Hæstiréttur íslands
Mál nr. 755/2013
Lykilorð
- Akstur sviptur ökurétti
- Reynslulausn
- Vanaafbrotamaður
|
|
Fimmtudaginn 27. febrúar 2014. |
|
Nr. 755/2013.
|
Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari) gegn Ágústi Halldórssyni (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) |
Akstur sviptur ökurétti. Reynslulausn. Vanaafbrotamaður.
Á var sakfelldur fyrir að hafa fjórum sinnum ekið bifreið sviptur ökurétti auk þess að hafa í eitt umræddra skipta ekið of hratt. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að Á var síbrotamaður og þess að með brotunum rauf hann reynslulausn sem honum hafði verið veitt. Var refsing hans ákveðin fangelsi í 16 mánuði.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut tveimur málum til Hæstaréttar 21. nóvember og 10. desember 2013 í samræmi við yfirlýsingar ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er krafist staðfestingar hinna áfrýjuðu dóma.
Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð.
Fyrir Hæstarétti hafa málin verið sameinuð.
Með fyrri dóminum, sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Reykjaness 15. nóvember 2013 var ákærði sakfelldur fyrir að hafa á tímabilinu 23. júní til 1. september 2013 ekið bifreið þrisvar sinnum sviptur ökurétti og of hraðan akstur. Var ákærði dæmdur í fangelsi í 15 mánuði en með dóminum voru dæmdar upp 280 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar sem hann hafði fengið reynslulausn á 22. apríl 2013, skilorðsbundið í 2 ár. Síðari dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur 3. desember 2013. Með þeim dómi var ákærði sakfelldur fyrir sams konar brot 9. október 2013 og dæmdur hegningarauki, eins mánaðar fangelsi.
Ákærði á að baki langan sakaferil allt frá árinu 1997 fyrir ýmis hegningarlaga-, ávana- og fíkniefnalaga- og umferðarlagabrot. Árið 1999 var hann dæmdur fyrir brot gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga með því að hafa ekið bifreið í 21 skipti án þess að hafa öðlast ökuréttindi. Rúmum tveimur árum síðar hlaut hann dóm fyrir eitt sams konar brot auk ýmissa annarra umferðarlagabrota. Hann gekkst undir viðurlagaákvörðun með greiðslu sektar 11. maí 2006 meðal annars fyrir að aka tvívegis sviptur ökurétti. Þá var ákærði tvívegis sviptur ökurétti meðal annars fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, annars vegar í tvö ár og sex mánuði með viðurlagaákvörðun 21. maí 2008, en hins vegar með dómi 16. febrúar 2009 í tvö ár. Í bæði skiptin var honum að auki gerð sektarrefsing. Með dómi 30. október 2009 hlaut hann 12 mánaða fangelsi fyrir ýmis brot, þar á meðal fyrir að hafa ekið undir áhrifum ávana- og fíkniefna í þrjú skipti og akstur sviptur ökurétti í 21 skipti á tímabilinu frá 13. júlí 2008 til 22. september 2009. Var hann jafnframt sviptur ökurétti ævilangt. Með dóminum var dæmt upp tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi, sem hann hafði hlotið fyrir þjófnað 22. apríl 2009. Þann 9. febrúar 2010 var ákærði dæmdur í tveggja mánaða fangelsi, sem var hegningarauki, meðal annars fyrir að aka undir áhrifum ávana- og fíkniefna og akstur sviptur ökurétti 13. nóvember 2008. Hann var jafnframt sviptur ökurétti í fimm ár, þrátt fyrir að hann hafi verið sviptur ökurétti ævilangt með dóminum frá 30. október 2009. Með dómi 20. maí 2010 var ákærði enn á ný sakfelldur fyrir fíkniefna- og sviptingarakstur 11. september 2009. Honum var ekki gerð sérstök refsing þar sem um hegningarauka við tvo undanfarandi dóma var að ræða. Með dómi 17. desember 2010 var ákærða gerður hegningarauki fyrir eitt þjófnaðarbrot og akstur sviptur ökurétti í 11 skipti á tímabilinu 16. ágúst 2008 til 5. febrúar 2010. Hann var jafnframt sakfelldur fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna í eitt þessara skipta og í tveimur þeirra fyrir önnur umferðarlagabrot. Refsing var ákveðin sex mánaða fangelsi. Ákærða var veitt reynslulausn á 300 daga eftirstöðvum refsingar 24. desember 2010. Hann rauf reynslulausnina og var gert að afplána hana 10. október 2011. Loks var ákærði dæmdur 3. júlí 2012 í 18 mánaða fangelsi fyrir þjófnað og að aka í sviptur ökurétti í 15 skipti á tímabilinu frá 28. febrúar 2011 til 10. september sama ár, en í sjö þessara skipta ók hann jafnframt undir áhrifum ávana- og vímuefna.
Ákærði er síbrotamaður. Með hliðsjón af því og sakaferli hans, sem rakinn hefur verið hér að framan, en að öðru leyti með vísan til forsendna hinna áfrýjuðu dóma verða þeir staðfestir á þann veg sem í dómsorði greinir.
Ákvæði hinna áfrýjuðu héraðsdóma um sakarkostnað eru staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, Ágúst Halldórsson, sæti fangelsi í 16 mánuði.
Ákvæði hinna áfrýjuðu héraðsdóma um sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 325.543 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 15. nóvember 2013.
