Hæstiréttur íslands
Mál nr. 612/2011
Lykilorð
- Kærumál
- EFTA-dómstóllinn
- Ráðgefandi álit
- Evrópska efnahagssvæðið
|
|
Fimmtudaginn 8. desember 2011. |
|
Nr. 612/2011.
|
Íslenska ríkið (Soffía Jónsdóttir hdl.) gegn Vín Tríói ehf. (enginn) |
Kærumál. EFTA-dómstóllinn. Ráðgefandi álit. Evrópska efnahagssvæðið.
Í kærði úrskurð héraðsdóms þar sem héraðsdómari ákvað að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tilgreind atriði í tengslum við mál V ehf. á hendur Í. Hæstiréttur féllst á að nægilega væri fram komið í málinu að 11. gr. og 1. mgr. 16. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið gætu haft þýðingu þegar leyst yrði úr kröfum V ehf. á hendur Í. Voru því þrjár nánar tilgreindar spurningar lagðar fyrir EFTA-dómstólinn.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. nóvember 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. október 2011, þar sem héraðsdómari ákvað að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tilgreind atriði í tengslum við mál það er varnaraðili rekur á hendur sóknaraðila fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Kæruheimild er í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili hefur með höndum innflutning áfengis, meðal annars frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, ÁTVR, fer með einkaleyfi til smásölu á áfengi á Íslandi, sbr. 10. gr. áfengislaga nr. 75/1998. Fyrir liggur samkvæmt gögnum málsins að á árinu 2009 tók ÁTVR þá ákvörðun að tvær tegundir áfengis sem varnaraðili flytur inn hingað til lands, það er tegundirnar Mokai cider og Shaker, skyldu ekki seldar í verslunum ÁTVR. Varnaraðili skaut þeirri ákvörðun til fjármálaráðuneytisins sem staðfesti hana með úrskurði 22. mars 2010, en aðilar deila um lögmæti þess úrskurðar.
Óumdeilt er að úrskurður fjármálaráðuneytisins 22. mars 2010 hefur það í för með sér, að varnaraðili á þess ekki kost að bjóða fyrrgreindar vörutegundir til sölu í áfengisverslunum á Íslandi. Í málatilbúnaði sínum heldur varnaraðili því meðal annars fram að neitun sóknaraðila á að selja hinar tilgreindu innflutningsvörur sé andstæð samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, EES-samningnum, sem samkvæmt 2. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið hafi lagagildi hér á landi. Aðgerðir sóknaraðila feli í sér magntakmarkanir á innflutningi áfengis eða ráðstöfun sem hafi áhrif samsvarandi magntakmörkunum, en slíkar ráðstafanir séu bannaðar samkvæmt 11. gr. EES-samningsins. Þá eigi hinar tilgreindu vörutegundir varnaraðila, sem sóknaraðili neiti að selja í áfengisverslunum sínum, í samkeppni við aðrar vörutegundir, meðal annars innlendar, sem ekki sæti sambærilegum takmörkunum, en slíkt sé andstætt ákvæðum 1. mgr. 16. gr. EES-samningsins.
Að virtu því er að framan greinir en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á þá niðurstöðu hans, að nægilega sé fram komið í málinu að hin tilvitnuðu ákvæði EES-samningsins geti haft þýðingu þegar leyst er úr kröfum varnaraðila á hendur sóknaraðila og þar með úrslit málsins. Verður spurningum til EFTA-dómstólsins hagað á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Leitað er ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á eftirfarandi:
1. Fer það í bága við 11. gr. eða 1. mgr. 16. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið ef aðildarríki samningsins mælir fyrir um það í löggjöf eða með stjórnvaldsfyrirmælum, að stofnun sem fer með ríkiseinkasölu á áfengi geti hafnað því að taka áfenga drykki, sem innihalda örvandi efni eins og koffín, til sölu í verslunum sínum?
2. Ef talið er að fyrirkomulag á borð við það sem lýst er í fyrstu spurningunni feli í sér magntakmörkun eða ráðstöfun sem hafi sambærileg áhrif í skilningi 11. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, þá er óskað svara við því hvort slíkt fyrirkomulag geti engu að síður talist réttlætanlegt með vísan til 13. gr. samningsins.
3. Ef fyrirkomulag það sem greinir í fyrstu spurningunni telst fara í bága við 11. gr. eða 1. mgr. 16. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið þá er óskað svara við því hvort EFTA-dómstóllinn telji, að því marki sem hann leggur mat á slíkt álitaefni, fullnægt skilyrðum fyrir skaðabótaskyldu aðildarríkis vegna brots á samningnum.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. október 2011.
