Hæstiréttur íslands

Mál nr. 651/2016

Landey ehf. (Óskar Sigurðsson hrl.)
gegn
Skuggabyggð ehf. (Halldór Jónsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu S ehf. um dómkvaðningu matsmanna, áður en málflutningur um frávísunarkröfu færi fram í máli sem félagið hafði höfðað gegn L ehf. vegna meints fjártjóns af völdum ætlaðra galla á fasteign sem S ehf. hafði keypti af L ehf. Var meðal annars litið til þess að S ehf. hafði lýst ætluðum göllum nokkuð í stefnu og gert áskilnað í henni um öflun matsgerðar til þess að staðreyna tjón sitt. Var S ehf. heimilt, með vísan til 2. málsl. 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991, sbr. einnig d-lið 1. mgr. 80. gr. sömu laga, að afla matsgerðarinnar áður en úrskurðað yrði um frávísunarkröfu L ehf., þar sem félagið hafði af því augljósa hagsmuni auk þess sem matsgerð kynni að varpa frekara ljósi á umfang hugsanlegs tjóns og fjárhæðir því tengdar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. september 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. september 2016 þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna, áður en málflutningur fari fram um frávísunarkröfu sína, verði hafnað. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili höfðaði mál þetta 8. mars 2016 og gerði aðallega kröfu um skaðabætur án tilgreiningar á fjárhæð vegna fjártjóns síns af völdum ætlaðra galla á fasteigninni Vatnsstíg 16 til 18 í Reykjavík, en hann hafi keypt alls 42 eignarhluta í fasteigninni á árinu 2012 af sóknaraðila. Til vara krefst hann skaðabóta að fjárhæð 204.325.060 krónur vegna sömu galla og að því frágengnu viðurkenningar á skaðabótaskyldu sóknaraðila vegna fjártjóns, bæði beins og óbeins tjóns, af völdum gallanna. Þá krefst hann málskostnaðar. Í stefnu er ætluðum göllum á fasteigninni lýst nokkuð og tekið fram við útlistun aðalkröfu að þeir verði staðreyndir með matsgerð. Varakrafan er reist á áætlun tilgreindrar verkfræðistofu á tjóni varnaraðila vegna gallanna. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði krafðist sóknaraðili frávísunar málsins og snýst ágreiningur málsaðila í þessum þætti þess einungis um það hvort ráða eigi þeirri kröfu sóknaraðila til lykta áður en varnaraðili eigi þess kost að afla þeirrar matsgerðar, sem hann hefur gert áskilnað um í stefnu.

Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Landey ehf., greiði varnaraðila, Skuggabyggð ehf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. september 2016.

                                                                        I.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 26. ágúst sl., er höfðað þann 8. mars 2016 af Skuggabyggð ehf., Hlíðarsmára 2. Kópavogi á hendur Landey ehf., Grófinni 1, Reykjavík.

                Í þessum þætti málsins krefst stefnandi þess að dómkvaðning matsmanna fari fram áður en málið verði flutt um frávísunarkröfu stefnda. Með matsbeiðninni hyggst stefnandi renna frekari stoðum undir málatilbúnað sinn, m.a. hvað varðar nánara eðli og orsakir meintra galla svo og umfang fjártjóns stefnanda, auk þess sem hann telur matsspurningarnar varða atriði sem snerti frávísunarkröfu stefnda.

                Stefndi krefst þess að kröfu stefnanda um dómkvaðningu matsmanna verði hafnað og að farið verði að meginreglu 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, um að fyrst fari fram málflutningur um frávísunarkröfu stefnda áður en aflað verði matsgerðar.

                                                                                II.

