Hæstiréttur íslands
Mál nr. 248/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Laun
- Réttindaröð
|
|
Miðvikudaginn 15. apríl 2015. |
|
Nr. 248/2015.
|
Rúnar Már Sigurvinsson (Oddgeir Einarsson hrl.) gegn þrotabúi Marmetis ehf. (Elvar Örn Unnsteinsson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Laun. Réttindaröð.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu R um að launakrafa hans yrði viðurkennd sem forgangskrafa í þrotabú M ehf. samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, kom fram að ljóst væri að R hefði verið ráðinn til starfa sem framkvæmdastjóri hjá fyrirtækinu M ehf. Engar haldbærar sannanir hefðu verið færðar fram um að R hefði í raun ekki stýrt daglegum rekstri félagsins. Framburður R um að enginn hefði verið yfir hann settur í fyrirtækinu, eigandi þess hefði stórum hluta árs dvalið erlendis og hann hefði komið fram út á við sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins þótti allt renna stoðum undir það að starf hans hefði verið þess eðlis að 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 tæki til þess. Var krafan því viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. mars 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. mars 2015 þar sem kröfu sóknaraðila var skipað í réttindaröð við gjaldþrotaskipti varnaraðila sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að áðurgreindri kröfu verði skipað í réttindaröð við skiptin sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar, en til vara að kærumálskostnaður falli niður.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Rúnar Már Sigurvinsson, greiði varnaraðila, þrotabúi Marmetis ehf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. mars 2015.
I.
Með bréfi skiptastjóra þrotabús Marmetis ehf., dagsettu 4. desember 2014, sem barst dóminum 8. sama mánaðar, var ágreiningsefni máls þessa skotið til úrlausnar dómsins. Málið var þingfest 8. janúar 2015 og tekið til úrskurðar 2. mars 2015.
Sóknaraðili er Rúnar Már Sigurðsson, kt. [...], Miðgarði 9, Reykjanesbæ.
Varnaraðili er þrotabú Marmetis ehf., kt. 580512-0380, Skólavörðustíg 12, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að launakrafa hans að fjárhæð 8.996.894 krónur verði viðurkennd sem forgangskrafa í þrotabúið. Þá krefst sóknaraðili þess að varnaraðila verði gert að greiða honum málskostnað að mati dómsins.
Varnaraðili krefst þess að staðfest verði ákvörðun skiptastjóra um að hafna kröfu sóknaraðila sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og að hún hljóti stöðu sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. sömu laga.
Þá krefst varnaraðili þess að honum verði tildæmdur málskostnaður að mati dómsins að teknu tilliti til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
II.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness hinn 18. febrúar 2014 var bú Marmetis ehf., kt. 580512-0380, tekið til gjaldþrotaskipta. Þann sama dag var Elvar Örn Unnsteinsson hrl. skipaður skiptastjóri í búinu.
Á kröfulýsingatímabilinu lýsti sóknaraðili launakröfu í búið að fjárhæð 9.071.894 krónur. Kröfunni var lýst sem forgangskröfu í þrotabúið samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 110. gr. (á að vera 112. gr.) laga 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. vegna höfuðstóls og dráttarvaxta að fjárhæð 8.996.894 krónur, en sem eftirstæðri kröfu samkvæmt 114. gr. sömu laga vegna kröfulýsingarkostnaðar að fjárhæð 75.000 krónur, auk kostnaðar sem síðar kynni að falla til af innheimtu kröfunnar. Krafan byggðist á meðfylgjandi ráðningarsamningi og launaseðlum og er vegna ógreiddra launa fyrir tímbilið 24. nóvember 2013 til 28. febrúar 2014, auk launa í sex mánaða uppsagnarfresti. Krafan fékk númerið 63 á kröfuskrá í þrotabúinu.
Í bréfi skiptastjóra til dómsins segir að þau mistök hafi orðið við gerð upphaflegrar kröfuskrár að afstaða skiptastjóra til kröfunnar hafi verið færð í rangan dálk þrátt fyrir að vera merkt sem krafa flutt á milli flokka. Um leið og þessi mistök hafi uppgötvast hafi lögmanni sóknaraðila verið tilkynnt um mistökin og ítrekað að krafan væri einungis samþykkt sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. gjaldþrotaskiptalaga að fjárhæð 8.743.627 krónur með vísan til ráðningarsamnings sóknaraðila og lokamálsgreinar 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Samkvæmt ráðningarsamningnum, samanber og launakjör sóknaraðila, hafi hann verið ráðinn sem framkvæmdastjóri hins gjaldþrota félags og starfað sem slíkur.
