Hæstiréttur íslands
Mál nr. 655/2008
Lykilorð
- Líkamsárás
- Skilorð
- Miskabætur
|
|
Fimmtudaginn 19. nóvember 2009. |
|
Nr. 655/2008. |
Ákæruvaldið(Hulda Elsa Björgvinsdóttir settur saksóknari) gegn Haraldi Fossan Arnarssyni(Helgi Birgisson hrl.) |
Líkamsárás. Skilorð. Miskabætur.
H var ákærður fyrir sérlega hættulega líkamsárás með því að hafa slegið A í andlitið með krepptum hnefa og síðan slegið hann tvisvar sinnum í höfuðið með glerflösku. Í dómi Hæstaréttar kom fram að framburður A þess efnis að H hefði slegið sig tvisvar í höfuðið með flöskunni ætti sér nokkra stoð í framburði læknisins Þ. Hins vegar yrði ekki litið fram hjá því að A væri einn um þann framburð fyrir dómi sem vitni á vettvangi. Neitun H á þessum sakargiftum átti sér hins vegar stoð í framburði vitnisins C. Sökum þessa var ekki hægt að telja sönnun fram komna fyrir því að H hefði slegið A í höfuðið með flöskunni og var hann því sýknaður af broti gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Þar sem H hafði viðurkennt að hafa slegið A hnefahögg í höfuðið var H sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Var H dæmdur í 45 daga skilorðsbundið fangelsi auk þess sem honum var gert að greiða A miskabætur að fjárhæð 250.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 11. nóvember 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds sem krefst staðfestingar héraðsdóms.
Ákærði krefst sýknu af kröfu ákæruvalds og að skaðabótakröfu A verði vísað frá héraðsdómi.
A hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Litið er svo á að hann krefjist staðfestingar héraðsdóms um bótaþátt málsins.
I
Í máli þessu er ákærða gefin að sök sérstaklega hættuleg líkamsárás með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 16. júlí 2007, á horni Klapparstígs og Hverfisgötu í Reykjavík slegið A í andlitið með krepptum hnefa og síðan slegið hann tvisvar sinnum í höfuðið með glerflösku, með þeim afleiðingum að flaskan brotnaði. Við þetta á A að hafa hlotið glóðarauga vinstra megin, eymsli yfir kinnbeini og sár aftarlega á höfði vinstra megin. Í ákæru er háttsemi ákærða heimfærð undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og er þess krafist að hann verði dæmdur til refsingar. Þá krafðist A þess að ákærði yrði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 562.250 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. júlí 2007 til greiðsludags.
Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði fundinn sekur um háttsemi samkvæmt ákæru, dæmdur í sex mánaða fangelsi þar af þrjá mánuði skilorðsbundið og til greiðslu 412.250 króna í skaðabætur til A með vöxtum eins og hann krefst.
II
Af framburði sem rakinn er í héraðsdómi má ráða að umrædda nótt hafi eggjum verið kastað úr bifreið sem ekið var hægt niður Laugaveginn. Munu þau hafa lent á gangandi vegfarendum þar á meðal á A og félaga hans. Í framhaldi af því mun A hafa gengið að þeirri bifreið er hann taldi eggin hafa komið úr og skvett úr bjórflösku inn um glugga hennar, en félagi hans slegið í vélarhlíf bifreiðarinnar. Ákærði og eigandi bifreiðarinnar, C, munu þá hafa stigið út úr henni, ákærði hlaupið á eftir A og náð honum nokkru síðar á Hverfisgötu. Var A þá enn með flöskuna í hendinni. C mun hafa komið í humátt á eftir. Auk ákærða og A bar aðeins eitt vitni, C, fyrir dómi sem sjónarvottur um hvað þá gerðist og ákæra lýtur að.
