Hæstiréttur íslands
Mál nr. 473/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarsala
- Úthlutun söluverðs
- Veðréttur
|
|
Föstudaginn 23. janúar 2004. |
|
Nr. 473/2003. |
Kristín Tryggvadóttir(Björn L. Bergsson hrl.) gegn þrotabúi Þorsteins V. Þórðarsonar (Helgi Birgisson hrl.) |
Kærumál. Nauðungarsala. Úthlutun söluverðs. Veðréttur.
Ekki var fallist á að K ætti rétt á þeim hluta eftirstöðva sem þrotabúið fékk úthlutað af söluandvirði fasteignar þar sem veðskuldir á 1.-5. veðrétti í fasteigninni hvíldu bæði á eignarhluta K og eiginmanns hennar en krafan á 6. veðrétti eingöngu á hennar eignarhluta. Var úthlutun sýslumanns vegna nauðungarsölu fasteignarinnar því staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. desember 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. nóvember 2003, þar sem staðfest var frumvarp sýslumannsins í Reykjavík 26. september sama árs um úthlutun söluverðs fasteignarinnar Fannafoldar 21 í Reykjavík við nauðungarsölu. Kæruheimild er í 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst aðallega að frumvarpi sýslumannsins í Reykjavík verði breytt þannig að tilteknum eftirstöðvum að fjárhæð 3.573.389 krónur, sem varnaraðili fékk úthlutað af söluandvirði eignarinnar, verði ráðstafað til hennar. Þá krefst hún kærumálskostnaðar. Til vara krefst sóknaraðili að málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður verði felldur niður.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða sér kærumálskostnað.
Málasatvik og málsástæður aðila eru raktar í hinum kærða úrskurði, en ágreiningur sem tengist úrlausnarefni málsins hefur tvívegis áður verið borinn undir Hæstarétt. Með dómi réttarins 21. júní 2001 í máli nr. 111/2001 var meðal annars viðurkenndur veðréttur Lífeyrissjóðs starfsmanna Áburðarverksmiðju ríkisins samkvæmt nánar tilgreindri kröfu sjóðsins á hendur eiginmanni sóknaraðila, Þorsteini V. Þórðarsyni, í eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni Fannafold 21 í Reykjavík. Þá var með dómi réttarins 1. september 2003 í máli nr. 311/2003 fallist á kröfu þrotabús Þorsteins V. Þórðarsonar um að hnekkja ákvörðun sýslumanns og honum gert að breyta frumvarpi til úthlutunar á söluverði fyrrnefndrar fasteignar á þann veg að ekki yrði úthlutað til bróður sóknaraðila, Jóhannesar Tryggvasonar, af hluta varnaraðila í eigninni vegna kröfu Jóhannesar, sem hvíldi á 6. veðrétti, þar sem um málamyndagerning hefði verið að ræða.
Í málinu liggur fyrir að veðskuldir á 1.-5. veðrétti í fasteigninni Fannafold 21 í Reykjavík hvíldu bæði á eignarhluta sóknaraðila og eiginmanns hennar. Átti það einnig við um skuld hans við Lífeyrissjóð starfsmanna Áburðarverksmiðju ríkisins á 5. veðrétti. Þótt sóknaraðili kunni að eiga endurkröfurétt þar eð sá veðréttur náði til eignarinnar í heild fyrir skuld Þorsteins eins, verður ekki leyst úr því í þessu máli. Getur það engu breytt um að fjárhæðin sem eftir stóð af söluverði eignarinnar, þegar áðurgreindar skuldir á 1.-5 veðrétti og kostnaður var greiddur, var eign beggja málsaðila. Krafan á 6. veðrétti náði ekki til eignarhluta varnaraðila, sbr. fyrrgreindan dóm Hæstaréttar 1. september 2003, heldur eingöngu eignarhluta sóknaraðila, svo sem frumvarp sýslumanns um úthlutun söluverðs eignarinnar 26. september 2003 gerði ráð fyrir. Fallist er á þá niðurstöðu héraðsdóms að mótmæli sóknaraðila við frumvarpinu hafi verið innan lögmælts frests.
Að öllu framangreindu virtu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest um annað en málskostnað.
Sóknaraðili verður dæmd til að greiða varnaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins í dómsorði segir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.
Sóknaraðili, Kristín Tryggvadóttir, greiði varnaraðila, þrotabúi Þorsteins V. Þórðarsonar, samtals 250.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. nóvember 2003.
Sóknaraðili er Kristín Tryggvadóttir, kt. 110643-4629, Kórsölum 3, Kópavogi.
