Hæstiréttur íslands
Mál nr. 235/2002
Lykilorð
- Kaupskylda
- Vanreifun
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Fimmtudaginn 21. nóvember 2002. |
|
Nr. 235/2002. |
Dánarbú Daviu J. J. Guðmundsson(Páll Arnór Pálsson hrl.) gegn Héraðsnefnd Austur-Húnvetninga (Jón Sveinsson hrl.) |
Kaupskylda. Vanreifun. Frávísun máls frá héraðsdómi.
Ágreiningur málsaðila átti rætur að rekja til þess að árið 1991 keypti DG félagslega kaupleiguíbúð á Blönduósi af F. DG lést árið 1999 og krafðist D þess með kröfubréfi að H greiddi eignarhlut D í andvirði íbúðarinnar, en H hafnaði erindinu. D höfðaði þá mál þetta gegn F og H og var kröfugerð gegn H reist á því að H bæri einfalda ábyrgð á skuldbindingum F. Engar málsástæður fyrir kröfunni voru hins vegar tilgreindar í stefnunni og lagarök var þar ekki heldur að finna. Fyrir Hæstarétti voru kröfur D hins vegar aðallega reistar á því að kaupskylda hvíldi á H sem raunverulegum framkvæmdaaðila við að koma upp íbúðunum samkvæmt þágildandi lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Var málatilbúnaður D fyrir Hæstarétti í meginatriðum reistur á allt öðrum grunni en þeim, sem lagður var með stefnu til héraðsdóms. Þá hafði D enga grein gert fyrir því hvort skilyrði væru uppfyllt varðandi eignaleysi þrotabús F til þess að einföld ábyrgð gæti af þeim ástæðum hafa orðið virk. Kröfugerð D var sú að H yrði dæmd til að greiða ákveðna fjárhæð sem væri eignarhluti D í umræddri íbúð. Í engu var þó getið um afleiðingar þess að öðru leyti að viðurkennd yrði kaupskylda H, svo sem um ábyrgð á áhvílandi veðskuldum á íbúðinni eða yfirfærslu eignarréttar á henni að hluta eða öllu leyti. Samkvæmt öllu framanröktu þóttu slíkir annmarkar á málatilbúnaði D að óhjákvæmilegt var að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 6. mars 2002. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 24. apríl 2002 og áfrýjaði hann á ný 21. maí sama árs með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994. Áfrýjandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 742.376 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 27. janúar 1999 til 1. júlí 2001, en 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Ágreiningur málsaðila á rætur að rekja til þess að árið 1991 keypti Davia J. J. Guðmundsson félagslega kaupleiguíbúð á Blönduósi af Félagi eldri borgara í Austur-Húnavatnssýslu. Davia lést 17. janúar 1999 og krafðist áfrýjandi þess í bréfi 16. febrúar 2001 að stefndi greiddi „eignarhlut dánarbúsins í andvirði íbúðarinnar 102 að Flúðabakka 1 ...“. Af bréfinu verður ráðið að áfrýjandi hafi afhent Félagi eldri borgara íbúðina 27. janúar 1999. Stefndi hafnaði erindinu 28. febrúar 2001.
Svo sem fram kemur í héraðsdómi höfðaði áfrýjandi málið 28. apríl 2001 gegn Félagi eldri borgara í Austur-Húnavatnssýslu og stefnda. Krafðist hann þess að nefnt félag yrði dæmt til að „endurgreiða dánarbúinu eignarhluta þess í íbúðinni nr. 1 við Flúðabakka á Blönduósi, en eignarhluti þess var kr. 742.376 ... auk lögbundinna dráttarvaxta ...“. Á hendur stefnda gerði hann þá kröfu að hann „sem bakhjarl og ábyrgðaraðili fyrir Félag eldri borgara, verði með dómi dæmdur til þess að greiða framangreinda kröfu alla eða að hluta til, ef greiðslugeta Félags eldri borgara bregst.“ Undir rekstri málsins í héraði mun bú Félags eldri borgara í Austur-Húnavatnssýslu hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta og féll áfrýjandi frá kröfu á hendur því. Ekki er fram komið í málinu hvort áfrýjandi lýsti kröfu sinni í þrotabúið.
Svo sem kröfugerð áfrýjanda gegn stefnda er úr garði gerð sýnist hún reist á þeim grunni að stefndi beri einfalda ábyrgð á skuldbindingum Félags eldri borgara. Í stefnu rakti þáverandi lögmaður áfrýjanda málavexti, þar sem gerð var grein fyrir því að félagslegar kaupleiguíbúðir voru reistar á Blönduósi um 1990 og einnig vikið að afskiptum stefnda af málinu. Var jafnframt greint frá dómi Hæstaréttar 9. nóvember 2000 í máli nr. 195/2000, þar sem dæmt hafi verið um svipað sakarefni. Engar málsástæður fyrir kröfunni voru hins vegar tilgreindar í stefnunni og lagarök var þar ekki heldur að finna. Hins vegar var boðað að nokkur atriði yrðu nánar skýrð í greinargerð með stefnu. Það skjal reyndist hins vegar hafa að geyma umfjöllun um sögu sýslunefnda og stofnun Félags eldri borgara í Austur-Húnavatnssýslu.
Fyrir Hæstarétti eru kröfur áfrýjanda hins vegar aðallega á því reistar að stefndi hafi verið raunverulegur framkvæmdaaðili við að koma upp umræddum félagslegum kaupleiguíbúðum á Blönduósi fyrir aldraða á grundvelli 29. gr. og 53. gr. þágildandi laga nr. 86/1988 um Húsnæðisstofnun ríkisins. Ein þessara íbúða hafi verið sú, sem Davia J. J. Guðmundsson keypti. Telur áfrýjandi samkvæmt því að kaupskylda hvíli á stefnda sem framkvæmdaaðila samkvæmt 1. mgr. 98. gr. fyrrnefndra laga, eins og þau hljóðuðu þegar kaupin voru gerð 1991. Hafi sú skylda ekki breyst með lögum nr. 97/1993 um Húsnæðisstofnun ríkisins, síðari breytingum á þeim lögum eða við gildistöku laga nr. 44/1998 um húsnæðismál, sem leystu þau lög af hólmi. Beri stefndi beina ábyrgð á framkvæmdum Félags eldri borgara og hafi Húsnæðisstofnun ríkisins litið á stefnda sem framkvæmdaaðila. Er því jafnframt lýst í málatilbúnaði áfrýjanda fyrir Hæstarétti að Félag eldri borgara hafi verið áhugamannafélag, sem ekki hafi getað borið skyldur sem aðrir lögaðilar. Geti stefndi ekki skotið sér undan ábyrgð á samningi við Daviu J. J. Guðmundsson og breyti engu þótt Félag eldri borgara hafi verið skráður eigandi íbúðanna við sölu þeirra. Hvað sem öðru líði beri stefndi ábyrgð til vara ef Félag eldri borgara sé sannanlega ógjaldfært.
II.
