Hæstiréttur íslands

Mál nr. 207/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
  • Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi


Fimmtudaginn 7. apríl 2011.

Nr. 207/2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Brynjólfur Eyvindsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. apríl 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. apríl 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 3. maí 2011 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Í gögnum málsins kemur fram að félagsmálayfirvöldum hafa árum saman borist ýmsar kvartanir vegna aðstæðna stúlkunnar A. Kvartanir lúta fyrst og fremst að aðbúnaði hennar á heimili og hegðan í skóla. Þá hafa komið fram grunsemdir um að hún hafi sætt ofbeldi á heimili sínu, bæði af hendi stjúpföður og móður, en þau hafa bæði neitað. Í eitt skipti á árinu 2003 kom upp grunur um að stúlkan hefði sætt kynferðislegu ofbeldi og var það rakið til hegðunar hennar. Leiddi sá grunur ekki til þess að málið væri rannsakað frekar. Mál það sem hér er til meðferðar kom upp með þeim hætti að stúlkan tjáði vinkonu sinni að hún hefði sætt kynferðislegu ofbeldi og misneytingu af hálfu stjúpföður síns. Vinkona hennar ræddi það í hópi fleiri stúlkna, sem ákváðu að gera skólahjúkrunarfræðingi grein fyrir málinu. Skólahjúkrunarfræðingurinn tilkynnti málið til barnaverndarnefndar Reykjavíkur 2. mars 2011, sem kærði málið til lögreglu með bréfi 4. sama mánaðar. Þar kemur meðal annars fram, að auk framangreinds hafi nefndinni borist nafnlaus tilkynning um að stúlkan væri beitt ofbeldi á heimili sínu ,, [...].“

Stúlkan hefur nú verið flutt til dvalar tímabundið hjá föður sínum.

Varnaraðili neitaði í skýrslu sinni að hafa beitt stúlkuna nokkurs konar kynferðislegu ofbeldi eða misnotkun. Hann viðurkenndi að hafa beitt hana tilteknu líkamlegu ofbeldi í refsiskyni fyrir óhlýðni hennar og fyrir að koma of seint heim. Móðir stúlkunnar neitaði einnig í skýrslu hjá lögreglu að hafa beitt hana ofbeldi.

Í málinu liggja ekki fyrir nein gögn til stuðnings því að stúlkan hafi verið beitt kynferðislegu ofbeldi eins og krafa um gæsluvarðhald er reist á. Meðal gagna málsins er ekki að finna læknisvottorð eða vottorð sérfræðinga um líkamsskoðun eða sálfræðiathugun á stúlkunni sem stutt gætu kröfuna. Ekki er heldur gerð grein fyrir upplýsingum sem kunna að hafa verið í tölvu á heimili stúlkunnar en tölvan hefur verið tekin til rannsóknar hjá lögreglu.

Krafa um gæsluvarðhald er eingöngu reist á 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Skilyrði þess að hneppa megi mann í gæsluvarðhald á grundvelli þessa ákvæðis er að ,,sterkur grunur“ leiki á því að hann hafi framið þau afbrot sem tilgreind eru í hinum kærða úrskurði. Eins og mál þetta liggur fyrir er framangreint skilyrði ekki uppfyllt og verður því kröfunni hafnað og hinn kærði úrskurður úr gildi felldur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

                                                   

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. apríl 2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 3. maí nk. kl. 16. 

Í greinargerð lögreglustjórans kemur fram að með bréfi barnaverndar Reykjavíkur, dagsettu 4. mars sl., hafi þess verið farið á leit við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu að rannsökuð yrðu meint kynferðisbrot kærða gegn fósturdóttur hans A, kt. [...]. Einnig hafi verið óskað rannsóknar á meintu líkamlegu ofbeldi af hálfu hans og móður hennar. Málið hafi verið tilkynnt barnaverndarnefnd af hálfu skólahjúkrunarfræðings í skóla A.

