Hæstiréttur íslands
Mál nr. 262/2008
Lykilorð
- Brot gegn valdstjórninni
- Skilorð
|
|
Fimmtudaginn 18. desember 2008. |
|
Nr. 262/2008. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir, settur vararíkissaksóknari) gegn Andra Má Engilbertssyni (Ólafur Örn Svansson hrl.) |
Brot gegn valdstjórninni. Skilorð.
A var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa slegið til lögreglumanns með krepptum hnefa og með því að hafa hótað tveimur lögreglumönnum lífláti. A var hins vegar sýknaður af því að hafa reynt að skalla annan lögreglumanninn í andlitið. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að A hafði áður verið sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. hegningarlaga, en dómurinn, sem var skilorðsbundinn, hafði ekki verið birtur ákærða þegar hann framdi brotin í þessu máli. Var refsing vegna þess brots tekin upp, samkvæmt 60. gr. hegningarlaga, og A gerð refsing í einu lagi. Var hún ákveðin 5 mánaða skilorðsbundið fangelsi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 28. apríl 2008 af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og refsing hans þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð.
Ákærði var ekki staddur á dómþingi 6. mars 2008 þegar hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp og var dómurinn birtur fyrir honum 9. apríl sama ár. Ákærði lýsti því þá yfir að hann vildi una dómi. Framangreindar dómkröfur hans komast því ekki að fyrir Hæstarétti að öðru leyti en leiðir af ákvæði 2. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála með áorðnum breytingum.
Í málinu er ákærða gefið að sök að hafa brotið gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum með því að hafa aðfaranótt 19. apríl 2007 á veitingahúsinu Broadway við Ármúla í Reykjavík ráðist með ofbeldi og hótunum um ofbeldi á lögreglumennina Kjartan Ægi Kristinsson og Hauk Bent Sigmarssonar, þar sem þeir hafi gegnt skyldustörfum. Þetta hafi ákærði gert með því í fyrsta lagi að slá með krepptum hnefa til Kjartans Ægis, sem hafi komið sér undan högginu, í öðru lagi að hóta báðum lögreglumönnunum lífláti með þeim orðum að hann gæti látið drepa þá, í þriðja lagi að hóta Hauki Bent lífláti með því að segja að hann myndi deyja og loks í fjórða lagi að reyna að skalla þann síðastnefnda í andlitið.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa slegið til Kjartans Ægis, svo sem lýst er í 1. lið ákæru.
Í lögregluskýrslu, sem Kjartan Ægir gerði um atvik málsins 19. apríl 2007, voru tilgreind innan tilvitnanamerkja ummæli, sem hann kvað ákærða hafa látið falla við þá Hauk Bent í veitingahúsinu og utan við það þá um nóttina, og eru fyrrgreindar sakargiftir í ákæru um hótanir studdar við þá skýrslu. Fyrir dómi báru báðir lögreglumennirnir efnislega um þessi ummæli. Gegn neitun ákærða verður að fallast á með héraðsdómi að sannað sé að hann hafi látið orð falla á þann veg, sem greinir í ákæru. Ekki eru efni til annars en að líta svo á að þessi orð hafi falið í sér hótun um ofbeldi í skilningi 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga og ber því að sakfella ákærða fyrir þau brot, sem honum eru gefin að sök í 2. og 3. lið ákæru.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sýknu ákærða af þeim sökum, sem hann er borinn í 4. lið ákæru.
Ákærði, sem er fæddur 1988, gekkst á árunum 2006 og 2007 tvívegis undir sekt fyrir umferðarlagabrot og eignaspjöll. Með dómi 12. apríl 2007 var hann sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga og gert að sæta fangelsi í 30 daga, en fullnustu þeirrar refsingar var frestað skilorðsbundið í þrjú ár. Sá dómur hafði ekki verið birtur ákærða þegar hann framdi þau brot, sem mál þetta varðar, og fólu þau því ekki í sér rof á skilorði. Samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga verður á hinn bóginn að taka þann dóm upp og ákveða í einu lagi refsingu vegna beggja málanna samkvæmt 77. gr. sömu laga. Hún er hæfilega ákveðin fangelsi í fimm mánuði, en rétt er að binda hana skilorði eins og nánar greinir í dómsorði.
Eftir þessum úrslitum málsins verður allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti felldur á ákærða, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, sem ákveðin eru í einu lagi að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Ákærði, Andri Már Engilbertsson, sæti fangelsi í 5 mánuði, en fullnustu þeirrar refsingar skal frestað og hún falla niður að liðnum 3 árum frá uppsögu þessa dóms haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, 448.568 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns á báðum dómstigum, Ólafs Arnar Svanssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 435.750 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. mars 2008.
