Hæstiréttur íslands

Mál nr. 427/2015


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Gripdeild
  • Fjársvik
  • Fíkniefnalagabrot
  • Brot gegn valdstjórninni


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 21. janúar 2016.

Nr. 427/2015.

Ákæruvaldið

(Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)

gegn

Magneu Hrönn Örvarsdóttur

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

Þjófnaður. Gripdeild. Fjársvik. Fíkniefnalagabrot. Brot gegn valdstjórninni.

M var sakfelld í héraði fyrir fjögur þjófnaðarbrot, fjársvik, tvær gripdeildir, fíkniefnalagabrot og brot gegn valdstjórninni. Var refsing hennar ákveðin fangelsi í 12 mánuði en fyrir Hæstarétti var einungis deilt um refsiákvörðun héraðsdóms. Taldi Hæstiréttur að þegar litið væri til sakaferils M og umfangs framangreindra brota, sem öll væru smávægileg, væri refsing hennar hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Greta Baldursdóttir og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. júní 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærðu verði þyngd.

Ákærða krefst þess að refsing hennar verði milduð.

Brotaþolinn Hagar hf. hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti og verður því litið svo á að hann krefjist þess að ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu sína verði staðfest, sbr. 1. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Sakaferill ákærðu er réttilega rakinn í héraðsdómi. Þegar litið er til hans og umfangs brota þeirra, sem hér eru til meðferðar og öll eru smávægileg, þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði og eru ekki skilyrði til að skilorðsbinda refsinguna.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku fíkniefna svo og bótakröfu Haga hf. og þóknun verjanda ákærðu eru staðfest.

Samkvæmt 1. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 verður ákærðu gert að greiða helming áfrýjunarkostnaðar málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hennar sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð

         Ákærða, Magnea Hrönn Örvarsdóttir, sæti fangelsi í sex mánuði.

         Staðfest eru ákvæði héraðsdóms um upptöku fíkniefna, bótakröfu Haga hf. og þóknun verjanda.

         Ákærða greiði helming áfrýjunarkostnaðar málsins sem í heild er 390.275 krónur, þar sem með eru talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hennar, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 372.000 krónur.                                                                            

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 2. júní 2015.

Mál þetta, sem þingfest var 5. febrúar 2015 og dómtekið 19. maí sl., er höfðað með þremur ákærum. Sú fyrsta er gefin úr af ríkissaksóknara þann 17. desember 2014 á hendur Magneu Hrönn Örvarsdóttur, kt. [...], Birkiási 17, Garðabæ,

„fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa, að kvöldi miðvikudagsins 22. október 2014, í lögreglubifreið á leið frá slysadeild Landspítala háskólasjúkrahúss í Fossvogi að lögreglustöðinni á Hverfisgötu í Reykjavík, hótað lögreglumanninum A, sem þar var að gegna skyldustörfum og sat við hlið ákærðu, að drepa fjölskyldu hans, en ákærða sagði við lögreglumanninn: „Ég ætla að drepa fjölskylduna þína“.

Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Önnur ákæran er útgefin af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann 20. janúar 2015 á hendur ákærðu, 

„fyrir eftirtalin hegningar- og fíkniefnalagabrot framin á árinu 2014:

Fyrir þjófnaði, með því að hafa,;

  1. Föstudaginn 10. október, á Landspítala háskólasjúkrahúsi við Hringbraut í Reykjavík, reynt að stela handsprittsbrúsa að óþekktu verðmæti en kærða hafði falið hann innanklæða er starfsmenn spítalans komu að.

Mál nr. 007-2014-[...]

  1. Aðfaranótt miðvikudagsins 15. október, í verslun Hagkaups við Skeifuna 15 í Reykjavík, stolið fjórum flöskum af kardimommudropum samtals að verðmæti kr. 1.156.

Mál nr. 007-2014-[...]

  1. Mánudaginn 17. nóvember, á Grand hótel við Sigtún 38 í Reykjavík, pantað sér og drukkið rauðvínsglas að verðmæti kr. 1.200 án þess að geta eða ætla að greiða fyrir veitingarnar og fyrir að hafa stolið þremur litlum vínflöskum, samtals að verðmæti kr. 2.400.

Mál nr. 007-2014-[...]

  1. Fimmtudaginn 20. nóvember, í verslun Hagkaups við Skeifuna 15 í Reykjavík, stolið 31 flösku af kardimommudropum og leikfangi, samtals að verðmæti kr. 11.158.

Mál nr. 007-2014-[...]

Teljast brot þessi varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en brot í lið 1. að auki við 20. gr. sömu laga og brot í lið 3. að auki við 248. gr. sömu laga.

