Hæstiréttur íslands
Mál nr. 17/2009
Lykilorð
- Vinnusamningur
- Kjarasamningur
- Starfsmannaleiga
|
|
Fimmtudaginn 24. september 2009. |
|
Nr. 17/2009. |
Alhjúkrun ehf. (Hrafnhildur Stefánsdóttir hrl.) gegn Ásgerði Ósk Júlíusdóttur (Gísli Guðni Hall hrl.) |
Vinnusamningur. Kjarasamningur. Starfsmannaleiga.
Á starfaði sem sjúkraliði hjá A ehf. Í málinu hélt Á því fram að launakjör sín samkvæmt ráðningarsamningi við A ehf. hefðu verið lakari en gildandi kjarasamningur á félagssvæðinu milli Sjúkraliðafélags Íslands og Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu kvað á um. Byggði Á á því að ráðningarsamningur hennar væri því ógildur með vísan til 1. gr. laga nr. 55/1980 og krafði hún A ehf. um mismun launa samkvæmt umræddum kjarasamningi og ráðningarsamningi. Talið var að A ehf. gæti ekki borið fyrir sig að 1. gr. laganna ætti ekki við hann en félagið taldi sig ekki vera aðila að umræddum kjarasamningi þar sem það hefði ekki veitt neinum umboð til að gera kjarasamning fyrir sína hönd. Þá var ekki fallist á það með A ehf. að Samtök fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu gætu ekki talist aðildarsamtök vinnumarkaðarins í skilningi nefndrar 1. gr. og skipti þá ekki heldur máli að það væri ekki hlutverk samtakanna samkvæmt lögum þeirra að gera kjarasamninga. Gæti A ehf. ekki staðið fyrir utan atvinnurekendasamtök er gerðu kjarasamninga og haldið því síðan fram að ákvæði 1. gr. laga nr. 55/1980 ætti ekki við hans starfsmenn og greitt starfsmönnum sínum lægri laun en kjarasamningar segðu til um. Þá var umræddur kjarasamningur talinn vera almennur í skilningi áðurnefnds ákvæðis. Var A ehf. því dæmt til að greiða Á mismun launa hennar samkvæmt gildandi kjarasamningi og ráðningarsamningi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. janúar 2009. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefndu en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi greiði stefnu málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Alhjúkrun ehf., greiði stefndu, Ásgerði Ósk Júlíusdóttur, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
D Ó M U R
Héraðsdóms Reykjavíkur 15. desember 2008.
Mál þetta, sem var dómtekið 5. desember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Ásgerði Ó. Júlíusdóttur, Sólvallagötu 72, Reykjavík á hendur Alhjúkrun ehf., Vegghömrum 37, Reykjavík, með stefnu birtri 26. maí 2008.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi greiði henni 1.249.033 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 119.445 kr. frá 1. febrúar 2007, af 95.828 kr. frá 1. mars 2007, af 87.883 kr. frá 1. apríl 2007, af 148.754 kr. frá 1. maí 2007, af 113.585 kr. frá 1. júní 2007, af 118.490 kr. frá 1. júlí 2007, af 90.071 kr. frá 1. ágúst 2007, af 251.219 kr. frá 1. september 2007, af 158.590 kr. frá 1. október 2007 og af kr. 124.325 frá 1. nóvember 2007, í hverju tilviki til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.
Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda. Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar. Þá er gerð krafa um að stefnandi verði dæmd til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins.
Málavextir
Stefnandi er sjúkraliði. Hún hefur lokið nokkrum námskeiðum sem hafa verið metin af námsmatsnefnd sjúkraliða. Þá er hún félagsmaður í Sjúkraliðafélagi Íslands (SLFÍ). Stefndi er starfsmannaleiga og er á skrá sem starfsmannaleiga hjá Vinnumálastofnun.
Hinn 4. september 2006 gerðu málsaðilar samning sín á milli. Stefnandi var þar ráðin sem sjúkraliði hjá stefnda frá og með 1. september 2006 og samstarfssamningi, sem dagsettur er 5. ágúst. Stefnandi var skuldbundin til að taka að lágmarki 7 vaktir á mánuði sem samsvarar 30% starfi.
Í 2. gr. ráðningarsamningsins kemur fram að samningurinn sé uppsegjanlegur með 1. mánaðar fyrirvara af beggja hálfu.
Í 3. gr. ráðningarsamningsins er fjallað um starfssvið og skyldur. Þar kemur fram að starfsvettvangur sé breytilegur eftir verkefnum og samkomulagi við starfsmann. Stefnandi muni vinna við heilbrigðisþjónustu á heilbrigðisstofnunum á öldrunarsviði.
