Hæstiréttur íslands

Mál nr. 79/2002


Lykilorð

  • Víxill
  • Tryggingarbréf
  • Vangeymsla
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 19

 

Fimmtudaginn 19. september 2002.

Nr. 79/2002.

Sparisjóður Hafnarfjarðar

(Valgarður Sigurðsson hrl.)

gegn

Lilju Dóru Kolbeinsdóttur

(Gunnar Sólnes hrl.)

 

Víxill. Tryggingarbréf. Vangeymsla. Skaðabætur.

L höfðaði mál til heimtu skaðabóta úr hendi SH. Taldi hún sig hafa orðið fyrir tjóni þar sem SH hafi glatað víxilrétti á hendur útgefanda tveggja víxla en hún hafi sem eigandi fasteignar, sem stóð til tryggingar greiðslu samkvæmt víxlunum, orðið að greiða kröfur samkvæmt þeim. Báðir víxlarnir voru samþykktir til greiðslu af fyrirtækinu H og útgefnir og framseldir eyðuframsali af sama einstaklingnum. SH hafði höfðað mál á hendur H og útgefanda víxlanna en fallið frá kröfum á hendur útgefanda, þar sem víxilréttur hafi verið fyrndur á hendur honum. Dómkröfur SH á hendur H voru teknar til greina með áritun um aðfararhæfi en nokkrum dögum síðar var bú H tekið til gjaldþrotaskipta. Leitaði SH þá fullnustu í fasteign L, sem veðsett hafði verið með tveimur tryggingarbréfum til tryggingar greiðslu víxlanna. Áður en boð var samþykkt í eignina voru SH greiddar að fullu kröfur hans samkvæmt víxlunum. Talið var að SH hafi sem víxilhafa verið rétt að beina kröfum sínum samkvæmt víxlunum hvort sem var að útgefanda þeirra, samþykkjanda eða þeim saman. Hefði hann beint slíkri kröfu í tíma að útgefanda víxlanna og útgefandinn leyst þá til sín, hefði útgefandinn öðlast kröfu samkvæmt víxlunum á hendur samþykkjanda þeirra samkvæmt ákvæðum víxillaga. Veð samkvæmt tryggingarbréfunum hefði staðið til tryggingar þeirri kröfu útgefanda víxlanna á hendur samþykkjanda þeirra með sama hætti og hún stóð til tryggingar kröfu SH á hendur samþykkjandanum. Tryggingarbréfin með veði í fasteign L hafi þannig staðið til tryggingar greiðslu samþykkjanda víxlanna, sem var endanlegur greiðandi þeirra, án tillits til þess hvort SH hafi kosið sem víxilhafi að beina kröfu sinni um greiðslu þeirra að útgefanda eða samþykkjanda. Var SH því ekki talinn hafa bakað L tjón með því að halda ekki fram víxilkröfu á útgefanda víxlanna. Samkvæmt framansögðu var SH sýknaður af kröfu L.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. febrúar 2002. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefndu, en til vara að krafan verði lækkuð frá því, sem dæmt var í héraði. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.

 

I.

Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi gaf Hlunnavík ehf. út tryggingarbréf 14. nóvember 1995 til tryggingar á skuld samkvæmt víxli að fjárhæð 1.600.000 krónur, sem samþykktur var af félaginu til greiðslu 15. febrúar 1996. Með tryggingarbréfinu var handhafa víxilsins settur að veði með þriðja veðrétti nánar tilgreindur eignarhluti í fasteigninni Hverfisgötu 72 í Reykjavík. Var í bréfinu tekið fram að veðsetningin næði á sama hátt til endurnýjunarvíxla fyrir skuldinni. Á bréfinu var áritun um samþykki þáverandi þinglýsts eiganda fasteignarinnar fyrir veðsetningunni. Þá gaf Hlunnavík ehf. út annað tryggingarbréf 16. janúar 1997 fyrir skuldum að fjárhæð allt að 300.000 krónur, sem félagið og/eða Viðar Halldórsson kynnu að standa í eða ábyrgjast, þar á meðal víxilskuldum. Til tryggingar var sami eignarhluti í Hverfisgötu 72 og að framan getur veðsettur með fjórða veðrétti með samþykki þáverandi þinglýsts eiganda hans.

