Hæstiréttur íslands
Mál nr. 410/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Vitni
- Erlend réttarregla
|
|
Fimmtudaginn 16. ágúst 2012. |
|
Nr. 410/2012.
|
Kaupþing banki hf. (Jóhannes Karl Sveinsson hrl.) gegn Commerzbank AG (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) |
Kærumál. Vitni. Erlend réttarregla.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á að C væri heimilt að leiða A fyrir dóm til skýrslugjafar við aðalmeðferð í máli þess gegn K hf. Talið var að sönnunarskyldu um efni og tilvist erlendrar réttarreglu samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 yrði ekki fullnægt með því að afla álits hjá erlendum málflytjendum eða öðrum sjálfstætt starfandi sérfræðingum. Þá lá fyrir að A var ekki vitni að málsatvikum. Samkvæmt þessu og með vísan til 3. mgr. 46. gr. sömu laga var úrskurðurinn felldur úr gildi og kröfu C um vitnaleiðsluna synjað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst héraðsdómi 4. júní 2012 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. maí 2012, þar sem fallist var á að varnaraðila væri heimilt að leiða tvö nafngreind vitni við aðalmeðferð í máli sem slitastjórn sóknaraðila vísaði til Héraðsdóms Reykjavíkur að kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að synjað verði kröfu varnaraðila um að leiða umrædd vitni fyrir dóm. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar að því leyti að honum sé heimilt að leiða Antony Zacaroli QC sem vitni í málinu í því skyni að staðfesta álitsgerðir á tilteknum dómskjölum og svara spurningum lögmanna aðila og dómsins um efni álitsgerðanna. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili tekur fram að hann falli frá kröfu um að leiða vitnið Marc Benzler fyrir dóm. Hefur hann því fallist á kröfu sóknaraðila fyrir Hæstarétti að því er þetta vitni varðar.
Sönnunarskyldu um efni og tilvist erlendrar réttarreglu samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 verður ekki fullnægt með því að afla álits hjá erlendum málflytjendum eða öðrum sjálfstætt starfandi sérfræðingum. Fyrir liggur að maður sá sem varnaraðili krefst að gefi vitnaskýrslu er ekki vitni að málsatvikum sem valda ágreiningi milli málsaðila. Samkvæmt þessu og með vísan til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og kröfu varnaraðila um vitnaleiðsluna synjað.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Synjað er kröfu varnaraðila, Commerzbank AG, um að leiða Antony Zacaroli QC sem vitni í máli varnaraðila gegn sóknaraðila, Kaupþingi banka hf.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. maí 2012.
Mál þetta var þingfest 5. janúar 2011. Að undangengnum munnlegum málflutningi 25. apríl sl. var tekin til úrskurðar sú krafa sóknaraðila, Commerzbank AG, Kaiserplatz, D-60261 Frankfurt/Main, Þýskalandi, að dómurinn heimili honum að leiða Antony Zacaroli QC og Dr. Marc Benzler sem vitni í málinu í því skyni að staðfesta annars vegar álitsgerðir á dómskjölum nr. 19 og 24 og hins vegar álitsgerðir á dómskjölum nr. 25 og 29, svo og til að svara spurningum lögmanna aðila og dómsins um efni álitsgerðanna. Varnaraðili, Kaupþing banki hf., Borgartúni 26, Reykjavík, gerir þær kröfur í þessum þætti málsins að hrundið verði kröfu sóknaraðila um að dómurinn heimili honum að leiða fyrrnefnda tvo aðila sem vitni í málinu í áðurlýstum tilgangi.
I.
Mál þetta er til komið vegna þeirrar kröfu sóknaraðila við slitameðferð varnaraðila að viðurkenndur verði réttur sóknaraðila til að skuldajafna kröfu sinni, eins og hún hefur verið samþykkt af slitastjórn varnaraðila að fjárhæð 2.715.727.952 krónur, gagnvart kröfu varnaraðila á hendur sóknaraðila, en sú krafa á rætur að rekja til uppgjörs á afleiðuviðskiptum málsaðila á grundvelli ISDA-rammasamnings ásamt viðauka við hann á milli málsaðila 7. janúar 2003. Krefst sóknaraðili einnig málskostnaðar úr hendi varnaraðila. Kröfur varnaraðila í málinu eru hins vegar þær að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að honum verði gert að greiða varnaraðila málskostnað.
Með bréfi sínu 18. apríl 2012 upplýsti lögmaður sóknaraðila að umbjóðandi hans hygðist leiða fyrir dóm við aðalmeðferð málsins, til að gefa vitnaskýrslur, höfunda framlagðra álitsgerða um ensk og þýsk lög, Antoni Zacaroli QC og Dr. Marc Benzler. Í bréfinu kom og fram að varnaraðili hefði mótmælt þessari fyrirætlan sóknaraðila.
Eftir að hafa fengið tilvitnað bréf lögmanns sóknaraðila í hendur ákvað dómari að taka ofangreindan ágreining aðila til meðferðar í þinghaldi 25. apríl sl. í stað þess að aðalmeðferð málsins færi fram, svo sem áður hafði verið boðað. Í þinghaldinu gaf dómari lögmönnum málsaðila færi á að tjá sig um ágreining aðila. Að málflutningi loknum var málið tekið til úrskurðar um kröfu sóknaraðila.
II.
