Hæstiréttur íslands
Mál nr. 227/2011
Lykilorð
- Skaðabætur
- Fasteign
- Orsakatengsl
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 8. desember 2011. |
|
Nr. 227/2011.
|
Ásmundur S. Jónsson Sæmundur Þ. Einarsson og Rafbrú sf. (Hákon Árnason hrl.) gegn Sigríði Katrínu Þorbjörnsdóttur (Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.) |
Skaðabætur. Fasteign. Orsakatengsl. Gjafsókn.
SÞ höfðaði mál gegn Á, SE og R sf. til heimtu skaðabóta vegna tjóns sem hún kvaðst hafa orðið fyrir þegar rafstraumur fór um hana þegar hún baðaði sig á heimili sínu. Á hafði verið rafvirkjameistari við byggingu hússins og hefði sameignarfélag hans og SE, R sf., séð um raflagnir í það. Fyrir lá að rafmagnsleiðslur höfðu verið ranglega tengdar í íbúð SÞ en að mati dómkvaddra sérfræðinga gátu þau mistök ein og sér ekki orsakað slys eins og það sem SÞ kvaðst hafa orðið fyrir nema hlutur, sem tengdur hefði verið rafkerfi íbúðarinnar, hefði komist í snertingu við baðvatnið. Þar sem SÞ hafði neitað því að slíkt hefði gerst var talið ósannað að röng tenging rafmagnsleiðsla hefði orsakað slysið. Kröfum SÞ var því hafnað. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að í samræmi við 2. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hefði héraðsdómi verið óheimilt að byggja niðurstöðu sína SÞ í vil á því að jarðtaug frá vatnslási í baðkari hefði ekki verið tengd ranglega á þann hátt sem hún hélt fram, heldur á annan hátt.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 13. apríl 2011 og krefjast aðallega sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa hennar verði lækkuð og málskostnaður á báðum dómstigum felldur niður.
Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.
I
Mál þetta er sprottið af því að stefnda kveðst hafa orðið fyrir slysi 27. mars 1998 í íbúð að Hjallavegi 15 í Reykjanesbæ. Íbúðin er í fjöleignarhúsi sem byggt var á árunum 1994 og 1995. Rafvirkjameistari við byggingu hússins var áfrýjandinn Ásmundur S. Jónsson og sá sameignarfélag hans og áfrýjandans Sæmundar Þ. Einarssonar, áfrýjandinn Rafbrú sf., um raflagnir í það. Stefnda leigði íbúðina á þeim tíma, sem hún segir slysið hafa gerst, af húsnæðisnefnd Reykjanesbæjar og hafði hún búið þar ásamt fjölskyldu sinni frá því í desembermánuði 1995.
Í héraðsdómsstefnu sagði að slysið hafi orðið með þeim hætti að stefnda hafi verið að baða sig og staðið í vatni upp að miðjum kálfum í baðkarinu. Hafi hún tekið um sturtuhausinn með hægri hendi og ætlað að skola sápu úr hárinu, en við það fengið mikinn rafstraum gegnum líkamann. Hún hafi fest í þessari stöðu og ekki getað hreyft sig. Eftir nokkra stund hafi svo lekaleiðari í rafkerfi íbúðarinnar slegið út. Í aðilaskýrslu fyrir dómi kvaðst stefnda fyrst hafa gripið í sturtuhausinn og síðan skrúfað frá vatninu þegar hún hafi fengið höggstraum með þeim afleiðingum að hún hafi fest í sömu stellingu og fundið „að hjartað stoppaði“ drjúga stund áður en rafmagninu sló út. Aðspurð sagðist hún ekki hafa verið með neitt raftæki við höndina, svo sem hárþurrku eða útvarpstæki, sem hefði getað fallið í baðið umrætt sinn.
Strax í kjölfarið hafði stefnda samband við eftirlitsmann fasteigna hjá Reykjanesbæ sem kallaði samdægurs til rafvirkja frá Rafiðn ehf. til að ganga úr skugga um hvort raflagnir í íbúðinni væru í lagi. Í bréfi fyrirsvarsmanns fyrirtækisins til stefndu 23. maí 2000 sagði að við þá athugun hafi komið í ljós að jarðtaug, sem tengst hafi vatnslás baðkarsins, hafi verið tengd inn á svonefnda núllskinnu í raftöflu íbúðarinnar í stað jarðskinnu eins og ætti að gera. Í bréfinu var jafnframt tekið fram að ekki hafi verið minnst á slysið við rafvirkjana, en hefði fyrirtækið fengið vitneskju um það hefði rafmagnseftirlit og lögregla verið kölluð til.
Stefnda lagði fram kæru hjá lögreglu vegna slyssins 11. janúar 2000 eða tæpum tveimur árum eftir að það átti að hafa gerst. Tæpu hálfu ári síðar eða með bréfi 20. júní 2000 tilkynnti hún áfrýjandanum Ásmundi um slysið og taldi hann bera bótaábyrgð á því.
Samkvæmt matsbeiðni stefndu 12. júlí 2007 voru dómkvaddir tveir sérfróðir menn „til að meta rafmagnsslys“ hennar. Í matsgerð þeirra 2. nóvember 2007 var frá því greint að annar af þeim tveimur rafvirkjum, sem könnuðu raflagnir í íbúð stefndu 27. mars 1998, hafi staðfest á matsfundi 1. október 2007 að það eina, sem þeir hafi fundið athugavert, hafi verið hin ranga tenging jarðtaugar frá baðkarinu í núllskinnu í stað jarðskinnu. Í matsgerðinni kom meðal annars fram eftirfarandi álit hinna dómkvöddu manna: „Matsmenn telja útilokað að röng tenging á spennujöfnunartaug sem tengdist vatnslási baðkars á N-lista geti valdið umræddu slysi.“
Á grundvelli annarrar matsbeiðni stefndu 7. mars 2009 voru dómkvaddir tveir sérfróðir menn „til að skoða, rannsaka og meta rafkerfi og raflagnir fjölbýlishússins að Hjallavegi 15“, sérstaklega í íbúðinni þar sem stefnda hafði búið. Í niðurstöðu matsgerðar þeirra 22. júní 2009 var meðal annars komist svo að orði „að óeðlilegur spennumunur á ekki að myndast við eðlilegar aðstæður.“ Nokkru síðar sagði: „Sé spennujöfnunartaug frá niðurfalli (vatnslás) tengd við N-skinnu og aðstæður verða óeðlilegar, til dæmis við það að spennuhafandi utanaðkomandi hlutur kemst í snertingu við baðkerið, eða vatnið sem í því er, geta skapast hættulegar aðstæður. Í slíku tilfelli verður einstaklingur sem stendur í baðkarinu jafnframt spennuhafa og við það að stíga á niðurfallið verður til tenging milli þessa utanaðkomandi spennuhafa hlutar og N-skinnu. Við þetta getur flætt straumur í gegnum viðkomandi einstakling sem veldur raflosti án þess að lekastraumsrofinn skynji bilunina. Snerti einstaklingurinn við þessar aðstæður blöndunartækið verður jarðleiðni sem lekastraumsrofinn nemur og slær út.“ Matsmennirnir tveir komu síðar fyrir héraðsdóm og staðfestu matsgerðina. Aðspurðir kváðust þeir ítreka þá niðurstöðu sína að hin ranga tenging jarðtaugar í núllskinnu í stað jarðskinnu í rafmagnstöflu íbúðarinnar hafi, ein og sér, ekki getað verið orsök slyss á borð við það sem stefnda kveðst hafa orðið fyrir. Á hinn bóginn hefði slíkt slys getað hlotist af því að utanaðkomandi hlutur, sem tengdur hefði verið við rafkerfi íbúðarinnar, svo sem hárþurrka eða útvarpstæki, hefði komist í snertingu við baðvatnið.
Áður en mál þetta var höfðað aflaði stefnda mats og síðar yfirmats læknisfróðra manna. Gerð er grein fyrir undir- og yfirmatsgerðum þeirra í hinum áfrýjaða dómi.
II
Skaðabótakrafa stefndu á hendur áfrýjendum er reist á því að starfsmenn áfrýjandans Rafbrúar sf. hafi ranglega tengt rafmagnsleiðslur í íbúð þeirri, sem hún bjó í, eða með öðrum hætti sýnt af sér saknæma háttsemi þegar raflagnir voru lagðar í íbúðina. Sú háttsemi hafi nánar tiltekið verið fólgin í því að jarðtaug, tengd vatnslási baðkars, hafi verið ranglega tengd inn á svonefnda núllskinnu, en ekki jarðskinnu, í rafmagnstöflu íbúðarinnar.
Með skírskotun til fyrrgreinds bréfs frá fyrirsvarsmanni Rafiðnar ehf. 23. maí 2000 og þess, sem fram kom á matsfundi 1. október 2007, er fallist á það með héraðsdómi að leggja beri til grundvallar við úrlausn málsins að jarðtaugin hafi verið ranglega tengd við núllskinnu í stað jarðskinnu á þeim tíma er stefnda kveðst hafa orðið fyrir slysinu. Ennfremur verði að ganga út frá því að það hafi verið gert þegar rafmagn var upphaflega lagt í íbúðina við byggingu hússins að Hjallavegi 15.
Þetta nægir þó ekki til þess að skaðabótaábyrgð verði lögð á áfrýjendur vegna þess slyss, sem stefnda segist hafa orðið fyrir 27. mars 1998, heldur verður hún að færa sönnur á að orsakir slyssins megi rekja til hinnar röngu tengingar jarðtaugarinnar. Eins og að framan greinir var það samdóma álit fjögurra sérfróðra manna, sem dómkvaddir voru til að leggja mat á hugsanlegar orsakir slyssins, að hin ranga tenging í rafmagnstöflu íbúðarinnar hafi, ein og sér, ekki getað verið orsök slyss á borð við það sem stefnda kveðst hafa orðið fyrir. Í ljósi þess að hún hefur neitað að slysið hafi stafað af því að utanaðkomandi hlutur, sem tengdur hafi verið við rafkerfi íbúðarinnar, hafi komist í snertingu við baðvatnið umrætt sinn er samkvæmt framansögðu ósannað að röng tenging jarðtaugar við núllskinnu í stað jarðskinnu hafi orsakað slysið. Ber því þegar af þeirri ástæðu að sýkna áfrýjendur af skaðabótakröfu stefndu.
Í samræmi við þessi málsúrslit er rétt að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum, sbr. 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað stefndu er staðfest. Gjafsóknarkostnaður hennar fyrir Hæstarétti verður ákveðinn eins og í dómsorði greinir.
Eins og að framan er lýst studdist skaðabótakrafa stefndu á hendur áfrýjendum meðal annars við þá málsástæðu að jarðtaug frá vatnslás í baðkari hafi verið ranglega tengd, en ekki var af hennar hálfu byggt á því að raflagnir í íbúðinni hafi verið ófullnægjandi tengdar á annan hátt. Af þeim sökum var héraðsdómi óheimilt að færa þau rök fyrir niðurstöðu sinni að svo kynni að hafa verið, sbr. 2. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991. Mál þetta var þingfest í héraði 30. nóvember 2006, en dómur ekki kveðinn upp fyrr en 2. febrúar 2011. Þótt þessi langi tími stafi að nokkru leyti af gagnaöflun aðila undir rekstri málsins verður hann ekki réttlættur fyrir þá sök eina, meðal annars var málinu frestað í þinghaldi 12. júlí 2007, en það ekki tekið fyrir að nýju fyrr en 9. mars 2009, án þess að nokkur skýring kæmi fram á þessum óhóflega drætti á meðferð þess. Þessir ágallar á héraðsdómi og meðferð málsins í héraði eru ámælisverðir.