  1. Laugardaginn 25. október, í verslun Hagkaups við Litlatún í Garðabæ, tekið 6 flöskur af kardimommudropum úr hillu, samtals að verðmæti kr. 1.734, og drukkið af fjórum þeirra inn í versluninni án þess að greiða fyrir vörurnar en starfsmaður verslunarinnar kom að henni.

Mál nr. 007-2014-[...]

  1. Miðvikudaginn 12. nóvember, í verslun N1 við Hringbraut í Reykjavík, tekið tvo súkkulaðistykki, samtals að verðmæti kr. 318, og neytt þeirra inn í versluninni án þess að greiða fyrir þau.

Mál nr. 007-2014-[...]

Teljast brot þessi varða við 245. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa, aðfaranótt 4. október, á lögreglustöðinni við Hverfisgötu 113 í Reykjavík, haft í vörslum sínum 0,69 g af amfetamíni innanklæða er fannst við leit lögreglu.

Mál nr. 007-2014-[...]

Telst brot þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr., laga um ávana- og fíkniefni
nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002. 

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Jafnframt að ofangreint fíkniefni, 0,69 g af amfetamíni, sem hald var lagt á, verði gerð upptækt samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

Einkaréttarkrafa:

  1. Vegna ákæruliðar I.2. gerir Finnur Árnason, kt. [...], forstjóri Haga hf., fyrir hönd Haga, kt. 670203-2120, kröfu um að ákærða verði dæmd til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 1.156 auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 15. október 2014 og þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.“

Þriðja ákæran var gefin út af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann 24. mars 2015 á hendur ákærðu,

„fyrir eftirtalin hegningarlagabrot frami á árinu 2014:

  1. Fjársvik, með því að hafa föstudaginn 24. október á veitingastaðnum Kaffi Loka, Lokastíg 28, Reykjavík, pantað sér og neytt síldarþrennu og rauðvíns að verðmæti 6.100 kr. án þess að geta eða ætla sér að greiða fyrir veitingarnar.

Mál nr. 007-2014-[...]

Telst þetta varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

  1. Líkamsárás og þjófnað, með því að hafa miðvikudaginn 19. nóvember á Grandhótel, stolið tveimur hvítvínsflöskum að verðmæti 2.400 kr., því næst hlaupið inn á salerni og skellt salernishurð í nokkur skipti á handlegg og olnboga B sem reyndi að stöðva för hennar, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut mar á olnboga auk þess sem grunur var um mar á miðtaug við framarm.

Mál nr. 007-2014-[...]

Telst þetta varða við 244. gr. og 1. mgr. 217. gr. almennra hengingarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981

Fjársvik, með því að hafa miðvikudaginn 26. nóvember á veitingastaðnum Chuck Norris, Laugavegi 30, Reykjavík, pantað sér og drukkið rauðvín að verðmæti 1.800 kr. án þess að geta eða ætla sér að greiða fyrir veitingarnar.

Mál nr. 007-2014-[...]

Telst þetta varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Fengu málin númerin S-29/2015, S-30/2015 og S-126/2015. Voru eldri málin sameinuð S-29/2015 og rekin undir því málanúmeri.

                Ákærða kom fyrir dóminn 5. febrúar sl. Neitaði ákærða þá sök í ákærulið I-1. Ákærða játaði sök í ákæruliðum I-2, 3 og 4. Ákærða játaði sök í ákærulið II-1 og 2. Ákærða neitaði sök í ákærulið III. Þá samþykkti ákærða bótakröfu Haga hf. Þá óskaði ákærða eftir fresti til að taka afstöðu til ákærunnar sem dagsett er 17. desember sl. Þann 10. febrúar sl. mætti ákærða ekki í þinghaldið. Ákærða mætti í dóminn 24. mars sl. Var ákæra útgefin sama dag og birt ákærðu en hún óskaði eftir fresti til að taka afstöðu til hennar. Í þinghaldi þann 10. apríl sl. var ákærðu skipaður nýr verjandi að hennar ósk. Í því þinghaldi var ákæra frá 17. desember 2014 borin undir ákærðu. Neitaði ákærða sök. Ákæra frá 24. mars sl. var borin undir ákærðu. Neitaði ákærða sök í ákærulið 2 en játaði sök í ákærulið 3. Hafði ákæruvaldið áður fellt niður ákærulið 1. Þá óskaði ákærða eftir því að breyta afstöðu sinni til ákæruliðar III í ákæru frá 20. janúar sl. og játaði hún sök. Var málinu frestað til aðalmeðferðar til 19. maí sl.

