Hæstiréttur íslands
Mál nr. 574/2012
Lykilorð
- Ávana- og fíkniefni
- Upptaka
- Refsiákvörðun
- Dráttur á máli
|
|
Fimmtudaginn 24. janúar 2013. |
|
Nr. 574/2012.
|
Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari) gegn Loga Má Hermannssyni (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) |
Ávana- og fíkniefni. Upptaka. Refsiákvörðun. Dráttur á máli.
L var sakfelldur fyrir tilraun til stórfellds fíkniefnabrots með því að hafa, ásamt fjórum öðrum, gert tilraun til að flytja til Íslands frá Danmörku 3.871 g af amfetamíni ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að meðferð málsins hefði dregist óhæfilega fyrir dómi án þess að L yrði um það kennt. Vegna alvarleika brotsins kom hins vegar ekki til álita að skilorðsbinda refsinguna. Með brotinu rauf L skilorð dóms frá árinu 2008. Með vísan til 60. og 77. gr. almennra hegningarlaga þótti refsing L hæfilega ákveðin fangelsi í 3 ár.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 3. júlí 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða og um upptöku ávana- og fíkniefna og steralyfja verði staðfest, en að refsing hans verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfu ákæruvalds, til vara að honum verði ekki gerð sérstök refsing, en að því frágengnu að refsing hans verði lækkuð og hún skilorðsbundin að öllu leyti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða.
Ákæra í málinu var gefin út 24. nóvember 2009 og var það þingfest 3. desember sama ár. Hinn 18. janúar 2010 fór fram aðalmeðferð málsins og var það dómtekið við lok hennar. Héraðsdómur gekk síðan 19. febrúar sama ár, en með dómi Hæstaréttar 16. september 2010 í máli nr. 203/2010 var héraðsdómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar þar sem dómur var kveðinn upp eftir að meira en fjórar vikur voru liðnar frá dómtöku málsins. Héraðsdómur gekk á ný 7. október 2010, en hann var einnig ómerktur og málinu vísað heim til löglegrar meðferðar með dómi Hæstaréttar 10. nóvember 2011 í máli nr. 610/2010 sökum þess að málið hafði ekki verið endurflutt. Hinn áfrýjaði dómur var síðan kveðinn upp 21. febrúar 2012.
Í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, er mælt svo fyrir að sérhver, sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi, eigi rétt á að leyst sé úr máli hans innan hæfilegs tíma. Samkvæmt framansögðu er ljóst að meðferð þessa máls hefur dregist óhæfilega fyrir dómi án þess að ákærða verði um það kennt. Vegna alvarleika brotsins kemur ekki til álita að skilorðsbinda refsinguna af þeirri ástæðu, en sá dráttur sem orðið hefur á málinu hefur áhrif við ákvörðun hennar. Svo sem greinir í héraðsdómi rauf ákærði með broti sínu skilorð dóms sem hann hlaut 17. apríl 2008, en 9 mánuðir af 12 mánaða refsingu samkvæmt þeim dómi voru skilorðsbundnir í 3 ár. Samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ber að dæma upp þá refsingu og tiltaka hana í einu lagi vegna beggja málanna eftir reglum 77. gr. sömu laga. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til þess sem greinir í hinum áfrýjaða dómi um sakaferil ákærða og að brotið lýtur að tilraun til innflutnings á miklu magni af hættulegum fíkniefnum þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 3 ár.
Staðfest eru ákvæði hins áfrýjaða dóms um upptöku og sakarkostnað.
Rétt þykir að allur áfrýjunarkostnað málsins verði felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, sem ákveðin eru með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, Logi Már Hermannsson, sæti fangelsi í 3 ár. Til frádráttar kemur gæsluvarðhaldsvist hans frá 24. september til 1. október 2009.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað eru staðfest.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins er felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 502.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. febrúar 2012
Árið 2012, þriðjudaginn 21. febrúar, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Guðjóni St. Marteinssyni héraðsdómara, kveðinn upp dómur í málinu nr. S-1046/2010: Ákæruvaldið gegn Loga Má Hermannssyni en málið var dómtekið 8. þ.m.
Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 24. nóvember 2009, á hendur:
,,X, kennitala [...],
[...], [...],
Y, kennitala [...],
[...], [...],
Loga Má Hermannssyni, kennitala [...],
[...], [...],
Z, kennitala [...],
[...], [...], og
Þ, kennitala [...],
[...], [...],
fyrir eftirtalin brot framin á árinu 2009:
I.
Gegn ákærðu öllum fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa gert tilraun til að flytja til Íslands frá Danmörku samtals 3.871 g af amfetamíni ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni. Fíkniefnin voru falin í málningarfötum og komið fyrir í pakka sem var póstlagður í Danmörku 6. ágúst, en pakkinn var haldlagður af lögreglunni í Danmörku 11. sama mánaðar, fíkniefnin fjarlægð og gerviefnum komið fyrir í staðinn. Pakkinn sem var sendur til Íslands í kjölfarið, kom til landsins 18. ágúst og var móttekinn af ákærða Y og afhentur meðákærðu Þ og X, sem allir töldu pakkann innihalda fíkniefni.