I
Málið, sem dómtekið var 27. febrúar sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 12. desember 2007 á hendur „Andra Má Engilbertssyni, kennitala 210488-2519, Garðastræti 4, Reykjavík, fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa, aðfaranótt fimmtudagsins 19. apríl 2007, á veitingahúsinu Broadway við Ármúla, Reykjavík, ráðist með ofbeldi og hótunum um ofbeldi á lögreglumennina Kjartan Ægi Kristinsson og Hauk Bent Sigmarsson, sem þar voru að gegna skyldustörfum, eins og hér greinir:
1. Slegið til Kjartans Ægis með krepptum hnefa en Kjartani Ægi tókst að koma sér undan högginu.
2. Hótað Kjartani Ægi og Hauki Bent lífláti en ákærði lét meðal annars þau orð falla að hann gæti látið drepa lögreglumennina.
3. Hótað Hauki Bent lífláti en ákærði lét meðal annars þau orð falla að Haukur Bent myndi deyja.
4. Reynt að skalla Hauk Bent í andlitið.
Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 101/1976, 82/1998 og 25/2007.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“
Ákærði neitar sök og krefst sýknu en til vara vægustu refsingar. Hann krefst þess að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun verjanda hans, verði greiddur úr ríkissjóði.
II
Tildrög málsins eru þau, samkvæmt skýrslu Kjartans Ægis Kristinssonar lögreglumanns, að framangreindir lögreglumenn voru við eftirlit á skemmtistaðnum Broadway aðfaranótt fimmtudagsins 19. apríl 2007. Þeir veittu ákærða athygli inni á salerni og þar sem þeim fannst hann undarlegur í háttum kynntu þeir sig sem lögreglumenn og óskuðu eftir að fá að leita á honum. Síðan segir í skýrslunni: „Andri var strax við leitina með fúkyrði í garð lögreglumanna. Tókum við strax eftir því að Andri var til alls líklegur og vissum við til þess að Andri hafði áður hótað lögreglumönnum um líkamsmeiðingar. Eftir að lögreglumenn höfðu lokið leitinni sló Andri með krepptum hnefa að mér KÆK-0204 en náði ég að verja mig með höndum og koma mér undan högginu. Ekkert saknæmt fannst á við leit á Andra. Tókum við Andra Má strax lögreglutökum og streittist hann á móti. Andri var færður strax í handjárn. Reyndum við að róa hann niður en Andri byrjaði þá að hóta lögreglumönnum lífláti. Sagði hann meðal annars „Þið vitið ekki hver ég er og hvað ég er tengdur við, ég gæti látið drepa ykkur og fjölskyldur ykkar.“ Mátum við á vettvangi að Andri væri hættulegur sjálfum sér og öðrum þar sem hann lét öllum illum látum og var með hótanir um líkamsmeiðingar og líflát í garð lögreglumanna. Andri var færður út af skemmtistaðnum þar sem beðið var eftir bíl til þess að flytja Andra á lögreglustöð. Þegar við vorum komnir með Andra út hélt hann áfram með fúkyrði og hótanir um líkamsmeiðingar og líflát. Þá sagði hann meðal annars við lögreglumann 0422 „Þú veist ekki hvað þú ert að fara út í og munt þú deyja.“ Þá var hann með ógeðfelldar athugasemdir í garð lögreglumanna og fjölskyldna þeirra. Jafnframt reyndi hann ítrekað að ögra okkur með ýmsum mismunandi athugasemdum. Tók Andri upp á því að berja höfði sínu í stálhurð sem honum var haldið upp við og þegar það gerðist var SE-LH01 viðstaddur og tók hann eftir því að Andri barði höfði sínu í hurðina. Þrátt fyrir að Andri væri í handjárnum þá gerði hann tilburði til þess að skalla lögreglumann 0422 þrívegis í andlitið. Andri var það æstur að það þurfti að halda honum allan tímann á meðan beðið var eftir lögreglubifreiðinni. Andri var fluttur á lögreglustöð í handjárnum.“
Við lögreglurannsókn málsins var haft tal af lögreglumönnum sem fluttu ákærða á lögreglustöðina, en enginn þeirra gat borið um hótanir eða tilburði til árása af hans hálfu.
