Hæstiréttur íslands

Mál nr. 754/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Útburðargerð


                                     

Þriðjudaginn 2. desember 2014.

Nr. 754/2014.

 

Anna Thelma Magnúsdóttir og

Vilhjálmur Bjarnason

(Þórður Heimir Sveinsson hdl.)

gegn

Arion banka hf.

(Karl Óttar Pétursson hrl.)

 

Kærumál. Útburðargerð.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina krafa A hf. um að félaginu væri heimilt að fá A og V borin út úr tilgreindri fasteign í sinni eigu með beinni aðfarargerð.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 19. nóvember 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. nóvember 2014, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að sér yrði heimilað að fá sóknaraðila, ásamt öllu því sem þeim tilheyrir, borin út úr fasteigninni Klausturhvammi 20 í Hafnarfirði, fastanúmer 207-6968, með beinni aðfarargerð. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðilar krefjast þess að kröfu varnaraðila um aðfarargerð verði hafnað. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.  

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Anna Thelma Magnúsdóttir og Vilhjálmur Bjarnason, greiði óskipt varnaraðila, Arion banka hf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. nóvember 2014.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 9. október sl., barst dómnum með aðfararbeiðni, dagsettri 4. júní 2014, en móttekinni 6. sama mánaðar.

Gerðarbeiðandi er Arion banki hf., Borgartúni 19, Reykjavík.

Gerðarþolar eru Anna Thelma Magnúsdóttir og Vilhjálmur Bjarnason, Klausturhvammi 20, Hafnarfirði.

Gerðarbeiðandi krefst dómsúrskurðar um að gerðarþolar verði, ásamt öllu sem þeim tilheyrir, bornir út úr húsnæði því er þeir hafa haft til afnota að Klausturhvammi 20, Hafnarfirði, fastanúmer 207-6968, með beinni aðfarargerð. Þá krefst gerðar­beiðandi einnig málskostnaðar.

Dómkröfur gerðarþola eru þær að kröfu gerðarbeiðanda um útburð úr fasteigninni Klausturhvammi 20, Hafnarfirði, verði hafnað og að gerðarþolum verði úrskurður málskostnaður úr hendi bankans.

I

Gerðarþoli Anna Thelma var eigandi fasteignarinnar að Klausturhvammi 20 í Hafnarfirði samkvæmt kaupmála, dagsettum 20. október 2004, sem móttekinn var til þinglýsingar 22. sama mánaðar.

Með beiðni 2. desember 2009 krafðist gerðarbeiðandi þess að bú gerðarþola Önnu Thelmu yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Með úrskurði dómsins 21. janúar 2010 var fallist á þá kröfu gerðarbeiðanda. Skiptum á búinu lauk 21. nóvember 2013 skv. 155. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Gerðarþolar sóttu um greiðsluaðlögun 30. júní 2011. Athugasemd um að gerðarþolar hefðu sótt um greiðsluaðlögun var færð í fasteignabók sýslumannsins í Hafnarfirði, vegna fasteignarinnar Klaustur­hvamms 20, Hafnarfirði, hinn 19. júlí 2011. Yfir­lýsing um gjaldþrotaskipti á búi gerðarþola Önnu Thelmu var færð í fasteignabók vegna sömu eignar 8. mars 2013.

Beiðni gerðarþola um greiðsluaðlögun var synjað af umboðsmanni skuldara 22. júní 2012. Með úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála 18. september sl., í máli nr. 127/2012, var sú ákvörðun umboðsmanns skuldara felld úr gildi. Samkvæmt forsendum úrskurðarins hafði umboðsmaður ekki, áður en hann tók hina kærðu ákvörðun, sinnt rannsóknarskyldu sinni skv. 5. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga. Umsókn gerðarþola um greiðsluaðlögun hefur því enn ekki hlotið endanlega afgreiðslu.