Dómsorð:
Áfrýjendur, Ásmundur S. Jónsson, Sæmundur Þ. Einarsson og Rafbrú sf., eru sýknir af kröfu stefndu, Sigríðar Katrínar Þorbjörnsdóttur.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað stefndu er staðfest. Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 750.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2010.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 18. janúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Sigríði Katrínu Þorbjörnsdóttur, Smáralæk, Akureyri, á hendur Ásmundi S. Jónssyni, Hlíðarvegi 60, Njarðvík, Sæmundi Þ. Einarssyni, Holtsgötu 4, Njarðvík, persónulega og vegna Rafbrúar sf. Holtsgötu 4, Njarðvík, Húsagerðinni hf., Hólmgarði 2c, Reykjanesbæ, Tjarnargötu 12, Reykjanesbæ, og Vátryggingafélagi Íslands, Ármúla 3, Reykjavík, til réttargæslu, með stefnu áritaðri um birtingu 24. nóvember 2006.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda óskipt 14.553.352 kr. með 2% ársvöxtum frá 27. mars 1998 til 28. apríl 2006, en með dráttarvöxtum, skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. maí 2006 til greiðsludags.
Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Dómkröfur stefndu Ásmundar S. Jónssonar, Sæmundar Þ. Einarssonar og Rafbrúar sf. eru þær aðallega að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Dómkröfur stefnda Húsagerðarinnar hf. eru þær að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.
Dómkröfur stefnda Reykjanesbæjar eru aðallega þær að hann verði sýknaður og dæmdur málskostnaður að skaðlausu að mati dómsins en til vara er krafist lækkunar á kröfum stefnanda og að málskostnaður verði felldur niður.
Dómkröfur réttargæslustefnda eru um málskostnað að mati dómsins samkvæmt 2. mgr. 21. gr. laga nr. 91/1991.
Málsatvik
Hinn 20. maí 1994 var gerður verksamningur milli stefndu Húsagerðarinnar hf. og Húsnæðisnefndar Njarðvíkurbæjar um að reisa fasteignina að Hjallavegi 15, Njarðvík. Samkvæmt „Tilkynningu meistara“ til Njarðvíkurbæjar var rafvirkjameistari verksins Ásmundur S. Jónsson f.h. stefnda, Rafbrúar sf.
Hinn 11. júní 1994 urðu Njarðvík, Keflavík og Hafnir eitt sveitarfélag, Reykjanesbær, sem tók við þeim réttindum og skyldum sem Njarðvíkurbær hafði undirgengist. Í desember 1995 tók stefnandi íbúð 0102 á Hjallavegi 15 á leigu. Leigusali var Húsnæðisnefnd Reykjanesbæjar. Stefnandi bjó í íbúðinni með fjölskyldu sinni.
Stefnandi kveðst hafa orðið fyrir alvarlegu slysi á heimili sínu að Hjallavegi 15, íbúð 0102, í Njarðvík hinn 27. mars 1998. Stefnandi lýsir atvikum svo í lögregluskýrslu 11. janúar 2002 að hún hafi verið í baði og staðið í baðkarinu er þetta var og talsvert vatn verið í karinu. Hafi hún staðið með sturtutólið í hendinni og verið að láta vatn renna á sig, er hún varð skyndilega fyrir miklum rafstraumi og hreinlega festist þannig standandi. Hafi þetta verið eins og hún væri öll lamin á hvern einasta vöðva og henni fundist hjartað stöðvast um stund. Lekaliður fyrir íbúðina hafi síðan slegið út og rafmagnið farið af. Kveðst stefnandi hafa haft samband við mann sinn og hafi rafvirkjar frá Rafiðn ehf. í Keflavík komið þennan sama dag að tilhlutan eftirlitsmanns frá Reykjanesbæ til þess að skoða raflagnirnar í íbúðinni. Skoðun þeirra hafi leitt í ljós, sbr. bréf Björns Kristinssonar, dags. 23. maí 2000, að jarðtaug sem tengist vatnslás baðkars var tengd inn á svokallaða núllskinnu í staðinn fyrir svokallaða jarðskinnu, eins og átti að gera. Hafi þeir fært taugina inn á jarðskinnu.
Stefnandi kveðst í kjölfar raflostsins 27. mars 1998 hafa fengið kláða í lófa, pirring í kálfa og hraðan hjartslátt og í framhaldinu lófaútbrot, hjartsláttarköst og verki í hælbein. Rekur hún exem á höndum, hjartaeinkenni, óþægindi við hælbein, magnleysi, þreytu o.fl. til raflostsins. Í málinu liggja fyrir læknisvottorð og matsgerðir um heilsufar og sjúkrasögu stefnanda eftir slysið.
Í matsgerð dómkvaddra matsmanna, þeirra Helga Guðbergssonar læknis og Torfa Magnússonar læknis, dags. 4. mars 2003, er komist að þeirri niðurstöðu að rafmagnsslysið hafi ekki valdið stefnanda varanlegum miska eða örorku.
Í yfirmatsgerð dómkvaddra yfirmatsmanna, þeirra Grétars Guðmundssonar, læknis og sérfræðings í heila- og taugasjúkdómum, Helga Valdimarssonar læknis og sérfræðings í ónæmislækningum, og Júlíusar Valssonar, læknis og sérfræðings í gigtar- og embættislækningum, dags. 15. janúar 2006, var hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að varanlegur miski stefnanda vegna afleiðinga rafmagnsslyssins samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga sé 20 stig og varanleg örorka hennar 50% samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga.
Þá liggja fyrir í málinu tvær matsgerðir dómkvaddra sérfróðra manna á sviði rafmagns um mögulegar orsakir slyss stefnanda. Er þar annars vegar um að ræða matsgerð þeirra Jóns M. Halldórssonar rafmagnsverkfræðings og Þorvaldar Finnbogasonar, dags. 2. nóvember 2007, og hins vegar matsgerð þeirra Friðriks Alexanderssonar rafmagnstæknifræðings og Júlíusar Jóhannessonar rafmagnsverkfræðings, dags. 22. júní 2009.
Með bréfi lögmanns stefnanda til réttargæslustefnda, dags. 28. apríl 2006, voru settar fram bótakröfur, sem byggðar voru á niðurstöðum samkvæmt yfirmati, dags. 15. janúar 2006. Bótaskyldu var hafnað með bréfi réttargæslustefnda dags. 9. maí 2006.
Í málinu er ágreiningur með aðilum um grundvöll bótaskyldu og bótafjárhæð.
Stefnandi hefur gjafsókn í málinu samkvæmt gjafsóknarleyfi, dags. 26. apríl 2001.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því að allt frá því að rafmagnsslysið átti sér stað hafi líkami hennar borið þess merki og hún búið við mikinn heilsubrest. Í læknisvottorði Þóris V. Þórissonar heimilislæknis, frá 26. nóvember 2002, sé þetta staðfest. Þórir telji ummerki rafmagnsslyssins augljós, stefnandi hafi ör eftir brunasár á hælum og víðar.
Í kjölfar slyssins hafi heilsu stefnanda hrakað mikið en hún hafi verið heilsuhraust fyrir slysið. Þau einkenni sem stefnandi búi nú við og séu rakin til rafmagnsslyssins 27. mars 1998 séu margvísleg. Stefnandi sé með exem á höndum og finni stöðugt fyrir kláða í lófunum. Vegna exemsins geti stefnandi ekki unnið störf sem reyni á húðina á höndunum. Þá hafi stefnandi hjartaeinkenni og taki því inn lyfið Atenolol vegna hraðs hjartsláttar. Stefnandi fái hjartsláttarköst a.m.k. einu sinni á dag. Þeim köstum fylgi magnleysi, mikill sviti og stundum yfirliðstilfinning. Jafnframt sé stefnandi með verki í hægra hælbeini eftir slysið. Stefnandi þjáist af magnleysi og mikilli þreytu, hún sofi illa og þurfi að taka svefntöflur. Stefnandi hafði engin þessara einkenna áður en slysið varð.
Í matsgerð dómkvaddra matsmanna, þeirra Helga Guðbergssonar læknis, og Torfa Magnússonar læknis, frá 4. mars 2003, sé því lýst að hliðlægt og ofan við hægra hælbein stefnanda sé lítið ör. Jafnframt sé í matsgerðinni tekið fram að algengir fylgikvillar rafstuðs séu brunabreytingar og sár á húð, bæði á þeim stað sem straumurinn fari inn í líkamann og út úr honum sem og á öðrum stöðum.
Í yfirmatsgerð dómkvaddra yfirmatsmanna, þeirra Grétars Guðmundssonar, læknis og sérfræðings í heila- og taugasjúkdómum, Helga Valdimarssonar, læknis og sérfræðings í ónæmislækningum, og Júlíusar Valssonar, læknis og sérfræðings í gigtar- og embættislækningum, frá 15. janúar 2006, sé tekið fram að hægra hælbein stefnanda hafi verið skoðað og við það hafi komið í ljós eymsli. Þá sé tekið fram að á húðinni við hælbeinið sé lítið ör. Í yfirmatsgerð komi fram að líklegt þyki að flæði straums hafi verið um hægri hendi, handlegg og/eða höfuð utanvert, líkama og hægri fót.
Enn fremur sé í yfirmatsgerð komist að rökstuddri niðurstöðu um að orsakatengsl séu á milli líkamlegra einkenna stefnanda og rafmagnsslyssins. Þá meta yfirmatsmenn varanlegan miska stefnanda af völdum slyssins, samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga, 20 stig og varanlega örorku hennar 50% samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga. Því yfirmati hafi ekki verið hnekkt.
1. Bótagrundvöllur og aðild stefndu
Rafbrú sf.
Krafa stefnanda á hendur stefnda Rafbrú sf. byggir á því að Rafbrú sf. beri sök á líkamstjóni stefnanda. Stefnandi telur að líkamstjón sitt sé að rekja til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi starfsmanna Rafbrúar sf. Krafa stefnanda á hendur stefnda, Rafbrú sf., byggir því á sakarreglunni, reglunni um ábyrgð vinnuveitanda á skaðaverkum starfsmanna sinna og ströngum bótareglum skaðabótaréttar um sérfræðiábyrgð.
Ótvírætt sé sannað, með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum, að rafmagnsslysið hafi átt sér stað með þeim hætti sem lýst sé í málsatvikalýsingu. Stefnandi reisir kröfur sínar á því að starfsmenn stefnda, Rafbrúar sf., hafi ranglega tengt rafmagnsleiðslur í íbúðinni sem stefnandi bjó í eða með öðrum hætti sýnt af sér saknæma háttsemi þegar raflagnir voru lagðar í íbúðina. Vanræksla starfsmanna stefnda við að ganga með eðlilegum hætti frá raflögnum hafi leitt til þess að stefnandi fékk í sig lífshættulegan rafstraum sem leitt hafi til alvarlegs líkamstjóns hennar.
