Hæstiréttur íslands
Mál nr. 31/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Miðvikudaginn 16. janúar 2013. |
|
Nr. 31/2013.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Bjarni Hauksson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur en gæsluvarðhaldinu markaður skemmri tími.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. janúar 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. janúar 2013 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 28. janúar 2013 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um gæsluvarðhaldsvist varnaraðila og einangrun hans, þó þannig að gæsluvarðhaldinu verði markaður sá tími sem greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur, þó þannig að gæsluvarðhald yfir varnaraðila, X, standi eigi lengur en til mánudagsins 21. janúar 2013 klukkan 16.00.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. janúar 2013.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins. 28. janúar 2013 kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að í gærdag hafi lögreglu borist tilkynning um meint kynferðisbrot kærða, X, gegn barnabarni sínu, A, kt. [...]. Muni hún hafa greint frá því að kærði hefði verið að “horfa á kynfæri hennar”. Þá kvæði hún hann hafa “þuklað” kynfæri hennar sumarið 2012. Hún hafi greint unnustu kærða frá þessu sem kvæði kærða hafa gengist við þessu þegar á hann hafi verið gengið. Einnig hafi hann viðurkennt að hafa brotið gegn annarri telpu, B, kt. [...], sem búi í sama stigagangi og kærði.
Að sögn lögreglu hafi skýrsla verið tekin af móður A, sem borið hafi um að hún hefði sagt sér að kærði hefði “þuklað á sér í klofið.” Móðir B muni leggja fram kæru síðar í dag.
Þá er þess getið að kærði hafi verið handtekinn í gær og yfirheyrður í kjölfarið. Hann hafi viðurkennt að hafa brotið gegn A í júní eða júlí sl. en þá hafi hann farið “óvart niður á kynfæri hennar og meira.” Hafi það verið innanklæða. Þá hafi hann viðurkennt að hafa brotið gegn B á árinu 2007 eða 2008 en þá hafi hún verið að renna sér niður stigahandrið og hann tekið utan um hana aftanverða og haldið með báðum höndum um klof hennar.
Eins og rakið hafi verið sé að mati lögreglu fram kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi framið brot gegn A, barnabarni sínu, og B, nágranna sínum. Brotin séu talin varða við 1. og/eða 2. mgr. 200. gr. og 1. og/eða 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Rannsókn málsins sé á frumstigi. Til standi að taka skýrslur af telpunum fyrir dómi, svo og skýrslur af öðrum vitnum. Brýnt sé að kærði gangi ekki laus meðan á þessum rannsóknaraðgerðum standi en nauðsynlegt sé að tryggja að hann geti ekki torveldað rannsókn málsins með einhverjum hætti.
Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna, a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b- liðar 99. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga
Kærði hefur játað brot sín. Þó á eftir að taka skýrslur af brotaþolum og er rannsóknin á frumstigi. Með vísan til greinargerðar lögreglu og rannsóknargagna málsins þykir kominn fram rökstuddur grunur um að ákærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing liggur við. Fallist er á með lögreglustjóra að skilyrði a- liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé fullnægt. Er krafa um gæsluvarðahald og einangrun, en þeirri kröfu var ekki mótmælt sérstaklega, því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins. 28. janúar 2013 kl. 16:00. Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.