Með samningi/afsali 15. október 2013 afsalaði skiptastjóri í þrotabúi gerðarþola Önnu Thelmu gerðarbeiðanda fasteigninni Klausturhvammi 20, Hafnarfirði. Skjalinu var þinglýst hjá sýslumanninum í Hafnarfirði 24. sama mánaðar.

Gerðarbeiðandi skoraði á gerðarþola, með ábyrgðarbréfi 10. apríl 2014, að rýma fasteignina í síðasta lagi mánudaginn 2. júní 2014. Kom fram í bréfinu að yrðu gerðarþolar ekki við áskorun gerðarbeiðanda myndi bankinn afla sér heimildar til þess að láta bera gerðarþola út úr fasteigninni. Upplýst er að gerðarþolar urðu ekki við áskorun gerðarbeiðanda.

Með aðfararbeiðni 4. júní 2014 krafðist gerðarbeiðandi dómsúrskurðar um að gerðarþolar verði, ásamt öllu því sem þeim tilheyrir, bornir út úr fasteigninni Klausturhvammi 20, Hafnarfirði, fastanúmer 207-6968, með beinni aðfarargerð.

II

Gerðarbeiðandi kveðst hafa eignast fasteignina Klausturhvamm 20 í Hafnarfirði, fastanúmer 207-6968, ásamt öllu því sem eigninni fylgir og fylgja ber, með afsali 15. október 2013. Afsalsgjafi hafi verið þrotabú gerðarþola Önnu Thelmu.

Af hálfu gerðarbeiðanda er til þess vísað að gerðarþolar hafi báðir dvalist í fasteigninni allt frá því bankinn eignaðist hana. Gerðarþolar hafi ekki gert skriflegan leigusamning við gerðarbeiðanda og ekkert greitt fyrir afnot af fasteigninni. Þá hafi þeir neitað að víkja úr henni þrátt fyrir beiðni gerðarbeiðanda þar um.

Þar sem gerðarþolar hafi ekki sinnt beiðni gerðarbeiðanda um að rýma eignina sé honum nauðsynlegt að afla úrskurðar dómsins um að þeir verði bornir út úr eigninni.

Gerðarbeiðandi kveðst mótmæla öllum málsástæðum gerðarþola í framlagðri greinargerð þeirra. Tekur gerðarbeiðandi sérstaklega fram að úrskurður kærunefndar greiðsluaðlögunarmála frá 18. september sl., í máli nr. 127/2012, er varðað hafi umsókn gerðarbeiðenda um greiðsluaðlögun, hafi ekkert gildi við úrlausn máls þessa, enda breyti hann engu um þá staðreynd að hin umdeilda fasteign hafi verið í eigu þrotabús gerðarþola Önnu Thelmu þegar gerðarþolar sóttu um greiðsluaðlögun 30. júní 2011.  Enn fremur vísar gerðarbeiðandi til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 328/2014, en í því máli kveður hann gerðarþola Önnu Thelmu hafa um margt byggt á sömu málsástæðum og gerðarþolar geri í máli þessu

Til stuðnings kröfum sínum vísar gerðarbeiðandi að endingu til 78. gr. laga nr. 90/1991 um aðför.

III

Gerðarþolar segja gerðarþola Önnu Thelmu hafa verið þinglýstan eiganda fasteignarinnar Klausturhvamms 20 í Hafnarfirði. Hinn 3. maí 2005 hafi hún tekið lán hjá gerðarbeiðanda að fjárhæð 26.000.000 króna, sem síðar hafi komið í ljós að var ólögmætt gengislán. Gerðarþoli Anna Thelma hafi hætt að greiða af láninu síðla árs 2008. Lánið hafði þá stökkbreyst úr 26.000.000 króna í um það bil 66.000.000 króna.

Hinn 15. september 2009 hafi gerðarbeiðandi gert árangurslaust fjárnám hjá gerðarþola Önnu Thelmu vegna yfirdráttarskuldar, en ekkert veðrými hafi verið á eigninni vegna stökkbreytta lánsins.