Í gr. 4.4.4. í þágildandi byggingarreglugerð nr. 177/1992 segir að rafvirkjameistari beri ábyrgð á hvers konar raflögnum, sbr. reglugerð nr. 264/1971 um raforkuvirki. Starfsmenn stefnda, Rafbrúar sf., undir stjórn rafvirkjameistarans Ásmundar S. Jónssonar, lögðu rafmagn í húsið að Hjallavegi 15 í Njarðvík, þar sem rafmagnsslys stefnanda varð. Mikil hætta geti skapast af völdum rafmagns og því séu ríkar kröfur gerðar til sérfræðinga á borð við rafverktaka sem leggja og tengja rafmagnsleiðslur um að þeir fari að lögum og reglum í starfi sínu.
Beita skuli ströngu sakarmati þegar sérfræðingur eins og löggiltur rafverktaki eigi í hluti. Á rafvirkjum, sem og löggiltum rafverktökum, hvíli ströng sérfræðiábyrgð um að þeir fari eftir þeim lögum, reglum og venjum sem gilda á sviði þeirra og beiti auk þess þeirri kunnáttu sem þeir búi yfir á þeim tíma þegar atvik eigi sér stað. Gerðar séu ríkar kröfur um sérfræðiþekkingu, fagleg vinnubrögð og aðgæslu þeirra. Þá sé það regla í skaðabótarétti, þegar sannað sé að sérfræðingur hafi gert mistök og líkur standa til þess að tjónið sé vegna þeirra, að sönnunarbyrði um afleiðingar sé snúið við. Af því leiðir að sérfræðingurinn verði að sanna að saknæm háttsemi hans hafi ekki valdið tjóninu.
Slys stefnanda hafi átt sér stað vegna rafstraums sem hún fékk í gegnum sig við að snerta sturtuhaus og vatnslás (vatn) í baðkari á heimili sínu. Samkvæmt bréfi Björns Kristinssonar f.h. Rafiðnar ehf., dags. 23. maí 2000, komu starfsmenn félagsins í íbúð stefnanda þann 27. mars 1998. Starfsmenn Rafiðnar ehf. framkvæmdu hefðbundna aðferð við leit að útleiðslu. Allar greinar rafmagnstöflu voru mældar og allar taugar sem tengdar voru á svonefnda núllskinnu voru aftengdar. Aftengingin var gerð svo að leiðni milli greina kæmi ekki til. Þegar það var gert sáu starfsmenn Rafiðnar ehf. að jarðtaug sem tengdist vatnslás baðkars stefnanda var tengd inn á núllskinnuna. Í bréfi Björns kemur fram að þessi jarðtaug hefði átt að vera tengd inn á svonefnda jarðskinnu. Í kjölfarið færðu starfsmenn Rafiðnar jarðtaug baðkersins inn á jarðskinnuna.
Samkvæmt gr. 8.1.19.2 í þágildandi byggingarreglugerð nr. 177/1992 segir að raflagnir skuli vera í samræmi við reglugerðir Rafmagnseftirlits ríkisins, nánar tiltekið sé það reglugerð nr. 264/1971 um raforkuvirki.
Í grein 203 m reglugerðar nr. 264/1971 um raforkuvirki kemur fram að í sérhverri byggingu skuli lagður aðalspennujöfnunarleiðari sem tengi m.a. saman aðalvarnarleiðara (PE) eða aðalvarnarnúllleiðara (PEN) í inntakskassa eða aðaltöflu og stofnlagnir neysluvatns.
Þá komi fram í grein 338 f í framangreindri reglugerð að baðker eða steypibaðsskálar, afrennslis- og yfirfallspípur, neysluvatnspípur og aðrar pípulagnir úr leiðandi efni skuli tengdar saman með spennujöfnunartaug. Þetta skal gert jafnvel þótt engin raflögn sé í baðherberginu.
Aðalvarnarleiðari sé í daglegu tali nefndur jarðtaug. Af yfirlýsingu Björns Kristinssonar frá 23. maí 2000 teljist sannað að grein 203 m í reglugerð nr. 264/1971 um raforkuvirki hafi verið brotin þegar rafmagn var lagt í íbúðina þar sem slys stefnanda varð. Jarðtaug (spennujöfnunarleiðari) sem tengdist vatnslási baðkars stefnanda hafi verið tengd inn á núllskinnuna. Við það hafi verið kominn rafstraumur á vatnslás baðkarsins og stefnandi hafi fengið rafstrauminn í gegnum sig þar sem hún stóð í vatninu. Rafstraumurinn rann síðan áfram þegar stefnandi tók í sturtuhausinn, sem var jarðtengdur í gegnum vatnslögn hússins. Þannig hafi myndast hringrás fyrir rafstrauminn í gegnum líkama stefnanda.
Af framangreindu sé ljóst að saknæm og ólögmæt háttsemi hafi átt sér stað þegar rafmagn var lagt í íbúðina sem stefnandi bjó í. Gáleysið felist í því að tengja jarðtaug inn á svokallaða núllskinnu en ekki jarðskinnu. Vegna þessarar vanrækslu starfsmanna stefnda, Rafbrúar sf., hafi stefnandi fengið mikinn rafstraum í sig. Með framangreindri vanrækslu hafi stefndi, Rafbrú sf., bakað sér skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda.
Ábyrgðaryfirlýsing stefndu Rafbrúar sf. og Húsagerðarinnar hf.
Stefndu, Ásmundur S. Jónsson, fyrir hönd Rafbrúar sf., og Áskell Agnarsson, fyrir hönd stefnda Húsagerðarinnar hf., skrifuðu undir yfirlýsingu um ábyrgð á smíði Hjallavegar 15 í svonefndri „Tilkynningu meistara“ til Njarðvíkurbæjar. Yfirlýsingin, sem er í samræmi við gr. 2.4.7. og gr. 4.2. í þágildandi byggingarreglugerð nr. 177/1992, er svohljóðandi:
„Ég, undirritaður, löggiltur meistari, lýsi hér með yfir, að ég hef tekið að mér umsjón með og ábyrgð á því, að framkvæmdir við ofanskráð mannvirki verði í samræmi við samþykkta uppdrætti, veitt leyfi, lög og reglur, sem til greina kunna að koma, á öllu því, sem heyrir undir starfsgrein mína.“
Ljóst sé af þessari sérstöku ábyrgðaryfirlýsingu að hin stefndu félög, Húsagerðin hf. og Rafbrú sf., ábyrgist að framkvæmdir við Hjallaveg 15 séu í samræmi við lög og reglur. En eins og fram sé komið hafi ekki verið farið eftir tilgreindum ákvæðum gildandi reglugerðar um raforkuvirki nr. 264/1971.
Ábyrgðaryfirlýsingin leiði til þess að hin stefndu félög, Húsagerðin hf. og Rafbrú sf., beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem stefnandi varð fyrir vegna vanrækslu stefndu við að fara að gildandi reglum.
Húsagerðin hf.
Krafa stefnanda á hendur stefnda, Húsagerðinni hf., byggir á því að félagið var byggingarverktaki Hjallavegar 15, 260 Njarðvík. Félagið beri því ábyrgð á að bygging fasteignarinnar sé samkvæmt lögum og reglum auk þess sem félagið hafi gefið út sérstaka ábyrgðaryfirlýsingu þess efnis.
Í 16. gr. byggingarlaga nr. 54/1978, sem voru í gildi þegar fasteignin var byggð, var heimilt „að hafa einn ábyrgan aðila“ við gerð hvers mannvirkis sem nefndist byggingarstjóri. Í athugasemdum frumvarps um þetta ákvæði segir að byggingarstjóri sé ábyrgur gagnvart húsbyggjanda og byggingaryfirvöldum og sé tengiliður allra iðnmeistara sem starfa við framkvæmdina.
Enn fremur komi fram í 1. mgr. 18. gr. þágildandi byggingarlaga að byggingarstjóri beri ábyrgð gagnvart byggingarnefnd og öðrum aðilum á því að framkvæmdir séu í samræmi við samþykkta uppdrætti og að öðru leyti í samræmi við lög.
Í gr. 4.5 í þágildandi byggingarreglugerð nr. 177/1992 komi fram að sé ekki ráðinn byggingarstjóri skal húsasmíðameistari hafa með höndum samræmingu framkvæmda við bygginguna.
Í „Tilkynningu meistara“ til Njarðvíkurbæjar komi fram að Húsagerðin sé eigandi þess sem fyrirhugað sé að byggja, þ.e. Hjallavegs 15. Af því verði að telja að Áskell Agnarsson hafi komið fram fyrir hönd Húsagerðarinnar hf. sem byggingarstjóri þegar fasteignin að Hjallavegi 15 var reist.
Af framangreindri ábyrgðaryfirlýsingu og tilvitnuðum ákvæðum byggingarlaga og byggingarreglugerðar sé ljóst að rík skylda hvíldi á Húsagerðinni hf. til að hafa yfirumsjón og eftirlit með byggingarframkvæmdum við Hjallaveg 15. Skyldan hafi m.a. falist í því að iðnmeistarar þeir sem að verkinu komu fyrir hans atbeina sinni sínum skyldum og að framkvæmdir séu fullnægjandi bæði tæknilega og faglega. Húsagerðin hf. hafi ekki sinnt þessari umsjónar- og eftirlitsskyldu sinni, sem leitt hafi til verulegs líkamstjóns stefnanda. Stefnda Húsagerðin hf. beri því skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda.
Reykjanesbær
Í fyrsta lagi sé krafa stefnanda á hendur stefnda Reykjanesbæ reist á vanrækslu við eftirlit með byggingarframkvæmdum við Hjallaveg 15, Njarðvík.
Samkvæmt 7. gr. þágildandi byggingarlaga nr. 54/1978 voru byggingarmálefni undir yfirstjórn byggingarnefndar hvers sveitarfélags. Byggingarnefndin hafði einnig umsjón með því að byggt væri í samræmi við skipulag og að lög og reglur um byggingarmálefni væru haldin.
Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. þágildandi byggingarlaga var byggingarfulltrúi framkvæmdastjóri byggingarnefndar. Einnig komi fram að byggingarfulltrúi skuli annast daglegt eftirlit með því að hús og önnur mannvirki séu byggð í samræmi við lög og reglur. Hann annast úttektir einstakra þátta byggingarframkvæmda svo og lokaúttekt fullbyggðs mannvirkis, þegar þess sé óskað, og gefi út vottorð þar um, allt eftir því sem nánar sé kveðið á um í byggingarreglugerð.
Enn fremur segir í 26. gr. þágildandi byggingarlaga að ef frágangi húss eða annars mannvirkis sé ábótavant að dómi byggingarfulltrúa skuli hann gera eiganda (umráðamanni) þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er innan tiltekins frests.
Markmið byggingarlaga og byggingarreglugerðar sé augljóst. Með þeim eigi að tryggja að faglega sé staðið að mannvirkjagerð með virku eftirliti á öllum þáttum hennar þannig að fyllsta öryggis sé gætt.