Með stefnu 19. mars 1998 höfðaði áfrýjandi mál á hendur Hlunnavík ehf. og Viðari Halldórssyni til greiðslu á tveimur víxlum. Var annar víxillinn að fjárhæð 1.600.000 krónur, en hinn að fjárhæð 300.000 krónur. Báðir voru víxlarnir með gjalddaga 1. mars 1997, samþykktir til greiðslu af Hlunnavík ehf. og útgefnir af Viðari Halldórssyni. Í málinu féll áfrýjandi frá kröfum á hendur Viðari Halldórssyni, en að svo búnu var stefna í því árituð um aðfararhæfi í Héraðsdómi Reykjaness 16. apríl 1998. Heldur stefnda í máli þessu fram að áfrýjandi hafi þurft að falla frá kröfum á hendur Viðari Halldórssyni, enda hafi víxilréttur verið fyrndur á hendur honum þegar stefnan var birt. Því er ekki andmælt af áfrýjanda. Ekki er ágreiningur í málinu um að umræddur víxill að fjárhæð 1.600.000 krónur hafi verið til framlengingar á víxli þeim með gjalddaga 15. febrúar 1996, sem vísað var til í framangreindu tryggingarbréfi 14. nóvember 1995, og hafi það því staðið samkvæmt efni sínu til tryggingar greiðslu víxilsins. Á sama hátt er ágreiningslaust að tryggingarbréfið 16. janúar 1997 hafi samkvæmt efni sínu tekið til áðurnefnds víxils að fjárhæð 300.000 krónur.

Samkvæmt gögnum málsins var bú Hlunnavíkur ehf. tekið til gjaldþrotaskipta 22. apríl 1998. Leitaði áfrýjandi því fullnustu í fasteign þeirri, sem veðsett hafði verið til tryggingar greiðslu víxlanna, en hana hafði stefnda þá keypt með kaupsamningi og afsali 18. apríl 1997. Var eignin seld nauðungarsölu að beiðni hans á uppboði 21. september 1999. Áður en boð í eignina var samþykkt voru áfrýjanda greiddar að fullu kröfur hans samkvæmt víxlunum með samtals 3.214.013 krónum. Féll nauðungarsalan því niður.

Stefnda höfðaði mál þetta 24. janúar 2001 til heimtu skaðabóta úr hendi áfrýjanda. Telur hún sig hafa orðið fyrir tjóni, þar sem hún hafi sem eigandi fasteignarinnar, sem stóð til tryggingar greiðslu á skuld samkvæmt áðurnefndum tveimur víxlum, orðið að greiða kröfur samkvæmt þeim. Telur hún að áfrýjandi hafi valdið sér þessu tjóni með því að hafa fyrir vangeymslu glatað víxilrétti á hendur útgefanda víxlanna, en með því hafi áfrýjandi bakað sér skaðabótaskyldu.

II.

Framangreind tvö tryggingarbréf, sem bæði voru með veði í fasteign stefndu, stóðu eins og að framan er rakið til tryggingar greiðslu hvort á sínum víxlinum. Báðir víxlarnir voru samþykktir til greiðslu af Hlunnavík ehf. og útgefnir og framseldir eyðuframsali af Viðari Halldórssyni. Áfrýjanda var sem víxilhafa samkvæmt 2. mgr. 47. gr. víxillaga nr. 93/1933 rétt að beina kröfum sínum samkvæmt víxlunum hvort sem var að útgefanda þeirra, samþykkjanda eða þeim saman. Hefði hann beint slíkri kröfu í tíma að útgefanda víxlanna og útgefandinn leyst þá til sín, hefði útgefandinn öðlast kröfu samkvæmt víxlunum á hendur samþykkjanda þeirra, sbr. 3. mgr. 47. gr. og 2. mgr. 28. gr. víxillaga. Hefði veð samkvæmt framangreindum tryggingarbréfum staðið til tryggingar þeirri kröfu útgefanda víxlanna á hendur samþykkjanda þeirra með sama hætti og það stóð til tryggingar kröfu áfrýjanda á hendur samþykkjandanum. Tryggingarbréfin með veði í fasteign stefndu stóðu þannig til tryggingar greiðslu samþykkjanda víxlanna, sem var endanlegur greiðandi þeirra, án tillits til þess hvort áfrýjandi kaus sem víxilhafi að beina kröfu sinni um greiðslu þeirra að útgefanda eða samþykkjanda. Áfrýjandi hefur því ekki bakað stefndu tjón með því að halda ekki fram víxilkröfu á útgefanda víxlanna. Samkvæmt framansögðu verður áfrýjandi sýknaður af kröfu stefndu.

