Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-191

Barnaverndarnefnd Kópavogs (Þyrí H. Steingrímsdóttir lögmaður)
gegn
A (enginn)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Börn
  • Barnavernd
  • Forsjársvipting
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 8. júlí 2021 leitar barnaverndarnefnd Kópavogs leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 18. júní sama ár í málinu nr. 260/2021: Barnaverndarnefnd Kópavogs gegn A á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili hefur ekki tekið afstöðu til beiðninnar.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að gagnaðili verði svipt forsjá dóttur sinnar á grundvelli a- og d- liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Fyrir liggur að tveimur vikum áður en leyfisbeiðandi tók ákvörðun um að höfða forsjásviptingarmál á hendur gagnaðila hafði hún falið móður sinni, sem búsett er í [...], forsjá stúlkunnar með samningi á grundvelli 3. mgr. 32. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu mun enn ekki hafa tekið afstöðu til þessa samnings, sbr. 5. mgr. sama lagaákvæðis.

4. Héraðsdómur hafnaði kröfu leyfisbeiðanda á þeim grundvelli að skilyrðum 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga, um að vægari úrræði væru fullreynd, væri ekki fullnægt. Í dómi Landsréttar kom fram að rannsókn barnaverndarnefndar á því hvort aðrar leiðir en forsjársvipting væru færar yrði ekki einskoðuð við athugun á þeim sérgreindu úrræðum sem talin væru upp í barnaverndarlögum. Telja yrði að samningur gagnaðila og móður hennar um forsjá stúlkunnar fæli í sér vægari leið gagnvart henni og barninu en forsjársvipting. Af hálfu leyfisbeiðanda hefðu engin gögn verið lögð fram sem renndu stoðum undir að hagsmunum stúlkunnar kynni að vera ógnað færi hún í forsjá móðurömmu sinnar í [...]. Með vísan til 1. mgr. 56. gr. barnaverndarlaga, reglna um meðalhóf og fyrirliggjandi gagna um hæfni móður gagnaðila til þess að taka að sér forsjá stúlkunnar taldi Landsréttur að leyfisbeiðandi hefði ekki kannað með fullnægjandi hætti hvort hagsmunir stúlkunnar krefðust þess að höfðað væri forsjársviptingarmál. Þá hefði ekkert komið fram í málinu sem gæfi tilefni til að ætla að barnaverndaryfirvöld í [...] myndu ekki hafa fullnægjandi eftirlit með hagsmunum og velferð stúlkunnar ef og þegar til þess kæmi að hún færi til móðurömmu sinnar. Niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfu leyfisbeiðanda var því staðfest.

5. Leyfisbeiðandi styður beiðni sína þeim rökum að málið hafi verulegt almennt gildi fyrir störf barnaverndaryfirvalda við þær aðstæður þar þegar foreldri undirriti samkomulag um að fela öðrum forsjá barns meðan á vinnslu barnaverndarmáls standi. Jafnframt telur hann málið hafa verulegt almennt gildi um hversu viðamiklar stuðningsaðgerðir barnaverndaryfirvalda þurfi að vera til þess að unnt sé að telja að vægari úrræði teljist fullreynd. Loks hafi málið verulegt almennt gildi um mat á aðkomu erlendra stjórnvalda að barnaverndarmálum og samvinnu við erlenda aðila þegar barn heyri undir íslenska lögsögu. Þá telur hann að við úrlausn málsins hafi hagsmunir barnsins ekki verið hafðir í fyrirrúmi en barnið hafi myndað góð tengsl við fósturforeldra sína. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til og að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni.

6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Jafnframt verður að gæta að því að þótt málið varði mikilvæga hagsmuni er svo einnig ástatt endranær í málum sem varða forsjá barna og skyld málefni þeirra, en ekki verður séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Er beiðni um áfrýjunarleyfi því hafnað.