Hæstiréttur íslands

Mál nr. 619/2007


Lykilorð

  • Matsnefnd eignarnámsbóta
  • Valdmörk
  • Lögmannsþóknun


                                     

Fimmtudaginn 2. október 2008.

Nr. 619/2007.

Vegagerðin

(Reynir Karlsson hrl.)

gegn

Veiðifélagi Skagafjarðar

(Karl Axelsson hrl.)

 

Matsnefnd eignarnámsbóta. Valdmörk. Lögmannsþóknun.

VS krafði V um greiðslu lögmannskostnaðar sem VS hafði greitt vegna ráðgjafar og reksturs kærumáls til umhverfisráðherra í tengslum við umhverfismat um lagningu hringvegarins með tilheyrandi efnistöku á áreyrum Norðurár í Skagafirði. Samkvæmt samkomulagi aðila frá 17. nóvember 2005 í tengslum við framkvæmdina skyldi V meðal annars greiða fullar bætur vegna fjárhagslegs tjóns sem þegar yrði sýnt fram á vegna fyrirhugaðra framkvæmda, sbr. 45. gr. vegalaga nr. 45/1994 og 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þá myndi V greiða eðlilegan kostnað sem VS hefði orðið fyrir við gerð samkomulagsins. Af hálfu VS var einnig gerð krafa um greiðslu þess kostnaðar sem það hefði orðið fyrir vegna hagsmunagæslu sinnar í tengslum við vinnu við kæru á úrskurði um mat á umhverfisáhrifum. Þar sem samkomulag náðist ekki um bætur milli aðila og greiðslu annars kostnaðar var ágreiningi VS og V vísað til matsnefndar eignarnámsbóta samkvæmt ákvæði í samningi aðila. Í úrskurði matsnefndarinnar taldi nefndin meðal annars ekki tímabært að taka afstöðu til bótakröfu vegna líklegs rasks og ónæðis, sem og ófyrirsjáanlegs kostnaðar að fjárhæð 750.000 krónur og var þeim kröfulið því hafnað. Kröfuliður VS um greiðslu lögmannskostnaðar vegna hagsmunagæslu þess við mat á umhverfisáhrifum var hins vegar tekinn til greina. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að umræddur kostnaður VS yrði ekki talinn til kostnaðar við rekstur matsmáls samkvæmt 11. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms. Hefði það ekki verið hlutverk matsnefndar samkvæmt lögunum að kveða á um greiðslu kostnaðarins, en VS hafði í málinu eingöngu byggt kröfu sína á hendur V á úrskurði nefndarinnar. Þar sem matsnefndin fór með þessu út fyrir valdsvið sitt yrði krafa VS ekki reist á úrskurðinum. Var V því sýknað af kröfu VS.

  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. nóvember 2007 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda en til vara að hún verði lækkuð. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Samkvæmt gögnum málsins komust áfrýjandi annars vegar og Vatnadeild Héraðsvatnadeildar og Norðurárdeild stefnda hins vegar að samkomulagi 17. nóvember 2005 um samráð vegna lagningar hringvegarins með tilheyrandi efnistöku úr áreyrum Norðurár í Norðurárdal, Skagafirði. Í samkomulaginu var vísað til úrskurðar umhverfisráðherra um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda frá 16. febrúar 2004, en fyrrnefndar deildir stefnda og sex nafngreindir jarðeigendur höfðu með kæru 19. júní 2003 skotið þangað úrskurði Skipulagsstofnunar frá 14. maí sama ár, þar sem fallist var á fyrirhugaða lagningu hringvegarins í Norðurárdal með skilyrðum um nánar tilgreint samráð, eftirlit og mótvægisaðgerðir. Meginefni samkomulags málsaðila 17. nóvember 2005 var um mótvægisaðgerðir áfrýjanda til að draga sem mest mætti úr umhverfisáhrifum framkvæmdanna, enda yrðu þær í samráði við Veiðimálastofnun og veiðimálastjóra auk þess sem áfrýjandi skyldi í fimm ár frá lokum framkvæmda standa að vöktun lífríkis Norðurár. Samkomulag varð um að framkvæmdin sætti nánar tilgreindum skilyrðum. Loks tók áfrýjandi að sér að hafa samráð við stefnda um framangreindar aðgerðir.