I.
Mál þetta, sem 28. september sl. var tekið til úrskurðar eða eftir atvikum ákvörðunar um hvort leita skyldi ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins, var höfðað 16. febrúar sl. af Vín Tríó ehf., Bæjarhrauni 2 í Hafnarfirði, gegn íslenska ríkinu.
Endanlegar dómkröfur stefnanda í málinu eru eftirfarandi:
A) Að felld verði úr gildi ákvörðun fjármálaráðherra frá 22. mars 2010, um að staðfesta ákvörðun Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) frá 15. september 2009 um synjun umsóknar stefnanda um reynslusölu drykkjarins Mokai cider í verslunum ÁTVR.
B) Að felld verði úr gildi ákvörðun fjármálaráðherra frá 22. mars 2010, um að staðfesta ákvörðun ÁTVR frá 14. október 2009 um uppsögn á vörukaupasamningi við stefnanda um sölu á drykknum Shaker í verslunum ÁTVR.
C) Að viðurkennd verði með dómi bótaskylda stefnda vegna ákvörðunar fjármálaráðherra frá 22. mars 2010, um að staðfesta ákvörðun ÁTVR frá 14. október 2009 um uppsögn á vörukaupasamningi við stefnanda um sölu á drykknum Shaker í verslunum ÁTVR.
D) Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 3.390.817 krónur ásamt dráttarvöxtum af 1.916.548 krónum frá 1. mars 2011 til 31. sama mánaðar, af 2.063.975 krónum frá 1. apríl 2011 til 30. sama mánaðar, af 2.211.402 krónum frá 1. maí 2011 til 31. sama mánaðar, af 2.358.829 krónum frá 1. júní 2011 til 30. sama mánaðar, af 2.506.256 krónum frá 1. júlí 2011 til 31. sama mánaðar, af 2.653.683 krónum frá 1. ágúst 2011 til 31. sama mánaðar, af 2.801.110 krónum frá 1. september 2011 til 30 sama mánaðar, af 2.948.537 krónum frá 1. október 2011 til 31. sama mánaðar, af 3.095.964 krónum frá 1. nóvember 2011 til 30. sama mánaðar, af 3.243.391 krónu frá 1. desember 2011 til 31. sama mánaðar, af 3.390.817 krónum frá 1. janúar 2012 til greiðsludags. Að auki að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur vegna ákvörðunar fjármálaráðherra, sbr. B- og C-lið dómkrafna að fjárhæð 147.427 krónur fyrir hvern liðinn mánuð frá 1. janúar 2012, ásamt dráttarvöxtum, uns sala vörunnar hefst að nýju í verslunum ÁTVR samkvæmt gildum vörukaupasamningi aðila frá 23. júlí 2009. Til vara er gerð krafa um skaðabætur að lægri fjárhæð að mati dómsins.
E) Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að hann verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins.
Í þinghaldi 28. september sl. gaf dómari málsaðilum kost á að tjá sig um hvort leita skyldi ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í málinu. Aðilar gerðu ekki athugsemdir við að slíks álits yrði leitað og tjáðu sig um mögulegar spurningar til dómstólsins.
II.
Stefnandi er fyrirtæki sem flytur inn áfenga drykki. Um mánaðamótin ágúst september 2009 sótti hann um að ÁTVR, sem hefur einkaleyfi til smásölu áfengis hér á landi, tæki drykkinn Mokai cider í 275 ml flöskum, til reynslusölu. Í stefnu kemur fram að framleiðandi drykkjarins sé Cult A/S sem hafi höfuðstöðvar í Danmörku, en drykkurinn sé framleiddur í Þýskalandi samkvæmt þar gildandi lögum og reglum. Þessari umsókn stefnanda var hafnað með tölvuskeyti ÁTVR 15. september 2009 á grundvelli heimildar í grein 5.11 í vöruvalsreglum nr. 631/2009.