III
Ákærði bar að hann hafi verið á skemmtistaðnum umrædda nótt. Hann hafi verið nýkominn af starfsmannaskemmtun og farið beint á salernið. Er hann hafi lokið sér þar af og ætlað að ganga á brott hafi komið til hans tveir menn sem hafi byrjað að tala við hann og taka í hann. Hann hafi ekki áttað sig á að þetta væru lögreglumenn, enda hafi þeir verið óeinkennisklæddir og ekki kynnt sig sem lögreglumenn. Það hafi fyrst verið síðar sem þeir hafi sýnt lögregluskilríki, eftir að hann hafði verið handtekinn. Ákærði kvaðst hafa haldið að þetta væru strákar að abbast upp á hann og hafi myndað sig til slá til þeirra svona í gríni en þá hafi hann verið tekinn tökum og dreginn út. Þegar hann gerði þetta hafi hann ekki vitað að um lögreglumenn væri að ræða. Ákærði kvaðst, nánar aðspurður, hafa slegið til lögreglumanns, en ekki hafa haft uppi hótanir þær sem í ákæru greinir og ekki reynt að skalla annan þeirra. Hann kvaðst ekki muna til þess að hafa leyft þeim að leita á sér. Nánar spurður kvaðst ákærði ekki hafa verið undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Hann kvaðst hafa slegið til annars mannsins en ekki hafi verið ætlun hans að hitta hann, enda hafi hann ekki gert það. Ákærði kvaðst ekki muna hvað hann sagði við þá. Hann neitaði að hafa viðhaft þau ummæli sem tilgreind eru í ákærunni. Ákærði kvað mennina ekki hafa kynnt sig sem lögreglumenn en ekki mundi hann frekari orðaskipti. Mennirnir hafi tekið í sig, en ekki harkalega.
Haukur Bent Sigmarsson rannsóknalögreglumaður bar að hann hafi verið ásamt Kjartani Ægi Kristinssyni við fíkniefnaeftirlit á dansleik á Broadway. Þeir hafi verið inni á salerni og haft afskipt af ákærða. Þeir hafi verið óeinkennisklæddir en með lögregluskilríki hangandi utan á sér í keðju. Haukur Bent kvað þá hafa kynnt sig fyrir ákærða sem lögreglumenn og sýnt honum skilríkin. Hann hafi brugðist illa við og reynt að reiða til höggs með krepptum hnefa en þeir hafi brugðist við og hann þá hætt við að slá. Ákærði hafi ekki fullframið höggið með snertingu, eins og Haukur Bent orðaði það, og ákærði hafi sjálfur hætt við, þetta hafi meira verið eins og ógnun. Í framhaldinu hafi hann verið handtekinn og færður í handjárn. Ákærði hafi síðan verið fluttur að neyðarútgangi hússins og meðan á þessu stóð hafi ákærði hótað sér og hinum lögreglumanninum. Meðan beðið var eftir lögreglubíl hafi ákærða verið haldið upp við vegg og hafi hann þá reynt að „dangla“ höfðinu á sér í sig, slegið því til hliðar. Haukur Bent kvað ákærða hafa verið ölvaðan og hafi lögreglumennirnir, sem voru í fíkniefnaeftirliti, talið sig hafa ástæðu til að hafa afskipti af honum. Ákærði hljóti að hafa heimilað leit, ella hefði ekki verið leitað á honum. Hótanir ákærða hafi allar verið í þeim dúr að drepa lögreglumennina. Þessu hafi ákærði hótað eftir að hann var handtekinn og lögreglumennirnir voru með hann í tökum.
Kjartan Ægir Kristinsson rannsóknarlögreglumaður bar að hann og Haukur Bent hafi haft afskipti af ákærða inni á salerni og hafi hann heimilað leit á sér. Þeir hafi kynnt honum að þeir væru lögreglumenn og sýnt honum skilríki. Að lokinni leit hafi ákærði reynt að slá sig með hnefahöggi, það er slegið til sín og það hafi verið ástæða þess að ákærði var handtekinn og settur í handjárn. Hann hafi síðan verið færður í herbergi á skemmtistaðnum sem lögreglan hafði til afnota og þaðan færður út og í lögreglubifreið. Meðan á þessu stóð hafi ákærði hótað Hauki Bent og fjölskyldu hans lífláti en ekki mundi vitnið hvernig ákærði hafi orðað hótanirnar. Kjartan vísaði í skýrslu sína um það sem ákærði sagði, en hann staðfesti skýrsluna. Þegar út var komið hafi ákærði slegið höfði sínu í stálhurð sem honum var haldið upp við. Þegar þetta var hafi ákærði verið í handjárnum og auk þess hafi þeir haldið honum í tökum. Ákærði hafi slegið höfðinu til hliðar og í átt að Hauki Bent.
