Hæstiréttur íslands

Mál nr. 433/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Kröfulýsing
  • Samningsveð
  • Handveð


                                     

Mánudaginn 24. ágúst 2015.

Nr. 433/2015.

Þrotabú IceCapital ehf.

(Haukur Örn Birgisson hrl.)

gegn

VBS eignasafni hf.

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Kröfulýsing. Samningsveð. Handveð.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem leyst var úr ágreiningi við slit V. I hafði lýsti kröfu í bú V og krafist þess í fyrsta lagi að V afhendi sér tiltekið skuldabréf og vísaði til 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. þeirri kröfu til stuðnings. Var talið að þótt umfjöllun I í kröfulýsingunni væri knöpp teldist krafan ekki vanreifuð þannig að henni yrði hafnað þegar af þeirri ástæðu. Í öðru lagi kom fram í kröfulýsingu I að ef V teldi sig eiga veðrétt eða einhverskonar eignarréttindi í framangreindu skuldabréfi væri lýst yfir riftun á slíkum rétti og vísaði I í því sambandi til 137. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991. Talið var að kröfulýsing með þeim hætti fullnægði ekki áskilnaði 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 um skýran og glöggan málatilbúnað og að I hefði haft uppi fyrir dómi riftunarkröfur sem ekki rúmuðust innan þeirra sem hann hefði haft uppi í kröfulýsingunni. Var því staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um að hafna bæri riftunarkröfum I. Þá var með vísan til forsenda hins kærða úrskurðar staðfest sú niðurstaða að handveðsréttur V í skuldabréfinu stæði því í vegi að honum yrði að svo komnu gert að afhenda I það.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. júní 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2015 þar sem leyst var úr ágreiningi við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að slitastjórn varnaraðila afhendi honum skuldabréf að fjárhæð 110.181.714 krónur gefið út 7. október 2008 af Valiant Fjárfestingum ehf. til Sunds ehf. Einnig krefst sóknaraðili viðurkenningar á riftun veðréttar varnaraðila í greiðslum af áðurgreindu skuldabréfi og riftun veðréttar varnaraðila í bankareikningi sóknaraðila nr. 0117-26-60513 í Landsbankanum hf. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Varnaraðili er fjármálafyrirtæki í slitameðferð og hét áður VBS fjárfestingarbanki hf. Með lánssamningi 24. apríl 2007 tók IceCapital ehf. að láni hjá VBS fjárfestingarbanka hf. 565.791.960 krónur sem skyldu endurgreiðast í einu lagi ekki síðar en 25. apríl 2008. Aðilar lánssamningsins gerðu viðauka við hann 5. mars 2008 þar sem gjalddagi lánsins var færður til 25. september það ár. Í 4. grein viðaukans sagði að samkvæmt „beiðni lántaka samþykkir VBS fjárfestingarbanki hf. skuldskeytingu þannig að IceProperties ehf. ... verði skuldari að skuld skv. lánssamningnum í stað lántaka og taki þar með yfir allar skyldur lántaka skv. lánssamningnum.“ Þá sagði í 5. grein viðaukans sagði að „IceProperties ... lýsir því sérstaklega yfir að hafa kynnt sér skilmála lánssamningsins og sættir sig við þá að öllu leyti.“

Í tilkynningu hlutafélagaskrár ríkisskattstjóra sem dagsett var 23. júlí 2008 og gefin út tveimur dögum síðar sagði að borist hefði samrunaáætlun Sunds ehf. sem yfirtökufélags og IceCapital ehf. sem yfirtekins félags. Samkvæmt henni væri uppgjörsdagur 29. desember 2007 og frá og með þeim degi tæki yfirtökufélagið við öllum skuldum, réttindum og skyldum yfirtekna félagsins sem teldist þá reikningslega lokið. Yfirtökufélagið væri eigandi að öllu hlutafé í yfirtekna félaginu og væri því ekki um endurgjald að ræða. Þá sagði að við „samrunann renna eignir og skuldir yfirtekna félagsins inn í yfirtökufélagið og koma í stað hlutafjáreignar í yfirtekna félaginu. Félagið mun bera nafn yfirtökufélagsins eftir samrunann og samþykktir þess með þeim breytingum, sem samrunanum fylgja, munu gilda um hið sameinaða félag.“ VBS fjárfestingarbanki hf. og IceProperties ehf. gerðu 30. september 2008 viðauka við lánssamninginn frá 24. apríl 2007 og var gjalddagi lánsins þar færður til 25. september 2010.

Valiant Fjárfestingar ehf. gáfu 7. október 2008 út skuldabréf til Sunds ehf. að fjárhæð 110.181.714 krónur sem skyldu endurgreiðast í einu lagi 7. október 2013. Á framhlið skuldabréfsins var ritað að það væri ekki framseljanlegt en á bakhlið þess sagði að það væri „veðsett VBS fjárfestingarbanka hf., kt. 621096-3039, dags. 4.12.2008.“

VBS fjárfestingarbanki hf. og IceProperties ehf. gerðu 4. desember 2008 viðauka við lánssamninginn frá 24. apríl 2007. Í 1. grein viðaukans sagði að samkvæmt beiðni IceProperties ehf. samþykkti VBS fjárfestingarbanki hf. skuldskeytingu þannig að Sund ehf. yrði skuldari samkvæmt umræddum lánssamningi í stað IceProperties ehf. og tæki þar með yfir allar skyldur skuldara samkvæmt samningnum. Í 4. grein viðaukans sagði að til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á láninu setti Sund ehf. að handveði „skuldabréf dags. 7.10.2008 milli Sunds ehf. ... sem kröfuhafa og Valiant Fjárfestingar ehf. ... sem skuldara að fjárhæð kr. 110.181.714 ... auk áfallinna vaxta og geiðslur samkvæmt því sem leggjast skulu inná reikning Sunds ehf. nr. 0117-26-60513 sem er handveðsettur VBS fjárfestingarbanka hf.“ Þá sagði í 6. grein viðaukans að „Sund ehf. og IceCapital ehf. hafa verið sameinuð, sbr. samrunaáætlun samþykkt af stjórnum félaganna dags. 27. júní 2008.“

Sama dag og síðastgreindur viðauki var gerður við lánssamninginn frá 24. apríl 2007 beindi Sund ehf. tilkynningu til Valiant Fjárfestinga ehf. Þar var fyrst vísað til skuldabréfsins frá 7. október 2008 að fjárhæð 110.181.714 krónur sem Valiant Fjárfestingar ehf. gáfu út til Sunds ehf. Þá sagði að það „tilkynnist yður hér með að Sund ehf. ... hefur veðsett VBS fjárfestingarbanka hf. ... ofangreint skuldabréf og greiðslur samkvæmt því og skulu greiðslur vegna skuldabréfsins greiddar beint inn á reikning Sunds ehf. nr. 0117-26-60513. Skuldabréfið hefur verið áritað um veðsetninguna. Vakin er athygli á því að annar greiðsluháttur telst ekki fullnægjandi greiðsla.“  Samdægurs var af hálfu Valiant Fjárfestinga ehf. rituð svofelld yfirlýsing á tilkynninguna: „Valiant Fjárfestingar ehf. hafa móttekið tilkynningu þessa og kynnt sér efni hennar. Jafnframt skuldbinda Valiant Fjárfestingar ehf. sig til að semja ekki um breytingar á ofangreindu skuldabréfi án fyrirframgefins skriflegs samþykkis VBS fjárfestingarbanka hf.“

Sund ehf. gaf út 5. desember 2008 skjal sem bar heitið: „Yfirlýsing um veð í bókarlausum reikningi  Allsherjarveð“. Þar kom fram að til tryggingar öllum skuldum og öðrum fjárskuldbindingum Sunds ehf. við VBS fjárfestingarbanka hf. væri „bankanum hér með sett að sjálfsvörsluveði innstæða á reikningi útgefanda/veðsala nr. 0177-26-60513 í Landsbanka Íslands hf. eins og hún er á hverjum tíma, þar með taldir vextir og verðbætur. VBS fjárfestingarbanki hf. hefur einn aðgang að hinu veðsetta og er útgefanda/veðsala þá óheimilt að taka út fé af reikningnum.“

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði var með bréfi slitastjórnar varnaraðila 27. júlí 2010 til sóknaraðila og dótturfélags hans IceProperties ehf. kynnt sú afstaða slitastjórnarinnar að hún liti svo á að áðurgreind skuldskeyting frá 4. desember 2008 væri óskuldbindandi fyrir varnaraðila og að slitastjórnin áformi að krefjast ógildingar eða riftunar hennar nema fullnægjandi skýringar verði gefnar og sýnt fram á greiðslugetu sóknaraðila. Sóknaraðili heldur því fram að með þessu bréfi hafi varnaraðili  lýst yfir riftun umræddrar skuldskeytingar og að sóknaraðili hafi fallist á þá riftun með kröfulýsingu 28. desember 2012. Varnaraðili mótmælir framangreindum skilningi sóknaraðila á efni umræddrar yfirlýsingar. Af gögnum málsins verður ekki ráðið hvenær nafn sóknaraðila breyttist úr Sund ehf. í IceCapital ehf.

