 hér að framan.

8.                    Um svar við 8. matsspurningu vísast til XII-8 hér að framan.

 

Með bréfi, dags. 13. júní 2007, bað stefnandi um dómkvaðningu yfirmatsmanna.  Matspurningarnar voru:

1.                    Hver er varanleg örorka matsbeiðanda samkvæmt 5. grein laga nr. 50/1993, vegna þeirra áverka sem matsbeiðandi fékk í slysinu, til starfa utan heimilis og til heimilisstarfa.

2.                  Verði varanleg örorka matsbeiðanda metin hærri en 30% er þess beiðst að metið verði einnig hvort örorka matsbeiðanda, sem hún hlaut í slysinu, nái 75% samkvæmt staðli reglugerðar nr. 379/1999, sem sett hefur verið samkvæmt 1. og 2. mgr. 12. greinar laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, vegna áverkanna og hver er þá örorka hennar vegna annarra áfalla eða annarrar færnisskerðingar, sem hún bjó við fyrir slysið.  Ef örorka matsbeiðanda nær ekki 75%, nær hún þá 50% samkvæmt ofangreindum staðli.  Ef matsbeiðandi verður metin örorka skv. staðlinum, hvað má búast við, að það verði til langs tíma og er þá vitað hvað þá tekur við.

3.                    (i) Hver er sjúkrakostnaður og annað fjártjón matsbeiðanda vegna afleiðinga slyssins, fram að stöðugleikapunkti, (ii) en frá stöðugleikapunkti til þess tíma er varanlegur miski og varanleg örorka eru endanlega metin með matsgerð þessari. (iii) Þá er þess beiðst að því verði svarað í hve miklum mæli matsbeiðandi muni þurfa á aðstoð sjúkraþjálfara að halda og annarri heilbrigðisþjónustu, frá því mati líkur og út [til] loka starfsævi, vegna þeirra áverka sem hún fékk í slysinu og hvort kostnaður hennar vegna lyfjakaupa verði verulegur, vegna afleiðinga slyssins.

 

Þá var þess beiðst að dómkvaddir matsmenn svöruðu eftirfarandi viðbótarmatsspurningum:

a. Hverjar hefðu verið framtíðartekjur matsbeiðanda hefði hún klárað menntaskólanám á eðlilegum tíma og stutt háskólanám í framhaldinu.  Miðað við að hún hefði hafið fulla atvinnu þátttöku um 26 ára aldur og unni hjá ríkinu sem háskólamenntaður starfsmaður.

b. Hverjar hefðu verið framtíðartekjur matsbeiðanda við almenn skrifstofustörf.

c. Hverjar hefðu verið lágmarksframtíðartekjur matsbeiðanda samkvæmt meðallaunum verkamanna, þ.e. raunverulegum lágmarkslaunum.

 

Hinn 2. júlí 2007 fékk stefnandi dómkvadda matsmenn, Guðrúnu Karlsdóttur endurhæfingarlækni, Magnús Thoroddsen hæstaréttarlögmann og Vigfús Ásgeirsson tryggingastærðfræðing til að framkvæma matið.

                Yfirmatsgerðin er dagsett 16. október 2007.  Þar segir undir fyrirsögninni: Niðurstöður                A.

1.                    Varanleg örorka matsbeiðanda, skv. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, til starfa utan heimilis og til heimilisstarfa er metin 25% - tuttugu og fimm af hundraði.

2.                    Þar sem varanleg örorka matsbeiðanda nær ekki 30% kemur matsspurning nr. 2 ekki til álita.

3.                    Samkvæmt samantekt hér að framan er fjártjón matsbeiðanda undir þessum tölulið samtals metinn á kr. 854.000 til dagsins í dag og árlegur viðbótarkostnaður vegna slyssins verður krónur 101.000 miðað við örorku og einkenni í dag.

 

Þá segir undir fyrirsögninni: B. Viðbótarmat.

        a)                Árslaun sérmenntaðrar konu við 26 ára aldur verði krónur 4.023.000

        b)                Árslaun skrifstofustúlku við 26 ára aldur verður krónur 3.486.000

        c)                Árslaun verkakonu við 26 ára aldur verði krónur 2.811.000

 

Stefnandi byggir kröfu sína á því að bótaskylda stefnda hafi verið viðurkennd og vísar til 92. gr. umferðalaga, sbr. 91, 95 og 97. gr. laganna, í því sambandi.

                Stefnandi gerir með eftirfarandi hætti grein fyrir kröfum sínum:

 

            Útreikningar aðalkröfu:

Miskabætur:

 

5.811.090 x 15%

871.663 kr.

Þjáningabætur:

 

90 dagar x 1.880

99.900 kr.

Bætur fyrir varanlega örorku:

 

2.486.000 x 17,990 x 255

15.678.838 kr.

Tímabundin örorka/námstöf:

435.831 kr.

Annað fjártjón/sjúkrakostnaður fram

 

að yfirmatsgerð:

1.744.540 kr.

Framtíðarsjúkrakostnaður

1.876.744 kr.

Samtals aðalkrafa

20.707.516 kr.

