Hæstiréttur íslands
Mál nr. 323/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármál hjóna
- Búskipti
|
|
Miðvikudaginn 8. september 2004. |
|
Nr. 323/2004. |
M(Hilmar Ingimundarson hrl.) gegn K (Þorsteinn Einarsson hrl.) |
Kærumál. Fjármál hjóna. Búskipti.
Í málinu deildu aðilar um við hvaða tímamark skyldi miða úrlausn um eignir og skuldir við opinber skipti á búi þeirra. Með vísan til skýrra ákvæða 1. mgr. 101. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, sbr. og 1. mgr. 104. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., var fallist á kröfu M um að miða skyldi við það tímamark er sýslumaður tók fyrst fyrir umsókn K um leyfi til skilnaðar að borði og sæng.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. júlí 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. ágúst sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 13. júlí 2004, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að upphafstímamark við opinber skipti á búi hennar og sóknaraðila skyldi miðast við 26. september 2001. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að úrskurði héraðsdóms verði hrundið og fyrrgreint tímamark verði miðað við 22. ágúst 2002. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði staðfestur, en til vara að upphafstímamark við opinber skipti á búi aðila skuli miðast við 1. október 2001. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.
Málsaðilar munu hafa gengið í hjónaband árið 1971, en af gögnum málsins má ráða að slitnað hafi upp úr sambúð þeirra um haustið 2001. Er fram komið að það haust og fyrri hluta ársins 2002 áttu sér stað viðræður milla aðila um skipti á eignum þeirra. Að kröfu varnaraðila var bú þeirra tekið til opinberra skipta með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands 10. september 2002. Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði lýtur ágreiningur málsaðila eingöngu að því við hvaða tímamark skuli miða upphaf skipta á búi þeirra. Sóknaraðili telur að miða skuli við 22. ágúst 2002, er bókuð var í hjónaskilnaðarbók sýslumannsins á Selfossi krafa varnaraðila um skilnað að borði og sæng. Hins vegar vill varnaraðili aðallega miða við 26. september 2001, þar sem hún hafi þá leitað til sýslumanns eftir heimild til skilnaðar að borði og sæng, þó ekki hafi verið formlega bókað um þá fyrirtöku.
Í hinum kærða úrskurði eru rakin þau lagaákvæði sem til skoðunar koma þegar ákveðið er tímamark til viðmiðunar við úrlausn um eignir og skuldir hjóna. Skal það vera er sýslumaður tók fyrst fyrir umsókn um leyfi til skilnaðar, nema sammæli hjóna sé um að miða við annað. Í bréfi sýslumanns 30. mars 2004 segir að sóknaraðili hafi komið á skrifstofu sýslumanns „síðla árs 2001 í þeim tilgangi að fá upplýsingar um feril skilnaðarmála hjá sýslumanni vegna skilnaðar hennar og þáverandi eiginmanns hennar“. Þá segir í bréfinu að þar sem ekki hafi verið bókað um mætingu varnaraðila á skrifstofu sýslumannsins sé „ekki hægt að staðfesta nákvæma dagsetningu um komu hennar.“ Af bréfi þessu verður ekki séð að þá hafi verið tekin fyrir krafa varnaraðila um skilnað að borði og sæng milli hennar og sóknaraðila. Ekki verður heldur ráðið af gögnum málsins að á einhverju stigi hafi náðst samkomulag milli aðila um að miða upphaf skipta við tiltekið tímamark. Með vísan til skýrra ákvæða 1. mgr. 101. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, sbr. og 1. mgr. 104. gr. laga nr. 20/1991, verður því fallist á kröfu sóknaraðila um að miða skuli úrlausn um eignir og skuldir í búi málsaðila við 22. ágúst 2002, er sýslumaður tók fyrst fyrir umsókn varnaraðila um leyfi til skilnaðar að borði og sæng.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Við opinber skipti á búi sóknaraðila, M, og varnaraðila, K, skal við úrlausn um eignir og skuldir í búinu miðað við 22. ágúst 2002.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 13. júlí 2004.
Sóknaraðili er K, en varnaraðili M.
Sóknaraðili krefst þess aðallega að upphafstímamark við opinber skipti á búi hennar og varnaraðila verði miðað við 26. september 2001 en til vara að miðað verði við 1. október sama ár. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.
Varnaraðili krefst þess að hafnað verði kröfum sóknaraðila um upphafstímamark við opinber skipti á búi aðila og þess krafist að upphafstímamark verði miðað við 22. ágúst 2002. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.
Málavextir.
Sóknaraðili lýsir málavöxtum svo að málsaðilar hafi gengið í hjónaband árið 1971 en í september 2001 hafi slitnað upp úr sambúð þeirra og segist sóknaraðili hafa óskað eftir leyfi til skilnaðar að borði og sæng hjá sýslumanninum [...] í kjölfarið. Við fyrirtöku hjá fulltrúa sýslumanns hafi sóknaraðili verið upplýst um að ekki væri hægt að verða við beiðni hennar um útgáfu skilnaðarleyfis fyrr en fyrir lægi samningur um skilnaðarkjör hennar og varnaraðila. Í málinu hefur verið lögð fram yfirlýsing Steinunnar Fjólu Sigurðardóttur, fulltrúa sýslumanns og staðfestir hún að sóknaraðili hafi komið á skrifstofu hennar síðla árs 2001 í þeim tilgangi að fá upplýsingar um feril skilnaðarmála hjá sýslumanni vegna skilnaðar hennar og varnaraðila. Segir í yfirlýsingunni að þar sem ekki hafi verið bókað um mætingu sóknaraðila á skrifstofu embættisins sé ekki hægt að staðfesta nákvæma dagsetningu um komu hennar. Sóknaraðili segist í kjölfarið hafa leitað eftir samningum við varnaraðila um fjárskipti aðila. Aðilar náðu ekki samkomulagi um skiptin þrátt fyrir samningaviðræður milli þeirra og lögmanna þeirra. Fór sóknaraðili þess því á leit með beiðni dagsettri 21. ágúst 2002 að fram færu opinber skipti á félagsbúi hennar og varnaraðila. Daginn eftir mætti umboðsmaður sóknaraðila hjá sýslumanni og krafðist skilnaðar að borði og sæng. Er bókað eftir honum að sóknaraðili hafi komið á embættið 26. september 2001 og óskað eftir skilnaði að borði og sæng, en það hafi ekki verið bókað þar sem fjárskiptasamningur hafi ekki legið fyrir. Búið var tekið til opinberra skipta með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands uppkveðnum 10. september 2002 og var Bergsteinn Georgsson, hdl., skipaður skiptastjóri í búi hjónanna. Á skiptafundi sem haldinn var 20. nóvember 2003 kom upp ágreiningur milli aðila um við hvaða tímamark ætti að miða upphaf skipta og með bréfi dagsettu 13. febrúar s.l. krafðist skiptastjóri úrlausnar dómsins um ágreininginn með vísan til 112. gr., sbr. 122. gr. laga nr. 20/1991. Var tekið fram að skiptastjóri þyrfti ekki að eiga aðild að málinu.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila.
