Hæstiréttur íslands

Mál nr. 52/2014


Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni
  • Peningaþvætti
  • Milliliðalaus málsmeðferð
  • Dráttur á máli
  • Skilorð


Dómsatkvæði

                               

Fimmtudaginn 5. febrúar 2015.

Nr. 52/2014.

Ákæruvaldið

(Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari)

gegn

Árna Björgvinssyni

(Jóhann H. Hafstein hrl.)

Ávana- og fíkniefni. Peningaþvætti. Milliliðalaus málsmeðferð. Dráttur á máli. Skilorð.

Á var sakfelldur fyrir stórfelld fíkniefnabrot með því að hafa haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni 169 kannabisplöntur, 1567,1 g af kannabislaufum, 144,7 g af kannabisplöntuhluta og 8149,26 g af maríhúana. Þrátt fyrir játningu Á hjá lögreglu var talið ósannað að hann hafi aflað sér þess 10.000.000 króna ávinnings með sölu fíkniefnanna sem hann var ákærður fyrir en með vísan til framburðar hans fyrir dómi þótti sannað að ávinningurinn hefði verið 1.500.000 krónur. Við ákvörðun refsingar var meðal annars litið til umfangs brota Á og þess að hann hafði ekki áður sætt refsingu sem áhrif hefði við ákvörðun refsingar. Var refsing hans ákveðin 18 mánaða fangelsi en að virtum drætti á meðferð málsins var fullnustu 15 mánaða refsingarinnar frestað skilorðsbundið til þriggja ára.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.  

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 20. janúar 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing hans verði milduð.

I

 Í I. hluta ákæru eru ákærða gefin að sök stórfelld fíkniefnalagabrot með því að hafa 8. og 10. febrúar 2011 á heimili sínu og í bílskúr sem hann hafði til umráða haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni nánar tilgreint magn fíkniefna, sem hann hafði ræktað eða voru afrakstur af ræktuninni. Er þetta talið varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi heldur ákærði því fram að hluti þess efnis sem vísað er til í 2. tölulið þessa hluta ákæru hafi verið ónýtt. Kom fram í skýrslu ákærða fyrir dómi að sá maður sem hann hefði látið hafa fíkniefni hefði fengið prufu af efninu í upphafi framleiðslunnar og talið það ónýtt. Í framhaldi af því hefði ákærði ræktað úr nýjum fræjum og þá hefði framleiðslan skilað tilætluðum árangri. Í efnaskýrslu lögreglu um þau fíkniefni sem umræddur ákæruliður tekur til kom fram að 3.259,9 g af maríhúana hafi verið í 34 smáplastpokum sem voru í svörtum plastpoka og 1.990,06 g af sama efni í 20 smáplastpokum á gólfi. Tekin voru sýni af hvoru tveggja og samkvæmt matsgerð rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði 21. febrúar 2011 reyndist magn tetrahýdrókannabínóls 78 mg/g í sýni úr svarta plastpokanum en 71 mg/g úr plastpokum á gólfi. Samkvæmt þessu voru rannsökuð sýni af fíkniefnum þeim sem fyrrgreindur ákæruliður tekur til. Þá hefur ákærði játað fyrir dómi að hafa staðið að ræktuninni í sölu- og dreifingarskyni og afhent afrakstur hennar tilgreindum manni gegn endurgjaldi. Þótt sá maður hafi talið einhvern hluta efnanna ónýtan getur það engu breytt um refsinæmi brotsins. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum hluta ákærunnar.

Í 1. mgr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga segir að hver, sem andstætt ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni lætur mörgum mönnum í té ávana- og fíkniefni eða afhendir þau gegn verulegu gjaldi eða á annan sérstaklega saknæman hátt skuli sæta fangelsi allt að 12 árum. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar skal sömu refsingu sæta sá, sem gegn ákvæðum nefndra laga framleiðir, býr til, lætur af hendi eða hefur í vörslum sínum ávana- og fíkniefni í því skyni að afhenda þau á þann hátt, sem greint er í 1. mgr. Að virtu því magni af fíkniefnum sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins og þegar litið er til umfangs þeirrar framleiðslu sem ákærði stóð fyrir verða brot hans talin varða við 2. mgr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga.

II

Ákærða er í II. hluta ákæru gefið að sök peningaþvætti með því að hafa um nokkurt skeið fram til 10. febrúar 2011 á höfuðborgarsvæðinu aflað sér ávinnings að fjárhæð um 10.000.000 krónur með sölu og dreifingu fíkniefna sem voru afrakstur kannabisræktunar hans. Er þetta talið varða við 2. mgr., sbr. 1. og 3. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga.  

Við skýrslugjöf hjá lögreglu 11. febrúar 2011 taldi ákærði sig hafa selt innan við eitt kíló af þeim fíkniefnum sem hann ræktaði, en fyrir það hefði hann fengið greitt um 1.000.000 til 1.500.000 krónur. Þegar lögreglumenn höfðu gengið nánar á hann og stöðvað tvívegis upptöku af skýrslutökunni, án þess að gefa á því skýringu, játaði ákærði að hafa selt sex til átta kíló og fengið fyrir það meira en 10.000.000 krónur. Ákærði gaf aftur skýrslu hjá lögreglu 24. maí 2012 og skýrði frá á sama veg að þessu leyti. Fyrir dómi dró hann þetta til baka og sagði að hann gæti ekki fullyrt um fjárhæðir en sennilega hefði hann fengið um 1.500.000 krónur greitt fyrir fíkniefnin.

Samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Af þessu leiðir að sakfelling verður ekki byggð á skýrslu ákærða hjá lögreglu nema hún fái stoð í öðru sem fram hefur komið og bendir óyggjandi til sektar hans. Í málinu liggur ekki annað fyrir en lausleg áætlun lögreglu um magn seldra fíkniefna, reiknað út frá fjölda smáplastpoka sem vantaði í umbúðir sem fundust á vettvangi. Aftur á móti voru ekki rannsökuð fjármálaumsvif ákærða, svo sem lögreglu var kleift að gera í ljósi þess að hann lýsti því bæði í skýrslutöku 11. febrúar 2011 og 24. maí 2012 að allur ávinningurinn hefði runnið til að greiða af lánum hans hjá tilgreindum lánastofnunum. Að þessu gættu er ósannað að ákærði hafi aflað sér alls þess ávinnings sem hann er ákærður fyrir. Verður hann því aðeins sakfelldur í samræmi við framburð sinn fyrir dómi um að ávinningurinn hafi numið 1.500.000 krónum. Í ákæru er brotið réttilega heimfært til þeirra refsiákvæða sem áður getur.    

III

Samkvæmt framansögðu hefur ákærði verið sakfelldur fyrir stórfelld fíkniefnalagabrot og peningaþvætti. Að því er varðar fyrrnefndu brotin hefur áhrif við ákvörðun refsingar eðli og umfang þeirra en þau voru vel skipulögð. Þurfti ákærði meðal annars að koma sér upp sérútbúnu húsnæði og leggja mikla vinnu í kannabisræktunina, sem hafði staðið yfir í nokkurn tíma. Að því gættu að ákærði hefur ekki áður sætt refsingu sem áhrif hefur við ákvörðun refsingar nú þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði.