 

„Miskabætur eru þannig grundvallaðar: Byggt er á matsgerð dómkvaddra matsmanna, Sigurjóns Sigurðssonar og Páls Sigurðssonar, á dómskjali nr. 26, en þeir meta miskann 15 stig og stöðugleikamark í apríl 2005.  Þannig reiknað 4.000.000 x lánskjaravísitala á stöðugleikapunkti apríl 2005, 4768 stig, deilt með vísitölu í júlí 1993, 3282 stig = 5.811.090.

Þjáningabætur: Byggt er á mati dómkvaddra matsmanna, Sigurjóns og Páls á dómskjali nr. 26.  Þjáningatímabil er frá slysdegi til 5. apríl eða þrír mánuðir, þ.e. 90 dagar.  Þjáningabætur á dag án rúmlegu eru 1.300, hækkað skv. lánskjaravst. til stöðugleikamarks/punkts, þannig, 1.300 x 4758/3292=1.880.

Bætur fyrir varanlega örorku: Byggt er á yfirmatinu á dómskjali nr. 49, um 25% varanlega örorku.  Viðmiðunarlaun eru einnig byggð á yfirmatinu og 2. mgr. 7. greinar skaðabótalaga.  Þá er stuðst við að stuðull skv. 6. grein skaðabótalaga sé miðaður við aldur stefnanda á stöðugleikapunkti 5. apríl 2005, en þá var stefnandi að nálgast 18 ára aldur, er stuðullinn þó miðaður við 17 ára aldur sem er lægri stuðull, en m.v. 18. ára aldur eða 17,990.  Þá miðar stefnandi nú við árslaun skrifstofustúlku við 26 ára aldur sem viðmiðunarlaun, þ.e. 3.486.000 krónur, sbr. yfirmat bls. 15.

Bætur fyrir tímabundna örorku/námstöf: Stefnandi byggir þessa dómkröfu á 2. grein skaðabótalaga og niðurstöðu undirmatsins á dómskjali nr. 26.  Vísað er til stefnu bls. 3 um þessa kröfu.  Gerð er sú leiðrétting að miðað er við stig lánskjaravísitölu í apríl 2005 4768 stig og verður því útreikningurinn þannig: 1.200.000 x 4768/3282 = 1.743.327/12 = 145.277 x 3=435.831.  Verði ekki fallist á þessa kröfu er gerð sú krafa að stefnanda verði greidd sama krafa vegna námstafa, en samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar hefur slíkur kostnaður verið dæmdur að álitum.  Í tveggja lækna matinu er metið að námstöf verði tvö ár vegna slyssins.  Er því miðað við að kostnaður á ári hafi verið 215.000.

Sjúkrakostnaður/annað fjártjón fram að gerð yfirmatsgerðar: Um þennan bótaþátt vísar stefnandi til stefnu bls. 2 og yfirmatsgerðar á bls. 11, en matsmenn meta kostnað stefnanda fram að yfirmatsgerð 854.470 krónur.  Inn í þeim kostnaði er ekki kostnaður við yfirmatsgerð kr. 872.500 og kostnaður vegna vottorðs Stefáns Dalberg kr. 35.600.  Alls er kostnaður þessi þannig reiknaður 854.470+35.600+854.470=1.744.540 krónur.

Fallist dómarinn ekki á að taka yfirmatskostnað inn í þennan bótalið, eða reikninginn frá Stefáni Dalberg, er byggt á því að þessi kostnaður sé hluti af málskostnaði.

Bætur fyrir framtíðarsjúkrakostnað/annað fjártjón.  Vísað er til yfirmatsgerðar dómskjals nr. 49, bls. 15 og til núvirðisreiknings Vigfúsar Ásgeirssonar tryggingastærðfræðings, frá 22. apríl 2008.

Innágreiðsla 11.9. 2006: 99.900+508.280+2.565.455+214.876 = 3.388.511.  Innágreiðsla 31.12 2007 500.000.  Sjá dómskjal nr. 53.

Útreikningar varakröfu:

Varakrafan er eins uppbyggð og aðalkrafa, fyrir utan að miðað er við lágmarkslaun, mv. Stöðuleikapunkt í apríl 2005, þannig: 1.200.000 x 4768/3282=1.743.327 x 17,990 x 25% = 7.840.061.“

           

Miskabætur:

 

5.811.090 x 15%

871.663 kr.

Þjáningabætur:

 

90 dagar x 1.880

99.900 kr.

Bætur fyrir varanlega örorku:

 

3.486.000 x 17,990 x 25%

7.840.061 kr.

Tímabundin örorka/námstöf:

435.831 kr.

Annað fjártjón/sjúkrakostnaður fram að yfirmatsgerð:

1.744.540 kr.

Framtíðarsjúkrakostnaður

1.876.744 kr.

Samtals aðalkrafa

12.868.739 kr.

 

Stefndi byggir á því að stefnandi hafi fengið tjón sitt af völdum slyssins að fullu bætt, en stefndi hafi greitt stefnanda í samræmi við niðurstöður matsgerðar, sbr. dskj. nr. 10 og nr. 25.

