Hæstiréttur íslands

Mál nr. 489/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Matsmenn


Föstudaginn 8

 

Föstudaginn 8. nóvember 2002.

Nr. 489/2002.

Filippus H. Birgisson

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Siglfirðingi hf.

(Guðmundur Pétursson hrl.)

 

Kærumál. Matsmenn.

Í tilefni af skaðabótamáli F á hendur S hf. fékk hann dómkvadda tvo lækna til að leggja mat á heilsfar sitt. Þegar niðurstaða læknanna lá fyrir krafðist S hf. þess að dómkvaddir yrðu yfirmatsmenn. Tilkynnti héraðsdómari aðilunum að þrír nafngreindir læknar yrðu dómkvaddir sem yfirmatsmenn nema rökstudd mótmæli yrðu færð fram gegn því. Af hálfu F var þess krafist að dómkvaddur yrði einn yfirmatsmaður úr röðum geðlækna og annar með sérþekkingu í heilbrigðisfræðum. Hæstiréttur taldi F ekki hafa fært fram haldbærar ástæður fyrir því að þeir þrír menn, sem héraðsdómari hafði greint frá að hann myndi dómkveðja sem yfirmatsmenn, fullnægðu ekki skilyrðum laga um almennt og sérstakt hæfi til að leysa af hendi starfann. Var kröfu F því hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. október 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. október 2002, þar sem hafnað var mótmælum sóknaraðila gegn kröfu varnaraðila um dómkvaðningu yfirmatsmanna, svo og kröfu sóknaraðila, sem laut að því hverjir skyldu kvaddir til matsstarfa. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, en til vara að dómkvaddur verði einn yfirmatsmaður úr röðum geðlækna og annar með sérþekkingu í heilbrigðisfræðum.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila höfðaði hann mál 6. september 2001 á hendur varnaraðila til heimtu skaðabóta vegna vinnuslyss 13. desember 1997. Hafi hann stefnt Tryggingamiðstöðinni hf. til réttargæslu í málinu. Héraðsdómur hafi sýknað varnaraðila af kröfu sóknaraðila í dómi 27. mars 2002, sem hann hafi áfrýjað til Hæstaréttar 15. apríl sama árs. Hann hafi síðan fengið dómkvadda tvo lækna til að leggja mat á nánar tiltekin atriði varðandi heilsufar sitt. Þeir hafi lokið mati 25. september 2002. Fyrir liggur að varnaraðili vildi ekki una niðurstöðum matsgerðarinnar og leitaði hann því 11. október 2002 dómkvaðningar yfirmatsmanna. Héraðsdómari boðaði 18. sama mánaðar lögmenn aðilanna til þinghalds, þar sem beiðni varnaraðila yrði tekin fyrir. Í tilkynningu dómarans var tekið fram að þrír nafngreindir læknar yrðu dómkvaddir sem yfirmatsmenn nema rökstudd mótmæli yrðu færð fram gegn því. Kom fram í tilkynningunni að einn þessara lækna væri heila- og taugalæknir, annar þeirra gigtarlæknir, en sá þriðji bæklunarlæknir. Í þinghaldi 21. október 2002, sem boðað var til á þennan hátt, lagði sóknaraðili fram skrifleg mótmæli gegn beiðni varnaraðila um dómkvaðningu yfirmatsmanna, en þar var þess jafnframt krafist til vara að einn yfirmatsmaður yrði geðlæknir og annar sérfræðingur í heilbrigðisfræðum, ef taka ætti beiðnina til greina. Úr þessu leysti héraðsdómari með hinum kærða úrskurði.

Á framangreindri málsmeðferð héraðsdómara voru ekki slíkir annmarkar að efni séu til að ómerkja hinn kærða úrskurð. Verður aðalkröfu sóknaraðila því hafnað.

