Hæstiréttur íslands

Mál nr. 258/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Geðrannsókn
  • Skjalaþýðandi


Þriðjudaginn 10

 

Þriðjudaginn 10. júlí 2001.

Nr. 258/2001.

Ákæruvaldið

(Sigríður Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Magnús B. Brynjólfsson hdl.)

 

Kærumál. Geðheilbrigðisrannsókn. Skjalaþýðandi.

 

Héraðsdómur hafnaði kröfu X um að ríkissaksóknara yrði gert að hlutast til um að ný geðheilbrigðisrannsókn, með atbeina geðlæknis og sálfræðings, yrði gerð á honum og að allur framburður hans og annarra, er mæla á arabísku yrði túlkaður að nýju af skjalaþýðanda. X kærði úrskurðinn til Hæstaréttar, sem staðfesti hann með vísan til forsendna hans.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. júlí 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júlí 2001, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að ríkissaksóknara verði gert að hlutast til um að ný geðheilbrigðisrannsókn verði gerð á honum og að allur framburður hans og annarra, er mæla á arabísku, verði túlkaður að nýju af skjalaþýðanda. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Í greinargerð varnaraðila fyrir Hæstarétti kemur fram að hann andmælir því ekki að hann sé sakhæfur. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júlí 2001.

 

Magnús B. Brynjólfsson hdl. hefur með bréfi, dagsettu 28. júní síðastliðinn, krafist þess f.h. ákærða, X, kt. […], að lögreglunni í Reykjavík eða ríkissaksóknara verði gert með úrskurði að hlutast til um, að ný geðheilbrigðisrannsókn, með atbeina geðlæknis og sálfræðings, verði framkvæmd á ákærða og að allur framburður hans og annarra, er mæla á arabísku, verði túlkaður að nýju af skjalaþýðanda, sem uppfyllir skilyrði dómsmála-ráðuneytisins til slíkra verka. Um lagaheimild til umkrafðra rannsóknarathafna vísar lögmaðurinn, sem er skipaður verjandi ákærða, til 75. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Þar sem málið er nú til meðferðar ríkissaksóknara verður að líta svo á, að krafan beinist gegn því embætti.

Ríkissaksóknari mótmælir því, að krafan nái fram að ganga.

Málið var tekið til úrskurðar fyrr í dag að afloknum munnlegum málflutningi.

Með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 29. júní síðastliðinn, var X, kt. […], ákærður fyrir tilraun til manndráps, en til vara fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás að kvöldi föstudagsins 5. janúar 2001, með því að hafa á bílastæði við veitingastaðinn Hróa Hött, Fákafeni 11 hér í borg, stungið nafngreindan mann af arabískum uppruna tvisvar með hnífi, með þeim afleiðingum, að hann hlaut djúp stungusár aftan og neðan við vinstra eyra og sár í vinstri síðu. Þá var hann jafnframt ákærður fyrir tilraun til sérstaklega hættulegrar líkamsárásar með því að hafa skömmu síðar, fyrir utan Faxafen 14, kastað hnífnum í áttina að öðrum manni, einnig af arabískum uppruna, sem elt hafði ákærða uppi eftir áðurnefnda ætlaða árás hans og þannig stofnað lífi hins síðarnefnda í augljósan lífsháska. Er fyrra brot ákærða talið varða við 211. gr., sbr. 20. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara við 2. mgr. 218. gr. sömu laga, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981, og hið síðara við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981, en til vara við 4. mgr. 220. gr. sömu laga.

Ákærði sætti geðheilbrigðisrannsókn á rannsóknarstigi málsins og framkvæmdi hana Sigurður Páll Pálsson geðlæknir. Samkvæmt niðurstöðu rannsóknar hans frá 1. maí síðastliðnum er ákærði sakhæfur. Í niðurstöðunni kemur jafnframt fram, að ákærði eigi við þunglyndi að stríða, sem sé meðalþungt, og þurfi líklegast á lyfjameðferð að halda við því. Hins vegar sé þunglyndið án efa talsvert aðstæðubundið og óljóst, hvort ákærði hafi tekið lyfin sín samviskusamlega, en ákærði eigi við að stríða alvarlega persónuleikaröskun af paranoid gerð.

