Hæstiréttur íslands

Mál nr. 188/2009


Lykilorð

  • Skaðabótamál
  • Vinnuveitendaábyrgð
  • Mengun
  • Sönnunarbyrði
  • Orsakatengsl
  • Matsgerð


Fimmtudaginn 25. febrúar 2010.

Nr. 188/2009.

Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir

(Kristján Stefánsson hrl.)

gegn

Áburðarverksmiðjunni hf.

(Hákon Árnason hrl.)

og gagnsök

Skaðabótamál. Vinnuveitendaábyrgð. Mengun. Sönnunarbyrði. Orsakatengsl. Matsgerð.

I höfðaði mál og krafði Á hf.  um skaðabætur vegna líkamstjóns sem hún taldi sig hafa orðið fyrir 30. september 1998 vegna loftmengunar. Atvik málsins voru þau að Á hf. ræsti sýruverksmiðju sína í Gufunesi, nálægt heimili I, en við ræsinguna var hleypt út um 510 kg af ammoníaki í tveimur lotum, í formi heitrar gufu. Talið var að I hefði leitt í ljós að starfsmenn Á hf. hefðu sýnt af sér saknæma vanrækslu er þeir létu undir höfuð leggjast að vara hana við losun ammoníaks og annarra loftegunda umræddan dag og gefa rangar upplýsingar í kjölfar þess að hún kvartaði fyrst um loftmengun. Þá var talið nægilega sannað meðal annars með matsgerð dómkvaddra manna, og sérfræðilegri álitsgerð sem hún var reist á, að þessi losun Á hf. hefði valdið I líkamstjóni. Á hf. hefði mátt sjá fyrir að þessar afleiðingar gætu orðið af hinni saknæmu háttsemi starfsamanna hennar og teldust þær því sennilegar. Fallist var á skaðabótaábyrgð Á hf. og I dæmdar bætur fyrir varanlegan miska og varanlega örorku.    

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Aðaláfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 24. febrúar 2009, en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 8. apríl sama ár. Með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála áfrýjaði hún héraðsdómi öðru sinni 22. apríl 2009. Aðaláfrýjandi krefst þess að gagnáfrýjandi verði dæmd til að greiða sér 4.367.756 krónur með 2% ársvöxtum frá 30. september 1998 til 6. apríl 2006, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Í gagnsök krefst hún þess aðallega að kröfu gagnáfrýjanda verði vísað frá Hæstarétti en til vara sýknu. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem hún nýtur á báðum dómstigum.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 6. júlí 2009. Hún krefst aðallega sýknu af kröfu aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa aðaláfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður á báðum dómstigum.

Aðaláfrýjandi hefur stefnt Vátryggingafélagi Íslands hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.

I

Aðalkrafa aðaláfrýjanda í gagnsök um frávísun gagnsakarinnar frá Hæstarétti er á því reist að gagnáfrýjandi hafi ekki aflað áfrýjunarleyfis samkvæmt 4. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 og lögmæt skilyrði skorti til áfrýjunar. Samkvæmt 3. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 ákveður Hæstiréttur hvort hagsmunir svari til áfrýjunarfjárhæðar ef mál varðar annars konar hagsmuni en fjárkröfu. Í máli þessu er í aðalsök deilt um hagsmuni, sem eru langt umfram þau mörk, sem tilgreind eru í 1. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991. Hagsmunir í gagnsök eru samtvinnaðir þeim sem deilt er um í aðalsök með þeim hætti að hafnað verður kröfu aðaláfrýjanda um frávísun gagnsakarinnar frá Hæstarétti.

II

Aðaláfrýjandi krefst í máli þessu skaðabóta fyrir líkamstjón sem hún telur sig hafa orðið fyrir vegna atvika er urðu 30. september 1998 við hús er hún bjó í að Gufunesvegi 1, Reykjavík. Húsið er í röð nokkurra húsa sem standa í brekkufæti austan við verksmiðju sem gagnáfrýjandi starfrækti. Aðaláfrýjandi hafði búið í húsinu í um sex mánuði er atvikin urðu. Þennan dag var hægur vindur af norðvestri og er ekki um það deilt að heimili aðaláfrýjanda var í beinni vindstefnu frá þeim stað þar sem gagnáfrýjandi losaði ammoníak og aðrar lofttegundir, sem nánar er lýst í héraðsdómi og aðaláfrýjandi telur hafa orsakað líkamstjón sitt.

Atvik voru þau, að starfsmenn gagnáfrýjanda voru að ræsa saltpéturssýruverksmiðju á starfssvæði gagnáfrýjanda, en það þurfti að gera um það bil tíu sinnum á ári. Við ræsinguna var nauðsynlegt að hleypa út að jafnaði um 170 kg af ammóníaki og er það gert í formi heitrar gufu í um 30 metra hæð frá jörðu en um 42 metra hæð frá sjávarmáli. Ekki tókst að ræsa sýruverksmiðjuna í fyrstu atrennu vegna bilunar. Var ammoníaki hleypt út klukkan 12.35 og ræst að nýju skömmu síðar. Var þá aftur hleypt út ammoníaki klukkan 13.29. Gagnáfrýjandi hefur upplýst að hann telji að samtals hafi verið hleypt út um 510 kg af ammoníaki í tveimur lotum. Í skýrslu verksmiðjustjóra gagnáfrýjanda á þeim tíma, sem hér um ræðir, en hann er bæði menntaður sem efnafræðingur og efnaverkfræðingur, kemur fram að á 18 ára starfstíma hans hjá gagnáfrýjanda og forvera hans við verksmiðjureksturinn hafi ekki komið oft fyrir að gera þyrfti tvær atrennur við að ræsa sýruverksmiðjuna.

Aðaláfrýjandi kveðst hafa komið akandi heim til sín og er hún kom út úr bifreiðinni fundið sterka ammoníakslykt. Hafi hún tekið börn sín og hraðað sér inn í húsið. Í framhaldi af því hafi hún hringt til gagnáfrýjanda og kvartað undan mikilli lykt. Í kjölfarið hafi komið að húsi hennar maður frá verksmiðjunni og sagt að þetta væri allt búið. Nokkru síðar hafi hún farið út skamma stund af gefnu tilefni og þá hafi lyktin verið komin aftur, mun sterkari en áður. Hún hafi farið strax inn aftur og haft samband við aðaláfrýjanda og rætt við verkstjóra, sem hafi reynt að fullvissa hana um að engin hætta væri á ferðum. Hafi hún tjáð honum að þetta væri ekki eingöngu ammoníakslykt heldur eitthvað meira. Að loknu samtalinu hafi hún farið út aftur og er hún dró andann hafi það verið ,, ... eins og ég hafi verið stungin í hálsinn.“ Hún hafi með naumindum komist inn til sín áður en hún kastaði upp. Þessu hafi fylgt tilfinning sem hún líkir við ,,jarðskjálfta í höfðinu“. Fleiri, sem bjuggu í nágrenni verksmiðjunnar, munu hafa kvartað yfir útlosunum gagnáfrýjanda umrætt sinn meðal annars mun nágranni aðaláfrýjanda hafa tilkynnt lögreglu um atvikið.

Aðaláfrýjandi leitaði seinna sama dag á slysadeild vegna einkenna sem hún taldi leiða af innöndun framangreindra lofttegunda og í læknisvottorði vegna þeirrar komu segir að hún hafi kvartað um ertingu og óþægindi í hálsi. Í vottorðinu segir meðal annars svo: ,,Ekki bar á mæði og súrefnismettun mæld með púls oxymeter sýndi 99%. Líkamsskoðun var án athugasemda, ekki sáust sjúklegar breytingar í koki og lungnahlustun eðlileg.“ Hún fékk að fara heim að lokinni skoðun. Hún rekur tímabundið og varanlegt líkamstjón til þessa atviks, en í málinu krefst hún skaðabóta fyrir hvort tveggja.

Í hinum áfrýjaða dómi er gerð nokkur grein fyrir efni sérfræðilegra vottorða og álitsgerða sem lögð hafa verið fram í málinu svo og efni þriggja matsgerða, þar af tveggja sem unnar voru af dómkvöddum mönnum.

III

Fallist er á með héraðsdómi að ekki verði beitt ólögfestum reglum um hlutlæga skaðabótaábyrgð við úrlausn ágreinings um skaðabótaskyldu í málinu.

Aðaláfrýjandi hefur einnig reist málatilbúnað sinn á því að gagnáfrýjandi hafi bakað sér ábyrgð á sakargrundvelli með því að vanrækja að vara fólk í næsta nágrenni við verksmiðjuna við fyrirhugaðri losun ammoníaks og annarra lofttegunda. Þetta hafi verið sérstaklega brýnt þar sem vindur stóð á íbúðarhús sem voru í um 380 metra  fjarlægð frá verksmiðjunni og nauðsynlegt var að endurræsa eftir að fyrri tilraun hafði mistekist. Þess í stað hafi aðaláfrýjandi, eftir fyrri losunina, verið fullvissuð um að allt væri búið og í síðara samtali að engin hætta væri á ferðum. Viðvörun af hálfu gagnáfrýjanda hefði gefið henni færi á að vera ekki úti við á þeim tímum, sem ætla mætti að loftmengun væri mest.