Gerðarþolar benda á að þeir hafi sótt um greiðsluaðlögun til umboðsmanns skuldara 30. júní 2011. Umsóknin hafi verið samþykkt sem slík en sé enn óafgreidd um greiðsluaðlögunina. Við móttöku umsóknar gerðarþola hafi komist á tímabundin frestun greiðslna skv. 11. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga, sbr. bráðabirgðaákvæði við nefnd lög, sem samþykkt hafi verið á Alþingi 14. október 2010. Við móttöku umsóknarinnar og þinglýsingu tilkynningar frá umboðsmanni skuldara á fasteignina 18. júlí 2011 hafi gerðarþolar komist í svokallað greiðsluskjól skv. 4. mgr. 7. gr., 15. gr., 28. gr. og 29. gr. laga nr. 101/2010. Þótt sýslumaðurinn í Hafnarfirði hafi afmáð kvöðina af eigninni þegar afsali gerðarbeiðanda var þinglýst á eignina 24. október 2013 telji gerðarþolar allt að einu að lög um umboðsmann skuldara nái yfir þau og girði fyrir að fallist verði á kröfu gerðarbeiðanda um útburð.

Gerðarþolar segja gerðarbeiðanda hafa eignast fasteignina í gegnum gjaldþrota­skipti á búi gerðarþola Önnu Thelmu með gerræðislegum vinnubrögðum, án þess að endurútreikningur á láni gerðarþola lægi fyrir. Þegar gjaldþrotaskipta hafi verið krafist í byrjun janúar 2010 hafi lánið staðið í um það bil 66.000.000 króna og rutt út allri tryggingu í fasteigninni þegar árangurslaust fjárnám hafi verið gert í henni fyrir yfirdrætti gerðarþola Önnu Thelmu á reikningi hennar hjá gerðarbeiðanda að fjárhæð 3.600.000 krónur. Nú sé komið í ljós að staða reikningsins hafi verið röng þar sem ekki hafi verið farið eftir ákvæðum laga nr. 121/1994 um neytendalán við stofnun reikningsins. Í undirbúningi sé stefna á hendur gerðarbeiðanda vegna þess. Allt atferli gerðarbeiðanda við innheimtuaðgerðir gagnvart gerðarþola Önnu Thelmu hafi því verið og sé enn ólögmætt.

Kvöð eins og sú sem þinglýst hafi verið á hina umdeildu fasteign frá umboðsmanni skuldara haldi gildi sínu meðan gerðarþolar séu í greiðsluskjóli hjá umboðsmanni skuldara samkvæmt lögum nr. 101/2010, eða allt þar til umsókn sé endanlega hafnað, sbr. 29. gr. laganna, en þá skuli aflýsa kvöðinni. Einungis umboðsmaður skuldara geti fellt kvöðina niður. Skiptastjóri þrotabús gerðarþola Önnu Thelmu hafi ekki getað fellt kvöðina niður, því síður þinglýsingarstjóri með þinglýsingu afsals skiptastjóra til handa gerðarbeiðanda. Kvöðin á eigninni frá umboðsmanni skuldara hafi því verið felld niður á ólögmætan hátt. Hún sé því enn í gildi. Benda gerðarþolar einnig á að skiptastjóri þrotabús Önnu Thelmu hafi ekki þinglýst yfirlýsingu um gjaldþrotið fyrr en tveimur árum eftir þinglýsingu kvaðar umboðsmanns skuldara, eða hinn 8. mars 2013.