Lögmaður sóknaraðila mótmælti þessari afstöðu skiptastjóra með bréfi 4. júní 2014 á þeim grundvelli að sóknaraðili hefði í raun aldrei starfað sem framkvæmdastjóri, enda aldrei verið skráður sem slíkur hjá fyrirtækjaskrá eða haft með höndum nein þau verkefni er lúti að verksviði framkvæmdastjóra í tengslum við daglegan rekstur og þess háttar. Ekki hafi tekist á síðari stigum að leysa úr framangreindum ágreiningi og hafi því verið ákveðið að bera hann undir héraðsdóm.
Í bréfi skiptastjóra segir að ágreiningur skiptastjóra og lögmanns sóknaraðila varði það hvort sóknaraðili hafi gegnt starfi framkvæmdarstjóra hjá Marmeti ehf. og falli þar með undir ákvæði 3. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
Sóknaraðili kveður málavexti vera þá, þ.e. áður en bú varnaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta, að eigandi Marmetis ehf. hafi haft samband við sóknaraðila í upphafi ársins 2013 og boðið honum starf sem framkvæmdastjóri hjá félaginu. Í janúar það sama ár hafi sóknaraðili ritað undir ráðningarsamning um starf framkvæmdastjóra hjá Marmeti ehf. frá 1. febrúar 2013. Undir ráðningarsamninginn hafi ritað fyrir hönd félagsins eigandi þess og eini stjórnarmaður, Örn Erlingsson. Allt fram að gjaldþrotameðferð félagsins hafi hvorki orðið breytingar á skipan stjórnar né hafi félagið skipt um eigendur.
Fljótlega hafi komið í ljós að sóknaraðila hafi ekki verið ætlað nokkurt umboð sem framkvæmdastjóri félagsins þrátt fyrir orðalag í ráðningarsamningi á milli aðila. Ekki hafi staðið til að skrá sóknaraðila sem framkvæmdastjóra eða prókúruhafa félagsins. Hafi honum fljótlega verið tilkynnt af eiganda félagsins að sóknaraðili hefði ekki heimild til að skuldbinda félagið að neinu leyti. Í ljósi þessa hafi orðið úr að sóknaraðili starfaði hjá varnaraðila sem rekstrarstjóri en ekki framkvæmdastjóri. Rekstrarstjóri hafi aldrei haft nokkurt boðvald yfir starfsmönnum félagsins og því jafnframt enga stjórnarspönn innan félagsins.
Sóknaraðili kveðst ekki hafa átt eignarhlut í félaginu Marmeti ehf. heldur hafi félagið alla tíð verið í eigu einkahlutafélagsins Unga ehf. sem sé í eigu Arnar Erlingssonar. Örn hafi einnig alla tíð verið skráður sem eini stjórnarmaður félagsins, prókúruhafi og framkvæmdastjóri. Sóknaraðili hafi aldrei verið skráður framkvæmdastjóri félagsins eða prókúruhafi, þrátt fyrir undirritun samnings þess efnis að hann starfaði sem framkvæmdastjóri félagsins. Það sé því ljóst að sóknaraðili hafi aldrei haft heimild til að skuldbinda eða koma fram fyrir hönd félagsins, hvorki sem prókúruhafi þess né framkvæmdastjóri.
Þá beri að nefna að þrátt fyrir að í tilgreindum ráðningarsamningi hafi sóknaraðili átt að starfa sem framkvæmdastjóri frá 1. febrúar 2013, hafi Örn Erlingsson ritað undir ársreikning félagsins vegna rekstrarársins 2013 þann 2. mars 2013 eða tæpum tveimur mánuðum eftir ráðningu sóknaraðila.
III.
Í greinargerð sóknaraðila er tekið fram að ekki sé tölulegur ágreiningur um fjárhæðir í máli þessu. Þá kveðst sóknaraðili jafnframt telja að ekki sé ágreiningur á milli aðila um að krafa sóknaraðila falli undir skilyrði um að njóta forgangs í þrotabú Marmetis ehf. samkvæmt 1. og 2. tl. 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991 þar sem að fyrir liggi að annars vegar sé um að ræða ógreiddar launakröfur sóknaraðila fyrir frestdag, samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laganna, og hins vegar launakrafa í uppsagnarfresti á grundvelli 2. tl. 1. mgr. 112. gr. laganna.
