Hæstiréttur íslands
Mál nr. 488/2014
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Dómur
- Vitni
- Ómerking héraðsdóms
|
|
Fimmtudaginn 5. mars 2015. |
|
Nr. 488/2014.
|
Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari) gegn X (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) (Einar Gautur Steingrímsson hrl. réttargæslumaður) |
Kynferðisbrot. Dómur. Vitni. Ómerking héraðsdóms.
X var ákærður fyrir tvö kynferðisbrot gegn A. Var X í héraði dæmdur til 4 ára fangelsisvistar auk þess sem honum var gert að greiða A miskabætur. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í ákæruliðum, sem voru tveir, væri lýst ólíkri háttsemi og ljóst væri að einhver tími hefði liðið milli atburða á hvorum stað fyrir sig. Brýna nauðsyn hefði því borið að taka hvorn ákærulið um sig til sjálfstæðrar úrlausnar og draga saman það sem dómurinn teldi sannað um ætlaða háttsemi ákærða undir hvorum ákærulið fyrir sig. Það hefði ekki verið gert í hinum áfrýjaða héraðsdómi, heldur hefði í niðurstöðu hans verið steypt saman röksemdum fyrir sekt ákærða án nokkurrar sundurgreiningar, án þess að rakinn væri framburður ákærða og vitna og gerð grein fyrir öðrum sönnunargögnum varðandi hvorn ákærulið fyrir sig og án þess að brotin hefðu hvort fyrir sig verið heimfært til þeirra hegningarlagaákvæða sem í ákæru greindi. Þá hefði verið full ástæða til að rekja niðurstöður framlagðra vottorða varðandi afleiðinga ætlaðra brota ákærða þar sem þau gætu haft áhrif á ákvörðun refsingar og bóta. Samkvæmt ofansögðu hefði samning dómsins að verulegu leyti verið í andstöðu við f. og g. liði 2. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Loks var talið að héraðsdómur hefði borið að leggja fyrir ákæruvaldið að leiða nánar nafngreint vitni fyrir dóm til skýrslugjafar um þau atvik sem vitnið hefði lýst fyrir lögreglu, sbr. 2. mgr. 110. gr. og 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008. Var hinn áfrýjaði dómur því ómerktur og lagt fyrir héraðsdóm að leggja dóm á málið að nýju, að undangenginni skýrslugjöf ofangreinds vitnis fyrir dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 7. júlí 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist sakfellingar samkvæmt ákæru og að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur, til vara að hann verði sýknaður en að því frágengnu að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð.
A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 3.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. mars 2013 til 11. júlí 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
I
Samkvæmt ákæru eru ákærða gefin að sök „kynferðisbrot gegn A ... framin aðfaranótt fimmtudagsins 28. mars 2013, á [...], með því að hafa við hana samræði og önnur kynferðismök með því að beita hana ólögmætri nauðung vegna aðstöðumunar sem ákærði notfærði sér vegna andlegra og líkamlegra yfirburða ... og með því að notfæra sér ölvunarástand hennar þannig að hún gat ekki spornað við verknaðinum“. Nánari grein var gerð fyrir ætlaðri refsiverðri háttsemi ákærða í tveimur ákæruliðum og hún talin varða við 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þannig var ákærða annars vegar gefið að sök að hafa að [...] á skemmtistaðnum [...] káfað á brjóstum og kynfærum brotaþola og látið hana sjúga á sér kynfærin. Hins vegar var ákærði sakaður um að hafa að [...] sömu nótt, stungið fingri í leggöng brotaþola og beitt hana ofbeldi og hótunum, notfært sér líkamsþyngd sína og líkamlega yfirburði til að halda henni fastri, beitt hana handafli, afklætt hana að neðan og glennt fætur hennar í sundur og haft þannig við hana samræði, en afleiðingar þessa voru í ákæru taldar vera marblettir á innanverðu læri, mar á hendi, framhandlegg og kálfa.