1. Ákærði Logi skipulagði og fjármagnaði innflutning fíkniefnanna og skipti verkum með meðákærðu Z, X og Þ. Ákærði fékk meðákærða Z til að fara til Danmerkur, sækja fíkniefnin hjá óþekktum manni, pakka þeim og senda til Íslands gegn kr. 300.000 greiðslu fyrir verkið. Ákærði fékk meðákærðu X og Þ til að móttaka fíkniefnin, opna pakkann og geyma efnin þar til þau yrðu sótt.
2. Ákærði Z skipulagði innflutning fíkniefnanna ásamt meðákærða Loga, móttók fíkniefnin erlendis, pakkaði þeim og póstlagði pakkann 6. ágúst til sendingar frá Danmörku til Íslands og fékk meðákærða Y til þess að sækja pakkann í vöruhús Samskipa að Kjalarvogi 7-15 í Reykjavík. Ákærði móttók kr. 300.000 í reiðufé frá meðákærða Loga fyrir þátttöku sína í innflutningnum.
3. Ákærði Y fékk pakkann tollafgreiddan og móttók hann í vöruhúsi Samskipa 7. september, flutti pakkann í rjóður við [...] í Mosfellsbæ, skildi hann eftir þar, en kom svo aftur 9. sama mánaðar ásamt meðákærðu X og Þ og vísaði þeim á pakkann.
4. Ákærði Þ sótti pakkann 9. september að [...] í Mosfellsbæ ásamt meðákærðu X og Y og flutti hann síðan í [...] í Mosfellsbæ ásamt meðákærða X.
5. Ákærði X sótti pakkann 9. september að [...] í Mosfellsbæ ásamt meðákærðu Þ og Y og flutti hann ásamt meðákærða Þ í [...] í Mosfellsbæ og þaðan fór ákærði með pakkann að heimili sínu að [...] í [...] þar sem hann hugðist geyma fíkniefnin uns meðákærði Logi tæki við þeim á ný, en ákærði var handtekinn af lögreglu þegar hann var að fjarlægja efnin úr pakkanum.
Telst þetta varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001, sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.
II.
( )
III.
( )
IV.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Upptökukröfur:
1. Þess er krafist að ofangreind 3.871,17 g af amfetamíni verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni.
2. Þess er krafist að ákærða Loga verði gert að sæta upptöku steralyfja sem fundust við húsleit að [...] í [...] þann 23. september sl., þar af 11 ml af Cidoteston, 2 stk. HCG-Lepori 2500, 20 ml. Pro No Bull Design og 11 ml Equibol 200 sem voru ólöglega flutt til landsins eða ólöglega seld hérlendis samkvæmt heimild í 1. mgr. 181. gr. tollalaga nr. 88/2005, 4. mgr. 48. gr. lyfjalaga nr. 93/1994, og 2. mgr. 68. gr. lyfsölulaga nr. 30/1963.
3. ( ).“
Undir dómsmeðferð málsins var fallið frá II. kafla ákærunnar og III. kaflinn varðar ekki ákærða Loga Má.
Máli annarra en ákærða Loga Más er lokið og voru allir sakfelldir fyrir brotin sem í ákæru greinir. Ákærði Logi Már áfrýjaði málinu. Með dómi í hæstaréttarmálinu nr. 610/2010, sem kveðinn var upp 10. desember 2011, var dómurinn ómerktur og málinu vísað heim eins og lýst er í dóminum.
Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og að gæsluvarðhald ákærða komi til frádráttar refsivist, ef dæmd verður. Málsvarnarlauna er krafist úr ríkissjóði að mati dómsins.
Ákæruliður I
Liðir 1-5
Samkvæmt gögnum málsins lagði lögreglan í Danmörku, hinn 11. ágúst 2009, hald á fíkniefnin sem í þessum kafla ákæru greinir, en pakkann átti að senda hingað til lands. Eins og lýst er í þessum ákærulið voru sett gerviefni í stað fíkniefnisins og pakkinn sendur til Íslands og barst hann hingað til lands 18. ágúst 2009, og sótti ákærði Y pakkann eins og síðar verður rakið.
Nú verður rakinn framburður ákærðu fyrir dómi og hjá lögreglu eins og ástæða þykir og vitnisburður.
Eins og sakarefninu er háttað, þykir rétt að reifa málavexti heilstætt varðandi I. kafla ákæru, en víkja í niðurstöðu að einstökum töluliðum þessa kafla ákærunnar.
Ákærði, Logi Már, neitar sök. Hann kvaðst hafa komist í kynni við meðákærða Z fyrir um tveimur til þremur árum síðan. Þau kynni tengdust sterakaupum og þeir hafi orðið ágætis kunningjar eftir það. Ákærði kvað hrikalegt að meðákærði Z hafi borið á sig sakir, eins og hann gerði hjá lögreglu og fyrir dómi á rannsóknarstigi málsins. Ákærði kvaðst engar skýringar hafa á því hvers vegna Z gerði það. Engin illindi væru á milli þeirra.
Ákærði kvaðst þekkja meðákærða X gegnum kunningja sinn. Ákærði geti ekki skýrt framburð X undir rannsókn málsins þess efnis að ákærði hefði fengið sig til verksins, eins og lýst er í ákærunni. Ákærði kvað engin illindi milli þeirra sem geti skýrt framburð meðákærða X að þessu leyti.
Ákærði Logi fékk 300.000 króna greiðslu inn á reikning sinn, hinn 30. júní 2009. Hann kvaðst taka að sér málningarvinnu og hann fái oftast greitt svart fyrir vinnuna og þannig hafi það verið með þessa fjárhæð. Þetta hafi verið greiðsla fyrir málningarvinnu og ákærði hafi tekið fjárhæðina strax út í reiðufé og notað í uppihald. Ákærði neitaði því að þessir peningar hafi verið greiddir meðákærða Z, en Z bar um það undir rannsókn málsins og í lok rannsóknarinnar fyrir dómi.
Ákærði Logi Már kom ekki til frekari skýrslugjafar fyrir dóminn undir meðferð málsins nú. Engin krafa kom fram um að hann gæfi frekari skýrslu.
Ákærði Z játar sök, utan að hafa skipulagt fíkniefnainnflutninginn ásamt meðákærða Loga Má og að hafa tekið við 300.000 krónum frá meðákærða Loga Má. Ákærði kvaðst hafa skipulagt fíkniefnainnflutninginn einn. Hann kvaðst hafa tekið á móti fíkniefnunum erlendis og póstlagt pakkann með fíkniefnunum 6. ágúst 2009 til sendingar frá Danmörku og fengið meðákærða Y til að sækja pakkann. Ákærði kvaðst hafa flogið til Danmerkur þar sem hann hitti menn á járnbrautarstöð, þar sem hann tók við fíkniefnunum. Efnin flutti hann til Horsens í Danmörku þar sem hann kvaðst hafa pakkað þeim. Hann kvaðst hafa flogið heim, en farið aftur út til að ljúka við pökkun fíkniefnanna og sent pakkann til Íslands með Samskipum. Ákærði kvaðst hafa pakkað efnunum eins og sjá má af ljósmyndum meðal gagna málsins. Eftir heimkomu kvaðst hann hafa rætt við meðákærða Y í því skyni að biðja hann um að sækja pakkann, en þá kvaðst ákærði hafa verið búinn að fá meðákærðu Þ og X til að taka við pakkanum hjá meðákærða Y. Ákærði kvaðst telja að meðákærði Y hafi á þessum tíma skuldað sér um 300 til 400 þúsund krónur, og hann hafi sagt Y að skuldin félli niður, sækti hann pakkann eins og hann gerði. Ákærði kvað meðákærða Y hafa viljað hætta við, en ákærði hafi rætt við hann aftur um verkið og taldi ákærði að hann hafi sagt meðákærða Y frá efnistegund þótt hann væri ekki viss um það. Ákærði kvaðst síðan hafa talið að meðákærði Y hefði sótt pakkann, eins og ráðgert var en ekki hafi verið annað ákveðið en það að pakkinn yrði síðar sóttur til meðákærða Y. Ákærði kvað ákæruna þannig rétt varðandi sig, utan að meðákærði Logi Már hafi ekki komið að málinu eins og lýst er í ákærunni.
Fyrir liggur að ákærði Z bar ítrekað um ætlaðan hlut meðákærða Loga Más í skýrslutökum hjá lögreglu 15., 18. og 30. september 2009. Hann gaf skýrslu fyrir dómi 30. september 2009. Þar kvað hann meðákærða Loga Má hafa komið að máli við sig og fært í tal fíkniefnainnflutninginn sem lýst er í ákærunni. Z kvaðst að beiðni Loga Más hafa farið til Danmerkur þar sem hann tók við um 4 kílóum af amfetamíni til sendingar hingað til lands, allt eins og lýst er í ákærunni. Þá bar ákærði Z um að hafa tekið við 300 þúsund krónum af Loga Má vegna þessa, eins og lýst er í ákæru. Við dómsyfirheyrsluna 30. september 2009 staðfesti Z lögregluskýrslurnar þar sem hann hafði áður lýst háttsemi sinni og tengslum Loga Más við málið efnislega á sama veg. Að öðru leyti bar ákærði eins við framangreinda dómsyfirheyrslu 30. september og undir aðalmeðferð málsins, utan ákærði hefur nú tekið meðákærða Loga Má út úr atburðarásinni.
