Hæstiréttur íslands

Mál nr. 430/2003


Lykilorð

  • Fiskveiðibrot
  • Upptaka
  • Veiðarfæri


Fimmtudaginn 26

Fimmtudaginn 26. febrúar 2004.

Nr. 430/2003.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Helga Friðgeirssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Fiskveiðibrot. Upptaka. Veiðarfæri.

H var ákærður fyrir fiskveiðibrot með því að hafa veitt innan svæðis þar sem allar línuveiðar voru bannaðar. Nægilega þótti sannað, að veiðarfæri þau sem H notaði í umræddri veiðiferð, svokölluð haukalóð, er lína í skilningi reglugerðar nr. 230/2003, sem leggur bann við línuveiðum á því svæði sem um ræddi. Þar sem veiðar með haukalóð höfðu ekki með formlegum hætti verið heimilaðar á því svæði sem reglugerðin tók til, hafði H með háttsemi sinni brotið gegn 1. gr., sbr. 2. gr. reglugerðarinnar og 9. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Bar H sem skipstjóri bátsins refsiábyrgð samkvæmt 15. gr. laga nr. 79/1997. Refsing hans var ákveðin 600.000 króna sekt í ríkissjóð, auk þess upptækt var gert verðmæti veiðarfæra sem H hafði lagt í hið friðaða hólf og þess afla sem á þau hafði fengist.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 28. október 2003 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að refsing verði milduð, annað hvort felld niður eða skilorðsbundin.

Með vísan til forsenda héraðsdóms verður hann staðfestur með þeim hætti, sem í dómsorði greinir.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

         Ákvæði héraðsdóms um refsingu ákærða, Helga Friðgeirssonar, og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

         Upptækar eru gerðar í Landhelgissjóð Íslands 259.012 krónur, sem eru verðmæti línu og afla.

         Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 1. október 2003.

       Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð í dag, er höfðað fyrir Héraðsdómi Suðurlands með ákæruskjali Lögreglustjórans í Vestmannaeyjum, dags. 24. september 2003 á hendur Helga Friðgeirssyni, [...], „fyrir fiskveiðibrot með því að hafa, síðdegis föstudaginn 19. september 2003, sem skipstjóri á skipinu Kristbjörgu II HF 75, skipaskránr. 0127, sem er 27,89 metrar að mestu lengd, verið að línuveiðum á stað 63°18,670´N – 018°21,395´V á Kötlugrunni innan svæðis þar sem allar línuveiðar eru bannaðar, en varðskipið Ægir kom að skipinu kl. 16:32 þar sem það var að draga línu og fylgdi því til hafnar í Vestmannaeyjum þar sem skipið kom laust upp úr miðnætti aðfaranótt 20. september.”

Ákæruvaldið segir háttsemi ákærða varða við 1. gr., sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 230/2003 um bann við línuveiðum á Kötlugrunni og 1. mgr. 9. gr., 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 16. gr. laga nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, sbr. og 21. gr. þeirra laga.

Ákæruvaldið krefst þess að ákærði verði dæmdur til refsingar samkvæmt 1. mgr. 16. gr., sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, og til að sæta upptöku á fjárhæð sem svarar til andvirðis þeirra veiðarfæra skipsins sem notuð voru við hinar ólöglegu veiðar og þess afla sem fékkst með ólögmætum hætti samkvæmt mati dómkvaddra kunnáttumanna en það voru 5 stubbar, 7mm af lúðulínu, 10 stykki af bólfærum, 10 stykki af plastbelgjum og 5 baujur með belgjum og rúmlega 500 kíló af fiski sem er mestmegnis lúða, allt samkvæmt 2. og 3. mgr. 16. gr., sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 79/1997.

Við meðferð málsins fyrir dómi féll ákæruvaldið frá kröfu um upptöku á andvirði ufsa og gullkrafa að fjárhæð 1.866 krónur.