Við upphaf aðalmeðferðar féll ákæruvaldið frá ákærulið 2 í ákæru útgefinni 24. mars sl. Þá játaði ákærða sök í ákæru útgefinni 17. desember 2014 en ákærða og verjandi hennar höfðu þá skoðað upptöku í mynd og hljóði af atvikinu. Ákærða játaði einnig sök í ákærulið I-1 í ákæru útgefinni 20. janúar sl.

Farið var með málið samkvæmt ákvæðum 164. gr. laga nr. 88/2008 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærðu hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun refsingar. Ákærða krafðist vægustu refsingar. Er játning ákærðu í samræmi við önnur gögn málsins og verður hún sakfelld fyrir brot sín en þau eru í ákærum rétt færð til refsiákvæða. Ákærða hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.

Samkvæmt sakavottorði, sem liggur frammi í málinu, á ákærða langan sakaferil að baki. Þau brot sem hafa áhrif við ákvörðun refsingar nú eru: Dómur frá 3. desember 2008 en þá var ákærða dæmd í eins mánaðar fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga. Dómur frá 20. október 2009 en þá var ákærða dæmd í sex mánaða fangelsi, skilorðsbundið til þriggja ára, fyrir brot gegn 244. og 248. gr. almennra hegningalaga. Dómur frá 5. nóvember 2010 en þá var ákærða dæmd í átta mánaða fangelsi, skilorðsbundið til þriggja ára, fyrir brot gegn 244. og 245. gr. almennra hegningarlaga. Var sá dómur hegningarauki við fyrri dóm. Þá var skilorð dómsins bundið skilyrði 4. tl. 3. mgr. 57. gr. almennra hegningalaga þannig að ákærðu var gert skylt að gangast undir dvöl á hæli í allt að eitt ár í því skyni að venja hana af neyslu áfengis eða deyfilyfja. Dómur frá 15. mars 2011 en þá var ákærða dæmd í tólf mánaða fangelsi fyrir brot gegn 245., 244. og 248. gr. almennra hegningarlaga. Var skilorð dómsins frá 5. nóvember þar áður dæmt upp. Auk þess var um hegningarauka að ræða. Ákærða fékk reynslulausn refsingar 180 daga þann 11. október 2011 í eitt ár. Dómur frá 3. október 2012 en þá var ákærða dæmd í átta mánaða fangelsi fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga. Var fyrri reynslulausn dæmd upp. Ákærðu var veitt reynslulausn þann 10. apríl 2013 í eitt ár á eftirstöðvum refsingar, 135 dögum. Dómur frá 22. mars 2013 en þá var ákærða dæmd í þrjátíu daga fangelsi fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga og þann 14. október 2013 var ákærða dæmd í eins árs fangelsi fyrir brot gegn 121., 245., 244. og 246. gr. almennra hegningarlaga og 21. gr. áfengislaga. Var þá fyrri reynslulausn dæmd upp sem ákærðu var veitt 10. apríl 2013. Ákærðu var aftur veitt reynslulausn 3. október 2014 í eitt ár á eftirstöðvum refsingar, 120 dögum. Var henni, með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness þann 27. nóvember 2014, gert að afplána 120 daga af eftirstöðvum refsingarinnar. Hefur ákærða afplánað samkvæmt þeim úrskurði.

Ákærða hefur nú verið sakfelld fyrir fjögur þjófnaðarbrot, brot gegn valdstjórninni, gripdeild, fjársvik og brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Ákærða fékk reynslulausn 3. október 2014 á eftirstöðvum refsingar, 120 dögum. Brotaferill ákærðu hófst daginn eftir eða 4. október og var óslitinn til 26. nóvember sl. Með vísan til alls þessa og greiðlegrar játningar ákærðu er refsing hennar ákveðin fangelsi í tólf mánuði. Ekki þykja skilyrði til að skilorðsbinda refsinguna.

Ákærða greiði allan sakarkostnað, sem er þóknun skipaðs verjanda hennar, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., 306.900 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Í málinu gerir Finnur Árnason, kt. [...], forstjóri Haga hf., fyrir hönd Haga, kt. 670203-2120, kröfu um að ákærða verði dæmd til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 1.156 auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 15. október 2014 og þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Ákærða samþykkti bótakröfuna og verður hún dæmd til að greiða hana eins og segir í dómsorði.

Ákærða sæti upptöku eins og í dómsorði segir.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Ákærða, Magnea Hrönn Örvarsdóttir, sæti fangelsi í tólf mánuði.

                Ákærða greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., 306.900 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ákærða sæti upptöku á 0,69 grömmum af amfetamíni.

                Ákærða greiði Högum hf., kt. 670203-2120, 1.156 krónur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 15. október 2014 til 5. mars 2015, en síðan dráttarvexti samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.