Stefnda verður dæmd til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Sparisjóður Hafnarfjarðar, er sýkn af kröfu stefndu, Lilju Dóru Kolbeinsdóttur.

Stefnda greiði áfrýjanda samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 11. desember 2001.

Mál þetta, sem dómtekið var 15. f.m., er höfðað 24. janúar 2001 af Lilju Dóru Kolbeinsdóttur, Hverfisgötu 72, Reykjavík, á hendur Sparisjóði Hafnarfjarðar, Strandgötu 8-10, Hafnarfirði.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða henni 3.214.013 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. desember 1999 til 7. febrúar 2000, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til 1. júlí 2001, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda. Hann krefst ennfremur málskostnaðar.

I.

Dómkrafa stefnanda í málinu er bótakrafa sem grundvölluð er á því að stefndi hafi valdið stefnanda tjóni með því að glata víxilrétti á hendur útgefanda tveggja víxla, samtals að höfuðstól 1.900.000 krónur. Víxlar þeir sem hér um ræðir voru gefnir út 14. janúar 1997 af Viðari Halldórssyni, Hjallabraut 94 í Hafnarfirði, og samþykktir til greiðslu 1. mars sama árs af Baldri Óskarssyni fyrir hönd Hlunnavíkur ehf. Víxlana framseldi útgefandi til stefnda. Ekki er um það ágreiningur að til tryggingar greiðslu á kröfu samkvæmt öðrum þessara víxla að fjárhæð 1.600.000 krónur var stefnda með veðtryggingarbréfi, útgefnu af Hlunnavík ehf., sett að veði með 3. veðrétti og uppfærslurétti íbúð á 1. hæð í fasteigninni Hverfisgötu 72 í Reykjavík. Þá gáfu Hlunnavík ehf. og Viðar Halldórsson út tryggingarbréf 16. janúar 1997 með veði í sömu íbúð til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á skuldum þeirra við stefnda, þar með töldum víxilskuldum. Nam fjárhæð þess veðtryggingarbréfs 300.000 krónum og mun því hafa verið ætlað að vera trygging fyrir greiðslu á kröfu sömu fjárhæðar samkvæmt hinum víxlinum. Voru báðar þessar veðsetningar samþykktar af þáverandi eiganda umræddrar íbúðar með áritun hennar á tryggingarbréfin. Víxlarnir fóru báðir í vanskil og höfðaði stefndi mál á hendur útgefanda og samþykkjanda með stefnu útgefinni 19. mars 1998. Voru dómkröfur stefnda á hendur Hlunnavík ehf. teknar til greina með áritun dómara á stefnu 16. apríl sama árs. Þar sem víxilréttur á hendur útgefanda víxlanna, Viðari Halldórssyni, var fallinn niður vegna fyrningar við höfðun málsins féll stefndi hins vegar frá kröfum á hendur honum. Bú Hlunnavíkur ehf. var síðan tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms 22. apríl 1998. Óumdeilt er að við skiptin fékkst ekkert greitt upp í kröfu stefnda samkvæmt víxlunum. Beindi stefndi þá kröfum sínum að stefnanda málsins, sem þá var orðinn eigandi hinnar veðsettu íbúðar, og krafðist síðar nauðungarsölu á íbúðinni á grundvelli þeirra veðtryggingarbréfa sem hér um ræðir. Fór framhaldssala fram hinn 21. september 1999. Er ekki um það ágreiningur nú að áður en samþykkisfresti lauk greiddi stefnandi stefnda að fullu þær fjárkröfur sem veðtryggingarbréfunum var ætlað að tryggja. Í kjölfarið var uppboðsmálið fellt niður. Nam heildargreiðsla stefnanda vegna þessa stefnufjárhæð málsins, 3.214.013 krónum.