Af héraðsdómi má ráða að við rekstur málsins í héraði hafi áfrýjandi breytt grundvelli málsins frá því, sem fram kemur í stefnu og áður er rakið, í átt til þess, sem nú er byggt á fyrir Hæstarétti. Málatilbúnaður áfrýjanda hér fyrir dómi er í meginatriðum reistur á allt öðrum grunni en þeim, sem lagður var með stefnu til héraðsdóms. Þá hefur hann enga grein gert fyrir því hvort skilyrði séu uppfyllt varðandi eignaleysi þrotabús Félags eldri borgara til þess að einföld ábyrgð geti af þeim ástæðum hafa orðið virk. Sú aðferð hans að vísa um hluta málatilbúnaðar síns til sérstakrar greinargerðar í héraði er ekki í samræmi við ákvæði laga nr. 91/1991.
Kröfugerð áfrýjanda er sú að stefndi verði dæmdur til að greiða 742.376 krónur, sem sé eignarhluti áfrýjanda í umræddri íbúð. Í engu er þó getið um afleiðingar þess að öðru leyti að viðurkennd yrði kaupskylda stefnda, svo sem um ábyrgð á áhvílandi veðskuldum á íbúðinni eða yfirfærslu eignarréttar á henni að hluta eða öllu leyti. Eins og krafan er fram sett felur hún í sér að viðurkennd verði skylda stefnda til að greiða tiltekna fjárhæð án þess að neitt komi á móti.
Samkvæmt öllu framanröktu eru slíkir annmarkar á málatilbúnaði áfrýjanda að óhjákvæmilegt er að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi. Rétt er að hvor aðilanna beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Málinu er vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 6. desember 2001.
I.
Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum flutning 11. október sl, er höfðað af dánarbúi Davíu J. J. Guðmundsson, kt. 190210-2869, Flúðabakka 1, Blönduósi með stefnu birtri 28. apríl 2001 á hendur Héraðsnefnd Austur-Húnavetninga, kt. 560189-2149 Blönduósi. Undir rekstri málsins féll stefnandi frá kröfum á hendur Félagi eldri borgara í Austur-Húnavatnssýslu, kt. 451090-2169, þar sem félagið hefur verið úrskurðað gjaldþrota.
Dómkröfur stefnanda.
Stefnandi krefst þess, að stefndi Héraðsnefnd Austur Húnvetninga greiði þeim 742.376 krónur með dráttarvöxtum frá 27. janúar 1999 til greiðsludags. Jafnframt er gerð krafa um málskostnað úr hendi stefnda og að virðisaukaskattur verði lagður við málflutningsþóknun.
Dómkröfur stefnda.
Stefnda Héraðsnefnd Austur-Húnvetninga krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Jafnframt er gerð krafa um málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti úr hendi stefnanda að mati dómsins.
II.
Málavextir.
Þann 30. nóvember 1988 gerðu sveitarstjórnir Áshrepps, Sveinsstaðahrepps, Torfalækjarhrepps, Blönduóssbæjar, Svínavatnshrepps, Bólstaðarhlíðarhrepps, Engihlíðarhrepps, Vindhælishrepps, Höfðahrepps og Skagahrepps í Austur- Húnavatnssýslu með sér samning um Héraðsnefnd Austur-Húnvetninga. Samkvæmt 2. gr. samningsins skal Héraðsnefndin annast þau verkefni sem sýslunefndum og héraðsnefndum eru falin með lögum, svo og verkefni sem varða öll aðildarsveitarfélögin og sveitarstjórnirnar fela henni samkvæmt sérstakri samþykkt hverrar sveitarstjórnar. Innan Héraðsnefndarinnar er síðan héraðsráð, nokkurskonar framkvæmdaráð, skipað þremur héraðsnefndarmönnum.
Þann 28. júní 1989 var haldinn fundur í Héraðsnefndinni þar sem meðal annars var fjallað um málefni aldraðra. Samþykkt var tillaga þess efnis að kjósa þriggja manna nefnd til að athuga möguleika á því að aldrað fólk í héraðinu léti byggja íbúðir á félagslegum grunni. Nefndin skyldi kanna hverjir hafi áhuga á að byggja slíkar íbúðir, hvaða fyrirgreiðsla sé möguleg og hvar íbúðirnar skyldu rísa. Nefndin átti að skila tillögum sínum fyrir næsta héraðsnefndarfund. Á aukafundi í Héraðsnefnd þann 2. nóvember 1989 skilaði nefndin tillögum sínum. Jafnframt var skýrt frá því að Félag eldri borgara í Austur-Húnavatnssýslu hafi verið stofnað þann 31. október 1989 með 45 félagsmönnum. Á þessum sama fundi Héraðsnefndar var samþykkt svofelld tillaga frá oddvita nefndarinnar. ,,Fundurinn samþykkir í framhaldi af tillögum nefndar er kannaði möguleika á byggingu íbúða fyrir aldraða, og erindi Félags eldri borgara í A-Hún, að veita héraðsráði heimild að veita félaginu bakábyrgð til byggingar allt að 8 íbúða.”
Á fundi Héraðsnefndar þann 18. desember 1989 var málið tekið fyrir aftur og svofelld tillaga samþykkt; ,,Fundurinn samþykkir í framhaldi af tillögu nefndar er kannaði möguleika á byggingu íbúða fyrir aldraða og Félags eldri borgara í A-Hún, að veita héraðsráði heimild til að veita félaginu bakábyrgð til byggingar allt að 8 íbúða, enda verði gerður um það sérstakur samningur milli Héraðsnefndar og Félags eldri borgara A-Hún. Meginefni þessarar ályktunar er ályktun er samþykkt var á fundi 2. nóv. sl.”
Vegna byggingu íbúðanna var sótt um lán til Húsnæðisstofnunar ríkisins. Lánsumsóknin, sem er á stöðluðu formi Húsnæðisstofnunar ríkisins, er dagsett 25. september 1989, nokkru áður en Félag eldri borgara var stofnað og nokkru áður en málið var tekið formlega fyrir í Héraðsnefnd. Umsóknin er undirrituð fyrir hönd ,,Félags aldraðra A-Hún." og Héraðsnefndar A-Hún. Í umsókninni segir m.a. að ,,SVEITARFÉLAG/FRAMKVÆMDAAÐILI Héraðsnefnd Austur Hún/Félags aldraðra Austur Hún.” Þá er í lánsumsókninni notuð kennitala Héraðsnefndarinnar. Undir umsóknina rita ,,Torfi Jónsson f.h. félags aldraðra A-Hún og Valgarður Hilmarsson f.h. Héraðsnefndar A-Hún."
Vegna byggingarframkvæmdanna var stofnuð sérstök byggingarnefnd. Að ósk Félags eldri borgara tilnefndi Héraðsnefnd Magnús Björn Jónsson í byggingarnefndina. Þá tilnefndi Blönduóssbær Guðbjart Ólafsson, bæjartæknifræðing í þessa nefnd að framkominni ósk félagsins en af þess hálfu sat Torfi Jónsson formaður í nefndinni. Nefnd þessi sá um flesta þætti sem að byggingu íbúðanna snéri. Öll umsýsla með fjármuni fór fram á skrifstofu Blönduóssbæjar en sérstakur bankareikningur eða reikningar voru stofnaðir í því sambandi.