Í bréfi barnaverndarnefndar sé rakin forsaga afskipta þeirra af málefnum A. Nái þau aftur til ársins 2003 en þá hafi vaknað grunsemdir um að telpan væri beitt kynferðislegu ofbeldi vegna hegðunar hennar. Hafi hún farið í könnunarviðtal í Barnahúsi af því tilefni. Þá hafi borist tilkynningar vegna vanrækslu barnsins. Telpan hafi flutt til [...] ásamt móður sinni og munu skóla- og fjölskylduskrifstofa [...] hafa haft afskipti af henni vegna grunsemda um kynferðislegt og líkamlegt ofbeldi. Á árinu 2006 hafi málefni A komið aftur til kasta barnaverndar Reykjavíkur og þá vegna líkamlegs ofbeldis og aðbúnaðar. Þá muni barnavernd hafa haft afskipti af málefnum telpunnar á árinu 2009 vegna [...], [...] og [...] [...] gagnvart [...]. Fyrir skömmu hafi skólahjúkrunarfræðingur haft afskipti af A sem hafi sagt vinkonu sinni að hún hefði verið beitt kynferðislegu ofbeldi. Vinkonan muni hafa sagt öðrum frá þessu og hafi A því komist í mikið uppnám. Hjúkrunarfræðingurinn kvað A hafa leitað til hennar mikið upp á síðkastið með “ýmis konar kvilla” og hafi hún fundið til hér og þar. Í þetta skiptið hafi hún greint henni frá því að hún væri beitt líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi af hálfu kærða. Kvað hún kærða refsa henni með því að [...] [...] [...] [...] [...] [...]. Þá hafi hann [...] [...] [...] [...]. Þá hafi hún greint frá því að kærði hefði beitt hana kynferðislegu ofbeldi en ekki viljað tjá sig nánar um það. Hafi ofbeldið síðast átt sér stað um jólin. Í framhaldi af þessu hafi verið haft samband við föður A og hún vistuð hjá honum.

Kærði hafi verið yfirheyrður vegna málsins 4. apríl sl. Hann hafi kannast við að beita A líkamlegu ofbeldi þegar hún væri óþekk eða kæmi seint heim. Kvaðst hann tvívegis hafa [...][...]. Hann hafi neitað því að hafa beitt hana kynferðislegu ofbeldi.  Þá hafi kærði verið handtekinn í gær og hald  verið lagt á tölvugögn og síma. Kærði hafi verið búsettur hér á landi frá árinu 2000 og sé [...].

Móðir A, B kvaðst ekki vita til þess að A væri beitt líkamlegu- og kynferðislegu ofbeldi af hálfu kærða. Hún hafi talið hugsanlegt að það ætti sér stað þegar hún væri ekki heima. Kvaðst hún leggja trúnað á frásögn A.

Skýrsla hafi verið tekin af A fyrir dómi í gær. Hún hafi greint frá því að kærði hefði margoft [...][...][...][...][...][...][...][...]. Hafi hún tekið það fram að það væri einkum þegar hún væri óþæg og kæmi seint heim. Hún kvaðst helst ekki vilja vera ein heima með kærða. Þá hafi A greint frá því að kærði hefði beitt hana kynferðislegu ofbeldi um langt skeið, það væri nokkuð sem hefði “alltaf” gerst. Hún myndi eftir því að hann hefði farið með henni [...]. Þá kvað hún kærða “ [...] ” hafi hann gert [...] [...] [...]. Kvað hún kærða [...]. A kvað kærða hafa tekið myndir af [...] [...] [...] [...] og einnig sýnt henni myndir af [...] [...] [...] [...], m.a. af [...] og [...] [...].