Krafa ákærða er á því byggð, að fram komi í skýrslu geðlæknisins ítrekaðar vangaveltur hans um, að ákærði geti verið sekur um þann verknað, sem hann er grunaður um. Geti það aldrei verið hlutverk lækna að fjalla um sekt eða sakleysi sakborninga. Þá vísi læknirinn í samtal sitt við túlk þann, sem sá um þýðingu á framburði ákærða og vitna, sem mæla á arabísku, á rannsóknarstigi málsins, þar sem túlkurinn beri meðal annars á ákærða að hafa reynt að fá hann til að semja frásögn fyrir sig um málið til að gera frásögn hans trúverðugri og jafnvel boðið fé fyrir það. Verði ekki annað séð en að túlkurinn, sem eigi að vera algerlega hlutlaus, tali þarna gegn hagsmunum ákærða. Telur ákærði lækninn hafa gerst hlutdrægan, er hann hafi tekið ákvörðun um að koma ofangreindum fullyrðingum að í geðheilbrigðisrannsókn. Þjóni rannsóknin því ekki þeim tilgangi, sem upphaflega hafi verið stefnt að, það er að kanna sakhæfi hins grunaða með hlutlausum hætti. Þá verði að telja, að lækninum hafi borið að taka ákærða af lyfjum, áður en hann rannsakaði persónuleika hans. Enn fremur sé sérstök ástæða til að kalla til sálfræðing, til að gera frekari próf á sakborningi, sem sé útlendur ríkisborgari, frá allt öðru menningarsvæði og með annan hugsunarhátt en Vesturlandabúar eiga að venjast. Sé þannig unnt að fá dýpri rök og skilning á geðheilsu ákærða.

Af hálfu ákæruvaldsins er því haldið fram, að umrædd geðheilbrigðisrannsókn sé í takt við það, sem tíðkast hérlendis um slíkar rannsóknir. Sé ljóst, að rannsóknin sé ekki bindandi fyrir dómstóla. Læknir sá, er framkvæmdi rannsóknina, sé sérfræðingur í geðlækningum og því hæfur til verksins. Muni hann koma fyrir dóm og gera grein fyrir niðurstöðum sínum, en engar reglur séu til um, hvernig eigi að vinna slík verk, sem hér um ræðir. Fullljóst sé hins vegar, að sönnunarmatið í málinu sé í höndum dómstóla. Varðandi kröfu um, að framburður ákærða og vitna, er mæla á arabíska tungu, verði túlkaður að nýju, tekur ákæruvaldið fram, að samkvæmt 1. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991, skuli dómur reistur á sönnunargögnum, sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi, en lögregluskýrslur séu einungis til hliðsjónar. Muni ákærði og hin arabísku vitni koma fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og gefa þar skýrslur sínar, sem túlkaðar verði yfir á íslensku.

Samkvæmt 71. gr. laga um meðferð opinberra mála skal rannsaka atriði, er varða sakborning sjálfan, svo sem þroska og heilbrigðisástand, andlegt og líkamlegt. Skal um þessi atriði afla vottorða læknis og sálfræðings, ef ástæða er til. Þá segir í ákvæðinu, að leiki vafi á, hvort ákvæði 15. eða 16. gr. almennra hegningarlaga eigi við um hagi sakbornings, sé rétt að láta hann sæta sérstakri geðrannsókn, til þess að leidd verði í ljós atriði, sem geri dómara fært að meta sakhæfi hans.