Á gagnáfrýjanda hafi hvílt samkvæmt 34. gr. mengunarvarnareglugerðar nr. 48/1994 skylda til þess að sjá svo um að reykur, ryk og hættulegar eða daunillar lofttegundir yllu ekki óþægindum í nálægð við verksmiðju hans. Með vanrækslu starfsmanna gagnáfrýjanda á því að vara nágranna verksmiðjunnar við og með því að starfsmaður hennar lýsti því yfir við aðaláfrýjanda, áður en síðari tilraunin til ræsingar var gerð, að engin hætta væri á ferðum, teljist starfsmenn gagnáfrýjanda hafa brotið þær skyldur sem á þeim hvíldu og í því hafi falist saknæm háttsemi sem gagnáfrýjandi beri ábyrgð á.

Gagnáfrýjandi andmælir því að ammoníak og aðrar lofttegundir, sem hleypt var út í andrúmsloftið við ræsingu og endurræsingu sýruverksmiðjunnar, hafi verið í svo miklu magni að það hafi verið hættulegt og getað valdið því líkamstjóni sem aðaláfrýjandi telur sig hafa orðið fyrir. Hefur gagnáfrýjandi lagt fram matsgerð dómkvaddra manna um ætlað magn ammoníaks og annarra lofttegunda sem gætu stafað frá verksmiðjunni við heimili aðaláfrýjanda á þeim tíma sem hér skiptir máli, um líklega skaðsemi þeirra og um hvort sennilegt sé að innöndun þeirra hefði getað valdið aðaláfrýjanda líkamstjóni. Niðurstöður matsgerðarinnar, sem að hluta eru reistar á álitsgerð sérfræðings um ætlaða dreifingu lofttegundanna með vindi þennan dag, eru tíundaðar í héraðsdómi. Meðal þess sem þar kemur fram er að magn þeirra lofttegunda, sem hér um ræðir, sé lítið og innan þeirra marka sem stjórnvöld heimila. Jafnframt segjast þessir matsmenn engin dæmi hafa fundið um að svo lágur styrkur þessara efna í tvær klukkustundir hafi valdið langvarandi lungnaskaða. Þeir telja afar ólíklegt að heilsutjón aðaláfrýjanda verði rakið til loftmengunar frá verksmiðju gagnáfrýjanda þennan dag.

Í álitsgerð þeirri, sem matsmennirnir styðjast við um dreifingu lofttegunda með vindi frá verksmiðju gagnáfrýjanda umrætt sinn, kemur fram veruleg óvissa um útreikninga. Í skýrslu þess sérfræðings fyrir dómi, er hana vann, kemur einnig fram að veruleg óvissa sé um forsendur fyrir útreikningum hans. Sé það bæði vegna ónákvæmra upplýsinga um vindstyrk á svæðinu og flökt vinds og þar með dreifingu lofttegundanna, auk þess miðist útreikningar við að lofttegundum hafi verið hleypt út í 42 metra hæð, en sú tala er miðuð við sjávarmál og að nákvæmara hefði verið að miða við hæð frá jörðu sem muni vera 30 metrar. Engar mælingar eru til um magn ammoníaks og annarra lofttegunda við hús aðaláfrýjanda á þeim tíma sem hér skiptir máli. Vegna margra óvissuþátta er sönnun um magn þessara efna í andrúmsloftinu á þessu tímamarki útilokuð. Í því felst að aðaláfrýjanda er ókleift að sanna að þessi efni í andrúmsloftinu við heimili hennar hafi verið í skaðlegu magni á þessum tíma.

Fallist er á að starfsmönnum gagnáfrýjanda hafi samkvæmt 34. gr. mengunarvarnareglugerðar nr. 48/1994 borið að sjá svo um að losun ammoníaks og annarra lofttegunda frá verksmiðjunni umrætt sinn yllu ekki óþægindum í nálægð við verksmiðju gagnáfrýjanda. Var þetta sérstaklega brýnt þar sem verksmiðjustjóri staðfesti í skýrslu sinni fyrir dómi að þess hefði venjulega verið gætt að vindur stæði á haf út er sýruverksmiðjan væri ræst, en að þessu sinni stóð vindur á heimili aðaláfrýjanda. Með vanrækslu sinni á því að vara nágranna verksmiðjunnar við og með því að starfsmaður hennar lýsti því yfir við aðaláfrýjanda, áður en síðari tilraunin til ræsingar var gerð, að ekki væri hætta á ferðum sýndu þeir af sér saknæma háttsemi sem gagnáfrýjandi ber ábyrgð á.

Óumdeilt er að tilkynning aðaláfrýjanda til gagnáfrýjanda um mikla ammoníakslykt er hún kom heim til sín 30. september 1998 og innöndun hennar nokkru síðar kemur heim og saman við losanir gagnáfrýjanda á ammoníaki og öðrum lofttegundum við ræsingu og endurræsingu sýruverksmiðju hans. Matsmenn, sem aðaláfrýjandi og vátryggingafélag gagnáfrýjanda fengu til að meta tímabundnar og varanlegar afleiðingar ætlaðrar loftmengunar, töldu í matsgerð 20. október 2003 að líkamstjón hennar vegna innöndunarinnar hefði aðeins verið tímabundið, en ekki haft varanlegar afleiðingar. Dómkvaddir menn töldu á hinn bóginn í matsgerð 15. febrúar 2006 að ætluð loftmengun hafi bæði haft tímabundnar og varanlegar afleiðingar fyrir aðaláfrýjanda.

Aðaláfrýjandi hefur samkvæmt framansögðu leitt í ljós að starfsmenn gagnáfrýjanda hafi sýnt af sér saknæma vanrækslu er þeir létu undir höfðu leggjast að vara hana við losun ammoníaks og annarra lofttegunda 30. september 1998 og gefa rangar upplýsingar í kjölfar þess að hún kvartaði fyrst um loftmengun. Þá hefur hún sannað að þessi losun gagnáfrýjanda hafi valdið henni líkamstjóni. Eins og atvikum er háttað telst aðaláfrýjandi hafa fullnægt sönnun um að hin saknæma háttsemi aðaláfrýjanda hafi verið orsök þess að hún varð fyrir líkamstjóni.

Verður samkvæmt framansögðu fallist á skaðabótaábyrgð gagnáfrýjanda á tjóni aðaláfrýjanda.

IV

 Aðila greinir einnig á um hvort afleiðingar hinnar saknæmu háttsemi séu einungis tímabundnar eða hvort háttsemin sé einnig orsök þeirra varanlegu afleiðinga sem aðaláfrýjandi krefst skaðabóta fyrir í málinu. Sannað er með framangreindum matsgerðum að aðaláfrýjandi varð fyrir tímabundnum áhrifum af loftmenguninni. Hún krefst þjáningabóta vegna hinna tímabundnu áhrifa. Skilyrði þjáningabóta samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er að tjónþoli hafi verið veikur. Veikindahugtak 3. gr. laganna hefur í réttarframkvæmd verið skýrt svo að það fari að jafnaði saman við hugtakið óvinnufærni í 2. gr. þeirra. Ekki liggur fyrir að aðaláfrýjandi hafi verið óvinnufær í kjölfar þess að hún varð fyrir líkamstjóninu og fram til batahvarfa, sem dómkvaddir matsmenn telja að hafi verið 1. mars 1999. Hún fullnægir því ekki skilyrðum tilvitnaðra laga um rétt til þjáningabóta og verður þeim þætti í kröfu hennar hafnað.

Aðaláfrýjandi reistir málatilbúnað sinn einnig á því að hún hafi orðið fyrir varanlegu líkamstjóni af völdum loftmengunarinnar þennan dag. Í matsgerð dómkvaddra manna 15. febrúar 2006 eru varanlegar afleiðingar líkamstjónsins fyrir hana metnar svo að varanlegur miski sé 20 stig og varanleg örorka 15%. Niðurstaða matsmanna um orsakatengsl milli hinna varanlegu afleiðinga og þess að hún andaði að sér ammoníaki og öðrum lofttegundum umrætt sinn, er reist á áliti sérfræðings í lyflækningum og lungnasjúkdómum, sem aflað var að beiðni matsmanna, en læknirinn hafði haft aðaláfrýjanda til rannsóknar og meðferðar á árunum 1999 og 2000. Í áliti hans segir meðal annars svo: ,,Niðurstaða mín er því sú að hún hafi tvo þekkta orsakaþætti að lungnakvillum sem koma fram sem varanleg lungnateppa á öndunarmælingum annars vegar mengunarslys með ammonium-sulphats og hins vegar reykingar.“ Í áðurnefndri matsgerð tveggja lækna 20. október 2003, en annar þeirra er sérfræðingur í lungnasjúkdómum, segir á hinn bóginn svo um orsakir lungnasjúkdóms aðaláfrýjanda: ,,Sjúkdómseinkenni IGM frá lungum koma heim við lungnaþembu. Ertingar einkenni eins og hósti eða slímuppgangur setja ekki svip sinn á sjúkdómsmyndina. Þess hefði þó verið að vænta ef ammoníak hefði valdið varanlegum lungnaskaða 30/9 1998. Þess vegna er mun líklegra að lungnaskaða IGM sé að rekja til reykinga en útsetningar frá ammoníaki. Það er þó ekki unnt að útiloka að útsetning fyrir ammoníaki 30/9 1998 hafi valdið tímabundinni versnun á þeim lungasjúkdómi sem fyrir var, enda lungnavarnir skertar fyrir.“