Mál þetta, sem dómtekið var 12. þessa mánaðar, var höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 8. október síðastliðinn á hendur ákærða, Ágústi Halldórssyni, kt. [...], [...]. Ákærða eru gefin að sök „eftirtalin umferðarlagabrot á árinu 2013 með því að hafa ekið bifreiðum sviptur ökurétti auk annarra brota sem hér greinir:
I
Aðfaranótt sunnudagsins 23. júní bifreiðinni [...] suður Reykjanesbraut í Hafnarfirði, við Lækjargötu, uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar.
II
Þriðjudaginn 23. júlí bifreiðinni [...] með 106 km hraða á klukkustund um Reykjanesbraut í Hafnarfirði þar sem leyfður hámarkshraði var 80 km á klukkustund uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar.
III
Aðfaranótt sunnudagsins 1. september bifreiðinni [...] um Arnarnesveg í Garðabæ, við Versali, uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar
IV
Að kvöldi þriðjudagsins 17. september bifreiðinni [...] norður Skeiðarvog í Reykjavík uns aksturinn var stöðvaður í Ljósheimum skömmu síðar.
Teljast brot í öllum liðum varða við 1. mgr. 48. gr. og brot í lið II auk þess við 1. sbr. 3. mgr. 37. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.“
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið brot þau sem honum eru gefin að sök, að broti samkvæmt framangreindum fjórða tölulið ákæru undanskildum. Sækjandi féll frá ákæru á fjórða tölulið ákærðu við fyrirtöku málsins. Var því farið með málið samkvæmt 1. mgr. 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjandi og verjandi höfðu tjáð sig stuttlega um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. Sannað er með skýlausri játningu ákærða, sem er í samræmi við framlögð sakargögn, að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem saksókn á hendur honum tekur til samkvæmt framansögðu og er réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Ákærði hefur unnið sér til refsingar.
Ákærði krefst vægustu refsingar sem lög leyfa.
Samkvæmt sakavottorði á ákærði langan sakaferil að baki fyrir ýmis brot og nær sakaferill ákærða aftur til ársins 1997. Af því sem þar greinir ber við ákvörðun refsingar nú að horfa til fimm skipta þar sem ákærða hefur verið gerð refsingu fyrir að aka sviptur ökurétti frá árinu 2006. Ákærði gekkst undir viðurlagaákvörðun fyrir dómi 11. maí 2006 fyrir hraðaakstur og að aka sviptur ökurétti og var refsing ákærða ákveðin 200.000 króna sekt. Með dómi 30. október 2009 var ákærði dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir ýmis brot, þar með talið að hafa ekið sviptur ökurétti. Með þeim dómi var ákærði sviptur ökurétti ævilangt. Með dómi 20. maí 2010 var ákærði sakfelldur fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og að hafa ekið sviptur ökurétti. Það brot sem ákærði var sakfelldur fyrir með þeim dómi var framið áður en framangreindur dómur 30. október 2009 gekk og var ákærða ekki gerð refsing fyrir brot sitt. Þá var ákærði dæmdur 17. desember 2010 til sex mánaða fangelsisvistar fyrir þjófnað og ýmis umferðalagabrot, þar með talið að hafa ekið sviptur ökurétti. Síðast var ákærði svo dæmdur 3. júlí 2012 í átján mánaða fangelsi fyrir að aka sviptur ökurétti, aka undir áhrifum fíkniefna og þjófnað. Hinn 22. apríl síðastliðinn var ákærða veitt reynslulausn á 280 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar samkvæmt þeim dómi, skilorðsbundið í tvö ár. Með brotum þeim sem ákærði er nú sakfelldur fyrir, hefur hann rofið skilyrði fyrir framangreindri reynslulausn og ber að taka hana upp og dæma með í máli þessu, sbr. 1. mgr. 65. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 49/2005, sbr. 60. gr. og 1. mgr. 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Með hliðsjón af sakarferli ákærða og 77. gr. almennra hegningarlaga verður refsing hans því ákveðin fangelsi í fimmtán mánuði. Ekki eru efni til að skilorðsbinda refsinguna.
Dæma ber ákærða til að greiða þóknun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 50.200 krónur, og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Annan sakarkostnað leiddi ekki af meðferð málsins.
Hákon Þorsteinsson aðstoðarmaður dómara kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Ágúst Halldórsson sæti fangelsi í fimmtán mánuði.
Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 50.200 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. desember 2013.
Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 12. nóvember 2013, á hendur Ágústi Halldórssyni, kt. [...], [...], fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, miðvikudaginn 9. október 2013, ekið bifreiðinni [...], sviptur ökurétti, um Hvaleyrarbraut í Hafnarfirði .
Telst brot þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með áorðnum breytingum.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar er lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.
Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.
Ákærði hefur skýlaust játað brot sitt. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og er brot hans rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.
Ákærði er fæddur í apríl 1980. Brot hans gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga er margítrekað. Síðast var ákærði dæmdur 15. nóvember 2013 til 15 mánaða fangelsisrefsingar vegna brots gegn 1. mgr. 48. gr. og 1. mgr., sbr. 3. mgr. 37. gr. umferðarlaga, en jafnframt var þá dæmd upp 280 daga reynslulausn vegna eldri refsidóma. Verður refsing ákveðin sem hegningarauki, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga.
Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Vilhjálmssonar hrl., 75.300 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigurður Pétur Ólafsson fulltrúi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.
Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Ágúst Halldórsson, sæti fangelsi í 30 daga.
Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Vilhjálmssonar hrl., 75.300 krónur.