Í hinum áfrýjaða dómi er málsatvikum lýst og stuttlega gerð grein fyrir framburði vitna. Í niðurstöðu hans er rakið að brotaþoli hafi munað takmarkað eftir atvikum er átt hafi sér stað á skemmtistaðnum, en munað meira eftir atvikum frá [...]. Þá er rakið að framburður þáverandi samstarfsmanns ákærða og eiginkonu þess manns sé afdráttarlaus um að sökum ölvunar hafi brotaþoli verið rænulítil eða rænulaus á skemmtistaðnum. Jafnframt er þar rakinn framburður vinkonu brotaþola, sem hún mun hafa heimsótt fyrr um kvöldið, og framburður frænku brotaþola sem brotaþoli fór til morguninn 28. mars 2013 eftir ætluð atvik.
Í rökstuðningi héraðsdóms fyrir sakfellingu ákærða segir að brotaþoli hafi verið trúverðug í framburði sínum fyrir dóminum. Hafi hún lýst því að ákærði hafi með valdi glennt fætur hennar í sundur að [...] og samrýmdist það vottorði um áverka hennar. Þá segir í dóminum að þegar litið sé til framburðar vitna um rænulítið ástand brotaþola þessa nótt á skemmtistaðnum, framburðar frænku brotaþola um klæðnað og ástand hennar að öðru leyti næsta morgun, hliðsjón höfð af marblettum á innanverðu læri hennar, er samrýmist frásögn hennar um valdbeitingu ákærða, og litið til trúverðugs framburðar hennar, sé hafið yfir allan vafa að ákærði hafi brotið gegn brotaþola þessa nótt ,,með því að beita hana ofbeldi og ólögmætri nauðung og hafa við hana samræði og önnur kynferðismök, sem í ákæru greinir.“ Hafi ákærði nýtt ,,sér ölvunarástand hennar þannig að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar.“ Í dóminum kemur fram að því hafi verið slegið föstu að brotaþoli hefði verið svo til rænulaus vegna ölvunar á skemmtistaðnum og hafi hún af þeirri ástæðu ekki getað spornað við ,,verknaði ákærða þessa nótt.“ Komi því ekki til skoðunar hvort ákærði hafi nýtt sér aðstöðumun vegna andlegra yfirburða og var hann sakfelldur ,,samkvæmt ákæru og varðar háttsemi hans við 2. mgr. 194. gr. laga nr. 19/1940.“ Um rökstuðning fyrir ákvörðun refsingar segir að ákærði hafi verið með dóminum sakfelldur fyrir tvö kynferðisbrot og hafi hann nýtt sér ,,ölvunarástand brotaþola og það að hún gat ekki spornað gegn verknaðinum.“
II
Eins og að framan greinir lýtur ákæra að ætlaðri refsiverðri háttsemi ákærða annars vegar vegar á skemmtistaðnum [...] og hins vegar að [...]. Í ákæruliðunum er lýst ólíkri háttsemi og ljóst að einhver tími hefur liðið milli atburða á hvorum stað um sig.
Brýna nauðsyn bar því til að taka hvorn ákærulið um sig til sjálfstæðrar úrlausnar og draga saman það sem dómurinn taldi sannað um ætlaða háttsemi ákærða undir hvorum ákærulið fyrir sig. Það var ekki gert í hinum áfrýjaða dómi, heldur var í niðurstöðu hans steypt saman röksemdum fyrir sekt ákærða án nokkurrar sundurgreiningar, án þess að rakinn væri framburður ákærða og vitna og gerð grein fyrir öðrum sönnunargögnum varðandi hvorn ákærulið fyrir sig og án þess að brotin hafi hvort fyrir sig verið heimfært til þeirra hegningarlagaákvæða sem í ákæru greinir. Þannig tvinnast röksemdir dómsins fyrir sekt ákærða svo saman að ekki verður glögglega af þeim ráðið hvað dómurinn telji sannað varðandi hvorn ákærulið. Jafnframt er í dóminum engin grein gerð fyrir þeim afleiðingum ætlaðra brota ákærða sem lýst var í framlögðum vottorðum sálfræðinga. Full ástæða hefði þó verið til að rekja niðurstöður þeirra vottorða í fáum orðum, þar sem afleiðingar brotanna geta haft áhrif á ákvörðun refsingar, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga og bóta. Þá samrýmist lýsing dómsins á því hvaða háttsemi hann taldi sannaða ekki heimfærslu til 2. mgr. 194. gr. sömu laga og væri unnt að draga þá ályktun af henni að ákærði hafi verið sýknaður af þeirri háttsemi sem greinir í síðari ákærulið. Samkvæmt ofangreindu var samning dómsins að verulegu leyti í andstöðu við f. og g. liði 2. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Af gögnum málsins verður ráðið að B gaf óformlega skýrslu hjá lögreglu 30. mars 2013, sbr. 2. mgr. 60. gr. laga nr. 88/2008, en hann mun hafa verið staddur á skemmtistaðnum umrætt kvöld og verið sjónarvottur að þeirri háttsemi sem ákærða er gefin að sök í fyrri ákærulið. Í ljósi þess sem B lýsti fyrir lögreglu í hinni óformlegu skýrslutöku bar héraðsdómi að leggja fyrir ákæruvaldið að leiða hann fyrir dóm til skýrslugjafar um þau atvik er hann lýsti fyrir lögreglu, sbr. 2. mgr. 110. gr. og 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008.