Af málatilbúnaði sóknaraðila fyrir Hæstarétti verður ekki annað ráðið en að hann hafi fallið frá andmælum gegn því að yfirmatsmenn verði dómkvaddir og leiti hann þannig að frágenginni aðalkröfu sinni eingöngu endurskoðunar á því hverjir verði kvaddir til matsstarfa. Sóknaraðili hefur ekki fært fram haldbærar ástæður fyrir því að þeir þrír menn, sem héraðsdómari hafði greint frá að hann myndi dómkveðja sem yfirmatsmenn, verði ekki taldir fullnægja skilyrðum laga um almennt og sérstakt hæfi til að leysa af hendi starfann. Samkvæmt því verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Filippus H. Birgisson, greiði varnaraðila, Siglfirðingi hf., 75.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. október 2002.

Er boðað var til þinghalds til að taka fyrir og þingfesta beiðni Tryggingamiðstöðvarinnar hf. um dómkvaðningu yfirmatsmanna var tekið fram í bréfi til lögmanna aðila að ætlunin væri að kveðja til matsstarfa þá Albert Páll Sigurðsson heila- og taugalækni, Júlíus Valsson gigtarlækni og Brynjólf Jónsson bæklunarlækni, nema fram kæmu rökstudd mótmæli gegn þeim.

Af hálfu matsþola er beiðni matsbeiðanda mótmælt á þeim grundvelli að yfirmat sé þýðingarlaust. En verði fallist á yfirmat þá er þess krafist að einn matsmanna sé geðlæknir og einn sérfræðingur í heilbrigðisfræðum og á því byggt að eitt af því sem þjaki matsþola sé þunglyndi. Þá snúist ágreiningur aðila öðru fremur um heilsu matsþola og sé því æskilegt að læknir með sérkunnáttu í heilsufræðum endurmeti heilsu matsþola.

Af hálfu matsbeiðanda er byggt á því að hraða þurfi matsgerðinni sökum þess að ætlun matsbeiðanda sé að leggja matsgerðina fyrir í máli sem nú er rekið fyrir Hæstarétti og eigi innan skamms að flytja. Matsbeiðandi hafi ekki haft neitt um það að segja hverja dómurinn ákvað með framangreindum hætti að velja til matsstarfa, en hann sætti sig við þá og telji þá hafa nauðsynlega kunnáttu til að leysa starfann af hendi.

Niðurstaða: Beiðni um yfirmat er væntanlega borin fram til að hnekkja að einhverju eða öllu leyti matsgerð sem áður hefur verið gerð. Því verður að álykta að matsbeiðanda sé mest um vert að matsmenn séu starfi sínu vaxnir. Gildi og gæði matsgerðarinnar hefur ekki sömu þýðingu fyrir matsþola og matsbeiðanda. Matsbeiðandi greiðir fyrir matið og Hæstiréttur mun í þessu tilviki væntanlega leggja að lokum dóm á hvaða þýðingu væntanlegt yfirmat hefur fyrir úrslit máls milli aðila. Ef yfirmatið veitir ekki með öðru málstað matsbeiðanda nægilegan stuðning til að vinna málið verður hann að bera halla af því en ekki matsþoli.

Aðilar hafa ekki komið sér saman um yfirmatsmenn. Dómarinn verður því að ákveða hverja skuli kveðja til matsstarfa. Ákvörðun dómarans um yfirmatsmenn er ekki andmælt af hálfu matsbeiðanda. Jafnframt hefur matsþoli ekki sýnt fram á að læknar þeir, sem ætlunin er að kveðja til matsstarfa, séu óhæfir.

Samkvæmt framangreindu verður því ekki fallist á mótmæli og tillögur matsþola.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Hafnað er kröfum matsþola, Filippusar Birgissonar, um að yfirmat fari ekki fram. Jafnframt er hafnað kröfum matsþola um að einn yfirmatsmanna sé geðlæknir og einn sérfræðingur í heilbrigðisfræðum.