Hæstiréttur íslands

Mál nr. 225/2010


Lykilorð

  • Dómsuppkvaðning
  • Heimvísun
  • Ómerking héraðsdóms


Mánudaginn 21. júní 2010.

Nr. 225/2010.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson saksóknari)

gegn

X

(Óskar Sigurðsson hrl.)

Dómsuppkvaðning. Ómerking Héraðsdóms. Heimvísun

Þar sem meira en fjórar vikur höfðu liðið frá munnlegum málflutningi til dómsuppsögu í héraði var hinn áfrýjaði dómur, með hliðsjón af fordæmi Hæstaréttar, ómerktur og lagt fyrir héraðsdómara að taka það til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. apríl 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um sakfellingu og refsingu ákærða.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð.

Ákveðið var að fjalla um formhlið málsins fyrir Hæstarétti, en sækjandi og verjandi ákærða töldu óþarft að munnlegur málflutningur færi fram um það efni, sbr. 1. mgr. 205. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Málið var tekið til dóms í héraði við lok aðalmeðferðar 19. febrúar 2010. Hinn áfrýjaði dómur var upp kveðinn 23. mars sama ár. Samkvæmt þessu leið lengri tími en fjórar vikur frá því að málið var dómtekið þar til dómur var kveðinn upp. Samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 bar vegna þessa dráttar að flytja málið á ný, nema dómari og aðilar teldu það óþarft. Í endurriti vegna þinghalds, sem háð var til uppkvaðningar dóms, er bókað að fulltrúi sýslumanns sé mættur af hálfu ákæruvalds og að ákærði ásamt verjanda sínum sæki einnig þing. Hvorki er bókað að málið hafi verið flutt að nýju né að dómari og aðilar máls teldu það óþarft. Eins og áður greinir var málinu áfrýjað til Hæstaréttar 8. apríl 2010. Greinargerð ákærða til Hæstaréttar er dagsett 25. maí 2010, en greinargerð ákæruvalds 2. júní sama ár.

Hæstarétti barst bréf ríkissaksóknara 8. júní 2010, en með því fylgdi bréf dómstjóra Héraðsdóms Suðurlands 4. sama mánaðar og leiðrétt endurrit úr þingbók í héraðsdómsmálinu. Segir í bréfi dómstjóra að láðst hafi að geta þess í upphaflegu endurriti að sakflytjendur teldu ekki þörf á endurflutningi málsins. Dómstjóri kveðst hafa haft ,,samband við dómara málsins, sækjanda og verjanda og staðfesta þau öll að láðst hafi að færa ofangreinda yfirlýsingu til bókar.“ Í hinu leiðrétta endurriti segir meðal annars: ,,Sakflytjendur lýsa því yfir að þeir telji ekki þörf endurflutnings.“

Samkvæmt framansögðu lá ekki fyrir við uppkvaðningu dómsins að bókað væri að sakflytjendur og dómari málsins teldu að ekki væri þörf á endurflutningi þess, samanber til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 22. janúar 2009 í máli nr. 271/2008. Vegna þessa verður ekki hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Rétt er að ákvörðun sakarkostnaðar í héraði bíði þess að efnisdómur gangi þar á ný en allur áfrýjunarkostnaður málsins skal greiðast úr ríkissjóði þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, samtals 222.051 króna, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Óskars Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.