Hæstiréttur íslands

Mál nr. 344/2000


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nálgunarbann


Föstudaginn 8

 

Föstudaginn 8. september 2000.

Nr. 344/2000.

Lögreglustjórinn í Kópavogi

(Tryggvi Þórhallsson fulltrúi)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

                                              

Kærumál. Nálgunarbann.

X kærði úrskurð héraðsdóms þar sem honum var gert að sæta nálgunarbanni sam­kvæmt 110. gr. a. laga nr. 19/1991, sbr. 3. gr. laga nr. 94/2000, þannig að honum var í sex mánuði óheimilt að koma á nánar afmarkað svæði, veita eftirför, heimsækja eða vera með öðru móti í beinu og milliliðalausu sambandi við fyrrverandi eiginkonu sína, dóttur hennar og sambýlismann. Var úrskurðurinn staðfestur með vísan til forsendna.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. september 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. september 2000, þar sem varnaraðila var með nánar tilteknum hætti gert að sæta nálgunarbanni. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að nálgunarbannið verði aðeins látið ná til heimilis og/eða starfstöðvar þriggja nafngreindra manna að ... í Kópavogi, svo og að nálgunarbanninu verði markaður skemmri tími. Þá krefst varnaraðili þess að sakarkostnaður á báðum dómstigum verði lagður á ríkissjóð.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Varnaraðili verður dæmdur til að greiða allan kostnað af kærumáli þessu, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Varnaraðili, X, greiði allan kostnað af kærumáli þessu, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 20.000 krónur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. september 2000.

I.

Sóknaraðili, Lögreglustjórinn í Kópavogi, lagði fram á dómþingi 30. ágúst síðastliðinn kröfu um að varnaraðila, X, [...], verði gert að sæta nálgunarbanni sam­kvæmt 110. gr. a. laga nr. 19/1991, sbr. 3. gr. laga nr. 94/2000, í sex mánuði þannig að lagt verði bann við því að hann komi í eða sé við hús eða bifreiðageymslur á svæði í A, sem afmarkast af eftirtöldum götum: [...].  Jafnframt verði honum bannað að veita eftirför, heimsækja eða vera með öðru móti í beinu og milli­liða­lausu sambandi við eftirtalin, sem öll hafa aðsetur að G:, K, D og B.

   Af hálfu varnaraðila er þess krafist að synjað verði um framgang kröfunnar, en elleger verði nálgunarbanni markaður skemmri tími og eigi lengur en í þrjá mánuði.  Þá krefst verjandi málsvarnarlauna úr ríkissjóði.

II.