Aðaláfrýjandi sem var 39 ára er mengunarslysið varð hafði þá reykt vindlinga í um 22 ár. Fjöldi vindlinga sem hún reykti daglega var að hennar sögn 15 en í sumum gögnum málsins eru þeir taldir fleiri. Af framangreindum álitum sérfræðinga í lungasjúkdómum er ljóst að reykingar aðaláfrýjanda hafa leitt til þess að hún var viðkvæmari fyrir áhrifum þess að anda að sér ammoníaki og öðrum þeim lofttegundum sem hún gerði umrætt sinn. Það skerðir þó ekki rétt hennar til skaðabóta. Í málinu liggja fyrir vottorð læknis, sem verið hafði heimilislæknir hennar og fjölskyldu hennar frá 1984 og á þeim tíma fylgst með heilsufari hennar. Í vottorði þessa læknis 29. október 1999, sem hún staðfesti fyrir dómi að hafa ritað, segir meðal annars um sjúkrasögu aðaláfrýjanda: ,,Hún hefur almennt verið heilsuhraust, hefur þó oft fengið öndunarfærasýkingar eða aðrar umgangspestir en hefur almennt hrist þær af sér á eðlilegan hátt. ... Almennt hefur Ingibjörg verið hraust kona og full vinnandi.“ 

Í ljósi fyrra heilsufars aðaláfrýjanda og matsgerðar dómkvaddra manna, og sérfræðilegrar álitsgerðar sem hún er að hluta reist á, og staðfest var fyrir dómi af þeim er hana ritaði, er nægilega sannað að hinn varanlegi miski og varanlega örorka aðaláfrýjanda, sem áður greinir, verði rakin til þess að hún andaði að sér ammoníaki og öðrum lofttegundum sem gagnáfrýjandi ber ábyrgð á að fóru út í andrúmsloftið við ræsingu og endurræsingu sýruverksmiðjunnar 30. september 1998. Gagnáfrýjandi mátti samkvæmt framangreindu sjá fyrir að þessar afleiðingar gætu orðið af hinni saknæmu háttsemi starfsmanna hans og teljast þær því vera sennilegar. Verður lagt til grundvallar að þær varanlegu afleiðingar, sem gagnáfrýjandi ber ábyrgð á, séu þær sem dómkvaddir menn töldu í matsgerð sinni 15. febrúar 2006. Bætur fyrir 20 stiga varanlegan miska verða ákveðnar 1.200.731 króna og bætur fyrir 15% varanlega örorku verða ákveðnar 2.978.025 krónur eða samtals 4.178.756 krónur. Fallist er á með gagnáfrýjanda að vextir sem til féllu meira en fjórum árum fyrir birtingu stefnu til héraðsdóms 13. nóvember 2006, séu fyrndir. Verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða vexti eins og í dómsorði greinir frá 13. nóvember 2002 til greiðsludags.

Um gjafsóknarkostnað fer sem í dómsorði greinir. Eftir þessum úrslitum verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Gagnáfrýjandi, Áburðarverksmiðjan hf., greiði aðaláfrýjanda, Ingibjörgu Guðrúnu Magnúsdóttur, 4.178.756 krónur með 2% ársvöxtum frá 13. nóvember 2002 til 6. apríl 2006 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim tíma til greiðsludags.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.

Gagnáfrýjandi greiði í ríkissjóð 1.050.000 krónur vegna málskostnaðar í héraði og 935.145 krónur vegna málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Allur gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði þar með talin málflutningsþóknun lögmanns aðaláfrýjanda, 700.000 krónur.            

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. nóvember 2008.

Mál þetta var höfðað 13. nóvember 2006 og dómtekið 7. þ.m.

Stefnandi er Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, Gufunesvegi 1, Reykjavík.  Stefndi er Áburðarverksmiðjan hf., Korngarði 12, Reykjavík.  Réttargæslustefndi er Vátryggingafélag íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða henni miska- og skaðabætur að fjárhæð 4.367.756  með 2% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabóta­laga nr. 50/1993 frá 30. september 1998 til 6. apríl 2006 en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.  Einnig krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en henni var veitt gjafsóknarleyfi 7. júní 2000.

I

Íbúðabyggð næst Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi er við Gufunesveg austan verksmiðjusvæðisins.  Þar bjó stefnandi, er atvik málsins urðu, í húsi nr. 1, einstæð móðir með tvo unga syni sína. 

Miðvikudaginn 30. september 1998 var verið að ræsa sýruverksmiðju í áburðarverksmiðju) stefnda í Gufunesi.  Starfsleyfi fyrir sýruverksmiðjunni var veitt 1981.  Þurfti að ræsa sýruverksmiðjuna um tíu sinnum á hverju ári og við ræsingu var hleypt út heitri ammoníaksgufu í 42 metra hæð.  Var ammoníakinu hleypt út kl. 12.35.  Ræsiferill tókst ekki í fyrstu atrennu og þurfti því að endurræsa sýruverksmiðjuna og hleypa aftur út heitu ammoníaki.  Var það gert kl. 13.29.  Var samtals hleypt út um 510 kg. af ammoníaki.  Vindur var af norðvestri en hús stefnanda er það hús sem stendur næst verksmiðjunni og er að austanverðu við hana.

Samkvæmt bókun í dagbók lögreglunnar í Reykjavík 30. september 1998 tilkynnti stefnandi kl. 14.10 um sterka ammoníakslykt frá Áburðarverksmiðjunni Gufunesi.  Hún hafi einnig hringt í heilbrigðiseftirlitið og þaðan hafi Kristín Lóa Ólafsdóttir komið á vettvang.  Lögreglumenn hafi rætt við Teit Gunnarsson, verkstjóra í Áburðarverksmiðjunni, ásamt Kristínu Lóu.  Að sögn Teits hafi verið unnið við að ræsa sýruverksmiðjuna eins og gera þyrfti um það bil tíu sinnum á ári og þá þurfi að hita ammoníaksgufur í henni upp í 150 gráðu hita.  Einhverra hluta vegna hafi verksmiðjan drepið á sér og hafi þurft að sleppa 150 gráðu heitum ammoníaksgufum út í andrúmslofti til þess að hægt væri að ræsa verksmiðjuna á ný.  „Gufunum var sleppt út um 30 metra háan stromp til þess að þær bærust ekki yfir mannabyggðir.  Þar sem að miklir sviptivindar eru á svæðinu hefur eitthvað af ammoníaksgufunum sest niður í íbúabyggð.  Ekki var hætta talin stafa af gufunum.“

Föstudaginn 2. október 1998 mætti stefnandi á skrifstofu lögreglu til að til­kynna um mengun og veikindi vegna hennar.  Eftir henni var bókað:  „Hún kveðst hafa komið á heimili sitt um kl. 12.45 þ. 30.9. sl. og þá hafi verið mjög sterk ammoní­akslykt við húsið sem stendur nærri Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi.  Hún hafi hringt í verksmiðjuna og þar hafi hún rætt við verkstjóra.  Hann hafi sagt að þetta væri daglegur viðburður og skipti engu máli.  Í framhaldi af því hafi komið bifreið að heimili hennar frá verksmiðjunni.  Maður í bifreiðinni hafi rætt við hana og sagt að þetta væri búið.  Stuttu síðar hafi lyktin komið aftur og þá miklu sterkari.  Þá hafi mætta farið að finna til  óþæginda í öndunarvegi.  Hún hafi hringt aftur í verksmiðjuna og fengið sömu svör.  Síðan hafi hún fengið mikinn höfuðverk og kastað upp.  Hún hafi hringt í verksmiðjuna í þriðja skiptið og fengið enn sömu svör.  Þá hafi hún hringt í heilbrigðiseftirlitið og fólk þaðan komið á staðinn ásamt lögreglu en þá hafi lyktin verið að mestu horfin.  Lögreglumenn hafi ráðlagt henni að fara strax á slysadeild en hún ekki sinnt því.  Hún hafi síðan farið á slysadeild um kl. 19 þann sama dag vegna mikilla óþæginda í öndunarvegi og þar hafi hún verið skoðuð en fengið að fara heim tveimur tímum síðar.“

Hinn 6. janúar 1999 fór lögreglumaður og ræddi við Teit Gunnarsson, efnaverkfræðing og verksmiðjustjóra Áburðarverksmiðjunnar á þeim tíma sem um ræðir í málinu, vegna kæru um ammoníaksleka frá verksmiðjunni.  Hann kvað það, sem hefði verið óvenjulegt í umrætt sinn, hafa verið að þegar verksmiðjan hafi verið ræst kl. 12.35, sem hafi þurft að gera um tíu sinnum á ári, hafi ferillinn ekki farið í gang heldur hafi þurft að hleypa aftur út 140 gráðu heitu ammoníaki kl. 13.29 og samtals um 510 kg. í þessi tvö skipti.  Hann kvað ammoníak vera um helmingi eðlisléttara en loft og því ætti ammoníakið að streyma beint upp í loftið.  Hann kvað menn greina lykt af ammoníaki við 1 ppm en þeir, sem störfuðu þar sem ammoníak væri í vinnslu, yrðu ekki eins næmir á lyktina og greindu lykt við um 5 ppm.  Greina mætti sviða í augum við 25 ppm og bannað væri að vinna ef ammoníak væri meira en 50 ppm.  Ammoníak væri ekki talið hættulegt fyrr en það næði 250 -300 ppm.  Hann taldi líklegt að þarna hefði ammoníakið orðið mest 5-10 ppm  en óvönum manni þætti það mikið.  Teitur kvaðst vera búinn að rannsaka hvað hefði gerst í umrætt sinn.  Hann taldi líklegt að hluti af ammoníakinu, sem fór út í andrúmsloftið, hafi blandast reyk frá svartolíubrennara sem hafi verið í gangi í einu af húsum verksmiðjunnar með útblæstri í 19,13 metra hæð.  Ef ammoníak blandist lofti frá svartolíubrennara myndist ammoníumsúlfat sem væri þyngra en loft og líklegt væri að það hefði gerst í þetta sinn.