Í 6. og síðustu grein samkomulagsins voru ákvæði um greiðslu bóta og kostnaðar. Segir í 1. mgr. að áfrýjandi greiði „fullar bætur vegna þess fjárhagslega tjóns sem þegar verður staðreynt/sýnt fram á vegna framangreindra framkvæmda, sbr. 45. gr. vegalaga nr. 45/1994 sbr. og ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þá greiðir Vegagerðin eðlilegan kostnað sem Héraðsvatnadeild Veiðifélags Skagafjarðar og Norðurárdeild Veiðifélags Skagafjarðar hafa orðið fyrir við gerð samkomulags þessa. Af hálfu veiðifélaganna er jafnframt gerð krafa um greiðslu annars þess kostnaðar sem þau hafa orðið fyrir vegna hagsmunagæslu í aðdraganda vegalagningarinnar en á þá kröfu er ekki fallist af hálfu Vegagerðarinnar.“ Síðan sagði í 2. mgr. 6. gr.: „Náist samkomulag ekki innan 3ja vikna frá undirritun samkomulags þessa mun ákvörðun bóta vísað til Matsnefndar eignarnámsbóta.“

Stefndi vísaði til matsnefndarinnar kröfu sinni um að áfrýjandi greiddi bætur og kostnað vegna hagsmunagæslu, samtals 1.603.255 krónur, sem sundurliðaðar voru þannig:

1.      Bætur vegna líklegs rasks og ónæðis og ófyrirséðs kostnaðar 750.000 krónur.

2.      Málskostnaður samtals að fjárhæð 853.255 krónur í þremur liðum:

2.1.  Reikningur lögmanns  27. febrúar 2004 samtals 397.155 krónur.

2.2.  Reikningur lögmanns 8. mars 2006 samtals 128.578 krónur.

2.3.  Áfallin lögmannsþóknun frá 8. mars 2006 til 7. nóvember sama árs, 16,65 tímar, samtals 327.522 krónur.

Matsnefnd eignarnámsbóta kvað upp úrskurð sinn 14. desember 2006. Varð niðurstaða hennar að hafna bótakröfu í 1. lið, þar sem ekki væri tímabært að taka afstöðu til hennar. Á hinn bóginn voru teknir til greina allir þrír liðir málskostnaðarkröfunnar, samtals 853.255 krónur, en áfrýjandi hafði ekki andmælt kröfulið 2.2. Þar sem áfrýjandi greiddi stefnda ekki fjárhæð þá, sem nefndin hafði úrskurðað, höfðaði stefndi mál þetta 3. janúar 2007 til heimtu hennar. Áður en áfrýjandi tók til varna með greinargerð af sinni hálfu, sem lögð var fram í héraði 20. febrúar sama ár, greiddi hann kröfuliði 2.2. og 2.3., samtals 456.100 krónur. Laut ágreiningur aðila í héraði því að kröfulið 2.1., reikningi lögmanns stefnda á hendur honum 27. febrúar 2004 um lögmannsþóknun „vegna ráðgjafar v/ umhverfismats og rekstur kærumáls til umhverfisráðherra vegna þess mats, unnið á tímabilinu mars ´03 - febrúar ´04 ... 29 tímar x kr. 11.000“, auk virðisaukaskatts að fjárhæð 78.155 krónur, samtals 397.155 krónur.