II

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að með heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki o.fl., sbr. 4. gr. laga nr. 44/2009, hafi Fjármálaeftirlitið 3. mars 2010 skipað bráðabirgðastjórn yfir varnaraðila. Félagið mun hafa verið tekið til slitameðferðar 9. apríl sama ár og því skipuð slitastjórn samkvæmt heimild í 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009. Mun frestdagur við skiptin vera 3. mars 2010 og kröfulýsingarfresti hafa lokið 12. nóvember 2010. Í hinum kærða úrskurði er þess getið að bú sóknaraðila muni hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta 14. mars 2012 og varnaraðili lýst kröfum við gjaldþrotaskiptin og talið sig njóta veðréttar í fyrrgreindu skuldabréfi frá 7. október 2008.

Þrotabú sóknaraðila lýsti 28. desember 2012 kröfu í bú varnaraðila og er krafa hans nr. 284 í kröfuskrá við slitameðferðina. Sagði í kröfulýsingunni að með „vísan til innköllunar yðar í Lögbirtingablaði þá lýsi ég eftirfarandi kröfu f.h. þb. IceCapital ehf: Andlag: Skuldabréf útgefið af Valiant fjárfestingum ehf. ... að fjárhæð kr. 110.181.714,-dagsett 7. október 2008. Kröfuhafi samkvæmt skuldabréfinu er Sund ehf., (nú þb. IceCapital ehf.). Gjalddagi skuldabréfsins er 7. október 2013. Skuldabréfið er óframseljanlegt. Skuldabréf þetta er í vörslum slitastjórnar VBS fjárfestingarbanka og fylgdi það kröfulýsingu VBS í þrotabú IceCapital. Þess er vinsamlega farið á leit við slitastjórn að hún afhendi undirrituðum frumrit skuldabréfsins án dráttar ... Kröfu þessari er lýst sem sértökukröfu samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 ... Telji VBS sig eiga veðrétt eða einhverskonar eignarréttindi í skuldabréfinu er lýst yfir riftun á slíkum rétti, sé hann til staðar, sbr. 137. og 141. gr. laga nr. 21/1991. Þá er sérstaklega á það bent að skuldabréfið er ekki framseljanlegt og getur VBS því ekki verið lögmætur kröfuhafi og byggt rétt sinn á skuldabréfinu.“

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að slitastjórn varnaraðila hafi hafnað kröfum sóknaraðila með bréfi 23. janúar 2013. Mun þar annars vegar hafa verið vísað til þess að kröfulýsingin væri ekki í samræmi við 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991, þar sem í engu hafi verið gerð grein fyrir þeim málsástæðum sem riftunarkrafan væri byggð á eða öðrum þeim atvikum sem þörf hafi verið að greina frá samhengisins vegna. Þá mun í framhaldinu hafa verið gerð grein fyrir þeirri afstöðu slitastjórnar að greiðslur samkvæmt skuldabréfinu frá 7. október 2008 hafi verið réttilega veðsettar og sú veðsetning réttilega hlotið réttarvernd í samræmi við ákvæði 45. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Sóknaraðili mótmælti framangreindri afstöðu slitastjórnar varnaraðila og var ágreiningur þar að lútandi án árangurs tekinn fyrir og loks vísað til úrlausnar héraðsdóms.

III

Í 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 sem gildir við slitameðferð varnaraðila segir að kröfulýsing skuli vera skrifleg og tekið fram í hvers þágu hún sé gerð svo ekki verði um villst. Í henni skuli kröfur tilteknar svo skýrt sem verða megi, svo sem fjárhæð kröfu og vaxta í krónum og hverrar stöðu sé krafist að hún njóti í skuldaröð, eða um afhendingu tiltekins hlutar, ákvörðun á tilgreindum réttindum á hendur þrotabúinu, lausn undan tiltekinni skyldu við það, skyldu þess til ákveðinnar athafnar eða til að láta af henni, greiðslu kostnaðar af innheimtu kröfunnar eða gæslu hagsmuna af henni o.s.frv. Í kröfulýsingu skuli ennfremur greina þær málsástæður sem kröfuhafi byggi rétt sinn á hendur þrotabúinu á, svo og önnur atvik sem þurfi að greina samhengis vegna.

Kröfulýsing sóknaraðila í bú varnaraðila var tvíþætt eins og áður er rakið. Hann krafðist þess í fyrsta lagi að varnaraðili afhenti sér skuldabréf það sem Valiant Fjárfestingar ehf. gáfu út 7. október 2008 og vísaði í þeim efnum til 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 þeirri kröfu til stuðnings. Með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar er staðfest sú niðurstaða að þótt umfjöllun sóknaraðila í kröfulýsingunni sé knöpp teljist krafa þessi ekki vanreifuð þannig að henni verði hafnað þegar af þeirri ástæðu. Í öðru lagi krafðist sóknaraðili þess í kröfulýsingu sinni að teldi varnaraðili „sig eiga veðrétt eða einhverskonar eignarréttindi í skuldabréfinu er lýst yfir riftun á slíkum rétti, sé hann til staðar, sbr. 137. og 141. gr. laga nr. 21/1991.“ Með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar er staðfest sú niðurstaða að kröfulýsing með þessum hætti fullnægi ekki áskilnaði 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 um skýran og glöggan málatilbúnað og að sóknaraðili hafi fyrir dómi uppi riftunarkröfur sem ekki rúmist innan þeirra sem hann hafði uppi í kröfulýsingunni. Er því staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að hafna beri riftunarkröfum sóknaraðila af þessari ástæðu. Loks er með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar staðfest sú niðurstaða að handveðréttur varnaraðila í skuldabréfinu frá 7. október 2008 standi því í vegi að honum verði að svo komnu gert að afhenda sóknaraðila það. Þá verður hinn kærði úrskurður staðfestur um málskostnað.

Eftir framangreindum úrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, þrotabú IceCapital ehf., greiði varnaraðila, VBS eignasafni hf., 500.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2015.

                Máli þessu, sem er ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila, var beint til dómsins með bréfi slitastjórnar varnaraðila 6. mars 2014, sem móttekið var 21. sama mánaðar og þingfest 13. júní sama ár. Um lagagrundvöll vísaði slitastjórn til 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málið var tekið til úrskurðar miðvikudaginn 15. apríl sl. Sóknaraðili er þrotabú Ice Capital ehf., Smáratorgi 3, Kópavogi, en varnaraðili er VBS eignasafn hf., Suðurlandsbraut 6, Reykjavík.

                Sóknaraðili krefst þess að krafa hans, nr. 284 í kröfuskrá við slitameðferð varnaraðila, um að slitastjórn varnaraðila afhendi honum skuldabréf útgefið af Valíant fjárfestingum ehf., kt. 480399-2429, að fjárhæð 110.181.714 krónur, dagsett 7. október 2008, sem lýst var sem sérstökukröfu samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., við slitameðferð varnaraðila, verði viðurkennd að fullu eins og henni var lýst.

                Þá krefst sóknaraðili þess að viðurkennd verði riftun á veðrétti varnaraðila af greiðslum af ofangreindu skuldabréfi og riftun á veðrétti varnaraðila á reikningi 117-26-60513.