 Þegar hinni veðsettu íbúð var afsalað til stefnanda 18. apríl 1997 framseldi seljandi til hennar allar kröfur og öll réttindi er kynnu að stofnast á grundvelli umræddra veðtryggingarbréfa. Þá skyldi framsalið ennfremur taka til þeirra víxla sem veðbréfunum var ætlað að tryggja greiðslu á.

II.

 Í stefnu er því haldið fram að stefnandi hafi engar tilkynningar fengið frá stefnda um vanskil á þeim víxlum sem mál þetta varðar fyrr en með bréfi 25. mars 1998. Þegar stefnandi hafi verið búinn að greiða víxilkröfur stefnda að fullu og fá uppboðsmálið fellt niður hafi komið í ljós að stefndi hafi ekki haft lögmæta uppboðsheimild þar sem ekki hafi verið fengin staðfesting á veðrétti stefnda í fasteign stefnanda.

Stefnandi byggir dómkröfu sína á því að stefndi hafi valdið henni tjóni með því að glata víxilrétti á hendur útgefanda þeirra víxla sem stefnandi greiddi. Stefndi hafi þannig ekki hafið innheimtuaðgerðir á hendur þeim aðilum sem ábyrgst höfðu greiðslu víxlanna fyrr en víxilréttur á hendur útgefanda þeirra hafi verið niður fallinn vegna sökum fyrningar. Þá hafi samþykkjandi víxlanna verið úrskurðaður gjaldþrota nokkrum dögum eftir að dómur á hendur honum gekk. Þannig hafi stefnandi, sem ekki hafi fyrr en seint og um síðir fengið vitneskju um að víxlarnir væru í vanskilum, ekki átt þess kost að leysa víxlana til sín og annast sjálf innheimtu á þeim á meðan víxilréttur á hendur víxilskuldurum væri enn í gildi. Telur stefnandi að skaðabótaskylda stefnda styðjist við 2. tölulið 2. mgr. 19. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og almennar reglur skaðabótaréttar.

Stefnandi innti þá greiðslu sína, sem hann nú endurkrefur stefnda um, af hendi 8. desember 1999. Endurkröfu var beint að stefnda með bréfi lögmanns stefnanda 7. janúar 2000. Í samræmi við þetta krefst stefnandi vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. desember 1999 til 7. febrúar 2000, en dráttarvaxta frá þeim degi til greiðsludags.      

III.

Í greinargerð stefnda er því haldið fram að stefnandi hafi ekki orðið fyrir tjóni vegna þeirra víxla sem málið fjallar um þar sem samþykkjandi þeirra og útgefandi tryggingarbréfanna hafi sjálfur greitt þá að fullu. Við munnlegan flutning málsins var fallið frá þessari málsástæðu.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hann sé ekki ábyrgur fyrir því tjóni sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir og dómkröfur hennar í málinu snúa að. Kröfu um bætur verði einvörðungu beint að útgefendum tryggingarbréfanna. Með þeim hafi handhafa víxlanna og þar með stefnda við framsal þeirra til hans verið tryggt skaðleysi við vanskil. Réttur stefnda til að ganga að veðinu við vanskil samþykkjanda víxlanna hafi verið ótvíræður. Verði víxilhafi aldrei sóttur til ábyrgðar þó að samþykkjandi víxlanna og útgefendur tryggingarbréfanna hafi ekki greitt víxlana á gjalddaga þeirra. Með greiðslu á víxilkröfunum hafi stefnandi ekki öðlast rétt til að krefja víxilskuldara um endurgreiðslu á grundvelli víxilréttar þar sem hún hafi ekki verið víxilskuldari. Víxilkröfurnar hafi fallið niður við greiðslu á þeim. Þannig hafi fyrning víxilréttar enga þýðingu að því er varðar hugsanlegan rétt stefnanda til skaðabóta. Til þess að öðlast stöðu víxilhafa hefði stefnandi þurft að fá víxlana framselda sér fyrir gjalddaga þeirra. Það hefði hins vegar ekki breytt rétti útgefanda víxlanna og þeirra sem leiddu rétt sinn frá honum til þess að fá fullnustu víxilkrafnanna í fasteign stefnanda ef hann eða þeir hefðu leyst víxlana til sín.