II

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms er það hlutverk matsnefndar eignarnámsbóta að skera úr ágreiningi um þær og annað endurgjald, sem ákveða á samkvæmt lögunum. Í síðasta málslið 11. gr. þeirra kemur fram að eignarnemi skuli greiða eignarnámsþola endurgjald vegna þess kostnaðar sem eignarnámsþoli hefur haft af rekstri matsmáls og hæfilegur verður talinn. Samkvæmt framansögðu lýtur ágreiningur aðila nú einungis að einum lið í kröfu þeirri sem stefndi vísaði til matsnefndar eignarnámsbóta samkvæmt 6. gr. samkomulags málsaðila 17. nóvember 2005, en það er vegna reiknings lögmanns stefnda á hendur honum 27. febrúar 2004 um þóknun vegna ráðgjafar og reksturs kærumáls til umhverfisráðherra vegna umhverfismats framkvæmdarinnar. Þessi kostnaður stefnda verður ekki talinn til kostnaðar við rekstur matsmáls samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms, svo sem áskilið er í 11. gr. þeirra, en ekki kom til þess að eignarnámi væri beitt gagnvart honum. Þess vegna var það ekki hlutverk matsnefndar að kveða á um greiðslu þessa kostnaðar og skiptir þá ekki máli að aðilar hafi sammælst um að vísa þessu ágreiningsefni til hennar. Samkvæmt héraðsdómsstefnu reisir stefndi kröfu sína í máli þessu á hendur áfrýjanda eingöngu á úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta, en ber ekki fyrir sig að hún gæti átt aðra stoð að lögum. Þar sem matsnefndin fór út fyrir valdsvið sitt í nefndum úrskurði verður krafa stefnda ekki studd við hann og ber því að sýkna áfrýjanda af henni.

Eftir atvikum er rétt að hvor málsaðila beri sinn málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Vegagerðin, er sýkn af kröfu stefnda, Veiðifélags Skagafjarðar.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júlí 2007.

Mál þetta, sem þingfest var 9. janúar 2007, var dómtekið 22. júní sl. Stefnandi er Veiðifélag Skagafjarðar (Vatnadeild Héraðsvatnadeildar og Norðurárdeild), Miðgrund, 560 Varmahlíð. Stefndi er Vegagerðin, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda, eins og þær voru settar fram við aðalmeðferð, eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kröfu að fjárhæð 853.255 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 14. desember 2006 til greiðsludags, að frádreginni innborgun stefnda 19. febrúar 2007 að fjárhæð 456.100 kr. Þá er krafist málskostnaðar.

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara krefst hann þess að stefnukröfurnar verði lækkaðar verulega. Þá krefst hann þess að honum verði tildæmdur málskostnaður hvor sem niðurstaðan verður.

                                                                                                I.

Hinn 17. nóvember 2005 gerðu aðilar með sér „samkomulag um samráð vegna framkvæmda við lagningu Hringvegar, með tilheyrandi efnistöku á áreyrum Norðurár í Skagafirði“. Í 1. gr. samkomulagsins segir að fyrirhugaðar framkvæmdir við lagningu hringvegar í Norðurárdal með tilheyrandi efnistöku muni valda raski í farvegi árinnar. Til að lágmarka umhverfisáhrif framkvæmda muni stefndi grípa til mótvægisaðgerða í samræmi við úrskurð umhverfisráðherra um mat á umhverfis­áhrifum framkvæmda frá 16. febrúar 2004. Þá er í samkomulaginu kveðið á um tilteknar mótvægisaðgerðir og skilyrði fyrir framkvæmdinni. Í 6. gr. samkomulagsins er svohljóðandi ákvæði:

Vegagerðin greiðir fullar bætur vegna þess fjárhagslega tjóns sem þegar verður staðreynt/sýnt fram á vegna fyrirhugaðra framkvæmda, sbr. 45. gr. vegalaga nr. 45/1994 sbr. og ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þá greiðir Vegagerðin eðlilegan kostnað sem Héraðsvatnadeild Veiðifélags Skagafjarðar og Norðurárdeild Veiðifélags Skagafjarðar hafa orðið fyrir við gerð samkomulags þessa. Af hálfu veiðifélaganna er jafnframt gerð krafa um greiðslu annars þess kostnaðar sem þau hafa orðið fyrir vegna hagsmunagæslu í aðdraganda vegalagningarinnar en á þá kröfu er ekki fallist af hálfu Vegagerðarinnar.

Náist samkomulag ekki innan 3ja vikna frá undirritun samkomulags þessa mun ákvörðun bóta vísað til Matsnefndar eignarnámbóta.