Geðheilbrigðisrannsókn sú, er fyrir liggur í málinu, var gerð á grundvelli ofangreinds lagaákvæðis af þar til hæfum og óvilhöllum manni. Ekki er til að dreifa sérstökum reglum um, hvernig slík rannsókn er unnin. Enda þótt deila megi um, hversu langt sérfræðingur sá, er annast rannsóknina, á að ganga í fullyrðingum um sekt eða sakleysi sakbornings, er ljóst, að skoðun sérfræðingsins, komi hún á annað borð fram í skýrslu hans, er á engan hátt bindandi fyrir dómstóla og í raun ekkert sönnunargagn um sekt eða sakleysi sakbornings. Er geðheilbrigðisrannsóknin einungis höfð til hliðsjónar við mat dómstóla á því, hvort sakborningur hafi á þeirri stundu, sem ætlað brot var fram, verið fær um að stjórna gerðum sínum. Ber í því sambandi að hafa í huga, að samkvæmt 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 skal þeim mönnum eigi refsað, sem sökum geðveiki, andlegs vanþroska eða hrörnunar, rænuskerðingar eða annars samsvarandi ástands voru alls ófærir um að stjórna gerðum sínum á þeim tíma, er þeir unnu verkið. Þá segir í 16. gr. sömu laga, að hafi maður sá, er vann verkið, verið andlega miður sín, svo sem vegna vanþroska, hrörnunar, kynferðislegs misþroska eða annarrar truflunar, en ástandið er ekki á eins háu stigi og um ræðir í 15. gr. laganna, skuli honum refsað fyrir brotið, ef ætla má eftir atvikum og eftir að læknisumsagnar hefur verið leitað, að refsing geti borið árangur.

Niðurstaða geðlæknisins er afdráttarlaus um, að ákærði sé sakhæfur, enda þótt hann sé þunglyndur og haldinn alvarlegri persónuleikaröskun af tiltekinni gerð. Hafi hann verið að fullu fær á þeim tíma, er verknaður var framinn, að gera sér grein fyrir afleiðingum gerða sinna. Komi refsing því að gagni. Þá segir í skýrslunni, að ákærði hafi tekið venjulega lyfjaskammta ýmissa lyfja, sem hann var á, er ætlað brot var framið. Trufli lyfin örugglega ekki geðskoðunarmatið á afgerandi hátt, en grunur hafi hins vegar verið um, að ákærði taki lyf sín ekki reglulega.

Með vísan til framanskráðs er að áliti dómsins ekkert það fram komið í málinu, sem gerir það að verkum, að þörf sé nýrrar geðheilbrigðisrannsóknar á ákærða.

Varðandi kröfu ákærða um, að allur framburður hans og annarra, er mæla á arabísku, verði túlkaður að nýju af skjalaþýðanda, er þess að geta, að geðlæknir sá, er annaðist um geðskoðun á ákærða, rekur í skýrslu sinni tiltekna frásögn túlks þess, er þýddi framburð ákærða og hinna arabísku vitna yfir á íslensku á rannsóknarstigi málsins, af samtali túlksins og ákærða, sem læknirinn hafi haft eftir túlkinum. Verður á engan hátt séð, að sú frásögn, ef rétt reynist, varði störf túlksins við þýðingu hans á framburðarskýrslum ákærða og hinna arabísku vitna hjá lögreglu. Þá ber í þessu sambandi að líta til þess, að samkvæmt 47. gr. laga nr. 19/1991 metur dómari það eftir atvikum, hvert sönnunargildi þær staðreyndir hafi, sem varða ekki beinlínis það atriði, sem sanna skal, en ályktanir má leiða af um það. Að auki liggur fyrir, að skýrslur munu verða teknar af ákærða og umræddum vitnum við aðalmeðferð málsins, sem þýddar verða yfir á íslensku. Jafnframt er ljóst, að samkvæmt 1. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991 skal dómur reistur á sönnunargögnum, sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi, þar með taldar skýrslur sakbornings og vitna. Eru því heldur ekki efni til að taka þessa kröfu ákærða til greina.

Samkvæmt framansögðu er kröfum ákærða hafnað.

Helgi I. Jónsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

Úrskurðarorð:

Kröfum ákærða, X, um að ríkissaksóknara verði gert að hlutast til um, að ný geðheilbrigðisrannsókn, með atbeina geðlæknis og sálfræðings, verði gerð á ákærða og að allur framburður hans og annarra, er mæla á arabísku, verði túlkaður að nýju af skjalaþýðanda, er hafnað.