Samkvæmt höfnun skiptastjóra á kröfu sóknaraðila líti ágreiningur aðila í máli þessu að því hvort kröfu sóknaraðila skuli fella undir 3. mgr. 112. gr. áðurnefndra gjaldþrotalaga þar sem skiptastjóri telji að sóknaraðili hafi raunverulega gegnt yfirmannsstöðu hjá félaginu. Sóknaraðili telji sig hins vegar aldrei hafa gegnt stöðu raunverulegs yfirmanns innan félagsins. Hann hafi verið ráðinn sem framkvæmdastjóri félagsins í febrúar 2013, en aldrei hafi komið til þess að hann fengi nokkurt umboð til starfans og aldrei hafi hann verið skráður með prókúru félagsins eða sem framkvæmdastjóri þess. Líkt og að framan sé rakið hafi fljótlega komið í ljós að sóknaraðila hafi ekki verið ætlað að hafa umboð til starfa sem framkvæmdastjóri og hafi svo farið að honum hafi verið falin umsjón með vélum og tækjum hjá félaginu ásamt því að sinna hráefniskaupum og sölumálum félagsins. Sóknaraðili hafi aldrei haft mannaforráð í starfi sínu hjá félaginu og á engum tímapunkti getað skuldbundið félagið í samræmi við ráðningarsamninginn. Þá telji sóknaraðili að hann geti ekki hafa talist raunverulegur yfirmaður, samanber 3. mgr. 112. gr. gjaldþrotalaganna og umsögn um 3. gr. í greinargerð með frumvarpi til breytingarlaga, samanber lög nr. 95/2010. Þar segi að verið sé að rýmka hugtakið í 3. mgr. 112. gr. gjaldþrotalaganna með því að tilgreina nánar um að hugtakið nái einnig til þeirra sem sitji í stjórn eða stýri daglegum rekstri félaga eða annarra lögaðila. Þess beri þó að geta að þrátt fyrir rýmkun á hugtakinu sé ákvæðið í 3. mgr. 112. gr. gjaldþrotalaganna undanþáguregla sem beri að skýra þröngt. Aukinheldur geti sóknaraðili með engu móti talist hafa stýrt daglegum rekstri félagsins í því starfi sem hann hafi tekið að sér hjá félaginu. Stjórn félagsins hafi að öllu leyti verið hjá raunverulegum framkvæmdastjóra félagsins, Erni Erlingssyni, sem alla tíð hafi einn getað skuldbundið félagið. Þá hafi sóknaraðili ekki borið ábyrgð á fjárhagslegum málum félagsins. Sóknaraðili hafi hvergi komið nærri ákvarðanatöku í félaginu, en það sé forsenda þess að hægt sé að túlka starf hans sem raunverulegs yfirmanns hjá félaginu.
Starf sóknaraðila hafi engu að síður verið afar umfangsmikið, auk þess sem tiltekin ábyrgð hafi fylgt stöðu sóknaraðila og hafi launakjör ráðist af því umfangi og þeirri ábyrgð. Verði í engu tekið undir með skiptastjóra að launakjör sóknaraðila endurspegli að sóknaraðili hafi verið ráðinn sem framkvæmdastjóri eða starfað sem slíkur, enda ekki óeðlilegt endurgjald fyrir starf rekstrarstjóra hjá fiskvinnslu með tilliti til vinnutíma og ábyrgðar.
Hvað lagarök varðar vísar sóknaraðili til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum 112. gr. laganna, sem og til meginreglna samninga- og kröfuréttar og laga nr. 138/1995 um einkahlutafélög. Sóknaraðili kveður málskostnaðarkröfu sína byggjast á 129. gr., sbr. 130. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV.
Í greinargerð varnaraðila segir að framkvæmdastjórar stýri eðli máls samkvæmt daglegum rekstri félags og séu því nákomnir félagi í skilningi 3. gr. gjaldþrotalaganna. Þeir njóti því ekki forgangs í réttindaröð við gjaldþrotaskipti samkvæmt 3. mgr. 112. gr. Þetta komi skýrt fram í frumvarpi með lögum nr. 95/2010 um breytingu á gjaldþrotalögunum þar sem hugtakið nákomnir í 3. gr. gjaldþrotalaganna hafi verið rýmkað. Varnaraðili kveðst telja að út frá heildstæðu mati á atvikum máls teljist sóknaraðili í raun hafa verið framkvæmdarstjóri félagsins.
Skýrasta sönnunin um hvernig ráðningarsambandi sóknaraðila við Marmeti ehf. hafi verið háttað sé ráðningarsamningur sem sóknaraðili hafi skrifað undir þegar hann hóf störf hjá félaginu. Eins og fram komi í samningnum hafi sóknaraðili verið ráðinn til starfa á þeim forsendum að hann yrði framkvæmdarstjóri. Sóknaraðili byggi kröfu sína í málinu á þessum sama ráðningarsamningi og miði kröfugerð sína við þau kjör sem um hafi verið samið í ráðningarsamningnum. Þá hafi sóknaraðili ætíð verið titlaður sem framkvæmdarstjóri félagsins og komið fram út á við og í fjölmiðlum sem framkvæmdarstjóri þess.
Launakjör sóknaraðila og hlunnindi hafi verið í samræmi við stöðu hans sem framkvæmdarstjóra. Umsamin laun samkvæmt ráðningarsamningi hafi verið 700.000 krónur, en verið hækkuð um 50.000 krónur á því tímabili sem sóknaraðili starfaði hjá Marmeti ehf. Hann hafi fengið bifreið til afnota og hafi félagið greitt allan rekstrarkostnað vegna hennar. Þá hafi einnig verið í ráðningarsamningnum ákvæði um kauprétt sóknaraðila á hlut í félaginu. Uppsagnarfrestur hafi verið ákveðinn sex mánuðir en það sé helmingi lengri tími en gildi á hinum almenna vinnumarkaði.
Sóknaraðili haldi því fram að hann hafi ekki verið framkvæmdarstjóri þar sem hann hafi ekki skrifað undir ársreikninga og ekki verið skráður framkvæmdarstjóri hjá fyrirtækjaskrá. Varnaraðili kveðst telja að þetta atriði skeri ekki úr um það hvort sóknaraðili teljist í raun hafa verið framkvæmdarstjóri og kveðst benda í því sambandi á dóm Hæstaréttar 13. ágúst 2010 í máli nr. 44/2010: Stefán Hilmar Hilmarsson gegn þrotabúi Baugs Group ehf. Þar hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að Stefán Hilmar hefði verið framkvæmdarstjóri þrátt fyrir að hann hefði ekki skrifað undir ársreikninga og ekki verið skráður hjá fyrirtækjaskrá sem framkvæmdarstjóri. Samkvæmt framangreindum dómi þurfi það ekki að hafa úrslitaáhrif þótt sóknaraðili hafi ekki verið skráður sem formlegur framkvæmdastjóri Marmetis ehf. hjá fyrirtækjaskrá. Líta verði til raunverulegra áhrifa sem sóknaraðili hafi haft innan félagsins, launakjara hans, stjórnunarvalds og beri þannig að meta á hlutlægan hátt hvort hann hafi haft með höndum raunverulega framkvæmdastjórn í skilningi 3. mgr. 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga.
Sóknaraðili haldi því einnig fram að hann hafi ekki gegnt starfi framkvæmdarstjóra þar sem hann hafi ekki stjórnað fjármálum félagsins. Ljóst sé að sóknaraðili hafi verið næstæðsti yfirmaður Marmetis ehf. og eini starfsmaðurinn sem titlaður hafi verið sem framkvæmdarstjóri fyrir utan Örn Erlingsson, en hjá félaginu hafi starfað um 40 manns. Hann hafi samkvæmt því borið mikla ábyrgð og tekið ákvarðanir sem snúið hafi að daglegum rekstri, auk þess sem hann hafi komið fram út á við sem framkvæmdarstjóri félagsins. Það liggi því fyrir að sóknaraðili hafi haft mikil völd í fyrirtækinu þótt hann hafi ef til vill ekki komið að öllum hliðum rekstursins.
Þá kveðst varnaraðili benda á að með 1. mgr. 112. gjaldþrotaskiptalaga sé vikið frá grundvallarreglu laganna um jafnræði lánardrottna við gjaldþrotaskipti. Þar sem um undantekningarreglu sé að ræða beri að skýra þröngt hverjir falli undir hana. Á þessum grunni sé rökum sóknaraðila mótmælt um að skýra beri orðið nákomnir þröngt. Með slíkri skýringu sé opnað fyrir fleiri aðila í forgangskröfuhóp, en slíkt fari gegn tilgangi 3. mgr. 112. gr., sem ætlað sé að takmarka forgangskröfur samkvæmt 1. mgr. 112. gr., þannig að jafnræði kröfuhafa verði ekki skert.
Varðandi lagarök kveðst varnaraðili byggja kröfu sína á lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sérstaklega 3. gr. og 3. mgr. 112. gr. laganna.
Varnaraðili kveðst byggja málskostnaðarkröfu sína á 129. gr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt sé byggð á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en stefndi kveðst ekki vera virðisaukaskattsskyldur. Sé því nauðsynlegt að taka tillit til 24% virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
V.
Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 95/2010, sem breyttu m.a. 3. gr. og 112. gr. laga nr. 21/1991, segir að við stjórn félaga eða annarra lögaðila hafi þeir helst áhrif sem sitji í stjórn eða stýri daglegum rekstri. Ekki sé sjálfgefið að sá sem sitji í stjórn eða stýri daglegum rekstri sé eigandi. Því þyki rétt að rýmka hugtakið nákomnir þannig að það taki einnig til stjórnenda. Þá segir einnig að með því að rýmka hugtakið nákomnir eins og lagt sé til í frumvarpinu, þannig að það taki jafnframt til stjórnarmanna og þeirra sem stýri daglegum rekstri, sé óþarfi að hafa slíka upptalningu sem nú sé í 3. mgr. 112. gr. laganna og því sé lagt til að þar verði þess í stað rætt um að nákomnir njóti ekki þessa forgangsréttar.
Af framangreindu verður ráðið að ekki sé eingöngu átt við þann sem að forminu til er titlaður framkvæmdastjóri í samræmi við 44. gr. einkahlutafélagalaga nr. 138/1994 og tilkynntur sem slíkur til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra og hlutafélagaskrár heldur eigi ákvæðið einnig við þann forráðamann félags sem hefur raunverulega yfirmannsstöðu. Þykir sú staðreynd að sóknaraðili hafi ekki áritað ársreikninga félagsins ekki óyggjandi vísbending um að ákvæði 3. mgr. 112. gr. eigi ekki við um sóknaraðila, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 13. ágúst 2010 í máli nr. 440/2010.
Samkvæmt 1. gr. framlagðs ráðningarsamnings var sóknaraðili ráðinn sem framkvæmdastjóri Marmetis ehf. og skyldi samningurinn gilda frá og með 1. febrúar 2013, sbr. 2. gr. hans. Enga starfslýsingu var að finna í samningnum, en samkvæmt 4. gr. samningsins skyldi framkvæmdastjóri skila þeirri vinnu sem starfssvið hans krefðist. Þá var tiltekið að ekki yrði greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu.
Í skýrslu sinni fyrir dóminum sagði sóknaraðili að eigandi Marmetis ehf., Örn Erlingsson, hefði ráðið hann sem framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Fljótlega hafi þó komið í ljós að honum hafi ekki verið ætlað að stýra fyrirtækinu. Hafi hann orðið að bera allar stórar ákvarðanir varðandi rekstur fyrirtækisins undir eiganda þess, sem dvalið hafi að stórum hluta í Flórída, eða skrifstofu í Keflavík, sem haldið hafi utan um öll fjármál félagsins og verið með prókúru fyrir það. Einnig hafi skrifstofan séð um öll samskipti fyrirtækisins við bankann. Kvaðst sóknaraðili aðallega hafa unnið að sölumálum, þ.e. byggt upp sölusamninga og leitað leiða til að fjármagna reksturinn. Af skýrslu sóknaraðila verður ráðið að hann hafi aðeins lotið boðvaldi eiganda fyrirtækisins. Þá kvaðst hann hafa komið fram út á við, svo sem í fjölmiðlum, sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins.
Með hliðsjón af framangreindu þykir ljóst að sóknaraðili var ráðinn til starfa sem framkvæmdastjóri hjá fyrirtækinu Marmeti ehf. Engar haldbærar sannanir hafa verið færðar fram um að sóknaraðili hafi þrátt fyrir það og í raun ekki stýrt daglegum rekstri félagsins. Framburður sóknaraðila um að fyrir utan eiganda félagsins hafi enginn verið yfir hann settur í fyrirtækinu, að eigandi þess hafi að stórum hluta dvalið erlendis, sem og að sóknaraðili hafi komið fram út á við, svo sem í fjölmiðlum, sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins, sbr. framlagðar útprentanir úr dagblöðum, þykir renna nægum stoðum undir það að starf sóknaraðila hjá Marmeti ehf. hafi verið þess eðlis að 3. mgr. 112. gr. laganna taki til þess. Ber því að hafna því að viðurkenna kröfu sóknaraðila sem forgangskröfu og verður krafa hans viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laganna. Fram hefur komið að ekki er tölulegur ágreiningur með aðilum um fjárhæð kröfunnar, en fjárhæð sem nemur höfuðstól lýstrar kröfu sóknaraðila, 8.743.627 krónur, var samþykkt sem almenn krafa í þrotabúið.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Krafa sóknaraðila, Rúnars Más Sigurvinssonar, að fjárhæð 8.743.627 krónur er viðurkennd sem almenn krafa við gjaldþrotaskipti á þrotabúi Marmetis ehf., en hafnað er að viðurkenna hana sem forgangskröfu.
Málskostnaður fellur niður.