Þar sem samkomulag náðist ekki um bætur milli aðila, fór ákvörðun um bætur til matsnefndar eignarnámsbóta í samræmi við fyrrgreint samkomulag. Krafa stefnanda fyrir nefndinni var sú að stefnda yrði gert að greiða alls 1.603.255 kr. sem sundurliðaðist þannig:

 

Bætur vegna líklegs rasks og ónæðis,             

sem og ófyrirséðs kostnaðar.

750.000 kr.

Málskostnaður

2.1 Reikningur 27. febrúar 2004

 

397.155 kr.

2.2 Reikningar 8. mars 2006

128.578 kr.

                2.3 Áfallin lögmannsþóknun frá 8. mars

2006 til 7. nóvember 2006.

16,65 tímar á 15.800 kr. auk vsk.

 

 

327.522 kr.

Samtals

853.255 kr.

Alls

1.603.255 kr.

 

Með bréfi stefnda, dags. 2. nóvember 2006, til matsnefndar eignarnámsbóta mótmælti hann kröfulið 1, um 750.000 kr., og kröfulið 2.1, að fjárhæð 397.155 kr., sem væri tilkominn vegna vinnu við kæru á úrskurði um mat á umhverfisáhrifum. Hins vegar féllst stefndi á kröfu stefnanda samkvæmt kröfulið 2.2, um 128.578 kr., vegna gerðar framangreinds samkomulags. Þá var að svo stöddu mótmælt kröfu um greiðslu áfallins kostnaðar vegna lögmanns­þjónustu frá 8. mars 2006, sbr. kröfuliður 2.3. Var þess krafist að nefndin ákvarðaði hæfilegan kostnað „sem miðist við takmarkað umfang málsins“ eins og það var orðað.

Í úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta frá 14. desember 2006 í máli nr. 15/2006 taldi nefndin að ekki væri tímabært að taka afstöðu til bótakröfu samkvæmt kröfulið 1, að fjárhæð 750.000 kr., þar sem samkomulag væri um að fresta endanlegu uppgjöri á tjóni og kostnaði vegna framkvæmdanna. Var þessum kröfulið því hafnað. Kröfuliður 2.1 vegna hagsmunagæslu við mat á umhverfisáhrifum á árinu 2003-2004 var hins vegar tekinn til greina. Stefndi hafði ekki gert athugasemdir við kröfulið 2.2. vegna gerðar samkomulags aðila frá 17. nóvember 2005. Einnig var kröfuliður 2.3, að fjárhæð 327.522 kr., tekinn til greina af nefndinni. Kvað úrskurður nefndarinnar því á um að stefndi skuli greiða stefnanda 853.255 kr. í þegar áfallinn málskostnað.

Eftir að mál þetta var höfðað hefur stefndi greitt stefnanda 456.100 kr., sem sundurliðast þannig að 128.578 kr. eru vegna kostnaðar við gerð samkomulagsins og 327.522 kr. vegna áfallinnar lögmannsþóknunar frá 8. mars 2006 til 7. nóvember 2006. Stefndi hefur hins vegar ekki fallist á að hann eigi að greiða kostnað að fjárhæð 397.155 kr., vegna hagsmunagæslu stefnanda vegna mats á umhverfisáhrifum.

                                                                                                II.

                Í málatilbúnaði stefnanda segir að krafa hans sé samkvæmt úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta í málinu nr. 15/2006, en stefndi hafi verið úrskurðaður til þess að greiða stefnanda 853.255 kr. í þegar áfallinn málskostnað hans vegna hagsmunagæslu í aðdraganda vegagerðar um Norðurárdal í Skagafirði. Stefnandi bendir á að með tölvupósti, dags. 16. desember sl., hafi stefnandi krafið stefnda um greiðslu umræddrar kröfu. Engin viðbrögð hefðu borist við þeirri áminningu og hafi stefnandi því verið nauðbeygður til þess að innheimta kröfuna fyrir milligöngu dómstóla.