Ákæra í málinu var gefin út 8. júlí 2013 en þá voru liðin ríflega tvö ár frá síðustu rannsóknaraðgerð samkvæmt gögnum málsins. Er þá ekki tekið tillit til skýrslu ákærða hjá lögreglu 24. maí 2012, enda var lögreglu kleift að taka viðbótarskýrslu af honum mun fyrr ef efni stóðu til. Engin haldbær skýring hefur verið gefin af hálfu ákæruvaldsins á þessum drætti málsins sem er vítaverður og brýtur í bága við 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 og meginreglu 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Af þessum sökum verður refsing ákærða skilorðsbundin á þann veg sem í dómsorði greinir.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað verða staðfest.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, Árni Björgvinsson, sæti fangelsi í 18 mánuði, en fresta skal fullnustu 15 mánaða af refsingunni og falli sá hluti hennar niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dómsins að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Héraðsdómur skal að öðru leyti vera óraskaður.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 667.783 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóhanns H. Hafstein hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 20. desember 2013.

Mál þetta, sem þingfest var 19. september 2013 og dómtekið 11. desember sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara á hendur ákærða, Árna Björgvinssyni, kennitala [...],[...],[...], fyrir eftirtalin hegningarlagabrot:

I.

„Stórfelld fíkniefnalagabrot, framin á árinu 2011 nema annað sé tekið fram:

1.      Fimmtudaginn 10. febrúar  á heimili sínu að [...],[...], haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni 1.514,30 g af kannabislaufum, 160,20 g af maríhúana, 144,70 g af kannabisplöntuhluta og 169 stk. kannabisplöntur, og hafa um skeið fram til þess dags ræktað greindar plöntur. Fíkniefnin fundust við leit lögreglu í húsnæðinu.

2.      Þriðjudaginn 8. febrúar  í bílskúr við [...] í [...], geymt og haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni  afrakstur af ræktuninni, sbr. ákærulið I.1,  eða 26,80 g af kannabislaufum og 6.090,46 g af maríhúana, en fíkniefnin fundust við leit lögreglu í húsnæðinu.

3.             Fimmtudaginn 10. febrúar  á sama stað og greinir í ákærulið I.2 haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni afrakstur af ræktuninni, sbr. ákærulið I.1, eða 1.898,6 g af  maríhúana, sem fundust á ákærða við handtöku. 

Telst þetta varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II.

Peningaþvætti, með því að hafa um nokkurt skeið fram til 10. febrúar 2011 á höfuðborgarsvæðinu aflað sér ávinnings að fjárhæð um kr. 10.000.000 með sölu og dreifingu ótiltekins magns ávana- og fíkniefna sem voru afrakstur kannabisræktunar, sbr. ákærukafla I.

             Telst þetta varða við 2. mgr., sbr. 1. mgr. og 3. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga.

Þess er krafist að ákærði verið dæmdur til refsingar og greiðslu sakarkostnaðar.

Þess er krafist að framangreind fíkniefni sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002. Jafnframt er krafist upptöku á vog, 2 stk. tunnum, 27 stk. gróðurhúsalömpum, þremur kössum af smelluláspokum og 24 stk. straumfestum á gróðurhúsalömpum og 2 stk. loftsíum til ræktunar, samkvæmt 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 1. tl. 1. mgr. 69. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. (sbr. munaskýrslur nr. 83381, 83368).“

Ákærði kom fyrir dóminn við þingfestingu málsins og játaði háttsemi skv. I. kafla ákærunnar en mótmælti því að háttsemin væri heimfærð til 173. gr. a. almennra hegningarlaga.  Ákærði neitaði því að hafa gerst brotlegur skv. ákærulið I-2 þar sem efnið sem ákært sé fyrir í þeim ákærulið hafi verið ónýtt og því beri ekki að refsa honum fyrir vörslur á því efni. Þá neitaði ákærði sök í II. kafla ákærunnar. Aðalmeðferð hófst þann 4. desember sl. og var fram haldið 11. desember sl. og var málið dómtekið að málflutningi loknum.

Ákærði krafðist sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og að sakarkostnaður verði lagður á ríkissjóð.

Málavextir.

Í upplýsingaskýrslu lögreglu segir að lögreglunni hafi borist upplýsingar þann 8. febrúar  2011 um torkennilega lykt sem bærist frá húsi nr. [...] í [...]. Við frekari rannsókn kom í ljós umtalsvert magn af ætluðu fíkniefni, marijúana, sem pakkað hafði verið í rennilásapoka sem voru um 100 g hver. Á gólfi hafi verið hálfur ruslapoki af efni og slatti af pokum á gólfi. Var í framhaldi haft eftirlit með húsnæðinu en daginn eftir var ákveðið að fjarlægja efnið. Var ákærða skipaður verjandi vegna húsleitar á staðnum. Þann 10. febrúar 2011, er lögreglan var á vakt við bílskúrinn, kom ákærði og lagði við [...] og tók út úr bifreiðinni tvo svarta ruslapoka og hélt á þeim inn í bílskúrinn við [...]. Var ákærði handtekinn í beinu framhaldi. Í upphafi skýrði ákærði lögreglu svo frá að hann hefði keypt efnin en vissi ekki hversu mikið magn af marijúana þetta væri. Var haft eftir ákærða að hann væri með um eitt kíló í plastpokunum. Í framhaldi fór lögregla í húsleit heima hjá ákærða að [...] í [...]. Fannst kannabisræktun í rými undir bílskúr hússins. Í fyrsta rýminu, sem var stórt, voru plöntur í ræktun. Lampaskermar héngu yfir plöntunum sem sumar voru orðnar talsvert stórar og virtust komnar að uppskeru. Í næsta rými voru tveir lampar sem ekki voru í notkun en þar mátti sjá plöntur sem búið var að klippa algjörlega niður þannig að stilkurinn einn var eftir. Einnig var þar mold og rætur undan fleiri plöntum. Í hillu voru græðlingar í ræktun undir einu LED-ljósi. Þar var einnig efni í þurrkun á álbakka. Í þriðja rýminu voru plöntur í ræktun og sjö lampaskermar með 600w perum þar yfir. Voru samtals 169 plöntur í rýminu.

Framburður ákærða fyrir lögreglu.

Ákærði hefur haldið því fram að lögregla hafi beitt hann þvingunum við yfirheyrslur og þvingað fram játningu og breyttan framburð varðandi magn efna sem ákærði er talinn hafa selt. Breytti ákærði framburði sínum fyrir dóminum. Dómarinn hlustaði á allar upptökur og mat trúverðugleika framburðar hans fyrir lögreglu og svo fyrir dóminum.  Verður framburður hans því rakinn hér.