Stefndi hafnar því með rökstuddum hætti að matsgerð Sigurjóns Sigurðssonar bæklunarlæknis og Páls Sigurðssonar prófessors, sbr. dskj. nr. 26, og matsgerð Guðrúnar Karlsdóttur endurhæfingarlæknis, Magnús Thoroddsen hæstaréttarlögmanns og Vigfúsar Ásgeirssonar tryggingastærðfræðings, sbr. dskj. nr. 49, hafi þýðingu fyrir úrslit málsins.

Varakröfu um lækkun byggir stefndi á eftirfarandi málsástæðum og lagasjónarmiðum.

Varanlegur miski

Stefndi hefur nú þegar greitt stefnanda bætur vegna 8 stiga miska, sbr. matsgerð á dskj. 10 og uppgjör á dómskjali 25 samtals kr. 508.208.

Stefnandi byggir niðurstöðu dómkvaddra undirmatsmanna (dskj. 26) um að hann hafi hlotið 15 stiga miska í slysinu þann 5. janúar 2005.  Dómkrafa stefnanda ætti því að líta með eftirfarandi hætti út:  6.781.000 x 7 stig samtals kr. 474.670.

Varanleg örorka

Stefndi hefur þegar greitt stefnanda bætur vegna 8% varanlegrar örorku, sbr. matsgerð á dskj. 10.  Samtals kr. 2.565.455 (dskj. 25).  Gert var upp á grundvelli lágmarkslauna sbr. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og var ekki gerður fyrirvari við það launaviðmið er uppgjörið fór fram.  Stefnandi byggir á niðurstöðu dómkvaddra yfirmatsmanna um að hann hafi hlotið 25% varanlega örorku í slysinu þann 5. janúar 2005 (dskj. 49).  Af einhverjum ástæðum stendur 20% í kröfugerð stefnanda í stefnu í stað 25%.  Þá byggir stefnandi einnig á því að launaviðmiðið eigi að vera metið sérstaklega sbr. ákvæði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.  Þessari málsástæðu er mótmælt af hálfu stefnda og verður fjallað nánar um launaviðmiðið síðar í greinargerð þessari.  Dómkrafa stefnanda ætti því að líta með eftirfarandi hætti út:  1.743.500 (lágmarkslaun uppfærð miðað við vísitölu 3.282/4.768) x 18.393 x 17 = 5.451.593.

Þjáningabætur

Stefndi hefur þegar greitt stefnanda þjáningabætur í samræmi við niðurstöður matsgerðar þeirra Magnúsar og Atla Þórs (dskj. 10 og 25) samtals kr. 99.900.  Dómkvaddir undirmatsmenn voru sammála niðurstöðu þeirra Magnúsar og Atla Þórs varðandi tímabil þjáningabóta og hefur stefnandi því fengið þennan bótalið að fullu bættan.

Tímabundið atvinnutjón

...  Er stefnandi lenti í slysinu var hann námsmaður í fjölbrautarskóla.  Er því ekki um tímabundið atvinnutjón að ræða.  Þessum kröfulið er hafnað sem ósönnuðum og breyta niðurstöður matsgerðar því ekki.  Þá ber að hafna með öllu órökstuddri kröfu stefnanda um kostnað vegna tafa í námi.  Í stefnu gerir stefnandi enga tilraun til að rökstyðja þessa kröfu sína og því ekki hægt að ætlast til þess að stefndi svari slíkri kröfugerð.

Annað fjártjón og sjúkrakostnaður

Stefnandi setur fram í kröfugerð sinni kröfu um greiðslu á öðru fjártjóni upp á kr. 1.447.470.

Stefndi greiddi stefnanda kr. 46.462 vegna sjúkraþjálfunarkostnaðar, sbr. yfirlit um tjónagreiðslu (dskj. 53).  Þá greiddi stefnandi kr. 19.522 vegna lækniskostnaðar (dskj. 53)

Stefndi hafnar að greiða kostnað stefnanda vegna öflunar undirmatsgerðar og svokallaðrar yfirmatsgerðar. ... Þá hafnar stefndi einnig að greiða fyrir vottorð lækna sem voru ekki meðferðarlæknar stefnanda eftir slysið og sáu stefnanda ekki fyrr en mörgum árum eftir að slysið gerðist og stöðugleika var náð.  Lögmaður stefnanda sendir stefnanda til umræddra lækna í þeim tilgangi að afla gagna frá aðilum sem nánast hafa stöðu sérfróðra vitna og hafa ekki komið að meðferð stefnanda.  Þessi gagnaöflun er þarflaus og eingöngu framkvæmd í þeirri von að fá hærri niðurstöður út úr matsgerðum. ...

Framtíðarkostnaður

Stefnandi gerir kröfu um að stefni greiði sér framtíðarkostnað samtals kr. 4.500.000.  Þessum bótalið er mótmælt og hafnað.  Niðurstaða dómkvaddra yfirmatsmann um þennan bótalið er gríðarlega há og í engu samræmi við áverka þá sem stefnandi hlaut í slysinu þann 5. janúar 2005.  Það er með engu móti hægt að leggja þ s niðurstöður til grundvallar.

Stefndi es bendir jafnframt á að ákvæði 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga er ekki nægileg skýrt til þess að hægt sé að leggja þá kvöð á stefnda að hann greiði framtíðar sjúkrakostnað, sem að hluta til líkleg yrði greiddur af hinu opinbera, stéttarfélagi eða öðrum aðilum.  Þyrfti mun skýrara og afdráttarlausara ákvæði til að skylda stefnda til greiðslu á slíkum kostnaði.  Í þeim málum sem hafa farið fyrir Hæstarétt Íslands og tjónþolum hafa verið dæmdar bætur, sem eiga að standa straum af framtíðar sjúkrakostnaði, hefur án undantekninga verið um fjöláverka að ræða og gríðarlega alvarleg slys.  Það er ekki tilfellið í máli stefnanda.

Lögmannskostnaður

Stefndi greiddi lögmanni stefnanda kr. 194.794  í lögmannsþóknun og VSK samtals kr. 47.724 (dskj. 25).  Kröfu stefnanda um frekari greiðslu vegna lögmannskostnaðar er mótmælt.

Vextir

Stefndi hefur greitt stefnanda vexti skv. 16. gr. skaðabótalaga samtals kr. 214.876 (dskj. 25).  Vaxtakröfu stefnanda er því mótmælt.

Aðrar greiðslur

Þann 31. desember 2007 greiddi stefndi inn á fjárvörslureikning lögmanns stefnanda óskilgreinda fjárhæð samtals kr. 500.000 (dskj. 53).  Þetta gerði stefndi þar sem lögmaður bar sig illa fyrir hönd umbjóðanda síns en stefnda hafði ekki gefist ráðrúm til að yfirfara málið með ítarlegum hætti eða taka afstöðu um framhald málsins.  Þessi greiðsla kemur klárlega til frádráttar ef til frekara uppgjörs kemur en lögmaður stefnanda hefur ekki gert ráð fyrir í kröfugerð sinni að þessi fjárhæð komi til frádráttar.

Launaviðmiðið

Ágreiningur er á milli aðila um launaviðmið sem nota skal við útreikninga á bótum stefnanda.  Þó bendir stefndi á að stefnandi gerði ekki fyrirvara um launaviðmið þegar uppgjör fór fram, sbr. dskj. nr. 25.  Gerir stefnandi eingöngu fyrirvara um að ekki hafi verið aflað nægilegra gagna um áverkana og gerir almennan fyrirvara.

Því er harðlega mótmælt að leggja beri til grundvallar launaviðmið sem sé sérstaklega metið sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Til þess að laun séu metin sérstaklega þurfa ákveðin lagaleg skilyrði að vera fyrir hendi.  Samkvæmt ákvæði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga skal meta árslaun sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola.  Hvorugt þessara skilyrða eru uppfyllt í máli þessu og hefur stefnandi ekki gert neina tilraun til að rökstyðja og sanna að þessi skilyrði séu uppfyllt.

Ákvæði 1. mgr. 7. gr. laganna er meginreglan varðandi árslaunaviðmiðið.  Í ákvæðinu segir að árslaun til ákvörðunar bóta skv. 6. gr. skulu teljast vera meðaltekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við.  Undantekningin frá þessari reglu í 1. mgr. 7. gr., sem skýra ber þröngt birtist í 2. mgr. en þar segir að árslaun skulu þó metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði sé réttar á líklegar framtíðartekjur tjónþola.  Í 3. mgr. 7. gr. laganna er sett fram regla um lágmarkslaun sem miða skuli við.

Tekjusaga stefnanda fyrir slys er eðli málsins samkvæmt stutt þar sem stefnandi var nemandi í grunnskóla hluta af þeim tíma og því ekki unnt að miða við meðalatvinnutekjur hans síðustu þrjú almanaksárin fyrir tjónsdag eins og 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna gerir ráð fyrir.  Það er því eðlilegt aðstyðjast við tekjuviðmið 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga eins og gert var þegar bótauppgjörið fór fram þann 11. september 2006 (dskj. 25).

Stefnu hafna því að sérregla 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga eigi við í máli þessu enda voru aðstæður stefnanda á slysdegi ekki óvenjulega í skilningi ákvæðisins.  Á slysdegi var stefnandi 17 ára nemandi við fjölbrautaskóla.  Það er ekkert óvenjulegt við þær aðstæður og því engin ástæða til þess að meta launaviðmiðið sérstaklega.  Hæstiréttur Íslands hefur fjallað um sambærileg mál í nokkrum dómum sínum og hefur m.a. verð niðurstaða dómsins að ekki beri að meta sérstaklega launaviðmið einstaklings sem hafði nýlokið stúdentsprófi þegar slysaatburður varð.  Í þeim dómi Hæstaréttar var talið að leggja bæri lágmarkslaunaviðmið samkvæmt 3. mgr. 7. gr. til grundvallar í bótauppgjöri.  Það er því ekki unnt að líta svo á að sýnt hafi verið fram á að annar mælikvarði, en sá sem stuðst var við í bótauppgjöri, sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola.