                Sóknaraðili krefst einnig málskostnaðar.

                Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar.

I

                Varnaraðili er fjármálafyrirtæki í slitameðferð og hét áður VBS fjárfestingarbanki hf. Helstu málsatvik eru þau að sóknaraðili máls þessa yfirtók nánar tilgreindar skuldir dótturfélags síns, Icepropterties ehf., gagnvart varnaraðila samkvæmt lánssamningi 24. apríl 2007. Var af því tilefni gerður viðauki við lánasamninginn 4. desember 2008 þar sem varnaraðili samþykki skuldskeytinguna. Kveðst varnaraðili hafa samþykkt umrædda skuldskeytingu með skilyrði um nánar tilgreinar tryggingar. Í tilefni þessa veitti sóknaraðili m.a. handveð í skuldabréfi því sem hann krefst nú afhendingar á.

                Skuldari samkvæmt skuldabréfinu var Valíant fjárfestingar ehf. en kröfuhafi sóknaraðili, sem þá hét Sund ehf. Bréfið var að fjárhæð 110.181.714 krónur og er gefið út 7. október 2008. Fram kemur á skuldabréfinu áritun um að það sé ekki framseljanlegt. Á afriti skuldabréfsins er einnig eftirfarandi áritun: Skuldabréf þetta er veðsett VBS fjárfestingarbanka hf. [kt.], dags. 4.12.2008.

                Í málinu liggur fyrir bréf stjórnar sóknaraðila, 4. desember 2008, til skuldara samkvæmt skuldabréfinu þar sem tilkynnt er að sóknaraðili hafi veðsett varnaraðila umrætt skuldabréf og greiðslur samkvæmt því. Þá kemur fram að greiðslur skuli leggja inn á tilgreindan bankareikning. Einnig kemur fram að skuldabréfið hafi verið áritað um veðsetninguna. Vakin er athygli á að annar greiðsluháttur teljist ekki fullnægjandi greiðsla.

                Af hálfu Valíant fjárfestinga ehf. er undirrituð svofelld yfirlýsing, dags. 4. desember 2008, sem fram kemur í lok bréfsins: „Valiant fjárfestingar ehf. hafa móttekið tilkynningu þessa og kynnt sér efni hennar. Jafnframt skuldbinda Valiant fjárfestingar ehf. sig til að semja ekki um breytingar á ofangreindu skuldabréfi án fyrirframgefins skriflegs samþykkis VBS fjárfestingarbanka hf.“

                Með heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 4. gr. laga nr. 44/2009 skipaði Fjármálaeftirlitið 3.mars 2010 bráðbirgðastjórn yfir varnaraðila og var félagið tekið til slitameðferðar 9. apríl 2010 og skipuð slitastjórn skv. heimild í 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009. Samkvæmt lögum nr. 161/2002 gilda að meginstefnu reglur laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. um slitameðferðina. Frestdagur við skiptin er 3. mars 2010. Kröfulýsingarfresti lauk 12. nóvember 2010.

                Með bréfi slitastjórnar varnaraðila 27. júlí 2010 til sóknaraðila og dótturfélags hans, Iceproperties ehf., var kynnt sú afstaða slitastjórnarinnar að hún liti svo á að ofangreind skuldskeyting frá 4. desember 2008 væri óskuldbindandi fyrir varnaraðila og að slitastjórnin áformi að krefjast ógildingar eða riftunar nema fullnægjandi skýringar verði gefnar og sýnt fram á greiðslugetu sóknaraðila.

                Af hálfu sóknaraðila er til þess vísað í málinu að með þessu bréfi hafi varnaraðili lýst yfir riftun umræddrar skuldskeytingar og sóknaraðili hafi fallist á þá riftun með kröfulýsingu dags. 28. desember 2012. Umrædd kröfulýsing liggur fyrir í málinu en er ekki sú kröfulýsing sem var grundvöllur þess máls sem hér er til úrlausnar. Varnaraðili mótmælir framangreindum skilningi sóknaraðila á efni umræddrar yfirlýsingar.

                Kröfulýsing sú sem hér er til úrlausnar er dagsett 28. desember 2012 og er þar krafist afhendingar á því skuldabréfi sem að framan er lýst og þess getið að bréfið sé ekki framseljanlegt. Kröfunni er lýst sem sértökukröfu samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991. Þá kemur fram í kröfulýsingunni eftirfarandi texti: „Telji VBS sig eiga veðrétt eða einhverskonar eignarréttindi í skuldabréfinu er lýst yfir riftun á slíkum rétti, sé hann til staðar, sbr. 137. og 141. gr. laga nr. 21/1991.“ Ekki er að finna í kröfulýsingunni frekari röksemdir er lúta að riftun.

                Með bréfi slitastjórnar varnaraðila 23. janúar 2013 var kröfum sóknaraðila hafnað. Var vísað annars vegar til þess að kröfulýsing væri ekki í samræmi við áskilnað 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 þar sem í engu hafi verið gerð grein fyrir þeim málsástæðum sem riftunarkrafa byggði á eða öðrum þeim atvikum sem þörf hafi verið að greina frá samhengis vegna. Þá er í framhaldinu gerð grein fyrir þeirri afstöðu slitastjórnar að greiðslur samkvæmt umræddu skuldabréfi hafi verið réttilega veðsettar og að sú veðsetning hafi réttilega hlotið réttarvernd í samræmi við ákvæði 45. gr. laga nr. 75/1997.

                Sóknaraðili mótmælti framangreindri afstöðu slitastjórnar varnaraðila og var ágreiningurinn tekinn fyrir á jöfnunarfundum, án árangurs, en þar næst vísað til úrlausnar dómsins, eins og fyrr greinir.

                Bú sóknaraðila mun hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta 14. mars 2012 og mun varnaraðili hafa lýst kröfum við gjaldþrotaskiptin og talið að hann nyti veðréttar í umræddu skuldabréfi.

II

                Sóknaraðili kveðst byggja kröfu sína um afhendingu ofangreinds skuldabréfs á því í fyrsta lagi að varnaraðili hafi engin lögmæt umráð yfir skuldabréfinu og verði ekki séð að hann byggi á því í málinu að hafa slíka heimild. Varnaraðili haldi því fram að skuldabréfið hafi ekki verið framselt sér og ekki verið veðsett sér. Geti sóknaraðili því með engu móti séð á hvaða grundvelli varnaraðili telji sér heimilt að halda umráðum bréfsins þrátt fyrir að sóknaraðili sem löglegur eigandi þess hafi ítrekað krafist afhendingar á því. Bendi sóknaraðili á kröfulýsingu varnaraðila í þrotabú Valíant fjárfestinga ehf. þar sem fram komi að eigandi skuldabréfsins sé sóknaraðili.

                Í öðru lagi kveðst sóknaraðili byggja á því að umrætt skuldabréf sé ekki framseljanlegt eins og skýrt komi fram í því. Sé því ekki undir neinum kringumstæðum hægt að framselja það eða greiðslur af því. Hafi því yfirlýsing um veð í bankareikningi, dags. 5. desember 2008 og tilkynning um breyttan greiðslustað dags. 4. desember 2008 ekkert gildi og séu þýðingarlausar fyrir úrlausn málsins. Byggi krafa sóknaraðila um afhendingu skuldabréfsins því á að það hafi verið með öllu óheimilt að afhenda og framselja bréfið til þriðja aðila. Það sé sóknaraðila óskiljanlegt hvernig skuldabréf sem óheimilt sé að framselja getið verið í vörslum þriðja aðila.

                Þá sé á því byggt í þriðja lagi verði það niðurstaða dómsins að stofnast hafi til gilds veðréttar yfir greiðslum af skuldabréfinu og tengdum löggerningum að 2. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð ryðji þeirri veðsetningu til hliðar eða ógildi hana, en þar komi fram að þegar réttindi séu háð þeim takmörkunum að þau séu ekki framseljanleg, eða einungis framseljanleg með vissum skilyrðum, gildi sömu takmarkanir hvað varði heimild til að veðsetja réttindin. Í athugsemdum við frumvarp til laganna komi m.a. fram að veðsetning sem brjóti gegn umræddu ákvæði geti verið ógildanleg í heild eða að hluta.