                Um lagarök vísar stefnandi til vegalaga nr. 45/1994 með síðari breytingum, laga um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973, 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og meginreglna eignarréttarins. Þá er enn fremur vísað til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbinding

                Kröfur um dráttarvexti, styður stefnandi við reglur 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála.

Varðandi varnarþing er vísað til 36. gr. laga nr. 91/1991.

                                                                                                III.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að 45. gr. vegalaga nr. 45/1994 geri ráð fyrir því að aðeins komi til bótagreiðslna til landeiganda ef hann hafi beðið skaða af framkvæmd, sbr. einnig 4. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms, sem geri ráð fyrir að landeigendur verði fyrir eignarskerðingum. Í 11. gr. laganna um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973 komi fram að eignarnemi skuli greiða eignar­náms­þola endurgjald vegna þess kostnaðar sem hann hafi haft af rekstri matsmáls og hæfilegur verði talinn. Stefndi telur að þar hljóti að vera um að ræða kostnað sem tengist eignarnámi sem slíku. Stefndi vísar til þess að í greinargerð með 11. gr. laganna komi fram að eignarnámsþoli eigi rétt til hæfilegs endurgjalds á eigin kostnaði úr hendi eignarnema. Síðar segi að eignarnemi verði „því aðeins skyldaður til að inna slíkt endurgjald af hendi, að um hóflegan og eðlilegan kostnað hafi verið að ræða“. Telur stefndi að kostnaður til eignarnámsþola (stefnanda) verði ekki skilinn frá eiginlegum eignarnámsbótum honum til handa. Í báðum tilvikum sé verið að ákvarða eignarnámsþola (stefnanda) bætur vegna meints tjóns, þ.e. gera hann skaðlausan vegna aðgerða eignarnema (stefnda).

Þá byggir stefndi á því að 11. gr. laganna taki ekki til kostnaðar sem stefnendur kunni að hafa orðið fyrir vegna reksturs kærumáls til umhverfisráðherra, samtals kr. 397.155 kr.

Stefndi heldur því fram að ekkert liggi fyrir um að stefnandi hafi orðið fyrir skerðingu á eignarréttindum sínum af völdum stefnda. Það sé staðfest í framangreindu samkomulagi frá 17. nóvember 2005, þar sem gert sé ráð fyrir því í 3. gr. og 6. gr., að aðilar fylgist með lífríki árinnar í 5 ár eftir framkvæmdir og muni þá taka upp viðræður um lausn þess ef í ljós kemur að veiði minnkar umtalsvert í samanburði við aðrar ár á sama vatnasvæði. Þrátt fyrir það hafi stefndi samþykkt að greiða kostnað stefnanda af gerð samkomulagsins og hæfilegan kostnað frá 8. mars 2006 samkvæmt úrskurði matsnefndar sem miðaðist við takmarkað umfang málsins, sbr. fyrirliggjandi bréf stefnda til matsnefndarinnar, dags. 2. nóvember 2006. Hann hafi því þegar greitt meira en honum beri skylda til samkvæmt framangreindum lögum. Frekari greiðslur hljóti að vera háðar því að stefnendur verði fyrir skerðingu á eignarréttindum sínum.

Stefndi telur að hvorki sé fyrir því heimild í lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum né öðrum lögum, að gera framkvæmdaaðila skylt að greiða málskostnað vegna kæru á úrskurði Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Um sé að ræða íþyngjandi ákvörðun sem ekki verði tekin án sérstakrar lagaheimildar. Þeim mun fráleitara sé að skylda stefnda til að greiða kostnað við þessar aðstæður þegar á engan hátt sé tekið undir sjónarmið kærenda (stefnanda) í úrskurðinum. Önnur niðurstaða sé til þess fallin að hvetja menn til tilefnislítilla eða tilefnislausra kærumeðferða í trausti þess að allt verði greitt af framkvæmdaaðila. Vísar stefndi í þessu sambandi til þeirra meginreglna sem gilda um ákvörðun málskostnaðar fyrir dómstólum um að sá beri að jafnaði kostnað af máli sem tapar því í öllum verulegum atriðum, sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Telur stefndi að á svipuðum sjónarmiðum hljóti að verða byggt í málum sem þessum. Ákvæði laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms styðji þá niðurstöðu, þar sem gert sé ráð fyrir því að þeir einir fái bætur sem verði fyrir skerðingu á eignarréttindum sínum.