Rík eftirlitsskylda hafi hvílt á starfsmönnum sveitarfélagsins með mannvirkjagerð að Hjallavegi 15. Ljóst sé að mistök hafi verið gerð þegar rafmagn var tengt í íbúðina sem stefnandi bjó í. Ef eftirlit hefði verið fullnægjandi hefði mátt lagfæra rafmagnstenginguna áður en íbúar fluttu í íbúðina og þannig koma í veg fyrir tjón stefnanda. Stefndi Reykjanesbær beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem stefnandi varð fyrir vegna þessa slælega eftirlits.
Í öðru lagi sé krafa stefnanda á hendur stefnda Reykjanesbæ byggð á ábyrgð hans sem fasteignareiganda og leigusala á vanbúnaði fasteignarinnar, sbr. að framan um ranga tengingu rafmagnstauga eða annan vanbúnað við lagningu rafmagns. Samkvæmt 1. og 3. tl. 1. mgr. 51. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús beri eigandi séreignar ábyrgð gagnvart afnotahöfum eignarinnar vegna fjártjóns sem stafi af vanrækslu á viðhaldi séreignar, búnaði hennar og lögnum, sbr. 1. tl. eða bilunar á búnaði séreignar og lögnum þótt eiganda verði ekki um það kennt, sbr. 3. tl. Ef ákvæðið verði ekki talið eiga við samkvæmt orðanna hljóðan sé byggt á því samkvæmt lögjöfnun, enda sé í þessu tilviki unnt að leggja lögfesta reglu til grundvallar ákvörðun um rétt og skyldu í ólögfestu tilviki.
Í þriðja lagi séu kröfur stefnanda á hendur stefnda Reykjanesbæ reistar á ströngum skyldum hans og ábyrgð, sem leigusala, á því að hafa leiguíbúð í fullnægjandi ástandi miðað við fyrirhugaða notkun hennar. Þessi ábyrgð stefnda sé skýr samkvæmt gr. 4 í húsaleigusamningi milli stefnanda og stefnda Reykjanesbæjar um íbúðina þar sem slysið varð, sbr. 14. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994. Stefndi Reykjanesbær beri því skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda sem varð vegna slæms ástands leiguíbúðarinnar.
Réttargæslustefndi Vátryggingafélag Íslands hf.
Aðild réttargæslustefnda Vátryggingafélags Íslands hf. sé til komin þar sem stefndu voru allir ábyrgðartryggðir hjá félaginu þegar slysið átti sér stað.
Orsakatengsl milli rafmagnsslyssins og líkamlegra einkenna stefnanda
Mistök starfsmanna stefnda, Rafbrúar sf., séu orsök rafmagnsslyss stefnanda. Stefnandi reisir kröfur sínar á því að líkamstjónið sé bein afleiðing af framangreindri vanrækslu starfsmanna stefnda, Rafbrúar sf., þegar rafmagn var lagt í leiguíbúð hennar.
Í yfirmatsgerð dómkvaddra yfirmatsmanna frá 15. janúar 2006 komi fram að orsakatengsl séu milli rafmagnsslyssins og þeirra miklu líkamseinkenna sem stefnandi glímir nú við. Því sé sannað að líkamstjón stefnanda sé bein afleiðing af framangreindri saknæmri og ólögmætri háttsemi stefndu. Þess vegna beri stefndu óskipta skaðabótaábyrgð á afleiðingum slyssins fyrir stefnanda.
2. Bótaútreikningur
Við ákvörðun bótafjárhæðar sé byggt á ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993, eins og þau voru á slysdegi og matsgerð yfirmatsmanna frá 15. janúar 2006 um afleiðingar slyss stefnanda. Miðað sé við lánskjaravísitölu í apríl 2006 samkvæmt 15. gr. skaðabótalaga. Bótakrafa stefnanda sé eins og hún var í kröfubréfi stefnanda til réttargæslustefnda þann 28. apríl 2006, eftirfarandi:
a) Varanlegur miski, skv. 4. gr. skaðabótalaga:
Yfirmatsmenn telja varanlegan miska stefnanda vegna slyssins nema 20 stigum. Því sé krafist 6.072.000 kr.,- (4.000.000 kr. x 4982/3282) x 20% = 1.214.400 kr. í bætur vegna varanlegs miska.
b) Varanleg örorka, skv. 5. 7. gr. skaðabótalaga:
Yfirmatsmenn telja varanlega örorku stefnanda 50%. Næstliðið ár fyrir slys hafi stefnandi verið stopult á vinnumarkaði. Hún hafi skipt oft um starf og starfað árið 1997 hjá fjórum vinnuveitendum. Auk þess hafi stefnandi sinnt þungu heimili og varið stórum hluta vinnugetu sinnar til þess, sbr. 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga. Árið fyrir slysið hafi hún þó starfað að mestu leyti hjá Fagræstingu sf. í 70% starfi.
Tekjur samkvæmt skattframtölum næstliðið ár fyrir slys gefi því ekki rétta mynd af vinnugetu stefnanda, því hún hafi nýtt vinnugetu sína að miklu leyti til heimilisstarfa en ekki til tekjuöflunar með vinnu utan heimilis. Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga skuli verðmæti vinnu við heimilisstörf lagt að jöfnu við launatekjur, bæði við ákvörðun bóta fyrir tímabundið atvinnutjón og varanlega örorku, sbr. 2. gr., 2. mgr. 7. gr. og 8. gr. laganna.
Því sé rétt samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga við útreikning á bótum vegna varanlegrar örorku að taka mið af meðaltekjum verkafólks á 1. ársfjórðungi 1998, sem námu 151.300 kr. á mánuði, eða 1.924.536 kr. á ársgrundvelli, að teknu tilliti til 6% framlags atvinnurekanda í lífeyrissjóð.
Bætur vegna varanlegrar örorku sundurliðist því þannig, að teknu tilliti til þágildandi 2. mgr. 15. gr. skaðabótalaga: 1.924.536 kr. x 50% x 10 x 4982/3594 = 13.338.952 kr.
Stefnukrafan sundurliðast því þannig:
1. Varanlegur miski 1.214.400 kr.,-
2. Varanleg örorka 13.338.952 kr.-
Samtals 14.553.352 kr.,-
Aðrar kröfur
Vaxtakrafa stefnanda sé byggð á 16. gr. skaðabótalaga. Vaxta sé krafist frá slysdegi en dráttarvaxta frá 28. maí 2006, samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, þegar mánuður var liðinn frá því að lögmaður stefnanda krafði réttargæslustefnda bréflega um greiðslu skaðabóta. Þá hafi legið fyrir öll gögn sem stefndu þurftu til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta.
Málskostnaðarkrafa stefnanda sé byggð á 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og því sé nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar.
Um varnarþing sé vísað til 3. mgr. 43. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Aðilar hafi samið um að málið verði flutt fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Málsástæður og lagarök stefndu Ásmundar S. Jónssonar, Sæmundar Þ. Einarssonar og Rafbrúar sf.
Af hálfu stefndu er tekið fram að um mál þetta gildi almennar reglur skaðabótaréttar utan samninga. Hvíli sönnunarbyrðin óskipt á stefnanda um atvik, sök og orsakatengsl.
Sé sýknukrafa stefndu byggð á því:
Að ekki sé sannað að stefnandi hafi orðið fyrir rafstraumi þann 27. mars 1998 eins og hún heldur fram.
Að ekki sé sannað að starfsmenn stefndu eigi sök á því að stefnandi fékk í sig rafstraum þann 27. mars 1998, hafi svo verið.
Að ekki séu sönnuð orsakatengsl milli umstefndrar heilsuskerðingar stefnanda og rafstraumsins, sem hún telur sig hafa orðið fyrir 27. mars 1998, hafi svo verið.
Að hinar umstefndu heilsuskerðingar stefnanda séu svo fjarlæg og ósennileg afleiðing þess að hún fékk í sig rafstraum 27. mars 1998, teljist það sannað, að falli utan marka skaðabótaábyrgðar.
Sýknuástæðum stefndu til stuðnings sé bent á eftirfarandi:
Stefnandi sé ein til frásagnar um það að hún hafi orðið fyrir miklum rafstraumi/raflosti í baðkarinu heima hjá sér í íbúð 0102 að Hjallavegi 15 í Njarðvík. Fari því fjarri að fyrirliggjandi gögn sanni sögu hennar.
Það að starfsmenn fyrirtækisins Rafiðnar ehf. skoðuðu raflagnir í íbúð stefnanda sama dag og hún kveðst hafa orðið fyrir rafmagnsslysinu og að jarðtaug vatnsláss reyndist þá vera tengd inn á núllskinnu í stað jarðskinnu sanni ekki sögu og málsástæður stefnanda. Hafi starfsmennirnir aðeins verið kallaðir á staðinn vegna útleiðslu á rafmagni í íbúðinni en ekki vegna þess að einhver hefði orðið fyrir rafstraumi eða rafmagnsslysi í íbúðinni. Stefnandi hafi ekki minnst einu orði á meint rafmagnsslys sitt við starfsmenn Rafiðnar ehf., þegar þeir komu á vettvang.
Stefnandi hafi heldur ekki þá né síðar kallað til rafmagnseftirlitsmenn eða lögreglu til að rannsaka meint rafmagnsslys og orsakir þess. Ekki hafi stefnandi heldur leitað læknis vegna meints rafmagnsslyss í kjölfar þess, en hafi komið þrívegis til lækna næstu mánuði á eftir með einkenni, sem hún reki til slyssins, án þess að minnast á, að hún hefði orðið fyrir rafmagnsslysi. Þá hafi stefndu ekki verið tilkynt um meintar rangar tengingar og meint rafmagnsslys fyrr en löngu síðar.
Verði stefnandi því að bera hallann af öllum vafa um það hvort hún hafi í raun orðið fyrir rafstraumi í baðinu 27. mars 1998 og í hvaða mæli, hvort starfsmenn stefnda eigi sök á því, hvort um sé að ræða orsakatengsl milli þess og umstefndrar heilsuskerðingar hennar og hvort heilsuskerðinguna sé frekar að rekja til rafstraums en ræstingarstarfa hennar fyrir og eftir rafmagnsslysið.
Eftirfarandi atriði mæli og eindregið gegn staðhæfingum stefnanda:
Prófanir hafi verið gerðar af hálfu stefnda Rafbrúar sf. á útleiðslu rafmagns að Hjallavegi 15 við lok lagningar á rafmagni í húsinu 1996. Hafi þá engin útleiðsla verið á rafmagni í húsinu. Gögn um úttektina séu hjá Löggildingarstofu
Opinber stofnun, Skoðunarstofan hf., hafi framkvæmt skoðun á raflögnum í húsinu 3. mars 1996. Engar athugasemdir hafi verið gerðar við frágang rafmagns í húsinu.
Stefnandi hafði búið í húsinu á annað ár án þess að verða fyrir rafmagnsslysi eða rafmagnsútleiðslu í baðkari eða frá sturtu, en rafmagnsútleiðsla hefði strax átt að koma fram við notkun þessara tækja, ef um rangar tengingar var að ræða frá upphafi og baðtækin rafleiðandi.