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu fyrst þann 11. febrúar 2011 og óskaði ekki eftir verjanda. Ákærði kvaðst viðurkenna brot sitt og sagði ræktunina hafa byrjað sem fikt og gengið brösuglega til að byrja með en síðan farið að ganga betur. Kvaðst ákærði hafa verið með ræktunina á heimili sínu að [...] í [...] en farið með afraksturinn í bílskúr sem hann hafði aðgang að við [...] í Kópavogi. Ástæðan fyrir ræktuninni hafi verið verulega slæm fjárhagsstaða ákærða. Hann hafi aflað sér þekkingar á kannabisræktun á netinu og hafi staðið einn í þessu. Hafi ræktunin staðið í um tæp tvö ár eða rúmt ár, hann vissi það ekki nákvæmlega. Það hafi verið á árinu 2009 og ræktunin verið mjög smá í sniðum til að byrja með. Þá hafi hann keypt lampa og annan búnað sem til þurfti í einu lagi á árinu 2009. Það hafi verið nokkur hundruð þúsund sem hann lagði í kostnað til að byrja með. Kvaðst ákærði hafa haft lítinn tíma til að sinna ræktuninni vegna vinnu svo og ef einhver var heima þá sinnti hann henni ekki. Vegna tímaskorts hafði hann bara verið búinn að taka stærstu toppana af plöntunum sem voru tilbúnar og hafði farið með þá í bílskúrinn til þurrkunar þegar hann var handtekinn. Kvaðst ákærði hafa látið efnið liggja nokkra daga í [...], flutt efnið síðan í skúrinn og sett það síðan í hvíta fötu. Síðan pakkaði hann því í litla plastpoka. Það hafi gengið mjög illa að selja efnið. Borið var undir ákærða að hann hafi upplýst lögreglu áður en skýrslutakan hófst að hann hafi fengið alla vega fjórar uppskerur og sagði ákærði að í fyrstu hafi uppskeran verið miklu minni og það sé lítið búið að selja, hann gæti ekki einu sinni upplýst hversu mikið. Kvaðst ákærði engin sambönd hafa en hann hafi látið berast út að hann gæti útvegað efni, hann hafi fengið símtal frá manni sem hafi keypt efni af honum sem hafi ekki verið nógu gott og hafi hann því skilað efninu aftur. Það hafi verið á síðasta ári, árinu 2010. Aðspurður hversu mikið hann hafi selt frá upphafi, kvað ákærði aftur að það væri mjög lítið, innan við kíló. Spurður um það hvað hann hafi fengið fyrir grammið, kvað ákærði það hafa verið 2000 krónur. Aðspurður um plastpokana sem ákærði pakkaði efninu í, kvaðst ákærði setja þá í svarta ruslapoka og hitta síðan milligöngumann sinn. Ákærði kvaðst hafa átt að hitta manninn daginn fyrir skýrslutökuna. Það hafi alltaf verið ákveðið fyrirfram hvar og hvenær þeir hittust. Ákærði kvaðst aldrei hringja í hann. Ákærði kvaðst ekki vita um nafn mannsins né símanúmer en hann greiddi sér með peningum. Aðspurður hvert ágóðinn hafi farið kvað ákærði þetta ekki hafa verið mikla peninga, eitthvað yfir milljón. Aðspurður hvernig menn létu svona lagað berast út, kvaðst ákærði hafa í upphafi talað við einhverja „sæmilega fræga í þessum bransa“ og látið þetta berast. Aðspurður aftur um peningana sem hann hafði fengið kvað ákærði það hafa verið um eina og hálfa milljón sem hafi farið í reikninga í bankanum. Ákærði kvaðst skulda eitthvað á annað hundrað milljónir. Aðspurður um rennilásapokana, sem ákærði var nýlega búinn að kaupa, kvaðst ákærði ekki vita hversu mikið það hafi verið. Ákærði var spurður um þær umbúðir sem fundust í bílskúrnum utan um 235 poka, en 64 pokar hafi fundist, bæði með efni í og sem voru í rusli, en 171 poka vanti. Kvaðst ákærði ekki vita hvaðan þær umbúðir hafi komið. Var ákærða bent á að í 171 poka færu um sautján kíló af marijúanna. Svaraði ákærði því að hann hafi ekki selt svo mikið. Ákærða var bent á að þessar umbúðir hafi verið á staðnum og ekki væri verið að búa neitt til af hálfu lögreglu. Var ákærði spurður hvort hann vildi hlé á yfirheyrslunni og kemur í framhaldi fram í yfirheyrslunni að hlé hafi verið gert. Tólf mínútum síðan hefst skýrslutakan aftur og ákærði aftur spurður um þessa 170 poka og kvaðst ákærði halda sig við fyrri sögu. Ákærða var bent á að framburður hans væri ótrúverðugur og ítrekaði ákærði að hann vissi ekki hvað hefði orðið um þessa 170 poka. Þá staðfesti ákærði að enginn annar en hann hefði aðgang að bílskúrnum né kæmi í hann. Aðspurður kvað ákærði það vel geta verið að hann hafi keypt plastpoka annars staðar. Var gert hlé á yfirheyrslunni, án þess að skýra ástæðuna nokkuð frekar, í fimmtán mínútur. Þegar skýrslutaka hófst aftur kvað ákærði magnið hafa verið um sex til átta kíló sem hann hafi afhent, allt sama manninum. Það hafi verið í mörg skipti. Ítrekað spurður um þennan mann, kvaðst ákærði ekki vita neitt meira um hann. Þeir hafi yfirleitt hist á planinu við Smáralind eða Kringluna að degi til. Spurður hvort ákærði hafi ekki verið hræddur um að maðurinn sviki hann um greiðslur kvað ákærði eingöngu hafa verið um staðgreiðslu að ræða. Spurður hversu mikið hann hafi fengið frá manninum kvaðst hann enga hugmynd hafa um það. Hann fengi á milli 1.600 til 2.000 krónur fyrir grammið. Spurður um magnið sem hann afhenti í hvert sinn svaraði ákærði því að hann afhenti manninum um einn til tvo poka núna upp á síðkastið. Spurður hvort það hafi verið á tíu daga fresti, kvað ákærði það stundum hafa verið á tveggja daga fresti. Ákærði kvaðst hafa verið að taka við um 200-400.000 krónum í hvert sinn. Borið var undir ákærða að ef hann seldi átta kíló á 1.600 krónur væri það um 12.000.000. Var ákærði spurður hvort það gæti staðist og svaraði ákærði „já ég hugsa það.“ Þetta hafi farið í bankana og sæi ekki högg á vatni. Þá hafi hann greitt af bílalánum með þessum peningum. Það hafi ekki farið króna inn á bankareikning en hann væri með yfirdrátt á reikningum, sennilega skuldaði hann um 130-200.000.000 króna. Efnaskrá var borin undir ákærða vegna ræktunarinnar og gerði hann engar athugasemdir við hana. Aðspurður hversu mikið af efnum hafi verið í bílskúrnum kvaðst ákærði halda að það hafi verið um fimm og hálft kíló og þar af hafi um fjögur kíló verið ónýt. Það hafi verið brúnleitt efni í ruslapoka. Því efni hafi verið skilað til ákærða aftur. Hann hafi verið búinn að pakka því öllu, hafi reynt einu sinni eða tvisvar að afhenda það en ekki allt efnið. Ákærði kvaðst ekki vita hversu mikið hann hafi verið með af efnum þegar lögreglan tók hann, kvaðst hann halda að það hafi kannski verið um fjórir pokar sem búið var að pakka og kannski um kíló sem var laust en hann hafi ekki verið búinn að vigta það. Aðspurður hvers vegna hann kæmi með pokana aftur, kvaðst ákæri hafa verið með þá heima hjá sér þar sem maðurinn hafi ekki tekið hjá sér neitt síðast þegar þeir hittust og því hafi ákærði verið með fjóra poka til afhendingar þegar hann átti að hitta manninn sama dag og hann var handtekinn.

                Efnaskýrsla vegna haldlagðra efna í bílskúrnum var borin undir ákærða og kvaðst ákærði ekki gera athugasemd við hana. Kvað ákærði efni nr. 2 hafa verið ónýtt, efni í 34 plastpokum. Ákærða var boðið að taka eitthvað fram sem hann vildi og kvað ákærði svo ekki vera.

                Ákærði gaf aftur skýrslu hjá lögreglu 24. maí 2012 og kvaðst ekki þurfa verjanda. Var ákærði spurður hvort hann vildi breyta eða bæta við fyrri framburð sinn og kvað hann svo ekki vera. Var hann þá spurður út í magn og sölu fíkniefnanna. Er ákærði var spurður út í fyrri framburð sinn um að hann hafi talið að salan hafi verið um tíu milljónir og hann spurður í hvað fjármunirnir hafi farið, kvað ákærði peningana hafa farið í afborganir af lánum, hann væri búinn að missa tvo bíla og tvær fasteignir sem hann hafi átt og húsið sem hann búi í, en það sé skráð á föður hans, sé komið í uppboðsferli svo og sumarbústaður hans. Þá séu bæði hann og kona hans orðin gjaldþrota. Kvaðst ákærði hafa verið í sjálfstæðum rekstri sem hafi farið að ganga illa á árunum 2006 og 2007 og hafi hann þá misst rekstrarleyfið. Tekjur ákærða hafi þá minnkað og fjárhagur hans orðið slæmur og öll lán snarhækkað í kjölfar. Ákærði hafi þá tekið þá ákvörðun að fara út í ræktun kannabisefna auk þess að hafa farið í bílabrask. Kvaðst ákærði hafa byrjað á ræktun með um tíu fræ um sumarið 2009 og hafi tekið langan tíma að koma upp einhverri ræktun. Einhver innkoma hafi komið á árinu 2009 og síðan árið 2010. Ákærði kvaðst hafa hætt ræktun en byrjað hana svo aftur. Aðspurður um hvað hann hafi fengið í innkomu í heildina kvaðst ákærði hafa fengið eitthvað um tíu milljónir. Megnið af þeim hafi farið til Landsbankans og Íbúðalánasjóðs. Ákærði kvað eignir sínar hafa verið yfirveðsettar og hann hafi reynt að halda sjó. Ákærði hafi farið með peninga í banka en lagt litlar fjárhæðir inn á reikning. Hann hafi borgað Landsbankanum „helling með cash-i“. Aðspurður kvað ákærði skuldastöðu sína enn slæma en þó betri en á árinu 2011 þar sem búið væri að taka fasteignir upp í skuldir. 

Skýrslur fyrir dómi.

Ákærði kvaðst fyrir dóminum kannast við þá ræktun sem lýst er í ákærulið I-1 og vörslur samkvæmt ákærulið I-3 og hafi ræktunin verið stunduð í sölu- og dreifingarskyni. Ræktunin hafi farið fram í útgröfnu rými undir bílskúr í einbýlishúsi hans en enginn hafi vitað um þetta rými né ræktunina. Þetta hafi verið í raun þrjú rými, „klónar“ hafi verið í fyrsta rýminu, litlar plöntur í öðru og raunveruleg ræktun í þriðja rýminu. Ákærði hafi verið búinn að klippa af þeim plöntum og hafi það verið efnið sem hann hafi verið með. Kvað hann ræktunina hafa staðið í um rúmt ár með einu hléi. Hann hafi byrjað á árinu 2009 en mundi ekki dagsetninguna. Það sem hann hafi ræktað þá sé það sem hafi fundist hjá honum, hann hafi ekki getað losað sig við nema sáralítið af efninu. Aðspurður um að hann hafi sagt hjá lögreglu að um þrjár til fjórar uppskerur hafi verið að ræða kvað hann þetta taka óhemju tíma og þegar uppskeran hafi verið að „klikka“ hafi lítið komið út úr því.

Aðspurður um ákærulið I-2 kvað ákærði rétt að hann hafi haft það efni í sölu- og dreifingarskyni sem hafi verið afrakstur af ræktun hans í [...]. Gerði ákærði ekki athugasemdir við magnið nema hann kvað um fjögur kíló af því hafa verið ónýtt efni og ekki neysluhæft þar sem virka efnið hafi vantað. Kvað hann það efni hafa verið úr fyrstu uppskerunum sem hafi ekki gefið neitt af sér. Hann hafi þá hætt ræktun en byrjað aftur með nýjum fræjum. Það hafi verið algjör þvæla að hafa geymt það ónýta efni. Hafi sá sem keypti efnin af honum látið ákærða vita að efnið væri nothæft. Maðurinn hafi hins vegar skilað sér ónýta efninu á árinu 2010. Maðurinn hafi fengið fyrst prufu og neitað að kaupa meira af því. Ákærði hafi selt efnið í góðri trú á sínum tíma. Það efni hafi verið í bílskúrnum, glærum rennilásapokum, í svörtum poka eða kassa á gólfinu, um fjögur kíló taldi ákærði.  Efnaskýrsla nr. 19626 var borin undir ákærða. Kvaðst ákærði ekki geta munað hvað væri hvað, það væri svo langt síðan. Niðurstaða í matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði Háskóla Íslands, þar sem kemur fram að í því efni sem ákærði taldi vera ónýtt hafi verið tetrahýdrókannabínól 78 mg/g, var borin undir ákærða og kvað ákærði það ekki segja sér neitt. Aðspurður kvað ákærði sig og manninn sem tók við efnunum hafa hist á nokkrum fundum á meðan ákærði var að koma sér upp nýrri ræktun þrátt fyrir að ákærði hafi ekki haft neitt til að afhenda honum og eftir að upp kom að fyrri ræktun væri ónothæf.

Ákærði kvaðst hafa sagt lögreglu að hluti efnanna væri ónýtur og hafi það verið brúnt efni. Ljósmynd nr. 14 í skjölum málsins var borin undir ákærða og benti hann á annan pokann með lausu efni í og þar sem rauð ör bendi á, og kvað það efni hafa verið ónýtt því að það væri brúnleitt. Ákærði kvað kaupandann hafa fengið litlar prufur til að byrja með, sem hann hafi sagt vera ónýtt efni, en síðan hafi hann fengið þrjá poka í einu með eitt hundrað grömmum í hverjum poka þegar ákærði var kominn með gott efni. Aðspurður um það efni sem ákærði var með á sér þegar hann var handtekinn, kvaðst ákærði hafa verið að koma með efni frá [...].

Ljósmyndir af efnum úr bílskúrnum voru bornar undir ákærða og kvað hann efni sem er í svörtum plastpoka á mynd númer 14 á blaðsíðu 10 greinilega vera ónýtt efni. Þá séu leifar í tunnu sem séu örugglega ónýtar.

Ákærði kvað ákærulið I-3 vera réttan. Það væri rétt að efnið væri afrakstur úr ræktuninni í [...].   

Ákærði neitaði sök í ákærulið II. Kvaðst ákærði, í fyrstu yfirheyrslunni, hafa sagt lögreglu að hann hafi verið búinn að selja í kringum eitt kíló en lögreglan neitað að taka það sem gilt svar og stöðvað yfirheyrsluna og hótað ákærða öllu illu. Yfirheyrslan hafi byrjað aftur og ákærði svarað eins, og þá hafi yfirheyrslan verið stöðvuð enn aftur og lögreglumennirnir verið mjög grimmir og hótað honum öllu illu. Ákærða hafi verið hótað gæsluvarðhaldi í langan tíma ef hann játaði ekki og hafi honum verið sagt að þeir væru að panta pláss fyrir hann á Litla-Hrauni. Ákærði kvað sig ekki hafa langað til að vera mínútu lengur á lögreglustöðinni en nauðsyn krefði og  hafi því játað því sem lögreglan vildi heyra. Ákærði kvað það vera rétt að hann hafi selt eitthvað af efninu og notað þann ávinning til að greiða skuldir. Ákærði kvað rétt vera að hann hafi pakkað efninu í litla smelluplastpoka og hafi selt efnið á 1.400 krónur grammið til að byrja með en hann hafi verið nýbúinn að herja út hækkun í 2.000 krónur fyrir grammið. Aðspurður um magnið í lögregluskýrslu, sex til átta kíló, kvað ákærði lögregluna hafa neytt hann til að segja þá tölu. Kvaðst ákærði hafa fengið rúma milljón fyrir það efni sem hann hafi selt. Aðspurður um að ákærði hafi aftur nefnt um tíu milljónir í skýrslutöku í maí 2012, kvað ákærði lögregluna hafa verið snilling í að plata sig. Lögreglumaðurinn hafi nefnt þetta magn sjálfur og ákærði bara samþykkt það sem lögreglumaðurinn hafi viljað fá fram.