Teitur Gunnarsson bar vætti við aðalmeðferð málsins.  Þar kom m.a. fram að hann minnti að ástæða þess að setja þurfti ræsiferilinn tvívegis í gang hafi verið að kælivatnsdæla hafi slegið út.  Hann bar jafnframt að sú verklagsregla hefði gilt við gangsetningu ferilsins að vindur stæði ekki á byggð þannig að gas frá verksmiðjunni bærist ekki þangað.  Hann kvaðst hafa talið að ekki væri búið í húsunum við Gufunesveg.  Hann kvað sér hafa í umrætt sinn verið sagt frá símtali frá íbúa við Gufunesveg.  Hann hafi haft samband við vaktstjóra og beðið hann að senda starfsmann á staðinn til að kanna hvort eitthvað væri að hjá honum.   Hann kvað sig minna að sá, sem sendur var, hafi ekki fundið lykt en beðið konuna að loka dyrum og gluggum.  Hann kvaðst hafa mælt fjarlægð frá stútnum, sem ammoníaki var hleypt út um, að veginum að húsinu Gufunesvegi 1 og hafi hún reynst vera 380 metrar.

Samkvæmt læknisvottorði Ágústu Ólafsdóttur, deildarlæknis Lyflækningadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur, dagsettu 27. október 1998 en með leiðréttingu 9. október 2000, leitaði stefnandi á sjúkrahúsin 30. september 1998 og kvartaði um ertingu og óþægindi í hálsi sem hún hafi fundið frá því fyrr um daginn og tengdi ammoníaksleka sem muni hafa orðið frá verksmiðju í grennd við heimili hennar.  Í vottorðinu er skráð:  „Við skoðun var Ingibjörg ekki meðtekin, blóðþrýstingur 125/80, púls 92 slög/mín., reglulegur.  Ekki bar á mæði og súrefnismettun mæld með púls oxymeter sýndi 99%.  Líkamsskoðun var án athugasemda,  ekki sáust sjúklegar breytingar í koki og lungna­hlustun eðlileg.  Ingibjörg fékk að fara heim að lokinni skoðun.“

Með vísun til 1. mgr. 18. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 sendi lögreglustjórinn, með bréfi 22. mars 1999, Hollustuvernd ríkisins til umsagnar skjöl máls varðandi ætlað mengunarbrot vegna ammoníaksleka frá Áburðar­verksmiðjunni í Gufunesi 30. september 1998.  Í svarbréfi Hollustuverndar ríkisins, dags. 3. maí 1999, segir:  „Það er álit Hollustuverndar ríkisins að í því tilfelli, sem hér um ræðir, hafi Áburðarverksmiðjan ekki gerst brotleg við starfsleyfi verksmiðjunnar sem byggt er á lögum nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit (nú lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir) og mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994, ásamt síðari breytingu.  Starfsleyfi verksmiðjunnar takmarkar ekki það magn ammoníaks, sem losa má þegar ræsa þarf ammoníaksferilinn, en ljóst er að eitthvað ammoníak sleppur út í umhverfið í slíkum tilfellum.  Það, sem virðist hafa gerst í því tilfelli sem hér um ræðir, er að ammoníakið hafi blandast reyk frá svartolíubrennslu.  Við það myndast ammoníumsúlfat sem fellur niður í stað þess að stíga upp eins og ammoníak ætti að gera.  Veruleg ammoníakslykt er einnig af ammoníumsúlfati.  Líta verður á þetta tilfelli sem óhapp.  Draga þarf lærdóm af þessu og koma í veg fyrir að ammoníak og reykur frá svartolíubrennslu geti blandast saman í framtíðinni.“

Lögreglustjórinn í Reykjavík sendi Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi bréf, dags. 6. maí 1999, og afrit þess stefnanda máls þessa.  Þar segir að embættið hafi haft til rannsóknar mál varðandi kæru vegna ætlaðrar ammoníaksmengunar frá Áburðar­verksmiðjunni í Gufunesi.  Rannsókn málsins sé lokið og hafi rannsóknar­gögn verið yfirfarin og sé málið fellt niður, sbr. 112. gr. laga um meðferð opinberra mála.  Hjálögð fylgdi framangreind umsögn Hollustuverndar ríkisins og athygli var vakin á að unnt væri að bera ákvörðunina undir ríkissaksóknara innan mánaðar.

Lögmaður stefnanda leitaði eftir afstöðu réttargæslustefnda til bótaábyrgðar vegna hinnar ætluðu ammoníakslofteitrunar, sem stefnandi hefði orðið fyrir, með bréfi 10. desember 1999.  Réttargæslustefndi leitaði vegna þess svara hjá stefnda við nokkrum spurningum og voru svörin, send með bréfi 10. maí 2000, sem hér segir:  „1.  Hvort einhverjir aðrir hafi orðið varir við ammoníakslykt þennan tiltekna dag er okkur ekki kunnugt um.  Eins og þáverandi verksmiðjustjóri, Teitur Gunnarsson, gerði grein fyrir í lögregluskýrslu, dagsettri 6. janúar 1999, var magn ammoníaks það lítið að starfsmenn Áburðarverksmiðjunnar hafa ekki orðið þess varir sérstaklega þennan tiltekna dag.  Um aðra en starfsmenn vitum við ekki um.  2.  Samkvæmt upplýsingum þjóðskrár eru skráðir íbúar við Gufunesveg 9 talsins.  Okkur er ekki kunnugt um að aðrir hafi orðið fyrir óþægindum.  3.  Engin tilvik eru skráð hjá okkur þess efnis að einhver hafi veikst af völdum ammoníaks.  4.  Okkur er ekki kunnugt um nein erlend tilvik.“

Samkvæmt vottorði Veðurstofu Íslands um vind í Reykjavík hinn 30. september 1998 kl. 12 og 15 var vindátt af norðvestri.  Kl. 12 var vindhraði 2,6 m/s og mesta hviða 3,6 m/s og kl. 15 var vindhraði 3,6 m/s og mesta hviða 6.7 m/s.

II

Samkvæmt framlögðum vottorðum Margrétar Georgsdóttur, heilsugæslulæknis í Reykjavík, sem hún staðfesti fyrir dóminum, var hún heimilislæknir stefnanda og fjölskyldu hennar frá 1984.  Í þeim kemur fram að stefnandi hafi almennt verið heilsuhraust en hafi þó oft fengið öndunarfærasýkingar og aðrar umgangspestir.  Eftir þann atburð, sem um ræðir í málinu, hafi hver „uppákoman“ varðandi heilsufar stefn­anda, sem hún tengi þessu mengunarslysi, rekið aðra.  Hún hafi m.a. fengið óþekkta sýkingu á ytra eyra með bólgum, horast mikið og fengið asthmaeinkenni og liðbólgur sem hafi byrjað sem bólga í einum lið en breiðst út og hafi hún eftir það þurft að vera á mikilli liðagigtarlyfjameðferð.  Eftir að hún hafi orðið fyrir eitrun vegna „útslepps“ á gasi hafi hún verið illa haldin, úthaldslítil og verið sífellt veik veturinn eftir, með mörgum sýkingum í öndunarfærum og slæmri liðagigt.  Hún hafi verið óvinnufær og til meðferðar hjá Arnóri Víkingssyni gigtarlækni vegna gigtarinnar og Magna Jónssyni vegna lungnabilunarinnar.

Fyrir liggur læknisvottorð Arnórs Víkingssonar, sérfræðings í lyflækningum og gigtarsjúkdómum, dags. 10. maí 2001 og kemur þar fram að stefnandi hafi fyrst leitað til hans í maí 1999 eftir að einkenni, sem bentu eindregið til liðagigtar, hafi komið fram í mars s.á.  Læknirinn taldi að það yrði að teljast mjög ósennilegt að liða­gigtarvandamál stefnanda tengdust að einhverju leyti því atviki, sem hér um ræðir, þar sem ekki væri vitað að hægt væri að sýna fram á tengsl eitrunar af nokkru tagi við liðagigt af þeirri tegund sem stefnandi ætti við að stríða.  Fyrir utan kvartanir frá stoðkerfi hafi tjónþoli kvartað yfir verki frá höfði ásamt þrýstingi á höfði og hálsi og jafnframt að hún hafi átt erfitt með að hugsa skýrt.  Vegna þessara kvartana hafi henni verið vísað til Hauks Hjaltasonar taugasérfræðings.

Frammi liggur vottorð Hauks Hjaltasona, sérfræðings í heila- og tauga­sjúkdómum, dags. 13. ágúst 2001.  Samkvæmt því leitaði stefnandi tvívegis til hans, 22. janúar og 5. maí 2001.  Í niðurstöðu vottorðsins segir:  „Ingibjörg gerir ekki mikið úr höfuðverk eða ónotum í höfði.  Ekki er ólíklegt að þau geti tengst þeirri gigt sem hún hefur haft, ónotin eru við hægri kjálkaliðamót.  Ónotin eru breytileg og meiri þegar liðeinkenni hennar eru verri.  Aukin heldur var taugaskoðun mín og viðbótar­rannsóknir eðlilegt (svo).  Mér finnst erfiðara að meta þá persónuleikabreytingu sem Ingibjörg lýsir að hafi átt sér stað eftir slysið.  Hún lýsir vissulega ákveðnum breyt­ingum sem standa í tengslum við umrætt atvik þ. 30. sept. ´98 og síðan að þessi einkenni hafi gengið til baka.  Ég fann engin merki um þau er ég hitti Ingibjörgu og kann enga augljóslega taugalega skýringu á þeim.  Miðað við hvað þau höfðu mikil áhrif á líf hennar en hurfu síðan finnst mér koma til greina að um tímabundið þung­lyndi hafi verið að ræða.“

Þá liggja frammi í málinu tvær álitsgerðir Magna Jónssonar læknis, sér­fræðings í lyflækningum og lungnasjúkdómum; önnur, dags. 1. desember 2000, um hugsanleg tengsl heilsufars stefnanda við ammoníakmengun 30. september 1998 og hin, dags. 14. desember 2005, unnin samkvæmt beiðni lögmanns stefnanda um ítarlegt vottorð og mat á lungnaástandi stefnanda og þá sérstaklega á því að hvaða marki ástand hennar tengist umræddu mengunarslysi og hvort tengsl séu milli lungnaástands hennar og reykinga.