Ákærði neitar sök og krefst aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins. Verði ákærði sakfelldur krefst ákærði þess að refsing verði látin niður falla, og til þrautavara að verði refsing verði skilorðsbundin. Þá krefst ákærði þess að allur sakarkostnaður málsins verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin hæfileg málsvarnarlaun verjanda hans að mati dómsins.

 Málsatvik

Að kvöldi laugardagsins 20. september 2003 barst lögreglunni í Vestmannaeyjum tilkynning frá Landhelgisgæslu Íslands þess efnis, að varðskipið Ægir hefði staðið Kristbjörgu II HF-75 að meintum ólöglegum veiðum innan svæðis sem tiltekið er í reglugerð nr. 230/2003, um bann við línuveiðum á Kötlugrunni. Segir í tilkynningunni að skipin séu á leið til Vestmannaeyja og þess óskað að viðeigandi ráðstafanir verði gerðar af hálfu lögreglu. 

Lögreglurannsókn í málinu hófst laust eftir miðnætti laugardaginn 20. september sl., þegar varðskipið kom með Kristbjörgu II að landi í Vestmannaeyjum. Gögn þau sem aflað var við þá rannsókn liggja frammi í málinu. Þar á meðal er skýrsla skipherrans á Ægi, Halldórs B. Nellet, dags. 19. september 2003, og skoðunarskýrsla Guðmundar Emils Sigurðssonar, yfirstýrimanns á Ægi og Pálma Jónssonar 3. stýrimanns,  dagsett sama dag. Í skýrslu skipherra kemur fram að skipstjóri bátsins hafi verið Helgi Friðgeirsson, ákærði í máli þessu. Atvikum er nánar lýst svo í nefndri skýrslu skipherrans: „Föstudaginn 19. september 2003 stóð varðskipið línubátinn KRISTBJÖRGU II HF-75 sknr:127 að meintum ólöglegum línuveiðum um 11,0 sml. suðaustur af Kötlutanga, eða nánar á stað: 63°18,670´N 018°21,395´V, en samkvæmt reglugerð nr. 230/03 eru allar línuveiðar bannaðar á því svæði.” Nánar er atvikum lýst þannig í skýrslunni: „Föstudaginn 19. september 2003 var varðskipið við eftirlit á Kötlugunni. Kl. 1632 var komið að línuveiðiskipinu KRISTBJÖRGU II HF-75 á stað 63°18,670´N- 018°21,395´V eða um 3,7 sml inn í ofangreindri reglugerð. Skipið var að draga línu. Kl. 1638 var haft samband við skipstjóra KRISTBJARGAR, sem upplýsti að hann væri á lúðulínu og hefði til þess undanþágu og mætti því vera á svæðinu. Þegar farið var að athuga málið kom í ljós að skipstjóri KRISTBJARGAR var að vitna í reglugerð nr. 311/03 um bann við línuveiðum við Suður-og Suðausturland en í reglugerð nr. 363/03 um breytingu á reglugerð nr. 311/03 er heimilt að nota sérbúna línu (haukalóð) til lúðuveiða en það svæði er mun austar og á ekki við um reglugerð nr. 230/03. Skipstjóra var bent á þetta og aðspurður sagðist hann enga skriflega heimild hafa til veiða í reglugerð 230/03 en sagðist hafa munnlega heimild úr ráðuneytinu. Haft var samband við stjórnstöð LHG og þar fundust engar undanþágur til að veiða á umræddu svæði. Kl. 1725 var skipstjóra KRISTBJARGAR tilkynnt að varðskipsmenn færu um borð til frekara eftirlits. Kl.1727 fór bátur frá varðskipinu yfir í KRISTBJÖRGU með yfir- og 3. stýrimann. Kl. 1734 var haft samband við yfirmann gæsluframkvæmda og hann upplýstur um gang mála. K. 1755 upplýsti yfirstýrimaður að skipið hefði lokið við að draga línuna og væri lagt af stað áleiðis til Vestmannaeyja.”