Ákærði Z var spurður hvers vegna hann hafi undir rannsókn málsins borið um meðákærða Loga Má. Ákærði kvað skýringuna þá að lögreglumaðurinn sem tók af ákærða skýrslur hafi nefnt Loga Má við yfirheyrslu ásamt fleiri nöfnum. Ákærði kvað Loga Má þann eina sem hann kannaðist við og hafi ákærði þá nefnt nafn hans í því skyni að losna úr gæsluvarðhaldi. Ástæða þess að hann bar um þátt ákærða Loga Más hafi verið sú að lögreglan hafi gefið sér til kynna að meðákærði Logi Már ætti hlut að málinu með því að nefna hann. Ákærði var spurður að því hvort honum hafi ekki þótt tímabært að leiðrétta fyrri framburð sinn um þátt meðákærða Loga Más er hann gaf skýrslu fyrir dómi 30. september 2009. Ákærði kvað svo ekki hafa verið.
Z kom fyrir dóminn 8. þ.m. Hann bar að mestu á sama veg og áður um breyttan framburð sinn og um skýringar á breyttum framburði sem rakið var að framan. Hann lýsti því að hann hefði ekkert fengið greitt fyrir hlut sinn í máli þessu og skýrði hann þetta nánar. Z mundi ekki hvort lögreglan hefði rætt við sig utan skýrslutöku án þess að verjandi væri viðstaddur. Þetta kunni að hafa átt sér stað í bifreið á leiðinni á lögreglustöð og nefndi hann hvað bar þar á góma m.a. að hann skyldi játa aðild sína að málinu. Hann kvað lögregluna hafa nefnt ákærða Loga Má á nafn áður en Z gerði það sjálfur. Framburður Z nú varpar ekki nýju ljósi á málavexti og verður ekki rakinn frekar.
Ákærði, Y, játar sök. Hann kvað aðdraganda þátttöku sinnar í málinu hafa verið þann að meðákærði Z kom í heimsókn til ákærða og færði í tal við hann að sækja pakkann sem hér um ræðir. Þetta hafi verið nefnt í flýti og hafi meðákærði Z komið aftur tveimur til þremur dögum síðar og þá með peninga. Hafi þeir þá gert ráðstafanir til að ákærði gæti sótt pakkann. Pakkinn hafi því verið kominn til landsins er meðákærði Z hafði samband við ákærða vegna þessa. Daginn eftir fór ákærði í Samskip til að sækja pakkann en þá kom í ljós að eitthvað vantaði á miðann sem ákærði hafði meðferðis. Fór hann við svo búið og greindi meðákærða Z frá þessu. Kennitala, eða það sem upp á vantaði, var lagfært og ákærði fór aftur í því skyni að sækja pakkann. Enn þurfti ákærði frá að hverfa þar sem pakkinn hafði ekki verið tollafgreiddur að sögn ákærða. Er í ljós kom að búið var að tollafgreiða pakkann fór ákærði og sótti hann, en áður kvað hann sér ekki hafa litist á blikuna, þetta hafi lagst illa í sig og hafi hann ætlað að hætta við, en meðákærði Z hafi fengið ákærða ofan af því og ekki gengið að skipta út manni á þessu stigi málsins, þar sem ákærði hafði áður reynt að sækja pakkann. Ákærði lét því til leiðast og fór í þriðja sinn í því skyni að sækja pakkann. Þá hafði hann ekki næga peninga meðferðis til að greiða fyrir sendinguna og fór hann því enn á fund meðákærða Z og fékk þá peninga sem þurfti áður en hann fór enn í Samskip og fékk pakkann leystan út. Það hafi kostað rúmar 100.000 krónur að því er hann minnti. Ákærði kvaðst hafa farið með pakkann í Mosfellsbæ og mátti hann ráða því hvort hann geymdi pakkann heima hjá sér eða fæli hann, svo sem ákærði kvaðst hafa gert eins og lýst er í ákærulið 3. Eftir það hafi ákærði farið heim til sín og látið meðákærða Z vita á MSN að pakkinn væri kominn. Eftir þetta hafi meðákærði X komið til ákærða og síðan hringt, og eftir það kom meðákærði Þ á bíl og allir þrír hafi farið saman að sækja pakkann. Eftir að ákærði hafði sýnt þeim tveimur hvar pakkinn var, var ákærða ekið heim til sín aftur og afskiptum hans af málinu þar með lokið. Ekki hafi verið rætt um það hvert innihald pakkans væri, en meðákærðu hefðu rætt stærð pakkans og spurt sig hvort hann ætti íþróttatösku undir hann. Ákærði kvað sér ekki hafa verið sagt hvað var í pakkanum, en ákærði kvaðst hafa talið að pakkinn innihéldi stera. Ákærði kvaðst hafa átt að fá fellda niður 400.000 króna skuld sína við meðákærða Z fyrir sinn hlut í málinu og þá hafi meðákærði Z nefnt 200.000 krónur sem viðbótargreiðslu. Niðurfelling skuldarinnar við Z hafi verið ástæða þess að ákærði lét til leiðast og tók að sér verkið sem meðákærði Z bað hann um.