Það að starfsmenn Rafiðnar ehf. fundu hinn 27. mars 1998 að jarðtaug baðkars var þá tengd í núllskinnu í stað jarðskinnu, sanni ekki að starfmenn stefnda Rafbrúar sf. hafi gengið þannig frá tengingunum þegar þeir lögðu rafmagnið í húsið 1996. Gætu aðrir, þ. á m. íbúar eða aðilar á vegum þeirra eða húseiganda, hafa átt við rafmagnstöfluna síðan þá. Sé því mótmælt að starfsmenn stefnda Rafiðnar sf. hafi tengt jarðtaug baðkars í núllskinnu í stað jarðskinnu.
Ekkert liggi fyrir um hvernig rafmagn ætti að hafa komist í baðið eða hringstraumur myndast, þannig að stefnandi gæti fengið í sig straum frá lögnum en t.d. ekki allt eins frá raftæki í gangi, svo sem hárþurrku eða rakvél, sem lent hafi ofan í baðkarinu. Liggi ekkert fyrir um það að rafleiðari hafi verið í baðtækjunum eða hafi verið spennuhafandi, þannig að stefnandi gæti hafa fengið í sig rafstraum frá honum.
Þá sé afar ósennilegt að rafspenna hafi getað myndast í baði stefnanda af þeim styrkleika að valdið gæti viðkomandi raflosti, hvað þá varanlegri heilsuskerðingu, þótt jarðtaug baðkars hafi verið tengd við núllskinnu í stað jarðskinnu, en pípulögn hússins hafi verið jarðbundin og mismunarspenna milli skinna ætti aðeins að hafa getað numið nokkrum voltum.
Fyrirliggjandi matsgerðir lækna frá 4. mars 2002 og 15. janúar 2006 sanni heldur ekki að stefnandi hafi í raun orðið fyrir raflosti eins og hún haldi fram. Sé þar um að ræða ósannaða forsendu, sem matsmenn gefi sér. Sé og í hvorugri matsgerðinni neitt að finna um styrkleika þess rafstraums, sem matsmenn miði við að stefnandi hafi fengið í sig, né hversu lengi ætlað sé að hún hafi verið útsett fyrir straum. Báðar matsgerðirnar séu að þessu leyti reistar á sandi.
Hafi stefnandi orðið fyrir rafstraumi 27. mars 1998 sanni yfirmatsgerðin ekki, að exem stefnanda hafi orsakast af því en ekki af ræstingarstörfum hennar fyrir og eftir slysið, svo sem undirmatsmenn telja líklegast. Sé orsakasamband óþekkt milli rafmagnsslysa og myndunar exems á húð, en algengt að hreinsiefni við ræstingarstörf valdi húðexemi hjá fólki með snertiofnæmi eins og stefnanda. Sé exemið líka fyrst og fremst á höndum stefnanda. Ekki verði heldur fram hjá því horft að exem er óþekkt meðal rafvirkja, sem iðulega fái í sig rafstraum við störf sín. Þá skorti líka sannanir fyrir því að stefnandi hafi orðið fyrir streitu sem rekja megi til raflosts, frekar en til exemsins sjálfs, vinnuálags, heimilisaðstæðna eða annars. Geta streituvaldar verið legio. Séu niðurstöður yfirmatsmanna um að meint raflost hafi valdið stefnanda áfallastreitu, sem hugsanlega hafi orsakað myndun exemsins og raflost þannig verið orsakavaldur þess, aðeins reistar á tilgátu en ekki sönnunum. Séu röksemdir og niðurstöður yfirmatsmanna því ærið langsóttar. Niðurstöður undirmatsmanna þess efnis að ólíklegt sé að rafstuð hafi valdið heilsuskerðingu stefnanda, heldur hafi það verið ræstingarstörf hennar, séu hins vegar nærtækar og sennilegar. Orsakatengsl milli rafstraums og umstefndrar heilsuskerðingar stefnanda séu því alls ósönnuð.
Loks byggja stefndu á því að þótt stefnandi hafi orðið fyrir rafstuði í íbúð sinni þann 27. mars 1998 og að það hafi raunverulega valdið umstefndri heilsuskerðingu hennar þá er slík heilsuskerðing svo afbrigðileg, fjarlæg og ólíkleg afleiðing þess að fá í sig innanhússrafstraum að hún falli utan marka skaðabótaábyrgðar. Sé styrkur rafstraums í íbúðarhúsum fyrir það fyrsta ekki það mikill að skammtímarafstuð af slíkum straumi nægi almennt til að valda þeim sem fyrir verður varanlegu heilsutjóni. Sé algengt að börn og fullorðnir fái í sig rafstuð heima hjá sér við að eiga við innstungur, raftengla, ljósastæði o.s.frv. án þess að varanlegt heilsutjón hljótist af. Sama gildi um rafvirkja, sem manna mest séu útsettir fyrir rafstuð í tengslum við vinnu sína. Þá sé ljóst af báðum matsgerðum hinna dómkvöddu matsmanna, að húðexem stefnanda og varanleg heilsuskerðing af þeim ástæðum sé mjög fjarlæg afleiðing þess að verða fyrir raflosti.
Varakrafa stefndu sé byggð á því að lækka beri stefnukröfur.
Sé matsgerð yfirmatsmanna einnig mótmælt sem of hárri um varanlegan miska og varanlega örorku stefnanda. Sé áskilinn réttur til dómkvaðningar matsmanna til endurskoðunar á því.
Þá sé óraunhæft að notast við meðaltekjur verkafólks sem viðmiðunartekjur eins og aðstæðum stefnanda var háttað. Verði ekki séð að hún hafi haft svo háar tekjur eða myndi hafa náð þeim, þótt ekkert exem kæmi til. Sé nær að byggja á raunverulegum launum hennar sjálfrar síðast fyrir slysið miðað við fullt starf.
Vaxtakröfum sé mótmælt, en eldri vextir en 4 ára frá birtingu stefnu séu fyrndir og dráttarvextir eigi ekki rétt á sér fyrr en frá dómsuppsögu svo sem málið sé vaxið.
Málsástæður og lagarök stefnda Húsagerðarinnar hf.
Stefndi tekur undir rök meðstefndu um sýknu sem flest eigi einnig við um málstað stefnda, Húsagerðarinnar hf., og vísar til þeirra og gerir þau að sínum að breyttu breytanda.
Að auki séu eftirfarandi sjónarmið áréttuð.
Stefnandi hafi ekkert gert til að færa sönnur á að hið meinta tjónsatvik hafi átt sér stað. Þó að sönnunarbyrði kunni á köflum að falla á tjónvald hvíli sú grundvallarskylda á þeim sem telur sig verða fyrir slysi að færa sönnur á að atburðurinn hafi gerst. Stefnandi sýnist hafa látið þetta undir höfuð leggjast, hún hafi aldrei fært í tal gagnvart eiganda, eftirlitsaðila, rafvirkja sem skoðaði raflögnina eða lögreglu. Á þessu beri hún ein ábyrgð.
Í annan stað sýnist frásögn stefnanda af sögðum tjónsatburði vera með nokkrum ólíkindum. Alltént séu handsturtur við baðkör og slöngur þær sem að þeim liggja sjaldnast úr rafleiðandi málmum. Þá sé ekkert upplýst um það hversu lengi hinn sagði rafstraumur lék um stefnanda og hve mikill sá rafstraumur var. Loks sé nánast engin rafspenna milli jarðarinnar og núllsins svokallaða, en slík spenna sé sjálfsögð forsenda þess að stefnandi hefði getað orðið fyrir raflosti sem samrýmst gæti frásögn hennar.
Eins og tildrögum þessa frásagða slysatburðar séu gerð skil fái stefndi ómögulega séð á hvern hátt hann geti borið ábyrgð á að atvik sem þetta geti gerst.
Stefnandi og fjölskylda hennar hafði búið áfallalaust í rúm tvö ár í íbúðinni. Á þeim tíma hafi þau vafalaust oft komist í snertingu við baðkarið og sturtuhausinn áfallalaust.
Ekkert liggi fyrir um að raflögnum hafi verið áfátt þegar stefndi afhenti verkkaupa, meðstefnda Reykjanesbæ, íbúðirnar að Hjallavegi 15 nýbyggðar og fullfrágengnar síðla árs 1995. Þá og næstu mánuði hafi verkið verið tekið út. Gerðar hafi verið smávægilegar athugasemdir sem ekki lutu að raflögnum en að öðru leyti hafi úttektin verið athugasemdalaus.
Þar sem raflagnir hafi verið í lagi við verklok stefnda sé ljóst að slys stefnanda geti ekki hafa átt sér stað öðruvísi en að einhver hafi átt við raflagnirnar eftir afhendingu íbúðarinnar. Þá bjó stefnandi í íbúðinni þannig að enginn hafði aðgang að raflögnum íbúðarinnar án hennar samþykkis eða velþóknunar. Hún, en ekki stefndi, beri ábyrgð á því hvernig til hafi tekist við breytingar eða framkvæmdir eftir verklok stefnda, hafi verið um slíkt að ræða.
Þá sé einnig upplýst og óumdeilt í málinu að sjálfstæður verktaki, meðstefndi Rafbrú sf., annaðist um raflagnir í íbúðinni. Margdæmt sé að verktaki beri ekki ábyrgð á undirverktaka. Sé þannig einhverri vangá til að dreifa sem stefnandi eigi heimtingu á að fá bætta þá sýnist það standa næst meðstefnda Rafbrú sf. að svara til þeirra saka.
Auk algers sönnunarskorts á atvikum máls sem leiði þegar í stað til sýknu þá sé einnig til þess að líta að meintar afleiðingar hins meinta slyss séu öldungis ósannaðar.
Í fyrsta lagi sé það vísindalega umþrætt eins og fram komi í matsgerðum hvort og hvaða varanlegu afleiðingar rafstraumur hafi á mannslíkamann, eins og fram komi í matsgerðum lækna. Álit undirmatsmanna sé jafngilt skoðunum yfirmatsmanna í þeim efnum. Yfirmatsgerðin feli ekkert frekara sönnunargildi í sér en undirmatsgerðin.
Í annan stað sé það læknisfræðilega umþrætt og raunar ósannað að rafstraumur geti leitt til húðkvilla þess sem stefnanda hrjáir, sbr. fyrrnefndar matsgerðir. Sýnast í þeim efnum mun sterkari rök og traustari læknisfræðilegar rannsóknir hníga að því að húðkvilla þennan megi rekja til ofnæmissjúkdóms sem stefnandi var haldin fyrir slysið og eða til sterkra hreinsiefna sem hún hafi notað við ræstistörf sem hún sinnti fyrr. Hnekkir yfirmatsgerðin þannig ekki undirmatsgerðinni heldur í þessum efnum.