Hinn 1. ágúst 2006 hófst sala á drykknum Shaker í verslunum ÁTVR, en drykkurinn var seldur í 275 ml flöskum. Stefnandi flutti drykkinn til landsins en framleiðandi hans er Cult A/S og fer framleiðsla hans fram í Þýskalandi. Með tölvuskeyti, dags. 16. júní 2009, tilkynnti stefnandi að áfengisinnihald drykkjarins hefði verið lækkað af framleiðanda hans úr 5,4% í 4.5%. Með tölvuskeyti 3. júlí 2009 staðfesti ÁTVR móttöku sýnishorna drykkjarins með breyttu áfengisinnihaldi, en jafnframt var tekið fram að áfengir drykkir með háu koffíninnihaldi væru til sérstakrar skoðunar hjá ÁTVR. Benti var á að skynsamlegt væri að bíða með pantanir eða viðbótarinnkaup þar til niðurstaða þeirrar skoðunar lægi fyrir. Hinn 12. október 2009 sendi ÁTVR stefnanda tölvuskeyti þar sem vísað var til fyrri tölvupóstsamskipta um drykkinn. Með tölvuskeytinu var gildandi vörukaupsamningi sagt upp með vísan til greinar 5.11 í vöruvalsreglum nr. 631/2009. Tekið var fram að uppsögnin tæki gildi 1. febrúar 2010.
Í gögnum málsins kemur fram að Mokai Cider innihaldi 10 mg af koffeini í 100 ml og Shaker innihaldi 15 mg af koffíni í 100 ml.
Með bréfi 27. október 2009 krafðist stefnandi þess að framangreindar ákvarðanir yrðu afturkallaðar þar sem þær væru ógildanlegar, sbr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með bréfi, dags. 17. nóvember 2009, var þeirri beiðni hafnað. Í bréfinu segir að í grein 5.11 í fyrrgreindum vöruvalsreglum komi fram að ÁTVR áskilji sér rétt til að hafna sölu á vöru sem innihaldi koffín eða önnur örvandi efni. Óumdeilt væri að umræddir drykkir féllu í þennan flokk. Þá var því hafnað að umrætt ákvæði vöruvalsreglnanna ætti sér ekki lagastoð. Skírskotað var til þess að við vöruval ÁTVR bæri að hafa hliðsjón af áfengisstefnu stjórnvalda og augljós lýðheilsu- og heilbrigðissjónarmið. Í bréfinu var vísað til þess að rannsóknir bentu til þess að neysla á áfengi blönduðu með örvandi efnum gæti leitt til aukinnar ölvunar, einkum meðal ungs fólks. Efnin hefðu þau áhrif að neytandinn yrði síður var við ölvun sína og væri líklegri til þess að neyta meira magns áfengis með aukinni hættu á alvarlegum afleiðingum. Bent var á að Systembolaget í Svíþjóð og Vinmonopolet í Noregi hefðu ekki tekið umrædda drykki til sölu með sömu rökum.
Stefnandi kærði ákvarðanir ÁTVR til fjármálaráðuneytisins 2. desember 2009. Með úrskurði 22. mars 2010 staðfesti ráðuneytið ákvarðanir ÁTVR um að hafna umsókn stefnanda um leyfi til að selja Mokai Cider í vínbúðum ÁTVR sem og um að segja upp vörukaupasamningi um Shaker.
III.
1. Málsástæður stefnanda sem hér skipta máli
Stefnandi reisir kröfur sínar m.a. á því að með því að koma í veg fyrir sölu drykkjanna Mokai Cider og Shaker í ÁTVR sé gengið gegn „markmiðum og reglum EES-samningsins um frjálst flæði vöru“, einkum 11. gr. og 1. mgr. 16. gr. samningsins, sbr. lög nr. 2/1993. Um þessa málsástæðu vísar stefnandi til þess að hinar umdeildu ákvarðanir stefnanda komi í veg fyrir alla smásölu á drykkjunum Mokai Cider og Shaker á Íslandi, en þeir séu framleiddir, markaðssettir og seldir í öðru samningsríki. Það sé veruleg hindrun á markaðssetningu þeirra á Íslandi. Varan eigi í samkeppni við fjölda vörutegunda, m.a. frá innlendum aðilum, sem ekki þurfi að sæta framangreindum takmörkunum. Mismununin byggi ekki á lagaheimild eins og áskilja verði ef fjármálaráðherra hyggst nýta sér heimildir til undanþágu frá meginreglum EES-réttarins.