Varnaraðili er þrotabú Þorsteins V. Þórðarsonar, kt. 060843-4819, Klapparstíg 29, Reykjavík.
Dómkröfur sóknaraðila eru að breytingu sýslumannsins í Reykjavík á frumvarpi til úthlutunar söluverðs fasteignarinnar Fannafold 21, Reykjavík, frá 26. september 2003 verði breytt þannig að 3.573.389 kr. samkvæmt tölulið 10 í úthlutun B í frumvarpinu verði ráðstafað til sóknaraðila í stað þrotabús Þorsteins V. Þórðarsonar. Þá er þess krafist að varnaraðili verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að mati dómsins.
Dómkröfur varnaraðila eru að staðfest verði frumvarp sýslumannsins frá 26. september 2003 að úthlutun söluverðs Fannafoldar 21 í Reykjavík. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati réttarins.
Helstu málavextir eru að fasteignin Fannafold 21 í Reykjavík, þinglýst eign sóknaraðila og varnaraðila, var seld nauðungarsölu á uppboði 30. september 2002. Deila reis um frumvarp sýslumanns til úthlutunar á söluverði, sem hann gerði 12. nóvember 2002. Leitað var úrlausnar héraðsdóms um ágreininginn. Héraðsdómari kvað upp úrskurð 23. júlí sl. þar sem úrskurðað var að frumvarpi sýslumanns skyldi breytt með ákveðnum hætti. Með kæru 6. ágúst sl. var málinu skotið til Hæstaréttar Íslands og með dómi 1. september sl. var hinn kærði úrskurður staðfestur.
Þann 26. september sl. gaf sýslumaður út annað frumvarp til úthlutunar á söluverði eignarinnar, 17.700.000 kr., sem hann tjáði gefið út í samræmi við dóm Hæstaréttar Íslands varðandi lausn á ágreiningi um frumvarpið frá 12. nóvember 2002. Með bréfi, sem móttekið var hjá sýslumanni 9. október sl., krafðist sóknaraðili þess að frumvarpinu yrði breytt svo sem krafist er í máli þessu. Þann 14. október sl. var tekið fyrir hjá sýslumanni að halda fund vegna mótmæla sóknaraðila. Af hálfu varnaraðila var krafist að frumvarpið stæði óbreytt þar sem sóknaraðili gerði nú nýja kröfu um greiðslu af söluverði eignarinnar en samkvæmt 3. mgr. 52. gr. laga nr. 90/1991, sbr. 51. gr. sömu laga, komist krafan ekki að nema fyrir liggi samþykki allra þeirra er slík breyting varðar. Sýslumaður ákvað þá gegn rökstuddum andmælum sóknaraðila að láta hið nýja frumvarp standa óbreytt.
Sóknaraðili byggir á því að ráðstafa eigi óskertum til hennar 3.573.389 kr. sem frumvarpið gerir ráð fyrir að gangi til varnaraðila. Fasteignin Fannafold 21 hafi verið hjúskapareign þeirra Þorsteins V. Þórðarsonar og sóknaraðila. Vegna gjaldþrots Þorsteins hafi þrotabú hans tekið við réttindum hans til fasteignarinnar en réttur þrotabúsins geti aldrei orðið annar og meiri heldur en Þorsteins sjálfs í lögskiptum við sóknaraðila. Óvefengt sé að Lífeyrissjóður starfsmanna Áburðarverksmiðju ríkisins hafi átt kröfu á hendur Þorsteini V. Þórðarsyni samkvæmt veðtryggingarbréfi með veði í Fannafold 21. Sóknaraðili hafi hins vegar ekki skuldað lífeyrissjóðnum. Skuld Þorsteins við lífeyrissjóðinn sé fjárfélagi þeirra hjóna algerlega óviðkomandi og ber sóknaraðili enga ábyrgð á þeirri skuld.
Sameiginlegar skuldbindingar þeirra hjóna sem rekja megi til kaupa á fasteigninni, að meðtöldum uppboðskostnaði, nema samanlagt 2.985.764 kr. Að þeim skuldbindingum greiddum væru greiddar 3.729.615 kr. af eignarhluta hvors eiganda upp í veðtryggingarkröfu Lífeyrissjóðs starfsmanna Áburðarverksmiðju ríkisins og raunar krónu betur af eignarhluta varnaraðila, eða samtals 7.459.231 kr., næði frumvarpið fram að ganga. Samkvæmt frumvarpinu sé 3.627.503 kr. af eftirstöðvunum af eignarhluta sóknaraðila ráðstafað upp í kröfu Jóhannesar Tryggvasonar en gert svo ráð fyrir að 3.573.389 kr. verði ráðstafað til varnaraðila. Sé það lagt til þrátt fyrir að hærri fjárhæð sé þegar ætlað af eignarhluta sóknaraðila til hagsbóta fyrir kröfuhafa varnaraðila heldur en greindum eftirstöðvum nemur.