Aðspurður um þá plastpoka og þær pakkningar sem hafi fundist í bílskúrnum, sem hafi sýnt að í þeim hafi verið samtals 235 smelluláspokar, kvaðst ákærði engu geta svarað um það,  Pólverjar hafi verið með skúrinn á leigu lengi áður og þetta gæti vel hafa verið frá þeim en þeir hafi verið með skúrinn einhverjum mánuðum áður. Borið var undir ákærða það magn smelluláspoka sem fannst við leit í bílskúrnum og það magn af pokum sem vantaði en samkvæmt því hafi ákærði notað um 170 plastpoka til pökkunar. Ef 100 grömm væru sett í hvern poka þá væri það um 17.000 grömm sem væri búið að selja. Kvaðst ákærði ekki hafa gert það, það væri augljóst mál og spurði hvar peningarnir væru þá.

Ákærði var spurður um skýrslutöku hjá lögreglunni og kvað ákærði lögregluna hafa hótað sér öllu illu ef hann svaraði ekki eins og lögreglan vildi. Þeir hafi slökkt á upptökunni í skýrslutökunni og öskrað og hótað sér. Aðspurður af verjanda ákærða hvort játning ákærða hafi komið í kjölfar þess að lögreglan hafi neitað að halda áfram með skýrslutökuna nema ákærði breytti framburði sínum, svaraði ákærði því játandi. Verjandi spurði aftur hvort lögreglan hafi þvingað ákærða og kvað ákærði það rétt vera. Verjandi spurði ákærða um þá plastpoka sem vantaði upp á, og var ákærði spurður um efni sem var ekki í pokum, hvort það efni hafi áður verið í pokum, hvort ákærði væri búinn að henda þeim pokum, og gat ákærði litlu svarað en kvaðst ekki „hafa grun“. Ákærði var spurður um síðari skýrslutökuna hjá lögreglunni. Kvað ákærði rannsóknarlögreglumanninn hafa lengi leikið góða manninn og verið kumpánlegur við sig, þeir bara spjallað og svo hafi ákærði átt að kvitta fyrir og málið bara búið. Aðspurður hvers vegna ákærði hafi ekki breytt framburði sínum um söluverðmætið, kvað ákærði lögreglumanninn hafa lagt þessa tölu fram sjálfur og svo þóst vera að gera svo svakalega góða hluti fyrir ákærða, hann hafi bara platað ákærða. Ákærði kvað rétt vera að hann hafi farið í verslunina Kost til að kaupa smelluplastpoka.

Vitnið A rannsóknarlögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa fylgst með bílskúr og beðið eftir að ákærði kæmi þangað og tekið þátt í handtöku á honum. Vitnið mundi ekki hvort það hafi farið í húsleit síðar tengda þessu máli. Kvað vitnið lögregluna hafa verið búna að fjarlægja fíkniefnin sem fundust í bílskúrnum áður en ákærði var handtekinn en ákærði hafi verið með tvo poka af fíkniefnum með sér þegar hann var handtekinn.

Vitnið B rannsóknarlögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa komið að haldlagningu efna í bílskúrnum að [...] auk þess að hafa farið í húsleit í [...] og tekið þátt í að klippa niður plöntur og haldleggja þær. Efnin hafi farið í vörslu tæknideildar, þau verið vigtuð og og þeim pakkað og síðan færð í geymslu. Kvað vitnið mikið efni „skúnks“ hafa verið í bílskúrnum og mikið magn af marijúana en ekki mikið af heilum plöntum. Ræktunin hafi verið í gluggalausu húsnæði í kjallara að [...] og þar hafi plönturnar verið klipptar og mældar. Eitthvert magn af marijúana hafi verið í álbakka á staðnum en mest af plöntum. Hafi það verið nokkuð stór ræktun að mati lögreglu. Aðspurt kvað vitnið lögregluna almennt haldleggja marijúana í mismunandi litum, farið að gulna o.fl. en lögreglan gæti ekki lagt neitt mat á það hvort efni væri neysluhæft eða ekki eftir útliti efnanna. Vitnið kvað ljósmynd á bls. 10, mynd nr. 14, vera tekna seinna en fyrri ljósmyndir,  um sé að ræða efnin sem ákærði var með þegar hann var handtekinn og á leið í bílskúrinn.

C prófessor kom fyrir dóminn og kvaðst hafa gert matsgerðir sem liggja fyrir í málinu dagsettar 21. febrúar 2011. Staðfesti hann niðurstöður sínar. Aðspurður um styrk tetrahýdrókannabínóls í sýnum sem rannsóknarstofan hafi fengið til rannsóknar kvað hann meðalstyrk breytilegan frá ári til árs. Á árinu 2008 hafi meðalstyrkur verið 31 mg/g, á árinu 2009 37 mg/g, á árinu 2010 43 mg/g, árinu 2011 43 mg/g og á árinu 2012 26 mg/g. Aðspurt kvaðst vitnið hafa séð töluvert yfir 100 mg/g í sýnum, 145 mg/g sé hæsti styrkur tetrahýdrókannabínóls sem sést hafi í efnum á ofangreindu tímabili. Varðandi sýni merkt 19630 þar sem mældist 104 mg/g af tetrahýdrókannabílóli, þá sé það í hærri kantinum sem mælst hafi. Kvað vitnið Evrópusambandið hafa sett í reglur að heimilt væri að rækta kannabisplöntur sem innihaldi ekki hærra THC-gildi en 2mg/g en kannabisplantan sé einnig ræktuð sem hampur. Þá kvað vitnið sýni merkt 19638 hafa verið rakar plöntur sem hafi verið með 13 mg/g eftir þurrkun og 3,9 mg/g fyrir þurrkun.

Aðspurt hvort eitthvað af sýnunum hafi verið brúnt efni kvað vitnið ekkert hafa verið tekið fram um það. Plönturnar hafi verið grænar en vitnið vissi ekki hvort hin sýnin hafi verið græn eða með annan lit. Sýni sem komi til rannsóknar hafi verið mislit, bæði græn og brún og kvaðst vitnið ekki vita til þess að liturinn hafi neitt að gera með styrkleika efnisins. Kvað vitnið rannsóknir sýna að sé efni með 5-10 mg/g af THC, þá komi það mönnum í vímu.