Þá segir í skýrslunni að afli um borð hafi verið 400 kg af lúðu og nokkrar keilur að sögn skipstjóra, en að vegna aðstæðna hefði ekki verið hægt að skoða aflann í lestinni. Fram kemur einnig að þegar varðskipsmenn fóru frá borði hafði afladagbók ekki verið færð í ferðinni og að veiðileyfi skipsins hefði ekki fundist um borð. Þá kemur þar fram að áðurgreind staðarákvörðun hafi yfirstýrimaður og 2. stýrimaður gert með FURUNO FAR-2822 ratsjá og FURUNO DGPS NAVIGATOR GP-500 MARK II. Veður kl. 18:00 umræddan dag hafi verið VSV 20-28 hnútar, sjór-4 og  hálfskýjað. 

Í skoðunarskýrslu Emils Sigurðssonar yfirstýrimanns og Pálma Jónssonar 3. stýrimanns á varðskipinu Ægi, dags. 19. september sl., sem ákærði undirritaði segir orðrétt: „Skipst leggur framm RG NR 311/02 28.04.03 ásamt breytingar R.G NR 363/03. Skipst taldi að þetta mundi ná líka til R.G NR 230/03.Skipst hefur enga undanþ pappíra um borð, annað en orð ráðherra sem sagði að þetta mundi ná yfir fyrrnefndar reglugerðir.“

                Lögreglan í Vestmanneyjum yfirheyrði ákærða laugardaginn 20. september sl. Fyrir lögreglu er haft eftir ákærða að hann hafi talið sig vera í rétti til að veiða á umræddu svæði því þar sé heimilt að nota sérbúna línu til lúðuveiða. Einnig er haft eftir ákærða að gleymst hefði að gera breytingar á reglugerð nr. 230/2003 til samræmis við breytingar sem gerðar voru á reglugerð nr. 311/2003, um bann við línuveiðum við Suður- og Suðausturland. 

Í gögnum málsins er kort af umræddu svæði þar sem starfsmenn Landhelgisgæslunnar hafa merkt staðsetningu bátsins inn. Óumdeilt er í máli þessu að ákærði var þar að veiðum þegar varðskipið hafði afskipti af bát hans. Meðal gagna málsins er matsskýrsla Gísla Jónassonar, hjá G. Stefánssyni umboðs- og heildverslun í Vestmannaeyjum, en hann mat verðgildi veiðarfæra bátsins að beiðni lögreglu 20. september sl. Þá er einnig meðal gagna málsins vigtarseðill, dags. 24. september 2003,  þar sem tilgreind eru 522,15 kg. af lúðu frá Kristbjörgu II HF-75. Við meðferð málsins fyrir dómi sætti það ekki andmælum af hálfu ákærða að ákæruvaldið legði umrædd möt til grundvallar kröfu sinni um upptöku á andvirði veiðarfæra og afla.

                Við þingfestingu málsins neitaði ákærði sök. Hann viðurkenndi að hafa verið á lúðuveiðum umræddan dag á þeim stað sem í ákæru greinir, en kvaðst ekki hafa verið á línuveiðum í skilningi reglugerðar nr. 230/2003, um bann við línuveiðum á Kötlugrunni. Ákærði kvaðst hafa verið á lúðuveiðum með svokallaða haukalóð, en veiðar með þess konar veiðarfæri séu ekki bannaðar á því svæði sem í ákæru greinir.   

Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.  