A kvað brotin hafa átt sér stað þar sem þau hefðu átt heima hverju sinni, nú væri það á [...]. Þá hafi hann brotið gegn henni í eitt skipti á [...]. A kvað brotin eiga sér stað þegar móðir hennar væri að heiman. Enginn væri þá heima nema litli bróðir hennar sem sé [...] ára. Móðir A færi oft að “[...]” á kvöldin eða um helgar. Taldi hún að brotin ættu sér stað í hverri viku á hinum ýmsu stöðum í íbúðinni. Síðast hafi kærði brotið gegn henni rétt eftir jólin. Tók hún fram að kærði væri alltaf heima í tölvunni og færi varla úr húsi. Reyndi hún að forðast hann en ef hún kæmi ekki heim á réttum tíma væri henni refsað.

A kvaðst ekki hafa þorað að segja frá þessu þó hún hafi reynt. Kærði hafi sagt við hana að barnaverndarnefnd myndi taka hana frá mömmu sinni. A kvað kynfræðslu hafa verið í skólanum og umfjöllun um kynferðislegt ofbeldi. Hafi krökkunum m.a. verið sýndar dúkkur.

Fyrir liggi að barnaverndarnefndir hafi haft afskipti af málefnum A um langt skeið. Hafi margar ástæður legið þar að baki en snemma vaknaði grunur um að hún væri beitt kynferðislegu ofbeldi, m.a. vegna hegðunar hennar og [...][...][...][...]. Þá hafi verið leitað í Barnahús vegna könnunarviðtals en einnig hafi þótt ástæða til að fræða hana um samskipti kynjanna og hvað væri viðeigandi eða óviðeigandi.

Framburður A sé einstaklega trúverðugur og nákvæmur að öllu leyti. Þyki hún mjög skýr þrátt fyrir ungan aldur. Hún hafi greint frá ástæðum þess að hún hafi ekki sagt frá því sem gerst hafði fyrr en nú og séu þær einnig trúverðugar.

Eins og rakið hafi verið þyki fram kominn sterkur grunur um að kærði hafi brotið gegn A með nánar tilgreindum hætti frá því að hún var ung að aldri. Meint brot voru samfelld og staðið fram til byrjun þessa árs. Meint brot þyki varða við 1. mgr. 194. gr., 1. mgr. 201. gr. sbr. 1. mgr. 202, 2. mgr. 210. gr. og 217. gr. almennra hegningarlaga. Brotin varði allt að 16 ára fangelsi.

Teljist meint brot kærða sem hér hefur verið lýst þess eðlis að ætla megi að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna en í þessu sambandi skuli sérstaklega litið til þess að um svívirðileg brot sé að ræða, unnin í krafti yfirburðarstöðu kærða gagnvart fósturdóttur sinni og innan veggja heimilis þeirra.

Með vísan til þessa og gagna málsins sé það mat lögreglustjóra að lagaskilyrði 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 sé uppfyllt og því ítrekuð sú krafa að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi.

Í málinu liggur frammi einarður framburður telpunnar A, sem að hluta til er studdur gögnum frá barnaverndaryfirvöldum um að kærði hefði beitt hana kynferðislegu ofbeldi í áraraðir, þrátt fyrir ungan aldur hennar.  Kærði hefur neitað sök, en viðurkennt að hafa beitt telpuna líkamlegu ofbeldi sem refsingu vegna slæmrar hegðunar hennar.  Bar hann að hann hefði búið með móður telpunnar síðastliðin þrjú ár en flutt út af heimilinu fyrir þremur mánuðum. Fyrir liggur, samkvæmt yfirlýsingu sækjanda, að málið verður sent ríkissaksóknara til ákvörðunar innan næstu fjögurra vikna.  Að öllu framangreindu virtu, sem og gögnum málsins að öðru leyti, verður fallist á það með lögreglustjóra að fyrir hendi sé sterkur grunur um að kærði hafi framið kynferðisafbrot, sem þung fangelsisrefsing er lögð við, og eru þess eðlis að gæsluvarðhald yfir honum sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna, samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.  Verður því krafa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu tekin til greina, eins og hún er fram sett, og þykir ekki ástæða til að marka varðhaldinu skemmri tíma.

                Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn

ú r s k u r ð a r o r ð:

Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 3. maí nk. kl. 16.