Nái kröfugerð þrotabúsins fram að ganga í máli þessu, telur sóknaraðili að jafnræði milli hennar og Þorsteins sé raskað verulega. Greiddar yrðu ríflega 7,4 milljónir króna beint til kröfuhafa Þorsteins og 3,6 milljónum svo ráðstafað til þrotabús hans, kröfuhöfum hans til hagsbóta. Samtals komi þannig ríflega 11 milljónir króna í hlut Þorsteins, eða þeirra sem leiða rétt sinn af hans réttindum, en Jóhannes Tryggvason, kröfuhafi, sem telur til réttar yfir eignarhluta sóknaraðila, fái rétt liðlega 3,6 milljónir króna og eigi þá aðra eins fjárkröfu á hendur sóknaraðila ógreidda. Slík niðurstaða fái ekki staðist. Breyti engu í þessu sambandi þó að sóknaraðili teljist hafa samþykkt veðsetningu á eignarhluta sínum í Fannafold 21 til tryggingar veðtryggingarbréfi Lífeyrissjóðs starfsmanna Áburðarverksmiðju ríkisins. Þó að sóknaraðili hafi gefið slíkar ábyrgðaryfirlýsingar rýri það ekki rétt hennar í lögskiptum við eiginmann sinn eða þá sem að lögum koma í hans stað.
Í annan stað er á því byggt að kröfugerð þrotabúsins eigi ekki af öðrum ástæðum við rök að styðjast. Kröfuhafar í þrotabúi Þorsteins séu tveir. Annars vegar Lífeyrissjóður starfsmanna Áburðarverksmiðju ríkisins og hins vegar sóknaraðili sjálf, eftir að hún leysti til sín kröfu Sveins Sæmundssonar. Lífeyrissjóðurinn hafi lýst um það bil 90% hærri kröfu í þrotabúið en krafa sú nemur sem sóknaraðili á á hendur þrotabúinu. Lífeyrissjóðurinn sé sá eini sem sæki á. Í því ljósi sé ótvírætt að þrotabúið geti ekki átt betri rétt heldur en eini kröfuhafinn sem telur sig hafa hag af kröfugerð búsins í söluandvirði Fannafoldar 21. Því hafi verið lýst afdráttarlaust yfir af hálfu lögmanna Lífeyrissjóðs starfsmanna Áburðarverksmiðju ríkisins fyrir dómi að markmiðið með veðsetningu eignarhluta Þorsteins V. Þórðarsonar hafi verið að tryggja að eignin væri til ráðstöfunar færi svo að bótakrafa yrði dæmd á hendur honum. Því hafi jafnframt verið lýst yfir að fjárhæð tryggingabréfsins hafi tekið mið af ætluðum eignarhluta Þorsteins í fasteigninni, þ.e. helmingi af nettóandvirði eignarinnar, að frádregnum áhvílandi lánum. Þá hafi því verið lýst yfir tæpitungulaust að ekki hafi staðið til að rýra eða ganga á eignarrétt sóknaraðila á neinn hátt með þessari veðsetningu. Þessi fyrirætlun lífeyrissjóðsins hafi skilmerkilega verið lýst fyrir dómi. Lífeyrissjóði starfsmanna Áburðarverksmiðju ríkisins sé ekki stætt á því að víkja frá afdráttarlausum yfirlýsingum lögmanna lífeyrissjóðsins sem gefnar voru fyrir hans hönd. Yfirlýsingar þessar séu skuldbindandi fyrir lífeyrissjóðinn. Þá er á því byggt að þrotabú Þorsteins V. Þórðarsonar geti ekki áskilið sér betri rétt en eini kröfuhafinn í búið sem knúið hefur á um kröfugerð þrotabúsins. Þrotabúið sé bundið af yfirlýsingum lífeyrissjóðsins í þessum efnum þar sem áskilnaður lífeyrissjóðsins um frekari greiðslur geti ekki orðið réttari fyrir það eitt að þrotabúið sé notað sem milliliður. Réttindi Lífeyrissjóðs starfsmanna Áburðarverksmiðju ríkisins gagnvart sóknaraðila séu þau sömu hvort sem lífeyrissjóðurinn heldur þeim fram beint við sóknaraðilann eða með fulltingi þrotabúsins. Sama gildir um skuldbindandi yfirlýsingar lífeyrissjóðsins.
