Hæstiréttur íslands
Mál nr. 141/2003
Lykilorð
- Þjófnaður
- Skilorðsrof
|
|
Fimmtudaginn 20. nóvember 2003. |
|
Nr. 141/2003. |
Ákæruvaldið(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Theodór Emil Pantazis (Brynjar Níelsson hrl.) |
Þjófnaður. Skilorðsrof.
Í samræmi við játningu T var hann sakfelldur fyrir þjófnað. Rauf hann með broti sínu skilorð eldri dóms, sem var tekinn upp og dæmdur með samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og refsing tiltekin í einu lagi eftir reglum 77. gr. sömu laga. Ekki þótti fært að skilorðsbinda refsingu T og var hann dæmdur í 12 mánaða fangelsi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Ingibjörg Benediktsdóttir og Haraldur Henrysson fyrrverandi hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 4. apríl 2003 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar héraðsdóms.
Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð og hún skilorðsbundin að öllu leyti eða að hluta.
Í héraðsdómi var gæsluvarðhald, sem ákærði sætti frá 16. nóvember 1999 til 14. desember sama árs, ranglega sagt hafa hafist 14. nóvember 1999. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til röksemda héraðsdóms er fallist á að refsing ákærða sé þar hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði og að ekki séu nú efni til að skilorðsbinda refsinguna.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að frá refsingu ákærða, Theodórs Emils Pantazis, dragist gæsluvarðhald hans frá 16. nóvember 1999 til 14. desember sama árs.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. mars 2003.
Málið er höfðað með ákæruskjali, dags. 28. janúar 2003, á hendur Theodóri Emil Pantazis, kt. 071062-3769, Sóltúni 30, Reykjavík
“fyrir þjófnað með því að hafa, mánudaginn 4. nóvember 2002, brotist inn í fyrirtækið Columbia ehf., Gylfaflöt 5, Reykjavík, með því að spenna upp hurð, og stolið kr. 866.500 í reiðufé og enn fremur kr. 77.500 í skiptimynt, 144 bandarískum dollurum og 60 evrum.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”
Af hálfu verjanda ákærða er þess krafist að ákærði verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa og að refsing verði skilorðsbundin að hluta. Hann krefst þess að málsvarnarlaun verði greidd úr ríkissjóði.
Ákærði játaði fyrir dómi brot sitt og kvað háttseminni rétt lýst í ákæruskjali.
Sannað er með skýlausri játningu ákærða, sem studd er öðrum göngum málsins, að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem ákært er út af í málinu og er brot hans rétt fært til refsiákvæðis.
Ákærði er fæddur árið 1962. Hann hefur allalvarlegan sakarferil frá árinu 1985 en hinn 8. nóvember það ár var hann dæmdur í Þýskalandi í fjögurra ára fangelsi fyrir fíkniefnabrot. Hinn 23. janúar 1991 var hann dæmdur í þriggja mánaða fangelsi í Danmörku fyrir fíkniefnabrot. Hinn 30. desember 1992 var hann dæmdur í sex mánaða fangelsi í Frakklandi, þar af fjóra skilorðsbundið, fyrir fíkniefnabrot. Hinn 18. maí 1993 var hann dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi í Frakklandi fyrir þjófnað. Hinn 22. febrúar 1995 var hann dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnabrot í Svíþjóð, var refsingin lækkuð í fjögur ár í yfirrétti. Hinn 13. mars 1998 gekkst hann undir lögreglustjórasátt vegna ölvunaraksturs og 24. sama mánaðar var hann dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir fíkniefnabrot, þar af voru 480 dagar vegna reynslulausnar, þessi dómur var staðfestur í Hæstarétti 1. október 1998. Hinn 8. sama mánaðar gekkst hann undir sátt vegna ölvunaraksturs og loks gekkst hann undir lögreglustjórasátt 23. desember sama ár vegna sviptingaraksturs. Ákærði hlaut síðast dóm 25. júí 2002, 9 mánaða fangelsi skilorðsbundið í 5 ár fyrir fíkniefnabrot, sbr. 173 a gr. almennra hegningarlaga.
Hefur ákærði, með broti því sem hann hefur hér verið fundinn sekur um, rofið skilorð þessa síðastnefnda dóms og verður dómurinn tekinn upp og dæmdur með, samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og refsing tiltekin í einu lagi eftir reglum 77. gr. sömu laga.
Við ákvörðun refsingar er tekið tillit til þess að ákærði hefur játað brot sitt hreinskilningslega. Þá komst þýfið að mestu til skila. Hins vegar var um talsvert mikil verðmæti að ræða.
Í dómi yfir ákærða frá 25. júlí 2002 voru lögð fram þrjú vottorð sem vörðuðu einkahagi ákærða og dóttur hans en þar kom fram að ákærði hefði lagt sig fram um að snúa lífi sínu til betri vegar og hafi hann veitt unglingsdótturinni stuðning og uppeldi. Var rökstuðningur dómara fyrir skilorðsbindingu refsingarinnar m.a. á þeim sjónarmiðum reistur. Ákærði höfðaði hér fyrir dóminum til sömu sjónarmiða varðandi kröfu um skilorðsbindingu.
Ákærði framdi brot sitt tæpum þremur mánuðum eftir að hafa fengið umræddan dóm þannig að hann hefur ekki látið sér segjast þrátt fyrir þá miklu einkahagsmuni sem hann taldi að væru í húfi fyrir því að afplána ekki dæmda refsingu. Þykja því ekki skilyrði til að skilorðsbinda refsinguna nú.
Samkvæmt þessu þykir refsing ákærða hæfileg fangelsi í 12 mánuði. Til frádráttar komi gæsluvarðhald ákærða frá 14. nóvember 1999 til 14. desember s.á., að fullri dagatölu.
Ákærði greiði allan sakarkostnað þar með talin málsvarnarlaun verjanda hans, Bjarna Haukssonar héraðsdómslögmanns, 30.000 krónur.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Kolbrún Ólafsdóttir fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík.
Valtýr Sigurðsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Theodór Emil Pantazis, sæti fangelsi í 12 mánuði. Til frádráttar komi gæsluvarðhald ákærða frá 14. nóvember 1999 til 14. desember s.á., að fullri dagatölu.
Ákærði greiði allan sakarkostnað þar með talin málsvarnarlaun verjanda hans, Bjarna Haukssonar héraðsdómslögmanns, 30.000 krónur.