                Tilvitnað ákvæði laga nr. 75/1997 sé skýrt að þessu leyti, enda eðli máls samkvæmt ekki hægt að veðsetja greiðslur samkvæmt skuldabréfinu þar sem skuldabréf sé einhliða óskilyrt skuldaviðurkenning. Skuldabréf sé þannig einungis greiðsluloforð skuldarans til kröfuhafans og séu þetta einu réttindin sem fólgin séu í bréfinu ásamt því hvernig krafan verði innheimt ef til þess komi. Að samþykkja það að veðsetning á greiðslum samkvæmt skuldabréfinu sé heimil þrátt fyrir 2. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1997 þýddi að ákvæðið væri merkingarlaust og skuldabréfið í raun veðsett, þótt óheimilt sé að framselja skuldabréfið og þar með óheimilt að veðsetja það.

                Þá byggi sóknaraðili á því að skuldabréfið og réttindi því tengd séu ein heild og ekki sé hægt að velja úr greiðsluskuldbindinguna og veðsetja hana sérstaklega þrátt fyrir skýrt bann við veðsetningu skuldabréfsins samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1997.

                Þá byggi sóknaraðili á því í fjórða lagi að varnaraðili hafi sjálfur rift framsalinu, veðsetningunni, skuldskeytingunni og tengdum löggerningum þann 27. júlí 2010. Með kröfulýsingu sóknaraðila, 28. desember 2012 hafi varnaraðili samþykkt þessa riftun. Þá þegar séu komin skilyrði til að fallast á kröfur sóknaraðila, enda skuldskeytingin, veðsetningin og framsalið/afhendingin á skuldabréfinu ekki lengur gild að lögum. Þessi riftunaryfirlýsing, sem sóknaraðili hafi samþykkt, hafi aldrei verið afturkölluð. Varnaraðili hafi fjallað ítarlega um skilyrði riftunar vegna þessara löggerninga, sem sóknaraðili hafi tekið undir að öllu leyti í kröfulýsingu sinni. Varnaraðili byggi á því að sóknaraðili sé bundinn við þessa riftunaryfirlýsingu sem sóknaraðili hafi samþykkt.

                Í sömu kröfulýsingu hafi sóknaraðili lýst sjálfstætt yfir riftun á þessu samkomulagi og öllum tengdum gerningum. Vísaði hann m.a. í sömu rök og hafi komið fram í riftunaryfirlýsingu varnaraðila og hafi sérstaklega tiltekið 137. og 142. gr. laga nr. 21/1991.

                Sóknaraðili telji ljóst að skilyrði 137. gr. séu uppfyllt og bendi jafnframt á að sóknaraðili og varnaraðili hafi verið nákomnir í skilningi 4. og 5. tl. 3. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili bendi á að hann hafi ekki fengið andvirði lánsins úthlutað til sín þegar skuldskeytingin hafi átt sér stað, enda um hreina skuldaaukningu að ræða fyrir sóknaraðila þar sem engar fjárhæðir hafi skipt um hendur milli sóknaraðila og varnaraðila. Þá liggi fyrir að sóknaraðili hafi verið ógjaldfær 4. desember 2008, en strax í september og október 2008, við fall íslenska fjármálakerfisins, hafi sóknaraðili orðið ógjaldfær enda með stærstu eigendum í íslensku viðskiptabönkunum.

                Þá sé jafnframt ljóst að veðrétturinn hafi verið veittur vegna eldri skuldar og engar greiðslur hafi borist frá varnaraðila til sóknaraðila vegna skuldskeytingarinnar eða veðsetningarinnar. Veðsetningin hafi þannig leitt til minni fullnustumöguleika annarra kröfuhafa í þrotabúið, bæði með því að hin veðsetta eign hafi ekki lengur runnið til kröfuhafa og skuldir sóknaraðila hafi aukist við skuldskeytinguna.

                Þá byggi sóknaraðili jafnframt á því að umrædd veðsetning hafi verið ráðstöfun sem á ótilhlýðilegan hátt hafi verið varnaraðila til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa og hafi leitt til þess að eign sóknaraðila hafi ekki verið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum. Vegna náinna tengsla aðila hafi þeim verið ljós eða hafi mátt vera ljós bágur fjárhagur sóknaraðila og að veðsetningin væri til þess fallin að rýra möguleika annarra kröfuhafa til fullnustu og teldist því ótilhlýðileg samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991. Vísist sérstaklega til umfjöllunar varnaraðila í bréfi sínu 27. júlí 2010 og svo og að umræddir gerningar hafi brotið í bága við lánareglur varnaraðila og hafi þannig ekki gildi að lögum. Þá byggi sóknaraðili sjálfstætt á riftunaryfirlýsingum sínum í kröfulýsingum sínum við slitameðferð varnaraðila, eins og nánar verði rakið.

                Til stuðnings kröfu sóknaraðila um riftun á yfirlýsingu 5. desember 2008, þ.e. veðsetningu á reikningi nr. 117-26-60513 og skuldabréfi útgefnu af Valiant fjárfestingum ehf. 7. október 2008, byggi sóknaraðili á því að ætlað framsal eða veðsetning á skuldabréfinu, eða greiðslum af skuldabréfinu, hafi verið ráðstöfun sem á ótilhlýðilegan hátt hafi verið varnaraðila til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa og hafi leitt til þess að eign sóknaraðila hafi ekki verið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum hans.

                Vísi sóknaraðili til rökstuðnings þess sem komi fram í riftunaryfirlýsingu varnaraðila, sbr. kröfulýsingu sóknaraðila, svo og sjálfstætt til 141. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt þeirri lagagrein megi krefjast riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt séu kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiði til þess að eignir þrotamanns verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiði til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, ef þrotamaðurinn hafi verið ógjaldfær eða hafi orðið það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hag hafi haft af henni hafi vitað eða hafi mátt vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leitt hafi til þess að ráðstöfunin hafi verið ótilhlýðileg. Ljóst sé að skuldskeytingin hafi leitt til skuldaaukningar sóknaraðila, sem hafi verið kröfuhöfum hans til tjóns og að varnaraðila hafi verið kunnugt um fjárhagslega stöðu sóknaraðila.

                Á því sé byggt af hálfu sóknaraðila að hann hafi verið ógjaldfær í skilningi laga nr. 21/1991 frá septembermánuði 2008 og því ógjaldfær í desember sama ár þegar hinar riftanlegu ráðstafanir hafi átt sér stað. Á þessum tíma hafi sóknaraðili verið nær eignalaus en skuldir hans hafi numið mörgum milljörðum króna. Þessu til stuðnings megi t.d. benda á að samkvæmt ársreikningum Ice Capital ehf. fyrir árin 2008 og 2009 hafi eigið fé Ice Capital ehf. verið neikvætt um 17,5 milljarða króna í lok árs 2008 og um rúma 24,6 milljarða króna í árslok 2009. Í ársreikningi félagsins 2008 segi m.a. að tap ársins 2008 nemi rúmlega 32,2 milljörðum króna.

                Þessu til frekari stuðnings vísist til þess sem fram komi í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 að á tímabilinu frá 1. janúar 2007 til 30. september 2008 hafi skuldir sóknaraðila og tengdra félaga hækkað um 44,7 milljarða króna. Í evrum talið hafi skuldbindingar félaganna hækkað um 236,5 milljónir eða 117%. Á sama tíma hafi nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðunum lánanefnda numið 43,3 milljörðum króna.

                Varnaraðila hafi augljóslega verið ljóst að sóknaraðili hafi verið ógjaldfær þegar hinar riftanlegu ráðstafanir hafi átt sér stað. Megi ráða þetta m.a. af bréfi sóknaraðila 27. júlí 2010 svo og kröfum varnaraðila varðandi þær tryggingar sem setja þyrfti til að samþykkja skuldskeytinguna.

                Sóknaraðili byggi á því að skuldskeytingin hafi verið varnaraðila til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa enda hafi skuldskeytingin leitt til skuldaaukningar hjá sóknaraðila. Skuldskeytingin hafi mismunað kröfuhöfum og hafi þar með gengið gegn jafnræði þeirra sem gæta skuli skv. lögum nr. 21/1991.