Sóknaraðili byggir á því að miða skuli upphaf skiptanna við það tímamark er hún leitaði fyrst eftir heimild sýslumanns til skilnaðar að borði og sæng. Hafi hún leitað til fulltrúa sýslumanns 26. september 2001 og óskað eftir að fá útgefið skilnaðarleyfi. Hafi henni verið leiðbeint um að hún yrði jafnframt að leggja fram samning um fjárskipti til þess að skilnaðarleyfi fengist útgefið. Hafi henni verið ómögulegt að leggja fram fjárskiptasamning þar sem ekki hefði tekist samkomulag milli aðila um tilhögun skiptanna. Virðist sem láðst hefði að bóka um fyrirtöku málsins hjá sýslumanni en löglærður fulltrúi hans hafi gefið út yfirlýsingu þar sem staðfest er að sóknaraðili hafi leitað til embættisins vegna skilnaðarmáls síns seinni hluta ársins 2001. Ákvæði 1. mgr. 104. gr. skiptalaga, sbr. 1. mgr. 101. gr. hjúskaparlaga geri ráð fyrir að einungis þær eignir hjóna komi til skipta sem ekki verða taldar séreignir annars þeirra og tilheyrðu þeim þegar yfirvald tók fyrst fyrir umsókn um leyfi til skilnaðar, nema sammæli séu um annað. Staðfesti yfirlýsing fulltrúa sýslumanns að sóknaraðili hafi á haustdögum 2001 leitað til hans vegna skilnaðarmálsins og beri því að miða við það tímamark sem sóknaraðili nefnir í fjárskiptum aðila.
Sóknaraðili bendir á að hún sé ólöglærð og hafi ekki notið aðstoðar lögmanns á því tímamarki en taldi einsýnt að með þessari fyrirtöku málsins hjá sýslumanni hefði með fullnægjandi hætti verið óskað eftir útgáfu skilnaðarleyfis, þrátt fyrir að ekki hefði verið sérstaklega um það bókað. Yrði um frekari frágang að ræða þegar skilnaðarsamkomulag væri frágengið. Verði sóknaraðili ekki látin bera hallann af því að yfirvaldið hefði látið hjá líða að bóka sérstaklega um beiðni sóknaraðila, þannig að upphafstímamark við slit á fjárfélagi aðila verði annað en gert sé ráð fyrir samkvæmt lögum.
Sóknaraðili byggir á því að tilgangurinn með ákvæði 1. mgr. 104. gr. skiptalaga sé fyrst og fremst að afmarka þær eignir sem geti fallið undir skipti þannig að ekki komi til þess að eignir sem hvor aðili um sig afli sér eftir tiltekið tímamark falli undir skipti. Sé þannig ómögulegt að fella undir skipti eignir sem verði til eftir að mál hafi fyrst verið tekið fyrir hjá yfirvaldi, dómsmál verið höfðað o.s.frv. Aftur á móti sé heimilt að fella eignir sem til verði eftir slíkt tímamark undir skipti séu aðilar sammála um það. Ákvæðið feli ekki í sér að unnt sé að fella undir skipti eignir sem sannanlega verða til eftir að aðilar hafa slitið samvistum. Við þetta sé miðað í ákvæðinu varðandi slit á óvígðri sambúð, þ.e. eftir að óvígðri sambúð er slitið geti eignir sem verða til eftir það tímamark ekki komið undir skipti. Verði að miða við það tímamark, því ekki sé gert ráð fyrir því að aflað sé heimildar dómstóla eða yfirvalds til að slíta sambúðinni. Eigi samvistaslit hjóna að hafa sömu réttaráhrif að þessu leyti og sambúðarslit í óvígðri sambúð. Það kunni að leiða til óeðlilegrar og ósanngjarnar niðurstöðu að binda upphafstímamark fjárslita við þau tímamörk sem tilgreind séu í ákvæðinu að öðru leyti og sé það í andstöðu við meginreglur laga og eðli máls.
Sóknaraðili byggir jafnframt á því að milli aðila hafi stofnast samkomulag um hvaða eignir skyldu koma til skipta vegna slita á fjárfélagi þeirra. Sé þannig fyrir hendi skilyrði 1. mgr. 104. gr. skiptalaga, sbr. 1. mgr. 101. gr. hjúskaparlaga að ef ekki verði sammæli um annað þá komi aðeins til skipta þær eignir sem ekki teljist séreignir og tilheyrðu aðilum þegar yfirvald tekur fyrst fyrir umsókn um leyfi til skilnaðar.