Dómkröfur stefnanda samkvæmt stefnu eru þær aðallega að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta vegna fjártjóns stefnanda af völdum galla á fasteigninni Vatnsstíg 16-18 í Reykjavík, nánar tiltekið eignarhlutum með fastanr. frá og með 229-7830 til og með 229-7871 (alls 42 eignarhlutar), ásamt sameign, sem stefnandi keypti af stefnda með kaupsamningi, dags. 9. mars 2012, og kaupsamningi, dags. 9. nóvember 2012. Að auki krefst stefnandi vaxta eins og nánar greinir í stefnu. Til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 204.325.060 krónu með vöxtum eins og nánar greinir í stefnu, en til þrautavara er þess krafist að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna fjártjóns stefnanda, þ.m.t. beint og óbeint tjón, af völdum galla á fasteigninni Vatnsstíg 16-18 í Reykjavík, sem stefnandi keypti af stefnda með kaupsamningi, dags. 9. mars 2012, og kaupsamningi, dags. 9. nóvember 2012, nánar tiltekið eignarhlutum með fastanr. frá og með 229-7830 til og með 229-7871 (alls 42 eignarhlutar), ásamt sameign, sem stefnandi keypti af stefnda með kaupsamningi, dags. 9. mars 2012, og kaupsamningi, dags. 9. nóvember 2012. Þá krefst stefnandi málskostnaðar í öllum tilvikum.

                Stefndi krefst aðallega frávísunar málsins frá dómi, til vara að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til þrautavara að stefnukröfur verði stórlega lækkaðar. Þá krefst stefndi málskostnaðar í öllum tilvikum.

                                                                                III.

Samkvæmt stefnu reisir stefnandi kröfu sína um greiðslu skaðabóta úr hendi stefnda vegna vanefnda á kaupsamningum aðila um fasteignina Vatnsstíg 16-18 frá árinu 2012. Telur stefnandi að umrædd fasteign sé haldin verulegum annmörkum sem telja verði til galla í skilningi laga nr. 40/2002 um fasteignakaup. Tekur stefnandi fram að fjártjón það, sem stefnandi krefjist bóta fyrir úr hendi stefnda, sé m.a. fólgið í kostnaði við úrbætur á umræddum göllum. Í ljósi þess að umfang fjártjóns stefnanda hafi ekki verið staðfest endanlega með matsgerð, m.a. þar sem gallar séu enn að koma í ljós og þannig sé óvíst um fjárhæð kröfunnar, auk þess sem hætta kunni að vera á fyrningu krafnanna gagnvart stefnda, höfði stefnandi málið aðallega til heimtu skaðabóta án þess að tilgreina fjárhæð bóta í stefnu, með heimild í d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, en endanleg kröfufjárhæð verði sett fram að fenginni matsgerð undir rekstri málsins í samræmi við IX. kafla sömu laga. Til vara geri stefnandi kröfu um greiðslu fjárhæðar úr hendi stefnda vegna fjártjóns miðað við fyrirliggjandi kostnaðarmat o.fl., en til þrautavara til viðurkenningar á skaðabótaskyldu. Í stefnu rekur stefnandi hina meintu galla sem hann telur m.a. vera á gluggakerfi og frágangi hússins að utanverðu. Þá er áskilnaður gerður um það í stefnu að undir rekstri málsins muni stefnandi óska eftir mati dómkvaddra manna á atriðum sem lúta að hinum meintu göllum á fasteigninni og fjártjóni stefnanda af völdum þeirra svo og öðrum atriðum sem málatilbúnaður stefnanda lúti að.

                Stefnandi hefur lagt fram yfirlit um „Gróft kostnaðarmat lagfæringa á Vatnsstíg 16-18, 101 Reykjavík“ unnið af Möndli verkfræðistofu ehf., þar sem talin eru upp atriði sem þarfnist lagfæringa. Í umræddu yfirliti kemur fram að gera þurfi lagfæringar á gluggum á hæðarskilum, opnanlegum fögum, innloftunarristum, þakdúk, útveggjaklæðningu, auk þess sem gert er ráð fyrir ófyrirséðum kostnaði auk kostnaðar við hönnun, umsjón og eftirlit. Áætlaður kostnaður samkvæmt yfirlitinu er tilgreindur 185.378.750 krónur.

                Lögmaður stefnda mótmælir því að matsbeiðnin verði lögð fram þar sem krafist hafi verið frávísunar málsins og að fjalla eigi um þá kröfu á grundvelli þeirra gagna sem þegar liggi frammi í málinu, auk þess sem matsbeiðnin sé of seint fram komin. Tekur stefndi fram að fyrirliggjandi matsbeiðni geti ekki bætt úr þeim annmörkum sem séu fyrir hendi á dómkröfum stefnanda. Af þeim sökum sé ótímabært að afla matsgerðar áður en úrslit liggi fyrir um frávísunarþátt málsins. Auk þess þurfi rekstur dómsmála að ganga greiðlega fyrir sig. Verði farið í rekstur matsmáls muni frestast um langan tíma að taka afstöðu til formhliðar málsins.