Eftir að fyrsti áfangi byggingarinnar var vel á veg kominn var talið að þörf væri fyrir fleiri íbúðir og var ráðist í að byggja aðrar 8 íbúðir. Í tilefni af því var sótt um ábyrgð fyrir lánum hjá Héraðsnefnd. Í fundargerð nefndarinnar vegna fundar þann 10. desember 1990 var svo bókað ,,7. Erindi félags aldraðra. Héraðsnefnd hafði borist bréf dags. 9. okt. s.l. frá formanni Félags e.b. í A. Hún. um tilsvarandi ábyrgð við 2. einingu íbúða aldraðra ofan Hnitbjarga eins og veitt var af Héraðsnefnd vegna 1. einingar á sínum tíma, en sú bygging er þegar að verða fokheld og á að verða tilbúin til íbúðar 15. okt. á næsta ári. Þeir Ófeigur Gestsson og Magnús Jónsson gerðu grein fyrir þessu máli, samkvæmt ósk þar um. Ábyrgðarbeiðnin var síðan borin undir atkvæði og samþykkt með 12 atkv. gegn 1 en tveir fundarmenn greiddu ekki atkvæði."
Á fundum Húsnæðismálastjórnar þann 4. apríl og 28. júní 1991 og 26. maí 1992 var samþykkt að veita lán sem hér segir: Þann 4. apríl 1990 til byggingar 4 félagslegra kaupleiguíbúða og 4 almennra kaupleiguíbúða. Þann 28. júní 1991 voru samþykktar lánveitingar til byggingar 2ja félagslegra og 2ja almennra kaupleiguíbúða. Þann 26. maí 1992 var aftur samþykkt að veita lán til byggingar 2ja félagslegra og 2ja almennra kaupleiguíbúða, alls 16 kaupleiguíbúðir. Lán þessi voru veitt Héraðsnefnd Austur-Húnvetninga en skv. lánssamningum sem síðar voru gerðir er lántaki í öllum tilvikum Félag eldri borgara Austur-Húnavatnssýslu og þeir undirritaðir af forsvarsmanni þess félags. Hins vegar bera þeir allir kennitölu Héraðsnefndarinnar. Ekki liggur fyrir hvernig Húsnæðisstofnun stóð að tilkynningu um þá ákvörðun sína að veita þessi lán.
Davía J. J. Guðmundsson heitin keypti íbúð nr. 2 að Flúðabakka 1. Hún fékk íbúðina, sem er félagsleg kaupleiguíbúð, afhenta 26. október 2001 en afsal var gefið út af Félagi eldri borgara 2. apríl 1992. Davía sem sat í óskiptu búi lést þann 17. janúar 1999. Erfingjar hennar snéru sér til Félags eldri borgara í þeim tilgangi að fá eignarhlut búsins í íbúðinni greiddan. Þegar félagið greiddi ekki snéru erfingjar sér til stefnda sem hafnaði greiðsluskyldu sinni.
III.
Framburður fyrir dómi.
Við aðalmeðferð málsins lýstu lögmenn aðila því yfir að þeir legðu til grundvallar framburð þeirra, Torfa Jónssonar, Magnúsar B. Jónssonar og Valgarðs Hilmarssonar sem þeir gáfu fyrir sama dómara í máli nr. E-45/1999 en það mál varðaði um felst sama ágreiningsefni og hér er til úrlausnar og staðfestu þeir allir að úrdráttur sem rakinn er í nefndu máli sé rétt eftir þeim hafður.
Vitnið Ófeigur Gestsson, var bæjarstjóri Blönduóssbæjar frá 1. september 1988 til 1. ágúst 1994 og framkvæmdastjóri stefnda frá september 1994 til júlíloka 1997. Vitnið bar að tæknifræðingur bæjarins hafi haft umsjón með framvindu bygginga þeirra sem um ræðir. Reikningar hafi verið greiddir af sérstökum reikningi eftir því sem greiðslur bárust frá Húsnæðisstofnun. Vitnið sagði að sami háttur hafi verið hafður á við íbúðir aldraðra og aðrar félagslegar íbúðir. Húsnæðisstofnun hafi lánað fé á víxli til þriggja mánaða sem síðan hafi verið greiddur þegar nýir eigendur tóku við íbúðunum. Vitnið sagði sveitarfélögin hafa átt leiguíbúðir að Hnitbjörgum og eignaríbúðir á Skagaströnd og að auki heimili við dvalarheimilið svo og dvalarheimilið Sæborg. Þessar íbúðir aldraðra hafi síðan bæst við sem enn einn valkostur við þá þjónustu sem sveitarfélögin veittu. Það hafi verið í hans verkahring sem starfsmanns Héraðsnefndarinnar að halda utan um þennan pakka. Félag eldri borgara hafi auglýst íbúðirnar og komið þeim í leigu og ráðstafað þeim. Þegar íbúð losnaði hafði Félag eldri borgara haft milligöngu og bæjarskrifstofan reiknaði út hlut aðila og sendi gögn til Húsnæðisstofnunar. Síðan hafi Félag eldri borgara og hann komið greiðslum til þess sem seldi og komið nýjum kaupendum að þegar það átti við. Vitnið sagði að Héraðsnefndarmönnum hafi verið kunnugt um þessa hluti. Vitnið sagði að ekki hafi verið rætt sérstaklega hvort Héraðsnefnd bæri ábyrgð á íbúðunum fyrr en enginn fannst kaupandinn. Þá hafi þurft að greiða bráðabirgðalán og menn þá velt því fyrir sér hver átti að gera það. Vitnið sagði að fram hafi komið á einhverjum fundi að þetta snerti Héraðsnefndina ekki heldur eingöngu Félag eldri borgara.
Herdís Einarsdóttir dóttir Davíu J.J. Guðmundsson kvaðst hafa skilað íbúð móður sinnar til Torfa Jónssonar, formanns Félags eldri borgara og hann hafi tjáð henni að eignarhluti móður hennar yrði greiddur innan fárra mánaða en þegar ekkert gerðist hafi hún snúið sér til Héraðsnefndar og óskað eftir greiðslu en ekki fengið nein svör. Síðar hafi hún rætt við Magnús Jónsson formann nefndarinnar og hann hafi þá tjáð henni að samningar væru í gangi varðandi þessar íbúðir.
Vitnið Torfi Jónsson, fyrrverandi formaður stefnda Félags eldri borgara Austur-Húnavatnssýslu bar að það hafi verið á fundi Héraðsnefndar sem upp kom að nauðsynlegt væri að byggja íbúðir fyrir aldraða. Nefnd hafi verið kosin til að skoða málið. Í framhaldi af því hafi verið ákveðið að byggja 8 íbúðir. Greiðlega hafi gengið að fá lán til framkvæmdanna hjá Húsnæðisstofnun. Héraðsnefndin hafi gengist í bakábyrgðir en að sögn vitnisins var það Héraðsnefndin sem stuðlaði að málinu. Vitnið kvaðst hafa ritað undir lánsumsókn til Húsnæðisstofnunar ríkisins ásamt formanni Héraðsnefndarinnar.
Vitnið kvaðst ekki muna hvers vegna umsókn um lán var send Húsnæðisstofnun áður en Félag eldri borgara var stofnað en þó hafi legið fyrir að umsóknin þurfti að berast stofnuninni fyrir ákveðinn dag. Hann sagði að hann og Valgarður Hilmarsson þáverandi formaður Héraðsnefndarinnar hafi gert umsóknina og Sigurður Guðmundsson og einn starfsmaður hjá Húsnæðisstofnun að auki hafi komið að málinu fyrir hönd stofnunarinnar.