Þegar allt framangreint er virt verður hinn áfrýjaði dómur ómerktur og lagt fyrir héraðsdóm að leggja dóm á málið að nýju, að undangenginni skýrslugjöf ofangreinds manns fyrir dómi.
Ákvörðun um sakarkostnað í héraði bíður nýs dóms í málinu. Allur áfrýjunarkostnaður málsins verður felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða og þóknun réttargæslumanns brotaþola sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Einars Gauts Steingrímssonar hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2014.
Mál þetta, sem dómtekið var 16. maí sl., er höfðað af ríkissaksóknara með ákæru dagsettri 4. febrúar 2014 „á hendur X, kennitala [...], [...], [...], fyrir kynferðisbrot gegn A, kennitala [...], framin aðfaranótt fimmtudagsins 28. mars 2013, á [...], með því að hafa við hana samræði og önnur kynferðismök með því að beita hana ólögmætri nauðung vegna aðstöðumunar sem ákærði notfærði sér vegna andlegra og líkamlegra yfirburða gegn A, og með því að notfæra sér ölvunarástand hennar þannig að hún gat ekki spornað við verknaðinum, sem hér greinir nema annað sé einnig tekið fram:
1. Að [...] káfað á brjóstum og kynfærum A og látið hana stuttu síðar sjúga á sér kynfærin.
2. Að [...] stungið fingri inn í leggöng A og haft við hana samræði og náð því einnig fram með því að beita hana ofbeldi og hótunum með því að grípa um annan handlegg hennar og þvinga hana niður á gólf og halda henni í tökum í liggjandi líkamsstöðu, meðal annars með því að þrýsta á öxl hennar og grípa með annarri hendi fyrir munn hennar og skipa henni að hafa hljótt og leggjast ofan á hana og notfæra sér líkamsþyngd sína og líkamlega yfirburði til að halda henni fastri og með því að beita handafli og afklæða hana að neðan og glenna fætur hennar í sundur til að komast að kynfærum hennar en A hlaut af þessu meðal annars marbletti á innanverðu læri, mar á hendi og mar á framhandlegg og aftan við kálfa.“
Er þetta talið varða við 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2007.
Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Í málinu hefur brotaþoli uppi kröfu um miskabætur úr hendi ákærða að fjárhæð 3.000.000 króna, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 28. mars 2013 þar til mánuður er liðinn frá birtingu skaðabótakröfu þessarar, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða þóknun vegna réttargæslu.
Ákærði neitar sök. Af hálfu verjanda er krafist sýknu en til vara að ákærða verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa. Þá er krafist greiðslu málsvarnarlauna er greiðist úr ríkissjóði.
Samkvæmt vottorði læknis á bráðadeild Landspítala háskólasjúkrahúss í Fossvogi, frá 15. apríl 2012, mætti brotaþoli á deildina 30. mars 2012 [...]. Fram kemur að brotaþoli hafi komið með sjúkrabifreið á deildina. Hafi hún orðið fyrir árás aðfaranótt 27. mars 2013 fyrir utan heimahús í heimabæ sínum. Í vottorðinu kemur fram að gríðarlegt mar hafi verið á öllum vinstri upphandlegg brotaþola. Tekin hafi verið röntgenmynd af vinstri öxl og í ljós komið slæmt brot í hálsi upphandleggs við axlarliðinn.