Í 4. gr. kemur fram að stefnandi sé ráðin í tímavinnu og vinnutíminn sé ákveðinn 3 vikur fram í tímann. Þá var listi yfir lögbundna frídaga og stefnandi gat merkt við þá daga sem hún var tilbúin að vinna.
Í 5. gr. er fjallað um laun. Þar kom einnig fram að veikindadagar fyrir 100% vinnu væri 28.800 kr. sem væri inni í grunnlaununum og kæmu inn í 10. vakt, ef veikindadagar væru ekki nýttir. Í 6. gr. var tilgreint að ekki væru greiddar vaktir sem féllu niður vegna veikinda. Í 7. gr. var fjallað um trúnað.
Í ráðningarsamningum var ekki vísað til neins kjarasamnings sem gilda myndi um laun og önnur starfskjör starfsmanns.
Síðsumars 2007 leitaði stefnandi til SLFÍ vegna óánægju með starfskjör hjá stefnda og þar var talið að laun og starfskjör stefnanda væru lakari heldur en kveðið er á um í fyrrnefndum kjarasamningi.
Með bréfi 11. september 2007 til stefnda var því haldið fram að ráðningarkjör stefnanda væru langt undir lágmarkskjörum sem kveðið sé á um í gildandi kjarasamningum Sjúkraliðafélags Íslands (SLFÍ) og því brot á 1. gr. laga 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Samtök atvinnulífsins, sem stefndi á aðild að, svöruðu því til að þau hefðu ekki gert kjarasamning við SLFÍ og teldu aðildarfyrirtæki sín óbundin af kjarasamningum fjármálaráðherra eða einstakra sjálfseignarstofnana.
Stefnandi lét af störfum hjá stefnda í októberlok 2007.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi er sjúkraliði og félagsmaður í SLFÍ. Stefnandi heldur því fram, að þar sem ekki sé tilgreint í ráðningarsamningi stefnanda hvaða kjarasamningur gildi, þá gildi kjarasamningur Sjúkraliðafélags Íslands við Samtök fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu um laun og önnur starfskjör hennar. Stefnandi bendir jafnframt á að launataxtar samkvæmt kjarasamningi SLFÍ og ríkissjóðs séu samsvarandi og í tilgreindum samningi, þannig að á sama hátt beri að taka kröfu hennar til greina á grundvelli þess samnings.
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda skulu laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, vera lágmarkskjör, óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á því svæði er samningurinn tekur til. Samningar um lakari starfskjör eru ógildir samkvæmt ákvæðinu.
Þar sem launakjör stefnanda samkvæmt ráðningarsamningi stefnanda við stefnda eru bersýnilega miklu lakari heldur en samkvæmt kjarasamningi SLFI og við Samtök fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu, byggir stefnandi á því að ráðningarsamningurinn sé ógildur hvað launakjörin varðar, með vísan til 1. gr. laga nr. 55/1980. Hún eigi rétt til launa samkvæmt kjarasamningi Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu og Sjúkraliðafélags Íslands. Stefnandi telur að stefndi hafi brotið alvarlega gegn lögunum nr. 55/1980 með því að ákveða laun stefnanda einhliða, án tengingar við gildan kjarasamning.
Til viðbótar framangreindu er lögð áhersla á að stefndi er svonefnd starfsmannaleiga. Rekstur starfsmannaleigu felst í að ráða í sína þjónustu starfsmenn en fela þeim að vinna á öðrum vinnustöðum, fyrir þriðja aðila (þjónustukaupanda). Ástæða er til að gera ríkar kröfur til starfsmannaleiga um að þær virði öll réttindi starfsmanna sinna. Þær geta ekki skýlt sér á bak við að vera engum kjarasamningum háð. Í tilviki stefnanda voru kaupendur að þjónustu stefnanda íslenska ríkið og stofnanir, sem eru aðilar að kjarasamningnum Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu og Sjúkraliðafélags Íslands. Er það viðbótarröksemd fyrir því að leggja beri til grundvallar síðastnefndan kjarasamning.