Vitnið sagði að allir reikningar vegna byggingarinnar hafi verið greiddir með lánum frá Húsnæðisstofnun. Aðspurt kvaðst vitnið ekki muna hver sótti um lóð fyrir íbúðirnar en lóðasamningur hafi verið gefinn út til Félags eldri borgara. Vitnið kvaðst ekki muna hvenær félagið var stofnað en allt málið hafi gengið hratt fyrir sig. Aðspurt kvaðst vitnið ekki vita hvers vegna kennitala Héraðsnefndar er notuð á 6 lánssamninga sem gerðir voru vegna byggingarinnar. Þetta atriði hafi ekki komið til umfjöllunar þegar samningarnir voru gerðir og hann ekki veitt þessu athygli. Vitnið kvaðst hafa ritað undir yfirlýsingar sem gefnar voru út samhliða lánunum. Vitnið sagðist ekki halda að til hafi staðið að Héraðsnefnd skrifaði undir þessi skjöl. Aðspurt kvaðst vitnið ekki muna hvort til hafi staðið að Félag eldri borgara reyndi að fá staðfestingu félagsmálaráðuneytis til að geta talist framkvæmdaraðili í skilningi laga um Húsnæðisstofnun.
Valgarður Hilmarsson oddviti Engihlíðarhrepps var oddviti Héraðsnefndar frá stofnun hennar og þar til í byrjun þessa kjörtímabils. Hann kvaðst hafa kynnt sér samdrátt á framburði sínum í fyrri dómi héraðsdóms og að sá samdráttur væri réttur. Hann taldi þó að undirskrift hans á umsókn um upphaflegt lán sé til komin þannig að eindagi á umsókn hafi verið 1. október og það hafi legið á að koma umsókninni inn og hann því sennilega skrifað undir umsóknina þó samþykki Héraðsnefndar lægi ekki fyrir. Talið hafi verið að hægt væri að draga umsóknina til baka áður en lán yrði tekið ef því væri að skipta.
Valgarður kvaðst hafa verið einn þeirra sem unnu að stofnun Héraðsnefndarinnar og hann hafi komið að gerð þess samnings sem Héraðsnefndin starfar eftir. Valgarður sagði að í þeim samningi komi fram hver verkefni Héraðs-nefndarinnar séu en ef ný verkefni eigi að bætast við skuli þau fara fyrir tvo fundi. Ef um meiriháttar verkefni sé að ræða þurfi þau samþykki 2/3 hluta nefndarmanna. Hann taldi að sveitarfélögin sem mynda nefndina séu bundin af samþykktum hennar. Valgarður bar að við gerð samningsins um Héraðsnefndina hafi verið ákveðið hvaða verkefni heyrðu undir nefndina m.a. verkefni varðandi málefni aldraðra. Valgarður sagði að verkefnum Héraðsnefndar í málefnum aldraðra sé tæmandi lýst í samningi sem gerður var 10. desember 1990. Á þeim tíma hafi bygging íbúðanna á Flúðabakka staðið yfir en þar sem þær hafi ekki verið meðal verkefna Héraðsnefndar hafi þeirra ekki verið getið í samningi þessum. Hann kvað Héraðsnefndina ekki hafa haft beina forgöngu um stofnun Félags eldri borgara en Héraðsnefndin hafi látið málið til sín taka með því að skipa nefnd til að gera úttekt á stöðu húsnæðismála aldraðra í héraðinu og gera tillögur um úrbætur ef þörf væri. Sú nefnd hafi lagt til að Félag eldri borgara færi í þessa framkvæmd en að öðru leyti hafi Héraðsnefndin ekki haft afskipti af málinu. Aldrei hafi verið teknar ákvarðanir um að Héraðsnefndin væri framkvæmdaraðili að byggingunum ef Héraðsnefndin hafi ætlað sér það hefði Félagi eldri borgara ekki verið blandað í málið. Valgarður kvaðst ekki vita hver útbjó lánsumsókn til Húsnæðisstofnunar en taldi líklegt að það hafi formaður Félags eldri borgara gert í samráði við ráðgjafa hjá Húsnæðisstofnun. Hann kvað Húsnæðisstofnun ekki hafa haft neitt samband við Héraðsnefndina vegna ábyrgða sem Héraðsnefndin hafði samþykkt að veittar yrðu með skilyrðum. Nefndinni hafi ekki borist nein bréf frá Húsnæðisstofnun og lánssamningar sem gerðir voru vegna íbúðanna hafi ekki komið til umfjöllunar hjá Héraðsnefndinni. Hann kvaðst ekki vita hvort Félag eldri borgara hafi ætlað að sækja um staðfestingu til að geta talist framkvæmdaraðili í skilningi húsnæðislaga en þetta hafi ekki komið til umræðu í Héraðsnefnd og aldrei hafi staðið til að nefndin yrði slíkur framkvæmdaraðili. Þessi hugmynd hafi hugsanlega verið uppi í undirbúningsnefndinni en eftir að Félag eldri borgara var stofnað hafi slíkt ekki staðið til.
Valgarður sagðist ekki geta skýrt út hvers vegna kennitala Héraðsnefndar sé notuð á lánssamninga frá Húsnæðisstofnun til Félags eldri borgara. Kvaðst hann ekki vita til að Héraðsnefnd hafi lánað kennitölu sína í þessum tilgangi enda sé henni það væntanlega óheimilt.
Valgarður skýrði frá því að Héraðsnefndin hafi gengist í bakábyrgð til byggingar 8 íbúða og með því hafi nefndin ábyrgst lánið á meðan á byggingarframkvæmdum stóð þar sem ekki var hægt að veita fasteignaveð fyrir láninu. Hefði hér verið um ábyrgð til lengri tíma að ræða hefði það talist meiriháttar ákvörðum og þurft meðferð í nefndinni í samræmi við það. Hann sagði að héraðsráð hafi ekki gert sérstakan samning við Félag eldri borgara vegna þessa. Síðar hafi Héraðsnefndin samþykkt samskonar heimild til byggingar annarra 8 íbúða og sagði Valgarður þá ábyrgð háða sömu skilyrðum og sú fyrri.