Ekki verði séð að matsgerð dómkvaddra yfirmatsmanna hvíli á neinum rannsóknum eða byggi á traustum grundvelli er varðar hugsanlega áfallastreituröskun sem yfirmatsmenn telja stefnanda þjást af. Álit yfirmatsmannanna í þessum efnum virðist byggja fyrst og fremst á frásögn stefnanda sjálfs á einkennum sem yfirmatsmenn telja renna stoðum undir þessa greiningu. Í þessu sambandi skuli einnig áréttað að enginn yfirmatsmanna sé sérhæfður á sviði geðlækninga né á sviði sálfræði sem helst hafi öðrum heilbrigðisstéttum framar forsendur til að greina áfallastreituröskun. Skoðanir yfirmatsmanna sem byggi ekki á neinum rannsóknum eða umfjöllunum meðferðarlækna stefnanda skjóti ekki stoðum undir þessa greiningu.
Loks verði ekki heldur byggt á niðurstöðu yfirmatsmanna um varanlega örorku stefnanda þar sem sú niðurstaða sé nákvæmlega ekkert rökstudd.
Gildi jafnframt einu hvort litið sé til varanlegs miska eða varanlegrar örorku að meint tjón stefnanda sé algerlega ósannað, það er að segja, orsakasamband milli heilsufarsvandamála stefnanda og hins meinta atburðar í mars 1998 liggi ekki fyrir. Matsgerð yfirmatsmanna byggi ekki á staðreyndum þannig að það mat verði lagt til grundvallar. Læknisfræðileg niðurstaða matsmannanna fær ekki staðist og varanlega örorkan sé ekki rökstudd með þeim hætti sem skaðabótalög áskilja.
Jafnvel þótt litið sé fram hjá þessum agnúum á málatilbúnaði stefnanda séu samt enn ótalin mótmæli við framsettri kröfu stefnanda sem samrýmist ekki 7. gr. skaðabótalaga. Í málinu séu engar forsendur til að víkja frá meginreglum laganna þess efnis að leggja beri lögákveðin lágmarkslaun til grundvallar nái árstekjur stefnanda ekki tilskyldu lágmarki.
Vaxtakröfu stefnanda sé mótmælt þar sem vextir séu að hluta til fyrndir en einnig standi í raun rök til þess að dráttarvextir verði fyrst dæmdir frá þingfestingardegi þar sem engin viðhlítandi sönnunargögn liggi enn fyrir um að tjónsatvikið hafi átt sér stað hvað þá heldur að stefndi beri ábyrgð á því. Hafi stefnanda þó gefist nægur tími og tækifæri til þess að afla sönnunar fyrir hvoru tveggja hafi hugur hennar staðið til þess.
Stefndi vísar til skaðabótalaga nr. 50/1993 og meginreglna skaðabótaréttar um sakarregluna og ábyrgð sjálfstæðra undirverktaka.
Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. eml. nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefnda Reykjanesbæjar
Sýknukrafa stefnda, Reykjanesbæjar, sé studd eftirfarandi rökum.
Í fyrsta lagi sé ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir rafstuði þann 27. mars 1998 eins og hún fullyrðir. Eigi það hvoru tveggja við hvort hún hafi yfirleitt fengið rafstraum í umrætt sinn og einnig hvort það hafi gerst á þann veg sem hún heldur fram. Hvað fyrra atriðið varðar sé lögð á það áhersla að um það sé hún ein til frásagnar og engum vitnum til að dreifa, sem staðfest geti frásögn hennar þar að lútandi. Í því sambandi sé minnt á að það sé fyrst löngu eftir meint atvik að rafstuð komi inn í umræðuna sem orsakavaldur heilsufarslegra vandamála stefnanda og sé þess að engu getið í frumgögnum málsins, sem þó hefði vissulega verið fyllsta ástæða til, einkum og sér í lagi miðað við þá lýsingu sem stefnandi gefi af atvikinu í lögregluskýrslunni þann 11. janúar 2000.
Hafi hún hins vegar orðið fyrir rafstraumi hinn tiltekna dag sé afar langsótt svo ekki sé meira sagt að það hafi orðið á þann veg sem hún haldi fram. Hér beri að hafa í huga að óverulegur spennumunur sé á milli núllskinnu og jarðskinnu og vísast um það til bréfs Rafmiðstöðvarinnar, dags. 11. febrúar 2002, þar sem fram komi að ekki verði séð hvernig einstaklingur geti fengið í sig raflost eins og stefnandi heldur fram og mjög ólíklegt sé að spennumunur geti orðið það mikill að afleiðingin geti orðið raflost af þeirri stærðargráðu eins og stefnandi lýsir.
Alkunna sé hins vegar að mun öflugri rafstuð geti orðið þegar rafmagnstæki, sem séu í notkun komist í vatn, svo sem hárþurrkur og eða önnur tæki og sé mun líklegra að eitthvað slíkt hafi gerst, ef á annað borð verði fallist á það með stefnanda að hún hafi orðið fyrir verulegum rafstraumi á heimili sínu þann 27. mars 1998.
Ekki þarf að fara mörgum orðum um það að sönnunarbyrðin hér hvílir alfarið á stefnanda.
Í öðru lagi sé niðurstöðum yfirmatsmanna um orsakatengsl meints rafstuðs og núverandi heilsufars stefnanda mótmælt. Þar sé á veikum grunni byggt og rök hinna upphaflegu matsmanna um þetta álitaefni að miklum mun vandaðri og ítarlegri, sbr. töluliði 1 9 á bls. 21 22 í matsgerðinni frá 4. mars 2002. Niðurstaða þeirra sé sú að því sé hafnað að sannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir heilsufarslegu tjóni sem rekja megi til meints atviks. Þá hljóti niðurstaða yfirmatsmanna um orsakasamband að orka tvímælis þar sem fram komi m.a í yfirmatsgerðinni frá 15. janúar 2006, bls. 14, að ekki hafi tekist að finna heimildir um að hliðstæð fyrirbrigði geti komið í kjölfar vefjaskemmda af völdum raflosts, en það hljóti að geta talist fræðilega líklegt að slíkt geti átt sér stað. Hér sem og víðar í yfirmatsgerðinni sé vafinn augljós. Á sömu bls. segir enn fremur:
„Það verður því að telja talsverðar líkur á að exemið í lófum yfirmatsbeiðanda hafi orsakast af raflostinu.“
Með þessa röksemdafærslu í farteskinu sé óskiljanlegt hvernig yfirmatsmenn geti komist að þeirri niðurstöðu að orsakasamband milli meints raflosts og heilsufars stefnanda sé sannað og hljóti því að verða að hafna niðurstöðum þeirra hvað þetta varðar og sé þeim mótmælt.
Fari hins vegar svo að dómurinn fallist ekki á framangreind sjónarmið stefnda Reykjanesbæjar sé engu að síður krafist sýknu. Stefnandi byggir á því gagnvart stefnda, Reykjanesbæ, að í fyrsta lagi byggist ábyrgð hans á vanrækslu eftirlits með byggingaframkvæmdum að Hjallavegi 15. Í öðru lagi sé byggt á ábyrgð hans sem eiganda umræddrar fasteignar og í þriðja lagi á ábyrgð hans á fasteigninni sem leigusala hennar. Af hálfu stefnda Reykjanesbæ sé þessum málsástæðum mótmælt. Um byggingarnefndir og byggingarfulltrúa giltu á þeim tíma er hér um ræðir byggingarlög nr. 54/1978 og byggingarreglugerð nr. 177/1992. Af þeim verði ráðið að aðalverkefni þessara aðila var að byggt væri í samræmi við samþykkt skipulag, auk þess sem lög og reglur um byggingarmálefni væru haldin. Ekki liggi annað fyrir í máli þessu, en sú hafi verið raunin. Óumdeilt sé að raflagnir að Hjallavegi 15 voru unnar af fagmönnum og í samræmi við samþykktar teikningar. Fráleitt sé að halda því fram að það geti fallið undir eftirlitsskyldur byggingarfulltrúa að fylgjast með atriðum eins og hér eru til umfjöllunar. Hér verði að treysta fagmönnunum. Prófanir hafi verið gerðar af starfsmönnum stefnda Rafbrúar sf. við verklok 1996 eins og tíðkanlegt sé og engin útleiðsla hafi fundist. Jafnframt hafi raflagnir hússins verið teknar út af fagaðila, Skoðunarstofunni hf., þann 8. mars 1996 og allt reynst vera í lagi. Þar með hafi stefndi Reykjanesbær fullnægt skyldum sínum að þessu leyti. Þá verði ekki fallist á að það geti metist stefnda Reykjanesbæ, sem eiganda fasteignarinnar að Hjallavegi 15, Njarðvík, til vanrækslu á viðhaldi teljist sannað að umrædd mistök hafi orðið við lagningu rafmagnsins í upphafi. Útilokað hafi verið fyrir stefnda Reykjanesbæ að bregðast við því, ef sú var raunin, enda hefðu engar athugasemdir borist frá stefnanda um ólag á rafmagni í íbúðinni og hefði hún þó búið þar frá því í desember 1995 eða rúm tvö ár þegar meint slys á að hafa orðið. Vandamál tengd þessu hefðu því fyrir löngu átt að hafa verið komin fram. Mótmælt sé að 1. og 3. tl. 51. gr. l. 26/1994 eigi við í máli þessu. Ljóst sé að ákvæðið eigi ekki við samkvæmt orðanna hljóðan og lögjöfnun hljóti að verða að hafna þar sem ákvæði eins og t.d. í tl. 3 leggi ábyrgð á fasteignareiganda án sakar og beri því að túlka þröngt. Það sama eigi við um tilvísun í 4. gr. leigusamnings og í 14. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994. Hvað það varðar sé því haldið fram af stefnda Reykjanesbæ að húsnæðið hafi verið í því ástandi sem almennt sé talið fullnægjandi og lögð áhersla á að útilokað hafi verið fyrir stefnda Reykjanesbæ að gera sér grein fyrir því að eitthvað kynni að vera athugavert við raflagnir hússins telji dómurinn að það teljist sannað að sú hafi verið raunin. Aftur sé minnt á að engar kvartanir hefðu borist frá leigutökum um að eitthvað væri þarna í ólagi.
Að lokum sé lögð á það áhersla af hálfu stefnda Reykjanesbæjar að jafnvel þótt ekki verði fallist á framangreind sjónarmið hans um sýknukröfuna þá beri gögn málsins það með sér, einkum framlagðar matsgerðir lækna, að heilsufarslegar afleiðingar meints óhapps hinn 27. mars 1998 séu svo fjarlæg og ósennileg afleiðing atviksins að samkvæmt viðurkenndum reglum skaðabótaréttarins ætti það að leiða til sýknu.
Til viðbótar framangreindum rökum tekur stefndi Reykjanesbær undir sjónarmið meðstefndu eins og þau koma fram í greinargerðum þeirra og gerir þau að sínum eftir því sem við getur átt.
Með vísan til þess sem hér að framan hefur verið rakið sé því haldið fram af stefnda Reykjanesbæ að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að málsástæður hennar eigi við rök að styðjast og því beri að sýkna hann af kröfum stefnanda.
Varakrafa um lækkun byggist á því að ítrekuð séu mótmæli við niðurstöður yfirmatsmanna, hvað varðar meint orsakasamband, miskastig og örorkustig. Viðmiðun í stefnukröfu við meðaltekjur verkamanna vegna varanlegrar örorku sé mótmælt og sýnist þar eiga að miða við raunverulegar tekjur stefnanda á næstliðnu ári fyrir slys sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna eins og hún var á slysdegi.