Dráttarvextir

Upphafstíma dráttarvaxtakröfu er mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi, sbr. niðurlag 4. mgr. 5. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.  Stefndi hyggst afla matsgerðar dómkvaddra yfirmatsmanna, tveggja lækna og lögfræðings, til að sýna fram á að stefnandi hafi með greiðslu bóta þann 11. september 2006 fengið tjón sitt bætt.

Málskostnaðarkrafa stefnda í aðalkröfu er byggð á ákvæði 129. og 1. mgr. 130 gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málskostnaðarkrafa stefnda í varakröfu er byggð á ákvæði 3. mgr. 130 gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Stefnandi vísar til ákvæðis 48. gr. laga um vátryggingasamninga nr. 30/2004 til grundvallar kröfum sínum.  Þess ber að geta að Hæstiréttur Íslands hefur staðfest að lögin um vátryggingasamninga nr. 30/2004 gilda eingöngu um tjónsatvik sem gerðust eftir gildistöku þeirra 1. janúar 2006.  Slysið í þessu máli gerðist í janúar 2005 og gilda því lög um vátryggingasamninga nr. 20/1954 um skilmálana.  Stefndi hugðist dómkveðja yfirmatsmenn til að meta afleiðingar slyssins frá 5. janúar 2005 en gafst ekki tími til þess þar sem lögmaður stefnanda var búinn að stefna skömmu eftir að kröfubréf hafði borist stefnda.

 

Guðrún Karlsdóttir endurhæfingarlæknir kom fyrir réttinn.  Hún staðfesti að hafa, ásamt Magnúsi Thoroddsen hæstaréttarlögmanni og Vigfúsi Ásgeirssyni tryggingastærð-fræðingi, unnið yfirmatsgerðina, sem liggur fyrir í málinu sem dskj. nr. 49.

 

Sigurjón Sigurðsson bæklunarlæknir kom fyrir réttinn.  Hann staðfesti að hafa, ásamt Páli Sigurðssyni prófessor, unnið matsgerð, sem liggur fyrir í málinu sem dskj. nr. 26.

 

Vigfús Ásgeirsson tryggingastærðfræðingi kom fyrir réttinn.  Hann staðfesti að hafa, ásamt Magnúsi Thoroddsen hæstaréttarlögmanni og Guðrúnu Karlsdóttur, endur-hæfingarlækni, unnið yfirmatsgerðina, sem liggur fyrir í málinu sem dskj. nr. 49.  Lagt var fyrir Vigfús dskj. nr. 56, sem er myndrit af bréfi hans til lögmanns stefnanda, dags. 22. apríl 2008 og varðar núvirði árlegs viðbótarkostnaðar stefnanda samkvæmt yfirmatsgerðinni miðað við 1. janúar 2008.  Vigfús staðfesti að hafa ritað þetta bréf.

Vigfús kvaðst fyrst og fremst hafa unnið þann hluta af matsgerðinni sem fólst í því að taka saman kostnaðinn ásamt því að leggja mat á þær tölur sem lágu til grundvallar framtíðarkostnaði.  Þá hafi hann alfarið unnið þessar aukaspurningar um launin.

 

Magnús Páll Albertsson bæklunarskurðlæknir kom fyrir réttinn.  Hann staðfesti að hafa, ásamt Atla Þór Ólasyni bæklunarskurðlækni unnið matsgerð, sem liggur fyrir í málinu sem dskj. nr. 10.  Magnús Páll sagði m.a. að hann væri læknir með sérfræðiþekkingu í bæklunarskurðlækningum og handarskurðlækningum.  Þar að auki væri hann með amerískt próf í örorkumötum, CIME.  Þá væri hann með meistarapróf í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Vísað var til þess að í matgerðinni segir í 2. mgr. á bls. 6: Matslæknar telja að við ofannefnt slys hafi tjónþoli hlotið tognunaráverka í hálsi og út á herðasvæði hægra megin og af þeim togunaráverka leiði þeir sem hún finnur fyrir niður í hægri upphandlegg og stöku sinnum niður í hægri hönd og einnig niður á milli herðablaðanna.

Spurt var hvort þetta væru tveir áverkar eða einn.  Magnús Páll sagði að þetta væri einn áverki.  Þá var vísað til þess að í sömu málsgrein segir: Matslæknar sjá engin augljós tengsl mjóbaksverkja við slysið enda komu þeir verkir ekki til sögunnar fyrr en 6-8 mánuðum eftir slysið.  Spurt var hvaðan þeir hefðu þessar upplýsingar.  Magnús Páll sagði að þeir hefðu haft þær frá tjónþola.