Þá byggir stefndi á því að matsnefnd eignarnámsbóta geti ekki úrskurðað málskostnað vegna málsmeðferðar fyrir öðru stjórnvaldi, þ.e. umhverfisráðuneytinu. Nefndin hafi engar forsendur til þess að úrskurða um það efni enda liggi engin gögn fyrir nefndinni um umfang málsins þar. Í því sambandi vísar stefndi til greinargerðar með 11. gr. laga 11/1973 um framkvæmd eignarnáms, þar sem segi að eignarnemi verði því aðeins skyldaður til að inna af hendi kostnað til eignarnámsþola „að um hóflegan og eðlilegan kostnað hafi verið að ræða“.

Varðandi málsástæður sínar og lagarök að öðru leyti vísar stefndi til bréfs síns til matsnefndar eignarnámsbóta, dags. 2. nóvember 2006.

Telur stefndi með vísan til alls framangreinds að sýkna beri hann af öllum kröfum stefnanda.              Varakröfu sína um lækkun stefnukrafna byggir stefndi á því að hann hafi greitt 128.578 kr. vegna kostnaðar við gerð samkomulags, dags. 17. nóvember 2005, og  327.522 kr. vegna kostnaðar stefnanda af málinu frá 8. mars 2006 samkvæmt úrskurði matsnefndar eða samtals 456.100 kr. Þá byggir stefndi á því að krafa stefnanda að fjárhæð 397.155 kr. vegna kostnaðar við kæru á úrskurði Skipulagsstofnunar sé alltof há og hvorki hófleg né eðlileg. Samkvæmt ljósriti af reikningi, sem stefndi hafi aflað sér, sé um að ræða „lögmannsþóknun vegna ráðgjafar v/ umhverfismats og rekstur kærumáls til umhverfisráðherra vegna þess mats ... unnið á tímabilinu mars ’03 - febrúar ’04“. Telur stefndi að um sé að ræða alltof háa fjárhæð, en hann hafi ekki undir höndum sundurliðun á reikningnum og geti því ekki tekið afstöðu til einstakra liða að svo stöddu. Er þeim öllum því mótmælt að svo stöddu. Telur stefndi með vísan til framangreinds að stefnukröfur stefnanda eigi að lækka verulega.      

                                                                                                IV.          

Við aðalmeðferð málsins hreyfði lögmaður stefnda því að málið kunni að varða sjálfkrafa frávísun dómsins þar sem málsástæður stefnanda væru vanreifaðar. Stefndi hefur hins vegar ekki gert kröfu um frávísun. Þótt málsástæður stefnanda séu knappar kemur skýrt fram í stefnu á hverju krafa hans er grundvölluð, þ.e. tilvitnuðum úrskurði matsnefndar eignarnáms­bóta. Af mála­tilbúnaði stefnda verður ekki ráðið að hann hafi átt í erfiðleikum með að taka til varna og átta sig á því hver krafa stefnanda væri og á hvaða grundvelli hún byggir. Þykir því ekki ástæða til að vísa málinu sjálfkrafa frá dómi.

Stefndi hefur hafnað því að honum verði gert að greiða kostnað stefnanda vegna hagsmunagæslu við kæru á úrskurði um mat á umhverfisáhrifum í aðdraganda umræddrar vegalagningar, en hann hefur samþykkt og greitt annan kostnað vegna hagsmuna­gæslu stefnanda. Í 6. gr. samkomulags aðila frá 17. nóvember 2005 var kveðið á um að stefndi greiði kostnað sem stefnandi hefur orðið fyrir við gerð samkomulagsins. Þá segir þar að stefnandi geri jafnframt kröfu um greiðslu annars þess kostnaðar sem hann hefði orðið fyrir vegna hagsmunagæslu í aðdraganda vegalagningarinnar, en á þá kröfu sé ekki fallist af hálfu stefnda. Síðan segir að náist samkomulag ekki innan þriggja vikna muni ákvörðun bóta vísað til matsnefndar eignarnámsbóta. Samkomulag aðila verður ekki skilið öðruvísi en svo að þeir hafi ákveðið að vísa ágreiningi sínum, um annan kostnað stefnanda vegna hagsmunagæslu hans, til mats­nefndar eignarnámsbóta.