Í fyrri álitsgerðinni segir í samantekt:  „Ingibjörg hefur verulegan, varanlegan teppusjúkdóm í lungum og skert vinnuþrek til líkamlegrar vinnu.  Ekki er hægt að útiloka að hún hafi haft vægan asthma eða vægan teppusjúkdóm af völdum reykinga fyrir slysið.  Ekki verður hjá því komist að álykta að ammoníaksmengum við slysið 30. september 1998 sé annað tveggja orsök núverandi veikinda Ingibjargar Guðrúnar eða að öðrum kosti hafi valdið verulegri versnun og varanlegu heilsutjóni hjá einstaklingi sem var með veikleika í berkjum fyrir en vægan sjúkdóm án skerðingar á áreynsluþoli fyrir slysið.“

Í síðari álitsgerð Magna Jónssonar segir m.a.:  „...Ingibjörg Guðrún er fædd í ágúst ´59 og var því nýlega orðin 39 ára þegar hún lendir í mengunarslysi sem um er rætt.  Fram að því hafði hún almennt verið heilsuhraust, er nokkuð kvefsækin og þurft af og til lyfjameðferð vegna berkjubólgu.  Hún var ekki í reglulegri líkamsþjálfun en gekk talsvert og hafði ekki orðið vör við neina takmörkun á áreynsluþoli og aðspurð um mestu áreynslu skömmu fyrir þennan atburð kvaðst hún hafa tvívegis gengið upp með fossinum Glym í Hvalfirði með barn á baki sumarið 1998.  Hún tók þá engin lyf að staðaldri.  Engin saga um ofnæmi og engin ættarsaga um asthma.  Það eru kettir á heimili.  Hún hefur lengst af unnið sem ófaglærður starfsmaður í fiskvinnslu og mötu­neytum og hafði nýlega tekið að sér mötuneyti hjá Lögreglunni í Reykjavík í verktöku...Langvinn lungnateppa af völdum reykinga kemur vissulega til álita.  Hún hafði um það bil 20 pakkaár að baki þegar hún lendir í slysinu.  Hún hefur haldið áfram að reykja eftir slysið og hefur orðið frekari skerðing á lungnastarfsemi eftir það.  Ef tekin er meðaltal skerðing (svo) á ári frá 1999-2005 er fallið úr 1.74 lítrum niður í 1.13 lítra eða um 600 ml alls og um það bil 100 ml á ári.  Ef gert er ráð fyrir svipaðri skerðingu af völdum reykinga milli ´98 og ´99 ætti hún að hafa haft um 1.84 lítra eða 67% viðmiðunargildi fyrir slysið...Fyrsta mat á lungnastarfsemi ári eftir mengunar­slysið sýndi varanlegan teppusjúkdóm í lungum á talsvert háu stigi og skert vinnuþrek til líkamlegrar vinnu.  Ekki er hægt að útiloka að hún hafi haft vægan asthma eða vægan teppusjúkdóm af völdum reykinga fyrir slysið en hafi svo verið er hún þá einkennalaus án nokkurra lyfja og með fullkomlega eðlilegt áreynsluþol.“  Í niðurstöðu segir:  “...Ég man ekki til þess á mínum 25 ára ferli sem lungna­sérfræðingur af hafa séð sjúkling með langvinna lungnateppu af völdum reykinga fara frá því að hafa eðlilegt áreynsluþol og niður í það að hafa 64% af forspárgildi í FEV 1 með verulegum áreynslueinkennum á nokkrum mánuðum...Niðurstaða mín er því sú að hún hafi tvo þekkta orsakaþætti að lungnakvillum sem koma fram sem varanleg lungnateppa á öndunarmælingum annars vegar mengunarslys með ammoníum-sulphats og hins vegar reykingar...Sé litið til einkenna er ljóst að hún fær veruleg og viðvarandi einkenni strax eftir slysið sem hefur útheimt stöðuga lyfjagjöf og skert lífsgæði hennar verulega.  Batahorfur eru því miður engar.“

Magni Jónsson staðfesti framangreindar álitsgerðir fyrir dóminum.  Hann bar að stefnandi hefði ekki gengist undir áreynslupróf fyrir það atvik sem um ræðir í málinu og að sú ályktun hans að hún hafi á þeim tíma verið með eðlilegt, lítið skert, áreynsluþol byggist eingöngu á frásögn hennar um framangreindar göngur upp með fossinum Glym í Hvalfirði. 

Samkvæmt örorkumötum lífeyristrygginga hjá Tryggingastofnun ríkisin var örorka stefnanda metin 75% frá 1. janúar 2000 til 28. febrúar 2001, síðan frá 1. mars 2001 til 29. febrúar 2004 og loks varanlega frá 1. mars 2004.

III

Að beiðni stefnanda og réttargæslustefnda mátu læknarnir Júlíus Valsson, sérfræðingur í gigtarlækningum og embættislækningum, og Þorsteinn Blöndal, sér­fræðingur í lungnalækningum, afleiðingar ætlaðs loftmengunarslyss sem stefnandi hafi orðið fyrir 30. september 1998.  Matsgerð þeirra er dagsett 20. október 2003. 

Í kafla um fyrra heilsufar tjónþola segir m.a. að hún hafi reykt allt frá sautján ára aldri um tvo pakka á dag.  Matsmenn áttu viðtal við stefnanda og framkvæmdu læknisfræðilega skoðun og lungnamælingu.  Í niðurstöðukafla segir:  „...Sjúkdóms­einkenni IGM frá lungum koma heim við lungnaþembu.  Ertingareinkenni eins og hósti eða slímuppgangur setja ekki svip sinn á sjúkdómsmyndina.  Þess hefði þó verið að vænta ef ammoníak hefði valdið varanlegum lungnaskaða 30/9 1998.  Þess vegna er mun líklegra að lungnaskaða IGM sé að rekja til reykinga en útsetningar fyrir ammoníaki.  Það er þó ekki unnt að útiloka að útsetning fyrir ammoníaki 30/9 1998 hafi valdið tímabundinni versnun á þeim lungnasjúkdómi sem fyrir var, enda lungna­varnir skertar fyrir.  Matsmenn telja líklegt að tjónþoli hafi komist í verulegt andlegt uppnám við að finna sterka ammoníakslykt sem hún óttaðist að ylli sér og börnum sínum skaða.  Samfara tímabundinni versnun á hennar undirliggjandi lungnasjúkdómi hafi hún orðið mjög kvíðin og spennt og hafi kvíðaástandið varað í nokkurn tíma á eftir atburðinn.  Önnur einkenni hennar næstu vikurnar og mánuðina eftir atburðinn, svo sem sýkingu í ytra eyra, flensueinkenni um vorið 1999 og gigtareinkenni, sé hins vegar ekki hægt að rekja til atburðarins.“

Niðurstöður matsins eru þær að vegna tjónsatburðar 30. september 1998 teljist tímabundið atvinnutjón vera 100% í þrjá daga og teljist tjónþoli hafa verið veikur án þess að hafa verið rúmliggjandi í einn mánuð; ekki hafi verið að vænta frekari bata þegar einn mánuður hafi verið liðinn frá tjónsatburðinum 30. september 1998.  Tjónþoli var ekki talinn hafa orðið fyrir varanlegum miska né heldur varanlegri örorku af völdum tjónsatburðarins.

Matsmennirnir Júlíus Valsson og Þorsteinn Blöndal staðfestu matið fyrir dóm­inum.

Að beiðni stefnanda voru Jónas Hallgrímsson læknir, sérfræðingur í meina­fræði, og Stefán Már Stefánsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, dómkvaddir 10. júní 2005 til að meta afleiðingar lofteitrunar sem stefnandi væri talin hafa orðið fyrir 30. september 1998.  Matsgerð þeirra er dagsett 15. febrúar 2006.