Stefnandi reisir kröfur sínar enn fremur á öðrum málsástæðum. Telur hann m.a. að grein 5.11 í vöruvalsreglum ÁTVR skorti stoð í lögum og að hún sé í andstöðu við markmið reglugerðar nr. 883/2005 um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og laga nr. 63/1969 um verslun með áfengi og tóbak. Þá telur hann að umræddar ákvarðanir séu reistar á ómálefnalegum sjónarmiðum og að þær hafi falið í sér brot á sérstökum og almennum jafnræðisreglum eins og nánar er rökstutt í stefnu. Vegna tilvísunar stefnda og ÁTVR til rannsókna á þeim áhrifum sem neysla á örvandi áfengisdrykkjablöndum geti haft telur stefnandi að ekki sé tilgreint hverjar þessar rannsóknir séu og því sé um órökstuddar fullyrðingar að ræða. Telur hann að áfengisbirgjar, sem hafi lögmæta vöru á boðstólnum, eigi ekki að þurfa að sæta mismunun á grundvelli vangaveltna, umræðu og óljósra tilvísana til hugsanlegra skaðlegra eiginleika vöruflokka.
2. Málsástæður stefnda sem hér skipta máli
Stefndi mótmælir því sem röngu og ósönnuðu að umræddar ákvarðanir fari í bága við markmið og reglur EES-samningsins um frjálst flæði vöru. Stefndi telur að þessi málsástæða stefnanda eigi ekki við, enda sé ekki verið að banna innflutning á vöru innan svæðis samningsins. Þá sé ekki verið að heimila eða banna vörur innlendra aðila á kostnað erlendra aðila eða öfugt. Þá hafi verið viðurkennt að aðildarríki hafi svigrúm til að takmarka aðgang að áfengi á grundvelli heilsufarslegra sjónarmiða, sbr. dóm Evrópudómstólsins í máli nr. C-189/95. Þar hafi verið lagt mat á sænska vöruvalskerfið og talið að Systembolaget gæti valið vörur eftir þeim sjónarmiðum sem fram hafi komið í samningum við ríkið, enda væri gætt fyllsta jafnræðis milli innlendra og erlendra áfengisbirgja. Sama sé uppi á teningnum hér á landi.
Stefndi vísar í þessu sambandi m.a. til þess að við undirritun EES-samningsins árið 1992 hafi ríkisstjórn Íslands, ásamt ríkisstjórnum Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, áréttað að áfengiseinkasölur ríkjanna væru grundvallaðar á mikilvægum sjónarmiðum er vörðuðu stefnu þeirra í heilbrigðis- og félagsmálum. Viðurkennt hafi verið að íslensk stjórnvöld gætu takmarkað aðgang að áfengi með vísan til heilbrigðissjónarmiða og hafi ákvarðanir stefnda verið reistar á þessum málefnalegu sjónarmiðum. Óumdeilt sé að umræddir drykkir séu örvandi áfengisdrykkjablöndur. Samkvæmt rannsóknum, sem Landlæknisembættið og Lýðheilsustöð hafi vísað til, séu vísbendingar fyrir hendi um að neysla á áfengi, blönduðu með örvandi efnum, geti leitt til aukinnar ölvunar, einkum meðal ungs fólks. Það auki hættuna á alvarlegum afleiðingum áfengisneyslu, s.s. slysum, ölvunarakstri og almennt neikvæðum heilsufarslegum afleiðingum. Um þetta atriði er í greinargerð stefnda einnig vísað til vísindagreinar eftir Daniel Gulick og Thomas J. Gould: Effects of Ethanol and Caffein on Behavior in C57BL/6 Mice in the Plus-Maze Discriminative Avoidance Task, sem birtist tímaritinu Behavioral Neuroscience (2009, Vol. 123, No. 6, bls. 1271-1278). Þá hafi það sýnt sig að markaðssetningu slíkra drykkja sé gjarnan beint að ungmennum.
IV.
Eftir að mál þetta var höfðað tóku gildi ný lög um verslun með áfengi og tóbak, nr. 86/2011, nánar tiltekið 30. júní 2011. Í 2. gr. þeirra eru mun ítarlegri reglur en í eldri lögum um markmið laganna. Þar segir að með lögunum sé ætlunin:
a. að skilgreina umgjörð um smásölu áfengis og heildsölu tóbaks sem byggist á bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð,
b. að takmarka og stýra aðgengi að áfengi og tóbaki og draga þannig úr skaðlegum áhrifum áfengis- og tóbaksneyslu,
c. að vernda ungt fólk gegn neyslu áfengis og tóbaks og takmarka framboð á óæskilegum vörum.