Lögreglan í Kópavogi hefur nú til rannsóknar allmörg kærumál á hendur varnar­aðila, sem eiga það sammerkt að vettvangur ætlaðra brota er í eða við G, þar sem eiginkona varnaraðila K, býr ásamt dóttur sinni B og kínverskum manni, D.  Jafnframt rekur konan þar nuddstofu og starfar D þar einnig.  Varnaraðili og K standa í hjóna­skilnaði og hafa sam­skipti þeirra verið stirð, a.m.k. frá því í júlí á þessu ári.  Hinn 7. júlí var varnaraðili kærður fyrir líkamsárás, en samkvæmt rannsóknargögnum mun hann þann dag hafa veist að D inni á nuddstofunni og hrint honum svo að áverkar hlutust af.  Hinn 18. júlí lagði K fram kæru á hendur varnaraðila fyrir eignaspjöll á [...] bifreið hennar [...], en konuna grunaði að varnaraðili hefði stungið á tvo hjól­­barða bifreiðarinnar þar sem hún stóð inni í bifreiðageymslu við [...]. Varnaraðili hefur neitað sök í því máli og telur að sá er seldi honum hjólbarðana hafi eyðilagt þá, enda hefðu þau hjónin ekki verið búin að greiða fyrir barðana. Þremur dögum síðar mun varnaraðili hafa brotið framrúðu nefndrar bifreiðar þar sem hún stóð í bifreiðageymslunni.  Hann gaf þá skýringu á verknaðinum að K hefði ekki viljað tala við hann og því hefði hann brotið rúðuna.  Bifreiðin væri hins vegar eign þeirra beggja. Hinn 30. júlí tilkynnti K að varnaraðili hefði hringt og sagst hafa tekið umrædda bifreið þar sem henni hefði verið lagt við V.  Því hefur varnaraðili mótmælt og telur að bifreiðin hafi verið vörslusvipt vegna áhvílandi skulda.  Daginn eftir lagði varnaraðili fram kæru á hendur D vegna til­raunar til líkamsárásar með járnstöng, sem átt hefði sér stað fyrir utan nuddstofuna 29. júlí.  Þá kærðu varnaraðili og D hvor annan í byrjun ágúst fyrir líkamsárásir, sem átt hefðu sér stað á nuddstofunni 5. þess mánaðar.  Jafnframt kærði K varnar­aðila fyrir eignaspjöll (rúðubrot) á nuddstofunni, sem unnin hefðu verið umræddan dag.  Varnaraðili hefur gengist við eignaspjöllunum, en telur sig vera eiganda nudd­stofunnar ásamt K og því megi hann brjóta þar rúður ef hann vilji.  Að morgni 13. ágúst tilkynnti D að skorið hefði verið á tvo hjólbarða bifreiðar hans [...] þar sem hún stóð í bifreiðageymslunni í G og jafnframt að hann hefði varnar­­aðila grunaðan um verknaðinn, enda hefði hann ítrekað komið þangað nóttina á undan og ónáðað heimilisfólk að G.  Varnaraðili hefur ekki gengist við þeim verknaði.  Hinn 19. ágúst hafði lögregla afskipti af varnaraðila og Kínverjunum þremur þar sem komið hafði til handalögmála við [...].  Mun K hafa lent í áflogum við vinkonu varnaraðila og hann hafa gripið til svokallaðrar stuðbyssu.  Að sögn B mun varnaraðili hafa beitt stuðbyssunni gagnvart henni, móður hennar og D, en því neitar varnaraðili.  Samkvæmt lögregluskýrslu var varnaraðili mjög illur og hótaði að snúa aftur um kvöldið og lemja D og ,,rústa íbúðinni”.  Daginn eftir kom varnaraðili enn á staðinn og veitti fólkinu eftirför í fólksbifreið­inni [...], inni í bifreiðageymslunni, og ók á D með þeim afleiðingum að hann kastaðist upp á vélarhlíf bifreiðarinnar og framrúðu, en konurnar tvær munu hafa náð að forða sér á hlaupum, samkvæmt framburði sjónarvotta.  Varnaraðili ók því næst á brott án þess að huga að meiðslum D, en var handtekinn skömmu síðar.  Við yfirheyrslur hjá lögreglu viðurkenndi varnaraðili að hafa ekið á manninn, en kvaðst aðeins hafa haft í hyggju að hræða hann.  Í fram­haldi af því var varnaraðili færður fyrir héraðsdómara, sem úrskurðaði hann í gæsluvarðhald 22. ágúst á grund­velli d-liðar 1. mgr. 103. gr. og 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opin­berra mála.  Með dómi Hæstaréttar 28. ágúst sl. í máli nr. 328/2000 var úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.  Segir í dómi Hæstaréttar, að þótt rannsóknargögn sýni að varnaraðili hafi átt í útistöðum við D og fyrrverandi eiginkonu sína K séu ekki fram komnar nægar ástæður til að beita ákvæði d-liðar 1. mgr. 103. gr. téðra laga (gæsluvarðhald til að verja aðra fyrir árásum sakbornings) ,,enda við þessar aðstæður unnt að beita öðrum úrræðum en gæsluvarðhaldi.” eins og orðrétt segir í dómi réttarins.  Í framhaldi af niðurstöðu Hæstaréttar lagði sóknaraðili fram fyrrgreinda kröfu um nálgunarbann.

III.

Samkvæmt framansögðu er ljóst að varnaraðili hefur á undanförnum vikum ítrekað raskað friði K, B og D með ofsóknum, ónæði að næturlagi, ofbeldi og hótunum um beitingu ofbeldis, en vettvangur háttseminnar er yfirleitt í eða við heimili þeirra og starfsstöð að G.  Bera rann­sóknargögn málsins með sér að stígandi hefur verið í þeim ofsóknum og keyrði um þverbak er varnaraðili veitti fólkinu eftirför í fólksbifreið og ók á D 20. ágúst síðast­liðinn.  Að þessu virtu má fallast á með sóknaraðila að rökstudd ástæða sé til að ætla að varnar­aðili muni fremja afbrot gagnvart umræddu fólki eða að minnsta kosti halda áfram að raska friði þess verði ekki tafarlaust gripið í taumana.  Þykir því rétt með vísan til 110. gr. a. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 3. gr. laga nr. 94/2000, að verða við kröfu sóknaraðila um nálgunarbann, eins og hún er sett fram.  Breytir engu um þá niðurstöðu þótt varnaraðili dvelji nú tímabundið að [...] í A, eins og haldið er fram í málinu, og sé búið nokkuð óhag­ræði af því að geta ekki sótt opin­bera þjónustu innan þess svæðis, sem nálgunar­bannið tekur til. 

Samkvæmt greindum málsúrslitum ber varnaraðila og að greiða allan sakar­kostnað, þar með talda þóknun skipaðs verjanda, Hilmars Ingimundarsonar hæsta­réttar­lögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 50.000 krónur, að viðbættum virðisauka­skatti.

Jónas Jóhannsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Varnaraðili, X, sæti nálgunarbanni sam­kvæmt 110. gr. a. laga nr. 19/1991, sbr. 3. gr. laga nr. 94/2000, í sex mánuði frá birtingu úrskurðar þessa.  Er honum óheimilt á því tímabili að koma í eða vera við hús eða bifreiða­geymslur á svæði í A, sem afmarkast af eftirtöldum götum: [...].  Jafn­framt er honum bannað að veita eftirför, heimsækja eða vera með öðru móti í beinu og milli­liða­lausu sambandi við eftirtalin, sem öll hafa aðsetur að G: K,  Dog B.

Varnaraðili greiði allan sakarkostnað, þar með talda 50.000 króna þóknun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns.