Hæstiréttur íslands

Mál nr. 394/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Opinber skipti
  • Fjárslit
  • Óvígð sambúð


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. ágúst 2006.

Nr. 394/2006.

M

(Brynjar Níelsson hrl.)

gegn

K

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

 

Kærumál. Opinber skipti. Fjárslit. Óvígð sambúð.

Fallist var á kröfu K um að opinber skipti til fjárslita á milli hennar og M færi fram vegna loka á sambúð þeirra. Hafnað var kröfu M um að K legði fram tryggingu fyrir skiptakostnaði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. júlí 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 2006, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um opinber skipti til fjárslita milli aðilanna vegna loka óvígðrar sambúðar. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hafnað verði kröfu varnaraðila um opinber skipti, en til vara verði henni gert að setja tryggingu fyrir greiðslu kostnaðar af skiptunum. Í báðum tilvikum krefst sóknaraðili málskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, M, greiði varnaraðila, K, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

                                                                  

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 2006. 

Málið barst dóminum 23. mars sl. og var þingfest 7. apríl sl.  Það var tekið til úr­skurðar að loknum munnlegum flutningi 20. júní sl. 

Sóknaraðili er K. 

Varnaraðili er M.

Sóknaraðili krefst þess að kveðinn verði upp úrskurður um að fram fari opin­ber skipti til fjárslita milli aðila.  Þá er krafist málskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og sér úrskurðaður máls­kostnaður.  Til vara krefst hann þess að ekki verði fallist á kröfu sóknaraðila nema hún setji tryggingu fyrir skiptakostnaði.

II

Sóknaraðili kveður málavexti vera þá að hún og varnaraðili hafi hafið sambúð á árinu 1994 eða sama ár og þau kynntust.  Þá hafi þau verið eignalaus en árið 1995 hafi þau stofnað fyrirtæki sem síðan hafi vaxið og dafnað og þar með efna­hagur þeirra.  Þau hafi m.a. keypt dýrt einbýlishús, bifreiðar o.fl.  Þá hafi hún getað sent börnum sínum í  ....peninga auk þess að styðja fjölskyldu sína þar við hús­bygg­ingu.  Fyrir um það bil tveimur árum hafi komið brestir í sambúðina og hafi henni svo lokið haustið 2005.  Sóknaraðili hafi flutt af heimilinu þegar hún taldi sér ekki vært þar lengur, en ekki hafi hún fengið neitt af eignum þeirra með sér.  Þá hafi varn­araðili sagt henni upp störfum hjá fyrirtækinu og greitt henni laun í upp­sagn­ar­fresti án þess að hún þyrfti að vinna hann.

Varnaraðili kveður þau hafa kynnst á árinu 1994 en þegar á árinu 2001 hafi sam­búðin verið orðin svo stirð að nær væri að tala um að sóknaraðili gisti í einu her­bergi hjá honum á sameiginlegu lögheimili þeirra en að um sambúð væri að ræða.  Þá hafi sóknaraðili engan þátt átt í stofnun fyrirtækisins og þótt hún hafi unnið þar þá hafi hún ekki komið nálægt stjórnun þess á nokkurn hátt.  Fyrirkomulag sambúðarinnar hafi verið þannig að varnaraðili hafi greitt allt sem tengdist heimilishaldi og rekstri hússins, en sóknaraðili hafi haldið launum sínum óskertum fyrir sig.  Hann hafi þannig einn keypt húsið, sem þau bjuggu í, og sóknaraðili ekki vitað af því fyrr en allt hafi verið frágengið.  Þá kveðst varnaraðili hafa lagt til þá fjármuni sem sóknaraðili sendi sínu fólki í .......

III

Sóknaraðili byggir á því að henni beri hlutdeild í sameiginlegri eignamyndun aðila meðan á sambúð þeirra stóð í rúmlega 12 ár.  Á þeim tíma hafi hún lagt fram vinnu sína, bæði á heimilinu og í fyrirtækinu.  Á báðum stöðum hafi myndast eignir sem hún eigi hlutdeild í, en bæði hafi verið eignalaus þegar sambúðin hófst.  Máli sínu til stuðnings vísar sóknaraðili til 100. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

Varnaraðili byggir á því að þótt aðilar hafi búið saman hafi aldrei myndast með þeim fjárhagsleg samstaða sem réttlætt geti fjárskipti þeirra á milli.  Varnaraðili hafi verið sá sem aflaði teknanna og hann hafi séð um að greiða útgjöldin.  Eignirnar hafi þess vegna verið skráðar á hann.  Sóknaraðili hafi hins vegar haldið launum sínum fyrir sig.  Við sambúðarslit þeirra beri hvoru að taka það sem það hafi komið með eða aflað meðan á sambúðartíma stóð.  Það væri beinlínis rangt og ósanngjarnt að fallast á að sóknaraðili ætti eitthvert tilkall til eigna varnaraðila.

IV

Það er ágreiningslaust að aðilar bjuggu saman frá árinu 1994 til hausts 2005.  Af framburði vitna og öðrum gögnum, svo sem myndum, verður ekki annað ráðið en sam­búðin hafi verið eins og tíðkanlegt er hjá körlum og konum.  Þau hafi haldið saman heimili og deilt borði og sæng.  Ekki virðist vera ágreiningur um að varnaraðili hafi að langmestu leyti staðið straum af rekstri heimilisins en sóknaraðili aftur á móti séð um heimilisstörf eins og matseld og þrif.  Við úrlausn málsins skiptir hins vegar ekki máli hvort sóknaraðili hafi eitthvað komið að rekstri fyrirtækisins, enda er það einka­hlutafélag og bera öll gögn með sér að varnaraðili sé einn skráður eigandi þess. 

Samkvæmt 100. gr. laga nr. 20/1991 er hægt að krefjast opinberra skipta til fjár­slita á milli karls og konu, hafi þau búið saman í samfleytt að minnsta kosti tvö ár.  Eins og að framan var rakið stendur þannig á hér og verður því orðið við kröfu sókn­ar­aðila, en í þessu máli er engin afstaða tekin til þess hvernig eignir mynduðust hjá aðilum eða hvernig þær koma til með að skiptast.

Af gögnum málsins var augljóst fyrir þingfestingu þess að eignir myndu nægja til greiðslu skiptakostnaðar og eru því ekki efni til að verða við varakröfu varnaraðila.

Varnaraðili skal greiða sóknaraðila 150.000 krónur í málskostnað.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

 

Úrskurðarorð

Opinber skipti til fjárslita skulu fara fram á milli sóknaraðila, K og varnaraðila,  M

Varnaraðili skal greiða sóknaraðila 150.000 krónur í málskostnað.