Í 11. gr. nýju laganna er fjallað um vöruval. Í 1. mgr. greinarinnar kemur fram að ráðherra setji nú reglugerð um vöruval og innkaup ÁTVR á áfengi. Skal hún miða að því að tryggja vöruúrval með hliðsjón af eftirspurn kaupenda, jafnframt því að tryggja framleiðendum og birgjum áfengis möguleika á að koma vörum í sölu í áfengisverslunum. Í 4. til 6. mgr. 11. gr. laganna er ÁTVR veitt heimild til að hafna vörum í nánar tilgreindum tilvikum. Ákvæði 6. mgr. 11. gr. laga þessara er svohljóðandi: „ÁTVR er heimilt að hafna vöru sem inniheldur koffein og önnur örvandi efni.“
Eins og að framan greinir eru kröfur stefnanda meðal annars reistar á því að stefndi hafi brotið gegn ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, þó að hann tefli jafnframt fram öðrum málsástæðum. Í meginatriðum telur hann að grein 5.11 í vöruvalsreglu ÁTVR, sem nú hefur verið lögfest með 6. mgr. 11. gr. laga nr. 86/2011, feli í sér ráðstöfun sem teljist sambærileg við magntakmarkanir í skilningi 11. gr. samningsins. Af málatilbúnaði stefnanda verður enn fremur ráðið að hann telji að þessar ráðstafanir verði ekki réttlættar af ástæðum sem komi fram í 13. gr. samningsins. Þá byggir stefnandi á því að sú hindrun sem felist í fyrrgreindri grein 5.11 í vöruvalsreglum ÁTVR, sbr. nú 6. mgr. 11. gr. laga nr. 86/2011, stangist á við 1. mgr. 16. gr. samningsins.
Að mati dómara liggur nægilega fyrir að skýring þessara ákvæða samningsins um Evrópska efnahagssvæðið geti haft raunverulega þýðingu fyrir kröfur stefnanda og þar með úrslit málsins. Þá telur dómurinn að málsatvik séu nægilega ljós til að réttlætanlegt sé að óska á þessu stigi eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins samkvæmt lögum nr. 21/1994. Það er enn fremur afstaða dómsins að ekki liggi fyrir fordæmi EFTA-dómstólsins, Evrópudómstólsins eða Hæstaréttar Íslands er taki af tvímæli um skýringu á umræddum ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið í ljósi sakarefnisins í þessu máli sem og um hvort skilyrðum skaðabótaábyrgðar stefnda kunni að vera fullnægt ef gengið hefur verið gegn samningsákvæðunum. Því er það niðurstaða dómsins að nægilegt tilefni sé til þess að óska ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins, samkvæmt 34. gr. samnings EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, á þeim atriðum sem nánar greinir í úrskurðarorði.
Ásmundur Helgason kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Leitað er ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á eftirfarandi:
1) Er rétt að leggja mat á þá heimild, sem ÁTVR hefur samkvæmt íslenskum reglum til að hafna því að taka áfenga drykki, sem innihalda örvandi efni eins og koffín, til sölu í verslunum sínum, aðeins út frá fyrirmælum 1. mgr. 16. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið um ríkiseinkasölur?
2) Ef svarið við spurningu 1 er jákvætt er óskað svara við því hvort framangreind heimild, sem ÁTVR beitir í framkvæmd, m.a. gagnvart áfengum drykkjum sem eru framleiddir, markaðssettir og seldir í öðrum samningsríkjum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, samrýmist þeim skilyrðum sem leiða af fyrirmælum fyrrgreindrar 1. mgr. 16. gr. samningsins.
3) Ef svarið við spurningu 1 er neikvætt er óskað svara við því hvort framangreind heimild ÁTVR og beiting hennar teljist til ráðstafana er falli undir ákvæði 11. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
4) Ef svarið við spurningu 3 er jákvætt er óskað svara við því hvort framangreind heimild ÁTVR og beiting hennar geti verið réttlætanleg og teljist hófleg í því skyni að vernda líf og heilsu manna, sbr. 13. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
5) Ef komist er að þeirri niðurstöðu að framangreind heimild ÁTVR og beiting hennar stangist á við 11. gr. eða 1. mgr. 16. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið er óskað svara við því hvort fullnægt sé skilyrðum, samkvæmt dómafordæmum EFTA-dómstólsins, Evrópudómstólsins og Hæstaréttar Íslands, fyrir bótaábyrgð íslenska ríkisins gagnvart innlendum lögaðila sem leyfi hefur til innflutnings á áfengi til Íslands en hefur fengið synjun um að fá að selja áfengi sem inniheldur koffín í verslunum ÁTVR.