Að sögn Valgarðs sá byggingarnefndin um byggingu húsanna og hún hafi gengið frá samningum við verktaka. Nefndin hafi borið ábyrgð á framkvæmdunum í umboði Félags eldri borgara. Sérstakur bankareikningur hafi verið stofnaður vegna þessa og gjaldkeri Blönduóssbæjar hafi, með samþykki bæjarins, séð um greiðslu reikninga. Héraðsnefndin hafi ekki haft frumkvæði að stofnun byggingarnefndarinnar en tilnefnt mann í nefndina að ósk Félags eldri borgara en hann telur að sá einstaklingur hafi ekki verið fulltrúi Héraðsnefndar heldur hafi hann verið tilnefndur sem einstaklingur með þekkingu á málum sem þessu. Héraðsnefndin hafi ekki komið að uppgjöri vegna byggingarinnar, útgáfu afsala, gerð reglna fyrir eigendur eða gerð eignaskiptayfirlýsingar. Kvað hann framkvæmdastjóra Héraðsnefndar hafa komið að innlausn vegna ákveðinna íbúða og framkvæmdastjórinn hafi eitthvað aðstoðað Félag eldri borgara í þessum efnum. Hins vegar hafi héraðsráð, þegar það fékk upplýsingar um þessa aðstoð, greint framkvæmdastjóra frá því að þetta væri hann að gera á eigin ábyrgð en ekki fyrir hönd Héraðsnefndarinnar. Valgarður greindi frá því að Héraðsnefnd hafi átt viðræður við Húsnæðisstofnun vegna þess vanda sem er til staðar vegna íbúðanna. Héraðsnefnd hafi ákveðið að leita lausna á málinu vegna skyldna sinna við íbúa svæðisins. Það hafi hins vegar ekki verið gert vegna þess að Héraðsnefndinni bæri skylda til að leysa málið. Aðspurður um lán til Félags eldri borgara samtals að fjárhæð rúmlega 2.000.000 króna kvað hann lánið þannig til komið að fyrsta upphæðin hafi verið lánuð af framkvæmdastjóra Héraðsnefndar án heimildar. Hin síðari hafi hins vegar verið samþykkt í Héraðsnefnd í desember 1997 þar sem ákveðið hafi verið að aðstoða félagið við að standa við sínar skuldbindingar gagnvart íbúðareigendum. Héraðsnefndin hafi talið að hér væri um bráðabirgðaástand að ræða og gert ráð fyrir að ástandið færi batnandi. Þessar fjárhæðir séu ógreiddar í dag og ljóst að félagið geti ekki endurgreitt þær.
Valgarður sagði að í upphafi hafi menn talið að rekstur íbúðanna myndi ganga nánast af sjálfu sér þar sem alltaf tæki nýr aðili við hverri íbúð fyrir sig og þanni:1.0cm;line-height: 150%'>Valgarður sagði að í upphafi hafi menn talið að rekstur íbúðanna myndi ganga nánast af sjálfu sér þar sem alltaf tæki g kæmi ekki til vandræða við rekstur þeirra.
Að mati Valgarðs er óeðlilegt að Húsnæðisstofnun ríkisins hafi talið að Héraðsnefndin væri að sækja um lán til bygginganna enda hafi fulltrúum stofnunarinnar verið fullkunnugt um hvernig staðið var að þessu máli.
Magnús Björn Jónsson sveitarstjóri hefur frá árinu 1990 verið í Héraðsnefnd og héraðsráði. Hann kvað verkefnum um málefni aldraðra tæmandi lýst í samningi sveitarfélaganna sem að Héraðsnefndinni standa eins og slík lýsing getur verið tæmandi. Samninginn sé ekki unnt að túlka með þeim hætti að íbúðir að Flúðabakka heyri undir hann. Hann kvað Héraðsnefndina aldrei hafa verið framkvæmdaraðila að byggingu íbúðanna. Hann kvað engin samskipti hafa verið milli Héraðsnefndar og Húsnæðisstofnunar eftir að Héraðsnefndin hafði samþykkt í tvígang ábyrgðar-yfirlýsingu vegna framkvæmdanna. Húsnæðisstofnun hafi ekki haft nein samskipti við Héraðsnefndina áður en til afgreiðslu lána kom og lánssamningar sem slíkir hafi ekki komið til umfjöllunar í Héraðsnefnd. Magnús sagðist ekki hafa litið á sig sem fulltrúa Héraðsnefndar í byggingarnefndinni heldur hafi hann starfað að sérstöku verkefni fyrir Félag eldri borgara. Verkefni nefndarinnar hafi verið að sjá um byggingu húss og að skila því til Félags eldri borgara. Bankareikningar sem stofnaðir voru vegna framkvæmdanna hafi verið í nafni Félags eldri borgara og ekki komið inn í reikninga Héraðsnefndar.
Magnús kvaðst ekki hafa tekið þátt í gerð þeirra gjörninga sem gerðir voru fyrir 1990 nema sem almennur sveitarstjórnarmaður en eftir að hann var tilnefndur í byggingarnefndina þekki hann málið vel. Hann kvaðst aldrei hafa farið með nein málefni byggingarnefndar inn til Héraðsnefndar. Hins vegar hafi hann, eftir að hann var kominn í Héraðsnefndina, svarað spurningum og upplýst um stöðu mála þar eftir því sem tilefni gafst til. Hann bar að honum sé ekki kunnugt um hvort Félag eldri borgara hafi ætlað að sækja um staðfestingu félagsmálaráðuneytis til að geta talist framkvæmdaraðili í skilningi húsnæðislaga. Þá kvaðst hann ekki geta skýrt hvers vegna kennitala Héraðsnefndar er á lánssamningunum, nema þessi kennitala hafi verið notuð í upphafi en þá hafi Félag eldri borgara sennilega ekki verið komið með kennitölu og þessi kennitala hafi síðan verið notuð áfram. Hann kannaðist ekki við að Héraðsnefnd hafi fengið tilkynningar vegna þessara lána. Þá kannaðist hann ekki við að önnur skjöl vegna þessara íbúða hafi komið á borð Héraðsnefndarinnar.
Hvað varðar bakábyrgðina þá kvaðst Magnús þekkja bókun um veitingu hennar en hann hafi verið kominn í Héraðsnefndina þegar síðari ábyrgðin var veitt. Hann kveðst alltaf hafa skilið þessa ábyrgð svo að hún næði til framkvæmdarlánsins meðan Félag eldri borgara hefði ekki eignir til að tryggja lánin. Í bókuninni sé gert ráð fyrir gerð samnings milli Félags eldri borgara og Héraðsnefndar en hann hafi ekki verið gerður. Mætti taldi að Héraðsnefnd og héraðsráð hafi litið svo á að ábyrgðin hafi fallið úr gildi þegar framkvæmdarlánunum var aflýst.
Magnús sagði Torfa Jónsson hafa verið formann byggingarnefndar en Guðbjartur Ólafsson verið gjaldkeri og eftirlitsmaður með byggingunni. Gjaldkeri Blönduóssbæjar hafi hins vegar farið með fjármálin. Öll pappírsvinna hafi verið unnin af byggingarnefndinni eða skrifstofu Blönduóssbæjar. Magnús ber að hann hafi ásamt hinum í byggingarnefndinni undirritað skjal er varðaði uppgjör og frágang á íbúðunum við Húsnæðisstofnun. Að sögn Magnúsar kom Héraðsnefndin ekki að útleigu íbúðanna, útreikningum við innlausn þeirra eða úttekt á þeim, um þessa þætti hafi Félag eldri borgara séð sennilega með aðstoð gjaldkera Blönduóssbæjar.
Að sögn Magnúsar hefur Héraðsnefnd haft samskipti við Húsnæðisstofnun, Íbúðarlánasjóð og félagsmálaráðuneyti í seinni tíð eftir að ljóst var að Félag eldri borgara gat ekki staðið við skuldbindingar sínar varðandi innlausn á íbúðum. Raunar hafi Félag eldri borgara vísað frá sér ákveðinni ábyrgð. Nokkrir fundir hafi verið haldnir í félagsmálaráðuneytinu með fulltrúum frá Húsnæðisstofnun og nú síðar Íbúðalánasjóðs til að athuga hvort Héraðsnefnd gæti leyst Félag eldri borgara frá skyldum sínum. Það hafi ekki fundist lausn á þessu vandamáli þrátt fyrir góðan vilja beggja aðila. Héraðsnefnd hafi komið að þessu máli því hún láti sig varða málefni aldraðra í héraðinu og auk þess hafi komið fram beiðni um það. Hins vegar líti nefndin ekki á þetta sem lögbundið hlutverk sitt. Félag eldri borgara hafi lítið komið að þessum viðræðum enda telji þeir að málið komi þeim lítið við. Á fundi Héraðsnefndar hafi hann kynnt tillögu Íbúðarlánasjóðs, um stofnun rekstrarfélags, til að leysa málið en nefndin hafi ekki verið tilbúin að ganga svo langt sem tillögur þessar gerðu ráð fyrir. Hins vegar liggi fyrir að Héraðsnefndin hafi fullan hug á að leysa málið þó það hafi ekki tekist enn.