Lagt var fyrir Magnús Pál dskj. nr. 6, sem er læknisvottorð varðandi stefnanda frá Sigurði Baldurssyni lækni hjá Heilsugæslustöðinni Hveragerði, dags. 21. mars 2006.  Vísað var til þess þar sem segir: Þá fór fljótlega að bera á verkjum í mjóbaki.  Spurt var hvor þeir hefðu ekki haft þetta gagn.  Magnús Páll sagði að svo hefði verið, en orðið fljótlega marki ekki ákveðinn tíma.  Hann vísaði til þess sem segir í 1. mgr. á bls. 4 í matsgerðinni: Á matsfundi [8. júní 2006] kveðst hún einnig vera með verk í mjóbaki en segir þá hafa byrjað fyrir u.þ.b. hálfu ári eða 6-8 mánuðum eftir slysið.

Vísað var til þess þar sem segir: Þau andlegu óþægindi sem tjónþoli lýsir, eins og gleymsku og að hún er meyrari en áður, eru óstaðfest í gögnum málsins í sjálfu sér og einnig þess eðlis að þau munu væntanlega rjátlast af með tímanum.  Spurt var hvort þeir hefðu ekki séð ástæðu til að athuga þetta betur.  Magnús Páll sagði að hefðu þeir séð það hefðu þeir gert það.

Spurt var hvort ekki væri regla í sambandi við svona möt að meta tjónþola eins og hann er, en ekki að reikna með að tjónþoli batni með tímanum nema það væri augljóst.  Magnús Páll sagði að þeir hefðu metið tjónþola eins og hann er en metið það sem var varanlegt.

 

Atli Þór Ólason bæklunarskurðlæknir kom fyrir réttinn.  Hann staðfesti að hafa, ásamt Magnúsi Páli Albertssyni bæklunarskurðlækni, unnið matsgerð, sem liggur fyrir í málinu sem dskj. nr. 10.  Hann sagði m.a. að hann væri bæklunarskurðlæknir með mikla reynslu í örorkumötum.

Vísað var til þess að í matgerðinni segir í 2. mgr. á bls. 6: Matslæknar telja að við ofannefnt slys hafi tjónþoli hlotið tognunaráverka í hálsi og út á herðasvæði hægra megin og af þeim togunaráverka leiði þeir sem hún finnur fyrir niður í hægri upphandlegg og stöku sinnum niður í hægri hönd og einnig niður á milli herðablaðanna.

Spurt var hvort það væri samkvæmt miskatöflunni, einn áverki eða tveir.  Atli Þór sagði að um einn áverka væri að ræða með verkjaleiðni niður á þessi svæði.  Þá var vísað til þess að í sömu málsgrein segir: Matslæknar sjá engin augljós tengsl mjóbaksverkja við slysið enda komu þeir verkir ekki til sögunnar fyrr en 6-8 mánuðum eftir slysið.  Spurt var hvort þetta hafi verið haft eftir stefnanda.  Atli Þór sagði að það kæmi fram í matsgerðinni.

Lagt var fyrir Atla Þór dskj. nr. 6, sem er læknisvottorð varðandi stefnanda frá Sigurði Baldurssyni lækni hjá Heilsugæslustöðinni Hveragerði, dags. 21. mars 2006.  Vísað var til þess þar sem segir: Þá fór fljótlega að bera á verkjum í mjóbaki.  Spurt var hvort þeir hefðu haft samband við Sigurð Baldursson varðandi þetta.  Atli Þór kvað svo ekki hafa verið.  Hann benti á að slysið hafi orðið 5. janúar 2005, en vottorðið væri ritað 21. mars 2006, þ.e. rétt um fjórtán mánuðum seinna.  Þeir hefðu haft frásögn stefnanda sem hún sjálf sagði þeim, að liðið hefðu 6-8 mánuðir frá slysinu er hún fór að finna fyrir verkjum í mjóbaki.

Vísað var til þess þar sem segir: Þau andlegu óþægindi sem tjónþoli lýsir, eins og gleymsku og að hún er meyrari en áður, eru óstaðfest í gögnum málsins í sjálfu sér og einnig þess eðlis að þau munu væntanlega rjátlast af með tímanum.  Spurt var hvort þeir hefðu ekki séð ástæðu til að athuga þetta betur.  Atli Þór sagði að svo hefði verið.  Stefnandi hefði ekki farið í skoðanir út af þessu.  Hún hefði ekki leitað til læknis sérstakleg út af þessu, ekki farið til sálfræðings eða geðlæknis.  Kvartanir af ýmsu tagi í þessa veru væru þekktar í tengslum við svona slys.  Þeir hefðu metið það svo að þær hefðu ekki verið að því tagi að nánar þyrfti að fara út í það.

 

Ályktunarorð:  Stefndi byggir á því að stefnandi hafi fengið tjón sitt bætt að fullu vegna slyssins er hér um ræðir með greiðslu frá stefnda, hinn 11. september 2006.  Vísar stefndi til þess að félagið hafi greitt stefnanda í samræmi við niðurstöðu matsgerðar frá 16. ágúst 2006 er Atli Þór Ólason læknir og Magnús Páll Albertsson læknir unnu að beiðni aðila.  Lögmaður stefnanda tók á hinn bóginn við greiðslunni með fyrirvara um matsgerðina.