Matsnefndin úrskurðaði að stefnda bæri að greiða þann kostnað sem hér er deilt um. Í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms segir að matsnefnd eignarnámsbóta skuli skera úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða á samkvæmt lögunum. Samkvæmt 11. gr. laganna skal eignarnemi greiða eignarnámsþola endurgjald vegna þess kostnaðar sem eignarnáms­þoli hefur haft af rekstri matsmáls og hæfilegur verður talinn. Skýra verður ákvæði þessi með það í huga að stjórnarskrárverndaður réttur eignarnámsþola til fullra bóta verði raunhæfur og virkur. Þannig verður ekki einungis litið til þess tímabils sem matsmál er til meðferðar hjá nefndinni heldur verður að bæta honum eðlilegan kostnað sem til fellur í eignarnámsferlinu. Að öðrum kosti fær eignarnámsþoli ekki fullar bætur. Framkvæmd sú sem samkomulag aðila tekur til var háð mati á umhverfis­áhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000 og kærði stefnandi úrskurð Skipulags­­stofnunar um mat á umhverfisáhrifum til umhverfisráðuneytisins. Þannig nýtti hann sér réttarúrræði í eignarnámsferlinu til að fá skorið úr um lögmæti framkvæmdarinnar. Ekki er fallist á að málatilbúnaður stefnanda hafi engan hljómgrunn fengið í úrskurði umhverfisráðuneytisins, frá 16. febrúar 2004, en ráðuneytið staðfesti úrskurð Skipulagsstofnunar með þeim breytingum að bætt var við tilteknum skilyrðum varðandi útfærslu mótvægisaðgerða og vöktun á lífríki árinnar. Þá er ekki fallist á að ekkert liggi fyrir um að stefnandi hafi orðið fyrir skerðingu á eignarréttindum, enda ber samkomulag þeirra um mótvægisaðgerðir annað með sér og í úrskurði umhverfisráðuneytisins er rakið að sérfræðistofnanir telji að áhrif framkvæmda á lífríki árinnar sé veruleg en með mótvægisaðgerðum megi að „töluverðu leyti“ koma í veg fyrir neikvæð áhrif eða gera þau „ásættanleg“.

Fyrir matsnefnd eignarnámsbóta lágu gögn vegna kæru á úrskurði um mat á umhverfisáhrifum, og liggja þau einnig fyrir dóminum. Samkvæmt reikningi lögmanns er um að ræða 29 tíma, 11.000 kr. pr. klukkustund, auk virðisaukaskatts. Að mati dómsins er ekki ástæða til að hnekkja því mati nefndarinnar að kostnaður þessi vegna kærumálsins sé hæfilegur.

Að öllu þessu virtu verður fallist á kröfu stefnanda, að fjárhæð 853.255 kr. ásamt dráttarvöxtum frá 14. desember 2006, að frádreginni innborgun stefnda hinn 19. febrúar 2007, að fjárhæð 456.100 kr.

Eftir þessum úrslitum verður stefndi, með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, dæmdur til að greiða stefnanda samtals 268.886 kr. í málskostnað. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Af hálfu stefnanda flutti málið Guðjón Ármannsson hdl.

Af hálfu stefnda flutti málið Reynir Karlsson hrl.

Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir, settur héraðsdómari.

                                                                                D Ó M S O R Ð

Stefndi, Vegagerðin, greiði stefnanda, Veiðifélagi Skagafjarðar, 853.255 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. desember 2006 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 456.100 krónur.

Stefndi greiði stefnanda 268.886 krónur í málskostnað.