                Ákærði kvaðst hafa verið á lúðuveiðum með haukalóð umræddan dag, en haukalóð sé sértæk lína eða sértækt veiðarfæri til lúðuveiða. Nánar aðspurður um þann framburð hans við yfirheyrslu hjá lögreglu 20. september sl., að hann „kannast við að hafa verið á línuveiðum á Kötlugunni“, kvaðst ákærði ítreka að hann hefði verið á lúðulínuveiðum í umrætt sinn. Þá tók ákærði fram, að hann sem sjómaður og skipstjóri í áratugi, hefði verið á veiðum með lúðulínu  eða haukalóð sem sé sértækt veiðarfæri til lúðuveiða. Aðspurður hvort honum hefði verið kunnugt um bann við línuveiðum á Kötlugrunni sagði ákærði að sér hefði verið kunnugt um bann við fiskilínuveiðum á þessu svæði sem og svæðum um allt Suður-og Suðausturland. Aðspurður hvort hann hefði staðið í þeirri trú að búið hefði verið að aflétta hluta af línuveiðibanninu á Kötlugrunni samkvæmt reglugerð nr. 230/2003, sagðist ákærði hafa staðið í þeirri trú að það hefði verið viðurkennt að haukalóð sé ekki línuveiðarfæri sem ákvæði reglugerðarinnar tæki til. Þannig kvaðst ákærði hafa skilið reglugerðina nr. 230/2003, enda sé haukalóð ekki fiskilína heldur sértæk lína til lúðuveiða. Ákærði var ítrekað aðspurður um hvort hann hefði staðið í þeirri trú að banni við veiðum með haukalóð hefði verið aflétt á Kötlugrunni um leið og haukalóð var leyfð á svæðum austan við Kötlugrunn. Ákærði  kvaðst  hafa hringt í fiskveiðieftirlitið og starfsmenn þar hefðu faxað fyrir hann til hafnarstjórans í Vestmannaeyjum umræddum reglugerðum og í samtali við umræddan starfsmann hefði komið fram að veiðar með haukalóð væru leyfðar á svæðum fyrir Suður- og Suðausturlandi. Aðspurður um það sem fram komi í skýrslu skipstjórans á Ægi, þar sem haft sé eftir ákærða að hann hefði verið á lúðulínu og hefði til þess undanþágu, kvaðst ákærði hafa talið að það væri viðurkennt að veiðar með haukalóð væru ekki línuveiðar enda hefði það verið viðurkennt með reglugerð nr. 311/2003 að haukalóð sé allt annað veiðarfæri. Ákærði upplýsti að afli í umrætt sinn hefði verið 300 til 400 kg af lúðu, en tók fram að engin keila hafi verið í aflanum.  Hann kvaðst hafa notað 5 stubba, ca. 100-120 króka stubbar, en hálfur stubbur hafi verið í sjó þegar Landhelgisgæslan hafði afskipti af veiðunum. Þá kom fram hjá ákærða að hann seldi lúðu á erlendum markaði fyrir mun hærra verð en fengist fyrir fiskinn hér á landi. Ákærði upplýsti að ufsann og gullkarfann, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, hefði hann keypt í Vestmannaeyjum fyrir umrædda veiðiferð.

Aðspurður af verjanda kvaðst ákærði strax hafa vakið athygli starfsmanna Landhelgisgæslu og síðar lögreglu á því, að samkvæmt hans skilningi næði bann við línuveiðum á Kötlugrunni ekki til veiða með haukalóð. Þá kom fram hjá ákærða að starfsmenn Landhelgisgæslunnar hefðu komið tvisvar um borð í skipið. Vitnið kvaðst, eftir heimsókn Landhelgisgæslunnar í júní eða júlí, hafa hringt í veiðieftirlitið til að kanna hvort honum væri óhætt að nota haukalóð á Kötlugrunni.  Þar kvaðst ákærði hafa fengið þau svör um væri að ræða tvö gjörsamlega ólík veiðarfæri og búið væri að aflétta banni af þessum svæðum eða grunnum. Þá hafi sá sem hann talaði við lesið fyrir sig upp úr reglugerðinni nr. 363/2003 og þá hefði þessi starfsmaður sent umrædda reglugerð með símsendi til hafnarstjórans í Vestmannaeyjum að beiðni ákærða. Aðspurður um ástæðu þess að hann hringdi í umrædda stofnun og spurði um þetta efni, þar sem hann hefði verið þess fullviss að haukalóð og lína væru ólík veiðarfæri og að bann við einu veiðarfæri gilti ekki sem bann við notkun hins, sagðist ákærði hafa gert það vegna þess að lúðubátar hefðu verið við veiðar þarna í sumar. Þá kom fram hjá ákærða að fyrir þremur árum hefði hann beðið um lokun á umræddu svæði þar sem þar hefði verið mikil rányrkja. Það hefði hann gert með því að mótmæla rányrkjunni í sjávarútvegsráðuneytinu og hjá Hafrannsóknarstofnun. Hann tók fram að honum hefði þó aldrei dottið í hug að línuveiðibann á þessu svæði yrði skilið sem bann við veiðum með haukalóð.