Vaxtakröfu sé mótmælt enda eigi hún ekki stoð í lögum og bent sé á að vextir áfallnir fyrir 24. nóvember 2002 séu fyrndir, sbr. 3. gr. 2. tl l. 14/1905.
Kröfur og mótmæli séu ítrekuð og réttur áskilinn til frekari útlistunar og rökstuðnings á síðari stigum svo og framlagningar gagna ef þurfa þykir.
Réttargæslustefndi tekur undir sjónarmið meðstefndu í málinu eins og þau koma fram í greinargerðum þeirra og gerir þau að sínum eftir því sem við getur átt. Á það jafnt við um málsástæður í aðal- og varakröfum meðstefndu.
Niðurstaða
Stefnandi hefur lýst slysinu sem hún varð fyrir á heimili sínu að Hjallavegi 15, Njarðvík, hinn 27. mars 1998 með þeim hætti að hún hafi verið að baða sig og staðið í vatni upp að miðjum kálfum í baðkarinu. Hún hafi tekið um sturtuhausinn með hægri hendi og ætlað að skola sápu úr hárinu. Við þetta hafi hún fengið mikinn rafstraum í gegnum allan líkamann. Líkami stefnanda hafi fest í þessari stöðu og hún ekki getað hreyft sig. Eftir nokkra stund hafi lekaliði í rafkerfi íbúðarinnar slegið út og skömmu síðar hafi stefnandi komist upp úr baðkarinu.
Sama dag og slysið varð skoðuðu starfsmenn Rafiðnar ehf. raflagnir íbúðar 0102 við Hjallaveg 15. Í bréfi Björns Kristinssonar, dags. 23. maí 2000, kemur fram að skoðun hafi leitt í ljós að jarðtaug sem tengist vatnslás baðkarsins hafi ranglega verið tengd inn á svokallaða núllskinnu. Rétt hefði verið að tengja jarðtaugina við svokallaða jarðskinnu.
Í matsgerð dómkvaddra matsmanna frá 2. nóvember 2007 kemur fram að annar þeirra rafvirkja frá Rafiðn ehf., Helgi Hilmarsson, sem skoðuðu raflagnir í íbúðinni við Hjallaveg 15 hinn 27. mars 2008 hafi mætt á matsfund. Hann hafi staðfest að við þessa skoðun hafi þeir losað upp allar taugar sem tengjast inn á núllskinnu og slegið út rofa fyrir hverja grein í greinitöflu íbúðarinnar og leitað að útleiðslu, sem ekki hafi fundist. Það eina sem komið hafi í ljós var að jarðtaug frá vatnslás baðkars var tengd inn á núllskinnu í stað jarðskinnu og hafi þeir lagað það atriði en ekki gert annað.
Í niðurstöðu dómkvaddra matsmanna samkvæmt matsgerð frá 22. júní 2009 segir svo um mögulega orsök slyss stefnanda: „Sé spennujöfnunartaug frá niðurfalli (vatnslás) tengd við N-skinnu og aðstæður verða óeðlilegar, til dæmis við það að spennuhafandi utanaðkomandi hlutur kemst í snertingu við baðkerið, eða vatnið sem í því er, geta skapast hættulegar aðstæður. Í slíku tilfelli verður einstaklingur sem stendur í baðkarinu jafnframt spennuhafa og við það að stíga á niðurfallið verður til tenging milli þessa utanaðkomandi spennuhafa hlutar og N-skinnu. ... Snerti einstaklingurinn við þessar aðstæður blöndunartækið verður jarðleiðni sem lekastraumsrofinn nemur og slær út.“ Annað tilvik, sem gæti hafa valdið slysinu, að áliti hinna sérfróðu meðdómsmanna og dómkvaddra matsmanna, er það að núlltaug að núllskinnu í greinatöflu hafi losnað (laus tenging). Ef núlltaugin losnar missir núllskinna greinatöflunnar þar með samband sitt við hana með þeim afleiðingum að núllskinnan verður þá spennuhafandi gegnum ljós eða annað rafmagnstæki í íbúðinni. Ef núllskinnan verður spennuhafandi verður spennujöfnunarvírinn sem er tengdur milli vatnsláss baðkars og núllskinnu einnig spennuhafandi sem aftur leiðir til þess að niðurfall baðkarsins verður spennuhafandi. Ef þetta gerist og einstaklingur í baðinu stígur á niðurfallið og snertir blöndunartækin á sama tíma fær hann rafmagnsstuð sem stendur yfir þangað til lekaliðinn slær út sem gæti gerst eftir u.þ.b. 30 m/sek. = 0,030 sek., ef hann er í fullkomnu lagi.
Stefnandi staðhæfir að ekkert raftæki hafi verið til staðar sem hafi komist í snertingu við baðkarið tiltekið sinn og ekki liggur fyrir samkvæmt gögnum máls að núlltaug að núllskinnu í greinatöflu hafi verið laus (laus tenging). Hinir sérfróðu meðdómsmenn telja þó að viðvarandi ljósflökt í íbúðinni geti bent til þess að svo hafi verið.
Samkvæmt læknisfræðilegum gögnum málsins hrakaði heilsu stefnanda mikið eftir slysið. Helstu einkenni sem stefnandi rekur til slyssins eru exem á höndum og stöðugur kláði í lófunum. Af þeim sökum geti hún ekki stundað nein þau störf sem reyni á húðina á höndunum. Hún fái hjartsláttarköst, en þeim fylgi magnleysi og sviti og stundum yfirliðstilfinning. Stefnandi þjáist af magnleysi og mikilli þreytu. Hún sofi illa og þurfi ávallt að taka svefntöflur. Allt frá slysinu hafi stefnandi verið með verki í hægra hælbeini.
Í málinu liggur fyrir útprentun úr sjúkraskrá stefnanda tímabilið 18. nóvember 1994 til 21. janúar 2000. Þar er fyrst skráð að stefnandi sé með útbrot á höndum í læknisviðtali 18. ágúst 1998. Þar segir: Roðaútbrot í lófa vi. handar. Kláði og litlar blöðrur. Versnað mikið í vinnu þar sem hún þarf að not gúmmíhanska. Þetta lýtur út sem snertieczema og er ósýkt. Ráðlagt að fara til húðsjúkdómalæknis og láta ofnæmisprófa. Hinn 24. nóvember 1998 er vísað í læknabréf frá Húðlæknastöðinni og skráð að stefnandi sé með ofnæmi fyrir nikkel. Hinn 29. október 1999 er skráð vegna læknisskoðunar á heilsugæslustöð: Verið með handarexem í eitt og hálft ár. Verri núna hæ. megin. Sk: Virðist vera komin með sýkingu. Af sjúkraskrá verður ráðið að stefnandi hafi átt við viðvarandi vanheilsu að stríða vegna handarexems eftir að hún varð fyrir slysinu.
Í læknisvottorði Steingríms Davíðssonar húðsjúkdómalæknis, dags. 28. nóvember 1998, er staðfest að stefnandi hafi mjög slæmt exem á höndum og sé með nikkelofnæmi.
Í læknisvottorði Steingríms Davíðssonar húðsjúkdómalæknis, dags. 17. mars 2001, segir m.a. svo: Sigríður hafði almennt verið hraust þar til núverandi veikindi hófust í mars 1998. Þá byrjaði exem í lófum og einnig fór hún að finna fyrir hjartsláttartruflunum. Kláði fylgdi exeminu. Hafði hún fengið raflost á heimili sínu skömmu áður en exemið byrjaði. Undirritaður sá sjúkling fyrst í lok september 1998. Þá hafði hún slæmt vesiculert exem í lófum sérstaklega hæ megin. Sigríður þjáist af handaexemi sem kallast pomholyx (dishidrotic eczema, vesicular eczema of the palms). Orsakir exema af þessu tagi eru óþekktar. Sumar rannsóknir benda til að pomholyx sé algengara hjá þeim með ofnæmistilhneigingu (atopic tendency). Rannsóknir eru þó misvísandi. Í tilfelli Sigríðar er erfitt að segja til um hvort raflostið hafi átt þátt í að exemið í lófunum byrjaði. Eins og fyrr segir eru orsakir pomholyx óþekktar. Streita virðist í sumum tilfellum geta haft áhrif á gang sjúkdómsins. Undirritaður telur ekki útilokað að raflostið hafi átt þátt í að handaexemið hófst hjá Sigríði vegna þeirrar streitu sem það olli henni. Raflostið gæti mögulega hafa verið atvik sem afhjúpaði exemstilhneygingu hjá henni.
Í læknisvottorði Ásgeirs Jónssonar læknis, dags. 24. október 2002, kemur fram að hann hafi rætt við þá tvo hjartasérfræðinga sem eru sérfræðingar í raflífeðlisfræðilegum rannsóknum á hjarta og vita þeir engin dæmi þess að rafstraumur valdi langvinnri hjartsláttaróreglu. Sé því ekki samband milli rafmagnsslyssins og hjartsláttartruflana stefnanda.
Í vottorði Þóris V. Þórissonar læknis, dags. 26. nóvember 2002, kemur fram að stefnandi beri augljós ummerki þess að hún hafi orðið fyrir umræddu slysi, þ.e. ör eftir brunasár á hælum og víðar. Hins vegar sé ekkert fast í hendi sem staðfesti tengsl núverandi kvartana Sigríðar, þ.e. chroniskt exem á höndum og hjartsláttartruflanir, við umrætt slys.
Í vottorði Baldurs Tuma Baldurssonar húðsjúkdómalæknis, dags. 6. desember 2002, segir svo m.a. í niðurstöðu um tengsl rafmagnsslyssins við einkenni stefnanda:
Því er út frá tímalegum og atvinnulegum rökum hægt að færa rök að því að eitthvað hafi gerst við rafmagnsslysið sem setti í gang exemið. Ekkert er að finna við leit í vísindagreinum um rafmagnsslys sem orsök exema en hins vegar er fjöldinn allur af greinum um áhrif rafmagnsslysa á taugakerfið og eru þau mjög víðtæk. Það er vel þekkt að ósjálfráða taugakerfið, aðallega sá hluti þess sem stjórnar hita og svita, hefur mjög mikil áhrif á exem á höndum. ... Það má því ljóst vera að hægt er að færa rök að því að áhrif rafmagns á ósjálfráða taugakerfið geti gegnum keðjuverkun valdið exemi.