Vitnið D rannsóknarlögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa komið að rannsókn ofangreinds máls og stjórnað henni frá upphafi. Upphafið hafi verið að tilkynning barst um sterka lykt frá húsnæðinu og vitnið og annar lögreglumaður hafi farið þangað í byrjun. Í ljós hafi komið að lyktin kom frá bílskúrnum svo farið var inn í bílskúrinn. Innst í bílskúrnum hafi verið vinnuborð og þar hafi verið efni í pokum og í tunnum. Allt hafi borið þess merki að um væri að ræða pökkunaraðstöðu og geymslustað. Ekki hafi verið vitað hver átti bílskúrinn eða efnin svo ákveðið hafi verið að vakta skúrinn. Það hafi verið gert í um þrjá sólarhringa en þá hafi ákærði birst með efni með sér. Í framhaldi hafi verið farið í húsleit heima hjá ákærða en ákærði hafi vísað sjálfur á ræktunina. Ræktunin hafi verið í útgröfnu rými undir bílskúr. Þar hafi verið stórfelld framleiðsla í gangi og mikið af búnaði. Búið hafi verið að útbúa útblásturskerfi með síum og það leitt upp og út um þak. Ummerki hafi verið eftir langtíma ræktun og greinilegt að einhverjar uppskerur hafi náðst. Kvað vitnið magnið sem haldlagt var hafa verið mikið efni á mælikvarða lögreglunnar.

Aðspurt um aðferð lögreglunnar við að reikna út hugsanlegt magn sem ákærði hafi selt, kvað vitnið að umbúðir utan af litlum plastpokum hafi verið í bílskúrnum og hafi komið fram á umbúðunum fjöldi  poka. Hafi þeir þá dregið frá þann fjölda poka sem fannst á vettvangi. Ákærði hafi sjálfur upplýst að um 100 grömm hafi verið í hverjum poka. Þannig hafi umfangið verið reiknað. Ákærði hafi sjálfur sagst hafa fengið 1.600 til 2.000 krónur fyrir grammið svo það hafi verið einfaldur útreikningur. Vitnið kvaðst muna að ákærði hafi sagst hafa fengið eitthvað af efni til baka frá kaupanda þar sem það væri ónýtt en efnið hafi verið sent til rannsóknar og þar kæmi niðurstaðan í ljós. Vitnið kvaðst ekkert vita hvaða kröfur kaupandinn hafi gert.

Vitnið var innt eftir framkvæmd skýrslutöku hjá lögreglu og hvort ákærði hafi verið beittur þvingunum og neitaði vitnið því alfarið. Framburður ákærða hafi ekki verið trúverðugur í upphafi né í samræmi við það magn sem fannst á vettvangi. Síðari framburður hans hafi hins vegar verið í samræmi við umfang málsins. Ákærða hafi verið gerð grein fyrir því að vegna umfangs málsins væri möguleiki á að gerð yrði krafa um gæsluvarðhald sem hafi svo ekki verið. Rannsakendum hafi fljótlega verið ljóst að fjárhagsstaða ákærða hafi verið slæm og hafi seinni skýrslutakan snúið meira að því að kanna hana.

Vitnið kvaðst aðspurt ekki muna það sérstaklega hvort einhver efni í bílskúrnum hafi verið brún, efnin hafi verið svipuð og haldlögð efni væru almennt. Þá væru til mismunandi kvæmi af kannabisplöntum þannig að plöntur líta mismunandi út. Vitnið kvað það klárt að ræktun hafi átt sér stað í nokkurn tíma miðað við mold á gólfum og önnur ummerki. Vitnið mótmælti því að ákærði hafi verið beittur þvingunum við skýrslutöku en gat ekki skýrt það sérstaklega af hverju þess væri ekki getið í lögregluskýrslum af hvaða tilefni hlé var gert á upptökum. Það gæti þó hafa verið vegna þess að lögreglumenn hafi þurft að ræða saman eða af öðrum orsökum.

                Vitnið E rannsóknarlögreglumaður kom fyrir dóminn og lýsti aðkomu sinni að málinu. Kvað vitnið þessa kannabisræktun hafa verið mjög umfangsmikla og mikið lagt í að fela hana. Lögreglan hafi ekki áttað sig á því í byrjun húsleitar heima hjá ákærða að þar færi ræktun fram. Vitnið var viðstatt  skýrslutöku yfir ákærða hjá lögreglu og þegar ákærði var handtekinn. Lýsti vitnið því hvernig magn hugsanlegrar sölu hafi verið áætlað út frá umbúðum smelluplastpoka á staðnum svo og upplýsingum ákærða um magn í hverjum poka. Í bílskúrnum hafi verið efni í fötum og svörtum plastpokum. Þar hafi verið áhöld til pökkunar og hafi lögreglan áætlað að þar hafi mikið af efnum farið í gegn. Kvað vitnið aðspurt framburð ákærða í upphafi skýrslutöku, um að ákærði hafi selt efni samtals fyrir eina og hálfa milljón, hafa verið fráleitan og ákærða gerð grein fyrir því. Ákærði hafi síðar í yfirheyrslunni sagst hafa selt efni fyrir sex til átta milljónir og væri það nær því sem lögreglan taldi trúlegt. Lögreglan hafi þó talið að ákærði hafi selt miklu meira magn en það. Aðspurt um það hvort lögregla hafi þvingað fram breyttan framburð hjá ákærða varðandi magn af seldu efni, kvað vitnið það algjörlega fráleitt. Aðspurt um hótanir um gæsluvarðhald kvað vitnið það hafa komið til greina að fara fram á gæsluvarðhald vegna umfangs málsins, magns efna og ræktunarinnar. Lögreglan hafi m.a. talið mögulegt að ákærði væri með ræktun á fleiri stöðum vegna magns efna sem fundust hjá honum. Í því felist hins vegar ekki hótun og hafi ekkert með framburð ákærða að gera. Ákærði hafi hins vegar verið upplýstur um þennan möguleika. Aðspurt um plastpokaumbúðir í bílskúrnum, kvað vitnið þá poka hafa verið nákvæmlega eins og þeir pokar sem fíkniefnin voru pökkuð í. Lögreglan hafi því dregið þá ályktun að þeir pokar sem hafi vantað upp á það magn sem gefið var upp á pakkningunum hefðu verið í þeim, og taldi lögreglan að pokarnir hafi verið notaðir af ákærða.

                Aðspurt um framkvæmd skýrslutöku af ákærða, þegar upptaka var stöðvuð, kvaðst vitnið ekki muna sérstaklega hvers vegna upptakan var stöðvuð en það gæti hafa verið vegna þess að lögreglumennirnir hafi þurft að ræða saman, svo og gæti eins verið að ákærða hafi verið gerð grein fyrir því að hugsanlega yrði gerð krafa um gæsluvarðhald vegna umfangs málsins en í því fælist engin þvingun. Oft sé gert hlé á skýrslutökum vegna óska verjanda eða vegna þess að lögreglumenn þurfi að ræða saman. Í þessu máli hafi þeir m.a. verið að reikna út magn fíkniefna en langt væri um liðið og vitnið mundi það ekki. 

Matsgerðir.

Í gögnum málsins er matsgerð dagsett 21. febrúar 2011 frá Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði Háskóla Íslands. Kemur þar fram að efnasýni merkt 19638, nr. 8 hafi verið græn blómstrandi planta, 966,5 g að þyngd fyrir þurrkun en eftir þurrkun 274,07 g. Magn tetrahýdrókannabínóls í þurru sýni hafi verið 47 mg/g sem samsvari 13 mg/g í sýninu fyrir þurrkun. Þá var efnasýni merkt 20, sem hafi verið græn planta 101,29 g að þyngd en eftir þurrkun 28,23 g. Magn tetrahýdrókannabínóls í þurru sýni var 14 mg/g, sem samsvari 3,9 mg/g í sýninu fyrir þurrkun.