Brotaþoli leitaði á neyðarmóttöku sama dag [...]. Lýsti hún því að hún hefði verið beitt kynferðislegu ofbeldi, aðfaranótt fimmtudagsins 28. mars 2013, í heimabæ sínum. Í skýrslunni kemur fram að brotaþoli hafi komið vel fyrir. Hafi hún verið einlæg og sagt skilmerkilega frá atburðum. Hafi brotaþoli ásakað sjálfa sig fyrir að hafa farið með manninum. Hafi hún átt erfitt með að trúa því að atburðurinn hafi átt sér stað. Þá hefði hún áhyggjur af því að atvikið myndi spyrjast út í því litla bæjarfélagi er hún byggi í. Í skýrslunni kemur fram að brotaþoli hafi verið með gríðarlegt mar og bólgu á vinstri upphandlegg. Þá hafi hún verið með 5 marbletti innan á hægra læri ofanverðu. Hafi einn bletturinn verið um 2 cm og hinir um 1 cm hver. Gætu marblettirnir verið eftir fingur. Brotaþoli hafi verið með mar, um sjö cm í ummál, ofan við hægri þumalfingur. Loks hafi hún verið með mar innan á ofanverðum hægri framhandlegg og aftan á vinstri kálfa.
Samkvæmt skýrslu lögreglu frá laugardeginum 30. mars 2013, kom brotaþoli á lögreglustöð þann dag [...], til að leggja fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot framið gegn sér, aðfaranótt fimmtudagsins 28. mars 2013. Greindi hún þá frá atvikum málsins.
Ákærði og brotaþoli gáfu skýrslu fyrir dómi. Þá komu fyrir dóminn frænka brotaþola er brotaþoli fór til að morgni 28. mars, samstarfskona brotaþola af vernduðum vinnustað, frænka brotaþola er fór með henni í sumarbústað 28. mars, samferðafólk ákærða upp á [...], rekstraraðili skemmtistaðarins [...] og kona er var brotaþola til aðstoðar á neyðarmóttöku. Þá komu fyrir dóminn læknar af bráðadeild Landspítala og neyðarmóttöku, hjúkrunarfræðingur af neyðarmóttöku, sálfræðingur af Landspítala, sérfræðingur í klínískri sálfræði og loks lögreglumenn er komu að rannsókn málsins. Ekki er ástæða til að rekja framburði fyrir dóminum frekar en hér fer á eftir.
Ákærði hefur greint svo frá að hann hafi farið frá [...] upp á [...] að kvöldi miðvikudagsins 27. mars 2013. Hann hafi verið samferða vinnufélaga sínum, eiginkonu hans og tengdasyni sínum, sem ekið hafi bifreiðinni. Ákærði hafi farið á skemmtistaðinn [...] á [...], en á þeim stað hafi ákærði unnið nokkru áður. Á staðnum hafi ákærði hitt brotaþola. Brotaþola hafi ákærði þekkt frá fyrri tíð. Hún hafi fallið inni á staðnum. Hafi henni verið veitt aðstoð við að komast í sófa á staðnum og ákærði aðstoðað við það. Brotaþoli og ákærði hafi verið að ,,kela“. Í því hafi falist að ákærði hafi strokið henni um brjóst og kynfæri, bæði innan og utan klæða. Hafi hún tekið þátt í atlotunum og ekki verið þeim mótfallin. Hún hafi sogið kynfæri ákærða inni á staðnum. Hafi brotaþoli setið við þær athafnir og ákærði staðið fyrir framan hana. Brotaþoli hafi ekki virst áberandi ölvuð.
Einhverju síðar hafi brotaþoli viljað fara heim til sín. Hafi ákærði boðist til að skutla henni og hún þegið það. Hún hafi kvartað undan eymslum og lagt hönd á öxl ákærða á leið út af staðnum. Tengdasonur ákærða hafi ekið þeim. Hafi ákærði setið við hlið brotaþola aftur í bifreiðinni. Ákærði hafi ekki verið það kunnugur á [...] og því hafi brotaþoli þurft að leiðbeina með akstursleiðina.
Á leiðarenda hafi brotaþoli farið á undan út úr bifreiðinni. Hafi hún beðið ákærða um að koma með sér. Ákærði hafi beðið tengdason sinn um að fara aftur á [...] og sækja samferðafólk sitt til að þau gætu öll farið til [...] í beinu framhaldi. Brotaþoli hafi búið í fjöleignarhúsi. Er inn í anddyri hússins kom hafi ákærði og brotaþoli farið að láta vel hvort að öðru. Hafi þau farið niður á gólf anddyrisins. Brotaþoli hafi klætt sig úr að neðan. Ákærði hafi reynt að stinga lim sínum inn í leggöng brotaþola en það ekki tekist. Hafi hann stungið fingri inn í leggöng brotaþola. Eftir það hafi honum tekist að stinga lim sínum í leggöng hennar og haft við hana samfarir. Hafi ákærði legið ofan á brotaþola við athafnirnar. Ákærði kvaðst ekki hafa þvingað brotaþola í athöfnunum eða beitt valdi á neinn hátt. Hann hafi ekki þvingað fætur hennar sundur á gólfinu þannig að valdi hafi verið beitt. Hann hafi hins vegar strokið þétt um læri hennar. Samferðafólk ákærða hafi hringt og hann hætt samförum. Hann hafi staðið á fætur og farið út í bíl. Þaðan hafi þau haldið til [...]. Brotaþoli hafi viljug tekið þátt í athöfnunum í anddyrinu og hún hafi ekki verið mjög ölvuð. Ákærði kvaðst hafa drukkið áfengi þetta kvöld en ekki hafa verið mjög ölvaður.
Brotaþoli kvaðst hafa farið að skemmta sér umrætt sinn. Hún hafi byrjað kvöldið með því að drekka 3 bjóra heima hjá sér. Í framhaldi hafi hún farið til frænku sinnar og drukkið hjá henni úr flösku af hvítvíni. Hafi hún spurt frænkuna hvort hún vildi koma með sér á [...] en frænkan hafi ekki viljað það. Þaðan hafi hún farið til vinkonu sinnar og samstarfskonu af vernduðum vinnustað og reynt að fá hana með sér á [...] en vinkonan ekki viljað það.
Brotaþoli hafi farið ein á [...]. Á staðnum hafi hún keypt stórt glas af bjór. Ákærði hafi verið á staðnum og rætt við hana. Hún hafi lítillega kannast við ákærða. Hún kvaðst minnast þess að hafa fallið á gólfið á skemmtistaðnum. Hafi ákærði ásamt öðrum aðstoðað hana við að komast á fætur og í sófa á staðnum. Ákærði hafi verið kominn með hönd inn á brjóst hennar. Einhver hafi komið að og ýtt þeim sundur. Hafi henni liðið illa og viljað heim og hafi hún beðið rekstraraðila skemmtistaðarins um að útvega sér leigubíl. Hafi hún farið út og bifreið komið. Ákærði hafi komið og sagt brotaþola að setjast inn í bifreiðina. Hafi hann sagt að hann ætlaði að skutla henni heim. Ákærði og brotaþoli hafi setið aftur í bifreiðinni.
Bifreiðinni hafi verið ekið að fjöleignarhúsi og þau farið út. Þetta hafi ekki verið fyrir framan heimili brotaþola og hún hafi ekki kannast við húsið. Þar sem brotaþola hafi verið farið að líða illa hafi hún verið fegin að komast út úr bifreiðinni. Ákærði hafi opnað hurð að húsinu og ýtt brotaþola inn. Ákærði hafi gripið um úlnlið og framhandlegg hennar og sagt henni að fara niður á hné. Þá hafi þau verið í anddyri hússins. Ákærði hafi klætt hana úr buxum og nærbuxum. Hún hafi öskrað og brotist um. Ákærði hafi haldið brotaþola niðri og m.a. haldið fyrir munn hennar. Brotaþoli hafi krosslagt fætur en ákærði þvingað þá í sundur. Ákærði hafi stungið fingri inn í leggöng hennar. Í framhaldi hafi hann stungið lim sínum í leggöng brotaþola. Hún hafi reynt að brjótast um. Skömmu síðar hafi farsími ákærða hringt í tvígang og hann svarað í síðara skiptið. Hafi hann bölvað og svarað viðmælandanum að hann væri að koma.