Magnús kannaðist við að Héraðsnefnd hafi samþykkt að veita Félagi eldri borgara lán til að leysa vanda sem félagið var komið í og því hafi þessi skuld Félags eldri borgara við Héraðsnefndina stofnast og nú sé skuldin rúmar 2.000.000 króna. Ekki hafi verið gerður sérstakur samningur um þessi lán en hann viti ekki hvers vegna það var ekki gert en samstarf aðila hafi verið náið og sennilega legið fyrir að þessu láni yrði að breyta í styrk nema íbúðirnar færu að seljast.
Magnús kvaðst ekki geta skýrt hvers vegna reikningur frá Húsnæðisstofnun að fjárhæð 3.297.485 krónur vegn
Magnús kvaðst ekkia tæknivinnu við íbúðirnar er stílaður á Héraðsnefnd en ekki Félag eldri borgara. Hins vegar sé ljóst að þessi reikningur var greiddur af bankareikningi sem notaður var vegna bygginganna eins og allir reikningar sem tilheyrðu þessu verkefni.
IV.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir fyrst og fremst á því að stefndi hafi beitt sér fyrir stofnun Félags eldri borgara að fenginni jákvæðri umsögn nefndar sem stefndi hafði skipað til að skoða húsnæðismál aldraðra í héraðinu. Félag eldri borgara hafi ekki verið sterkt fjárhagslega og því verið einskonar undirnefnd Héraðsnefndar og því beri stefndi ábyrgð á þeim byggingarframkvæmdum sem Félag eldri borgara stóð í enda hafi Héraðsnefndin veitt bakábyrgð fyrir lánum til framkvæmdanna. Þá kveður hann Héraðsnefndina hafa innleyst fjórar aðrar samskonar íbúðir en nú sé innlausn hafnað og því haldið fram að starfsmaður nefndarinnar hafi farið út fyrir skyldur sínar við innlausn íbúðanna.
Stefnandi vísar í stefnu til samskonar máls og höfðað var fyrir þessum sama dómi á árinu 1999. Því lauk með dómi Hæstaréttar 9. nóvember 2000. Hefur stefnandi lagt fram dóm Hæstaréttar og dóm héraðsdóms og vísar hann til þeirra dóma í stefnu. Bendir hann á að í þessu máli sé kaupskylda framkvæmdaraðila ekki niður fallin þar sem hér sé um félagslega kaupleiguíbúð að ræða og þá sé kaupskylda á framkvæmdaraðila í 10 ár en í hinu málinu hafi Hæstiréttur sýknað stefnda þar sem kaupskylda framkvæmdaraðila á almennri kaupleiguíbúð vari einungis í fimm ár frá afhendingu íbúðar en sá tími hafi verið liðinn.
Stefnandi vísar til almennra reglna samninga- og kröfuréttar máli sínu til stuðnings. Þá byggir hann kröfu um málskostnað á 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun á lögum nr. 50/1988. Krafa um dráttarvexti er reist á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi byggir einkum á því að í stefnu sé ekki að finna vísan til neinna málsástæðna eða lagaraka máli stefnanda til stuðnings. Stefnandi hafi ekki bent á nein rök eða lagaákvæði sem leiði til þess að hann eigi kröfu á hendur stefnda. Í stefnu sé vísað til þess að málatilbúnaði verði gerð betri skil í greinargerð en slíkt samræmist ekki grundvallarreglum réttarfars sbr. lög nr. 91/1991 en þar komi fram í 80. gr. að málsástæður og lagarök skuli koma fram í stefnu.
Stefndi byggir á því að Félag eldri borgara hafi staðið að og borið ábyrgð á byggingu nefndra íbúða. Héraðsnefndin hafi einungis gengið í ábyrgð fyrir byggingarlánum sem fengin voru til byggingar íbúðanna en sú ábyrgð hafi fallið niður um leið og íbúðirnar voru orðnar veðhæfar. Þetta megi glögglega sjá í samþykkt Héraðsnefndarinnar varðandi lánin en þar sé talað um bakábyrgð fyrir lánum sem ætluð voru til byggingar íbúðanna. Stefndi hafi raunar þann 18. desember 1989 heimilað héraðsráði að veita Félagi eldri borgara bakábyrgð til bygginga 8 íbúða enda yrði gerður um það sérstakur samningur milli stefnda og félagsins. Þannig hafi heimildin verið skilyrt, það hafi átt að gera samning um ábyrgðina, ábyrgðin hafi náð til byggingar 8 íbúða og ábyrgðin hafi verið einföld. Það sjáist hins vegar ekki í gögnum málsins að eitthvert þessara þriggja skilyrða hafi verið uppfyllt. Þrátt fyrir þetta veitti Húsnæðisstofnun Félagi eldri borgara framkvæmdalán vegna allra íbúðanna án þess að ganga eftir bakábyrgð stefnda. Á þessum mistökum Húsnæðis-stofnunar geti stefndi ekki borið ábyrgð. Af þessu megi sjá að Héraðsnefndin beri ekki ábyrgð á fjárskuldbindingum þeim sem Félag eldri borgara kann að hafa stofnað til með byggingum íbúða fyrir aldraða í sýslunni.
Stefndi heldur því einnig fram að þó litið verði svo á að bakábyrgð hafi stofnast hafi hún fallið niður þegar íbúðirnar voru orðnar veðhæfar enda hafi ábyrgðin takmarkast við byggingartímann eingöngu.
Stefndi telur að Félag eldri borgara hafi ætlað sér að fá staðfestingu félagsmálaráðherra sem framkvæmdar- og umsýsluaðili verksins en sú staðfesting hafi einhverra hluta vegna ekki fengist. Á mistökum þessum beri Félag eldri borgara, Húsnæðisstofnun og félagsmálaráðherra ábyrgð en ekki Héraðsnefndin. Þessi skilningur fái stoð í 30. gr. laga nr. 86/1988 um Húsnæðisstofnun ríkisins, sbr. 53. gr. eldri laga nr. 70/1990 sem geri ráð fyrir að félagasamtök geti verið sjálfstæðir framkvæmdaaðilar í skilningi laganna. Fram komi einnig að ef stofnuð séu félög um byggingu félagslegra íbúða þá hvíli fjárhagsleg ábyrgð vegna íbúðanna á því félagi en ekki sveitarfélaginu. Með hliðsjón af þessu sé augljóst að ábyrgð vegna íbúðanna falli ekki sjálfkrafa á sveitarfélagið. Til að ábyrgðin falli á sveitarfélagið verði að vera til staðar lagaheimild og/eða skýr og ótvíræður samningur milli aðila en hvorugt hafi verið fyrir hendi í þessu máli. Fyrir liggi að hvorki Héraðsnefndin eða þau sveitarfélög sem að henni standa hafi samþykkt að gerast aðilar að því íbúðafyrirkomulagi sem Félag eldri borgara stofnaði til á sínum tíma. Ábyrgð og greiðsluskylda verði því ekki lögð á Héraðsnefndina nema með ótvíræðu samþykki hennar.