                Röksemdir stefnda fyrir kröfu sinni um frávísun málsins frá héraðsdómi lúta að því að stefnanda hafi fyrir löngu verið unnt að finna fjárhæð á ætlað tjón sitt. Þannig hafi þeir gallar sem stefnandi telur að eignin sé haldin, samkvæmt málatilbúnaði sínum, verið komnir fram fyrir löngu. Þannig hafi stefndi m.a. verið krafinn um greiðslur og úrbætur á hluta af hinum ætluðu göllum í bréfi stefnanda, dags. 2. október 2014, einu og hálfu ári áður en stefnandi höfðaði mál þetta. Stefnandi hafi sýnt af sér fullkomið athafnaleysi með því að afla ekki matsgerðar áður en mál þetta var höfðað, og að það athafnaleysi geti ekki réttlætt aðalkröfu hans um skaðabætur án fjárhæðar. Þá sé aðalkrafa stefnanda furðuleg í ljósi þess að í varakröfu sinni geri stefnandi einmitt kröfu um ákveðna fjárhæð, eða 204.325.060 krónur. Sýni það að stefnandi telji unnt að krefjast skaðabóta að tiltekinni fjárhæð eins og hann í raun geri í varakröfu sinni. Stefndi tekur fram að greind varakrafa stefnanda byggi á grófu kostnaðarmati lagfæringa frá Möndli verkfræðistofu ehf. (dskj. 23) þar sem megi finna í nokkrum orðum yfirlit yfir ætlaðan kostnað við það að skipta m.a. um alla útveggjaklæðningu fasteignarinnar og tæp 300 stykki af opnanlegum fögum. Hins vegar byggi krafan á hrúgu af framlögðum reikningum. (dskj. 24). Telur stefndi í því sambandi í fyrsta lagi algert ósamræmi á milli aðal- og varakröfu stefnanda er valdi frávísun bæði aðal- og varakröfu. Í öðru lagi áskilji stefnandi sér rétt til þess í stefnu að afla matsgerðar dómkvaddra matsmanna, þar sem „nauðsynlegt [sé] að fá það staðreynt með matsgerð hverjar orsakir gallans séu, leiðir til úrbóta og ætlaðan kostnað vegna þeirra“. Samkvæmt þessu liggi fyrir staðfesting stefnanda sjálfs á því að bæði hinir ætluðu gallar og fjárhæð bóta fyrir þá, séu ósönnuð. Af ofangreindu leiði að hvorki stefna málsins né málatilbúnaður stefnanda að öðru leyti, fullnægi áskilnaði 1. mgr. 80. gr. og 1. mgr. 95. gr. laga nr. 91/1991 er hann þingfesti málið 15. mars 2016. Þannig gerir stefnandi í raun órökstudda kröfu um skaðabætur í stefnu en leggur ekki fram fullnægjandi gögn henni til stuðnings, eins og áskilið er í 1. mgr. 80. gr., sbr. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 91/1991. Úr þessu hafi stefnandi í hyggju bæta með því að afla sér matsgerðar undir rekstri málsins en lög um meðferð einkamála geri hins vegar ekki ráð fyrir því að stefnandi fái fresti til að bæta úr slíkum annmörkum á málatilbúnaði í stefnu. Þessi annmarki á málatilbúnaði stefnanda valdi frávísun varakröfu hans frá dómi án kröfu. Í þriðja lagi sé ætluð fjárkrafa stefnanda samkvæmt varakröfu vanreifuð. Aðeins liggi fyrir gróft kostnaðarmat ásamt ýmsum reikningum. Þessi gögn séu ófullnægjandi til sönnunar eins og fyrrgreindur áskilnaður stefnanda um öflun matsgerðar staðfestir.