Í matsgerðinni kemur fram að matsmenn hafi tekið munnlega skýrslu af stefnanda en ekki hafi þótt ástæða til að læknisfræðileg skoðun færi fram.  Fram kemur einnig að matsmennirnir hafi talið nauðsynlegt að afla ítarlegri gagna um málið og því hafi stefnanda verið vísað á ný til Magna Jónssonar og liggi fyrir ítarlegt vottorð hans um málið, dagsett 14. 12. 2005.  Í niðurstöðukafla segir m.a.:  „Magni Jónsson, sérfræðingur í lyflækningum og lungnasjúkdómum, hefur skoðað Ingibjörgu oft og færir ítarleg og gild rök fyrir máli sínu, sbr. einkum bréf hans frá 14. desember 2005...Matsmenn fallast á álit og röksemdafærslu Magna í öllum aðalatriðum og telja því eðlilegt að leggja það til grundvallar mati þessu.  Má af því ráða að lungna­einkenni Ingibjargar verði að hluta rakin til afleiðinga reykinga og að hluta til afleiðinga mengunar slyssins.  Magni segir að frá árinu 2000-2005 hafi fall á lungnastarfsemi Ingibjargar svarað til 100-150 ml á ári en vegna reykinga mætti ætla að það hefði aðeins orðið um 50 ml á ári.  Samkvæmt mælingum Magna virðist lungnastarfsemi því hafa skerst að minnsta kosti tvöfalt meira en ætla hefði mátt miðað við afleiðingar reykinga einna saman og telja matsmenn því að nálægt helmingur af einkennum hennar sé rekjanlegur til mengunarslyssins.“  Matsmenn töldu einnig að ekkert í læknisfræðilegum heimildum veitti vísbendingar um að samband væri á milli eitrunar af völdum lofttegunda og liðagigtar stefnanda.

Niðurstöður matsins:

„Varanlegur miski Ingibjargar vegna mengunarslyssins 30. september 1998 telst hæfilega metinn 20 stig (20%).

Varanleg örorka Ingibjargar vegna mengunarslyssins 30. september 1998 telst hæfilega metin 15 stig (15%).

Stöðugleikapunktur vegna mengunarslyssin 30. september 1998 er ákveðinn 1. mars 1999.

Tímabundið atvinnutjón Ingibjargar er ákveðið 50% í tvo mánuði frá 30. september 1998.

Þjáningabætur til Ingibjargar skulu vera í sex mánuði frá 30. september 1998 án rúmlegu.“

Matsmennirnir Jónas Hallgrímsson og Stefán Már Stefánsson staðfestu matið fyrir dóminum.

Hinn 6. mars 2006 krafði stefnandi (lögmaður hennar) réttargæslustefnda um bætur á grundvelli mats hinna dómkvöddu matsmanna.  Um tekjuviðmið segir:  „Fyrir slysið vann umbjóðandi minn sem umsjónarmaður mötuneytis lögreglunnar í Reykjavík og er miðað við upplýsingar frá Eflingu væri eðlilegt að miða við laun í 12. launaflokki Matráðs fyrir 100% laun 1.872.972.“  Með svarbréfi 26. apríl 2006 var bótaskyldu úr frjálsri ábyrgðartryggingu stefnda hafnað með þeim rökum að hlutlæg skaðabótaábyrgð gildi ekki um starfsemi Áburðarverksmiðjunnar og því þurfi að sannast sök til að skaðabótaábyrgð stofnist en sú sönnun hafi ekki tekist að mati VÍS; þá séu orsakatengsl á milli þess atburðar, sem hugsanlega hafi átt sér stað 30. september 1998, og þeirra líkamlegu einkenna, sem hrjái stefnanda, mjög óljós.

IV

Stefnandi reisir kröfur sínar aðallega á því að stefndi beri ábyrgð án sakar á tímabundnu og varanlegu tjóni stefnanda þar sem það megi rekja beint til mengunarslyssins 30. september 1999.  Í starfsemi stefnda hafi falist meðhöndlun og losun á stórhættulegum efnum sem auðveldlega geti valdið tjóni á mönnum og munum í nágrenni verksmiðjunnar.  Gerðar séu sérstakar kröfur til sérfræðinga, líkt og stefnda, sem annist meðhöndlun hættulegra efna til að koma í veg fyrir slys af völdum efnanna.  Leiði losun hættulegra efna til tjóns verði stefndi að bera ábyrgð á því.

Til vara byggir stefnandi á því að stefndi beri ábyrgð á tjóni hennar á grundvelli meginreglna skaðabótaréttarins um sök.  Starfsmönnum stefnda hafi verið eða mátt vera ljós sú staðreynd að ammoníakssúlfat myndist þegar ammoníak og reykur frá svartolíubrennara blandist saman og að slíkt gæti auðveldlega gerst við verksmiðju stefnda svo og sú hætta sem gæti skapast vegna þessa.  Ríkar kröfur verði að gera til sérfróðra aðila, sem starfi með hættuleg efni og losun þeirra, sbr. m.a. 34. gr. mengunarvarnarreglugerðar nr. 48/1994, en starfsmenn stefnda hafi engar ráðstarfanir gert til að koma í vega fyrir þá atburðarrás sem valdið hafi stefnanda heilsutjóni.  Stefndi verði því að bera bótaábyrgð á saknæmri háttsemi starfsmanna sinna, sbr. meginreglu skaðabótaréttarins um húsbóndaábyrgð.

Á því er byggt af hálfu stefnanda að bein orsakatengsl sé á milli mengunarslyssins 30. september 1998 og heilsutjóns stefnanda.  Um þetta er vísað til matsgerðar hinna dómkvöddu matsmanna Jónasar Hallgrímssonar og Stefáns Más Stefánssonar en mat sitt hafi þeir stutt við rannsóknir og niðurstöður Magna Jóns­sonar, sbr. einkum vottorð hans frá 14. desember 2005.  Með hliðsjón af læknisfræði­legum gögnum málsins, en aðallega framangreindri matsgerð auk vottorðs Magna Jónssonar, megi ljóst vera að stefnandi hafi hlotið umtalsvert tímabundið og varanlegt heilsutjón sem rakið verði beint til mengunarslyssins 30. september 1998.

Kröfur stefnanda taka mið af lánskjaravísitölu í marsmánuði 2006, 4926 stigum sbr. 15. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Þar sem bóta var krafist 6. mars 2006 er krafist dráttarvaxta frá og með 6. apríl 2006, sbr. ákvæði laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.  Stefnandi krefst 2% ársvaxta af kröfum sínum frá slysdegi til þess dags sem dráttarvextir reiknast, sbr. 16. gr. skaðabótalaga.  Krafa stefnanda sundur­liðast þannig:  1.  Þjáningabætur – 180 dagar x 1.050 kr. – 189.000 krónur.  2.  Varan­legur miski – 20% x 6.003.656 kr. – 1.200.731 króna.  3.  Varanleg örorka – 10 x 1.985.972 x 15% - 2.978.025 krónur.

Kröfu sína um skaðabætur reisir stefnandi á almennum reglum skaðabótaréttar auk meginreglu íslensks réttar um ábyrgð vinnuveitanda á skaðaverkum starfsmanna, þ.e. reglunnar um húsbóndaábyrgð.  Kröfu sína um þjáningabætur reisir stefnandi á 3. gr., um bætur fyrir varanlegan miska á 4. gr. og um bætur fyrir varanlega örorku á 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eins og þau voru á slysdegi.

                                                                                     - - - - -

Sýknukrafa stefnda er byggð á því að hann beri ekki að lögum skaða­bótaábyrgð á tjóni stefnanda en sönnunarbyrði um ábyrgðargrundvöll og orsaka­tengsl hvíli óskipt á stefnanda.  Í fyrsta lagi sé ósannað að stefndi eða starfsmenn hans eigi sök á tjóninu.  Þá skorti lagastoð fyrir hlutlægri skaðabótaábyrgð stefnda.  Í öðru lagi sé ósannað að orsakatengsl séu milli varanlegs miska- og örorkutjóns stefnanda og losunar stefnda á ammoníaki út í andrúmsloftið 30. september 1998.  Beri að sýkna stefnda af því tjóni hvað sem örðu líði og sé ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir öðru og meiru en mánaðar óþægindum af völdum losunarinnar.

Varakrafa stefnda er byggð á því að verði fallist á bótaskyldu stefnda beri að leggja matsgerð Júlíusar Valssonar og Þorsteins Blöndal til grundvallar um afleiðingar slyssins.  Af kröfum stefnanda komi þá aðeins til álita bætur fyrir þjáningar í einn mánuð.  Þá bendir stefndi á að sú árslaunaviðmiðun, sem stefnandi noti við útreikning örorkutjóns, fái ekki staðist en eðlilegast væri að miða við raunverulegar vinnutekjur hennar næstu mánuði fyrir 30. september 1998, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.  Vaxtakröfum er mótmælt en eldri vextir en fjögurra ára frá birtingu stefnu séu fyrndir og dráttarvöxtum er andmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.              

V

Undir  rekstri málsins var af hálfu stefnda lögð fram matsbeiðni.  Þar var vísað til þess að meðal álitaefna málsins sé hvort orsakatengsl séu milli ammoníakslosana Áburðarverksmiðjunnar 30. september 1998 og lungnateppu stefnanda eða hvort lungnateppa hennar sé tilkomin af völdum tóbaksreykinga hennar en í málinu lægju fyrir tvær matsgerðir þar sem komist væri að mismunandi niðurstöðum um það efni.  Þar er í sjö liðum óskað eftir rökstuddu mati.  Af hálfu stefnanda var einnig, í fimm liðum, óskað eftir afstöðu matsmanna og varð samkomulag um að dómkvaðningin tæki jafnframt til þeirra atriða.  Sem matsmenn voru dómkvaddir 1. mars 2007 Ingvar Helgi Árnason, prófessor í efnafræði við raunvísindadeild HÍ, og Jakob Líndal Kristinsson, dósent í eiturefnafræði  við læknadeild HÍ.  Matsgerð þeirra, sem þeir hafa staðfest fyrir dóminum, er dagsett 8. nóvember 2007.  Fylgiskjal með matinu er „Skýrsla um loftmengun frá Áburðarverksmiðjunni á Gufunesi þann 30. september 1998“ eftir Jónas Elíasson, prófessor í straumfræði og skyldum greinum, umhverfis- og byggingaverkfræðiskor Háskóla Íslands, sem hann qstaðfesti fyrir dóminum.