                Önnur matsgerð liggur fyrir dagsett sama dag þar sem efnasýni merkt 19626, nr. 2 var rannsakað. Var sýnið þurrir plöntuhlutar og mulningur, einkum blóm (marihúana), 1,500 g að þyngd. Var magn tetrahýdrókannabínóls í sýninu  78 mg/g. Þá var efnasýni nr. 3 einnig rannsakað sem voru þurrir plöntuhlutar og mulningur, einkum blóm, 1,468 g að þyngd. Var magn tetrahýdrókannabínóls í sýninu 71 mg/g.

                Þriðja matsgerðin, dagsett sama dag, liggur fyrir í málinu vegna efnasýnis merkt 19630, nr. 1 sem var þurr blómhluti plöntu (marihuana) 2,802 g að þyngd. Var magn tetrahýdrókannabínóls í sýninu 104 mg/g.

Forsendur og niðurstöður.

Ákæruliður I.

Ákærði er sakaður um umfangsmikla ræktun fíkniefna í sölu- og dreifingarskyni sem heimfærð er undir 173. gr. a. almennra hegningarlaga. Ákærði hefur játað háttsemina en mótmælir að hún sé heimfærð til 173. gr. a. almennra hegningarlaga. Ákærði mótmælti einnig því magni sem fannst hjá honum þar sem stór hluti, eða um fjögur kíló, af því efni sem tilgreint er í ákærulið I-2 hafi verið ónýtt. Þá mótmælti ákærði því að hann hafi haft þann ávinning af framleiðslunni sem greinir í ákærulið II.

Um er að ræða 8.149.26 g af maríjúana, 1.541,10 g af kannabislaufum, 144.7 g af plöntuhlutum og 169 stk. kannabisplöntur sem ákærði var með á ýmsum stöðum, bæði að [...] í [...] og í bílskúr að [...] í [...] þegar hann var handtekinn, eða í allt tæp tíu kíló af fíkniefnum. Ákærði viðurkenndi að hafa staðið að ræktuninni um nokkurt skeið og selt afraksturinn á þeim tíma. Ákærði vissi þó ekki hversu mikið það var, ýmist um eitt kíló eða sex til átta kíló eins og hann skýrði frá hjá lögreglu. 

Varðandi ákærulið I-2, þá er efni, sem ákærði taldi ónýtt, ýmist sagt í 100 gramma pokum eða laust í svörtum plastpoka eins og verjandi þráspurði um og byggði á. Kvað verjandi efnið á ljósmynd 14, bls. 10 í málsskjölum, sem er laust efni í stórum ruslapoka, vera brúnt á lit og því ónothæft sem vímugjafi, enda hafi kaupandi efnanna skilað því aftur til ákærða og ákærði geymt það í bílskúrnum. Við yfirheyrslu hjá lögreglu taldi ákærði efnin í bílskúrnum hafa verið um fimm og hálft kíló og þar af um fjögur kíló ónýt. Það hafi verið brúnleitt efni í ruslapoka. Því efni hafi verið skilað til sín en hann hafi verið búinn að pakka því öllu, hafi reynt einu sinni eða tvisvar að afhenda það en ekki allt efnið í einu. Í lok skýrslugerðar hjá lögreglu var efnaskýrsla borin undir ákærða og kvað hann efni nr. 2 hafa verið ónýtt efni í 34 plastpokum. Samrýmist það efni sem var pakkað í litla poka og var í stórum svörtum plastpoka.  

Fyrir liggja þrjár matsgerðir eins og að ofan greinir. Í matsgerð vegna efnissýna 19626 nr. 2 kemur fram að magn tetrahýdrókannabínóls var 78 mg/g í sýninu. Í efnaskýrslunni kemur fram að það efni hafi verið í svörtum plastpokum með 34 plastpokum í. Fundarstaður hafi verið á gólfi í bílskúr og verið 3.259,90 g. Þá kvað verjandi ákærða efni á ljósmynd nr. 14 á bls. 10 í rannsóknargögnum hafa verið ónýtt þar sem það hafi verið brúnt efni og ósöluhæft. Í framburði ákærða og lögreglu kom fram að umrædda poka, sem sjást á þeirri mynd, hafi ákærði komið með á leið sinni í bílskúrinn þann 10. febrúar 2011. Í matsgerð vegna efnasýnis merktu 19630 nr. 1, segir að tetrahýdrókannabínól í sýni hafi verið 104 mg/g. Í efnaskýrslunni segir að efnið sé úr svörtum ruslapoka og hafi vegið 1.476,90 g. Er það sama efni og ákærði var með laust í svörtum ruslapoka þegar hann var handtekinn.

Þrátt fyrir fullyrðingar ákærða um að hluti efnisins hafi verið ósöluhæft, þá sýna niðurstöður rannsókna á efninu hið gagnstæða. Verður ekki tekið undir þá málsvörn ákærða að efni sem fannst í 34 litlum plastpokum og voru í svörtum stórum plastpoka, né laust efni sem var í stórum svörtum plastpoka hafi verið ónothæft efni eins og ákærði byggir á.

                Með játningu ákærða og með vísan til niðurstöðu matsgerða er framkomin lögfull sönnun þess að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í kafla I, ákæruliðum 1-3 í ákæru.

                Brot ákærða samkvæmt þessum kafla ákærunnar eru heimfærð til 173. gr. a. almennra hegningarlaga. Mótmælti ákærði því og taldi skilyrði ákvæðisins ekki uppfyllt og því beri að sýkna hann vegna rangrar heimfærslu í ákæru.

                Í 173. gr. a. almennra hegningarlaga segir að hver, sem andstætt ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni, lætur mörgum mönnum í té ávana- og fíkniefni eða afhendir þau gegn verulegu gjaldi eða á annan sérstaklega saknæman hátt, skuli sæta fangelsi allt að tólf árum. Í 2. málsgrein segir að sömu refsingu skuli sá sæta, sem gegn ákvæðum nefndra laga framleiðir, býr til, flytur inn, flytur út, kaupir, lætur af hendi, tekur við eða hefur í vörslum sínum ávana- og fíkniefni í því skyni að afhenda þau á þann hátt, sem greint er í 1. mgr.

                Í máli þessu hefur ákærði verið sakfelldur fyrir að hafa í fórum sínum, í sölu- og dreifingarskyni, rúmlega átta kíló af nokkuð sterku marijúana, rúmlega eitt og hálft kíló af kannabislaufum og verið með 169 kannabisplöntur í ræktun. Var ákærði búinn að stunda þessa starfsemi í að minnsta kosti rúmt ár þegar hann var handtekinn, en ákærði sagðist sjálfur hafa hitt millilið sinn í fyrsta sinn fyrir jólin árið 2009 en í annarri skýrslu segist hann hafa hitt hann um sumarið 2009. Ákærði framleiddi mikið magn fíkniefna, hann seldi það til milliliðs, sem ákærða mátti vera fullljóst að seldi efni áfram til ótiltekins hóps fólks, sem öldungis má jafna við að ákærði hafi selt sjálfur til fjölda manna, og ákærði hafði mikinn ávinning af. Uppfyllir háttsemi ákærða skilyrði 173. gr. a. almennra hegningarlaga og er brot hans réttilega heimfært til refsiákvæðis og verður ákærði sakfelldur fyrir hana.

Ákæruliður II.