                Sóknaraðili byggi á því að það sé fullkomlega ljóst í málinu, að varnaraðili hafi verið grandsamur um fjárhagslega stöðu sóknaraðila, þ.e. að félagið hafi ekki verið gjaldfært, þegar skuldskeytingin hafi átt sér stað. Þá bendi sóknaraðili á að lánareglur varnaraðila hafi verið brotnar við skuldskeytinguna, sem leiði til þess að gjörningurinn sé ótilhlýðilegur og riftanlegur. Vísi sóknaraðili m.a. til almennu skaðabótareglunnar og til ákvæða laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og ákvæða laga nr. 2/1995 um hlutafélög.

                Þá bendi sóknaraðili á að hann hafi rift millifærslu af reikningi nr. 117-26-60513 inn á reikning í eigu varnaraðila með kröfulýsingu 28. desember 2012. Þar segi m.a. „Telji VBS sig eiga veðrétt eða einhverskonar veð- eða eignarréttindi í innstæðunni er lýst yfir riftun á slíkum rétti, sé hann til staðar, sbr. 137. og 141. gr. laga nr. 21/1991. Kröfu um greiðslu (svo) vísar kröfuhafi til 142. gr. laga nr. 21/1991, sbr. annars vegar 1. mgr. og hins vegar 3. mgr. Þá er sérstaklega á það bent að innlánsreikningar eru ekki framseljanlegir. Ekkert liggur fyrir um að reikningurinn hafi verið læstur fyrir útborgunum.“ Þann 4. janúar 2013 hafi varnaraðili endurgreitt að fullu umrædda fjárhæð. Telji sóknaraðili þetta staðfesta að kröfulýsingar hans hafi ekki verið vanreifaðar, að varnaraðili hafi getað áttað sig á þeim að fullu enda hafi hann brugðist við einni þeirra með endurgreiðslu og að aldrei hafi stofnast lögmætt veð yfir reikningnum. Þá komi fram í gögnum sem varnaraðili hafi sent sóknaraðila að reikningur nr. 117-26-60513 hafi verið eyðilagður. Þar sem reikningurinn hafi verið eyðilagður telji sóknaraðili ljóst að ætluð veðsetning varnaraðila hafi enga þýðingu í málinu, enda ekki hægt að eiga veð í reikningi sem ekki sé lengur til, hvað þá handveð.

                Sóknaraðili bendi á að varnaraðili hafi gert ráð fyrir því að umfjöllun um samþykki á riftun varnaraðila og sjálfstæða riftun sóknaraðila sé aðskilin krafa sem hafi hlotið sitt eigið númar í kröfuskrá. Samhengisins vegna, með vísun til umfjöllunar hér að framan, telji sóknaraðili rétt að fjalla um þessi álitamál að því leyti sem þau lúti að ágreiningsmáli sem fyrir dóminum sé.

                Þá kveðst sóknaraðili mótmæla því að kröfulýsing hans uppfylli ekki áskilnað 117. gr. laga nr. 21/1991. Í 1. mgr. þess lagaákvæðis sé mælt svo fyrir að sá sem halda vilji uppi kröfu á hendur þrotabúi skuli lýsa henni fyrir skiptastjóra. Í 2. mgr. sömu lagagreinar séu nánari fyrirmæli um það hvernig slík kröfulýsing skuli vera úr garði gerð. Meðal annars komi þar fram að kröfur skuli tilteknar svo skýrt sem verða megi, svo sem fjárhæð þeirra og vextir í krónum og hverrar stöðu sé krafist að hún njóti í skuldaröð. Sóknaraðili hafi lýst kröfu og hafi krafist viðurkenningar á eignarrétti sínum, sbr. 109. gr. laga nr. 21/1991, en til vara að eignarréttindum varnaraðila yrði rift á grundvelli 137. gr. og 141. gr. laganna. Í kröfulýsingu sóknaraðila séu allar þær málsástæður sem sóknaraðili byggi rétt sinn á hendur varnaraðila á, svo og önnur atvik sem þurft hafi að greina samhengis vegna. Þá sé einnig vísað til umfjöllunar varnaraðila sjálfs í riftunaryfirlýsingu hans frá 27. júlí 2010.

                Ekki sé ágreiningur milli aðila um að varnaraðili hafi frumrit skuldabréfsins undir höndum en deilt sé um hvort varnaraðili njóti veðréttar eða einhverskonar eignarréttinda í skuldabréfinu. Því sé ljóst að kröfulýsing sóknaraðila uppfylli áskilnað 117. gr. laga nr. 21/1991.

                Þá bendi sóknaraðili á að hann hafi rift millifærslu af reikningi nr. 117-26-60513 inn á reikning í eigu varnaraðila með kröfulýsingu 28. desember 2012, sbr. það sem fyrr segi. Varnaraðili hafi ekki átt í neinum erfiðleikum með að taka afstöðu til þeirrar kröfulýsingar og verða við kröfum sóknaraðila, en sú kröfulýsing sé í algjöru samræmi við kröfulýsingu í þessu máli.

                Sóknaraðili kveðst vísa til almennra meginreglna samninga-, kröfu- og veðréttar. Um friðhelgi eignarréttarins sé vísað til 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Þá vísi sóknaraðili til laga nr. 75/1997 um samningsveð, einkum 3. gr. laganna og til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Krafa um riftun sé einkum reist á 137. og 141. gr. síðastnefndra laga. Krafa um að tekið verði tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar styðjist við ákvæði laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt en samkvæmt 10. tl. 3. mgr. 2. gr. laganna sé sóknaraðili undanþeginn virðisaukaskatti og geti því ekki nýtt sér virðisaukaskatt í rekstri sínum. Málskostnaðarkrafa byggist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991. Um sönnun og sönnunarbyrði sé vísað til meginreglna VI. kafla laga nr. 91/1991 og 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991.

III

                Varnaraðili kveðst byggja varnir sínar á því að málatilbúnaður sóknaraðila sé verulega vanreifaður og komi það niður á vörnum varnaraðila. Vísi varnaraðili m.a. til meginreglna réttarfars um skýran og ljósan málatilbúnað sem og 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

                Sérstaklega skuli á það bent að varnaraðili telji að með kröfugerð sóknaraðila í greinargerð sinni hafi hann flækt málatilbúnað sinn og hagað kröfugerð sinni með þeim hætti að andstætt sé d- og e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Kröfugerð sóknaraðila virðist tvíþætt, annars vegar krafa um afhendingu skuldabréfs og hins vegar krafa um viðurkenningu á riftun veðréttar. Varnaraðili telji að þessi tvíþætta kröfugerð geti ekki farið saman sem ein krafa enda sé málsástæðum flækt saman með slíkum hætti að erfitt sé fyrir varnaraðila að átta sig á því hvaða málsástæður séu til grundvallar kröfu um afhendingu skv. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 og hverjar séu til grundvallar viðurkenningu á riftun. Þannig feli síðari hluti kröfugerðar sóknaraðila um riftun í sér viðurkenningu á því að veðsetning hafi stofnast en hins vegar byggi sértökukrafa hans á því að veðréttur hafi ekki stofnast, án þess þó að gerð sé grein fyrir því af hverju sóknaraðili eigi að fá skuldabréfið afhent án tillits til veðsetningarinnar. Ljóst sé því að mati varnaraðila að kröfugerð sóknaraðila sé ekki háttað þannig að unnt sé að taka hana að óbreyttu upp í dómsorði, sbr. áskilnaður 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

                Jafnframt sé málsástæðum flækt og snúið með þeim hætti að meginhluti málsástæðna sóknaraðila snúi að mögulegri riftun á skuldskeytingu milli sóknaraðila og Iceproperties ehf. sem þó sé óviðkomandi kröfugerð sóknaraðila. Auk heldur megi greina jafn tilhæfulaus rök um ógildingu í þriðju málsástæðu sóknaraðila án þess að krafa sé gerð um ógildingu í málinu. Málsástæður sóknaraðila séu því að meginhluta til óviðkomandi þeim dómkröfum sem hann hafi uppi í málinu.