Hér á eftir eru birtir niðurstöðukaflar matsgerðarinnar þar sem tilgreindar eru, auk svara matsmanna, þær spurningar sem fyrir þá voru lagðar.

„V           Svör við spurningum á dómskjölum 43 og 44

Dómskjal 43

01.                Hver séu almennt talin vera hættumörk styrkleika ammoníaks og ammoníumsúlfats í andrúmslofti utan dyra gagnvart mönnum?

Styrkur ammoníaks undir 20 ppm er talinn hættulaus, hættumörk eru talin hefjast við 50 ppm og bráð hætta við 300 ppm, samanber III.1.3.

Mælt er með að langtímastyrkur ammoníumsúlfatryks í lofti fari ekki yfir 10 mg/m3 að meðaltali.

02.                Hvaða efnasamband verði til, þegar ammoníaksgufa og svartolíureykur blandast saman í andrúmslofti utan dyra, eins og líklegt er að hafi gerst í umræddu tilviki?

Svartolíureykur inniheldur að mestu koldíoxíð og vatnsgufu, en einnig að hluta brennisteinsdíoxíð. Brennisteinsdíoxíð myndar með blöndun við ammoníaksgufu fyrst ammoníumsúlfít, sem með tímanum oxast í ammoníumsúlfat.

Að auki getur ammoníaksgufa hvarfast við koldíoxíð og vatnsgufu og myndað ammoníumvetniskarbónat og ammoníumkarbónat.

03.                 Hvort og þá að hvaða leyti það efnasamband hafi getað verið hættulegt mönnum í nágrenni Áburðarverksmiðjunnar undir þeim kringumstæðum, sem að framan er lýst?

Hámark þess magns af ammoníumsúlfíti og ammoníumsúlfati, sem hefur getað myndast, er það lítið og efnin ekki það hættuleg að mönnum hafi stafað hætta af  í nágrenni verksmiðjunnar. Benda má á niðurstöður dýratilrauna í því sambandi þar sem unnið var með mun hærri styrk ammoníaks, ammoníumsúlfíts og ammoníum-súlfats. Frá heilbrigðis- og umhverfissjónarmiðum séð væri það reyndar til bóta að sem mest af brennisteinsdíoxíði hvarfaðist við ammoníaksgufuna. Ammoníumsúlfít og ammoníumsúlfat eru mun hættuminni efni en brennisteinssýrlingur og brenni­steinssýra, sem ella mundu myndast úr brennisteinsdíoxíðinu.

Ammoníumvetniskarbónat og ammoníumkarbónat sem líklega hafa myndast í einhverjum mæli eru hættuminni efni en ammoníak. Myndun þeirra hefur þá dregið úr magni óbundins ammoníaks. Á móti kann að koma að þau berist frekar lárétt með vindi og stigi síður upp á við en ammoníaksgufa ein sér. Í heild er það álit matsmanna að myndun þessara efna hafi, þegar á allt er litið, ekki aukið hættu á loftmengun í nágrenni verksmiðjunnar umfram það sem ammoníaksgufan ein sér hefði orsakað.

04.                Hvaða styrk í andrúmslofti utan dyra efnin ammoníak og ammoníumsúlfat þurfi að ná og hve lengi þurfi sá styrkur að vara til þess að valdið geti mönnum varanlegum lungnaskaða eða heilsutjóni eins og lungnateppu?

Af ýmsum ástæðum er erfitt að gefa einhlýtt svar við þessari spurningu, einkum hvað snertir bráða ammoníakseitrun.  Í kafla III.1.1 eru rakin ýmis dæmi sem heimildir finnast um. Almennt er hér um slys og afleiðingar þeirra að ræða. Þegar slys verður skyndilega eru yfirleitt engin mælitæki til staðar sem gefa upplýsingar um styrk ammoníaks. Fyrstu viðbrögð eru enda að lofta út og koma þeim sem hafa orðið fyrir ammoníakseitrun út undir bert loft og síðan á sjúkrahús ef um alvarleg tilfelli er að ræða. Ekki eru gerðar tilraunir á þoli manna gagnvart styrk ammoníaks, en dýra­tilraunir gefa vissa vísbendingu. Reglur yfirvalda um loftgæði á vinnustað miðast við að hafa frekar vaðið fyrir neðan sig. Þannig er leyfilegt meðalgildi Vinnueftirlits ríkisins 20 ppm og 5 mínútna þakgildi 50 ppm. Samkvæmt dýratilraunum má ætla að langtímastyrkur undir 50 ppm sé ólíklegur til að orsaka heilsubrest. NIOSH setur mörk um bráða hættu við 300 ppm. Að öllu virtu telja matsmenn að skamm­tímastyrkur verði að fara vel yfir 50 ppm og langtímameðaltal yfir 20 ppm áður en hægt er að gera ráð fyrir varanlegum lungnaskaða.

Varðandi ammoníumsúlfat virðast ekki vera opinber mengunarmörk í gildi, en mælt er með 10 mg/m3 þakgildi að meðaltali. Því má ætla að styrkur þess (í fremur skamman tíma, eða 1 til 2 klst.) þyrfti að vera vel umfram það gildi til að varanlegur lungnaskaði hlytist af.

05.                Hver hafi verið líklegur styrkur ammoníaks og/eða ammoníumsúlfats í lofti niður við hús matsþola að Gufunesvegi 1, Reykjavík, á tímanum frá kl. 12:35 til kl. 14:30 þann 30. september 1998?

Samkvæmt reikningum (fylgiskjal 1) er líklegt að styrkur ammoníaks hafi verið flöktandi á bilinu 1 til 30 ppm. Ólíklegt er að styrkur yfir 20 ppm hafi varað nema í mjög stuttan tíma í senn. Lýsingar sjónarvotta og ástand matsþola við læknisskoðun, sem framkvæmd var samdægurs, eru í samræmi við þessa niðurstöðu (sbr. dómskjöl 3, 5, 6, 7, 15 og 16).

Hvað ammoníumsúlfat snertir verður að telja mjög ólíklegt að styrkur þess (ásamt með ammoníumsúlfíti) hafi nokkru sinni farið yfir 2 til 3 mg/m3.

06.                Hversu líklegt sé að sá styrkur geti hafa valdið manni varanlegum lungnaskaða eins og lungnateppu (lungnaþembu)?

Miðað við þær athuganir, sem gerðar hafa verið á afleiðingum bráðrar ammoníakseitrunar (sjá kafla III.1.1), verður að teljast afar ólíklegt að þessi styrkur hafi getað valdið manni varanlegum lungnaskaða eins og lungnateppu (lungnaþembu).

07.                Annað sem matsmenn telja að skipti máli við matsefnið?

Þar, sem einkennum bráðrar ammóníakseitrunar hefur verið lýst, eru einkenni frá augum venjulega áberandi. Vægustu einkennin eru erting eða sviði ásamt roða í augnslímhúð. Matsþoli nefnir þessi einkenni ekki í einkennalýsingu sinni, sbr. dómskjöl 1, 5, 19, 20, 21, 25, 31, 37. Þeirra er heldur ekki getið í læknisvottorði (dómskjal nr. 6) útgefnu af Ágústu Ólafsdóttur, deildarlækni á Sjúkrahúsi Reykjavíkur en hún skoðaði matsþola daginn sem títtnefndur atburður átti sér stað.

Dómskjal 44

1.                   Telja matsmenn að einhver önnur efni en ammoníak/ammoíakssúlfat hafi borist frá húsnæðum Áburðarverksmiðjunnar í tengslum við störf verksmiðjunnar þann 30. september 1998? Ef svo er, hvaða efni telja matsmenn að það hafi verið?

a)                  Líklegt má telja að eitthvað hafi myndast af efnunum ammoníumsúlfíti, ammoníumvetniskarbónati og ammoníumkarbónati meðan á sleppingu ammoníaks stóð.

b)                  Eftir að sýruverksmiðjan hafði verið ræst hefur borist frá henni köfnunarefnisdíoxíð eins og rakið er í kafla IV.4.

2.                   Ef matsmenn telja að önnur efni hafi verið til staðar í umrætt sinn við hús matsþola geta þau efni verið skaðleg mönnum ef þeir komast í snertingu við þau t.d. við innöndun?

a)                  Á hreinu formi eru ammoníumsúlfít, ammoníumvetniskarbónat og ammoníumkarbónat hvít sölt sem lykta af ammoníaki. Undir venjulegum kringumstæðum eru þetta ekki hættuleg efni. Barn sem í óvitaskap færi að sniffa slík efni gæti þó t.d. skaðað sig.

b)                  Köfnunarefnisdíoxíð er hættulegt við innöndun.

3.                   Geta þessi efni almennt séð valdið varanlegum lungnaskaða í mönnum?

a)                  Ammoníumsúlfít, ammoníumvetniskarbónat og ammoníum-karbónat: Því hefur ekki verið lýst í læknisfræðitímaritum, sbr. III.3.1 og III.4. Til þess að svo væri þyrfti að öllum líkindum að koma til: (i) Mjög hár styrkur efnis í talsverðan tíma. (ii) Verulega gáleysisleg umgengni eða (iii) Óvitaháttur.

b)                  Köfnunarefnisdíoxíð: Hár styrkur af köfnunarefnisdíoxíði getur valdið varanlegum lungnaskaða (sjá III.4).