Vitnið Hrafnkell Eiríksson, fiskifræðingur og forstöðumaður nytjastofnssviðs  Hafrannsóknarstofnunar, gaf skýrslu fyrir dómi í gegnum síma. Aðspurt kvað vitnið línu eða fiskilínu og haukalóð vera ólík veiðarfæri vegna stærðarmunar. Vitnið kvað haukalóð vera lúðulínu, en Hafrannsóknarstofnun hefði gert tillögu um lokun á veiðisvæðum vegna keilu og vitnið kvaðst líta svo á að slíkt bann næði ekki til veiða með haukalóð. Þá kvaðst vitnið vera þeirra skoðunar að línuveiðar geti ekki merkt veiðar með haukalóð. Vitnið kvaðst greina á milli veiða á bolfisk með línu og línuveiða á lúðu með haukalóð, enda um ólíkan veiðiskap að ræða. Vitnið kvaðst ekki skilja orðið línuveiðar sem veiðar með haukalóð. Vitnið kvað tilurð og tilgang reglugerðar nr. 230/2003 hafa verið að koma í veg fyrir veiðar á smákeilu á Kötlugrunni. Síðan hafi verið lagt til að loka þremur öðrum svæðum þar fyrir austan, allt að Mýrargrunni og hafi það verið gert með reglugerð nr. 311/2003. Vitnið kvað reglugerðir nr. 230/2003 og 311/2003 því báðar hafa verið settar til verndar smákeilu. Reglugerðirnar hefðu hins vegar ekki bannað lúðuveiðar eða veiðar með haukalóð, enda stafi smákeilu minni en 55 cm ekki hætta af veiðum með haukalóð. Vitnið kvaðst ekki geta sagt til um tilurð reglugerðar nr. 363/2003, enda hefði það mál aldrei komið inn á borð Hafrannsóknarstofnunar til umfjöllunar eða umsagnar. Sér hefði verið tjáð að ráðuneytið hefði tekið þá ákvörðun að setja umrædda reglugerð vegna fyrirspurnar frá tilteknum skipstjóra. Vitnið kvaðst vera þeirrar skoðunar að reglugerð nr. 363/2003 væri óþörf. Aðspurt kvaðst vitnið telja að gleymst hefði að láta þær breytingar sem gerðar voru á reglugerð nr. 311/2002 með reglugerð nr. 363/2003, einnig taka til reglugerðar nr. 230/2003. Þá kom fram hjá vitninu að Hafrannsóknarstofnun teldi að fara verði varlega í veiðar á lúðu með lúðuveiðarfærum vegna ástands stofnsins. Vitnið tók fram í lokin að hann teldi mál þetta mjög óheppilegt atvik og kvaðst styðja sakborninginn í málinu sem honum þætti óréttlátt.