Þá er á því byggt að Héraðsnefndin hafi ekki komið með neinum hætti að setningu reglna eða reglugerðar um téðar íbúðir en algengt sé að frá slíkum reglum sé gengið af þeim aðilum sem hlut eigi að máli áður en framkvæmdir hefjist. Héraðsnefndin hafi heldur ekki haft nein afskipti af íbúðunum, úthlutun eða endurúthlutun þeirra eða skjalagerð varðandi þær. Slík umsýsla hafi verið í höndum Félags eldri borgara. Það félag hafi verið upphaflegur eigandi að íbúð stefnanda og handhafi lóðaleigusamnings og þá hafi félagið undirritað eignaskiptasamning vegna Flúðabakka 1. Sama megi segja um undirritun yfirlýsingar um að eignin sé háð ákvæðum laga um Húsnæðisstofnun. Stefnandi hafi fengið afsal frá Félagi eldri borgara. Þegar stefnandi keypti íbúðina hafi ekkert annað verið gefið til kynna en að Félag eldri borgara hefði alfarið með hana að gera. Af hálfu stefnda er því haldið fram að stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn sem leiði til þess að honum beri að endurgreiða eignarhluta stefnanda. Héraðsnefndin hafi aldrei lýst því að hún bæri ábyrgð á íbúðunum í skilning þágildandi laga um Húsnæðisstofnun nr. 86/1986.
Stefndi heldur því fram að stefnandi virðist byggja kröfugerð sína á hendur stefndu að Héraðsnefndin beri ábyrgð á fjárhagslegum ákvörðunum og skuldbindingum Félags eldri borgara. Rétt sé að sveitarfélög geti borið slíkar skyldur og ábyrgð, hafi til þeirra verið stofnað með réttum og lögformlegum hætti. Í þessu máli finnist engin gögn, samningar, yfirlýsingar eða annað er sýni fram á að Héraðsnefndin hafi gengist í framtíðarábyrgð á títtnefndum íbúðum. Fyrir stofnun slíkrar ábyrgðar á grundvelli laga nr. 97/1993, eldri laga eða reglna, beri stefnandi sönnunarbyrgði.
Héraðsnefnd byggir og á því, að horfa verði til þess að stefnandi gekk endanlega frá kaupum sínum árið 1992. Á þeim tíma hafi honum borið að kynna sér alla þætti varðandi félagsfyrirkomulag það sem hann gerðist þátttakandi í, varðandi rekstur íbúðanna, kostnað og innlausn ef hún var sögð vera fyrir hendi. Með fyrirspurn til stefnda hefði hið rétta komið í ljós. Stefnandi beri sönnunarbyrgðina fyrir því að honum hafi ekki frá upphafi verið kunnugt um þessi atriði.
Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi ekki látið reyna á greiðslugetu Félags eldri borgara. Ef fella eigi ábyrgð á hann verði að liggja fyrir að Félag eldri borgara geti ekki innleyst íbúðina því ábyrgð á innlausn sé ekki solidarisk. Ábyrgð Héraðsnefndar hafi í öllu falli tekið mið af 89. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga sem bannaði sjálfskuldarábyrgð sveitarsjóðs á skuldbindingum annarra aðila en stofnana sveitarfélagsins. Sveitarstjórn geti veitt einfalda ábyrgð til annarra gegn tryggingum sem hún metur gildar. Sömu reglur eiga við um stefnda en Félag eldri borgara verði ekki talið til stofnana sveitarfélaganna sem að stefnda standa.
Hvað lagarök varðar vísar stefndi til þeirra ákvæða sem þegar hafa verið rakin og einnig almennt til ákvæða laga nr. 44/1998 um húsnæðismál.
Krafa um málskostnað er reist á 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 19/1991. Krafa um virðisaukaskatt er byggð á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt en stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur.
V.
Niðurstaða.
Þegar mál þetta var höfðað hafði gengið áðurnefndur dómur í mjög líku máli bæði í þessum dómi og Hæstarétti Íslands. Stefndi hefur krafist sýknu vegna vanreifunar málsins eins og rakið er í kafla um málsástæður og lagarök hans. Vanreifun máls leiðir aftur á móti til frávísunar en ekki sýknu. Fallast verður á með stefnda að málið sé ekki í þeim búningi sem ákvæði 80. gr. laga um meðferð einkamála krefjast. Stefnandi lagði fram greinargerð með stefnu og er það andstætt ákvæðum e. liðar nefndrar 80. gr. en málsástæður og lagarök skulu koma fram í stefnu og ekki er gert ráð fyrir greinargerð af hálfu stefnanda. Hins vegar ber að horfa til þess að greinargerðin var lögð fram við þingfestingu málsins samhliða stefnu. Í stefnu er þess skilmerkilega getið að málið sé sambærilegt máli nr. E-45/1999 sem áður er getið. Meðal þeirra gagna sem stefndi lagði fram voru dómar Héraðsdóms Norðurlands vestra og dómur Hæstaréttar í nefndu máli og má ráða að stefnandi byggir kröfur sínar á sömu rökum og fram komu í hinu eldra máli. Það er mat réttarins að málið sé ekki svo illa úr garði gert að vísa beri því frá dómi án kröfu en ekki hefur komið fram krafa um frávísun. Verða málsástæður stefnanda þess efnis að stefndi sé raunverulegur framkvæmdaaðili að byggingu íbúðanna sem bakhjarl og fjárhagslegur ábyrgðaraðili Félags eldri borgara sem hafi einungis verið undirnefnd hjá stefnda teknar til efnislegrar umfjöllunar.