Samkvæmt gögnum málsins megi sjá þess glögg merki að aðilar hafi náð samkomulagi um hvaða eignir væru til skipta, ekki hafi náðst samkomulag um uppgjör eigna og skulda þar sem ekki hafi legið fyrir samkomulag um verðmæti einstakra eigna. Þá komi fram í tillögu varnaraðila að skiptum að aðilar hafi slitið samvistum í október 2001. Þá liggi fyrir yfirlýsing frá öðrum lögmanna varnaraðila frá 7. maí 2002 þar sem fram kemur að aðilar hafi ákveðið að slíta samvistum í nóvember 2001. Verði að túlka ákvæði 1. mgr. 104. gr. skiptalaga með hliðsjón af þessari yfirlýsingu þannig að a.m.k. sé samkomulag um eignaskiptingu á því tímamarki. Séu ítrekaðar yfirlýsingar varnaraðila um tímamark samvistaslita og til hvaða eigna skipti skyldu ná óræk sönnun þess að fyrir hafi legið samkomulag um hvaða eignir skyldi fella undir skiptin. Undir rekstri málsins hafi hins vegar komið í ljós fleiri eignir sem skráðar hafi verið á varnaraðila en þær sem tilgreindar hafi verið í fyrstu drögum að skilnaðarsamningi og voru fyrir hendi á því tímamarki sem samvistaslit urðu. Þá liggi fyrir að eftir að aðilar slitu samvistum hafi þau raunverulega slitið fjárfélagi sínu og hagað meðferð fjármála sinna eins og fjárfélaginu hafi verið slitið. Sú háttsemi og ráðstöfun aðila á eignum sínum og fjármálum eftir að þau hafi raunverulega slitið samvistum staðfesti að samkomulag hafi legið fyrir milli þeirra um við hvaða tímamark skyldi miða við slit á fjárfélagi þeirra.
Telur sóknaraðili einsýnt að með því að halda uppi ágreiningi um upphafstímamark skipta geti það leitt til þess að ýmsar síðari tíma ráðstafanir varðandi eignir og skuldir aðila kunni að koma til skipta. Sé sóknaraðila kunnugt um að tilgangur varnaraðila með þessari kröfugerð sé fyrst og fremst að reyna að koma fasteigninni að [...] undir skiptin, en sóknaraðili hafi keypt þessa eign í nóvember 2001. Telur sóknaraðili þó ljóst að fasteignin geti aldrei orðið andlag skipta þar sem um sé að ræða eign sem verði séreign skv. 3. gr. kaupmála aðila frá 30. júní 1992. Umrædd fasteign hafi verið keypt í stað fasteignarinnar að [...], en hún hafi verið séreign sóknaraðila. Þá liggi fyrir að ákvæði 2. mgr. 104. gr. skiptalaga útiloki að greind fasteign komi undir skiptin. Með því að fallast á að miða upphafstímamarkið við kröfugerð sóknaraðila sé í raun eingöngu verið að staðfesta það samkomulag sem fyrir hafi legið við samvistaslit aðila og koma í veg fyrir ófyrirséð vandkvæði við skiptingu eigna og skulda sem kynnu að myndast vegna þess að fyrirtaka með sóknaraðila hafi ekki verið bókuð með formlegum hætti hjá sýslumanni.
Varakrafa er á því byggð að miðað verði við yfirlýsingar varnaraðila um það hvenær samvistaslit áttu sér stað og verði þá miðað við 1. október 2001 í því sambandi.
Málsástæður og lagarök varnaraðila.
Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili hafi sótt um skilnað að borði og sæng 22. ágúst 2002 en áður hafi verið leitað eftir samkomulagi um skilnaðarkjör, þ. á m. um skiptingu eigna og skulda. Hafi þessar þreifingar reynst árangurslausar og aldrei hafi verið gengið frá neinu samkomulagi í því efni. Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. hjúskaparlaga skal við úrlausn um eignir og skuldir skv. 99. gr. og 100 gr. miða við það tímamark er sýslumaður tók fyrst fyrir umsókn um leyfi til skilnaðar að borði og sæng, nema sammæli verði um annað, en svo hafi ekki verið. Sams konar ákvæði sé í 1. mgr. 104. gr. skiptalaga og sé því ljóst að tímamarkið sé 22. ágúst 2002. Varnaraðili mótmælir því að samvistaslit ráði þessu tímamarki, þar sem ótvíræð lagaákvæði tiltaki með skýrum hætti að formleg skýrslutaka hjá sýslumanni ráði því hvaða eignir og skuldir komi til skipta.
Varnaraðili vísar um málskostnað til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Niðurstaða.
Ágreiningur aðila í máli þessu lýtur eingöngu að því við hvaða tímamark skuli miða upphaf skipta á búi þeirra. Heldur sóknaraðili því fram að miða beri við 26. september 2001, en þá hafi hún leitað til sýslumanns og óskað eftir leyfi til skilnaðar að borði og sæng. Varnaraðili heldur því hins vegar fram að miða beri við 22. ágúst 2002, en þá hafi fyrst verið bókuð með formlegum hætti fyrirtaka hjá sýslumanni þar sem sóknaraðili krefst skilnaðar að borði og sæng.
Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 skal við úrlausn um eignir og skuldir samkvæmt 99. og 100. gr. miða við það tímamark er sýslumaður tók fyrst fyrir umsókn um leyfi til skilnaðar, nema sammæli sé um annað. Sambærileg regla er í 1. mgr. skiptalaga nr. 20/1991, en samkvæmt því ákvæði koma aðeins til skipta þær eignir og þau réttindi aðilanna sem ekki verða taldar séreignir annars þeirra og tilheyrðu þeim þegar yfirvald tók fyrst fyrir umsókn um leyfi til skilnaðar ef ekki verða sammæli um annað. Sú fullyrðing sóknaraðila að hún hafi komið á embætti sýslumannsins [...] 26. september 2001 í því skyni að óska eftir skilnaðarleyfi hefur ekki verið hrakin. Í yfirlýsingu fulltrúa sýslumanns kemur að vísu fram að hún hafi komið á skrifstofu embættisins í þeim tilgangi að fá upplýsingar um feril skilnaðarmála, en um þessa heimsókn hennar er ekkert bókað hjá embættinu. Sóknaraðili er ólöglærð og í ljósi mikilvægis ofangreindra lagaákvæða um það við hvaða tímamark skuli miða við opinber skipti vegna skilnaðar verður að telja brýnt að sýslumaður hefði upplýst hana um það, en ekki kemur fram hvort það hafi verið gert. Í þeim lagagreinum sem hér hefur verið vitnað til kemur ekki fram hvert form skuli vera á fyrirtöku sýslumanns. Þegar framanritað er virt verður að telja nægilega upplýst að sóknaraðili hafi komið á skrifstofu sýslumanns 26. september 2001 í því skyni að leggja fram umsókn um leyfi til skilnaðar að borði og sæng og verður því að telja að um fyrirtöku í skilningi 101. gr. hjúskaparlaga og 104. gr. skiptalaga hafi verið að ræða. Verður hún ekki látin bera hallann af því að láðst hafi að færa heimsókn hennar til bókar. Samkvæmt framansögðu verður aðalkrafa sóknaraðila því tekin til greina.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kveður upp úrskurðinn. Uppkvaðning hans hefur dregist vegna embættisanna dómarans, en dómari og lögmenn aðila töldu endurflutning óþarfan.
ÚRSKURÐARORÐ:
Fallist er á þá kröfu sóknaraðila, K, að upphafstímamark við opinber skipti á búi hennar og varnaraðila, M, skuli vera 26. september 2001.
Málskostnaður fellur niður.