Við það hafi ákærði hætt aðförunum, staðið á fætur og tekið lykla er hann hafi verið með. Brotaþoli hafi misst rænu í þeirri andrá. Hafi hún vaknað tveim til þrem klukkustundum síðar liggjandi í anddyrinu. Henni hafi liðið mjög illa og verið illt í annarri hendinni. Hafi hún náð að snúa sér yfir á aðra hliðina og staðið upp. Hún hafi rennt úlpunni sinni upp en skilið afganginn af fötunum sínum eftir og gengið heim til sín, en heimili hennar hafi ekki verið langt í burtu. Lyklana sína hafi hún skilið eftir í fjöleignarhúsinu og því ekki komist inn til sín. Hún hafi hringt í frænku sína er búi í sama húsi. Frænkan hafi hleypt henni inn og spurt hvað hafi komið fyrir. Hafi brotaþoli tjáð henni það. Þær hafi í sameiningu ætlað að finna umrætt hús til að ná í föt brotaþola. Þeim hafi ekki tekist að finna húsið og farið aftur heim. Húni hafi sofnað hjá frænkunni.
Brotaþoli hafi verið búin að ákveða að fara upp í sumarbústað næsta dag, ásamt foreldrum sínum og [...] syni sínum. Hafi þau öll farið upp í sumarbústað. Henni hafi liðið mjög illa í handleggnum. Um kvöldið er hún hafi ætlað að ganga til náða hafi henni liðið það illa í handleggnum að hún hafi beðið frænku sína um að aðstoða sig. Frænkan hafi farið að gráta er hún hafi séð áverkann. Hafi þær rætt um að bíða eftir bróðurdóttur brotaþola sem hafi verið á leið í bústaðinn næsta dag. Er bróðurdóttirin hafi séð áverkann á handleggnum hafi hún sagt að þær yrðu að fara til læknis. Það hafi þær gert daginn eftir og brotaþoli í framhaldi verið flutt á neyðarmóttöku.
Vinkona brotaþola og samstarfskona af vernduðum vinnustað, er brotaþoli hafði viðkomu hjá að kvöldi miðvikudagsins 27. mars, kvað brotaþola hafa verið mjög drukkna er hún hafi komið við hjá sér. Hafi hún verið í slíku ástandi að hún hafi viljað að brotaþoli færi heim til sín í framhaldi af dvöl hjá sér. Hafi vinkonan hringt á leigubifreið og fylgt henni niður í bifreiðina. Hafi hún talið að brotaþoli færi heim. Brotaþoli hafi hringt næsta dag og sagt sér hvað komið hefði fyrir og hafi hún greinilega verið í áfalli.
Frænka brotaþola kvað hana hafa hringt á bjöllu hjá sér um kl. 6.00 að morgni fimmtudagsins 28. mars. Hún hafi verið klædd í úlpu en verið bæði buxna- og nærbuxnalaus. Hafi brotaþoli beðið sig um að aðstoða sig við að finna föt sín í öðru húsi. Þær hafi farið saman út og reynt að finna húsið er brotaþoli hafi verið í. Það hafi ekki tekist. Hafi frænkunni fundist eins og brotaþoli hafi verið búin að sofa er hún hafi komið til hennar. Hafi brotaþoli kvartað undan verk í öxl og verið bæði í sjokki og miður sín. Hún hafi ekki verið ölvuð er hún hafi komið á heimili frænkunnar um morguninn og var eins og ,,runnið hafi af“ brotaþola.
Vinnufélagi ákærða kvað ákærða og sig hafa lokið námskeiði miðvikudaginn 27. mars. Þeir hafi haldið upp á áfangann og ákveðið að fara saman upp á [...] til að fagna. Eiginkona vinnufélagans hafi verið með í för ásamt ungum manni er ekið hafi fyrir þá. Þau hafi öll farið á skemmtistaðinn [...] á [...]. Ákærði og vinnufélaginn hafi verið talsvert ölvaðir. Vinnufélaginn kvaðst hafa veitt brotaþola athygli inni á staðnum. Hafi hún verið mikið drukkin. Hafi hún á einhverjum tíma legið í sófa inni á staðnum og þá verið rænulaus. Ákærði hafi verið að káfa á henni og hafi vinnufélaganum fundist það óviðeigandi í ljósi ástands brotaþola. Ákærði hafi m.a. káfað á brjóstum brotaþola. Hafi hún þá verið hálf sitjandi uppi. Vinnufélaginn hafi ekki séð er brotaþoli hafi veitt ákærða munnmök. Ákærði hafi farið með brotaþola á brott út af staðnum og vinnufélaganum ekki staðið á sama. Hafi hann reynt að komast til ákærða en ekki tekist þar sem ákærði hafi farið með brotaþola út um bakdyr sem hafi læst á eftir ákærða. Það hafi truflað vinnufélagann hvernig ákærði hafi farið með brotaþola út. Honum hafi fundist eitthvað rangt við málið og framkoma ákærða óviðeigandi. Nokkru síðar hafi bílstjóri ákærða komið til baka á staðinn og náð í vinnufélagann og konu hans. Þau hafi náð í ákærða að fjöleignarhúsi á staðnum. Hafi vinnufélaginn hringt í ákærða og fengið hann til að koma út í bifreiðina. Þaðan hafi þau öll farið til [...].