Stefnandi fékk dómkvadda Pál Sigurðsson prófessor og Sigurð Sigurðsson lækni til að meta afleiðingar slyssins, hinn 2. mars 2007.  Matsgerðin er dagsett 24. maí 2007.  Niðurstaða um tímabundið atvinnutjón, tímabil þjáningabóta og stöðugleikatímamark er samhljóða niðurstöðu matsgerðarinnar frá 16. ágúst 2006.  Varanlegur miski er hins vegar metinn 15 stig og varanleg örorka 12 stig og er það veruleg breyting frá fyrra mati, þ.e. 8 stiga varanlegum miska og 8 stiga varanlegrar örorku.

Hinn 2. júlí 2007 fékk stefnandi dómkvadda Guðrúnu Karlsdóttur lækni, Magnús Thoroddsen hæstaréttarlögmann og Vigfús Ásgeirsson tryggingastærðfæðing til að meta m.a. varanlega örorku stefnanda vegna slyssins, hinn 5. janúar 2005.  Matsgerðin er dagsett 16. október 2007.  Þar er varanlega örorka stefnanda metin 25 stig.

Þess er getið í matsgerð Atla Þórs Ólasonar og Magnúsar Páls Albertssonar að stefnandi hafi komið til viðtals og skoðunar hjá þeim hinn 8. júní 2006, þ.e. einu og hálfu ári eftir slysið 5. janúar 2005.  Hún hefði þá tjáð þeim að hún væri einnig með verki í mjóbaki sem hafi byrjað fyrir u.þ.b. hálfu ári eða 6-8 mánuðum eftir slysið.

Rökstuðningur fyrir niðurstöðu Atla Þórs Ólasonar og Magnúsar Páls Albertssonar um 8 stiga varanlegan miska og 8 stiga varanlega örorku er rakinn í lýsingu málavaxta hér að framan.  Mat þeirra á varanlegum miska stefnanda samræmist töflu örorkunefndar um hámarks miskastig vegna hálstognunar, eymsla og ósamhverfrar hreyfiskerðingar.  Í mati þeirra á varanlegri örorku stefnanda er vísað til þess að geta hennar til allrar átakavinnu hafi skerst, en á hitt beri að líta að stefnandi er ung, enn í námi, og gæti takmarkað tjón sitt með því að stýra námsvali og framtíðarstarfi með tilliti til getu.  Sanngjarnt væri því að meta skerðingu á starfsgetu stefnanda til frambúðar-örorku er nemi 8 stigum.

Dómkvaddir matsmenn, Páll Sigurðsson prófessor og Sigurður Sigurðsson lækni, mátu varanlegan miska stefnanda 15 stig en varanlega örorku 12 stig.  Stefnandi byggir kröfu sína á mati þeirra á varanlegum miska en ekki á mati þeirra á varanlegri örorku.  Um mat þeirra á varanlegum miska segir að miðað hafi verið við að um slæma hálstognun með leiðniverkjum, höfuðverk og vægri tognun í mjóbaki væri að ræða, einnig vægri streituröskun með góðum horfum.  Nú eru miskabætur alfarið metnar út frá læknisfræðilegum sjónarmiðum.  Ekki eru efni til að ætla að mat þeirra á varanlegum miska stefnanda hafi hnekkt mati læknanna Atla Þórs Ólasonar og Magnúsar Páls Albertssonar.

Dómkvaddir yfirmatsmenn, Guðrún Karlsdóttir læknir, Magnús Thoroddsen hæstaréttarlögmaður og Vigfús Ásgeirsson tryggingastærðfræðingur, mátu varanlega örorku 25 stig „bæði til starfa utan heimilis sem innan“.  Því er lýst að fyrir slysið hafi stefnandi verið hraust og líkamlega vel á sig komin, stundað fimleika og knattspyrnu.  Þá hafi hún getað stundað störf, er kröfðust líkamlegrar áreynslu, en nú geti hún ekki stundað slík störf.  Hún geti ekki lyft þungri byrði og þoli hvorki langa kyrrstöðu né kyrrsetu.  Hún hafi aðeins lokið grunnskólaprófi og hafi engin fagréttindi.  Hún eigi í erfiðleikum með nám til stúdentsprófs, sem hafi farið úr böndum og dregist á langinn vegna áverka sem slysið hafi valdið.  Ekki verði séð fyrir hvernig til muni takast hjá henni að ljúka stúdentsprófi, enda hái henni lesblinda við nám.  Einbeiting hennar og minni sé skert eftir slysið og þurfi hún að rita hjá sér það, sem hún þurfi að gera, til að gleyma því ekki.  Slysið hafi þannig skert verulega aflahæfi hennar.

Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. skaðabótalaga skal, við mat á varanlegri örorku, líta til þeirra kosta, sem tjónþoli á til að afla sér tekna með vinnu, sem sanngjarnt er að ætlast til að hann ráði við.  Af því verður ráðið að mat á varanlegri skerðingu á vinnugetu stefnanda felur bæði í sér læknisfræðilega og fjárhagslega þætti.  Matsgerð yfirmats-manna fer verulega á skjön við fyrri matsgerðir varðandi varanlega örorku stefnanda sökum slyssins.  Ekki er sýnt að hún hafi ríkara sönnunargildi um stig á varanlegri örorku stefnanda en matsgerðir þriggja lækna og eins lagaprófessors telja hæfilegt.