IV
Ákærði hefur viðurkennt að hafa slegið til Kjartans Ægis lögreglumanns eins og hann er ákærður fyrir. Framburður lögreglumannanna styður þessa játningu ákærða eins og rakið var. Lögreglumennirnir voru óeinkennisklæddir við fíkniefnaeftirlit á veitingahúsinu þegar þeir sáu ástæðu til þess að hafa afskipti af ákærða og óska eftir að leita á honum. Þeir hafa báðir borið að þeir hafi sýnt honum lögregluskilríki áður en leit hófst og ákærði hafi heimilað hana. Það styður framburð lögreglumannanna að ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að þeir hafi leitað á ákærða átölulaust af hans hálfu og það hafi fyrst verið eftir að leitinni var lokið sem hann sló til lögreglumannsins. Með vísun til þessa telur dómurinn sannað að ákærða hafi verið ljóst að um lögreglumenn var að ræða þegar hann sló til Kjartans Ægis. Með þessu hefur hann því brotið gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.
Eftir að ákærði reyndi að slá til Kjartans Ægis var hann handtekinn og færður í handjárn. Að því búnu færðu lögreglumennirnir hann eftir veitingastaðnum inn í herbergi sem þeir höfðu í húsinu og þaðan út og síðar inn í lögreglubifreið er flutti hann í fangageymslu. Meðan á þessu stóð lét ákærði ýmis orð fall í garð lögreglumannanna en fyrir dómi gátu þeir ekki borið nákvæmlega um hver þau voru, en almennt fólu þau í sér hótanir um líflát lögreglumannanna og fjölskyldna þeirra. Í 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga er meðal annars lögð refsing við því að ráðast með hótunum um ofbeldi á opinberan starfsmann þegar hann er að gegna skyldustarfi sínu. Hér stóð þannig á að lögreglumennirnir höfðu handtekið ákærða og fært í járn. Þeir tóku hann síðan og færðu út af veitingastaðnum. Ummælin sem ákært er fyrir munu hafa fallið þegar lögreglumennirnir höfðu ákærða alfarið á valdi sínu og bera fremur vott um reiði manns sem einskis má sín frekar en hótanir í skilningi lagagreinarinnar. Verður ákærði því sýknaður af 2. og 3 lið ákærunnar.
Þegar út úr húsinu var komið lét ákærði ófriðlega og sló höfðinu meðal annars til og frá en lögreglumennirnir voru þá með hann í tökum. Haukur Bent bar að ákærði hefði reynt að „dangla“ höfði sínu í sig og Kjartan Ægir bar að ákærði hefði slegið höfðinu til hliðar og í átt að Hauki Bent. Ákærði hefur neitað því að hafa reynt að skalla lögreglumanninn. Framburður lögreglumannanna bendir til þess að atferli ákærði hafi frekar borið vitni um hið sama og ummæli hans, það er að hér hafi handtekinn maður verið að brjótast um en ekki verið að ráðast á lögreglumenn með ofbeldi í skilningi framangreindrar lagagreinar. Verður ákærði því sýknaður af því sem á hann er borið í 4. lið ákærunnar.
Ákærði var dæmdur í 30 daga fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár, 12. apríl 2007 fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga. Dómurinn var birtur honum 18. júní sama ár og hefur ákærði því ekki rofið skilorðið með verknaði þeim sem hann er nú sakfelldur fyrir. Áður en hann var dæmdur hafði hann tvisvar verið sektaður, í fyrra skiptið fyrir umferðarlagabrot og í hið síðara fyrir skemmdarverk. Skilorðsdómurinn verður nú tekinn upp og dæmdur með þessu máli, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga. Er refsing ákærða hæfileg 3 mánaða fangelsi en skilyrði eru til að skilorðsbinda hana og skal hún falla niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins fyrir ákærða, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Málsvarnarlaun verjanda ákærða, Ólafs Arnar Svanssonar hrl., ákveðast 186.750 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og samkvæmt framangreindum málsúrslitum verður ákærði dæmdur til að greiða þau að hálfu en að hálfu skulu þau greidd úr ríkissjóði. Annan kostnað leiddi ekki að rekstri málsins.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð
Ákærði, Andri Már Engilbertsson, sæti fangelsi í 3 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingar og falli hún niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins fyrir honum, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Ólafs Arnar Svanssonar hrl., 186.750 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, að hálfu en að hálfu skulu þau greidd úr ríkissjóði.