Dómkrafa stefnanda er byggð á útreikningi Gunnars Gunnarssonar, framkvæmdastjóra SLFÍ, á vangreiddum launum til stefnanda í hverjum mánuði ársins 2007.
|
Mánuður |
skv. kjarasamn |
skv. launas. |
vangr. laun |
launat. gjöld |
samtals |
|
jan. 2007 |
317.869 |
203.892 |
113.978 |
5.467 |
119.445 |
|
feb. 2007 |
261.190 |
169.854 |
91.336 |
4.492 |
95.828 |
|
mars 2007 |
271.973 |
163.591 |
108.382 |
4.678 |
113.060 |
|
apríl 2007 |
465.365 |
324.615 |
140.750 |
8.004 |
148.754 |
|
maí 2007 |
359.634 |
252.235 |
107.399 |
6.186 |
113.585 |
|
júní 2007 |
276.781 |
163.052 |
113.729 |
4.761 |
118.490 |
|
júlí 2007 |
278.780 |
193.505 |
85.276 |
4.795 |
90.071 |
|
ágúst 2007 |
489.412 |
246.611 |
242.801 |
8.418 |
251.219 |
|
sept. 2007 |
385.356 |
195.001 |
190.355 |
6.628 |
196.983 |
|
okt. 2007 |
332.944 |
214.346 |
118.598 |
5.727 |
124.325 |
|
Vangreidd laun samtals |
|
|
1.312.603 |
59.156 |
1.371.759 |
Forsendur launaútreiknings fyrir janúarmánuð 2007 eru nánar tiltekið að laun stefnanda, samkvæmt launaflokki F10-1, fyrir 11,5 klst. í dagvinnu hafi átt að vera 16.008 kr. fyrir 94 klst. í eftirvinnu 220.994 kr. fyrir 18,8 klst. í kaffitímum 44.199 kr. eða samtals 281.201 kr. Þar við bætast 13,04% orlofslaun. Laun samtals reiknast samkvæmt þessu 317.869 kr. Laun stefnanda að meðtöldum orlofslaunum samkvæmt launaseðli voru 203.892 kr. Mismunur, eða vangreidd laun, reiknast samkvæmt þessu 113.978 kr. Launatengdu gjöldin eru 954 kr. í orlofsheimilasjóð SLFÍ (0,30% af heildarlaunum), 2.066 kr. í Starfsþróunarsjóð SLFÍ (0,65% af heildarlaunum), 699 kr. í Starfsmenntunarsjóð BSRB (0,22% af heildarlaunum og kr. 1.74 í Fjölskyldu- og styrktarsjóð BSRB (0,55% af heildarlaunum), eða samtals 5.467 kr.
Samsvarandi forsendur liggja til grundvallar vangreiddum launum fyrir hina mánuðina og vísast til fyrrnefndra dómskjala. Þau voru kynnt stefnda með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 18. apríl 2008.
Krafa stefnanda um dráttarvexti er reist á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafist er dráttarvaxta af launakröfum frá gjalddaga, en launin voru greidd eftir á, fyrsta hvers mánaðar.
Krafa stefnanda um málskostnað er reist á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um fjárhæð er vísað til gjaldskrár Markarinnar lögmannsstofu hf. Krafa um að við ákvörðun málskostnaðar verði gætt að skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af þóknun lögmanns síns er skaðleysiskrafa, þar sem stefnandi er ekki virðisaukaskattskyld og eignast því ekki frádráttarrétt við greiðslu skattsins.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Sýknukrafa stefnda er byggð á því að stefnandi hafi fengið þau laun og starfskjör sem henni bar skv. ráðningarsamningi aðila og eigi því ekki frekari kröfur á hendur stefnda.
Stefndi mótmælir því að kjarasamningur Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu og SLFÍ gildi um laun og önnur starfskjör starfsmanna hans. Í fyrsta lagi eigi stefndi hvorki aðild að þeim samtökum né hafi veitt þeim umboð til gerðar kjarasamnings fyrir sína hönd. Í öðru lagi sé fyrrgreindur kjarasamningur hvorki almennur kjarasamningur né geti Samtök fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu talist aðildarsamtök vinnumarkaðarins í skilningi 1. gr. laga 55/1980.
Samkvæmt lögum Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu er það ekki tilgangur samtakanna að standa að gerð kjarasamninga. Kjarasamningar þeir sem samtökin gera taka einvörðungu til þeirra stofnana sem eiga aðild að samtökunum og veita þeim sérstakt umboð til gerðar viðkomandi kjarasamnings fyrir sína hönd. Kjarasamningur SLFÍ og Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu (SFH) uppfylli því ekki ofangreind skilyrði 1. gr. laga 55/1980 og er því ekki ákvarðandi um lágmarkskjör stefnanda. Sama gildi um kjarasamning SLFÍ og ríkisins.
Engin rök eru fyrir því að lög um starfsmannaleigur nr. 139/2005 leiði til þess að leggja beri kjarasamning SFH til grundvallar við ákvörðun kröfu stefnanda. Þá mótmælir stefndi því einnig sem röngu að launakjör stefnanda séu lakari en kjarasamningur SLFÍ og Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu (SFH) gerir ráð fyrir.