Af gögnum málsins má ráða að Héraðsnefndin hefur frá fyrstu tíð fylgst með málinu og látið það til sín taka. Héraðsnefndin lét kanna þörf á íbúðum eins og þeirri sem hér er um fjallað og skipaði nefnd í þeim tilgangi. Þá má og sjá að oddviti Héraðsnefndarinnar skrifaði undir lánsumsóknina áður en Félag eldri borgara var stofnað. Héraðsnefndinni var af stjórn Húsnæðisstofnunar veitt lán úr byggingarsjóði verkamanna og má ætla að nefndinni hafi borist tilkynningar um það þó þær liggi ekki fyrir í málinu. Óumdeilt er að Héraðsnefndin reyndi að leysa þann fjárhagsvanda sem rekstur íbúðanna var kominn í með því að greiða yfir 2 milljónir króna vegna innlausnar annarra íbúða. Vitnið Torfi Jónsson kvað Félag eldri borgara ekki hafa sótt um neitt lán til Héraðsnefndar í þessu sambandi og kannaðist ekki við að hafa skrifað undir neinn lánssamning vegna þessa. Hins vegar færði Héraðsnefndin þessar greiðslur sem lán til Félags eldri borgara í sínum bókum. Þá liggur frammi í málinu bókun vegna fundar sem haldinn var þann 9. september 1997. Þennan fund sátu Magnús Jónsson og Valgarður Hilmarsson báðir í Héraðsnefndinni og formaður Félags eldri borgara Torfi Jónsson. Á fundinum fjalla þeir um hlutverkaskiptingu við umfjöllun og afgreiðslu á íbúðunum. Þar kemur fram að Félag eldri borgara annaðist sem eigendur/ábyrgðaraðilar úthlutun íbúða og útvegun fjármagns til innlausnar/rekstara. Þá segir að Héraðsnefnd verði bakhjarl Félags eldri borgara í fjármálum og taki afstöðu til hugsanlegar fjárhagsaðstoðar vegna íbúðanna á haustfundi ef eftir er leitað. Með vísan til þessarar bókunar verður ekki annað ráðið en að formaður Félags eldri borgara á þessum tíma, Torfi Jónsson, hafi talið félagið eiganda og ábyrgðaraðila að íbúðunum. Þá verður að skilja afstöðu Héraðsnefndarmanna þannig að þeir séu tilbúnir að aðstoða félagið og vera bakhjarl þess í fjármálum. Þennan skilning lögðu Magnús Jónsson og Valgarður Hilmarsson einnig í málið er þeir báru báðir, vegna samningaviðræðna við Íbúðarlánasjóð, að Héraðsnefndin hafi viljað, umfram skyldu, leita leiða til að leysa vanda þann sem Félag eldri borgara var komið í vegna íbúðanna. Eins og máli þessu er háttað verður að leggja þennan framburð þeirra til grundvallar. Þessu til frekari stuðnings má benda á að þegar stefndi tilnefndi mann í byggingarnefnd var tekið fram að tilnefnt væri í byggingarnefnd vegna byggingar íbúða á vegum Félags eldri borgara í A-Hún.
Í aðilaskýrslum þeirra Magnúsar Jónssonar og Valgarðs Hilmarssonar kom fram að bakábyrgð hafi verið veitt
Í aðilaskýrslum þe fyrir lánunum til þess að af framkvæmdum gæti orðið. Í 2. mgr. 74. gr. laga nr. 86/1988 sem í gildi voru þegar ábyrgðin var veitt sagði að framkvæmdirnar sjálfar skuli standa til tryggingar veittu framkvæmdarláni á hverjum tíma. Ekki verður séð að stjórn Húsnæðisstofnunar hafi sett reglur um frekari tryggingar þó það hafi verið heimilt samkvæmt ákvæðum sömu greinar. Verður því ekki annað ráðið en að samþykkt Héraðsnefndar um bakábyrgð hafi í raun verið óþörf ef hún átti einungis að taka til framkvæmdarlánanna. Ekki verður fullyrt að með samþykkt sinni hafi Héraðsnefndin axlað meiri ábyrgð en þá sem aðilar lýstu í skýrslum sínum en engin gögn hafa verið lögð fram um annað. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að stefndi hefi innleyst fjórar íbúðir eins og hann heldur fram í stefnu en stefndi hefur aftur á móti lagt fram gögn um að Félag eldri borgara hafi innleyst þessar íbúðir.
Fram kom í niðurstöðukafla hins fyrra máls að það væri um margt sérstakt sökum þess hversu illa hefur gengið að upplýsa mikilvæg atriði varðandi það. Úr þessu hefur lítið verið bætt undir rekstri þessa máls þannig er enn óupplýst hvort Félag eldri borgara sótti um staðfestingu félagsmálaráðherra til að teljast framkvæmdaraðili að verkinu og ef svo var hvers vegna slík staðfesting fékkst ekki. Félagið hefði þurft staðfestingu félagsmálaráðherra til að geta talist slíkur aðili sbr. 3. mgr. 30. gr. þágildandi laga um Húsnæðisstofnun ríkisins nr. 86/1988. Ekki liggur fyrir hvers vegna stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins samþykkti að veita Héraðsnefnd lán en samkvæmt lánssamningum er það Félag eldri borgara sem er lántaki en kennitala Héraðsnefndar er notuð á alla lánssamningana
Sérstök ástæða var fyrir stefnanda að reyna að upplýsa hvernig á því stóð að Húsnæðisstofnun veitti lán til byggingar íbúðanna ef vafi lék á hver væri raunverulegur framkvæmdaraðili að byggingu þeirra. Í upphaflegri lánsumsókn er sótt um lán til byggingu 30 íbúða og þar kemur fram eins og rakið er í málavaxtalýsingu að sveitarfélag/framkvæmdaaðili sé Héraðsnefnd Austur Hún/Félag aldraðra Austur Hún. Öll lán eru hins vegar veitt Félagi eldri borgara en ekki stefnda. Af þessum upplýsingaskorti verður stefnandi að bera hallann en augljóslega var tilefni fyrir hann að reyna ganga úr skugga um þetta enda hvílir kaupskyldan á framkvæmdaaðilanum í 10 ár frá afhendingu íbúðar, sbr. 83. gr. laga nr. 97/1993 sbr. lög nr. 58/1995.
Í málinu liggur fyrir að það var Félag eldri borgara sem var upphaflegur eigandi íbúðanna að Flúðabakka og handhafi lóðarleigusamnings. Eignaskipta-samningur var undirritaður af Félagi eldri borgara. Yfirlýsing um að eignin væri háð ákvæðum laga um Húsnæðisstofnun var undirrituð af Félagi eldri borgara. Félag eldri borgara setti reglur um íbúðirnar, sá um innlausn og endurúthlutun þeirra. Þá liggur og fyrir að stefnandi fékk afsal fyrir íbúð sinni útgefið af Félagi eldri borgara. Samkvæmt þessu virðist, á þeim tíma sem stefnandi kaupir eignina, ekkert hafa gefið þeim til kynna annað en að Félag eldri borgara hefði alfarið með þessar íbúðir að gera. Stefnandi hefur ekki lagt fram nein gögn þess efnis að hann hafi fengið upplýsingar um að Héraðsnefndin væri ábyrg fyrir innlausn á íbúð hans. Þá liggur heldur ekki neitt fyrir um að Héraðsnefndin hafi almennt lýst því yfir að hún bæri ábyrgð á þessum byggingum í skilningi laga um Húsnæðisstofnun ríkisins nr. 86/1986 eða síðari laga sem komið hafa í stað þeirra. Áður er rakin bókun vegna fundar vitnisins Torfa Jónssonar, Valgarðs Hilmarssonar og Magnúsar Jónssonar þar sem fram kemur að Félag eldri borgara sé eigandi og ábyrgðaraðili að íbúðunum.
Þegar allt þetta er virt telur dómurinn að stefnanda hafi ekki tekist að sanna að Héraðsnefnd Austur-Húnvetninga beri skylda, sem framkvæmdaraðila að byggingu íbúðar stefnda, til að endurgreiða honum eignarhlut hans í íbúð nr. 2 að Flúðabakka 1, Blönduósi, verður stefndi því sýknaður af kröfum stefnanda í máli þessu.
Eins og mál þetta er vaxið þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Halldór Halldórsson, dómstjóri kveður upp dóm þennan. Dómsuppsaga hefur dregist vegna anna dómarans en sakflytjendur hafa skriflega lýst því yfir að þeir telji ekki þörf á endurflutningi málsins.
DÓMSORÐ.
Stefndi Héraðsnefnd Austur-Húnvetninga er sýknuð af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.