Sóknaraðili mótmælir sérstaklega því sem var haldið fram af varnaraðila fyrir sýslumanni að ákvæði 3. mgr. 52. gr. laga 90/1991 standi því í vegi að krafa hennar nái fram að ganga. Ekki sé um nýja kröfu um greiðslu af uppboðsandvirði að ræða. Sóknaraðili hafi áskilið sér rétt til umdeildrar úthlutunar af söluverði um leið og tilefni varð til. Þegar varnaraðili mótmælti úthlutun til Jóhannesar Tryggvasonar, sem sóknaraðili taldi eiga rétt á sér og hreyfði því ekki athugasemdum við, hafi verið bókað sérstaklega í gerðarbók sýslumanns þann 17. desember 2002 að færi svo að frumvarpinu yrði breytt þá ætti að úthluta allri hinni umdeildu fjárhæð til sóknaraðila.
Varnaraðili byggir aðallega á því að gegn kröfu hans um að héraðsdómur staðfesti frumvarp sýslumannsins sé krafa sóknaraðila um umdeilda úthlutun af eignarhluta þrotabúsins í Fannafold 21 of seint fram komin. Samkvæmt frumvarpi sýslumannsins 12. nóvember 2002 til úthlutunar á söluandvirði Fannafoldar 21 hafi verið gert ráð fyrir að 7.200.890 kr. kæmu í hlut Jóhannesar Tryggvasonar. Athugasemdir við frumvarpið skyldu berast sýslumanni í síðasta lagi kl. 12:00 miðvikudaginn 27. nóvember 2002. „Að öðrum kosti skoðast frumvarpið samþykkt og verður lagt til grundvallar við úthlutun söluverðsins," segi í frumvarpinu, sbr. l. mgr. 51. gr. laga um nauðungarsölu. Sóknaraðili hafi ekki gert athugasemdir við frumvarpið fyrr en 17. desember 2002, réttum 20 dögum eftir að frestur leið. Í þessu sambandi bendir varnaraðili sérstaklega á að mótmæli hans við frumvarpinu hafi ekki veitt sóknaraðila ríkari frest, sbr. 3. mgr. 52. gr. laga um nauðungarsölu. Þetta komi einnig skýrt fram í greinargerð með 52. gr. þar sem segir: „Þótt mótmæli valdi því að endanleg úthlutunargerð á söluverði teljist ekki fyrir hendi fyrr en á síðari stigum, verður að hafa í huga að önnur atriði varðandi úthlutunina en þau, sem mótmælin kunna að geta raskað, yrðu að skoðast útkljáð við lok fresta skv. 51. gr."
Með dómi Hæstaréttar 21. júní 2001 í málinu nr. 111/2001 hafi verið staðfest að veðskuldabréfið á 5. veðrétti næði einnig til eignarhluta sóknaraðila. Varnaraðili mótmælir því að breyting sýslumanns á frumvarpi til úthlutunar í samræmi við dóm Hæstaréttar með greiðslu til varnaraðila á helmingi þess söluandvirðis sem eftir stendur raski jafnræði milli aðilanna. Væri fallist á málatilbúnað sóknaraðila væri litið fram hjá því að eignarhluti sóknaraðila var veðsettur með eignarhluta þrotamanns. Í ljósi þess að báðir eignarhlutarnir voru veðsettir sé ekki um neina röskun að ræða. Sóknaraðili hafi ákveðið sjálf að rýra eignarhluta sinn með veðsetningunni til Lífeyrissjóðs starfsmanna Áburðarverksmiðju ríkisins. Þannig leiði hvorki þinglýst eignarréttindi sóknaraðila né réttindi hennar skv. sifjarétti til þess að krafa hennar eigi að ná fram að ganga.
Að lokum er því mótmælt að lífeyrissjóðurinn hafi gefið bindandi yfirlýsingu þess efnis að ekki yrði um skerðingu á hlut varnaraðila að ræða kæmi til þess að gengið yrði að umræddri veðskuldbindingu. Mál þetta geti ekki snúist um lögskipti lífeyrissjóðsins og varnaraðila og ætlað loforð þess fyrrnefnda. Engu skipti í því sambandi þótt lífeyrissjóðurinn sé eini kröfuhafinn í þrotabúið eftir að sóknaraðili leysti til sín kröfur annarra.
Niðurstaða: Í frumvarpi sýslumanns til úthlutunar á söluverði sem hér um ræðir frá 26. september 2003 segir m.a.:
Athugsemdir við 3. og/eða 10. tl í úthlutun B til þrotabús Þorsteins V. Þórðarsonar í frumvarpi þessu, ef einhverjar eru, verða að hafa borist til skrifstofu sýslumannsins í Reykjavík, fullnustudeild, í síðasta lagi fyrir kl. 12.00 föstudaginn 10. október nk.