Í yfirmatsgerð, dags. 15. janúar 2006, sem m.a. var byggð á framangreindum læknisgögnum, var komist að þeirri niðurstöðu að talsverðar líkur teldust vera á því að exemið í lófum stefnanda hafi orsakast af raflostinu hinn 27. mars 1998. Þá hafi raflostið haft mikil óbein áhrif á stefnanda, sem hafi strax eftir það liðið mjög illa á margan hátt. Hún hafi verið mjög miður sín, átt erfitt með svefn, hrokkið upp af minnsta tilefni, fengið martraðir og endurlifað slysið oft. Hún hafi verið hrædd og kvíðin við að fara í bað eða sturtu. Ekki hafi dregið úr þessum einkennum með tímanum að sögn stefnanda. Úthald til vinnu sé minnkað, einbeiting skert, nám sækist verr en áður og sjálftraust hennar sé lakara. Það er álit yfirmatsmanna að þessi einkenni bendi til áfallastreitu (post traumatic stress disorder) sem megi rekja til raflostsins. Það vandamál gæti aftur átt verulegan þátt í húðsjúkdómi eins og nánar er reifað í matsgerðinni. Varanlegur miski stefnanda af völdum rafmagnsslyssins samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga var metinn 20 stig og varanleg örorka hennar 50% samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga.
Framangreind læknisfræðileg gögn og matsgerðir benda eindregið til þess að stefnandi hafi orðið fyrir fyrrgreindu heilsutjóni vegna þess að hún fékk rafstraum í gegnum líkama sinn 27. mars 1998, eins og fram er komið. Í ljós kom við skoðun rafvirkja á raflögnum í íbúð stefnanda sama dag að jarðtaug sem tengist vatnslás baðkarsins var ranglega tengd inn á svokallaða núllskinnu. Samkvæmt niðurstöðu matsmanna og áliti hinna sérfróðu meðdómsmanna gat sú ranga tenging haft í för með sér að stefnandi hefði við tileknar aðstæður fengið í sig rafstraum með þeim hætti sem hún hefur lýst.
Samkvæmt gr. 8.1.19.2 í þágildandi byggingarreglugerð nr. 177/1992 segir að raflagnir skuli vera í samræmi við reglugerðir Rafmagnseftirlits ríkisins, þ.e. reglugerð nr. 264/1971 um raforkuvirki með síðari breytingum. Þar kemur fram í grein 338 f að baðker eða steypibaðsskálar, afrennslis- og yfirfallspípur, neysluvatnspípur og aðrar pípulagnir úr leiðandi efni skulu tengdar saman með spennujöfnunartaug. Þetta skal gert jafnvel þótt engin raflögn sé í baðherberginu. Fyrir liggur að þegar rafvirkjar komu á vettvang daginn sem slysið varð kom í ljós að tenging í greinitöflu íbúðarinnar var ekki í samræmi við þessi fyrirmæli þar sem jarðtaug frá vatnslás baðkars var tengd inn á núllskinnu í stað jarðskinnu. Eins og fyrr er rakið gat hin ranga tenging verið orsök þess að stefnandi fékk rafstraum í sig með þeim hætti sem hún hefur lýst og valdið hefur henni því heilsutjóni sem komist er að niðurstöðu um samkvæmt yfirmatsgerð. Í málinu er til staðar staðfesting á því að aðaltafla í sameign hússins hafi verið skoðuð 6. mars 1996. Hins vegar liggur ekki fyrir að greinitafla íbúðarinnar hafi verið tekin út eða skoðuð sérstaklega að verki loknu og skýrsla rafverktaka til rafveitu um neysluveitu liggur ekki fyrir. Verður því lagt til grundvallar að tengingar í greinitöflu íbúðarinnar er slysið varð, hafi verið eins og gengið var frá þeim upphaflega af stefnda Rafbrú sf., sem ber hallann af skorti á sönnun um hið gagnstæða. Í ljósi þessa verður talið að allan vafa um það hvort stefnandi hafi orðið fyrir rafmagnsslysi af þessum sökum hinn 27. mars 1998 beri að skýra henni í hag sem og þann vafa sem til staðar er um orsakasamband og heilsutjón stefnanda sem af hlaust. Liggja og ekki fyrir í málinu haldbær gögn, sem benda til þess að einkenni stefnanda um áfallastreitu verði rakin til annars en raflostsins. Ekki er fallist á þær málsástæður stefndu að heilsuskerðing stefnanda sé svo fjarlæg og ósennileg afleiðing atviksins að hún falli utan marka skaðabótaréttar. Verður því fallist á niðurstöðu yfirmatsmanna um miska og varanlega örorku stefnanda vegna slyssins.
Samkvæmt framlagðri tilkynningu meistara til Njarðvíkurbæjar, dags. 8. júní 1994, var stefndi Ásmundur S. Jónsson skráður rafvirkjameistari húseignarinnar að Hjallavegi 15, Njarðvík. Hann hefur undirritað yfirlýsingu um ábyrgð sína í samræmi við 2. mgr. 19. gr. byggingarlaga nr. 54/1978. Rafverktaki ásamt honum var stefndi Sæmundur Þ. Einarsson, rafvirkjameistari og var verkið unnið á vegum sameignarfélags þeirra, stefnda Rafbrúar sf. Bera þeir því óskipta ábyrgð á tjóni stefnanda samkvæmt reglum skaðabótaréttar.
Að því er varðar stefnda Húsagerðina hf. verður ekki talið að ákvæði þágildandi byggingarlaga nr. 54/1978, einkum V. kafla laganna leiði til þess að stefndi geti borið skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda. Verður stefndi Húsagerðin hf. því sýknaður af kröfum stefnanda í málinu, en málskostnaður verður felldur niður.
Að því er varðar stefnda Reykjanesbæ verður ekki heldur talið að ákvæði byggingarlaga nr. 54/1978 um eftirlit með byggingarframkvæmdum geti leitt til þess að stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda. Er þeim málsástæðum stefnanda hafnað. Þá er ekki fallist á þær málsástæður stefnanda að bótaábyrgð verði lögð á stefnda sem fasteignareiganda og leigusala á grundvelli laga um fjöleignarhús og húsaleigulaga. Verður stefndi Reykjanesbær því sýknaður af kröfum stefnanda í málinu, en málskostnaður verður felldur niður.
Engin efni eru til þess að dæma réttargæslustefnda málskostnað og er þeirri kröfu hafnað.
Í kröfugerð stefnanda er byggt á ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993, eins og þau voru á slysdegi, og yfirmatsgerð frá 15. janúar 2006 um afleiðingar slyss stefnanda, sem ekki hefur verið hnekkt, og fallist er á að verði lögð til grundvallar um líkamstjón stefnanda. Varanlegur miski stefnanda var metinn 20 stig og gerir stefnandi kröfu um bætur vegna varanlegs miska samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga, 6.072.000 kr. (4.000.000 kr. x 4982/3282) x 20% = 1.214.400 kr. Sú fjárhæð hefur ekki sætt tölulegum andmælum og verður tekin til greina.
Varanleg örorka stefnanda samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga var metin 50%. Við útreikning á bótum vegna varanlegrar örorku hefur stefnandi lagt til grundvallar 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og tekið mið af meðaltekjum verkafólks á 1. ársfjórðungi 1998, sem námu 151.300 kr. á mánuði, eða 1.924.536 kr. á ársgrundvelli, að teknu tilliti til 6% framlags atvinnurekanda í lífeyrissjóð. Samkvæmt því gerir stefnandi kröfu um bætur vegna varanlegrar örorku að teknu tilliti til þágildandi 2. mgr. 15. gr. skaðabótalaga: 1.924.536 kr. x 50% x 10 x 4982/3594 = 13.338.952 kr.
Af hálfu stefndu hefur því verið mótmælt að raunhæft sé að notast við meðaltekjur verkafólks sem viðmiðunartekjur hjá stefnanda. Fremur eigi að miða við raunverulegar tekjur stefnanda á næstliðnu ári fyrir slys, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna, eins og hún var á slysdegi, eða byggja á raunverulegum launum hennar sjálfrar síðast fyrir slysið miðað við fullt starf. Þrátt fyrir andmæli stefndu um útreikningsgrundvöll kröfunnar að þessu leyti hafa ekki verið lagðar fram af þeirra hálfu útreikningar til frekari stuðnings þessum sjónarmiðum þeirra.
Eins og skattframtal stefnanda sýnir starfaði hún hjá fjórum vinnuveitendum árið 1997 og kveðst stefnandi að mestu leyti hafa starfað hjá Fagræstingu sf. í 70% starfi það ár. Auk þess hafi stefnandi sinnt þungu heimili og varið stórum hluta vinnugetu sinnar til þess. Hefur stefnandi því gengt hlutastörfum og er því fallist á að launatekjur hennar á næstliðnu ári fyrir slysið sé ekki réttur mælikvarði á líklegar framtíðartekjur hennar og verði því ekki byggt á 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga er árslaun eru metin. Að því er varðar tekjuviðmið samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, sem leggja skal til grundvallar útreikningi bóta vegna varanlegrar örorku, hafa stefndu ekki nægjanlega sýnt fram á með málatilbúnaði sínum að meta skuli árslaun stefnanda með öðrum hætti en krafist er. Verður því einnig fallist á kröfu um bætur vegna varanlegrar örorku, sem ekki hefur að öðru leyti sætt andmælum að því er tölulegan útreikning varðar.
Samkvæmt framansögðu verða stefndu Ásmundur S. Jónsson, Sæmundur Þ. Einarsson, persónulega og vegna Rafbrúar sf., dæmdir til að greiða stefnanda óskipt 14.553.352 kr. (1.214.400 + 13.338.952). Bótafjárhæðin ber 2% ársvexti samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga, eins og sú grein var fyrir gildistöku laga nr. 37/1999, en fallist er á með stefndu að vextir, sem til féllu fjórum árum fyrir birtingu stefnu í málinu 24. nóvember 2006, séu fyrndir, sbr. 2. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, sbr. nú 28. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Þegar litið er til sérstakra atvika máls þessa og þeirrar gagnaöflunar sem fram hefur farið undir rekstri þess verða dráttarvextir dæmdir frá dómsuppsögu, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Eftir þessum úrslitum málsins verða stefndu einnig dæmdir til að greiða stefnanda málskostnað, sem ákveðst 4.834.680 krónur og rennur í ríkissjóð. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts og útlagðs kostnaðar samkvæmt framlögðum reikningum að fjárhæð 2.575.680 krónur.
Allur gjafsóknarkostnaður málsins, 4.834.680 krónur greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl. 2.259.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og útlagður kostnaður að fjárhæð 2.575.680 krónur.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Magnúsi Siguroddssyni rafmagnstæknifræðingi og rafvirkjameistara og Sigurði Grímssyni rafmagnstæknifræðingi.
D Ó M S O R Ð :
Stefndu, Ásmundur S. Jónsson, Sæmundur Þ. Einarsson, persónulega og vegna Rafbrúar sf., greiði óskipt stefnanda, Sigríði Katrínu Þorbjörnsdóttur, 14.553.352 krónur með 2% ársvöxtum frá 24. nóvember 2002 til 2. febrúar 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. febrúar 2011 til greiðsludags og 4.834.680 krónur í málskostnað, er rennur í ríkissjóð.
Stefndu, Húsagerðin hf. og Reykjanesbær, skulu vera sýknir af kröfum stefnanda í málinu, en málskostnaður fellur niður að því er þá varðar.
Kröfu réttargæslustefnda, Vátryggingarfélags Íslands hf., um málskostnað er hafnað.
Allur gjafsóknarkostnaður málsins, 4.834.680 krónur greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl. 2.259.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og útlagður kostnaður að fjárhæð 2.575.680 krónur.