Hæstiréttur íslands

Mál nr. 141/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


         

Miðvikudaginn 12. mars 2008.

Nr. 141/2008.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason, saksóknari)

gegn

X

(Stefán Karl Kristjánsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála  var staðfestur.

    

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. mars 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. mars 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 13. mars 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Kærandi hefur borið að er hún rankaði við sér liggjandi í rúmi í umræddri íbúð hafi maður legið ofan á henni og verið með lim sinn í leggöngum hennar. Varnaraðili hefur skýrt svo frá að hann hafi lagt sig til svefns við hlið kæranda í rúminu og hafi kærandi þá opnað augun og farið að gráta. Samkvæmt þessu verður talið að rökstuddur grunur beinist að varnaraðila um að vera sá maður sem kærandi ber fyrrnefndum sökum. Verður því talið að skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægt til að staðfest verði niðurstaða hins kærða úrskurðar um gæsluvarðhald varnaraðila til klukkan 16 fimmtudaginn 13. mars 2008.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykja­víkur 10. mars 2008.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, [kt. og heimilisfang], verði gert að gæsluvarðhaldi til fimmtudagsins 13. mars nk., kl. 16.00.

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að morgni sunnudagsins 9. mars sl. hafi borist tilkynning frá hjúkrunarfræðingi á neyðarmóttöku kynferðisbrota um að A, [kt.], hefði verið beitt kynferðisofbeldi. Í frumskýrslu kemur fram að A, sem hafi verið í mikilli geðshræringu þegar við hana var rætt, hafi greint frá því að hún væri stödd hér á landi tímabundið. Kvaðst hún starfa fyrir ráðgjafafyrirtæki [...]. Hún væri að sinna að slíku verkefni hér á landi um þessar mundir og kæmi til með að dvelja hér í nokkrar vikur.

A kvaðst hafa verið að skemmta sér í miðbænum aðfararnótt sunnudagsins 9. mars sl. og hafi hún orðið viðskila við vini sína. Hún hafi farið heim til sín að B en ekki komist inn því vinur hennar hafi verið með lykilinn að húsinu. Maður nokkur hafi gefið sig á tal við hana og kvaðst vera kunningi konu nokkurrar sem hún hafði kynnst um kvöldið. Hann hafi sagt við hana að hún yrði örugg hjá þeim. Hún hafi gengið með honum heim til hans og hafi hann dregið fram dýnu og fengið henni lak. Hún hafi lagst til svefns í öllum fötum að undanskilinni yfirhöfn sinni. Hún kvaðst muna óljóst eftir þremur öðrum mönnum í íbúðinni.

A kvaðst einnig muna óljóst eftir því að maðurinn sem hafi boðið henni heim hafi lagst hjá henni og  kysst hana á hálsinn. Hún hafi ýtt honum frá sér og haldið áfram að sofa. Næst myndi hún eftir sér er maður hafði við hana samfarir um leggöng. Hún hafi þá verið annars staðar í íbúðinni á tvíbreiðu rúmi og nakin að neðan. Hún hafi rokið á fætur og tekið saman þau föt sem hún hafði fundið og hlaupið út.  Hún hafi stöðvað mann sem kom akandi og hann hafi ekið henni heim. Taldi hún klukkuna hafa verið um 7:00 að morgni. Vinur hennar hafi í kjölfarið ekið henni á sjúkrahúsið.

Lögreglan ók með A um bæinn og kannaðist hún við sig þegar að C var komið. Reyndist það vera meintur brotavettvangur. Fimm menn af litháiskum uppruna eru nú í haldi lögreglu en þeir voru allir staddir að C er lögregluna bar að garði. A komst í mikið uppnám á vettvangi þegar hún þekkti kærða aftur. 

Við yfirheyrslu kærða kvaðst hann kannast við að hafa séð konu og meðkærða D liggja sofandi á dýnu í stofunni. Félagar hans hafi líka séð þetta. Hann kvaðst hafa séð þau fara saman inn í herbergi skömmu síðar. D hafi komið þaðan út skömmu síðar og hafi kærði þá farið inn í herbergið og lagst til svefns við hlið konunnar. Hún hafi vaknað og verið illa áttuð. Hún hafi gefið í skyn að hún vissi ekki hvar hún væri stödd. Kærði kvað hana síðan hafa farið að gráta og farið heim.

Fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi framið verknað sem varðar allt að 16 ára fangelsisrefsingu. Rannsókn máls þessa sé á frumstigi. Eins og málið ber með sér krefjast rannsóknarhagsmunir þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi en taka þarf skýrslu af A og yfirheyra þarf sakborninga aftur. Þá þarf að ræða við önnur hugsanleg vitni, svo sem nágranna. Mál þetta sé á það viðkvæmu stigi að hætt sé við því að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins gangi hann laus.

Ætluð brot telst varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og a- liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Í máli þessi liggur fyrir að brotaþoli leitaði á neyðarmóttöku kynferðisbrota aðfaranótt sunnudagsins 9. mars sl. Hefur rannsóknarlögreglumaður skráð niður framburð brotaþola, sem er af erlendu bergi brotin.  Hefur hún í þeirri skýrslu gert grein fyrir því að hún hafi farið með tilteknum manni að C í Reykjavík, og fengið að leggjast til svefns í íbúðinni.  Hún hefur hins vegar borið að hafa vaknað við að annar maður en sá er bauð henni heim væri að hafa við hana samfarir.  Er þannig á reyki hvort einn eða eftir atvikum fleiri hafi framið refsiverðan verknað.  Fyrir liggur að kærði var ásamt fleira fólki í íbúðinni að C er rannsókn málsins hófst af hálfu lögreglu. Hefur einn þeirra aðila sem tengjast málinu viðurkennt að hafa haft samræði við brotaþola í málinu.  Reikna má með að fram eigi eftir að fara sakbending þar sem brotaþoli getur bent á gerendur í málinu. Þykir fram kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi með háttsemi sinni brotið gegn ákvæði 2. mgr. 194. gr. laga nr. 19/1940. Enn á eftir að yfirheyra aðra er voru á brotavettvangi og hugsanlega tengjast brotinu. Með hliðsjón af því eru fyrir hendi skilyrði fyrir því að kærði sæti gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar málsins á grundvelli a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Er því markaður sá tími er í úrskurðarorði greinir. 

Aðstoðarsaksóknari leitaði til dómsins fyrir hádegi í dag og gerði grein fyrir því að hún hygðist leggja fram kröfur um gæsluvarðhöld vegna málsins.  Jafnframt var gerð grein fyrir því að hinir kærðu þyrftu að komast fyrir dóminn fljótlega upp úr hádegi í ljósi þess hvenær þeir voru handteknir.  Dómari hafði þá þegar ákveðið fyrirtöku vegna framlengingu á farbanni í öðru máli og gerði grein fyrir því að kröfur um gæsluvarðhöld kæmust fyrst á dagskrá að þeirri kröfu frágenginni.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 13. mars nk., kl. 16.00.