Framburður A er í samræmi við ákæru. Hins vegar lýsti ákærði því að A hafi snúið sér að ákærða og otað fram flöskunni. Hafi ákærði slegið flöskuna úr hendi A og við það hafi hún skollið á vegg. Ákærði kvaðst í framhaldi af því hafa slegið A hnefahögg í andlit, komið hafi til handalögmála milli þeirra og sá síðarnefndi fallið í jörðina. Ákærði kvaðst þó telja að flaskan gæti, án þess að hann hefði tekið eftir því, hafa farið í höfuð A áður en hún kastaðist í vegginn. Vitnið C staðfesti þessa frásögn ákærða. Áverkar á A voru ekki verulegir, en Þórður Gísli Ólafsson heimilislæknir bar fyrir dómi að líklegra væri að áverkar á hársverði væru eftir flösku frekar en að A hefði rekið höfuðið í vegg, gangstéttarbrún eða þvíumlíkt. Þó kvaðst hann ekki geta útilokað það.
Sönnunarbyrði um atvik sem eru sakborningi í óhag hvílir á ákæruvaldinu, samkvæmt 45. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. nú 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þrátt fyrir að framburður A fái nokkra stoð í framburði læknisins Þórðar Gísla um áverka þess fyrrnefnda verður ekki fram hjá því litið að hann er fyrir dómi einn um þann framburð sem vitni á vettvangi. Hins vegar fær staðföst neitun ákærða stoð í framburði vitnisins C um að ákærði hafi ekki slegið A í höfuð með flösku. Sökum þessa er með vísan til 46. gr. laga nr. 19/1991, sbr. nú 109. gr. laga nr. 88/2008, ekki unnt að telja sönnun komna fram fyrir því að ákærði hafi slegið A í höfuð með flösku.
III
Eins og að framan greinir hefur ákærði viðurkennt fyrir dómi að hafa slegið A hnefahögg í höfuðið eftir að A hafi gefist upp á flóttanum. Sá framburður er í samræmi við framburð vitna og áverka á andliti A. Hins vegar hefur ákærði borið við neyðarvörn vegna þess háttalags sem hann segir A hafa viðhaft með flöskuna. Ákærði kvaðst þó ekki hafa metið það svo á vettvangi að A hafi ætlað að ráðast á sig, en telja að hann hafi frekar brugðið flöskunni á loft sér til varnar. Verður þegar af þeim sökum ekki fallist á þessa málsvörn ákærða. Hann hefur unnið sér til refsingar fyrir líkamsárás sem varðar við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Ekki er heldur fallist á með ákærða að framangreind atvik á Laugavegi réttlæti árás hans þannig að áhrif eigi að hafa við ákvörðun refsingar. Sakarferill ákærða er nægilega rakinn í héraðsdómi og verður hann dæmdur til fangelsis í 45 daga, sem þykir mega binda skilorði eins og í dómsorði greinir.
Fallist er á með héraðsdómi að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 um miskabætur til handa A, sem ákveðast 250.000 krónur. Að teknu tilliti til kröfugerðar hans fyrir Hæstarétti ákveðast dráttarvextir frá sama degi og í dómsorði héraðsdóms segir. Þá verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um útlagðan kostnað A við að halda kröfunni fram í héraði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða helming áfrýjunarkostnaðar málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað, þar með talið málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Það athugast að í hinn áfrýjaða dóm vantar lýsingu á efni ákærunnar.
Dómsorð:
Ákærði, Haraldur Fossan Arnarsson, sæti fangelsi í 45 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði greiði A, 312.250 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. júlí 2008 til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Ákærði greiði helming áfrýjunarkostnaðar málsins, sem er samtals 247.149 krónur að meðtöldum málsvarnarlaunum skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Helga Birgissonar hæstaréttarlögmanns, 224.100 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. nóvember 2008.
Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 19. júní sl. á hendur ákærða, Haraldi Fossan Arnarsyni, kt. 280185-2569, Gullengi 3, Reykjavík, “fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 16. júlí 2007, á horni Klapparstígs og Hverfisgötu í Reykjavík, slegið A í andlitið með krepptum hnefa og síðan slegið hann tvisvar sinnum í höfuðið með glerflösku, með þeim afleiðingum að flaskan brotnaði. Við þetta hlaut A glóðarauga vinstra megin, eymsli yfir kinnbeini og sár aftarlega á höfði vinstra megin.
Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
A, kennitala [...], krefst skaðabóta að fjárhæð kr. 562.250, auk dráttarvaxta skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. júlí 2007 til greiðsludags.”
Málavextir
Fyrir liggur að skömmu eftir miðnætti, aðfaranótt mánudagsins 16. júlí 2007, var tveimur eða þremur bílum ekið hægt niður Laugaveg í Reykjavík. Var ákærði farþegi í einum þessara bíla. Á móts við kaffihúsið Hljómalind var eggjum kastað úr einum eða fleiri bílum að fólki sem þar stóð. Varð það til þess að A gekk að bílnum sem ákærði sat í og kom til orðaskipta með þeim. Lauk þeim með því að A skvetti úr bjórflösku inn í bílinn. Hljóp hann svo á brott en ákærði veitti honum eftirför niður Klapparstíg og yfir Hverfisgötu þar sem þeir námu staðar. Kom þar til átaka og var hringt til lögreglu eftir að þeim lauk og tilkynnt um að maður væri að berja annan með flösku á Hverfisgötu. Lögreglumenn hittu þá A og B á Klapparstíg og sagði A mann úr einum bílnum hafa tekið af sér bjórflösku sem hann var með og barið sig með henni í höfuðið. Þá hefði hann einnig kýlt sig nokkrum sinnum. B kvaðst einnig hafa orðið fyrir árás annars manns úr einum bílnum og verið kýldur. Gátu þeir lýst mönnum þessum og gefið upp bílnúmerin sem svo varð til þess að hafðist upp á bílnum og ákærða í þessu máli.
A leitaði sér læknishjálpar síðdegis næsta dag á heilsugæslustöðinni í Efra-Breiðholti. Í staðfestu vottorði Þórðar G. Ólafssonar yfirlæknis þar segir að smásár hafi verið á höfði, aftarlega og vinstra megin. Hafi þar verið bólga og A sagst finna til dálítilla eymsla þar. Ekki hafi verið rof alveg í gegnum húðina. Þá hafi hann verið með glóðarauga vinstra megin og hann sagst vera aumur yfir kinnbeini þar undir. Þá hafi hann sagst vera aumur í vinstri framhandleggsvöðva en hvorki hafi verið að sjá þar mar né bólgu. Læknirinn tók myndir af áverkunum og fylgja þær málinu. Á þeim sést áverki í hársverði, roði og hrúður, svo og lítils háttar glóðarauga vinstra megin.
Verður nú gerð grein fyrir því sem fram hefur komið í aðalmeðferð málsins.
Ákærði neitar sök. Hann segir eggjum hafa verið kastað úr bíl sem ekið hafi verið á undan þeim að nærstöddu fólki. Við það hafi þeir C, sem ekið hafi bílnum, farið að hlæja en piltur komið og gengið í veg fyrir bíl þeirra og barið í vélarhlífina og öskrað á þá. Annar piltur hafi þá komið hlaupandi og hellt bjór inn í bílinn og yfir ákærða. Kveðst hann hafa reiðst þessu og hlaupið úr bílnum og á eftir piltinum niður Klapparstíg og niður á Hverfisgötu og þar yfir götuna. Hafi pilturinn snúið sér þar við og haldið á flösku. Hafi hann lyft henni upp og otað henni að ákærða í axlarhæð. Kveðst ákærði þá hafa komist í vörn, orðið hræddur og náð að slá flöskuna af piltinum, áður en hann gat beitt henni gegn ákærða, svo að hún hún annað hvort slegist vegg sem þarna var fyrir aftan piltinn eða í höfuð honum og brotnað. Eins geti hún fyrst hafa farið í höfuð piltsins og síðan í vegginn. Þeir hafi svo slegist þarna og kýlt hvor annan nokkrum sinnum í andlitið og kveðst ákærði svo hafa verið búinn að fá nóg og ýtt honum frá sér svo að pilturinn hrasaði við og hlaupið á brott. Hafi hann hitt C, sem einnig hafði hlaupið úr bílnum á eftir hinum piltinum. Hafi þeir farið í bílinn sem var uppi á Laugavegi og ekið á brott.
A hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því að hann hafi staðið ásamt nokkrum vinum sínum við Hljómalind og þeir þá fengið yfir sig egg úr bíl sem ekið var framhjá. Kveðst hann þá hafa gengið að einum bílnum og séð að fólk í honum var með eggjabakka. Hafi orðið orðaskipti sem hafi lyktað með því að hann skvetti úr bjórlögg úr flösku inn um bílgluggann. Hafi sá, sem fyrir þessu varð, losað beltið og sagt: “Nú ertu dauður” og kveðst hann þá hafa hlaupið á brott og haldið á flöskunni og maðurinn á eftir honum. Hafi maðurinn öskrað og endurtekið þessi orð. Hann kveðst svo hafa hætt að hlaupa, enda hafi maðurinn dregið á hann, og maðurinn kýlt hann í höfuðið, aftur og aftur. Kveðst hann hafa borið hendurnar fyrir sig til að verjast höggunum í stað þess að slá á móti. Hafi hann fallið í jörðina við þetta. Hafi maðurinn tekið flöskuna sem lá þarna hjá og barið henni tvisvar af afli í höfuðið á honum þar sem hann sat og brotnaði flaskan við seinna höggið. Starfsmaður hótels þarna skammt frá hafi komið þarna að og sagst hafa séð þetta allt. Ákærði hafi þá hlaupið í bíl vinar síns sem hafi verið þarna rétt hjá. Hann kveðst hafa náð sér líkamlega af þessu en hann hafi orðið fyrir andlegu áfalli.
C hefur skýrt frá því að kastað hafi verið eggjum að fólki við kaffihús úr bíl sem ók á undan þeim ákærða. Hafi þeir ákærði farið að hlæja að þessu en tveir úr hópnum þá komið að bílnum og annar þeirra slegið í vélarhlífina á bílnum. Þá hafi hann komið að bílglugganum hjá ákærða og hellt úr bjórflösku og tæmt hana inn í bílinn. Hafi þeir ákærði hlaupið úr bílnum og ákærði elt strákinn. Annar strákur sem var þarna með hinum hafi einnig hlaupið í burtu en numið staðar á Klapparstíg. Vitnið kvaðst þó ekki hafa átt neitt sökótt við hann heldur viljað fá hinn piltinn til þess að segja á sér deili vegna hugsanlegrar bótakröfu. Hafi hann því haldið áfram á eftir þeim hinum niður á Hverfisgötu og ekki verið langt á eftir ákærða. Hafi hann séð hvar strákurinn nam staðar og sneri sér við. Hafi hann reitt flöskuna hátt til höggs, enda verið búinn að tæma flöskuna inn í bíl vitnisins, og hafi hann reynt að slá ákærða í höfuðið með henni. Þegar hann lét höggið ríða hafi ákærði getað slegið flöskuna úr hendi hans með flötum lófanum svo að flaskan skall í vegg. Hafi hún ekki farið í höfuðið á stráknum og þeir ákærði svo skipst á nokkrum höggum. Kveður hann ákærða hafa ýtt við stráknum svo að hann féll og eftir það hafi þeir ákærði haldið upp á Laugaveg og farið í bílinn. Undir vitnið er borin skýrsla hans hjá lögreglu þar sem fram kemur að annar strákanna hafi skvett bjórnum enn hinn lamið í vélarhlífina. Hann segir að þannig geti þetta hafa verið.