                Í kröfulýsingu sóknaraðila sé hvorki gerð skýr krafa um riftun né nokkur grein fyrir því gerð hvers vegna um sé að ræða riftanlega ráðstöfun eða reynt með öðrum hætti að heimfæra ráðstöfunina undir hin tilvitnuðu ákvæði riftunarreglna laga nr. 21/1991. Því sé algerlega vanreifað með hvaða hætti skilyrðum riftunarreglna gjaldþrotalaga sé fullnægt. Eingöngu sé um að ræða einhliða fullyrðingu sóknaraðila án nokkurs ýtarlegs rökstuðnings. Telji varnaraðili greinargerð sóknaraðila undir rekstri málsins sama marki brennda.

                Varnaraðili byggi einnig á því að ekki sé unnt að ná fram riftun á ráðstöfun með því að beina eingöngu viðurkenningarkröfu um riftun að varnaraðila. Svo mögulegt sé að fá ráðstöfun hnekkt með riftun þá verði að gera skýra kröfu um riftun. Viðurkenning á því að um riftanlega ráðstöfun sé að ræða hafi því takmarkaða þýðingu gagnvart varnaraðila.

                Samkvæmt ofangreindu telji varnaraðili málatilbúnað sóknaraðila svo gallaðan að ekki verði hjá því komist að hafna kröfum hans þar sem málatilbúnaðurinn fullnægi ekki áskilnaði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Sé í þessu sambandi vísað til 2. mgr. 117. gr., 1. og 3. mgr. 177. gr. og 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

                Varnaraðili kveðst hafna með öllu sértökukröfu sóknaraðila skv. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 enda þyki varnaraðila ljóst að skilyrði ákvæðisins séu ekki uppfyllt eins og málum sé háttað.

                Á því sé byggt af hálfu varnaraðila, í fyrsta lagi, að gildur handveðréttur hafi stofnast í skuldabréfinu útgefnu af Valíant fjárfestingum ehf. Skuldabréfið hafi ekki verið framselt sem slíkt til varnaraðila heldur hafi bréfið verið handveðsett varnaraðila líkt og áritun bréfsins beri með sér. Fyrir liggi einnig að sóknaraðili (áður Sund ehf.) hafi tilkynnt Valíant fjárfestingum ehf. 4. desember 2008 að félagið hefði handveðsett varnaraðila umrætt skuldabréf og jafnframt greiðslur samkvæmt því og að greiðslur af því skyldu greiðast inn á tiltekinn reikning sem varnaraðili hafi einn haft aðgang að. Kröfuhafi og skuldari hins veðsetta skuldabréfs, þ.e. sóknaraðili og þb. Valiant fjárfestinga ehf. hafi samþykkt veðsetninguna og að því leyti sem framsalsbann í skuldabréfinu kynni ella að hafa torveldað veðsetningu þess, þá hafi þeirri hindrun verið rutt úr vegi þegar sóknaraðili og Valíant fjárfestingar ehf. hafi samþykkt handveðsetninguna og að greiðslur skv. skuldabréfinu skyldu renna inn á reikning handveðsettan varnaraðila. Hafi því réttilega verið stofnað til veðsetningarinnar um leið og sóknaraðili hafi tekið að sér skuldbindinguna skv. lánssamningnum gagnvart varnaraðila.

                Samkvæmt 43. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð sé heimilt að setja viðskiptabréf að handveði eða sjálfsvörsluveði. Ef viðskiptabréf sé sett að handveði gildi um réttarvernd veðsetningarinnar, eftir því sem við geti átt, ákvæði 2.–4. mgr. 22. gr. sömu laga. Í 2. mgr. 22. gr. laganna sé kveðið á um að handveðréttur öðlist réttarvernd við afhendingu veðsins til veðhafa eða aðila sem tekið hafi að sér að hafa umráð veðsins fyrir veðhafa þannig að eigandinn sé sviptur möguleikanum á því að hafa veðið undir höndum.

                Með vísan til framangreinds sé ljóst að handveðsetning skuldabréfsins og greiðslur þess hafi öðlast réttarvernd með umráðasviptingu gagnvart sóknaraðila. Hafna verði því að þeim sökum kröfu sóknaraðila um sértökurétt skv. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991.

                Varnaraðili byggi jafnframt á því að greiðslur af hinu handveðsetta skuldabréfi séu sem slíkar veðsettar varnaraðila og hafi sóknaraðili og þb. Valiant fjárfestingu ehf. einnig samþykkt þá veðsetningu sérstaklega. Jafnframt sé þb. Valíant fjárfestinga ehf. skuldbundið til þess að greiða af bréfinu inn á reikning sem veðsettur sé varnaraðila og ljóst sé að umræddur reikningur sé sannanlega til staðar, í eigu varnaraðila.

                Þar sem greiðslur samkvæmt hinu umþrætta skuldabréfi hafi einnig sem slíkar verið veðsettar varnaraðila með réttum hætti, sbr. það sem greini hér að ofan, með samþykki sóknaraðila og Valíant fjárfestinga ehf., þá verði að hafna kröfu sóknaraðila um sértökurétt skv. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991. Hafa beri í huga í þessu sambandi að sóknaraðili hafi fallist á að varnaraðili innheimti bréfið hjá þb. Valiant fjárfestinga ehf., sbr. samkomulag þar um sem liggi fyrir í málinu, og í því samkomulagi hafi falist að sóknaraðili hafi í raun fallið frá sértökukröfu sinni.

                Af hálfu varnaraðila er á því byggt að 2. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð eigi ekki við. Í fyrsta lagi þá sé dómkröfum sóknaraðila ekki þannig háttað að ætluð ógilding komi til skoðunar í málinu. Dómkröfur snúi að sértökurétti og viðurkenningu á riftun veðsetningar hins umþrætta skuldabréfs. Málsástæðu þessari beri því að hafna enda varði hún ekki dómkröfur sóknaraðila og eigi því ekki að koma til skoðunar við úrlausn málsins. Í öðru lagi þá eigi 2. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1997 ekki við um kröfur á grundvelli viðskiptabréfa líkt og um sé að ræða í máli þessu. Ákvæðið varði takmarkanir á veðsetningu réttinda sem séu í eðli sínu óframseljanleg og leiði af almennum reglum. Sem dæmi um slík réttindi sé rétt að benda á lífeyrisréttindi og erfðaréttindi. Varnaraðili hafni því með öllu að handveðsetning og veðsetning greiðslna af skuldabréfi útgefnu af Valíant fjárfestingum ehf. geti varðað ógildingu m.t.t. framangreinds ákvæðis, þ.e.a.s. ef slík krafa væri uppi höfð í málinu. Auk heldur sem ákvæðið geti ekki tekið til veðsetningar greiðslna af bréfinu sjálfu. Að lokum byggi varnaraðili á því að burtséð frá túlkun 2. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1997 þá hafi sóknaraðili og skuldari bréfsins, þb. Valiant fjárfestinga ehf., samið sín á milli vegna veðsetningar skuldabréfsins og greiðslna skv. því. Jafnt því sem aðilar hafi heimild til að semja um að skuldabréfið megi ekki framselja þá hafi þeir að sjálfsögðu heimild til að falla frá slíkri kvöð líkt og gert hafi verið með móttöku og samþykki Valíant fjárfestinga ehf. vegna veðsetningar skuldabréfsins til varnaraðila. Bann við kröfuframsali hafi því ekki gildi gagnvart varnaraðila. Með vísan til framangreinds beri því að hafna kröfum sóknaraðila.

                Varnaraðili telji ljóst að dómkröfur sóknaraðila rúmist ekki innan krafna hans skv. kröfulýsingu. Í kröfulýsingu þurfi kröfur að koma fram eins skýrt og unnt sé. Af fyrirmælum 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 megi ráða að kröfugerð þurfi nánast að vera með sama hætti og í stefnu í einkamáli, sbr. d- lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

                Af skoðun 117. gr. laga nr. 21/1991 í heild sinni megi því ráða að kröfulýsingu á hendur þrotabúi megi jafna við útgáfu stefnu enda hafi kröfulýsing sömu áhrif og ef mál hefði verið höfðað um kröfuna á þeirri stund sem hún berist skiptastjóra, sbr. 5. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991.

                Ljóst sé að sóknaraðili hefur í kröfugerð sinni í greinargerð málsins farið út fyrir kröfur sínar skv. kröfulýsingu á hendur varnaraðila. Almenn skírskotun til þess að ef varnaraðili teldi hið umþrætta skuldabréf vera veðsett sér þá lýsi sóknaraðili yfir riftun á slíkum rétti, geti ekki með nokkrum hætti talist fullnægjandi krafa í ljósi þess áskilnaðar sem lög nr. 21/1991 geri til kröfugerðar kröfulýsanda. Jafnframt sem kröfugerð sóknaraðila skv. greinargerð hans sé komin langt út fyrir þessa almennu yfirlýsingu um hugsanlega riftun á mögulegum veðrétti. Ef dómurinn tæki kröfu sóknaraðila um viðurkenningu á riftun til greina þá væri kröfulýsing á hendur þrotaaðila nánast þarflaus eða þá algjörlega óformbundin og ákvæði 117. gr. laganna í raun virt að vettugi.

                Af framangreindu leiði að slíkir annmarkar séu á kröfugerð sóknaraðila skv. kröfulýsingu og greinargerð hans að slíkt leiði til frávísunar og því verði ekki hjá því komist að hafna kröfum hans.

                Ef svo ólíklega vilji til að dómurinn telji að krafa sóknaraðila um viðurkenningu á riftun rúmist innan kröfulýsingar hans og sé ekki vanreifuð. Þá telji varnaraðili að hin síðar tilkomna viðurkenning á riftun hvað varði veðsetningu á greiðslum af hinu umþrætta skuldabréfi og veðsetningu á reikningi nr. 117-26-60513, sé of seint fram komin. Kröfulýsingarfresti í bú varnaraðila hafi lokið þann 12. nóvember 2010. Meginreglan sé sú að ef kröfu sé ekki lýst á hendur þrotaaðila innan kröfulýsingarfrests þá falli hún niður gagnvart búinu sbr. 118. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili hafi ekki fært rök fyrir því á hvaða grundvelli hann telji kröfuna komast nú að.

                Krafan komi fyrst fram í greinargerð sóknaraðila en hann hafi ekki gert kröfu um hverrar stöðu í réttindaröð í búi varnaraðila krafan skuli njóta eða á hvaða grundvelli hún skuli nú komast að.

                Sömu sjónarmið eigi við um hina almennu yfirlýsingu sóknaraðila í kröfulýsingu hans um að telji varnaraðili sig eiga veðrétt eða einhverskonar eignarrétt í hinu hér umþrætta skuldabréfi þá sé lýst yfir riftun.

                Ber því að hafna kröfu sóknaraðila.

                Ef svo ólíklega vilji til að fallist verði á að riftunarkrafa sóknaraðila uppfylli áskilnað laga nr. 21/1991, sbr. sérstaklega 117. gr. þeirra, sbr. 80 gr. laga nr. 91/1991, þá byggi varnaraðili á því að skilyrði riftunar skv. 137 gr. laga nr. 21/1991 séu ekki uppfyllt í málinu.

                Riftunarregla 137. gr. laga nr. 21/1991 kveði á um að krefjast megi riftunar á veðrétti eða öðrum tryggingarréttindum sem kröfuhafi hafi fengið eftir að stofnað hafi verið til skuldar. Því sé mótmælt að veðsetning hins umþrætta skuldabréfs hafi verið framkvæmd eftir að sóknaraðili hafi stofnað til skuldarinnar. Þvert á móti liggi fyrir í málinu að til veðsetningarinnar hafi verið stofnað samhliða því að sóknaraðili hafi stofnað til skuldar við varnaraðila með yfirtöku lánsins, sbr. viðauka við lánssamning, yfirlýsingu um veð og tilkynningu um veðsetningu.

                Því sé ljóst að til hinnar umþrættu veðsetningar hafi verið stofnað samhliða því tímamarki er sóknaraðili hafi stofnað til skuldar við varnaraðila eða þann 4. desember 2008. Því sé ekki um að ræða eldri skuld sóknaraðila.

                Sérstaklega sé því mótmælt að varnaraðili hafi rift á einhverju tímamarki umþrættri veðsetningu eða þá þeirri skuldskeytingu sem sóknaraðili virðist hafa gert að þrætuefni í málatilbúnaði sínum. Varnaraðili hafi óskað skýringar frá sóknaraðila og hafi boðað fyrirhugaða riftun vegna skuldskeytingar dags. 4. des 2008, ef ekki kæmu fram frambærilegar umbeðnar skýringar. Af hálfu sóknaraðila hafi því verið hafnað með bréfi dags. 30. ágúst 2010, að tilefni væri til að rifta. Í bréfi sóknaraðila hafi verið færð ítarleg rök fyrir því hvers vegna sóknaraðili teldi að ekki væri um riftanlega ráðstöfun að ræða og hafi varnaraðili fallist á þau sjónarmið og að þeim sökum hafi ekki verið krafist riftunar.

                Ljóst sé að mati varnaraðila að kröfulýsing sóknaraðila frá 28. desember 2012 hvað varði skuldskeytingu dags. 4. desember 2008, hafi enga þýðingu í málinu enda snúi hún að öðrum kröfum en mál þetta varði og efni hennar alfarið ósannað.

                Auk heldur sem að ætluðu samþykki á ætlaðri riftunaryfirlýsingu varnaraðila sé alfarið mótmælt. Enda hefði riftunaryfirlýsing varnaraðila gagnvart sóknaraðila og ætlað samþykki hans á riftun varðandi skuldskeytingu á milli sóknaraðila og Iceproperties ehf. enga þýðingu, enda hafi varnaraðili eingöngu komið að málinu með þeim hætti að hann hafi samþykkt skuldaraskiptin. Sóknaraðila beri því að beina kröfu að Iceproperties ehf. enda félagið sá aðili sem losnað hafi undan skuldbindingunni samkvæmt lánasamningnum með íþyngjandi hætti fyrir sóknaraðila.

                Varnaraðili mótmæli því að hann og sóknaraðili hafi verið nákomnir í skilningi laga nr. 21/1991 eins og þau hafi verið þegar veðsetningin hafi verið framkvæmd enda hafi sóknaraðili ekki átt verulegan hluta í varnaraðila, eins og áskilið hafi verið, eða öfugt. Jafnframt sem telja verði að sóknaraðili hafi verið gjaldfær þegar hin hér umþrætta veðsetning hafi átt sér stað. Auk heldur sem varnaraðili telji það ósannað að hin riftanlega ráðstöfun sé innan riftunarfrests skv. lögum nr. 21/1991 og sé því mótmælt. Í ljósi framangreinds telji sóknaraðili riftunarreglu 137 gr. laga nr. 21/1991 ekki geta átt við.

                Þá sé því einnig mótmælt að skilyrði 141. gr. laga nr. 21/1991 séu uppfyllt en skv. greininni megi krefjast riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt séu kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiði til þess að eignir þrotamannsins verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiði til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, ef þrotamaðurinn hafi verið ógjaldfær eða hafi orðið það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hafði hag af henni hafi vitað eða hafi mátt vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leitt hafi til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg. Skv. þessu verði riftun aðeins við komið ef varnaraðila hefði verið kunnugt um að veðsetning skuldabréfsins væri ótilhlýðileg, á kostnað annarra kröfuhafa og að sóknaraðili hefði hennar vegna orðið ógjaldfær. Því fari fjarri. Sé í því sambandi um frekari rök m.a. vísað til ofangreindrar umfjöllunar, en varnaraðili mótmæli því sérstaklega að veðsetning þessi hafi verið ótilhlýðileg. Byggi varnaraðili á því að hann hafi hagað sér í alla staði tilhlýðilega gagnvart sóknaraðila. Varnaraðili hafi engan þátt átt í því að sóknaraðili hafi tekið yfir skuldbindingu Iceproperties ehf. við varnaraðila og ekki hafi verið sýnt fram á að þeirri ráðstöfun hafi verið rift af hálfu sóknaraðila. Varnaraðili hafi mátt gera ráð fyrir að yfirtaka sóknaraðila á skuldum Iceproperties ehf. við varnaraðila væri gerð á eðlilegum forsendum, þannig að sóknaraðila væri umbunað fyrir að létta skuldum af Iceproperties ehf., þannig að kröfuhöfum sóknaraðila væri ekki íþyngt með skuldskeytingunni. Ef það hafi ekki verið svo, hljóti sóknaraðili að hafa rift þeirri ráðstöfun en ekkert liggur fyrir um það í málinu. Hafi riftun átt sér stað, breyti það þó engu um það að varnaraðili hafi enga vitneskju haft um að veðsetningin kynni að leiða til þess sem 141 gr. laga nr. 21/1991 áskilji. Því verði lagagreininni ekki beitt í málinu.