Kröfu um bætur fyrir varanlega örorku reisir stefnandi tölulega á því að taka eigi mið af árslaunum skrifstofustúlku við 26 ára aldur samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabóta-laga.  Samkvæmt ákvæði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga skal meta árslaun sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði en ákvæði 1. mgr. 7. gr. kveður á um sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola.  Stefnandi var á slysdegi 17 ára nemandi við fjölbrautaskóla, sem naumast getur talist óvenjuleg staða.  Verður því að leggja ákvæði 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga til grundvallar eins og gert var, þegar stefndi greiddi stefnanda bætur hinn 11. september 2006.

Varðandi kröfu stefnanda um þjáningabætur liggur fyrir að stefnandi fékk þær að fullu greiddar hinn 11. september 2006.

Stefnandi kveðst byggja kröfu um bætur fyrir „tímabundna örorku/námstöf“ að fjárhæð 435.831 kr. á 2. gr. skaðabótalaga og niðurstöðu undirmats á dskj. nr. 26.  Ákvæði 2. gr. skaðabótalaga kveða á um bætur fyrir atvinnutjón fyrir tímann frá því að tjón varð þangað til tjónþoli getur hafið vinnu að nýju eða þar til heilsufar hans er orðið stöðugt.  Stefnandi slasaðist 5. janúar 2005 og samkvæmt matinu var heilsufar hennar orðið stöðugt 5. apríl 2005.  Hún var í skóla á þessu tímabili og ekki liggur fyrir í málinu neitt haldbært um að hún hafi misst af vinnu, sem hún annars hefði unnið á þessum tíma.  Hafna verður því þessari kröfu.

Stefnandi krefst bóta fyrir sjúkrakostnað/annað fjártjón fram að gerð yfirmats-gerðar að fjárhæð 1.744.540 kr. og vísar til stefnu á bls. 2 og yfirmatsgerðar á bls. 11 í því sambandi.  Í stefnu er hins vegar undir liðnum Annað fjártjón og sjúkrakostnaður krafist bóta að fjárhæð 1.447.470 kr. og tekið fram að krafan sé studd við 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga, 854.470 kr. samkvæmt mati fram að 16. október 2007.  Og þá segir:

 

Hér kemur einnig til matskostnaður, sbr. Viðar Már Matthíasson, Skaðabótaréttur bls. 615.  Matskostnaður vegna yfirmats er 872.500.  Kostnaður við undirmat er 493.900.  Auk þess kemur til vottorð sjúkraþjálfara kr. 8.500.  Og kostnaður læknanna Stefáns Dalberg kr. 35.600, Marinó P. Hafstein 25.000 og Ásgeir Karlsson kr. 30.000.  Eða alls 1.447.470

 

Samkvæmt framangreindu er nú krafist hærri bóta fyrir „sjúkrakostnað/annað fjártjón“ en stefnufjárhæð samkvæmt þessum hlut stefnukröfunnar nemur.  Þá er til þess að líta að stefndi hefur samkvæmt yfirliti yfir greiðslur stefnda til stefnanda, er liggur fyrir í málinu sem dskj. nr. 54, greitt stefnanda 46.462 kr. vegna kostnaðar stefnanda af sjúkraþjálfun og 19.522 kr. vegna lækniskostnaðar.  Einnig verður að horfa til þess að stefndi mótmælir því að greiða kostnað stefnanda vegna öflunar undirmatsgerðar og yfirmatsgerðar.  En af sjálfu leiðir að stefnda verður ekki gert að greiða kostnað af matsgerðum, sem ekki leiða til hækkunar á þeim varanlega miska og varanlegri örorku er Atli Þór Ólason læknir og Magnús Páll Albertsson læknir mátu að rétt og sanngjarnt væri.

Stefnandi krefst bóta fyrir framtíðarsjúkrakostnað/annað fjártjón að fjárhæð 1.876.744 kr. og vísar til yfirmatsgerðar á bls. 15 og núvirðisreiknings Vigfúsar Ásgeirssonar tryggingastærðfræðings frá 22. apríl 2008 í því sambandi.  Hafnað er að lagastoð sé fyrir því að dæma manni skaðabætur fyrir líkamstjón, sem ekki felst í tímabundnu atvinnutjóni skv. 2. gr. skaðabótalaga, þjáningum skv. 3. gr. skaðabótalaga, varanlegum miska skv. 4. gr. skaðabótalaga, varanlegri örorku skv. 5. gr. skaðabótalaga og að einhverju leyti í sannanlega áföllnum málskostnaði tjónþola.

 Samkvæmt framangreindu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda.

Eftir atvikum er rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Steingríms Þormóðssonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 500.000 krónur án virðisaukaskatts.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Ingibjargar St. Sæmundsdóttur.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Steingríms Þormóðssonar hrl., 500.000 krónur.