Niðurstaða

                Með setningu reglugerðar nr. 230/2003, um bann við línuveiðum á Kötlugrunni, voru allar línuveiðar bannaðar á nánar tilgreindu svæði á grunninu, sbr. 1. gr. nefndrar reglugerðar. Í 3. gr. reglugerðarinnar kemur fram að reglugerðin sé sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, og öðlist gildi 2. apríl 2003. Reglugerðin var birt í Stjórnartíðindum 1. apríl 2003. Línuveiðibann reglugerðarinnar á þessu svæði á stoð í 9. gr., sbr. 21. gr. laga nr. 79/1997, en þar er kveðið á um skyldu ráðherra til að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að sporna við því að stundaðar séu veiðar sem skaðlegar geta talist með tilliti til hagkvæmrar nýtingar nytjastofna. Ráðherra getur í þessum tilgangi m.a. ákveðið með reglugerð sérstök friðunarsvæði þar sem veiðar með tilteknum veiðarfærum eru bannaðar. Af framburði vitnisins Hrafnkels Eiríkssonar og bréfi Hafrannsóknarstofnunar til Sjávarútvegsráðuneytisins, dags. 28. mars 2003, má ráða að með setningu reglugerðar nr. 230/2003 og reglugerðar nr. 311/2003 hafi átt að sporna við veiðum á smárri keilu á grunnsvæðum við Suður- og Suðausturland þar sem mikið hafði borið á henni í afla og að 70-73% aflans hefði reynst undir viðmiðunarmörkum. Með vísan til þess sem að framan er rakið verður að ætla að tilgangur reglugerðar nr. 230/2003, um bann við línuveiðum á Kötlugrunni og reglugerðar  nr. 311/2003, um bann við línuveiðum við Suður- og Suðausturland, hafi verið að vernda smákeilu á viðkomandi svæðum.

Fyrir dómi hélt ákærði því fram að með reglugerð nr. 230/2003, um bann við línuveiðum á Kötlugrunni, hafi veiðar með svokallaða haukalóð ekki verið bannaðar þar sem þau veiðarfæri teljist ekki til línu í skilningi reglugerðarinnar. Þá kannaðist ákærði ekki við þann framburð sinn hjá lögreglu að hann hefði talið sig vera í rétti til að veiða á umræddu svæði þrátt fyrir ákvæði reglugerðar nr. 230/2003, þar sem hún stangaðist á við breytingar þær sem gerðar höfðu verið á reglugerð nr. 311/2003 og að hann teldi að gleymst hefði að gera breytingu á reglugerðinni nr. 230/2003 til samræmis við breytingar sem gerðar voru á reglugerðinni nr. 311/2003 með setningu reglugerðar nr. 363/2003.

Í máli þessu er ekki ágreiningur um lagastoð reglugerðar nr. 230/2003. Ágreiningur er hins vegar um hvort veiðar með haukalóð teljist til línuveiða í skilningi reglugerðar nr. 230/2003. Fyrir liggur í málinu að veiðarfæri þau sem ákærði notaði í umræddri veiðiferð var lína með lóðum og krókum. Lína þessi, haukalóði er eingöngu notuð til lúðuveiða. Hún er frábrugðin venjulegri fiskilínu að því leyti að lengra er milli króka á haukalóðinni en fiskilínunni og þá eru krókarnir á haukalóð mun stærri. 

Eins og áður hefur verið rakið má ætla að reglugerð nr. 311/2003, um bann við línuveiðum við Suður- og Suðausturland, hafi eins og reglugerð nr. 230/2003 verið sett til að vernda smákeilu á tilteknum grunnsvæðum suður og suðaustur af Íslandi. Reglugerðinni nr. 311/2003 var hins vegar breytt með reglugerð nr. 363/2003 á þann veg að þrátt fyrir línuveiðibann á umræddum svæðum skuli „heimilt að nota sérbúna línu (haukalóð) til lúðuveiða“, eins og segir orðrétt í 1. gr. reglugerðar nr. 363/2003. Þó ætla megi, eins og áður hefur verið rakið, að sömu verndarsjónarmið hafi legið að baki setningu reglugerðar um bann við línuveiðum á Kötlugrunni, nr. 230/2003, og reglugerðar nr. 311/2003, sem tekur til grunnsvæða austan Kötlugrunns, tók undanþáguákvæði reglugerðar, nr. 363/2003, hins vegar aðeins til þeirra svæða sem tilgreind eru í reglugerðinni nr. 311/2003, en ekki til hins friðaða svæðis á Kötlugrunni sem mál þetta varðar. 