                Varnaraðili telji það ekki liggja fyrir að ráðstöfunin hafi verið honum til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa. Auk þess sem telja verði bæði rangt og ósannað að veðsetningin sem slík hafi leitt til tjóns fyrir sóknaraðila.           

                Þá telji varnaraðili að það sé rangt sem haldið sé fram af hálfu sóknaraðila í máli þessu, þ.e. að sóknaraðili hafi þegar verið orðinn ógjaldfær á árinu 2008 eða síðar, enda beri sóknaraðili sönnunarbyrðina þar um. Slíkar sönnur hafi hann ekki fært fram. Með vísan til ofangreinds telji varnaraðili ekkert skilyrði hinnar almennu riftunarreglu vera uppfyllt eins og mál standi.

                Varnaraðili kveðst vísa til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og þá sérstaklega 109. gr., 117. gr., 137. gr., 141. gr. og 142. gr., 177. gr. og 2. mgr. 178. gr. laganna. Einnig sé vísað til 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Auk þess sem vísað sé til 2. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Málskostnaðarkrafa varnaraðila eigi sér stoð í 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa varnaraðila um virðisaukaskatt byggi á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

IV

                Eins og fyrr greinir er varnaraðili fjármálafyrirtæki í slitameðferð á grundvelli laga nr. 161/2002, sbr. einnig lög nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í 2. mgr. 117. gr. síðarnefndu laganna, sem gildir við slitameðferðina, kemur m.a. fram að í kröfulýsingu skuli kröfur aðila koma fram svo skýrt sem verða megi og eins skuli þar greina þær málsástæður sem kröfuhafi byggi rétt sinn á.

                Í kröfulýsingu sóknaraðila er þess í fyrsta lagi krafist að varnaraðili afhendi honum tilgreint skuldabréf og er vísað til 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 þeirri kröfu til stuðnings. Kemur og fram, þó ekki sé umfjöllun um það ítarleg, að sóknaraðili sé kröfuhafi samkvæmt bréfinu og að það sé óframseljanlegt og því geti varnaraðili ekki verið lögmætur kröfuhafi og byggt rétt á því. Ekki er unnt að fallast á með varnaraðila að framangreind krafa sem einnig kemur skýrlega fram í greinargerð sóknaraðila til dómsins geti talist vanreifuð þannig að henni verði hafnað þegar af þeirri ástæðu.

                Í kröfulýsingunni kemur og fram eftirfarandi texti: „Telji VBS sig eiga veðrétt eða einhverskonar eignarréttindi í skuldabréfinu er lýst yfir riftun á slíkum rétti, sé hann til staðar, sbr. 137. og 141. gr. laga nr. 21/1991.“ Engin nánari umfjöllun er í kröfulýsingunni um það hvernig skilyrðum umræddra lagaákvæða gæti talist fullnægt til að fallast mætti á hina riftun.

                Krafa sóknaraðila í máli þessu eins og hún birtist í greinargerð hans og haldið var uppi við aðalmeðferð þess lýtur að því að viðurkennd verði riftun á „veðrétti varnaraðila af greiðslum af skuldabréfi“ og „riftun á veðrétti varnaraðila á reikningi 117-26-60513.“ Það er mat dómsins að síðastnefndar kröfur geti ekki talist felast í þeim kröfum sem sóknaraðili gerði í kröfulýsingu sinni og er reyndar að mati dómsins vafasamt að unnt sé að líta svo á að orðalag í kröfulýsingu um að „lýst sé yfir riftun“ geti falið í sér kröfu sem fullnægir áskilnaði 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991. Það er því mat dómsins að málatilbúnaður sóknaraðila að þessu leyti fullnægi ekki áskilnaði um skýran og glöggan málatilbúnað og er fallist á með varnaraðila að sóknaraðili hafi að þessu leyti gert hér fyrir dómi kröfur sem ekki rúmist innan krafna sem hann hafði uppi í kröfulýsingu. Verður framagreindum riftunarkröfum sóknaraðila hafnað þegar af þessum ástæðum.

                Sóknaraðili gerir og kröfu um að honum verði afhent það skuldabréf sem að framan er lýst. Fyrir liggur að Valíant fjárfestingar ehf. er skuldari samkvæmt skuldabréfinu en sóknaraðili kröfuhafi. Þá liggur fyrir að bréfið er áritað um veðsetningu til varnaraðila. Sóknaraðili ber einkum fyrir sig að þar sem fram komi í skuldabréfinu að það sé ekki framseljanlegt að þá leiði það til þess að ekki hafi verið heimilt að veðsetja það.

                Skuldabréfið innihélt ákvæði um að ekki væri unnt að framselja það. Felst í slíku ákvæði samningur milli aðila bréfsins, sóknaraðila og Valíant fjárfestinga ehf. Var þeim heimilt að gera slíkan samning og voru báðir bundnir við efni hans. Á hinn bóginn verður að fallast á með varnaraðila að umræddum samningsaðilum hafi einnig verið heimilt að falla frá umræddu framsalsbanni. Eins og lýst var hér að framan undirrituðu fyrirsvarsmenn beggja þessara aðila skjal þar sem mælt var fyrir um veðsetningu skuldabréfsins og að af því skyldi greiða inn á nánar tilgreindan reikning. Á grundvelli þessa skjals verður að telja að varnaraðili hafi mátt treysta því að ákvæði um framasalsbann stæði umræddri veðsetningu ekki í vegi, enda hafði veðsetningin skýrlega verið samþykkt af hálfu sóknaraðila og kynnt fyrirsvarsmönnum Valíant fjárfestinga ehf. án athugasemda af þeirra hálfu. Þegar svo háttar til verður ekki talið að sóknaraðili geti með réttu borið fyrir sig gagnvart varnaraðila að honum hafi verið umrædd  veðsetning óheimil vegna ákvæða skuldabréfsins um bann við framsali. Þá er ekki unnt að fallast á að líta megi á bréf slitastjórnar varnaraðila 27. júlí 2010, eins og það er orðað, sem yfirlýsingu um riftun og því síður er að mati dómsins unnt að leggja til grundvallar að með kröfulýsingu 28. desember 2012 hafi sóknaraðili fallist á þá riftunaryfirlýsingu sem hafi falist í bréfinu að hans mati. Hefur sóknaraðila ekki tekist að mati dómsins að sýna fram á neinar þær forsendur sem leitt gætu til þess að lögum að veðréttur varnaraðila að umræddu skuldabréfi teldist fallinn niður.

                Leiða þær forsendur sem raktar eru hér að framan þegar til þeirrar niðurstöðu að ekki er unnt að telja að sóknaraðili eigi þann rétt yfir umræddu skuldabréfi að varnaraðila verði að svo komnu gert að afhenda honum það.

                Þegar af þeim ástæðum sem raktar hafa verið hér að framan er kröfum sóknaraðila í máli þessu hafnað.

                Með hliðsjón af málsúrslitum verður sóknaraðili úrskurðaður til að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn sú fjárhæð sem nánar greinir í úrskurðarorði.

                Af hálfu sóknaraðila flutti málið Eggert Páll Ólafsson hdl.

                Af hálfu varnaraðila flutti málið Jón Ingi Þorvaldsson vegna Hróbjarts Jónatanssonar hrl.

                Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en uppkvaðning úrskurðarins hefur dregist vegna embættisanna dómara.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

                Framangreindum kröfum sóknaraðila, þrotabús Ice Capital ehf., sem hann hefur uppi í ágreiningsmáli þessu við slitameðferð varnaraðila, VBS eignasafns hf., er hafnað.

                Sóknaraðili greiði varnaraðila 500.000 krónur í málskostnað.