Eiginkona vinnufélaga ákærða kvaðst hafa farið með ákærða og manni sínum upp á [...] þetta kvöld. Hún hafi ekki drukkið mikið, hvorki um kvöldið eða um nóttina. Inni á [...] hafi hún séð brotaþola. Hafi hún verið ,,dauðadrukkin“ og ákærði verið að káfa á henni þar sem hún hafi verið í sófa á staðnum. Brotaþoli hafi verið rænulítil og hreyfingalaus. Hafi hún ekki verið þátttakandi í atlotum með ákærða. Kvaðst eiginkonan hafa sagt við ákærða á einhverju stigi að vera ekki að káfa á henni í því ástandi er hún væri. Ákærði hafi síðar dregið brotaþola út af staðnum. Hafi hann tekið undir hana og haldið á henni út. Það hafi stungið eiginkonuna að sjá það, en brotaþoli hafi verið dauðadrukkin, ósjálfbjarga og rænulítil. Eiginmaður hennar hafi einnig séð þetta. Hafi maður hennar ætlað að hlaupa á eftir ákærða er hann hafi farið með brotaþola út, en ekki náð að elta þau þar sem hurð hafi lokast og læst á eftir þeim. Bílstjórinn hafi komið einhverju síðar og náð í hana og mann hennar. Ákærði hafi ekki verið í bílnum. Þau hafi ekið að húsi á [...] og hann þar komið í bifreiðina.
Bróðurdóttir brotaþola kvaðst hafa séð áverka á handlegg hennar í sumarbústað á föstudeginum 29. mars. Hafi brotaþoli sagt henni hvað hafi komið fyrir umrætt sinn. Hafi bróðurdóttirin sagt brotaþola að þær yrðu að fara til læknis vegna málsins. Þær hafi farið saman á læknastöð í [...] og eftir skoðun þar hafi læknirinn ákveðið að brotaþoli yrði að fara á neyðarmóttöku.
Niðurstaða:
Ákærða eru gefin að sök tvö kynferðisbrot gagnvart brotaþola, sem átt hafi sér stað á [...] aðfaranótt fimmtudagsins 28. mars 2013. Kynferðisbrotin áttu sér annars vegar stað á veitingastaðnum [...] að [...] og hins vegar að [...]. Ákærði neitar sök. Kveðst hann hafa káfað á brjóstum og kynfærum brotaþola og látið hana hafa við sig munnmök að [...] og að hafa stungið fingri í leggöng og haft við hana samræði að [...]. Athafnir þessar hafi verið með fullu samþykki brotaþola og hafi ákærði ekki beitt hana neins konar ofbeldi. Hafi brotaþoli ekki verið það ölvuð að hún hafi ekki áttað sig á því hvað væri um að vera.
Brotaþoli hefur lýst atvikum umrætt sinn. Af lýsingu hennar á atvikum verður ráðið að brotaþoli var mjög ölvuð. Man hún takmarkað atvik er áttu sér stað á [...]. Hún man meira af atvikum frá [...]. Framburður vinnufélaga ákærða og eiginkonu hans er afdráttarlaus um að sökum ölvunar hafi brotaþoli verið rænulítil eða rænulaus inni á [...]. Hafi verið óviðeigandi af ákærða að vera að káfa á henni. Eiginkona vinnufélaga ákærða hafi fundið að þessu við ákærða.
