Hæstiréttur íslands

Mál nr. 831/2017

Ævar Guðmundsson (Jóhannes Albert Sævarsson lögmaður)
gegn
Sjúkratryggingum Íslands (Erla S. Árnadóttir lögmaður) og íslenska ríkinu (María Thejll lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjafsókn
  • Málskostnaður

Reifun

Æ kærði úrskurð héraðsdóms og krafðist þess að fjárhæð málflutningsþóknunar lögmanns hans vegna gjafsóknar í héraði yrði ákveðin hærri en gert var í hinum kærða úrskurði. Í dómi Hæstaréttar kom fram að tímaskýrsla lögmanns Æ væri trúverðug miðað við umfang málsins og var því fallist á að hækka gjafsóknarþóknun hans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. desember 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 10. janúar 2018. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. desember 2017, þar sem leyst var úr ágreiningi aðila um málskostnað og kveðið á um gjafsóknarkostnað stefnanda í máli þeirra sem að öðru leyti var lokið með dómsátt. Kæruheimild var í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að honum verði dæmdur gjafsóknarkostnaður að skaðlausu samkvæmt málskostnaðarreikningi en til vara að þóknunin verði ákveðin að mati réttarins. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn Sjúkratryggingar Íslands krefst aðallega kærumálskostnaðar en til vara að hann verði felldur niður.

Varnaraðilinn, íslenska ríkið, krefst þess að kærumálskostnaður verði felldur niður.

Sóknaraðili styður kröfu sína um hækkun gjafsóknarkostnaðar við tímaskýrslu lögmanns hans en samkvæmt henni varði hann 89,25 útseldum stundum til málsins. Tímaskýrsla þessi er trúverðug miðað við umfang málsins og er fallist á að hækka beri gjafsóknarþóknun lögmanns sóknaraðila á þann veg sem í dómsorði greinir.

Rétt er að kærumálskostnaður falli niður.

Dómsorð:

Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, Ævars Guðmundssonar, í héraði greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Jóhannesar Alberts Sævarssonar, 1.800.000 krónur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. desember 2017

Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar í dag, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Ævari Guðmundssyni, Kirkjubraut 21, Seltjarnarnesi á hendur Sjúkratryggingum Íslands og íslenska ríkinu, með stefnu birtri 18. júní 2015.

Stefnandi krefst viðurkenningar á bótaskyldu beggja stefndu vegna tjóns er hann varð fyrir vegna mistaka starfsfólks FSA við greiningu og meðferð hinn 22. júní 2009 í kjölfar höfuðáverka er hann hlaut. Þá krefst stefnandi málskostnaðar eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaður úr hans hendi.

Sátt hefur tekist með málsaðilum um annað en málskostnað. Stefnandi gerir kröfu um málskostnað sér til handa úr hendi stefndu eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál. Stefndu mótmæla málskostnaðarkröfunni.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður og hvor aðili beri sinn hluta kostnaðar af málinu.

Gjafsóknarleyfi stefnanda er frá 9. nóvember 2015. Því greiðist allur kostnaður þess úr ríkissjóði. Þegar málið er virt í heild sinni, meðferð þess og umfang, þykir málflutningsþóknun lögmanns stefnanda hæfilega metin svo sem greinir í úrskurðarorði. Er þá ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Málskostnaður milli aðila fellur niður.             

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Jóhannesar Alberts Sævarssonar hrl., 990.000 krónur.