Sóknaraðili hefur meðal annars vísað til þess að honum sé skylt skv. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að sanna tilvist og efni erlendra laga sem hann byggi á í málinu. Það geri sóknaraðili annars vegar með því að leggja fram lögfræðilegar álitsgerðir með fylgiskjölum, sem ætlað sé að sýna fram á tilvist og efni hinna erlendu laga, og hins vegar með því að leiða höfunda álitsgerðanna fyrir dóm sem vitni til að staðfesta undirritanir sínar og einnig til að gefa lögmönnum aðila og dómara kost á því að spyrja nánar um efni álitsgerðanna eftir því sem þeir telji tilefni til. Vísar sóknaraðili til þess að samkvæmt málsforræðisreglu einkamálaréttarfars hafi hann forræði á sönnunarfærslu í málinu, þ.m.t. á því hvaða aðferð hann beiti við sönnunarfærsluna.
Varnaraðili heldur því meðal annars fram að hin umdeilda sönnunarfærsla sóknaraðila sé ekki einungis óþörf heldur beinlínis óheimil að íslenskum rétti. Var af hálfu varnaraðila til þess vísað í munnlegum málflutningi að engin deila væri uppi milli aðila um tilvist eða efni erlendrar réttarreglu. Sú enska lagaregla sem sóknaraðili byggði á málinu lægi ljós fyrir, þ.e. texti hennar, og því þyrfti sóknaraðili ekki að færa frekari sönnur á tilvist og efni lagareglunnar. Ágreiningur málsaðila lyti hins vegar að skýringu lagareglna og samspili þeirra. Að því virtu fælist í raun í kröfu sóknaraðila tilraun til þess að koma hinum erlendum lögmönnum inn í málið til þess eins að flytja það fyrir sóknaraðila. Það væri ótækt, enda ekki heimilt að íslenskum rétti að leiða vitni um lögskýringar.
III.
Samkvæmt framlagðri greinargerð sóknaraðila byggir hann á því í málinu að um sakarefni þess fari að öllu leyti samkvæmt enskum lögum og eru í greinargerðinni færð rök fyrir þeirri niðurstöðu. Skv. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., verður sá sem ber fyrir sig erlenda réttarreglu að leiða tilvist og efni hennar í ljós og hefur sóknaraðili lagt fram álitsgerðir ensks lögmanns, Antony Zacaroli QC, í þeim tilgangi, sbr. dómskjöl nr. 19 og 24. Þá hefur sóknaraðili einnig lagt fram álitsgerðir á dómskjölum nr. 25 og 29, sem meðal annars voru unnar af Dr. Marc Benzler, og varða fyrst og fremst þann hluta málatilbúnaðar varnaraðila að mögulega skuli skera úr ágreiningi aðila á grundvelli þýskra réttarreglna.
Varnaraðili mótmælti ekki framlagningu áðurnefndra álitsgerða heldur þvert á móti brást hann við með því að afla sjálfur álitsgerða um erlendar réttarreglur, bæði enskar og þýskar, sem hann hefur lagt fram í málinu. Varnaraðili hefur hins vegar mótmælt boðuðum vitnaleiðslum sóknaraðila, eins og áður var rakið.
Við úrlausn ágreinings málsaðila verður ekki fram hjá því litið að umræddir tveir aðilar unnu báðir skjöl sem sóknaraðili hefur lagt fram í málinu í þeim tilgangi að sýna fram á tilvist og efni erlendra réttarreglna í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hæstiréttur Íslands hefur ekki gert við það athugasemdir að í þeim tilgangi að uppfylla kröfur 2. mgr. 44. gr. séu lagðar fram lögfræðilegar álitsgerðir frá lögmannsstofum með fylgigögnum, sbr. dóm réttarins í máli nr. 261/2006 sem kveðinn var upp 30. maí 2006. Þá verður ekki á það fallist með varnaraðila að máli þessu tengist eingöngu tilvist og efni einnar erlendrar réttarreglu, sem fyrir liggi á prentuðu formi í málinu, en af greinargerðum aðila þykir skýrlega mega ráða að við úrlausn málsins geti þurft að taka afstöðu til mögulegrar tilvistar og efnis fleiri erlendra réttarreglna en einnar. Enn fremur verður hér að hafa í huga að dómari stýrir skýrslugjöf vitna skv. 56. gr. laga nr. 91/1991 og hefur til þess heimild að grípa inn í vitnaleiðslur telji hann spurningar málsaðila til vitna ekki vera í samræmi við tilgang skýrslutökunnar og ákvæði réttarfarslaga. Að öllu þessu virtu þykir verða að fallast á kröfu sóknaraðila um að honum verði heimilað að leiða fyrir dóm Antony Zacaroli QC og Dr. Marc Benzler sem vitni í málinu í því skyni sem í kröfugerð hans greinir og á grundvelli 2. mgr. 44.gr. laga nr. 91/1991.
Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari. Fyrir uppkvaðningu úrskurðarins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Sóknaraðila, Commerzbank AG, er heimilt að leiða Antony Zacaroli QC og Dr. Marc Benzler sem vitni í málinu í því skyni að staðfesta annars vegar álitsgerðir á dómskjölum nr. 19 og 24 og hins vegar álitsgerðir á dómskjölum nr. 25 og 29, svo og til að svara spurningum lögmanna aðila og dómsins um efni álitsgerðanna.