Þá ber vinkona brotaþola að brotaþoli hafi verið mjög ölvuð er hún hafi yfirgefið heimili vinkonunnar um kvöldið, en í málinu er fram komið að brotaþoli fór frá vinkonunni beint á [...]. Frænka brotaþola hefur staðfest að brotaþoli hafi um kl. 6.00 að morgni fimmtudagsins 28. mars knúið dyra og verið án klæða að neðanverðu. Hafi þær í sameiningu reynt að finna fatnað brotaþola í nærliggjandi húsi. Það hafi ekki tekist. Lögreglumenn er unnu að rannsókn málsins hafa staðfest að fatnaður brotaþola hafi fundist í anddyri fjöleignarhússins að [...]. Brotaþoli var trúverðug í framburði sínum fyrir dóminum. Hefur hún lýst því að ákærði hafi með valdi glennt fætur hennar í sundur að [...]. Samrýmist það áverkavottorði í málinu, en brotaþoli greindist með marbletti á innanverðu læri, eins og eftir fingur.
Þegar litið er til framburðar vitna um rænulítið ástand brotaþola þessa nótt að [...], litið til framburðar frænku brotaþola um klæðnað og ástand hennar að öðru leyti næsta morgun, hliðsjón höfð af marblettum á innanverðu læri hennar er samrýmist frásögn hennar um valdbeitingu ákærða, og litið til trúverðugs framburðar hennar, er að mati dómsins hafið yfir allan vafa að ákærði hafi brotið gegn brotaþola þessa nótt með því að beita hana ofbeldi og ólögmætri nauðung og hafa við hana samræði og önnur kynferðismök, sem í ákæru greinir. Nýtti ákærði sér ölvunarástand hennar þannig að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar.
Með skýrslu 6. júní 2013 vann sálfræðingur þroska- og sálfræðimat á brotaþola. Í niðurstöðu kemur fram að brotaþoli hafi greinst með töluvert þroskafrávik. Hér í dómi hefur því verið slegið föstu að brotaþoli var svo til rænulaus sökum áfengisdrykkju á [...], en hún kom þangað mjög ölvuð. Gat hún af þeirri ástæðu ekki spornað gegn verknaði ákærða þessa nótt. Kemur þá ekki til þess að leysa þurfi úr því hvort ákærði hafi nýtt sér aðstöðumun gagnvart brotaþola að því er varðar andlega yfirburði. Þá liggur ekki ljóst fyrir að hvaða marki ákærði beitti brotaþola hótunum um nóttina. Að þessu gættu verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og varðar háttsemi hans við 2. mgr. 194. gr. laga nr. 19/1940.
Ákærði er fæddur í [...]. Sakaferill ákærða hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar. Ákærði hefur hér í dómi verið sakfelldur fyrir tvö kynferðisbrot gagnvart brotaþola. Nýtti hann sér ölvunarástand brotaþola og það að hún gat ekki sporað gegn verknaðinum. Á hann sér engar málsbætur. Með hliðsjón af því sæti ákærði fangelsi í 4 ár. Gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 6. til 16. apríl 2014 kemur til frádráttar refsingu.
Brotaþoli krefst miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 3.000.000 króna, auk vaxta. Ákærði hefur með ólögmætri háttsemi sinni valdið brotaþola miska skv. 26. gr. laga nr. 50/1993. Á hún rétt á bótum vegna þeirrar háttsemi hans. Með hliðsjón af vottorði sálfræðings um afleiðingar háttseminnar fyrir brotaþola og atvikum málsins eru miskabætur hæfilega ákveðnar 2.200.000 krónur. Um vexti fer sem í dómsorði greinir.
Ákærði greiði sakarkostnað samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti, málsvarnarlaun skipaðs verjanda og þóknun réttargæslumanns brotaþola, hvoru tveggja að viðbættum virðisaukaskatti, svo sem í dómsorði er mælt fyrir um. Að auki greiði ákærði aksturskostnað verjanda og réttargæslumanns, svo sem í dómsorði greinir.
Símon Sigvaldason, Halldór Björnsson og Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómarar kveða upp dóminn.
D ó m s o r ð :
Ákærði, X, sæti fangelsi í 4 ár. Gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 6. til 16. apríl 2014 kemur til frádráttar refsingu.
Ákærði greiði A 2.200.000 krónur í miskabætur, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 28. mars 2013 til 16. júní 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 2.308.834 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Hauks Haukssonar héraðsdómslögmanns, 1.060.475 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Gunnhildar Pétursdóttur héraðsdómslögmanns, 558.475 krónur. Þá greiði ákærði aksturskostnað verjanda að fjárhæð 106.952 krónur og aksturskostnað réttargæslumanns að fjárhæð 26.932 krónur.