Mótmæli sóknaraðila voru móttekin hjá sýslumanni 9. október 2003 og því innan þess frests sem sýslumaðurinn setti og innan lögmætra tímamarka varðandi atriði frumvarpsins, sem voru breytingar á upphaflega frumvarpinu frá 12. nóvember 2002, til samræmis við dóm Hæstaréttar Íslands frá 1. september 2003.
Í frumvarpi til úthlutunar á söluverði fasteignarinnar Fannafold 21 í Reykjavík frá 12. nóvember 2002 var lagt til að söluandvirðið, 17.700.000 kr., rynni fyrst upp í sölulaun í ríkissjóð og kostnað með ákveðnum hætti og síðan upp í veðkröfur á fyrsta til og með fimmta veðrétti, samtals að fjárhæð 10.499.110 kr. Það sem eftir stæði, 7.200.890 kr., kæmi upp í greiðslu á handhafaskuldabréfi á sjötta veðrétti í eigu Jóhannesar Tryggvasonar, sem er bróðir sóknaraðila. Af hálfu varnaraðila var því mótmælt að nokkuð af uppboðsandvirðinu rynni til greiðslu á þessu handhafaskuldabréfi á sjötta veðrétti.
Fundur var haldinn hjá sýslumanni 17. desember 2002 út af andmælum varnaraðila. Af hálfu Jóhannesar Tryggvasonar var þess krafist á fundinum að frumvarpið stæði óbreytt. Af hálfu sóknaraðila var tekið undir þá kröfu, en færi svo að fallist yrði á mótmæli varnaraðila, var þess jafnframt krafist, að umdeildum hluta uppboðsandvirðisins yrði úthlutað sóknaraðila. Við svo búið ákvað sýslumaður að láta frumvarpið standa óbreytt.
Ágreiningur þessi var borinn undir héraðsdóm þar sem Jóhannes Tryggvason og sóknaraðili kröfðust staðfestingar á ákvörðun sýslumanns. Sóknaraðili krafðist hins vegar til vara, færi svo að úthlutun til Jóhannesar yrði hafnað, að umdeildum fjármunum, 7.200.890 kr., yrði ráðstafað óskipt til hennar. Héraðsdómur taldi ekki unnt að fjalla um varakröfu sóknaraðila þar sem úr henni hafði ekki verið leyst hjá sýslumanni. Og í úrskurðarorði segir m.a:
Frumvarp sýslumanns að úthlutunargerð söluandvirðis fasteignarinnar Fannafold 21 skal breytt á þann veg að ekki verði úthlutað til varnaraðila, Jóhannesar Tryggvasonar, af hluta sóknaraðila, þrotabús Þorsteins V. Þórðarsonar.
Með vísan til forsendna var úrskurðurinn staðfestur í Hæstarétti Íslands 1. september 2003.
Með þessum dómi varð hlutur Jóhannesar til söluverðs eignarinnar, samkvæmt frumvarpi sýslumanns frá 12. nóvember 2002, skertur á þann veg að ekki verður úthlutað til hans af hluta þrotabús Þorsteins V. Þórðarsonar, sem var helmingur umræddrar fasteignar. Rétt var því, svo sem frumvarp sýslumannsins frá 26. september 2003 gerir ráð fyrir, að helmingur af andvirði eignarinnar gangi til þrotabúsins, að frádregnum helmingi af kostnaði við söluna og helmingi af óumdeildum veðkröfum, en hinn helmingurinn til sóknaraðila, Kristínar Tryggvadóttur, að frádregnum helmingi af kostnaði við söluna og helmingi af veðkröfum svo langt sem helmingur af söluandvirðinu dugir til.
Samkvæmt framangreindu og að öðru leyti með vísun til rökstuðnings varnaraðila verður frumvarp sýslumannsins í Reykjavík frá 26. september 2003 að úthlutun söluverðs Fannafoldar 21 í Reykjavík staðfest.
Rétt er að sóknaraðili greiði varnaraðila 250.000 kr. í málskostnað. Er þá litið til virðisaukaskatts.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Frumvarp sýslumannsins í Reykjavík frá 26. september 2003 til úthlutunar á söluverði fasteignarinnar Fannafold 21 í Reykjavík, sem seld var nauðungarsölu á uppboði 30. september 2002, er staðfest.
Sóknaraðili, Kristín Tryggvadóttir, greiði varnaraðila, þrotabúi Þorsteins V. Þórðarsonar, 250.000 kr. í málskostnað.