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og þrátt fyrir neitun ákærða,  þykir nægilega sannað, að veiðafæri þau sem ákærði notaði í umræddri veiðiferð, svokölluð haukalóð, er lína í skilningi reglugerðar nr. 230/2003. Þar sem veiðar með haukalóð hafa ekki með formlegum hætti verið heimilaðar á því svæði á Kötlugrunni sem reglugerðin nr. 230/2003 tekur til, hefur ákærði með greindri háttsemi brotið gegn 1. gr., sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 230/2003, um bann við línuveiðum á Kötlugrunni og 9. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

                Ákærði ber sem skipstjóri bátsins refsiábyrgð samkvæmt 15. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, með því að leggja línu inn í hið friðaða hólf.

                Ákærði hefur unnið sér til refsingar samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 79/1997. Samkvæmt ákvæðinu skal sekt ekki nema lægri fjárhæð en 600.000 krónum og ekki hærri fjárhæð en 6.000.000 krónum, eftir eðli og umfangi brots. Ákærði hefur ekki áður sætt refsingum svo kunnugt sé. Afli í umrætt sinn var ekki mikill, en ákærði þarf að sæta upptöku veiðarfæra og afla. Þá er einnig til þess að líta að ætla má að þeim smáfiski sem reglugerðinni nr. 230/2003 var ætlað að vernda hafi ekki stafað   hætta af háttsemi ákærða, sbr. 3. tl. 70. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði, sem verið hefur skipstjóri í tugi ára, gerði umræddan bát út í atvinnuskyni. Þess verður að krefjast af skipstjórum að þeir þekki lög og reglugerðir sem snúa að veiðum og sérstaklega snerta atvinnustarfsemi þeirra. Þá er einnig til þess að líta að reglugerð nr. 230/2003, um bann við línuveiðum í Kötlugrunni, hafði verið í gildi í tæpa fimm mánuði þegar brotið var framið. Þykja því ekki vera fyrir hendi skilyrði til að beita refsilækkunarheimild 3. tl. 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um háttsemi ákærða eins og verjandi hans hefur krafist. Með vísan til þess sem að framan er rakið er refsing ákærða ákveðin 600.000 króna sekt. Verði sektin ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja skal ákærði sæta fangelsi í 60 daga.. Sektarfjárhæðin renni í Landhelgissjóð Íslands, sbr. 4. mgr. 19. gr. lag nr. 79/1997. 

                Andvirði veiðarfæra, sem lögð voru í hið friðaða hólf, og aflinn sem á þau fengust og tilgreindur eru í ákæruskjali, og nemur samtals 259.012 krónum (veiðarfæri 104.007 krónur og afli 155.005 krónur), er gert upptækt samkvæmt 2. og 3.  mgr. 16. gr. laga nr. 79/1997. Upptökufjárhæðin renni í Landhelgissjóð Íslands, sbr. 4. mgr. 19. gr. nefndra laga.

                Með vísan til 165. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, greiði ákærði allan sakarkostnað málsins þar með talda þóknun verjanda, Lúðvíks Emils Kaaber héraðsdómslögmanns, 60.000 krónur.

                Dóm þennan kveða upp Ragnheiður Thorlacius, settur héraðsdómari, dómsformaður og meðdómsmennirnir Þorfinnur Valdimarsson fyrrverandi skipstjóri og Sigurður Bjarnason fyrrverandi skipstjóri.

D ó m s o r ð

       Ákærði, Helgi Friðgeirsson, greiði 600.000 króna sekt í Landhelgissjóð Íslands innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja, en sæti ella fangelsi í 60 daga.

                Upptæk eru gerðar í Landhelgissjóð Íslands 259.212 krónur, sem er verðmæti þeirrar línu sem ákærði lagði í hið friðaða hólf og þess afla sem fékkst á línuna.

       Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Lúðvíks Emils Kaaber héraðsdómslögmanns, 60.000 krónur.