Jafnvel þótt litið yrði svo á að kjarasamningur SFH eigi við, verður stofnanasamningurinn milli SLFÍ og Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu um forsendur röðunar starfa við stofnanir innan SFH, fráleitt lagður til grundvallar, hvorki varðandi röðun í launaflokk né annað. Gildissvið samningsins er skýrt afmarkað við þá sem starfa á stofnunum innan SFH, sjá 1. gr. stofnanasamningsins, sbr. kjarasamninginn, gr. 11.1.1. Samstarfsnefnd hverrar stofnunar skal koma sér saman um útfærslu stofnanasamninga og þróun, sbr. fylgiskjal 1 með samningnum. Auk þess sem samningurinn er gerður 22. janúar 2008, nær þremur mánuðum eftir starfslok stefnanda. Stefndi á sem fyrr segir enga aðild að þessum samningum og hefur ekki komið að neinni útfærslu hvað þá varðar.
Röðun stefnanda í launaflokk 10-1 er einnig mótmælt. Starfslýsing F á ekki við um störf stefnanda. Rétt röðun er frekar launaflokkur C (7-1). Fyrirliggjandi námskeiðsmat stefnanda frá 29. ágúst 2007 kom fyrst fyrir augu stefnda með stefnu í málinu.
Þá er í stefnu vinnutími stefnanda ranglega reiknaður út miðað við dagvinnu frá kl. 8:0017:00 og yfirvinnu frá kl. 17:00 á virkum dögum og um helgar í stað vaktavinnu. Athugasemdir eru einnig gerðar við útreikninga sem liggja fyrir í málinu og eru grundvöllur kröfunnar. Svo dæmi séu nefnd þá er vinna á Landspítala 9. og 16. mars tvítalin í stefnu. Einnig eru vaktir í september oftaldar. Samkvæmt vinnuseðli frá stefnda voru unnar vaktir samtals 15 auk tveggja veikindadaga.
Orlofslaun stefnanda eru samkvæmt orlofslögum. Kröfum stefnanda um greiðslur vegna starfsmennta- og starfsþróunarsjóða SLFÍ og BSRB, fjölskyldu og styrktarsjóðs og orlofsheimilasjóðs á grundvelli kjarasamnings SLFÍ er mótmælt með sömu rökum og að framan greinir auk þess sem viðkomandi stéttarfélag er kröfuhafi hvað varðar sjúkra- og orlofssjóði, samanber 6. gr. laga nr. 55/1980.
Dráttarvaxtakröfu stefnanda er sérstaklega mótmælt með tilliti til atvika málsins. Þá styðst varakrafa stefnda við sömu málsástæður og sýknukrafa hans.
Um lagarök vísar stefndi fyrst og fremst til almennra reglna samningalaga og vinnuréttar, 1. mgr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, lögum nr. 139/2005 um starfsmannaleigur og lögum um orlof, nr. 30/1987. Varðandi vexti vísast til 4. mgr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Um málskostnað vísast til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, 129. og 130. gr.
Forsendur og niðurstaða.
Eins og framan greinir réð stefnandi sig til starfa hjá stefnda. Gerður var ráðningarsamningur þeirra á milli. Ekki var vísað í neinn kjarasamning. Stefnandi telur að laun sín séu lægri en kjarasamningar stéttarfélags hennar kveði á um, en stefndi mótmælir því og telur að ráðningarsamningur milli málsaðila gildi.
Í 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks segir: „Laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, skulu vera lágmarkskjör, óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til. Samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skulu ógildir.“ Ljóst er að ákvæði þetta veitir launamönnum rétt samkvæmt efni þess og þá kröfu eiga launamenn á atvinnurekendur.
Stefnandi er sjúkraliði og félagi í Sjúkraliðafélagi Íslands (SLFÍ). Um sjúkraliða gilda lög nr. 58/1984. Félagið hefur gert kjarasamninga við fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar og síðan Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu (SFH), sem stefnandi vill leggja til grundvallar. Í grunninn geyma þessir kjarasamningar sömu fjárhæðir. Að mati dómsins skiptir ekki máli hvort stefndi sé aðili að þessum samningi eða ekki. Stefndi getur ekki borið fyrir sig að nefnt ákvæði 1. gr. eigi ekki við bara af því að hann hefur ekki veitt neinum umboð til að gera kjarasamning fyrir sína hönd. Stefnda var það í lófa lagið að gera kjarasamning eða veita öðrum umboð til þess. Þá er því hafnað að Samtök fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu geti ekki talist aðildarsamtök vinnumarkaðarins í skilningi nefndrar 1. gr. Fyrir liggur í málinu að Samtökin hafa gert kjarasamning sem liggur fyrir í málinu. Það hafa þau gert fyrir þá er aðild eiga að samtökunum og hafa veitt þeim umboð til þess og munu Grund og Hrafnista vera aðilar að Samtökum fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu. Að mati dómsins skiptir engu þótt það sé ekki hlutverk Samtakanna samkvæmt lögum þeirra að gera kjarasamninga. Stefndi getur ekki staðið fyrir utan atvinnurekendasamtök er gera kjarasamninga og haldið því síðan fram að ákvæði 1. gr. 55/1988 eigi ekki við hans starfsmenn og greitt starfsmönnum sínum lægri laun en kjarasamningar segja til um.