Þórður Gísli Ólafsson læknir hefur komið fyrir dóminn og staðfest vottorð sitt í málinu. Hann segir áverkann á höfði A geta samrýmst því að áverkinn sé eftir einhvers konar áhald. Hafi áverkinn verið ofarlega á höfðinu, ekki fjarri hvirflinum og verið eitt sár. Hann segir aðspurður af verjanda að ólíklegt sé að áverkinn sé eftir gangstéttarbrún miðað við útlit hans. Ekkert sé þó hægt að útiloka, svo sem að sárið sé eftir að höfuðið hafi skollið í vegg en þó sé það ekki líklegt. Líklegra sé að eftir sléttan flöt komi bólga og mar. Engin blæðing hafi verið úr sárinu þegar vitnið sá það en sést hafi hrúður eftir blæðingu. Ekki sé líklegt að mikið hafi blætt úr sárinu þar sem skurður hafi ekki verið á húðinni. Meðal gagna málsins er skýrsla sem tekin var hjá lögreglu af erlendu vitni, D, þegar mál þetta var þar til rannsóknar. Hann mun vera farinn af landi brott og finnst ekki. Af hálfu ákæruvaldsins hefur því verið hreyft að skýrsla þessi hafi sönnunargildi og að byggja megi á henni í málinu, sbr. 3. mgr. 48. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991. Þessu er mótmælt af hálfu ákærða. Sá sem skýrsluna skráði hefur ekki komið dóm í málinu frekar en votturinn að henni. Þykir því ekki vera óhætt að byggja á henni í málinu.
Niðurstaða
Ákærði neitar því að hafa slegið A með flöskunni en kannast við að hafa skipst á hnefahöggum við A. Ber C með honum um þetta. Þess er þó að gæta að frásögn þeirra varðandi flöskuna getur ekki talist fyllilega trúverðug í sjálfu sér og hún skýrir ekki áverkann ofan á höfði A. Aftur á móti þykir þessi áverki vera í góðu samræmi við vætti A sem segist hafa setið þegar ákærði sló hann með flöskunni ofan á höfuðið. Þykir ekki varhugavert að hafna framburði ákærða og C um þetta atriði og byggja á frásögn A. Telst ákærði vera sannur að því að hafa slegið hann tvisvar sinnum með flösku ofan á höfuðið svo að hann hruflaðist þar. Öllum þremur ber saman um að ákærði hafi slegið A í andlitið og telst það vera sannað og að áverkarnir í andliti A stafi af því. Hefur ákærði orðið sekur sérlega hættulega líkamsárás og brotið gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.
Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður
Ákærði hefur að baki nokkurn sakaferil og ber þar helst að nefna ákærufrestun og þrjá dóma fyrir þjófnaðarbrot og dóm fyrir fíkniefnalagabrot. Þess er þó að gæta að tveir fyrri dómarnir eru vegna brota sem framin voru áður en ákærði varð 18 ára. Auk þessa hefur ákærða verið refsað nokkrum sinnum fyrir umferðarlagabrot. Brot ákærða var fólskulegt og hættulegt. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði. Rétt þykir að fresta framkvæmd 3 mánaða af refsingunni og ákveða að sá hluti hennar falli niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Af hálfu A er þess krafist með vísan til a- og b- liða 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993 að ákærði verði dæmdur til þess að greiða honum 562.250 krónur í skaðabætur ásamt dráttarvöxtum frá 16. júlí 2008 til greiðsludags samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001. Af hálfu ákærða er þess krafist að kröfunni verði vísað frá dómi.
Krafan sundurliðast sem hér segir:
|
miskabætur |
500.000 krónur |
|
lögmannskostnaður |
50.000 - |
|
vsk á lögmannskostnað |
12.250 - |
|
Samtals |
562.250 - |
Taka ber kröfuna til greina eins og hún er fram sett en miskabætur þykja hæfilegar 350.000 krónur. Ber þannig að dæma ákærða til þess að greiða A 412.250 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 16. júlí 2008 til greiðsludags.
Dæma ber ákærða til þess að greiða verjanda sínum, Helga Birgissyni hrl., 175.000 krónur í málsvarnarlaun, sem dæmast með virðisaukaskatti, og til þess einnig að greiða 8.150 krónur í annan sakarkostnað.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Haraldur Fossan Arnarson, sæti fangelsi í 6 mánuði. Frestað er því að framkvæma 3 mánuði af refsingunni og fellur sá hluti hennar niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð.
Ákærði greiði A 412.250 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 16. júlí 2008 til greiðsludags.
Ákærði greiði verjanda sínum, Helga Birgissyni hrl., 175.000 krónur í málsvarnarlaun og greiði 8.150 krónur í annan sakarkostnað.