Ákvæði a-, b- , c-, d- og g-liða 1. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 standa að sögn gerðarþola því í vegi að hægt sé að krefjast útburðar þeirra af fasteigninni, en skv. 11. gr. sé lánardrottnum óheimilt meðan á frestun greiðslna standi að ráðast í „hvers konar“ aðgerðir til innheimtu krafna sem tryggðar séu/voru með veði í fasteign. Að koma gerðarþolum af eigninni sé síðasta púslið í innheimtuaðgerðum gerðarbeiðanda til að geta selt eignina til lúkningar skuld gerðarþola Önnu Thelmu við gerðarbeiðanda. Að áliti gerðarþola falli því útburðarkrafa gerðarbeiðanda undir 11. gr. laga nr. 101/2010, enda gangi lög um umboðsmann skuldara nr. 101/2010 framar lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti og þinglýsingalögum nr. 39/1978, sem séu almenn lög. Það sé ekki fyrr en eftir að umsókn gerðarþola hjá umboðsmanni skuldara hafi verið afgreidd sem hægt verði að taka afstöðu til útburðar þeirra af eigninni. Gerðarþolar séu í greiðsluskjóli þangað til eins og þau hafi verið síðan 30. júní 2011, sbr. títtnefnd lög nr. 101/2010. Útburðarbeiðni gerðarbeiðanda sé liður í innheimtuferli hans sem sé andstætt 11. gr. laganna og markmiðum þeirra.

Gerðarþolar árétta að lög um umboðsmann skuldara séu sérlög, sett vegna sérstakra aðstæðna hér á landi, og sem gilda eigi áfram. Markmið laganna hafi verið að koma til móts við einstaklinga sem lent höfðu í fjárhagslegum þrengingum, meðal annars með því að veita þeim greiðsluskjól meðan umsóknir þeirra væru til afgreiðslu hjá umboðsmanni skuldara. Lögin geti því aldrei verið annað en sérlög gagnvart gjaldþrotaskiptalögum eða þinglýsingalögum. Óheimilt hafi verið að afmá hina þinglýstu kvöð, enda gangi nefnd sérlög framar hinum almennu lögum er ákvæðum laganna lýstur saman, svo sem hátti til í þessu máli.

Gerðarþolar segja lögin um umboðsmann skuldara ekki ná tilgangi sínum nái krafa gerðarþola fram að ganga. Félagsleg úrræði einstaklinga sem liggi að baki lögunum standi þá úti í kuldanum. Ótvírætt sé að tilgangur laganna hafi verið að hjálpa einstaklingum í nauð. Útburður sex manna fjölskyldu samrýmist ekki þeim tilgangi þegar til þess sé litið að að gerðarbeiðandi hafi fengið afsal fyrir fasteigninni í krafti ólögmæts gengisláns, sem hvílt hafi á 1. veðrétti eignarinnar, og árangurslauss fjárnáms 15. september 2009, er verið hafi grundvöllur gjaldþrotaskipta gerðarþola Önnu Thelmu, sem byggt hafi á ólögmætum yfirdráttarkostnaði er hlaðist hafi upp á reikningi hennar.

Hvað aðild gerðarþola Vilhjálms varðar er sérstaklega til þess vísað af hálfu gerðarþola að aðkoma hans að málinu komi ekki skýrt fram í aðfararbeiðni gerðarbeiðanda. Aðild hans sé því vanreifuð. Telji gerðarþoli Vilhjálmur að hann eigi ekki aðild að málinu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Samkvæmt öllu framangreindu segja gerðarþolar að hafna beri kröfu gerðarbeiðanda um útburð.

IV

Svo fallist verði á kröfu um beina aðfarargerð skulu réttindi gerðarbeiðanda vera svo ljós að sönnur verði færðar fyrir þeim með gögnum sem aflað verður skv. 1. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 1. mgr. 78. gr. laganna. Þá skal skv. 3. mgr. 83. gr. laganna að öðru jöfnu synja um gerðina ef varhugavert verður talið að gerðin nái fram að ganga á grundvelli þeirra sönnunargagna sem heimilt er að afla skv. 1. mgr. 83. gr.

Upplýst er að þegar gerðarþolar lögðu inn umsókn sína um greiðsluaðlögun 30. júní 2011 hafði bú gerðarþola Önnu Thelmu þegar verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði dómsins uppkveðnum 21. janúar 2010. Við uppkvaðningu úrskurðarins tók ný lögpersóna, þrotabú gerðarþola Önnu Thelmu, við öllum fjárhagslegum réttindum og skyldum sem hún átti eða naut við uppkvaðningu úrskurðarins, þ.m.t. eignarhaldinu á fasteigninni Klausturhvammi 20, sbr. ákvæði XII. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Fyrir liggur að tilraunir gerðarþola Önnu Thelmu til þess að hnekkja úrskurði dómsins um töku bús hennar til gjaldþrotaskipta, sem og hinu árangurslausa fjárnámi, er var grundvöllur gjaldþrotaskiptanna, reyndust árangurslausar.