Þá fellst dómurinn ekki á þá röksemd stefnda að kjarasamningurinn geti ekki talist almennur kjarasamningur. Gagnvart stefnanda er kjarasamningurinn almennur. Hún starfaði á heilbrigðisstofnun og kjarasamningar höfðu verið gerðir um slík störf sjúkraliða, en eins og að framan er rakið hafði SLFÍ gert kjarasamninga við ríki, sveitarfélög og SFH og gat stefnandi því unnið við hlið annarra sjúkraliða er unnu samkvæmt kjarasamningi.
Þá er að líta til þess hvort ráðningarsamningur stefnanda hjá stefnda hafi fært henni lægri laun en gildandi kjarasamningur SLFÍ hefði gert.
Dómkröfur stefnanda eru að fjárhæð 1.249.033 kr. og taka mið af kjarasamningi SFH og er þar miðað við launaflokk F10-1. Stefnandi hefur lækkað dómkröfu sína með tilliti til tölulegra mótmæla stefnda. Stefndi mótmælir því að stofnanasamningurinn verði lagður til grundvallar, svo og er launaflokknum mótmælt. Þá bendir stefndi á að samningurinn var gerður 3 mánuðum eftir starfslok stefnanda. Varðandi mótmæli stefnda er í fyrstu áréttað að kjarasamningur lá ekki til grundvallar við ráðningu stefnanda. Stofnanasamningurinn er hluti af kjarasamningi og tekur hann á röðun í launaflokka og ef ágreiningsmál koma upp eigi að fara með þau eftir 11. kafla kjarasamningsins. Stofnanasamningur sá er stefnandi byggir á gildir frá 1. október 2006, þ.e. þann tíma er stefnandi var í starfi hjá stefnda. Þá er í kjarasamningnum kveðið á um greiðslur fyrir kaffitíma svo sem stefnandi fer fram á. Stefndi er atvinnurekandi og á honum hvíla ýmsar skyldur. Honum ber að gera skriflega ráðningarsamninga við starfsmenn og gæta þess að laun þeirra séu ekki lægri en lágmarkslaun samkvæmt kjarasamningum. Við ákvörðun launa ber vinnuveitenda að sjálfsögðu að gæta þess að upplýsingar liggi fyrir um starfsmanninn þannig að hann njóti réttra launa samkvæmt kjarasamningnum. Því telur dómurinn að stefndi verði að bera hallann af því að hafa ekki krafist þeirra gagna er þurfa þykir til ákvörðunar á launaflokki stefnanda og er því fallist á að stefnandi taki laun samkvæmt launaflokki F10-1.
Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða dómsins að taka beri kröfu stefnanda til greina. Þá er krafa stefnanda um dráttarvexti tekin til greina svo sem krafist er, og er þá horft til þess að stefndi sinnti ekki skyldu sinni sem vinnuveitandi er kom að ráðningarkjörum stefnanda. Eftir þessari niðurstöðu og með vísan til 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákvarðaður 400.000 kr.
Af hálfu stefnanda flutti málið Gísli G. Hall hrl.
Af hálfu stefnda flutti málið Hrafnhildur Stefánsdóttir hrl.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
Dómsorð
Stefndi, Alhjúkrun ehf., greiði stefnanda, Ásgerði Júlíusdóttur, 1.249.033 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 119.445 kr. frá 1. febrúar 2007, af 95.828 kr. frá 1. mars 2007, af 87.883 kr. frá 1. apríl 2007, af 148.754 kr. frá 1. maí 2007, af 113.585 kr. frá 1. júní 2007, af 118.490 kr. frá 1. júlí 2007, af 90.071 kr. frá 1. ágúst 2007, af 251.219 kr. frá 1. september 2007, af 158.590 kr. frá 1. október 2007 og af kr. 124.325 frá 1. nóvember 2007, í hverju tilviki til greiðsludags og 400.000 kr. í málskostnað.