Hæstiréttur íslands

Mál nr. 204/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Þriðjudaginn 26. mars 2013.

Nr. 204/2013.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir fulltrúi)

gegn

X

(Ásbjörn Jónsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur. Þá var einnig staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að X skyldi sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stæði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. mars 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. mars 2013, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 5. apríl 2013 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að beitt verði vægari úrræðum en að því frágengnu að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.  

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með framangreindum úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 22. mars 2013 var framlengt gæsluvarðhaldi sem varnaraðila var gert að sæta 18. mars 2013 til 22. sama mánaðar, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og einangrun á grundvelli b. liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga.

Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. mars 2013.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að X, kt. [...], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 5. apríl 2013, kl. 16:00 og að á þeim tíma verði kærða gert að sæta einangrun.

Kærði mótmælir kröfunni. Krefst hann þess aðallega að kröfunni verði hafnað, en til vara að beitt verði vægari úrræðum eins og farbanni. Til þrautavara er þess krafist að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Í greinargerð lögreglustjórans segir að 17. mars 2013 hafi lögreglu borist tilkynning frá stöðvarstjóra Airport Associates, þjónustuaðila fyrir flugfélagið Wow, um aðila sem væri á leið í flug [...] til Kaupmannahafnar. Samkvæmt tilkynningunni muni aðilinn hafa keypt umræddan flugmiða með greiðslukorti sem væri falsað eða stolið. Þá lét tilkynnandi þess einnig getið að þetta væri ekki í fyrsta skiptið sem kærði hefði keypt flugmiða með stolnu eða fölsuðu greiðslukorti. Við skýrslutöku yfir kærða hjá lögreglu 17. mars 2013 hafi hann neitað því að hafa keypt flugmiða með fölsuðu eða stolnu greiðslukorti. Kvað hann vin sinn á Ítalíu hafi keypt flugmiðann fyrir sig þar sem að hvorki hann né kona hans eigi greiðslukort. Kvað hann vin sinn heita A og hefði hann notað greiðslukort vinkonu sinnar, B. Spurður um hvort hann hafi ferðast mikið til og frá landinu síðan að hann fluttist hingað fyrir tveimur og hálfu ári síðan, kvaðst hann hafa farið til útlanda fjórum sinnum á þeim tíma. Við rannsókn lögreglu hafi komið í ljós að IP tala sem skráð sé á eiginkonu kærða hafi verið notuð við ætlaðar tilraunir til greiðslukortasvika hjá flugfélögum í um 100 skipti. IP tala, sem skráð sé á eiginkonu kærða í fimm tilfellum hjá WOW og 22 tilfellum hjá Iceland Express á Y, kt. [...], báðar leiðir. Þá hafi eiginkona hans og dóttir verið bókaðar í þrjár ferðir báðar leiðir.

Við skoðun á flugferðum sem keyptar hafa verið með því að nota IP tölu eiginkonu kærða hafi í að minnsta kosti þremur tilvikum komið fólk til landsins sem beðið hafi um stöðu flóttamanns hér á landi. Með vísan til þess, fjölda flugferða og annarra gagna sé það mat lögreglu að kærði kunni að tengjast smygli á fólki.

Rannsókn máls þessa sé á frumstigi. Beinist rannsókn lögreglu að misnotkun á greiðslukortum, meðal annars við kaup á flugmiðum og eða smygli á fólki. Í því skyni hafi lögregla meðal annars haft til rannsóknar tölvur í eigu kærða og aflað óstaðfests yfirlits yfir ferðir kærða til að frá landinu undanfarna 18 mánuði. Við frumskoðun á tölvu kærða sé ýmislegt sem virðist benda til greiðslukortamisferlis. Þá verði ekki annað séð af yfirliti yfir ferðir kærða til og frá landinu en að hann hafi ferðast til og frá landinu töluvert oftar en hann greindi frá við skýrslutökuna í gær. Miðað við frumvinnu lögreglu í málinu virðist ýmislegt benda til þess að kærði sé viðriðinn misnotkun á greiðslukortunum, hérlendis og jafnvel erlendis.

Telji lögregla að háttsemi kærða kunni að varða við ákvæði 155. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 57. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002. Þá telji lögregla að ætla megi að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hann laus. Þá telji lögregla einnig hættu á að kærði verði beittur þrýstingi og að reynt verði að hafa áhrif á kærða, af hendi samverkamanna hans, gangi kærði laus, á þessu stigi rannsóknar lögreglu.

Þess sé krafist að kærða verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi skv. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88, 2008.

Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 155. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 57. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 telji lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 5. apríl 2013 og að kærði sæti einangrun á þeim tíma.

Samkvæmt öllu framangreindu, svo og með vísan til gagna málsins, er fallist á það með lögreglustjóranum á Suðurnesjum að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við. Rannsókn málsins er á frumstigi og er talin umfangsmikil. Gangi kærði laus má ætla að hann muni torvelda rannsókn málsins með því að skjóta undan munum eða hafa áhrif á samseka eða vitni. Samkvæmt þessu telst fullnægt skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi og er krafa lögreglustjórans á Suðurnesjum því tekin til greina eins og hún er sett fram og nánar greinir í úrskurðarorði. Jafnframt er fallist á að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldsvist hans stendur, sbr. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. 

Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 5. apríl 2013, kl. 16:00.

Kærði skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldsvist hans stendur.