Gerðarbeiðandi reisir tilkall sitt til fasteignarinnar Klausturhvamms 20, Hafnarfirði, á samningi/afsali frá 15. október 2013 sem gefið var út af skiptastjóra í þrotabúi gerðarþola Önnu Thelmu fyrir hönd búsins, sbr. heimildir skiptastjóra í þrotabúi samkvæmt XIX. kafla laga nr. 21/1991. Í skjalinu kemur meðal annars fram að fasteigninni hafi verið afsalað til gerðarbeiðanda sem ófullnægðs veðhafa.

Gerðarþolar hafa ekki andmælt þeim fullyrðingum gerðarbeiðanda að eftir að skiptastjóri afsalaði eigninni til bankans hafi þeir hvorki gert skriflegan leigusamning við gerðarbeiðanda né greitt fyrir afnot af fasteigninni. Þá hafa gerðarþolar ekki rýmt eignina þrátt fyrir áskorun gerðarbeiðanda þar um.

Ákvæði laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga verða ekki skýrð svo, með afturvirkum hætti, að þau standi því í vegi að gerðarbeiðandi fái notið réttinda sinna samkvæmt hinni skýru eignarheimild, áðurnefndu afsali skiptastjóra. Hvorki umsókn gerðarþola um greiðsluaðlögun tæplega einu og hálfu ári eftir að bú gerðarþola Önnu Thelmu var tekið til gjaldþrotaskipta né þinglýsing athugasemdar umboðsmanns skuldara vegna umsóknarinnar voru því til þess fallnar að hnekkja tilkalli gerðarbeiðanda til fasteignarinnar á grundvelli afsalsins. Þegar að því sögðu þykja réttindi gerðarbeiðanda til fasteignarinnar vera svo ljós að fallast verði að kröfu hans um útburð gerðarþola Önnu Thelmu, sbr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

Upplýst er í málinu að gerðarþoli Vilhjálmur er búsettur í hinni umdeildu fasteign ásamt gerðarþola Önnu Thelmu. Að því gættu og samkvæmt niðurstöðu dómsins hér að framan verður enn fremur fallist á kröfu gerðarbeiðanda um útburð gerðarþola Vilhjálms. Skiptir í þessu sambandi engu að fasteignin hafi, er bú gerðarþola Önnu Thelmu var tekið til gjaldþrotaskipta, verið séreign hennar og að engu leyti í eigu gerðarþola Vilhjálms, enda núverandi afnot hans af fasteigninni honum heimildarlaus samkvæmt ofansögðu.

Í ljósi framangreindrar niðurstöðu dómsins eru ekki efni til að taka afstöðu til annarra þeirra málsástæðna aðila, sem í málatilbúnaði þeirra kunna að felast, en þegar hefur verið vikið að hér að framan.

Eftir úrslitum málsins verður gerðarþolum gert að greiða gerðarbeiðanda málskostnað óskipt, sbr. 1. mgr. 130. gr. og 132. gr. laga nr. 91/1991 og 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989, en málskostnaðurinn þykir hæfilega þykir ákveðinn svo sem í úrskurðarorði greinir.

Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Gerðarbeiðanda, Arion banka hf., er heimilt að láta bera gerðarþola, Önnu Thelmu Magnúsdóttur og Vilhjálm Bjarnason, ásamt öllu því sem þeim tilheyrir, út úr fasteigninni Klausturhvammi 20, Hafnarfirði, fastanúmer 207-6968, með beinni aðfarargerð.

Gerðarþolar greiði gerðarbeiðanda óskipt 150.000 krónur í málskostnað.