4.                   Hvað telja matsmenn að hafi verið líklegur styrkur þessara efna í lofti niður við hús matsþola á tímanum frá kl. 12:35 til kl. 14:30?

a)                  Ammoníumsúlfít og ammoníumsúlfat saman: Að hámarki 2 til 3 mg/m3; Ammoníumvetniskarbónat og ammoníumkarbónat saman: Innan við 5 mg/m3.

b)                  Köfnunarefnisdíoxíð: Meðan á sleppingu ammoníaks stendur berst ekkert NO2 frá verksmiðjunni. Eftir að sýruverksmiðjan hefur verið ræst hefur styrkur þess í útblásturslofti hennar á sleppistað numið um 800 ppm og farið niður í 150 ppm á tveimur til fjórum klst. Samkvæmt reikningum próf. Jónasar Elíassonar (fylgiskjal 1) er þynning ammoníaksins frá sleppistað að húsi matsþola af stærðarþrepi 1:10.000. Reiknað er með að þynning NO2 hafi verið sambærileg og gæti styrkur köfnunarefnisdíoxíðs frá verksmiðjunni þá hafa náð 0,08 ppm (150 mg/m3) og lækkað niður í 0,015 ppm (30 mg/m3) á næstu tveimur til fjórum tímum.

5.                   Hversu líklegt er að sá styrkur hafi getað valdið matsþola varanlegum lungnaskaða eins og honum er lýst í matsgerð, dags. 15. febrúar 2006 á dómskjali nr. 37, og vottorði Magna Jónssonar, dags. 14. desember 2005 á dómskjali nr. 36?

a)                  Ammoníumsúlfít, ammoníumvetniskarbónat og ammoníumkarbónat: Matsmenn sjá engar forsendur þess að umrædd efni hafi getað valdið matsþola varanlegum lungnaskaða.

b)                  Köfnunarefnisdíoxíð: Styrkur þess hefur verið það lágur að óhugsandi virðist að hann hafi getað valdið matsþola varanlegum lungnaskaða.

VI            Samantekt og ályktun

ü    Þann 30 september 1998 var sleppt út rúmum 500 kg af heitri ammoníaksgufu við ræsingu sýruverksmiðju Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi.

ü    Reikningar á dreifingu ammoníakgufunnar um svæðið leiða til þeirrar niðurstöðu að styrkur ammoníaks við hús matsþola að Gufunesvegi 1 á tímabilinu kl. 12:35 til kl. 14:30 umræddan dag hafi verið flöktandi á bilinu 2 til 10 mg/m3 (3 til 14 ppm). Reiknað er með óvissu, sem gæti numið stuðli 2 upp eða niður og samkvæmt því gæti styrkur ammoníaks hafa verið milli 1 og 20 mg/m3 (2 til 28 ppm).  

ü    Vinnueftirlit ríkisins leyfir 20 ppm (14 mg/m3) meðalgildi ammoníaksstyrk á vinnustað og 50 ppm (36 mg/m3) þakgildi (5 mín.).

ü    Útsetning matsþola fyrir ammoníaksgufu við heimili sitt virðist, eftir því sem næst verður komist, hafa verið innan þeirra marka, sem þar til bær stjórnvöld setja um aðbúnað á vinnustöðum.

ü    Matsmenn finna engin dæmi þess að svo lágur styrkur í tvær klukkustundir hafi valdið langvarandi lungnaskaða.

ü    Magn saltkenndra efna (ammoníumsúlfats, ammoníumsúlfíts, ammoníumkarbónats og ammoníumvetniskarbónats), sem kunna að hafa myndast við blöndun á ammoníaksgufu og afgasi svartolíubrennara, hefur verið metið. Fræðilegt hámark ammoníumsúlfats og ammoníumsúlfíts samanlagt eru tæp 40 kg. Magn ammoníumkarbónats og ammoníumvetniskarbónats samanlagt er áætlað að hámarki nokkrir tugir kg. Myndun ammoníumsalta dregur úr magni óbundins ammoníaks.

ü    Ammoníumsöltin eru, a.m.k. miðað við væga skammtíma útsetningu, hættuminni efni við innöndun en ammoníak og mögulegur styrkur þeirra við hús matsþola gefur ekki tilefni til að ætla að þau hafi orsakað varanlegan lungnaskaða.

ü    Eftir ræsingu sýruverksmiðjunnar berst frá henni köfnunarefnisdíoxíð. Reiknað er með að þynning þess frá sleppistað að húsi matsþola sé af sama stærðarþrepi og þynning ammoníaksgufunnar fyrr um daginn. Samkvæmt því má ætla að styrkur köfnunarefnisdíoxíðs við Gufunesveg 1 hafi í upphafi numið 0,08 ppm (150 mg/m3) og lækkað niður í 0,015 ppm (30 mg/m3) á næstu tveimur til fjórum tímum.

ü    Styrkur köfnunarefnisdíoxíðs við hús matsþola eftir ræsingu sýruverksmiðjunnar hefur, eftir því sem best verður vitað, verið sambærilegur við kröfur um loftgæði fyrir almenning í stórborgum og matsmenn sjá enga forsendu til að hann hafi valdið matsþola varanlegum lungnaskaða.

ü    Ekki verður ráðið af gögnum málsins að önnur hættuleg efni hafi  borist frá Áburðarverksmiðjunni að húsi matsþola umræddan dag.

ü    Samkvæmt framansögðu telja undirritaðir afar ólíklegt að heilsutjón matsþola megi rekja til loftmengunar frá Áburðarverksmiðjunni hf. þann 30. september 1998.“

VI

Matsgerðir þær, sem að framan greinir, eru megingögn til niðurstöðu málsins.  Bóta er krafist á grundvelli matsgerðar Jónasar Hallgrímssonar og Stefáns Más Stefánssonar. Niðurstöður matsins um að stefnandi hafi hlotið varanlegan miska og varanlega örorku af völdum umrædds atviks 30. september 1998 byggist á álitsgerð Magna Jónssonar læknis en röksemdir hans eru reistar á þeirri grunnforsendu að fyrir þetta atvik hafi stefnandi verið með eðlilegt, lítið skert áreynsluþol.  Sú forsenda hvílir hins vegar á afar veikum grunni, þ.e. frásögn stefnanda um tilteknar göngur.  Niðurstaða dómsins er sú að stefnandi hafi ekki hlotið varanlegan miska og varanlega örorku af völdum atviksins og er þannig, að því er þetta varðar, fallist á hinar mats­gerðirnar í málinu sem eru ítarlegar og vel rökstuddar.  Ber því að sýkna stefnda af kröfuliðum stefnanda sem á þessu eru reistir.

Samkvæmt niðurstöðum matsgerða annars vegar Júlíusar Valssonar og Þor­steins Blöndal og hins vegar Jónasar Hallgrímssonar og Stefáns Más Stefánssonar er orsakasamband milli umrædds atviks og tímabundins heilsutjóns stefnanda.  Á það er fallist með stefnda að lagastoð skorti fyrir hlutlægri skaðabótaábyrgð stefnda.  Stefndi ber hins vegar ábyrgð á tjóni stefnanda að því leyti sem hér um ræðir á grundvelli sakar og reglu skaðabótaréttar um húsbóndaábyrgð.  Sú niðurstaða byggist á því að stefnandi hafði símsamband við starfsmann verksmiðjunnar eftir fyrri losun­ina og tilkynnti um mengunina en engu að síður var ferillinn endurræstur með tilheyr­andi losun ammoníaksgufu sem varð meiri en venjulega og barst vegna vindáttar að húsi stefnanda.  Um þetta vísast til svohljóðandi ákvæðis 34. greinar mengunar­varnar­reglugerðar nr. 48/1994:  „Forráðamenn fyrirtækja og stofnana skulu sjá svo um að reykur, ryk og hættulegar eða daunillar lofttegundir valdi ekki óþægindum í nær­liggjandi umhverfi.“  Fallist verður á kröfufjárhæð stefnanda vegna þjáningabóta enda stendur niðurstaða matsgerðar hinna dómkvöddu matsmanna Jónasar Hallgrímssonar og Stefáns Más Stefánssonar, sem krafan er reist á, óhrakin að þessu leyti.

Niðurstaða málsins er samkvæmt þessu sú að dæma beri stefnda, Áburðar­verksmiðjuna hf., til að greiða stefnanda, Ingibjörgu Guðrúnu Magnúsdóttur, 189.000 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði en vextir frá fyrri tíma en 13. nóvember 2002 eru fyrndir, sbr. 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905.  Ákveðið er að málskostnaður falli niður.  Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með taldar mál­flutningsþóknanir lögmanna hennar en Lilja Jónasdóttir hrl. rak málið fyrir stefnanda þar til Kristján Stefánsson hrl. tók við fyrirsvarinu í þinghaldi 4. júní sl.  Ákveðst málflutningsþóknun (a.m.t. vsk.) Lilju Jónasdóttur 600.000 krónur en Kristjáns Stefánssonar 450.000 krónur.

Mál þetta dæma Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari, sem dómsformaður, og meðdómsmennirnir Ásbjörn Einarsson efnaverkfræðingur og Sigurður Þór Sigurðar­son lungnalæknir.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Áburðarverksmiðjan hf., greiði stefnanda, Ingibjörgu Guðrúnu Magnúsdóttur, 189.000 krónur með 2% ársvöxtum frá 13. nóvember 2002 til 6. apríl 2006 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með taldar málflutningsþóknanir Lilju Jónasdóttur hæstaréttarlögmanns 600.000 krónur og Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns 450.000 krónur.