                Stefndi telur að þrautavarakrafa stefnanda fái ekki staðist. Í fyrsta lagi sé krafan aðeins málsástæða fyrir varakröfu hans um skaðabætur að fjárhæð 204.325.060 krónur og í raun einnig fyrir aðalkröfu hans um skaðabætur án fjárhæðar. Felist enda krafa um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnda bæði í aðal- og varakröfu stefnanda. Í öðru lagi sé þrautavarakrafa stefnanda vanreifuð. Telur stefndi að viðurkenningarkrafa stefnanda uppfylli ekki áskilnað 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Sá sem höfði viðurkenningarmál verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni, gera grein fyrir í hverju það felist og hver séu tengsl þess við atvik máls. Stefnandi viðist byggja tjón sitt á grófu kostnaðarmati og „hrúgu“ reikninga. Þær tölur sem tilgreindar séu í kostnaðarmatinu séu hins vegar algerlega úr lausu lofti gripnar og geti enga þýðingu haft fyrir úrlausn málsins auk þess sem ekkert liggi fyrir um hvernig reikningarnir sem lagðir hafi verið fram tengist málinu eða hvernig þeir eigi að endurspegla meint tjón stefnanda. Telur stefndi með vísan til framangreinds að meint tjón stefnanda sé með öllu vanreifað og geti ekki orðið grundvöllur viðurkenningarkröfu hans á hendur stefnda. Þrautavarakrafa fullnægi ekki 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 og leiði þegar af þeirri ástæðu til frávísunar hennar frá dómi. Stefndi leggur áherslu á að meta verði heildstætt þá annmarka eru séu á kröfugerð stefnanda. Á henni séu margháttaðir gallar og innbyrðis ósamræmi þar sem krafa stefnanda sé óviss en engu að síður sé gerð krafa um tiltekna fjárhæð úr hendi stefnda. Þessi framsetning geri stefnda erfitt um vik að taka til varna.  

                                                                                IV.

                                                                     Niðurstaða

Í fyrstu fyrirtöku máls þessa eftir framlagningu greinargerðar af hálfu stefnda, lagði stefnandi fram matsbeiðni og óskaði eftir því að matsgerð yrði unnin áður en málflutningur um frávísunarkröfu stefnda færi fram. Lögmaður stefnda mótmælti því að matsbeiðnin yrði lögð fram með þeim rökum annars vegar að krafist hefði verið frávísunar málsins frá héraðsdómi og að fjalla ætti um þá kröfu hans á grundvelli þeirra gagna sem þegar lægju fyrir í málinu. Hins vegar vísaði lögmaður stefnda til þess að matsbeiðnin væri of seint fram komin.

                Í 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, er gert ráð fyrir að munnlegur flutningur fari fram um frávísunarkröfu stefnda, áður en fjallað verður frekar um efnishlið málsins. Frá þessu má þó víkja ef krafa stefnanda byggir á ástæðum sem varða einnig efni máls og nægjanlegar upplýsingar þykja ekki komnar fram að því leyti.

                Í stefnu rekur stefnandi ítarlega þá meintu galla sem hann telur vera á tilgreindum íbúðum fasteignarinnar að Vatnsstíg 16-18. Að mati stefnanda er, eins og áður segir, um að ræða galla á gluggakerfi hússins og ófullnægjandi frágang utanhúss. Í stefnu er nánar tilgreint í hverju hinir meintu gallar felast. Auk þess sem stefnandi tíundar þau fjárútlát sem hann telur sig hafa orðið fyrir. Þá gerði stefnandi sérstakan áskilnað í stefnu um öflun matsgerðar til þess að staðreyna umfang hins meinta fjártjóns þar sem enn væri óvíst um fjárhæð þess.

                Að virtum skýringum stefnanda um þörf á öflun matsgerðar, sem raktar hafa verið hér að framan og fram koma í stefnu, er það niðurstaða dómsins að stefnanda sé, með vísan til 2. málsl. 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991, sbr. einnig d-lið 1. mgr. 80. gr. sömu laga, heimilt og hafi auk þess augljósa hagsmuni af því að matsmenn verði dómkvaddir og matsgerð lögð fram áður en úrskurðað verði um frávísunarkröfu stefnda, þar sem matsgerð kann að varpa frekara ljósi á umfang hugsanlegs tjóns og fjárhæðir því tengdar.

                Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

                                                                 ÚRSKURÐARORÐ:

Stefnanda, Skuggabyggð ehf., er heimilað að afla mats dómkvaddra matsmanna áður en málflutningur fer fram um kröfu stefnda, Landaeyjar ehf., um frávísun málsins frá héraðsdómi.

                Málskostnaður í þessum þætti bíður efnisdóms.