Ákærði Þ játar sök samkvæmt ákærulið 4, en neitar sök að svo miklu leyti sem inngangskafli ákærunnar á við hann. Ákærði kvað aðkomu sína að málinu þá, að hann hafi, daginn fyrir handtöku sína, verið beðinn um að sækja pakka. Hann kvaðst ekki hafa verið tilbúinn til þess og því hafa beðið meðákærða X um að sækja pakkann og hafi hann verið reiðubúinn til þess að sögn ákærða. Ákærði kvaðst ekki vilja greina frá því hver bað hann um að sækja pakkann en tók fram að það hafi ekki verið meðákærði Logi Már. Ákærði staðfesti að hafa verið ásamt meðákærðu X, Loga Má og fleirum á göngu í Fossvogi eins og meðákærði X bar um. Það að sækja pakkann hafi ekki borið á góma þar heldur fyrr sama dag.
Tekin var skýrsla af ákærða Þ hjá lögreglunni 22. september 2009. Við skýrslutökuna óskaði hann eftir að breyta framburði sínum og kvað þá meðákærða X báða hafa verið beðna um að taka að sér að sækja pakkann sem hér um ræðir. Ákærði kvaðst ekki hafa verið tilbúinn til að burðast með mörg kíló af fíkniefnum og hafi hann tekið að sér að keyra meðákærða X. Ákærði kvað mann hafa beðið þá meðákærða X um verkið og fært þetta í tal við þá á sama tíma. Ákærði vildi ekki nafngreina manninn af ótta við hefndaraðgerðir, að sögn.
Ákærði Þ bar enn um þetta fyrir dómi 30. september 2009 þrátt fyrir að hann kysi þá að tjá sig ekki um margar spurningar sem undir hann voru bornar. Hann staðfesti hins vegar lögregluskýrsluna frá 22. september 2009 og kvaðst þar hafa greint satt og rétt frá.
Spurður um þetta fyrir dómi og hvers vegna hann hefði nefnt við skýrslutöku að þeir meðákærði X hefðu verið beðnir um verkið saman, kvaðst ákærði hafa borið um það eins og hann gerði, sökum þess að sér hafi fundist málið líta betur út fyrir sig. Ákærði kvaðst hafa fært erindið í tal við meðákærða, X, er þeir og fleiri voru í göngutúrnum í Fossvogi kvöldið fyrir handtöku ákærða.
Ákærði X játar sök, en kvað meðákærða Loga Má ekki eiga hlut að máli eins og lýst er í 5. ákærulið. Ákærði kvað meðákærða Þ hafa greint sér frá málinu daginn áður en pakkinn var sóttur í Mosfellsbæ, en vitneskjuna um málið fékk ákærði er hann var á gangi í Fossvogi ásamt meðákærða Loga Má, A og B. Daginn eftir hafi ákærði farið á heimili meðákærða Y þaðan sem hann hringdi í meðákærða Þ til að fá hann til að keyra ákærðu og sækja pakkann. Meðákærði Þ kom og fóru allir þrír og sóttu pakkann eins og lýst er í ákærunni. Eftir það hafi meðákærða Y verið ekið heim til sín, en meðákærði Þ ók ákærða á stað þaðan sem hann tók leigubifreið með pakkann. Ekkert var ákveðið hvert framhaldið yrði, hvort einhver sækti pakkann til ákærða, eða hvort hann kæmi pakkanum fyrir á ákveðnum stað. Ákærði kvaðst aðeins hafa beðið fyrirmæla. Ákærði kvað ekki hafa verið endanlega ákveðið hvað hann átti að fá fyrir sinn hlut í málinu. Fyrir dómi, undir rannsókn málsins, nefndi ákærði X að hann hafi átt að fá 35 g af amfetamíni fyrir sína þátttöku í málinu. Ákærði kvað það rétt þótt ekkert hefði verið endanlega ákveðið.
Við skýrslutökur hjá lögreglunni og fyrir dómi, 30. september 2009, bar ákærði meðal annars um göngutúrinn í Fossvogi og að meðákærði Logi Már ætti hlut að máli. Fyrir dómi 30. september 2009 bar ákærði að meðákærði Logi Már hefði fært þetta í tal við sig í göngutúrnum að sækja fyrir sig pakka og taka pakkann upp á heimili sínu og bíða þess að innihaldið yrði sótt. Ákærði lýsti því að meðákærði Logi Már hefði rætt þetta við þá meðákærða Þ, en einkum meðákærða Þ sem hefði greint sér frá því hver þáttur ákærða í þessu yrði, en hann væri sá að sækja pakkann. Meðákærði Þ átti ekki annan hlut að máli en að keyra ákærða eins og hann gerði, en það var eftir að ákærði hringdi í hann frá heimili meðákærða Y, eftir því sem ráða má af framburði ákærða. Þessar upplýsingar hafi ákærði fengið kvöldið fyrir handtöku. Hann hafi átt að fá í sinn hlut 35 g af amfetamíni, en hann taldi að nefnt hefði verið við sig að innihald pakkans væri amfetamín.
Aðspurður kvað hann framburð sinn fyrir dómi og hjá lögreglu um meðákærða Loga Má rangan. Ástæða þess að hann nefndi meðákærða Loga Má undir rannsókninni, hafi verið sú að lögreglan hefði nefnt hann á nafn og hafi lögreglan gefið í skyn að vitað væri um aðild meðákærða Loga Más og fleiri að málinu. Undir rannsókninni hafi komið að því að lögreglan hafi greint ákærða frá því að meðákærði Z hefði játað að meðákærði Logi Már hefði skipulagt innflutninginn og verið eigandi efnisins sem hér um ræðir. Þetta hafi verið nefnt skömmu áður en gæsluvarðhald ákærða rann út og hann því nefnt meðákærða Loga Má í því skyni að losna úr gæsluvarðhaldi. Að sögn ákærða urðu framangreindar upplýsingarnar til þess að ákærði bar um meðákærða Loga Má eins og hann gerði. Spurður að því hvers vegna ákærði leiðrétti þetta ekki síðar við skýrslutöku hjá lögreglu, eða er hann gaf skýrslu fyrir dómi 30. september 2009, kvaðst ákærði ekki vita hvers vegna hann gerði það ekki. Ákærði kvað meðákærða Þ hafa beðið sig um að sækja pakkann, og kærði hafi fengið fyrirmæli frá honum, m.a. um að kaupa sög sem nota átti til að opna pakkann.
X kom fyrir dóminn 26. janúar 2012. Hann var spurður um gönguferðina í Fossvogsdal sem lýst hefur verið hér að framan. Auk sín hafi þar verið A ásamt bróður sínum, Þ og ákærði Logi Már. Hann lýsti samskiptum sínum og Þ í málinu. Hann kvaðst ekki vilja greina frá því hver fékk hann til þátttöku í málinu en eftir það ,,sögðu lögreglumennirnir mér alla söguna“. Hann kvað lögreglumennina hafa sagt til um hvað gerðist og hafi hann ekki gert annað en að segja já þ.á.m. við því að ákærði Logi Már hefði beðið sig um verkið sem lýst var að framan. Þetta hafi gerst við yfirheyrslur hjá lögreglunni. Síðar í skýrslutökunni kvaðst hann ekki geta greint frá því hvar lögreglan hefði lagt línurnar varðandi framburð hans undir rannsókninni en fyrir liggur að ekkert slíkt kemur fram við skýrslutökurnar sem voru hljóðritaðar og teknar upp á myndband. X gaf sömu skýringar og áður varðandi breyttan framburð sinn.
Vitnið A kom fyrir dóminn 26. janúar 2012. Hann kvaðst hafa verið í för með ákærða o.fl. á gangi í Fossvogsdal fyrir atburði sem í ákæru greinir. Með í gönguferðinni hafi verið ákærði Logi Már, sem er vinur vitnisins, X og Þ. Hann lýsti gönguleiðinni o.fl. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við að Þ hafi beðið X að sækja fíkniefnasendingu en hann kvaðst muna vel eftir þessum tíma af ástæðum sem hann nefndi en hann kvað menn hvorki hafa rætt fíkniefnainnflutning né skipulagt slíkt í gönguferðinni. Spurður að því hvort hann geti vottað um það hvað hinum þremur í gönguferðinni fór á milli kvaðst hann ,,nokkurn veginn vottað það“.
Vitnið Kjartan Ægir Kristinsson rannsóknarlögreglumaður lýsti því hvernig lögreglan hér á landi kom að rannsókn málsins, eftir að lögregla í Danmörku lagði hald á pakkann sem senda átti hingað til lands. Hann lýsti samstarfi lögreglu ytra við að áframsenda pakkann hingað til lands, eftir að skipt hafði verið um efni í pakkanum, eins og lýst er í ákærunni. Kjartan kvað grunsemdir um aðild ákærða Loga Más hafa vaknað eftir skýrslutökur af ákærðu Z og X, sem báru um aðild ákærða Loga Más. Eftir framburð þessara tveggja ákærðu beindist rannsóknin að ákærða Loga Má. Kjartani Ægi var kynntur framburður ákærðu Z og X um að lögreglan hefði komið á framfæri við þá upplýsingum um meðákærða Loga Má og þeir því nafngreint hann við skýrslutökur hjá lögreglu eins og lýst var. Kjartan vísaði þessu á bug og kvað ákærðu Z og X hafa nefnt ákærða Loga Má að eigin frumkvæði og vísaði hann í þessu sambandi til upptöku af yfirheyrslum beggja hjá lögreglunni. Kjartan Ægir nefndi í þessu sambandi að ákærðu X og Z þekktu hvorugur hinn og báðir hefðu sætt einangrun í gæsluvarðhaldi er þeir nefndu Loga Má. Kjartan Ægir kvað aldrei hafa borið á góma undir rannsókninni, hjá hvorugum þeirra ákærðu Z eða X, að þeir hafi nefnt Loga Má ranglega til sögunnar og þyrftu þess vegna að leiðrétta framburð sinn þar um.
Vitnið Jónas Ragnar Helgason rannsóknarlögreglumaður skýrði og staðfesti rannsókn á fjármálum ákærða Loga Más. Kannaðar voru færslur á bankareikningum Loga Más á tímabilinu frá 1. janúar 2008 til 17. september 2009. Jónas Ragnar kvað eina færslu stinga í stúf við inn- og útstreymi af reikningi Loga Más á þessum tíma. Færslan sem hér um ræðir var 300.000 króna innlögn á reikninginn 30. júní 2009, og sama dag var tekið út af reikninginum 300.190 krónur í reiðufé. Í skýrslu vitnisins frá 14. október 2009, segir að lögreglan telji 300.000 krónur sem teknar voru út 30. júní 2009, hafa verið fjárhæðina sem Z hafi fengið greidda eins og Z bar um við yfirheyrslu hjá lögreglunni.
Vitnið Guðbrandur Hansson lögreglufulltrúi skýrði og staðfesti skýrslu sem rituð var eftir eftirlit með ákærðu X og Þ fyrir handtöku þeirra. Guðbrandur var stjórnandi lögreglurannsóknar málsins. Hann kvaðst ekki muna til þess að uppi hafi verið grunsemdir lögreglu um ákærða Loga Má að málinu, fyrr en er ákærðu Z og X nefndu hann til sögunnar við skýrslutöku hjá lögreglu.
Vitnið Stefán Sveinsson rannsóknarlögreglumaður lýsti eftirliti sem hann vann í þágu rannsóknar málsins og staðfesti lögregluskýrslu sem hann ritaði um eftirlitið. Ekki þarf að rekja vitnisburð Stefáns eins og á stendur.
Vitnið Eiríkur Ragnarsson lögreglufulltrúi staðfesti skýrslu sem hann ritaði vegna vinnu sinnar að rannsókn málsins. Eiríkur kvaðst hafa verið viðstaddur skýrslutöku af ákærða X er hann nefndi Loga Má til sögunnar. X hafi aldrei verið gefið til kynna að Logi Már kynni að vera viðriðinn málið. X hafi sjálfur nefnt Loga Má og lýst honum og vísaði Eiríkur til upptöku af yfirheyrslunni.
Niðurstaða ákæruliðar I
Ákærðu er öllum gefið að sök stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa gert tilraun til að flytja til Íslands fíkniefnin sem í ákæru greinir og eru efnin sögð hafa verið til söludreifingar í ágóðaskyni. Það er mat dómsins að augljóst sé af efnismagni sem hér um ræðir að efnið var ætlað til söludreifingar í ágóðaskyni eins og lýst er í ákærunni. Sannað er með framburði ákærða Z og með öðrum gögnum málsins að pakkinn var póstlagður í Danmörku 6. ágúst 2009. Þá liggja fyrir gögn frá dönskum lögregluyfirvöldum sem sýna að skipt var um efni í pakkanum og gerviefni sett í stað fíkniefnanna, pakkinn sendur til Íslands 18. ágúst 2009, móttekinn af ákærða Y og afhentur ákærðu Þ og X eins og síðar verður rakið.
Niðurstaða ákæruliðir I 1
Ákærði Logi Már neitar sök. Ákærðu Z og X báru báðir ítarlega um þátt ákærða Loga Más í máli þessu, bæði við skýrslutökur hjá lögreglu og fyrir dómi 30. september 2009, eins og rakið var að framan. Eins og rakið var breyttu báðir meðákærðu framburði sínum undir aðalmeðferð málsins. Ákærðu X og Z sættu einangrun í gæsluvarðhaldi er þeir lýstu hlut ákærða Loga Más. Fullyrðingar um að það hafi verið fyrir tilverknað lögreglu sem þeir nefndu ákærða Loga Má eru fráleitar og að engu hafandi og eiga sér enga stoð í neinu sem fram er komið í málinu eða í gögnum þess. Ákærði Z bar um 300.000 króna greiðslu ákærða Loga Más til sín og fær sú frásögn stoð í rannsókn bankareikninga ákærða Loga Más eins og rakið var. Breyttur framburður ákærðu Z og X um hlut ákærða Loga Más er því órökstuddur og verður ekki lagður til grundvallar niðurstöðunni sem verður byggð á framburði þessara tveggja ákærðu hjá lögreglu og fyrir dómi 30. september 2009. Þessi niðurstaða fær einnig stoð, að hluta, í framburði ákærða Þ um gönguferðina í Fossvogi en ákærðu X og Z báru um að þar hafi ákærði Logi Már borið upp erindi sitt og beðið um aðstoð þeirra. Vitnisburður A, svo langt sem hann nær, er ótrúverðugur og breytir ekki niðurstöðunni. Er samkvæmt því sem nú hefur verið rakið sannað með framburði ákærðu X og Z og með stuðningi af framburði ákærða Þ, en gegn neitun ákærða Loga Más, að hann hafi gerst sekur um háttsemi þá sem í þessum ákærulið greinir, þó þannig að ósannað er að ákærði Logi Már hafi fjármagnað fíkniefnainnflutninginn, en ekkert í gögnum málsins rennir stoðum undir það og er ákærði sýknaður af þeim hluta þessa ákæruliðar en sakfelldur að öðru leyti.
Brot ákærða samkvæmt þessum ákærulið eru rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni.
Ákærði, Logi Már, hefur frá árinu 1999, hlotið 15 refsidóma fyrir nytjastuld, umferðarlagabrot, þjófnað, hylmingu og fyrir brot gegn 1. mgr. 148. gr. almennra hegningarlaga. Þá hefur hann frá árinu 2001, gengist undir 9 lögreglustjórasáttir fyrir umferðarlagabrot. Síðasti refsidómur ákærða Loga Más er frá 28. október 2011, 3 mánaða fangelsi fyrir fíkniefnabrot. Þá hlaut hann hinn 17. apríl 2008 12 mánaða fangelsisdóm fyrir umferðarlagabrot, þar af voru 9 mánuðir skilorðsbundnir í 3 ár. Með broti sínu nú hefur ákærði rofið skilorð dómsins og ber að dæma skilorðshluta hans upp og gera ákærða refsingu í einu lagi, sbr. 65. gr. laga nr. 49/2005 og 77. gr. almennra hegningarlaga. Refsing ákærða er jafnframt ákvörðuð með hliðsjón af 78. gr. almennra hegningarlaga þar sem dæma ber hegningarauka. Brot ákærða nú varðar tilraun til innflutnings á miklu magni hættulegra fíkniefna. Refsing hans þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 3 ár og 9 mánuði.
Þótt nokkur tími sé liðinn frá því ákærði framdi brot sitt kemur skilorðsbinding ekki til álita bæði vegna sakaferils ákærða og sökum alvarleika brotsins.
Með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga skal draga frá refsivist ákærða gæsluvarðhald sem hann sætti vegna málsins.
Þess er m.a. krafist að 3.871,17 g af amfetamíni verði dæmd upptæk. Efnið var dæmt upptækt í upphaflegum dómi yfir öllum ákærðu en sá dómur stendur að því leyti og verður efnið því ekki dæmt upptækt aftur nú.
Með vísan til tilvitnaðra ákvæða í ákæru eru dæmd upptæk steralyf sem fundust við húsleit að [...] í [...], þann 23. september 2009 eins og nánar greinir í dómsorði.
Fyrir liggur yfirlit yfir útlagðan kostnað ákæruvaldsins í málinu að fjárhæð 1.262.785 krónur. Kröfuliðirnir eru vegna kostnaðar lögreglu við bílaleigubifreiðar, reikningar frá símafyrirtækjum og kostnaður vegna skjalaþýðanda. Telja verður að reikningar frá símafyrirtækjum hafi verið óhjákvæmileg útgjöld vegna rannsóknar málsins, sbr. 1. mgr. 216. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærði er því dæmdur til greiðslu þess kostnaðar óskipt með öðrum ákærðu eins og kveðið er á um í dómi yfir þeim. Hins vegar hefur ekki verið sýnt fram á það hvort og þá hvernig útgjöld vegna bílaleigubifreiða hafi verið óhjákvæmileg vegna rannsóknar málsins og verður sá kostnaður ekki lagður á ákærða frekar en kostnaður vegna skjalaþýðanda en sá kostnaður telst ekki til sakarkostnaðar, sbr. 2. mgr. 216. gr. laga nr. 88/2008.
Ákærði er samkvæmt þessu dæmdur til að greiða óskipt með hinum fjórum upphaflega meðákærðu 890.851 krónu í útlagðan sakarkostnað ákæruvaldsins.
Eins og rakið var er mál þetta nú dæmt eftir heimvísun. Samkvæmt því skal ríkissjóður greiða Erlendi Þór Gunnarssyni hæstaréttarlögmanni, verjanda ákærða Loga Más, 251.000 krónur í málsvarnarlaun að meðtöldum virðisaukaskatti.
Hulda María Stefánsdóttir aðstoðarsaksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn
Dómsorð:
Ákærði, Logi Már Hermannsson, sæti fangelsi í 3 ár og 9 mánuði en frá refsivist hans skal draga gæsluvarðhald sem hann sætti vegna rannsóknar málsins.
Upptæk eru dæmd, 11 ml af Cidoteston, 2 stk. HCG-Lepori 2500, 20 ml Pro No Bull Design og 11 ml Equibol 200.
Ákærði greiði óskipt með upphaflega meðákærðu 890.851 krónur í útlagðan sakarkostnað ákæruvaldsins.
Málsvarnarlaun Erlendar Þórs Gunnarssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur, greiðast úr ríkissjóði.