Ákærði hefur neitað þeirri háttsemi sem ákært er fyrir í þessum ákærulið en kveðst hafa selt fíkniefni fyrir eina til eina og hálfa milljón króna. Ekki verður tekið undir það hjá ákærða að lögreglan hafi lagt honum orð í munn við skýrslutökur. Fyrir dóminum neitaði ákærði að hafa selt meira en um eitt kíló af marijúana og haft ávinning um eina til eina og hálfa milljón króna. Í fyrsta framburði ákærða hjá lögreglu bar hann á sama veg. Síðar í þeirri sömu skýrslutöku kvaðst ákærði hafa selt á milli sex og átta kíló. Í seinni yfirheyrslunni í maí 2010 var borið undir ákærða hvort hagnaðurinn hafi verið um tíu milljónir og svaraði ákærði því játandi. Ekkert bendir til þess í framburði ákærða hjá lögreglu að hann hafi verið undir þrýstingi eða ekki verið að segja frá staðreyndum. Þá er ekki óeðlilegt að ákærði hafi reynt í fyrstu að fegra verknað sinn. Í seinni lögregluskýrslunni var magn seldra efna borið undir ákærða og var ekki annað að sjá á ákærða við þá yfirheyrslu en að hann væri á trúverðugan hátt að skýra frá magninu og í hvað peningarnir fóru. Þá voru spurningar verjanda ákærða fyrir dómi, um aðferð lögreglunnar við að fá fram játningu, leiðandi og gáfu ákærða tilefni til að svara þeim með „já“ eða „nei“. Þá hefur ákærði ætíð borið að hann hafi fengið í fyrstu 1.400 krónur fyrir grammið en það hafi verið komið upp í 2.000 krónur. Ákærði lýsti því fyrir lögreglu og dóminum að hann hafi afhent tvö til þrjú hundruð grömm í hvert sinn sem hann hitti kaupanda sinn og einnig að hann hafi stundum hitt hann á tveggja daga fresti. Miðað við þennan framburð stenst varla að á rúmlega eins árs tímabili hafi ákærði eingöngu afhent um tíu poka eins og hann vill halda fram nú. Þá kvaðst ákærði ekki kannast við þær umbúðir utan af smelluplastpokum sem fundust í bílskúrnum og sagði fyrir dóminum að þær gætu allt eins stafað frá einhverjum Pólverja sem hafi verið með bílskúrinn áður en ákærði tók hann til notkunar. Er þessi framburður ákærða ótrúverðugur og síðar tilkominn en á ljósmyndum mátti m.a. sjá myndir af opinni eins pakkningu og ákærði var nýlega búinn að kaupa í Kosti.

                Samkvæmt 111. gr. laga nr. 88/2008 skal dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Samkvæmt 115 gr. sömu laga metur dómari sönnunargildi framburðar ákærða, þar á meðal trúverðugleika hans, við úrlausn máls. Í því sambandi skuli meðal annars huga að ástandi og hegðun ákærða við skýrslugjöf og stöðugleika í frásögn hans. Þá segir enn fremur í 109. gr. laganna að dómari meti hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varði sekt, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða hafi, vitnisburður, mats- og skoðunargerð, skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn.

                Ákærði neitar sök í II. kafla ákærunnar og byggir á því að játning hans hjá lögreglu hafi verið þvinguð fram og vísar til þess sem fram komi í endurriti skýrslutökunnar 11. febrúar 2011 sem megi einnig sjá á upptöku af skýrslutökunni í hljóði og mynd. Dómari hefur hlustað á upptökurnar og telur ekkert þar að merkja um að ákærða hafi verið hótað, honum misboðið eða á annan hátt að lögregla hafi neytt hann til að segja eitthvað sem ekki sé rétt til að fá svör sem lögreglu líki. Var ákærði rólegur og yfirvegaður í þeirri skýrslutöku. Í skýrslutöku 24. maí 2012 er ákærði einnig rólegur og yfirvegaður og staðfestir það að hann hafi haft um tíu milljónir í hagnað af sölunni. Þrátt fyrir að ákærði segi nú fyrir dóminum að hann hafi ekki selt fyrir meira fé en eina til eina og hálfa milljón á öllu tímabilinu, stangast það á við öll önnur sönnunargögn sem lögð hafa verið fram í málinu, m.a. þann fjölda smelluplastpoka sem ætla megi að hafi verið notaðir undir efnið í sölueiningum og svo það magn sem fannst hjá ákærða en hann hafði stundað sölu í það minnsta í eitt ár þegar hann var stöðvaður. Miðað við þann fjölda smelluplastpoka sem vantaði í umbúðir sem fundust á staðnum, það magn sem ákærði kvað sjálfur að færi í pokana og það verð sem ákærði kvaðst hafa selt efnið á má ætla að hann hafi haft allt að 27.000.000 króna hagnað af sölunni. Telur dómurinn að ákæruvaldið hafi látið ákærða njóta alls vafa um hagnað og er hann ekki ákærður fyrir peningaþvætti á hærri fjárhæð en ákærði skýrði sjálfur frá og er trúverðugt þegar litið er heildstætt á málið. Þá komu báðir lögreglumennirnir fyrir dóminn og neituðu því að ákærði hafi verið beittur þvingunum eða hótunum við skýrslutökur en skýrðu jafnframt frá því að vegna umfangs málsins hafi ákærða verið gerð grein fyrir því að möguleiki væri á að krafist yrði gæsluvarðhalds yfir honum. Í því hafi ekki falist nein hótun en ákærði hafi játað brotin og efnin verið haldlögð.

                Að öllu þessu virtu telur dómurinn að ákæruvaldinu hafi tekist að færa fram lögfulla sönnun þess að ákærði hafi að minnsta kosti haft um tíu milljónir króna í hagnað vegna sölu á marijúana allt til 10. febrúar 2011 eins og greinir í ákæruliðnum. Er háttsemin réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi og gerð refsing fyrir.

Þær refsingar sem ákærða hefur áður verið gert að sæta hafa ekki áhrif við ákvörðun refsingar nú.

                Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga, fyrir að hafa staðið að ræktun kannabisefna í sölu- og dreifingarskyni og fyrir vörslur á miklu magni af sterku marijúana sem átti að fara í sölu og dreifingu. Var ásetningur ákærða einbeittur  og styrkur og gekk honum ekki annað til en að halda framleiðslunni áfram í þeim tilgangi að selja afraksturinn í hagnaðarskyni. Ákærði á sér engar málsbætur. 

Ákærða til refsiþyngingar verður að líta til 1., 2., 3., 6. og 7. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Ákærða til refsilækkunar verður að líta til játningar hans og þess að hann hefur verið samvinnufús svo og til 8. tl. 1. mgr. 70. gr. s.l. Þá ber að ákvarða ákærða refsingu eftir reglum 77. gr. almennra hegningarlaga. Er refsing ákærða talin hæfileg fangelsi í þrjú ár. Ekki þykja skilyrði til að skilorðsbinda refsinguna.

Þá skal ákærði sæta upptöku á fíkniefnum og áhöldum eins og segir í dómsorði.

                Ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, sem er samkvæmt yfirliti 395.992 krónur, auk málsvarnalauna skipaðs verjanda síns, Ólafs Karls Eyjólfssonar hdl., 414.150 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð.

Ákærði, Árni Björgvinsson, skal sæta fangelsi í þrjú ár.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, samtals 810.142 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ólafs Karls Eyjólfssonar hdl., 414.150 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.        

Ákærði sæti upptöku á 1.541,10 g af kannabislaufum, 144,70 g af kannabisplöntuhlutum, 169 stk. af kannabisplöntum og 8.149,26 g af marijúana. Ákærði sæti einnig upptöku á tveimur tunnum, 27 gróðurhúsalömpum, þremur kössum af smelluláspokum og 24 straumfestum á gróðurhúsalampa og tveimur loftsíum til ræktunar.