Stefndi byggir á því að sönnunarbyrðin fyrir því að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni sem stefndi beri ábyrgð á hvíli á stefnanda. Þar sem sú sönnun hafi ekki tekist verði stefnandi sjálf að bera það tjón sem hún kveðst hafa orðið fyrir.

IV.

Sú greiðsla stefnanda sem hún innti af hendi til stefnda vegna þeirra tveggja víxla sem málið varðar var grundvölluð á því að tryggingarbréf með veði í íbúð stefnanda stæðu til tryggingar greiðslu þeirra. Stefnandi ber því ekki við til stuðnings bótakröfu sinni að þessi grundvöllur fyrir greiðslu hennar hafi ekki verið fyrir hendi. Í málinu krefst hún hins vegar bóta úr hendi stefnda þar sem hann hafi fyrir fyrningu glatað ítrasta fullnusturétti sínum samkvæmt víxlunum.

Fyrir liggur að víxilréttur á hendur útgefanda þeirra víxla sem hér um ræðir var fyrndur þá er stefndi höfðaði sem víxilhafi mál á hendur honum til greiðslu á þeim. Að lögum leiðir það aðgerðarleysi stefnda að láta hjá líða að viðhalda víxilrétti sínum gagnvart útgefanda víxlanna ekki til þess að réttur stefnda til að leita fullnustu í hinni veðsettu eign falli niður. Stefndi kann hins vegar að hafa bakað sér bótaábyrgð gagnvart eiganda veðsins, stefnanda málsins, sem svarar til þess sem eigandinn hefur farið á mis við úr hendi víxilskuldara vegna þessa aðgerðarleysis. Má um þetta vísa til H.1994.1793 og 1997.2862.

Stefnanda var ekki svo séð verði kunnugt um að umræddir víxlar væru í vanskilum fyrr en eftir að víxilréttur á hendur útgefanda þeirra var fyrndur. Þar með var hún svipt þeim möguleika að leysa víxlana til sín á meðan víxilréttur samkvæmt þeim var enn í gildi og leita í kjölfarið fullnustu gagnvart útgefanda og samþykkjanda á grundvelli þeirra. Hefði stefndi fengið dóm á hendur víxilskuldurum á grundvelli víxilskuldbindinga þeirra hefði stefnanda ennfremur verið fær sú leið að fá dóminn framseldan sér og leita fullnustu hjá þeim samkvæmt honum.

Stefndi hefur ekki sýnt fram á það að útgefandi víxlanna hafi verið ógjaldfær þegar fullnusturéttur á hendur honum að víxilrétti var enn í gildi, en telja verður að hann beri hallann af því að ekki liggja fyrir upplýsingar um gjaldfærni útgefandans á þessum tíma.

Þegar framangreint er virt ber að fallast á það með stefnanda að stefndi sé bótaskyldur gagnvart henni vegna tjóns sem hún telst hafa orðið fyrir og rakið verður til þess að stefndi gætti ekki ítrasta fullnusturéttar síns samkvæmt þeim skuldaskjölum sem tryggingarbréfum með veði í eign stefnanda var ætlað að tryggja greiðslu á. Þá hefur af hálfu stefnda ekki verið teflt fram málsástæðum sem leitt gætu til þess að stefnandi hefði fyrirgert rétti sínum til bóta.

Ekki er tölulegur ágreiningur í málinu. Verður stefnda því gert að greiða stefnanda 3.214.013 krónur ásamt vöxtum svo sem í dómsorði greinir, sbr. 7. og 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987.

Eftir framangreindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.   

Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan, en dómarinn fékk málið til meðferðar 12. september sl.

D ó m s o r ð :

Stefndi, Sparisjóður Hafnarfjarðar, greiði stefnanda, Lilju Dóru Kolbeinsdóttur, 3.214.013 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. desember 1999 til 7. febrúar 2000, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til 1. júlí 2001, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 200.000 krónur í málskostnað.